Hoppa yfir valmynd
8. maí 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 63/2012

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

 í máli nr. 63/2012

 

Sameiginlegur kostnaður: Ytri gluggaumbúnaður.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 19. nóvember 2012, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags 3. desember 2012, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 14. desember 2012 og athugasemdir gagnaðila, dags. 29. janúar 2013, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 8. maí 2013.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið B, alls 34 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar X. Ágreiningur er um skiptingu kostnaðar.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að falslöm á opnanlegum glugga teljist til sameignar.

Í álitsbeiðni kemur fram að gluggaumbúnaður sé skemmdur. Eldhúsgluggi hafi opnanlega gluggaramma. Gluggaramminn (falsið) sé festur við gluggagrindina (tréverkið) með falslömum. Tvær falslamir séu á opnanlega gluggarammanum til að halda rammanum í falsinu. Opnanlegi glugginn sé nánast aldrei notaður. Haustið 2012 hafi komið í ljós að opnanlegi glugginn sé skemmdur. Álitsbeiðandi hafi haft samband við húsvörð hússins. Húsvörðurinn hafi sent viðgerðarmann sem hafi komið og lagað gluggann. Þá hafi komið í ljós að falslömin hægra megin hafi verið brotin og skemmd.

Álitsbeiðandi telji að gluggaumbúnaðurinn og falslömin sé sameign hússins og að viðgerðarkostnaður skuli greiðast sameiginlega. Stjórn gagnaðila hafi hafnað því að um sameiginlegan kostnað væri að ræða.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að stjórn gagnaðila hafi á fundi stjórnar þann 21. nóvember 2012 kallað til tæknifræðing sem hafi setið í byggingarnefnd hússins fyrir hönd Samtaka aldraðra auk þess sem álitsbeiðandi hafi komið á fundinn. Málið hafi verið rætt og skoðað vandlega og niðurstaða stjórnar hafi orðið sú að eigandi íbúðarinnar eigi alfarið að bera þann kostnað sem fylgi viðgerð.

Í athugasemdum álitsbeiðenda ítrekar álitsbeiðandi það sem fram kom í álitsbeiðni.

Í athugasemdum gagnaðila ítrekar gagnaðili það sem fram kom í greinargerð.

 

III. Forsendur

Samkvæmt 3. tölul. 8. gr. laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús, fellur allur ytri gluggaumbúnaður, bæði á séreignarhlutum og sameign, undir sameign fjöleignarhúss. Hins vegar telst sá hluti gluggaumbúnaðar sem er inni í séreign, svo og gler í gluggum og hurðum, séreign, sbr. 5. tölul. 5. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Í máli þessu er deilt um hvort búnaður sem staðsettur er í falsi milli gluggakarms og fags teljist sameiginlegur kostnaður. Að því virtu að búnaður þessi tengist eingöngu notkun viðkomandi séreignar er það álit kærunefndar að falslöm á opnanlegum glugga teljist til séreignar.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að falslöm á opnanlegum glugga teljist til séreignar.

 

Reykjavík, 8. maí 2013

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir
Karl Axelsson
Ásmundur Ásmundsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum