Hoppa yfir valmynd
8. september 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 27/2014

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 27/2014

 

Endurgreiðsla tryggingarfjár. Breytingar á eignarhaldi leiguhúsnæðis.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, mótteknu 2. maí 2014, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnt gagnaðili.        

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, en greinargerð barst ekki frá gagnaðila.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar þann 8. september 2014.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Með leigusamningi, dags. 31. janúar 2009, tók álitsbeiðandi á leigu íbúð í eigu gagnaðila að C. Um var að ræða ótímabundinn leigusamning frá 15. mars 2009. Ágreiningur er um endurgreiðslu tryggingarfjár.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda tryggingarfé auk verðbóta.

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi verið leigjandi að húsnæðinu frá 15. mars 2009 og greitt á sínum tíma 255.000 kr. eða þrjá mánuði í tryggingu fyrirfram. Álitsbeiðandi hafi alltaf greitt leigu tímanlega og haldið húsnæðinu eins vel við og hann hafi getað. Í maí 2013 hafi álitsbeiðanda verið sagt að það fyrirtæki sem hann leigði hjá væri í erfiðleikum og að D hefði tekið yfir tíu íbúðir af tuttugu, þar á meðal íbúð álitsbeiðanda. Í kjölfar þess hafi álitsbeiðandi haft samband við gagnaðila og fengið að vita að hann ætti að skrifa undir nýjan leigusamning við D sem hann hafi gert. Gagnaðili hafi einnig upplýst álitsbeiðanda um að hann myndi fá trygginguna endurgreidda um leið og unnt væri.       Álitsbeiðandi greinir frá því að erfiðlega hafi gengið að ná í gagnaðila og þegar það hafi loksins tekist hafi honum verið sagt að það væri einhver sjóður sem þau gætu greitt úr og að tiltekinn einstaklingur myndi greiða þetta sem fyrst. Ekkert hafi gerst og því hafi álitsbeiðandi haft samband á nýjan leik og fengið svar um að tiltekinn einstaklingur myndi sjá um þessi mál hér eftir og að tiltekið félag hefði í hyggju að kaupa þær íbúðir sem D hafi tekið yfir á sínum tíma, sem og þær íbúðir sem séu enn í eigu gagnaðila og húsið sjálft. Þá greinir álitsbeiðandi frekar frá því að hann hafi engin svör eða endurgreiðslu fengið frá gagnaðila þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hans þar um.

 

III. Forsendur

Deilt er um uppgjör við lok leigusamnings. Samkvæmt gögnum málsins gerðu aðilar með sér leigusamning og greiddi álitsbeiðandi gagnaðila tryggingu að fjárhæð 255.000 kr. við upphaf leigutíma. Gögn málsins bera með sér að eignarhald á hinu leigða húsnæði hafi tekið breytingum á árinu 2013 og að álitsbeiðandi hafi gert leigusamning við nýjan eiganda þess. Gagnaðili hefur ekki hreyft andmælum við því sem greinir í álitsbeiðni. Að framangreindu virtu verður því ekki annað ráðið en að leigusamningi aðila hafi lokið þegar álitsbeiðandi gerði leigusamning við nýjan eiganda húsnæðisins. Samkvæmt gögnum málsins greiddi álitsbeiðandi síðast leigu fyrir apríl 2013 til gagnaðila og samkvæmt leigusamningi aðila var leigan greidd fyrirfram fyrir einn mánuð í senn. Má því ætla að leigusamningur við nýja eigendur húsnæðisins hafi tekið gildi frá 1. maí 2013.

Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsleigulaga, nr. 36/1994, skal leigusali, að leigutíma loknum, segja til þess svo fljótt sem verða má hvort hann gerir kröfu í tryggingarfé eða hefur uppi áskilnað um það. Ella skal hann skila leigjanda tryggingarfénu án ástæðulauss dráttar. Leigusala er aldrei heimilt að halda tryggingarfénu í sinni vörslu án þess að gera kröfu í það lengur en í tvo mánuði frá skilum húsnæðisins, sbr. 1. mgr. 64. gr. laganna. Þá skal tryggingarfé í vörslu leigusala vera verðtryggt, sbr. 4. málsl. sömu málsgreinar. Með hliðsjón af því að leigusamningi aðila hafi lokið þann 1. maí 2013 rann frestur gagnaðila til að gera kröfu í tryggingarféð út þann 1. júlí 2013, sbr. 7. málsl. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að gagnaðili hafi gert kröfu í tryggingarféð. Þegar af þeirri ástæðu er það niðurstaða kærunefndar að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda tryggingarféð auk verðbóta.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda tryggingarféð auk verðbóta.

 

Reykjavík, 8. september 2014

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum