Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 28/2012.

 

 

Miðvikudaginn 10. apríl 2013 var á fundi kærunefndar barnaverndarmála tekið fyrir mál nr. 28/2012, A gegn barnaverndarnefnd B. Málið varðar aðgang kæranda að gögnum barnaverndarnefndar vegna dætra kæranda, C, D og E. Upp var kveðinn svofelldur

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

Með bréfi, dags. 27. desember 2012, kærði Guðríður Lára Þrastardóttir hdl., fyrir hönd A, ákvörðun Barnaverndar B frá 16. október 2012. Ákvörðunin er svohljóðandi:

 

A, sem fer með forsjá dætra sinna, C, D og E, og lögmönnum hennar, er aðeins heimilt að kynna sér skjöl og önnur gögn sem varða dætur hennar, án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent, sbr. 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Skal þeim gert kleift að kynna sér gögnin í húsnæði Barnaverndar B undir eftirliti starfsmanns nefndarinnar. Gildir takmörkun þessi á afhendingu gagna um þau skjöl og önnur gögn sem eru til vörslu hjá barnaverndarnefnd B og þau gögn sem til verða og varðveitt verða hjá barnaverndarnefnd B.“

 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði úr gildi felld.

 

Af hálfu Barnaverndar B er krafist staðfestingar á hinni kærðu ákvörðun.


 

I

Málsmeðferð

 

Kæra kæranda barst kærunefnd barnaverndarmála 27. desember 2012. Kærunefndin sendi Barnavernd B kæruna með bréfi 2. janúar 2013 og óskaði jafnframt eftir greinargerð af þessu tilefni. Greinargerð Barnaverndar B er dagsett 14. janúar 2013 og barst 16. janúar 2013 ásamt frekari gögnum. Lögmanni kæranda, Guðríði Láru Þrastardóttur hdl., var sent afrit af öllum gögnum með bréfi, dags. 16. janúar 2013, og gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Kærandi hafði áður kært úrskurð barnaverndarnefndar B frá 16. október 2012 til kærunefndar barnaverndarmála. Lögmaður kæranda, Guðríður Lára Þrastardóttir hdl., tók við máli þessu af fyrri lögmanni 23. október 2012. Hinn nýi lögmaður óskaði eftir því við barnaverndarnefnd að úrskurðurinn frá 16. október 2012 yrði endurskoðaður þar sem nýr lögmaður væri tekinn við málinu, en ekki var brugðist formlega við erindinu. Kærandi afturkallaði kæru sína til kærunefndar barnaverndarmála með bréfi, dags. 9. nóvember 2012, og ítrekaði beiðni um endurupptöku málsins fyrir barnaverndarnefnd. Beiðnin var tekin fyrir á fundi barnaverndarnefndar B 27. nóvember 2012 og kom þar fram tillaga kæranda þess efnis að hún undirritaði samkomulag við barnaverndarnefnd um að hún myndi einungis skoða gögn málsins á skrifstofu lögmanns. Barnaverndarnefnd hafnaði beiðninni í bókun sem birt var lögmanni kæranda 7. desember 2012. Kærunefnd barnaverndarmála fellst á með lögmanni kæranda að á þeim tíma hafi hafist nýr kærufrestur til kærunefndarinnar.

 

 

II

Helstu málavextir

 

Mál þetta varðar barnaverndarmál A, vegna barna hennar, þeirra C, D, og E.

 

Stúlkurnar lúta forsjár kæranda, en C, sem er fjölfötluð, var tekin úr umsjón móður sinnar í janúar 2012. Faðir stúlknanna, F, sem búsettur er í G, hefur komið að umönnun þeirra, en samband foreldranna hefur verið óstöðugt. Áhyggjur hafa verið af uppeldisaðstæðum telpnanna í umsjá foreldra og hafa verið afskipti af högum þeirra á grundvelli barnaverndarlaga bæði hér á landi og í G.

 

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi á samskiptavefnum Facebook á Netinu verið opinská um málsmeðferð breskra og íslenskra barnaverndaryfirvalda og sé aðgangur að síðu hennar opinn almenningi. Hún hafi einnig fjallað um málið opinberlega í fjölmiðlum bæði hér á landi og erlendis og hafi fjölmiðlar tekið upp fréttir af málinu, meðal annars af samskiptavefjum á Netinu. Samkvæmt upplýsingum félagsráðgjafa kæranda í G og kæranda hafi G barnaverndaryfirvöld haft afskipti af því að kærandi væri að fjalla um málefni C í fjölmiðlum og á Netinu hafi verið lagt bann við því af hálfu G yfirvalda. Eftir að mál C var lagt fyrir fund barnaverndarnefndar B 30. ágúst 2012 hafi verið stofnuð heimasíða sem haft hafi þann tilgang að safna fjármunum til kaupa á húsnæði í nafni styrktarsjóðs stúlkunnar. Að styrktarsíðunni standi fyrrum lögmaður kæranda, Steinn S. Finnbogason hdl. og móðurafi kæranda, H. Á heimasíðunni hafi lögmaðurinn boðið almenningi að hafa samband og finna tíma til að fara yfir gögn málsins saman. Einnig hafi verið birt skjöl á síðunni sem varði heilsufar C

og úrskurður barnaverndarnefndar B frá 30. ágúst 2012. Hafi gögnin að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar um systurnar án þess að þess hafi verið gætt að hylja nöfn og aðrar persónugreinanlegar upplýsingar að öðru leyti en að því er varði úrskurð barnaverndarnefndar B. Þar hafi nöfn E og D verið hulin auk þess sem búið hafi verið að hylja tilgreindar upplýsingar um kæranda sem fram komi í forsjárhæfnimati sem gert hafi verið á henni. Þó hafi upplýsingarnar ekki verið nægjanlega vel huldar og því auðvelt að lesa í gegnum yfirstrikanir. Eftir að athugasemdir hafi verið gerðar við lögmann kæranda um birtingarnar hafi tenglar af heimasíðunni I verið gerðir óvirkir. Samkvæmt upplýsingum lögmanns kæranda hafi það verið gert degi eftir birtingu þeirra, eða 14. september 2012. Eigi að síður hafi verið unnt að nálgast upplýsingarnar á Netinu og hafi gögnin farið í dreifingu og meðal annars verið til umræðu á samskiptavefnum www.bland.is. Tilkynnt hafi verið um það til Barnaverndar B 25. september 2012. Í máli lögmanns kæranda hafi komið fram að 26. september 2012 hafi gögnin ekki verið aðgengileg á þeim stað þar sem þau hafi verið áður.

 

Í tölvupósti talsmanns C, J, frá 5. október 2012 kemur fram að hann hafi komist að því að á heimasíðunni I hafi verið farin að birtast skjöl er innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar um stúlkuna og jafnvel alla fjölskylduna. Um hafi verið að ræða fjölda skjala úr ólíkum áttum, svo sem gögn úr sjúkraskrá hennar, læknabréf, skjöl sem stafi frá barnaverndaryfirvöldum hér á landi sem og í G, vitnisburður nákominna um heimilisaðstæður og tugir skjala sem lögmaður kæranda hafi lagt fram á barnaverndarnefndarfundi 30. ágúst 2012 þegar ákvörðun hafi verið tekin um vistun stúlkunnar utan heimilis. Hafi úrskurður barnaverndarnefndar B frá 30. ágúst 2012 auk tengdra gagna verið birtur á vefsíðunni en í úrskurðinum hafi verið farið ítarlega yfir tildrög málsins og þar með talið forsjárhæfnimat á kæranda. Hafi gögnin verið birt án þess að gætt væri að því að hylja nöfn og aðrar persónugreinanlegar upplýsingar að öllu öðru leyti en að því er varði úrskurð barnaverndarnefndar B frá 30. ágúst 2012. Hafi nöfn systra stúlkunnar verið hulin auk þess sem búið hafi verið að hylja tilgreindar upplýsingar um kæranda er fram komi í forsjárhæfnimati sem á henni hafi verið gert. Þó hafi þær upplýsingar ekki verið nægjanlega vel huldar og því hafi verið auðvelt að lesa í gegnum yfirstrikanir.

 

Í framangreindum tölvupósti talsmannsins kemur fram það mat hans að birting gagna úr sjúkraskýrslum, úrskurðir barnaverndaryfirvalda, skyld gögn og önnur gögn er innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar um barnið í þeim tilgangi sem hér um ræðir og án samþykkis þess, feli í sér vanvirðandi framkomu við það og brjóti gegn friðhelgi einkalífs þess og gangi enn fremur í berhögg við persónuverndarsjónarmið sem tryggð séu í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000. Einnig kemur fram sú afstaða talsmanns stúlkunnar að brýnir hagsmunir hennar knýi á um að aðgangur kæranda og lögmanns hennar að gögnum verði takmarkaður. Talsmaðurinn mæltist til þess að barnaverndarnefnd B úrskurði um takmörkun kæranda og lögmanns hennar á aðgangi að gögnum málsins skv. 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 

Í greinargerð Barnaverndar B, dags. 14. janúar 2013, kemur fram að kærandi hafi haldið áfram, eftir úrskurð barnaverndarnefndar frá 16. október 2012, að tjá sig opinskátt á Netinu og í fjölmiðlum á þann hátt sem hún hafði áður gert. Kærandi virði ekki einkalíf barna sinna þrátt fyrir úrskurð nefndarinnar.

 

 

III

Sjónarmið kæranda

 

Af hálfu kæranda kemur fram að hún telji að freklega sé brotið á rétti hennar til aðgangs að gögnum, andmælarétti og rétti til réttlátrar málsmeðferðar sem tryggður sé í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Með hinni kærðu ákvörðun sé gengið allt of langt og gengið gegn sjónarmiðum um meðalhóf.

 

Réttur aðila til upplýsinga og aðgangur að gögnum máls skv. 1. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga og 15. gr. stjórnsýslulaga sé meginregla í stjórnsýslurétti og skýra beri allar undantekningar frá reglunni þröngt. Reglan sé byggð á því sjónarmiði að almennur aðgangur að upplýsingum og umráð skjala málsins sé nauðsynlegur liður í því að aðili geti gætt andmælaréttar síns. Samkvæmt ákvæði stjórnsýslulaga felist einnig í reglunni að aðili skuli fá afrit eða ljósrit af málsskjölum fari hann fram á það nema skjölin séu þess eðlis eða fjöldi þeirra svo mikill að það sé vandkvæðum bundið.

 

Bent er á að í niðurstöðu hins kærða úrskurðar komi fram að það sé mat barnaverndarnefndar að það geti skaðað hagsmuni dætra kæranda ef kæranda og lögmönnum hennar verði veittur ótakmarkaður aðgangur að gögnum málsins. Því til stuðnings vísi nefndin til persónuverndarsjónarmiða sem tryggð séu í lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, 16. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og með vísan til gagna málsins í heild sinni. Að mati kæranda verði takmarkaður aðgangur að gögnum málsins ekki rökstuddur með vísan til framangreindra ákvæða enda ljóst af lestri athugasemda með 2. mgr. 45. gr. frumvarps er varð að barnaverndarlögum að einungis sé heimilt að takmarka aðgang að gögnum ef aðgangur sé talinn geta skaðað samband foreldra og barna. Þá verði ekki fallist á að ólögfest ákvæði í alþjóðasamningi gangi framar ákvæðum stjórnsýslulaga.

 

Varðandi sjónamið um meðalhóf þá telji kærandi að brotið hafi verið gegn þeim með hinum kærða úrskurði. Það sé mat kæranda að réttara hefði verið ef barnaverndarnefnd hefði gert samkomulag við sig um að birta ekki frekari gögn á Netinu. Ekki hafi verið reynt að gera slíkt samkomulag við kæranda en hún hafi sjálf haft frumkvæði að því 27. nóvember 2012 að gert yrði við hana samkomulag um að hún myndi einungis kynna sér gögn málsins á skrifstofu lögmanns hennar. Meðalhófsreglan sé lögfest bæði í 12. gr. stjórnsýslulaga og 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Kærandi telur þá niðurstöðu barnaverndarnefndar B frá 27. nóvember 2012 þess efnis að lagaheimild skorti fyrir því að nefndin geri samning við kæranda um að hún skoði aðeins gögnin á skrifstofu lögmanns ranga. Sé það mat barnaverndarnefndar rétt að 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga heimili takmarkaðan aðgang að gögnum í tilfelli kæranda þá þurfi ekki sérstaka heimild í lögum til þess að beita vægara úrræði gagnvart kæranda.

 

Af hálfu kæranda er ítrekað að kærandi hafi ekki sjálf birt gögn um dætur sínar á Netinu. Fyrrum lögmaður hennar, Steinn S. Finnbogason hdl., hafi sjálfur tekið þá ákvörðun að birta gögnin í því skyni að gera heimasíðu styrktarsjóðs C, trúverðugri og hlutlausari miðil. Sá lögmaður hafi sagt sig frá málinu.

 

 

IV

Sjónarmið Barnaverndar B

 

Barnavernd B bendir á að beiting 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, sé eina tiltæka leiðin sem barnaverndarnefndir hafi til að stöðva það að foreldrar opinberi viðkvæmar upplýsingar um börn sín. Það sé mat starfsmanna Barnaverndar B, talsmanns C og barnaverndarnefndar B að birting gagna með þeim hætti sem kærandi og fyrrum lögmaður hennar hafi gert hafi skaðað hagsmuni barnanna og sé til þess fallið að geta haft skaðleg áhrif á samband kæranda og dætra hennar. Því sé beiting 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nauðsynleg til að tryggja að ekki verði um frekari birtingar á viðkvæmum gögnum er varði einkalíf systranna C, E og D.

 

Í úrskurði barnaverndarnefndar frá 16. október 2012 sé samkvæmt orðanna hljóðan takmarkaður aðgangur að gögnum málsins að því er varði kæranda og lögmenn hennar. Takmörkunin eigi því ekki eingöngu við þáverandi lögmann kæranda heldur einnig aðra lögmenn sem að málinu komi. Ekki sé heimild í 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga til að takmarka aðgang að gögnum með þeim hætti að lögmaður fái einungis gögn afhent en aðila máls verði synjað um það. Réttur lögmanns til aðgangs að gögnum sé afleiddur af rétti aðila málsins til aðgangs að gögnum. Verði að telja að það þurfi skýra lagaheimild eigi slíkt samkomulag að vera bindandi fyrir lögmann gagnvart skjólstæðingi sínum, í þessu tilfelli kæranda. Í ljósi fyrrgreinds sé því mótmælt að ekki hafi verið gætt meðalhófs við ákvörðun nefndarinnar enda ljóst að ekki hafi verið lagaskilyrði til staðar til að fallast á varakröfu lögmanns kæranda.

 

Það sé ljóst að beiting 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga hafi í för með sér óþægindi fyrir lögmann kæranda sem þurfi að kynna sé gögn málsins í húsakynnum Barnaverndar B. Rétt sé þó að benda á að úrskurðurinn hafi einnig í för með sér aukna vinnu fyrir starfsmenn Barnaverndar B vegna eftirlits og óþægindi sem óhjákvæmilega hljótist af því að geta ekki sent lögmanni gögn málsins, til dæmis til undirritunar. Allt að einu telji starfsmenn Barnaverndar B nauðsynlegt að takmarkaður verði aðgangur kæranda og lögmanna hennar að gögnum málsins til að vernda og tryggja hagsmuni dætra kæranda.

 

Þá er mótmælt þeirri málsástæðu kæranda að brotið sé freklega á andmælarétti hennar og rétti til réttlátrar málsmeðferðar. Í samræmi við úrskurð nefndarinnar frá 16. október 2012 hafi verið tryggt að lögmaður kæranda geti kynnt sér gögn málsins í húsakynnum Barnaverndar B sem hann hafi gert. Rétt sé að benda á að í niðurstöðum í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. desember 2012 sé tekið undir þessi sjónarmið.

 

V

Niðurstaða

 

Með hinum kærða úrskurði frá 16. október 2012 takmarkaði Barnavernd B aðgang kæranda og lögmanna hennar að gögnum varðandi dætur hennar á grundvelli heimildar í 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, þannig að þeim væri aðeins heimilt að kynna sér gögn málsins án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent.

 

Í 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga er kveðið á um upplýsingarétt og aðgang að gögnum máls. Í 2. mgr. lagagreinarinnar segir að barnaverndarnefnd geti með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Nefndin getur einnig úrskurðað að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent. Í athugasemdum við lagagreinina segir meðal annars að meginsjónarmiðið sé það að stjórnsýslulögin mæli fyrir um lágmarkskröfur til málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum. Takmarkanir þær sem gert sé ráð fyrir í 2. mgr. séu aftur á móti í samræmi við það sem fram komi í 17. gr. stjórnsýslulaga. Byggt sé á því sjónarmiði að ríkir einkahagsmunir réttlæti þau frávik sem 2. mgr. 45. gr. frumvarpsins mæli fyrir um. Í 17. gr. stjórnsýslulaga segir að þegar sérstaklega standi á sé stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þyki eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum.

 

Kærandi er móðir þriggja dætra og er ein þeirra, C, fjölfötluð og háð öðrum með allar sínar þarfir. Stúlkan, sem er sjö ára gömul, getur ekki tjáð sig nema takmarkað með augum og hljóðum og hún þarf aðstoð við öndun. Hún þarf sólarhringsumönnun. Afskipti hafa verið af högum og aðbúnaði stúlknanna á grundvelli barnaverndarlaga, eins og hér að framan hefur komið fram.

 

Forsendur fyrir því að kæranda og lögmönnum hennar verði aðeins heimilt að kynna sér skjöl og önnur gögn sem varða dætur hennar án þess að þau eða ljósrit af þeim verði afhent koma fram í hinum kærða úrskurði. Þar er rakið að lögmaður kæranda hafi birt viðkvæmar persónuupplýsingar um stúlkurnar á vefsvæðinu I sem hafi þann tilgang að safna fé til kaupa á íbúð fyrir C. Um sé að ræða gögn er varði barnaverndarafskipti af hálfu barnaverndarnefndar B og heilsufarsupplýsingar um C. Jafnframt hafi kærandi birt heilsufarsupplýsingar um stúlkuna á Facebook-síðu sinni en þær hafi verið fjarlægðar eftir að talsmaður stúlkunnar gerði athugasemdir við birtinguna. Þá er í úrskurðinum byggt á því að talsmaður stúlkunnar telji að birting gagna úr sjúkraskýrslum, úrskurðir barnaverndaryfirvalda, skyld gögn og önnur gögn, er innihaldi viðkvæmar persónuupplýsingar um barnið í framangreindum tilgangi, feli í sér vanvirðandi framkomu við barnið, brjóti gegn friðhelgi einkalífs þess og gangi í berhögg við persónuverndar­sjónarmið sem tryggð séu í lögum.

 

Á grundvelli þessa taldi barnaverndarnefnd B að með birtingu viðkvæmra upplýsinga um stúlkurnar á Netinu hafi kærandi og lögmaður hennar brotið gróflega á rétti barnanna til friðhelgi einkalífs þeirra, eins og fram kemur í úrskurðinum. Mat nefndarinnar var að um trúnaðarbrest kæranda hafi verið að ræða gagnvart börnum sínum sem og dómgreindarbrest sem skaði hagsmuni barnanna. Með tilliti til þessa telur nefndin að það geti skaðað hagsmuni stúlknanna verði kæranda og lögmönnum hennar veittur ótakmarkaður aðgangur að gögnum málsins. Nefndin telur ekki unnt að tryggja hagsmuni þeirra með öðrum hætti en að kæranda og lögmanni hennar verði einungis unnt að kynna sér gögn mála stúlknanna á skrifstofu Barnaverndar B undir eftirliti starfsmanns og að óheimilt verði að afhenda þeim ljósrit gagna.

 

Með hinum kærða úrskurði taldi barnaverndarnefnd B að takmarka þyrfti aðgang kæranda að gögnum þannig að þau yrðu ekki afhent, eins og hér að framan er lýst, í þeim tilgangi að tryggja lögverndaða hagsmuni barna kæranda. Telja verður að barnaverndar­nefndin hafi metið hagsmunina réttilega og í samræmi við heimildina í 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga. Byggir hinn kærði úrskurður á lögmætum sjónarmiðum og takmarkanir á aðgangi að gögnum ganga ekki lengra en nauðsyn bar til. Ber með vísan til þess að staðfesta úrskurðinn.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Barnaverndar B frá 16. október 2012 varðandi aðgang A að skjölum og öðrum gögnum, sem varða mál dætra hennar fyrir Barnavernd B, er staðfest.

 

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður

 

 

Guðfinna Eydal                                                         Gunnar Sandholt

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum