Hoppa yfir valmynd
27. júní 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2012

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála, 27. júní 2012, var tekið fyrir mál A hjá kærunefnd barnaverndarmála varðandi umgengni við son hans, B, nr. 7/2012.

Kveðinn var upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

 

I.

Málsmeðferð og kröfugerð


Með bréfi, dags. 20. mars 2012, skaut C hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar D frá 22. febrúar 2012 til kærunefndar barnaverndarmála. Úrskurðurinn varðar umgengni kæranda við son sinn, B. Samkvæmt honum skal umgengni B við föður sinn vera þrisvar sinnum á ári, á laugardegi kl. 11.30–13.00. Ein umgengni skal eiga sér stað sem næst síðustu helgi marsmánaðar, önnur sem næst síðustu helgi ágústmánaðar og sú þriðja sem næst annarri helgi desembermánaðar. Umgengninni er valinn staður í húsnæði Fjölskyldudeildar E undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns nema samkomulag sé um annan stað.

Kærandi krefst þess að ákvörðun barnaverndarnefndar D verði felld úr gildi og úrskurðað um aukna umgengni. Er farið fram á að umgengni verði 6–12 sinnum á ári og í 4–6 tíma í senn eða að málinu verði vísað til meðferðar barnaverndarnefndar að nýju.

Barnaverndarnefnd vísar kröfum kæranda á bug enda telur nefndin að sú umgengni sem úrskurðuð hefur verið sé í samræmi við markmið fósturráðstöfunar B. Barnaverndarnefndin telur að rúm umgengni barnsins við föður sinn geti verið andstæð hagsmunum barnsins. Barnaverndarnefnd D bendir á að af hálfu kæranda sé því haldið fram að brotið sé gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sökum þess að faðir fái ekki jafn mikla umgengni við B og móðir hans. Þeirri kröfu er mótmælt enda hljóti umgengni hvors foreldris um sig að vera metin sjálfstætt út frá hagsmunum barnsins.

Fósturforeldrar B gera ekki athugasemd við úrskurð barnaverndarnefndar D sem í gildi er. Við meðferð kærunefndar barnaverndarmála vænta fósturforeldrar þess að litið verði til fordæma annars staðar af landinu þar sem hliðstæðar aðstæður kunna að vera uppi. Þau óska eftir að nefndin horfi til þess hverjir hagsmunir barnsins séu í ljósi ungs aldurs þess og jafnframt til þess að í máli þessu sé um að ræða varanlegt fóstur. 

 

II. Helstu málavextir.


Mál B, sem nú er rúmlega X ára, hefur verið til meðferðar hjá barnaverndarnefnd D frá því skömmu áður en hann fæddist vegna fjölþættra erfiðleika foreldra hans, en það var fyrst lagt fyrir barnaverndarnefnd 18. mars 2009. Kærandi hefur átt við fíkniefnavanda að stríða og hann hefur margoft gerst brotlegur við lög og hlotið refsidóma. Þegar greinargerð barnaverndarnefndar D var skrifuð 13. apríl 2012 sat kærandi í gæsluvarðhaldi og er meðal annars grunaður um stórfellda líkamsárás á móður B 24. mars sl. Daginn áður hafði kærandi verið handtekinn þar sem hann „hafði gengið berserksgang um bæinn“, og var hann fluttur á lögreglustöð grunaður meðal annars um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, ölvun við akstur og brot á vopnalögum. Þá hafði lögreglan einnig afskipti af kæranda 29. janúar og 29. febrúar 2012 vegna vörslu og meðferðar fíkniefna sem og annarra brota. Í sálfræðilegri álitsgerð sem gerð var vegna foreldrahæfnismats á kæranda, dags. 25. febrúar 2011, kemur fram að persónuleikaprófun, matslistar og forsaga hans bendi til að kærandi hafi átt og eigi enn við töluvert mikla tilfinningalega erfiðleika að stríða. Mögulegar sjúkdómsgreiningar samkvæmt persónuleikaprófi séu meðal annars þunglyndisröskun, vímuefnaánetjun og andfélagsleg persónuleikaröskun. Töluverð streitueinkenni sé einnig að sjá í niðurstöðum matslista. Skimun á ADHD-röskun sem og upplýsingar úr sögu kæranda varðandi vanlíðan og erfiða hegðun renni stoðum undir að hann eigi við töluvert mikinn athyglisbrest og ofvirknivanda að stríða. Í matsgerðinni kemur fram að þótt kærandi lýsi sterkum vilja til að annast son sinn og sé tilfinningalega tengdur honum rýri tilfinningalegur óstöðugleiki og slök greind mjög færni hans í foreldrahlutverki.

Kærandi var sviptur forsjá B með dómi Héraðsdóms F 26. desember 2011, en dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar og bíður þar flutnings.

B er nú í fóstri á vegum nefndarinnar á sama fósturheimili og yngri hálfbróðir hans. Í kjölfar þess að kynforeldrar B voru með dómi, 26. desember 2011, sviptir forsjá B leit barnaverndarnefnd D svo á að tímabili reynslufósturs væri lokið og efni væru til þess að semja við fósturforeldra um fóstur barnsins þar til það yrði lögráða og endurskoða þyrfti fyrirkomulag umgengni kynforeldra við barn sitt vegna varanlegs fóstursamnings. Hinn 11. janúar 2012 fól barnaverndarnefnd D starfsmönnum sínum að semja greinargerð með rökstuddum tillögum um nýtt fyrirkomulag um umgengni móður barnsins, kæranda og föðurömmu B við drenginn.

Í greinargerð, dags. 27. janúar 2012, voru settar fram tillögur um breytta umgengni kynforeldra og föðurömmu B við hann. Tillagan fól í sér umgengni þrisvar á ári, tvo tíma í senn, á virkum dögum, á fósturheimili B eða á leikskólanum á skólatíma, engin símtöl voru leyfð og engar gjafir til barnsins aðrar en afmælis- og jólagjafir. Þá var einnig lögð fram tillaga um að tekin yrði afstaða til þess hvort það samræmdist markmiðum fósturs og hagsmunum barnsins að umgengni væri við föður eins og þá stóðu sakir. Kærandi var mótfallinn tillögu nefndarinnar og gerði kröfu um að umgengnin yrði ekki minni en verið hefði, það er einu sinni í mánuði og til vara fór kærandi fram á að umgengni yrði 6–12 sinnum á ári og 4–6 klst. í senn. Ekki náðist samkomulag milli aðila. Sökum þess kvað barnaverndnefnd D upp úrskurð, sbr. 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, 22. febrúar 2012, þess efnis að umgengnin yrði, eins og áður sagði í I. kafla.

 

III. Sjónarmið kæranda.


Kærandi bendir á að dómi í forsjársviptingarmáli hafi verið áfrýjað og ekki sé komin niðurstaða Hæstaréttar í málinu og því sé varhugavert að ákveða endanlega umgengni eða gera varanlegan fóstursamning á þessu stigi málsins. Varhugavert sé að takmarka umgengni svo mikið sem gert er með hinum kærða úrskurði. Með vísan til meðalhófsreglunnar og 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, sé þess krafist að honum verði ákvörðuð rýmri umgengni. Í greinargerð, dags. 7. febrúar 2012, er því mótmælt að ekki megi gefa barninu aðrar gjafir en afmælis- og jólagjafir enda geti nefndin annast milligöngu á afhendingu gjafa.

Þá bendir kærandi jafnframt á að hann fái ekki jafnmikla umgengni í hvert sinn og móðir barnsins og ekki verði séð á hvaða grundvelli nefndin telji sér heimilt að gera svo upp á milli foreldra. Breyti engu þar um að kærandi geti nýtt tíma sinn með móður sinni þar sem með því að hafa umgengnina sameiginlega, kjósi aðilar svo, sé verið að skerða sjálfstæðan rétt hvors um sig í umgengni. Heldur kærandi því fram að með þessu fyrirkomulagi sé jafnræðisreglan brotin, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, enda eigi aðilar að njóta jafnræðis í hvívetna og verði ekki séð á hvaða grundvelli nefndin telji sig geta gert svo upp á milli foreldra sem raun beri vitni.

Einnig vísar kærandi til 74. gr. barnaverndarlaga sem kveður á um rétt kynforeldra til umgengni við barn í fóstri og mótmælt er þeim sjónarmiðum sem fram koma í ákvörðun nefndarinnar að það þjóni best hagsmunum barnsins að umgengni sé svo takmörkuð. Ekki hafi verið lögð fram nein haldbær gögn um að hagsmunum barnsins sé best þjónað með svo takmarkaðri umgengni við föður enda hafi umgengni gengið vel í þau skipti sem hún hafi farið fram. Þessu sjónarmiði hafi ítrekað verið komið á framfæri við nefndina sem hafi ekki enn farið í það að afla gagna frá hlutlausum aðilum sem sýni fram á annað. Ítrekað sé að kærandi sé tilbúinn að mæta öllum kröfum varðandi eftirlit að hálfu barnaverndaryfirvalda.

Farið er fram á að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærunefnd úrskurði um aukna umgengni kæranda eða vísi málinu aftur til barnaverndarnefndar D.

Um kæruheimild vísast til 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, og VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

             

IV. Sjónarmið barnaverndarnefndar D


Barnaverndarnefnd D bendir á að þegar kærandi var sviptur forsjá barnsins 26. desember 2011 hafi nefndin litið svo á að tímabili reynslufósturs væri lokið og að öll skilyrði væru fyrir því að ganga frá samningi um varanlegt fóstur. Barnaverndarnefnd D hafi ráðstafað barninu í fóstur til 18 ára aldurs. Umgengni barnsins við föður sinn og aðra nákomna hafi verið endurskoðuð með það í huga að hún samræmdist því markmiði ráðstöfunarinnar að barnið aðlagist og tilheyri sinni nýju fjölskyldu. Var það mat nefndarinnar að með umgengni þrisvar á ári væru bæði virt ofangreind sjónarmið um að barnið aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldunni, svo og sjónarmið um að barnið þekki uppruna sinn og faðirinn geti fylgst með lífi og þroska þess eins og hæfi við þessi skilyrði.

Við ákvörðun sína hafi barnaverndarnefnd einnig litið til þess sem vitað sé um tengsl föður og barns, til ungs aldurs barnsins, svo og til aðstæðna föðurins og persónulegra þátta. Faðir og barn hafi ekki átt sameiginlegt lögheimili frá fæðingu barnsins og barnið hafi aldrei verið í reglulegri umsjá hans nema ef til vill fyrstu tvo mánuði lífs síns. Ferill föðurins og aðstæður hans nú bendi til þess að rúm umgengni barnsins við hann gæti verið andstæð hagsmunum þess. Í gögnum nefndarinnar kemur fram að hann eigi sér langa sögu um neyslu ávana- og fíkniefna og að sá vandi hans sé enn til staðar.

Í skýrslu G sálfræðings, sem var af héraðsdómi kvödd til að meta forsjárhæfni kæranda, kemur meðal annars fram að hann eigi í miklum erfiðleikum með tilfinningastjórnun og einnig viti hann lítið um þroska drengsins og hafi takmarkaða uppeldisþekkingu. Þá sé í forsjársviptingardómi frá 26. desember 2011 tekið fram að sálfræðiathuganir á kæranda bendi til „töluverðra geðrænna erfiðleika, jafnvel persónuleikaröskunar og mælist forsjárhæfni hans talsvert undir meðallagi. Þá megi heita svo að hann sé reynslulaus í foreldrahlutverkinu.“ Barnaverndarnefndin bendir á að hæfni kæranda til þess að umgangast ungt barn sé ekki með besta móti og hafi aðstæður hans að þessu leyti síst færst til betri vegar það sem af er þessu ári. Þannig hafi lögregla nokkrum sinnum síðastliðinn mánuð haft afskipti af honum vegna vörslu fíkniefna og annarra ætlaðra brota, meðal annars sé hann grunaður um stórfellda líkamsárás, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, á barnsmóður sína 24. mars sl.

Kærandi krefjist þess að njóta umgengni við barnið 6–12 sinnum á ári, 4–6 tíma í senn. Með vísan í framangreindar upplýsingar hafnar nefndin þeim kröfum. Nefndin mótmælir þeirri athugasemd kæranda að brotið sé gegn jafnræðisreglu sökum þess að faðir fái ekki jafn mikla umgengni við B og móðirin. Umgengni hvors foreldris um sig hljóti að vera metin sjálfstætt út frá hagsmunum barnsins. Í þessu tilviki sé úrskurðaður umgengnistími hins vegar mjög sambærilegur. Móðir barnsins njóti umgengni í þrjá tíma og megi líta svo á að hún hafi þar með einn og hálfan tíma fyrir hvort barn um sig. Faðirinn eigi kost á því að umgangast B í allt að þrjá tíma samfellt. Til þessa hafi kærandi og móðir hans kosið að vera saman í umgengni og bæði hafi lýst því yfir að þau felli sig vel við slíkt fyrirkomulag.

 

V. Sjónarmið fósturforeldra


Fósturforeldrar B gera ekki athugasemd við úrskurð barnaverndarnefndar D sem í gildi er. Við meðferð kærunefndar barnaverndarmála vænta fósturforeldrar þess að litið verði til fordæma annars staðar af landinu þar sem hliðstæðar aðstæður kunni að vera uppi. Þá er óskað eftir því að nefndin horfi til þess hverjir hagsmunir drengsins séu í ljósi ungs aldurs hans og jafnframt verði litið til þess að fósturráðstöfun er varanleg.

 

 

VI. Niðurstaða.


Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga á barn rétt á umgengni við kynforeldra og kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt skv. 2. mgr. 74. gr. sömu laga nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins.
Við mat á því hvað teljist hæfileg umgengni ber meðal annars að líta til þess hversu lengi vistun er ætlað að vara, til aldurs barnsins og þess hvort ástæða sé til að ætla að umgengni geti á einhvern hátt raskað stöðugleika og jafnvægi barnsins.

Í máli þessu er um að ræða X ára gamlan dreng, B, sem hefur verið í fóstri hjá hjónunum H og J, frá 15. apríl 2011. Kynforeldrar drengsins hafa verið sviptir forsjá hans með dómi Héraðsdóms F og er um varanlegt fóstur að ræða. Af gögnum málsins má ráða að fóstrið gengur vel.

Kærandi hefur átt við langvarandi fíkniefnavanda að etja og samkvæmt nýlegri álitsgerð sálfræðings rýrir tilfinningalegur óstöðugleiki mjög færni hans í að annast son sinn, þótt hann hafi góðan ásetning til þess og sé tilfinningalega tengdur honum.

Í málinu liggja fyrir ýmis gögn frá lögreglu sem sýna að kærandi neytir enn fíkniefna og hefur sýnt af sér óábyrga og ofbeldisfulla hegðun og er meðal annars grunaður um stórfellda líkamsárás á barnsmóður sína í mars síðastliðnum. Af gögnum málsins má ráða að hann hefur lítið innsæi í þarfir drengsins og hefur ekki komið að uppeldi hans svo neinu nemi.

Ákvörðun um umgengni er ávallt háð mati á því hvað þjóni hagsmunum barns best miðað við þær aðstæður sem barni eru búnar hverju sinni og þegar til framtíðar er litið. Fyrir liggur sú afstaða barnaverndarnefndar D að drengurinn B verði í fóstri til sjálfræðisaldurs og fyrir liggur héraðsdómur þar sem kærandi er sviptur forsjá drengsins.

Þegar litið er til ungs aldurs drengsins og þess hversu lengi fóstur á að vara, og einnig litið til þess að kærandi hefur nær ekkert komið að uppeldi hans og virðist hafa takmarkaðan skilning á þörfum drengsins, til vímuefnavanda kæranda og óábyrgrar hegðunar, verður ekki talið að rýmri umgengni kæranda þjóni hagsmunum B.

Verður því hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til 1. og 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar D frá 22. febrúar 2012 um umgengni B við kynföður sinn, A, er staðfestur.

  

Ingveldur Einarsdóttir,

 formaður

 

 

Guðfinna Eydal                     Jón R. Kristinsson

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum