Hoppa yfir valmynd
18. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2014

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 1/2014

 

Eignaskiptayfirlýsing: Gildi, leiðrétting hlutfallstölu. Stofnun lóðarfélags.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 8. janúar 2014, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, C og aðra en ónafngreinda eigendur að D hér eftir nefndir gagnaðilar.

Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru sameiginleg greinargerð gagnaðila, dags. 15. janúar 2014, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 5. febrúar 2014, og athugasemdir gagnaðila, dags. 20 febrúar 2014, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 18. mars 2014.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða lóðina D, alls þrjá matshluta. Álitsbeiðandi er eigandi matshlutar 02 og eignarhlutar 0101 í matshluta 01 en gagnaðilar eru eigendur eignarhluta 0102 - 0105 í matshluta 01 og matshluta 03. Ágreiningur er um eignaskiptayfirlýsingu, hlutfallstölur matshluta og stofnun lóðarfélags. 

Kröfur álitsbeiðanda eru:

I.  Að viðurkennt verði að gera þurfi nýja eignaskiptayfirlýsingu fyrir D þar sem hlutfallstölur lóðar verði reiknaðar að nýju. 

II. Að viðurkennt verði að stofnun lóðarfélags um lóðina hafi verið ólögmæt.

Í álitsbeiðni kemur fram að meginágreiningur sé um hlutfallstölur matshluta 01, 02 og 03 á lóðinni D. Í inngangi eignaskiptayfirlýsingarinnar fyrir matshluta 03, dags. 7. mars 2007, segi: „Athygli er vakin á þinglýstu skjali no. X innfært 18. jan.2007 um samkomulag eigenda eigna á lóð.“ Um sé að ræða kaupsamning, dags. 11. ágúst 2006, milli eigenda matshluta 01 og matshluta 02 sem hafi verið þinglýst þann 17. janúar 2007. Afsal þessa kaupsamnings sé dagsett 17. júlí 2008 og þar sé áréttað að eignarhlutur matshluta 02  í lóð sé 48,03%. Í lóðarkafla eignaskiptayfirlýsingarinnar fyrir matshluta 03 frá 7. mars 2007 séu hlutfallstölur matshluta hins vegar skráðar með eftirfarandi hætti: Matshluti 01 30,45%, matshluti 02 28,15% og matshluti 03 30,45%. Augljóst misræmi sé í eignaskiptayfirlýsingunni. Álitsbeiðandi greinir frá því að ágreiningur málsins snúist um hvort þinglesinn kaupsamningur um 48,03% eignarhluta matshluta 02 í lóð skuli standa eins og álitsbeiðandi geri kröfu um.

Álitsbeiðandi telur að staðalútreikningur sem beitt hafi verið í eignaskiptayfirlýsingu á hlutfallsskiptingu lóðar þar sem rúmmál hvers matshluta hafi verið vegið á móti heildarlóð án tillits til fyrirliggjandi gagna geti ekki haft gildi í máli þessu. Sérstök ástæða hafi verið til að vefengja niðurstöður í lóðarkafla eignaskiptayfirlýsingarinnar fyrir matshluta 03 frá 7. mars 2007 þar sem ekki hafi verið vísað í þinglýsta kaupsamninginn í formála hennar.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að deilur um lóðina hafi hafist þegar eigendur hafi farið að gera athugasemdir við umgengni álitsbeiðanda á lóðinni. Álitsbeiðandi hafi komist upp með nýtingu lóðarinnar án mikilla athugasemda þar til fyrir rúmu ári síðan. Mikill ágreiningur hafi verið um nýtingu á sameiginlegri lóð. Álitsbeiðandi langtímanýti lóðina fyrir gáma, númerslausar bifreiðir, kerrur o.fl. Tveir 40 feta gámar séu lagðir þvert á bílastæði sem aðrir eigendur þurfi að nota og þá sé 20 feta gámur einnig á lóðinni ásamt númerslausri stórri sendibifreið. Samkvæmt mati gagnaðila stafi bæði slysa- og brunahætta af umgengi álitsbeiðanda. Til að mynda sé einn 40 feta gámur fullur af dekkjum, olíum og varahlutum í E sem hann þjónusti. Sá gámur sé við neyðarútgang að gistiheimili sem sé í rekstri álitsbeiðanda. Kerrur og annað drasl geti fokið til og valdið skaða o.fl. Gagnaðilar hafi haft áhyggjur af rétti sínum komi umgengi og yfirgangur álitsbeiðanda til með að valda þeim tjóni sem mögulega verði ekki bætt úr.

Gagnaðilar greina frá því að samskipti við álitsbeiðanda hafi strax orðið erfið þegar athugasemdir hafi verið gerðar við umgengni hans. Úrlausnir virðist erfiðar og vilji eigenda standi til að forðast átök eða of mikið návígi við álitsbeiðanda. Hann hafi með framkomu sinni algjörlega virt að vettugi vilja annarra eigenda með reglur um umgengni samkvæmt samþykktum nýstofnaðs lóðarfélags. Hann hafi hunsað vilja gagnaðila og hafi farið um lóðina með hrópunum. Að mati álitsbeiðanda hafi það verið svo að ef eignarprósenta hans í sameiginlegri lóð sé yfir 50% geti hann ráðið öllu og aðrir eigendur séu þá í hans félagi þar sem hann setji reglur. Greint er frá því að gagnaðilar í máli þessu séu fjórir. Á lóðinni D standi þrjú hús, matshluti 01 og matshluti 02 sem séu hús nr. 7 og matshluti 03 sem sé hús nr. 9. Húsin standi á leigulóð sem sé sameiginleg lóð, ein og óskipt. Á sameiginlegri lóð húsanna séu teiknuð 36 bílastæði og staðsetning sorps. Aksturskvöð sé til að hindra ekki aðgengi að eignum. Eignarprósenta eða stærðarhlutar lóðarinnar hafi ákvarðast af stærð og rúmmáli eigna. Eftir þeirri reiknireglu og skiptingu og samkvæmt þinglýstum eignaskiptasamningi hafi rekstrarkostnaður sameiginlegrar lóðar verið greiddur. Gagnaðilar hafi virt samþykktan og þinglýstan eignaskiptasamning, skjal X, frá apríl 2007, og þeir hafi keypt sínar eignir þar sem vitnað hafi verið í þann samning. Gagnaðilar vekja athygli á að stuttu áður hafi annar samningur verið gerður af sama aðila sem hafi verið undirritaður af sömu aðilum, sem hafi undirritað nýjan samning fyrir matshluta 03, þ.e. gildandi samning sem hafi yfirtekið eldri samninga og álitsbeiðandi hafi talið rangan í dag. Í þeim eignaskiptasamningi sé vakin athygli á þinglýstu skjali nr. X innfærðu 18. janúar 2007. Skjalið hafi verið samkomulag kaupanda og seljanda þar sem fram hafi komið að kaupandi hafi samþykkt að seljandi myndi byggja nýtt hús, matshluta 03 hús nr. 9 á lóðinni. Seljandi hafi einnig samþykkt nýtingu kaupanda á keyptri eign sinni um rekstur gistiheimilis og að seljandi myndi stofna lóðarfélag, útbúa eignaskiptasamning, greiða fyrir teiknivinnu o.fl. Hvergi í því skjali sé tilgreind stærðarprósenta matshluta 02 í lóð. Lóðin hafi verið skilgreind sem sameiginleg og óskipt af byggingaryfirvöldum, þar sem eignarprósenta skuli ákvarðast af rúmmáli eigna en ekki hentisemi. Einnig hafi verið vitnað til afsals, skjals nr. X, sem þinglýst hafi verið 23. október 2008. Þar hafi komið fram að eignarhlutur matshluta 02 í lóð sé 48,03%. Handvömm þess er afsalið gerði hafi verið að hafa ekki lesið þinglýstan eignaskiptasamning, þar sem skýrt komi fram að eignarhlutur matshluta 02 sé 28,15%. Þetta hafi verið orð lögmanns í þinglýsingardeild sýslumannsins í F um afsalið.

Rök álitsbeiðanda séu talin vera þau að afsalið, sem sé skjal á milli tveggja manna, hafi tekið yfir samþykktan og þinglýstan eignaskiptasamning þar sem afsali sé þinglýst á eftir gildandi eignaskiptasamningi. Rök þess aðila sem álitsbeiðandi hafi ráðið til að gera nýja eignaskiptayfirlýsingu á árinu 2012 séu þau að bygging á matshluta 03 og eignarhlutur í lóð skuli eingöngu tekin og byggður á kostnað matshluta 01 og prósentu í stærðarhluta matshluta 01 í sameiginlegri lóð. Að matshluti 02 haldi allri sinni eignarprósentu í lóð, eins og hafi verið fyrir skiptingu, eða 48,03%. Í krafti stærri eignarhlutar hafi álitsbeiðandi því talið sig geta hagað sér með þeim hætti sem raunin sé. Gagnaðilar geti ekki fallist á framangreind rök.

Fram kemur að gagnaðilar hafi óhjákvæmilega leitt hugann að því hvort lagt hafi verið af stað með einhvern gjörning sem á síðari stigum hafi ekki gengið upp. Greint sé frá því að í greinargerð þess aðila sem gerði nýjan eignaskiptasamning að beiðni álitsbeiðanda komi fram að athygli hafi verið vakin á þinglýstu skjali nr. X innfærðu 18. janúar 2007 um samkomulag milli eigenda að lóð. Skjalið sé umræddur kaupsamningur, dags. 11. ágúst 2006, þar sem fyrri eigandi matshluta 02 hafi selt matshluta 02 til kaupanda. Með öðrum orðum hafi kaupsamningur orðið hluti eignaskiptayfirlýsingar fyrir matshluta 03. Aðilar að þessu samkomulagi, X, hafi verið kaupandi og fyrrum eigandi matshlutar 02. Aðilar að afsalinu sem hafi verið gert síðar hafi verið fyrrum eigandi matshlutar 02 og kaupandi en bú beggja þessara aðila hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta.

Um stofnun lóðarfélagsins vísa gagnaðilar til þess að eins og fram komi í skjali X hafi seljandi í þeim samningi tekið að sér að stofna lóðarfélag. Kennitala hafi því verið til þegar G hafi tekið að sér að stofna félagið. Eigendur hafi ákveðið að leita til G sem fagaðila og til að vera ráðgefandi aðili við gerð samþykkta fyrir félagið og um reglur og umgengni ásamt því að stýra stofnfundi félagsins á löglegan og réttan hátt. Álitsbeiðandi hafi verið á stofnfundinum og skráð sig á mætingalistann. Hann hafi gefið kost á sér í stjórn og skipi þriggja manna stjórn félagsins. Hann hafi lagt til mun hærra árgjald fyrir félagið en samþykkt hafi verið en greiði síðan ekki gjaldið til félagsins.

Gagnaðilar ítreka að mikill ágreiningur hafi verið um nýtingu lóðarinnar. Gagnaðilar vísa öllum kröfum álitsbeiðanda á bug og byggja á því að gildandi eignaskiptasamningur sé réttur. Þá er lýst yfir vantrausti á þann aðila sem gerði eignaskiptasamning að beiðni álitsbeiðanda sem hafi átt að koma að máli þessu sem hlutlaus aðili. Álitsbeiðandi hafi hindrað starfsemi gagnaðila um langan tíma og telji sig í fullum rétti til þess.

Í athugasemdum áréttar álitsbeiðandi ástæðu þess að hin almenna reikniregla um útreikning á prósentueign lóðarhafa geti ekki átt við um lóðina D og þær eignir sem á henni standi eins og gert hafi verið í eignaskiptayfirlýsingu dagsettri 7. mars 2007 fyrir matshluta 03. Álitsbeiðandi greinir frá því að þegar matshluti 01 hafi byggt matshluta 03 hafi matshluti 01 fengið leyfi hjá matshluta 02 til að byggja skemmu á lóðinni allt að 500 fermetrum. Ástæða þess að matshluti 02 hafi haldið 48,03% eign sinni í lóðinni samkvæmt afsali sem hafi verið gert þann 27. október 2008 sé sú að álitsbeiðandi hafi í upphafi keypt matshluta 02 í þeim tilgangi að reka gistiheimili. Til þess að það sé mögulegt að reka gistiheimili í matshluta 02, sem sé nú starfsmannaíbúðir, þurfi að uppfylla skyldur um ákveðinn fjölda bílastæða, sem einnig þurfi fyrir starfsmannaíbúðir. Af þeirri ástæðu hafi hluti samkomulagsins í kaupsamningi, dags. 11. ágúst 2006, um að matshluti 02 myndi halda eignarhluta sínum 48,03% í lóð þrátt fyrir að matshluti 01 hafi byggt 500 fermetra skemmu sem síðar hafi orðið matshluti 03. Þetta sé áréttað í afsali, dags. 17. júlí 2008, enda hafi þetta verið forsenda kaupa álitsbeiðanda. Þá tekur álitsbeiðandi fram að 500 fermetra skemman hafi reynst vera 560 fermetrar við uppmælingu.

Í athugasemdum gagnaðila er ítrekað lögð áhersla á að lóðin D sé skilgreind sameiginleg. Stærð og rúmmál eigna hafi ákvarðað eignarprósentu í lóðinni eftir reiknireglu frá byggingayfirvöldum sem gagnaðilar hafi ekkert með að gera. Eftir þeirri reiknireglu og skiptingu og samkvæmt þinglýstum eignaskiptasamningi sé rekstrarkostnaður sameiginlegrar lóðar skilgreindur. Þá séu fasteigna- og lóðargjöld greidd til H eftir þeirri reiknireglu.

Þegar sótt hafi verið um byggingarleyfi fyrir matshluta 03 til byggingaryfirvalda hafi verið sótt um byggingarleyfi á skilgreindri sameiginlegri 3.000 fermetra lóð. Lóðinni hafi þá verið skipt eftir stærð og rúmmáli þeirra eigna sem hafi átt að standa við lóðina. Skipting lóðar milli manna eftir hentisemi og án vitneskju byggingayfirvalda eða sýslumanns geti ekki yfirtekið samþykktan og þinglýstan eignaskiptasamning. Allir hafi keypt eignir þar sem vitnað hafi verið í samþykktan og þinglýstan eignaskiptasamning og gagnaðilar hafi allir virt. Allir eigendur hafi keypt eignir af sama aðila, þ. á m. álitsbeiðandi.

Þegar byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir matshluta 03 hafi verið gerð krafa um að þrettán bílastæði myndu vera við hús nr. 9 ásamt staðsetningu sorps. Bílastæðin hafi öll verið teiknuð við hús nr. 9. Þessa kröfu þurfi að uppfylla til að lokaúttekt geti fengist fyrir húsið. Álitsbeiðandi hafi lagt 40 fermetra gámi þvert á stæðin ásamt þremur kerrum. Hann hafi því hindrað allt aðgengi að húsinu þannig að ekkert sé hægt að aðhafast með að klára framkvæmdirnar. Álitsbeiðandi hafi því hindrað framkvæmdir og starfsemi gagnaðila mjög alvarlega.

Gagnaðilar hafna þeim rökum að matshluti 02 haldi allri sinni eignarprósentu eftir byggingu matshlutar 03. Aldrei hefði fengist byggingarleyfi fyrir matshluta 03 hjá byggingaryfirvöldum á þeim forsendum sem álitsbeiðandi haldi fram. Ef sótt hefði verið um byggingarleyfið á þann hátt að matshluti 02 myndi halda eignarhluta sínum eins og hann hafi verið fyrir skiptingu hefði ekki verið gefið út byggingarleyfi fyrir matshluta 03. Að álitsbeiðandi fái að nýta lóðina eins og hann geri í dag að eigin geðþótta og án tillitssemi við aðra eigendur og þarfa þeirra hafna gagnaðilar alfarið.

Gagnaðilar ítreka vantraust á vinnu þess aðila sem hafi verið að vinna í nýrri eignaskiptayfirlýsingu fyrir álitsbeiðanda sem hafi átt að koma að þessu máli sem hlutlaus aðili. Hann hafi verið ráðinn í vinnu af álitsbeiðanda. Þá hafi hann með einstrengislegum hætti farið gegn öðrum eigendum en á sama tíma hafi hann talið sig vera að vinna fyrir þá. Hann hafi ruglað saman reglum lóðarfélagsins um umgengni og eignarprósentu í lóð. Þá hafi hann að mati gagnaðila verið sá ráðgjafi fyrir álitsbeiðanda sem hann hafi þurft á að halda og að hluta til þess vegna hafi viðhorf álitsbeiðanda orðið óhagganlegt. 

III. Forsendur

Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, á sérhver eigandi kröfu á því að hlutfallstölur sýni og endurspegli rétta skiptingu hússins og séu þannig réttur eða eðlilegur grundvöllur að skiptingu viðkomandi réttinda og skyldna.

Ágreiningur er um lóðarhlutdeild álitsbeiðanda að D en á lóðinni standa þrír matshlutar eða samtals ellefu eignarhlutar. Álitsbeiðandi er eigandi matshlutar 02 og eignarhluta 0101 í matshluta 01. Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu um matshluta 01, dags. 15. janúar 2007, innfærðri til þinglýsingar þann 18. janúar sama ár, var hlutfallstala matshlutar 02 í lóð og heildarhúsi ákvörðuð 48,03%. Matshluti 03 var byggður á lóðinni á árinu 2006. Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu um matshluta 03, dags. 7. mars 2007, innfærðri til þinglýsingar þann 26. apríl sama ár, voru hlutfallstölur matshluta 01 og 02 vegna skiptingar lóðar reiknaðar að nýju og niðurstaðan var að hlutfallstala matshlutar 02 í lóð og heildarhúsi var ákvörðuð 28,15%.

Álitsbeiðandi krefst þess að viðurkennt verði að hlutfallstala matshlutar 02 í lóð sé 48,03%. Telur hann þá hlutfallstölu í samræmi við annars vegar samkomulag sem gert var samhliða kaupsamningi þann 11. ágúst 2006, innfærðum til þinglýsingar þann 17. janúar 2007, og hins vegar afsal, dags. 17. júlí 2008, innfærðu til þinglýsingar þann 23. október 2008. Samkvæmt nefndum kaupsamningi var álitsbeiðandi kaupandi að eignarhluta 02 0101. Með nefndu samkomulagi samþykkti álitsbeiðandi meðal annars byggingu á nýju ca. 500 fermetra húsi á lóðinni. Í afsalinu þar sem seljandi afsalar eignarhluta 02 0101 til álitsbeiðanda kemur fram að hlutdeild eignarhlutans í lóðinni sé 48,03%. Álitsbeiðandi hefur vísað til þess að í eignaskiptayfirlýsingu um matshluta 03 sé vakin athygli á þinglýstu skjali nr. X um samkomulag eigenda eigna á lóð. Þá telur álitsbeiðandi að í afsalinu felist leiðrétting á gildandi eignaskiptayfirlýsingu um skiptingu lóðar.

Gagnaðilar benda á að lóðin sé skilgreind sem sameiginleg og óskipt af byggingaryfirvöldum þar sem eignarprósenta ákvarðist af rúmmáli eigna. Gagnaðilar fallast ekki á að fyrrnefnt afsal geti gengið framar samþykktum og þinglýstum eignaskiptasamningi.

Í málinu liggur fyrir eignaskiptayfirlýsing um matshluta 03, dags. 7. mars 2007, innfærð til þinglýsingar þann 26. apríl sama ár, meðal annars undirrituð af álitsbeiðanda, þar sem fram kemur að hlutfallstala matshlutar 02 sé 28,15%. Gögn málsins bera með sér að álitsbeiðandi hafi samþykkt byggingu á matshluta 03, sbr. fyrrnefnt þinglýst samkomulag, dags. 11. ágúst 2006. Tilkoma matshlutar 03 hafði óhjákvæmilega í för með sér breytingar á lóðarskipan og þar af leiðandi var fjallað um matshluta 01 og 02 í tengslum við skiptingu lóðar í eignaskiptayfirlýsingu vegna matshlutar 03. Kærunefnd telur að í fyrrnefndu afsali, dags. 17. júlí 2008, hafi ekki verið tekið mið af eignaskiptayfirlýsingu um matshluta 03 en í afsalinu kemur fram að lóðarhlutdeild eignarhlutans 02 0101 sé 48,03% sem samræmist ekki gildandi eignaskiptayfirlýsingu, dags. 7. mars 2007, um skiptingu lóðar að D, en það hefur þó ekki áhrif á gildi eignaskiptayfirlýsingarinnar.  Þá telur kærunefnd að sú staðreynd að vakin hafi verið athygli á þinglýstu samkomulagi álitsbeiðanda og seljanda í tengslum við kaup hins fyrrnefnda á matshluta 02 0101 í eignaskiptayfirlýsingu um matshluta 03 geti ekki haft þau áhrif að viðurkennt verði að lóðarhlutdeild matshluta 02 sé 48,03%. Um er að ræða samkomulag meðal annars um byggingu á matshluta 03 en ekki verður ráðið svo ótvírætt sé að gert hafi verið samkomulag um að matshluti 02 myndi halda 48,03% lóðarhlutdeild eftir byggingu matshlutar 03. Eðli máls samkvæmt telur kærunefnd að fyrrnefnd eignaskiptayfirlýsing um matshluta 03 gangi framar nefndu afsali sem álitsbeiðandi byggir rétt sinn á. Kærunefnd fellst því ekki á að leiðrétta beri eignaskiptayfirlýsingu á þeim grunni að lóðarhlutdeild matshluta 02 sé 48,03%.

Kærunefnd bendir þó á að skv. 3. mgr. 18. gr. laga um fjöleignarhús getur hver eigandi, sem telur hlutfallstölur rangar eða eignarhlutföllin í húsinu óeðlileg eða ósanngjörn, krafist breytinga og leiðréttinga þar á. Fáist aðrir eigendur ekki til að standa að nauðsynlegum breytingum getur viðkomandi fengið dómkvadda matsmenn til að endurreikna eða endurákvarða hlutfallstölur í húsinu, sbr. 4. mgr. Náist ekki samkomulag að fengnu mati skv. 4. mgr. getur eigandi, sem breyta vill á grundvelli þess, höfðað mál á hendur öðrum eigendum til ógildingar á gildandi eignarhlutföllum og viðurkenningar á hinum nýju. Gangi dómur honum í vil getur hann fengið dómsorðinu þinglýst sem kemur þá og þannig í stað eignaskiptayfirlýsingar.

Þá telur álitsbeiðandi stofnun lóðarfélags um D ólögmæta. Samkvæmt kaupsamningi álitsbeiðanda og seljanda að matshluta 02 0101, dags. 11. ágúst 2006, var samþykkt stofnun lóðarfélags um lóðina. Lóðarfélag var stofnað sama ár og skráð með kennitölu. Álitsbeiðandi fjallar um að stofnað hafi verið nýtt lóðarfélag þann 11. september 2013. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að stofnfundur félagsins hafi fyrst verið formlega haldinn þann dag en fram kemur í stofnfundargerð að í raun hafi verið komið á félag til að fara með sameiginleg mál og halda utan um sameiginlegan rekstur lóðarinnar. Gögn málsins bera með sér að félagið starfi undir sömu kennitölu og stofnuð var á árinu 2006 og að tilgangur þess sé hinn sami. Álitsbeiðandi telur að hann skuli fara með meirihluta atkvæða í félaginu sem eigandi eignarhlutar 0101 í matshluta 01 og matshlutar 02 en álitsbeiðandi telur matshluta 02 hafa hlutfallstöluna 48,03% í lóð. Eins og greinir hér að framan samræmist það ekki áliti kærunefndar. Kærunefnd telur að vægi atkvæða álitsbeiðanda í lóðarfélaginu skuli fara eftir viðeigandi ákvæðum laga um fjöleignarhús, nr. 24/1996, og hlutfallstölu lóðar samkvæmt gildandi eignaskiptayfirlýsingu, dags. 7. mars 2007.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um að viðurkennt verði að hlutfallstala lóðar vegna matshlutar 02 sé 48,03%.

Það er álit kærunefndar að stofnun lóðarfélags um lóðina hafi verið lögmæt.

Reykjavík, 18. mars 2014

Auður Björg Jónsdóttir

Karl Axelsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum