Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 13/2011

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

Miðvikudaginn 11. janúar 2012 var á fundi kærunefndar barnaverndarmála tekið fyrir mál nr. 13/2011, A, gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur, vegna umgengni hans við B, og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R :

 

 I.

Málsmeðferð og kröfugerð

 

Í bréfi C. til kærunefndar barnaverndarmála, dags. 5. október 2011, var kærð, fyrir hönd A, sú ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 20. september 2011 að B hafi ekki umgengni við A, en hann er fyrrum uppeldisfaðir drengsins. Drengurinn hefur búið hjá móðurömmu sinni, D, og eiginmanni hennar, E, síðan á árinu 2005. Kynmóðir hans afsalaði sér forsjá drengsins.

Kærandi krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að kærunefnd barnaverndarmála ákveði að barnið hafi umgengni við kæranda í þrjú skipti til reynslu eins og kveðið er á um í úrskurði kærunefndar barnaverndarmála frá 19. maí 2010 og sem staðfestur var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp 24. júní 2011. Einnig er gerð krafa um að viðurkennt verði að kærandi eigi rétt á umgengni við B og að barnaverndarnefnd Reykjavíkur verði gert að móta þá umgengni nánar.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

F, fyrir hönd D og E, fósturforeldra B, mótmælir því að kærandi fái umgengni við drenginn B.

Mál vegna B hafa áður verið til meðferðar hjá kærunefnd barnaverndarmála og teljast gögn þeirra mála meðal gagna þessa máls.

II.

Málavextir

B hefur verið í varanlegu fóstri hjá móðurömmu sinni, D, og eiginmanni hennar, E, frá því í desember 2005, en þá var hann sex ára gamall. Þar áður hafði kærandi verið uppeldisfaðir B um tíma, en framan af var talið að hann væri kynfaðir drengsins. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur fer með forsjá drengsins.

Kynfaðir B er G og kynmóðir hans er H. Þau hafa bæði átt við alvarleganáfengis- og vímuefnavanda að stríða. B hefur nú einhverja umgengni við báða kynforeldra sína.

Eftir að B fór í umsjá núverandi fósturforeldra sinna hafði hann umgengni við kæranda. Í janúar 2007 gerði barnaverndarnefnd samning við kæranda um að hann fengi umgengni við drenginn aðra hverja helgi, frá föstudegi til mánudagsmorguns. Umgengnin var með þessum hætti þar til í júní 2007. Kærandi krafðist umgengni við drenginn og með úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 4. september 2007 var kröfu hans um umgengni hafnað. Byggðist sú niðurstaða á afstöðu drengins um að hann vildi ekki vera í umgengni við kæranda og þá virtist umgengnin ekki hafa góð áhrif á drenginn. Slík umgengni var talin andstæð högum hans og þörfum, sbr. 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Kærandi kærði þennan úrskurð barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála þar sem honum var hrundið og málinu vísað aftur til meðferðar nefndarinnar. Niðurstaða kærunefndarinnar byggðist einkum á því að afstaða fósturforeldra B til umgengni virtist hafa breyst til batnaðar frá því að úrskurður barnaverndarnefndar hafði verið kveðinn upp. Einnig réð miklu að afar mikilvægt var talið að systkinin, B og J, nytu umgengni hvort við annað, en J lýtur forsjá og býr hjá kæranda. Auk þess var talið að ekki mætti fyllilega ráða af málsgögnum hver raunverulegur vilji drengsins væri til umgengni við kæranda. Taldi kærunefndin nauðsynlegt að sálfræðingur ræddi við hann um afstöðu hans til umgengni.

Niðurstaða sálfræðimats, dags. 1. júlí 2008, var sú að það þjónaði ekki hagsmunum drengsins að gengið yrði gegn skýrri og afdráttarlausri afstöðu hans um að hann vildi ekki umgengni við kæranda. Meðal annars með vísan til þessa hafnaði barnaverndarnefnd Reykjavíkur hinn 9. september 2008 kröfu kæranda um umgengni.

Þann 24. ágúst 2009 fór kærandi formlega fram á að fá umgengni við B að nýju. Í framhaldi af því ræddi starfsmaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur við drenginn um afstöðu hans til umgengni við kæranda. Fram kom hjá drengnum að hann vildi hitta J, systur sína. Aðspurður kvaðst hann einnig vilja hitta kæranda einu sinni í viku og „kannski tvisvar“. Í kjölfarið náðist samkomulag með kæranda og fósturforeldrum um umgengni drengsins og kæranda í eitt skipti. Úr umgengni varð 31. október 2009. Umgengnin var undir eftirliti starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur og samkvæmt dagál starfsmannsins virtist drengurinn í jafnvægi og hafi hann og systir hans virkað kát og glöð.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tók málið fyrir á fundi sínum þann 15. desember 2009 og bókaði að starfsmönnum væri falið að gera samkomulag við kæranda um umgengni til reynslu í þrjú skipti, einu sinni í mánuði í fjórar klukkustundir í senn. Starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur skyldi sækjadrenginn á fósturheimilið og fara með hann aftur að lokinni umgengninni. Honum var heimilt að gefa B jólagjöf. Kæranda og fósturforeldrum var í kjölfarið send umrædd bókun og bréf þar sem fram kom að umgengni yrði dagana 10. janúar, 7. febrúar og 7. mars 2010. Kærandi gerði samning um þetta fyrirkomulag en fósturforeldrar greindu frá því að þau gætu ekki samþykkt umgengni kæranda við drenginn. Þar sem ekki náðist samkomulag um málið var það tekið til úrskurðar á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur þann 9. febrúar 2010. Í úrskurðinum er því slegið föstu að kærandi teljist vera nákominn B og því gæti hann sóst eftir umgengni. Þá sé það mat nefndarinnar að það sé ekki andstætt hagsmunum drengsins að hafa umgengni og halda tengslum við kæranda. Þá séu það ótvíræðir hagsmunir hans að fá að hitta systur sína reglulega. Þótt þau hafi ekki hist reglulega í meira en tvö ár séu þau tengd tilfinningaböndum og séu allir aðilar sammála um að það sé þeim afar mikilvægt að hittast. Hafi niðurstaðan orðið sú að B hefði umgengni við kæranda í þrjú skipti til reynslu. Yrði umgengnin einu sinni í mánuði í fjórar klukkustundir í senn á heimili kæranda. Myndi starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur sækja drenginn á fósturheimilið og skila honum þangað aftur. Fósturforeldrar kærðu úrskurðinn til kærunefndar barnaverndarmála sem staðfesti hann þann 19. maí 2010. Fósturforeldrar höfðuðu þá mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og kröfðust ógildingar á úrskurði kærunefndarinnar. Reykjavíkurborg og kærandi voru sýknuð af kröfum fósturforeldra með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 24. júní 2011. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar.


 

III.

Afstaða og líðan B

Meðal gagna þessa máls er sálfræðiathugun K, en dagsetningar prófunar voru 16. og 23. september 2011. Í athuguninni kemur fram að B hafi verið í eftirliti á göngudeild BUGL frá árinu 2005. Samkvæmt greiningarviðtölum hafi erfiðleikar hans náð greiningarviðmiðum fyrir athyglisbrest með ofvirkni og mótþróaröskun og einnig hafi verið til staðar tilfinningaerfiðleikar sem hafi ekki náð greiningarmörkum. Einnig leiki grunur á alvarlegri vanrækslu og röskun á tilfinningatengslum, þ.e. tengslaröskun. 

Í samantekt niðurstaðna sálfræðingsins kemur fram að B hefur verið greindur með ADHD, ODD og tengslaröskun. Setja verði þó ákveðinn fyrirvara við niðurstöður vegna lyfjabreytinga sem gerðar hafi verið meðan á athuguninni stóð. Fram kemur að niðurstöður vitsmunaþroskamats sýni að ekki sé unnt að túlka heildartölu greindar þar sem mikill munur sé á frammistöðu á málstarfi sem sé í meðallagi og skynhugsunar sem sé mjög slök miðað við jafnaldra. Þá sé frammistaða á vinnsluminni og vinnsluhraða mjög slök miðað við jafnaldra. Niðurstaðan bendi til þroskamynsturs óyrtra námsörðugleika. Þegar niðurstöður séu bornar saman við fyrri prófanir komi í ljós að þessi tilhneiging hafi áður verið til staðar en nú sé munurinn orðinn meiri. Ekki sé hægt að fullyrða að B hafi almennt farið aftur í vitsmunaþroska heldur megi túlka það sem svo að hann hafi litlu bætt við sig frá þessum tíma meðan jafnaldrar hans hafi gert það.

Mikið ósamræmi komi fram á skimunarlistum í mati ömmu og afa annars vegar og kennara hins vegar. Að mati ömmu og afa komi vandi B fram í einkennum ADHD, hegðunar- og samskiptavanda, slakri félagslegri hegðun og einhverfurófseinkennum. Að mati kennara á spurningalistum komi vandi B aðallega fram í hegðunarvanda. Kennari tilgreini á upplýsingablaði meðal annars áhyggjur af litlu úthaldi í námi, félagslegum erfiðleikum og kvíða. Á sjálfsmatslista komi fram einkenni félagskvíða og aðskilnaðarkvíða/ofsakvíða.

Í athugun sálfræðings segir að ekki sé vísað í frekara mat vegna hugsanlegra einkenna á einhverfurófi að svo stöddu þar sem mikið ósamræmi komi fram á listum samkvæmt heimili og skóla. Einnig geti tengslaröskun og erfiðleikar í félagslegu umhverfi að hluta til skýrt niðurstöðurnar. Mælt sé með því að B fái stuðning í skóla, bæði í námi og félagslegan stuðning.

Í skýrslu L, talsmanns B, dags. 19. september 2011, kemur fram að drengurinn vilji ekki hitta kæranda, aðallega vegna ills umtals hans um kynmóður drengsins. Kvað drengurinn sér ekki líða vel eftir umgengni við kæranda. B vill þó hafa umgengni við J, hálfsystur sína, sem býr hjá föður sínum, kæranda.

 

 

IV.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða ákvörðun barnaverndarnefndar Reykjavíkur, frá 20. september 2011, verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að farið verði eftir úrskurði kærunefndar barnaverndarmála frá 19. maí 2010, sem staðfestur var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2011. Einnig er gerð krafa um að viðurkennt verði að kærandi eigi rétt á umgengni við B og að barnaverndarnefnd Reykjavíkur verði gert að móta þá umgengni nánar.

Kærandi byggir á því að úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 20. september 2011 sé haldinn verulegum annmörkum þar sem ekki virðist vera byggt á málefnalegum sjónarmiðum. Ekki verði annað séð af forsendum hins kærða úrskurðar en að ástæða þess að ekki komi til umgengni sé andstaða fósturforeldra. Þeir hamli ítrekað framgangi ákvarðana barnaverndarnefndar Reykjavíkur og taki fram fyrir hendurnar á barnaverndaryfirvöldum. Það sé ljóst að barnaverndarnefnd Reykjavíkur fari með forsjá drengsins en ekki fósturforeldrarnir, en þrátt fyrir það virðist barnaverndarnefnd Reykjavíkur ætíð láta í minni pokann fyrir fósturforeldrunum sem sé þó skylt samkvæmt lögum að framfylgja fyrirmælum og úrskurðum barnaverndaryfirvalda. Þrátt fyrir lýsingar barnaverndarnefndar í hinum kærða úrskurði á andstöðu fósturforeldra við umgengni kæranda og B segi í úrskurðinum að þar sem ekki hafi náðst samkomulag við kæranda um umgengni sé málið tekið til úrskurðar. Það sé því ljóst að forsendur fyrir niðurstöðu barnaverndarnefndar Reykjavíkur byggi ekki á málefnalegum forsendum.

Bent er á að í gögnum málsins komi fram að B sé ekki afhuga því að hitta kæranda og því sé ástæða til þess að láta reyna á umgengni þá til reynslu sem ákveðin hafi verið með úrskurði kærunefndar barnaverndarmála þann 19. maí 2010.

Kærandi byggir enn fremur málsástæður sínar á því að til grundvallar máli þessu liggi niðurstaða kærunefndar barnaverndarmála, dags. 19. maí 2010, sem hafi verið staðfest með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn hafi verið upp 24. júní 2011. Það sé því ljóst að úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 20. september 2011 sé í andstöðu við fyrri úrskurði. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi gefist upp á að koma á umgengni vegna afstöðu fósturforeldra og fari í andstöðu við fyrri úrskurði sína.

Fram kemur að skv. 74. gr. barnaverndarlaga sé það bæði réttur barnsins og nákominna aðila að hafa umgengni við barn. Með því að barnaverndarnefnd Reykjavíkur láti alltaf undan hótunum fósturforeldra sé verið að hamla þessum rétti barnsins og nákominna aðila til umgengni sem sé skýrt brot á skýru ákvæði 74. gr. barnaverndarlaga.

Kærandi gerir athugasemdir við það að ekki hafi verið rætt við hann um að ná samkomulagi um umgengni við B nema málefnum dóttur kæranda sé blandað inn í málið. Kærandi sé viljugur að ná samkomulagi um umgengni við drenginn en ekki hafi verið rætt beint við hann eða verið reynt að ná samkomulagi við hann.

Loks gerir kærandi athugasemdir við málsmeðferð barnaverndarnefndar Reykjavíkur, en hann kveður að hann hafi ekki notið fulls andmælaréttar fyrir barnaverndarnefndinni.

 

 

 

V.

Sjónarmið barnaverndarnefndar Reykjavíkur

Fram kemur af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur að frá því að úrskurður barnaverndarnefndar hafi verið uppkveðinn þann 9. febrúar 2010 hafi ítrekað verið reynt að koma á umgengni kæranda við B með milligöngu starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur. Vegna andstöðu fósturforeldra hafi það ekki gengið eftir. Fram hafi þó komið við vinnslu málsins að kærandi hafi hitt drenginn stopult án þess að Barnavernd Reykjavíkur hafi komið þar að. Svo virðist sem umgengnisdeila H, móður B, og A vegna J, dóttur þeirra, sem býr hjá kæranda, hafi haft áhrif á það hvort B hitti kæranda eða ekki.

Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafi rætt við drenginn vegna kröfu kæranda um umgengni við hann í kjölfar úrskurðar Héraðsdóms. Fram hafi komið að drengurinn aftaki ekki að fara í umgengni en hafi tekið fram að ef kærandi segði eitthvað ljótt um mömmu hans færi hann ekki aftur í umgengni. Í skýrslu talsmanns, dags. 19. september 2011, sem lögð hafi verið fram á fundi nefndarinnar þann 20. september 2011, komi fram að B vilji umgangast systur sína, J sem búi hjá föður sínum. B kveðist ekki vilja hitta kæranda vegna ills umtals hans um móður drengsins og sagði hann að honum liði ekki vel eftir þær stundir sem hann ætti með honum.

Fram kemur að afstaða fósturforeldra sé ekki breytt, þau vilji ekki að drengurinn umgangist kæranda. Kærandi krefjist þess hins vegar að farið verði að úrskurði nefndarinnar frá 9. febrúar 2010 sem staðfestur var af kærunefnd barnaverndarmála og Héraðsdómi Reykjavíkur.

Mál þetta hafi verið tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur þann 20. september 2011 þar sem ekki hafði tekist að framfylgja fyrrgreindum úrskurðum. Það hafi verið mat barnaverndarnefndar að óásættanlegt væri að fósturforeldrar hunsi úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur og kærunefndar barnaverndarmála. Nefndin hafi þó talið að fullreynt væri að koma á umgengni og ekki væru rök fyrir því að koma á umgengni í andstöðu við fósturforeldra en gera megi ráð fyrir því að slíkt mundi skapa óþarfa álag á drenginn og væri til þess fallið að skapa enn meiri deilur. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana. Mikilvægt sé að skapa frið í kringum drenginn og því hafi það verið niðurstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur að það þjóni ekki hagsmunum B að umgangast kæranda. Hafi það verið mat nefndarinnar að umgengni drengsins við fyrrum uppeldisföður væri andstæð högum hans og þörfum, sbr. 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 

VI.

Sjónarmið D og E

F., lögmaður D og E, kom á framfæri mótmælum þeirra við því að kærandi fái umgengni við B. Lögmaðurinn sendi kærunefndinni áfrýjunarstefnu í Hæstaréttarmálinu nr. 526/2011 ásamt greinargerð sinni til Hæstaréttar vegna málsins. Gefi þar að líta sjónarmið fósturforeldra drengsins og andmæli og jafnframt vísar lögmaðurinn til þess að fyrir kærunefndinni liggi úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur ásamt greinargerð starfsmanns barnaverndarnefndar. Lögmaðurinn bendir á að fósturforeldrarnir telji að ekkert hafi breyst í afstöðu drengsins til umgengni við kæranda.

 

 

VII.

Niðurstaða

Í niðurstöðu máls þessa felst endurskoðun á úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 20. september 2011, en hvorki kemur til skoðunar dómsátt sem gerð var 2. febrúar 2005, og lögmaður kæranda gerir grein fyrir í málsástæðum sínum, né mál það sem höfðað var til ógildingar þeirrar dómsáttar að hluta.

Þá felst í forsendum niðurstöðu úrskurðar þessa að tekið er á öðrum málsástæðum kæranda, að þeirri málsástæðu hans frátalinni að hann hafi ekki fengið notið fulls andmælaréttar fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkurborgar, en hún kemur til sérstakrar skoðunar.

Af hálfu kæranda er bent á að hann hafi ekki fengið notið fulls andmælaréttar fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkurborgar, þar sem hann hafi ekki fengið í hendur skýrslu talsmanns barnsins fyrr en á fundi með nefndinni, sama dag og úrskurður var upp kveðinn. Verður að gera athugasemdir við þessa stjórnsýslu og málsmeðferð barnaverndarnefndar. Veldur þetta þó ekki ógildingu úrskurðarins, þar sem útilokað má telja að niðurstaða máls þessa hefði orðið önnur, þótt kæranda hefði verið afhent umrædd skýrsla talsmanns fyrir fund barnaverndarnefndar.

B verður 13 ára gamall í júní næstkomandi. Hann átti erfiða barnæsku og upplifði ítrekuð tengslarof þar til í ágúst 2005. Frá þeim tíma hefur hann verið hjá móðurömmu sinni og eiginmanni hennar. 

Drengurinn hefur verið greindur með alvarleg hegðunar- og þroskafrávik og er vandasamt að annast hann. Mjög brýnt er að skapa ró og festu við umönnun og uppeldi hans. Í raun hefur aldrei ríkt nægileg ró um þá umgengni sem kæranda hefur verið ákvörðuð og gríðarleg togstreita verið um hana milli kæranda og fósturforeldra drengsins.

Sem fyrr efast kærunefnd barnaverndarmála ekki um góðan vilja kæranda og góðan hug til B, sem hann lítur á sem sitt eigið barn. Við ákvörðun um umgengni hans og B verður þó fyrst og fremst að huga að vilja drengsins, sem er orðinn nægilega þroskaður til að láta vilja sinn í ljós. Jafnvel þótt barnaverndaryfirvöld hafi til þessa talið umgengni þjóna hagsmunum drengsins og fyrri úrskurðir tekið mið af því, telur kærunefnd barnaverndarmála, í ljósi þeirra sérfræðigagna sem nú liggja fyrir, að þær forsendur hafi breyst. Ber þar einkum að líta til athugunar K sálfræðings á andlegu ástandi drengsins og félagslegum aðstæðum hans, en einnig til skýrslu L, talsmanns drengsins, sem kveður að drengurinn vilji ekki hitta kæranda.

Þegar litið er til þeirrar togstreitu sem ríkir milli fósturforeldra og kæranda um umgengni kæranda og drengsins, til skýrs vilja drengsins, til andlegs ástands drengsins og félagslegra aðstæðna hans, verður ekki talið að umgengni við kæranda þjóni hagsmunum hans eins og sakir standa, sbr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

Verður hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur því staðfestur með vísan til alls ofangreinds.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur, frá 20. september 2011, vegna umgengni A við B er staðfestur.

  

Ingveldur Einarsdóttir,

formaður

 

 

Guðfinna Eydal                                            Jón R. Kristinsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum