Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 13/2002: Dómur frá 4. febrúar 2003.

Ár 2003, þriðjudaginn 4. febrúar,  er í Félagsdómi í málinu nr. 13/2002:

Starfsmannafélag Akureyrarbæjar f.h.

Fanneyjar Harðardóttur

(Gísli G. Hall hdl.)

gegn

fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna

Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

kveðinn upp svofelldur

dómur:

Mál þetta, sem dómtekið var 22. janúar síðastliðinn, er höfðað 27. nóvember 2002.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Kristján Torfason og Guðni Á. Haraldsson.

 

Stefnandi er Starfsmannafélag Akureyrarbæjar, f.h. Fanneyjar Harðardóttur, Berjaklöpp, Akureyri.

 

Stefndi er fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.

 

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda beri skv. grein 2.3.3 í gildandi kjarasamningi STAK og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs að greiða minnst 4 klst. í yfirvinnukaup fyrir hvert skipti sem starfsmaður er kallaður til vinnu sem ekki er í beinu framhaldi eða undanfari daglegrar vinnu hans. Þá er krafist málskostnaðar.

 

Dómkröfur stefnda 

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

 

Málavextir

Starfsmannafélag Akureyrarbæjar (hér eftir nefnt STAK) er aðili að kjarasamn-ingi við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs vegna starfa við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (eftirleiðis nefnt FSA). Er gildandi kjarasamningur fyrir tímabilið frá 1. apríl 2001 til 30. nóvember 2004 og tekur hann m.a. til starfs Fanneyjar Harðardóttur geislafræðings hjá FSA. Í kafla 2.3 í kjarasamningnum er fjallað um yfirvinnu. Ákvæði um útköll á bakvakt er í grein 2.3.3 og er svoljóðandi:

,,Þegar starfsmaður er kallaður til vinnu sem ekki er í beinu framhaldi eða undanfari daglegrar vinnu hans, skal honum greitt yfirvinnukaup minnst 4 klst.”

Hefur ákvæðið staðið óbreytt í kjarasamningum í áraraðir með þeirri breytingu að við gerð síðasta samnings var yfirvinnustundum fjölgað úr tveimur í fjórar.

Á árunum 1983 og 1984 reis ágreiningur um túlkun á framangreindu kjarasamningsákvæði og lét launadeild Akureyrarbæjar frá sér fara þá túlkun á ákvæðinu að yrði annað útkall innan 2ja tíma frá því að fyrra útkallið hófst teldist það ekki nýtt útkall heldur framhald hins fyrra. Þessari túlkun var mótmælt af viðkomandi starfsmönnum FSA og var málið lagt fyrir kjaranefnd STAK og Akureyrarbæjar 7. október 1983 þar sem túlkun launadeildar bæjarins var staðfest.  Málið var enn tekið fyrir á fundi nefndarinnar 4. janúar 1984 og varð niðurstaðan hin sama. Starfsmenn leituðu álits lögmanns BSRB á því hvernig túlka bæri kjarasamningsákvæðið og er álit hans dagsett 26. júlí 1984. Þá gaf bæjarlögmaður Akureyrarbæjar álit í málinu 21. janúar 1986 þar sem í meginatriðum var tekið undir túlkun lögmanns BSRB. Þann 22. janúar 1986 kom svo kjaranefnd STAK og Akureyrarbæjar saman og samþykkti eftirfarandi:

„Kjaranefnd samþykkir að grein 2.5.3 í kjarasamningi STAK og Akureyrarbæjar verði túlkuð í samræmi við álit bæjarlögmanns, dags. 21. janúar 1986, sem er í meginatriðum í samræmi við álit Gests Jónssonar hrl. Gildir frá 1. janúar 1985.“

Frá þessum tíma hefur enginn ágreiningur verið um greiðslur útkalla á FSA samkvæmt kjarasamningsákvæðinu þar til STAK var tilkynnt með rafbréfi FSA 7. ágúst 2002 að ákveðið hefði verið á fundi 30. júlí sama ár að breyta framkvæmdinni á þann hátt að svonefndum greiðslutíma fyrra útkalls yrði að vera lokið til þess að starfsmaður ætti rétt á fullri útkallsgreiðslu fyrir næsta útkall. Þessari ákvörðun FSA hefur STAK mótmælt og er málið höfðað til staðfestingar á skilningi hins síðarnefnda á ofangreindu kjarasamningsákvæði. Fram er komið í málinu að íslenska ríkið tók við rekstri FSA á árinu 1990.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Krafa stefnanda er einkum reist á ákvæði 2.3.3 í kjarasamningi STAK og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs með gildistíma frá 1. apríl 2001 til 30. nóvember 2004. Í ákvæðinu sé kveðið á um að starfsmaður eigi rétt á 4 klst. yfirvinnugreiðslu þegar hann er kallaður til vinnu sem er ekki í beinu framhaldi eða undanfari daglegrar vinnu hans. Frá 1. janúar 1985 hafi  það verið óumdeilt milli samningsaðila að greiða eigi fyrir hvert útkall óháð því hvort greiðslu fyrir fyrra útkall sé lokið eða ekki. Sé  því um áralanga túlkun og framkvæmd á kjarasamningsákvæði að ræða sem haldist hafi óbreytt mörg samningstímabil. Að mati stefnanda verði slíkri framkvæmd ekki breytt nema með uppsögn á sjálfum kjarasamningnum. Geti stefndi ekki einhliða sagt þessum hluta samningsins upp heldur verði ákvörðun um breytta framkvæmd að vera samningsatriði milli aðila í nýjum kjarasamningi. Ekki hafi verið hróflað við þessari framkvæmd við endurnýjun kjarasamninga heldur ávallt verið gengið út frá tilvist hennar við samningagerð. Því til stuðnings bendi stefnandi á að frá gildistöku núgildandi kjarasamnings þann 1. apríl 2001 og fram til 1. september 2002 hafi starfsmenn fengið greitt fyrir hvert og eitt útkall óháð því hvort greiðslu fyrir fyrra útkall hafi verið lokið þegar hið síðara byrjaði. Áralöng og óumdeilanleg framkvæmd  á launauppgjöri staðfesti þannig skilning stefnanda. Telur stefnandi augljóst að tilvist þessarar framkvæmdar hafi haft áhrif á hvernig samist hafi um kaup og kjör félagsmanna hans þann tíma sem framkvæmd þessi hafi verið við lýði.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er á því byggt að hann hafi aldrei gengið út frá tilvist þeirrar framkvæmdar á nefndu kjarasamningsákvæði við kjarasamningsgerð. Þvert á móti hafi stefndi sjálfur gengið út frá því að framkvæmd ákvæðisins sé og hafi verið með öðrum hætti en stefnandi heldur fram og virðist hafa viðgengist hjá FSA. Þessi tiltekna túlkun stefnanda á samningákvæðinu hafi aldrei verið til umfjöllunar sem samningsatriði við kjarasamningsgerð aðila þessa máls og þar af leiðandi telji stefndi að túlkunin/framkvæmdin geti ekki talist hluti af formlegum kjarasamningi aðila.

Stefndi hafi ekki verið aðili að kjarasamningi við stefnanda vegna starfsmanna hjá FSA árin 1983 og 1984 þegar ágreiningur reis um túlkun kjarasamningsákvæðis um útköll á bakvakt og leystur var með samþykkt kjaranefndar stefnanda og Akureyrarbæjar 22. janúar 1986. Í kjarasamningsviðræðum stefnda og viðkomandi stéttarfélaga, eftir að ríkið yfirtók rekstur FSA árið 1990, hafi allar undantekningar og frávik hjá FSA á framkvæmd vinnusamninga, að því er talið hafi verið, verið teknar upp á borðið og samræmdar framkvæmd stefnda vegna annarra vinnusamninga. Við þá samningsgerð hafi aldrei komið fram af hálfu viðsemjenda stefnda að greiðslur fyrir útköll væru með þeim hætti sem stefnandi kveður nú vera. Hafi stefndi aldrei samþykkt þessa framkvæmd, sem hann telur hafa verið mistök, og telur sig því ekki  bundinn af henni.

Fyrir síðustu kjarasamninga hafi greiðsla fyrir útkall annars vegar verið minnst 2 klst. í yfirvinnukaup ef starfsmaður var á bakvakt, sbr. grein 2.5.3 kjarasamnings fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Starfsmannafélags Akureyrarbæjar, dags. 30. apríl 1997, og hins vegar minnst 4 klst. ef starfsmaður var ekki á bakvakt, sbr. grein 2.3.3 sama kjarasamnings. Í núgildandi kjarasamningi aðila segi í grein 2.5.3 að bakvaktar- greiðsla falli niður fyrir þann tíma sem yfirvinnukaup er greitt. Grein 2.3.3 sé hins vegar óbreytt og nái nú bæði yfir greiðslur fyrir útkall þegar starfsmaður er á bakvakt og ekki.  Eigi því starfsmaður rétt á að fá greitt yfirvinnukaup minnst 4 klst. fyrir hvert útkall hvort sem hann er á bakvakt eða ekki. Um þetta atriði hafi verið gert samkomulag 22. mars 2001 milli BSRB og stefnda, sbr. 4. grein þess, en stefnandi sé eitt af aðildarfélögum BSRB.  Í gildistökuákvæði samkomulagsins komi fram að gert sé ráð fyrir breytingum til samræmis við samsvarandi greinar í öðrum kjarasamningum. Kjarasamningur stefnanda við stefnda sé einn þessara kjarasamninga.  Það sé því ekki rétt, sem fram komi í málsatvikalýsingu í stefnu, að grein 2.3.3 um útköll á bakvakt hafi staðið óbreytt í kjarasamningnum í tugi ára með þeirri breytingu einni að við gerð síðasta samnings hafi yfirvinnustundum verið fjölgað úr tveimur í fjórar. Hið rétta sé að í síðustu kjarasamningum hafi grein 2.5.3 um minnst 2 klst. yfirvinnukaup fyrir útkall á bakvakt verið felld niður og grein 2.3.3 einnig látin ná yfir útköll á bakvakt.  Hefði stefndi aldrei samþykkt breytingu á að hækka greiðslur fyrir útkall á bakvakt úr  2 klst. í  4 klst. í yfirvinnukaup hefði hann vitað um þessa tilteknu framkvæmd á kjarasamningi við stefnanda.

Við ofangreint samkomulag BSRB og stefnda hafi verið gerð sérstök bókun varðandi vinnutíma. Í henni komi fram að ákvæði í kjarasamningum aðildarfélaga, sem kveða á um að bakvaktagreiðslur á stórhátíðardögum falli ekki niður í útköllum, haldist óbreytt hjá þeim félögum sem það kjósi. Verði samkomulag um að ákvæði þessi haldist óbreytt muni lágmarkstímafjöldi vegna útkalla á stórhátíðum jafnframt haldast óbreyttur frá því sem áður var, þ.e. 2 klst. fyrir hvert útkall.  Í bókuninni séu greinar 2.5.3 og 2.5.4 í kjarasamningi STAK teknar sem dæmi í þessu samhengi. Sé bókunin gott dæmi um heimild fyrir stéttarfélag, sem svo kýs, til þess að víkja frá kjarasamningi ríkisins og heildarsamtaka stéttarfélaga, hér BSRB. Sú framkvæmd á kjarasamningi, sem tíðkuð hafi verið á milli stefnanda og FSA og byggi á samþykkt kjaranefndar stefnanda og Akureyrarbæjar frá 22. janúar 1986, sé því ekki hluti af formlegum kjarasamningi stefnanda og stefnda enda komi stefndi ekki á nokkurn hátt að ofangreindri samþykkt. Eðlilegast sé því að líta á samþykkt kjaranefndar stefnanda og Akureyrarbæjar sem sérstakt samkomulag sem hægt sé að segja upp án þess að til komi  formleg uppsögn á kjarasamningi aðila. Í samræmi við ofangreint lítur stefndi svo á að netbréf starfsmannastjóra FSA um framkvæmd á kjarasamningsákvæði um greiðslur fyrir útköll beri að skilgreina sem lögmæta uppsögn á sérstöku samkomulagi kjaranefndar stefnanda og Akureyrarbæjar frá 1986.

Við gerð síðustu kjarasamninga hafi stefndi átt í viðræðum við Kjarna stéttarfélög opinberra starfsmanna sem komið hafi fram fyrir hönd tólf tilgreindra stéttarfélega. Niðurstaða af þessum samningaviðræðum hafi orðið samkomulag aðila um breytingar og framlengingu á kjarasamningum þessara aðila fyrir tímabilið frá 1. apríl 2001 til 30. nóvember 2004. Eitt þessara tólf stéttarfélaga, sem staðið hafi að samkomulaginu, hafi verið stéttarfélag stefnanda. Forsenda þess að stefndi hafi farið í sameiginlegar viðræður við  stéttarfélögin sem einn samningsaðila hafi verið að sama túlkun yrði á sameiginlegum ákvæðum kjarasamningsins hjá öllum stéttarfélögunum.  Geti stefndi því engan veginn fallist á að túlkun á núgildandi ákvæði greinar 2.3.3 í umdeildum kjarasamningi sé mismunandi eftir því hvaða stéttarfélag á í hlut.

Þrátt fyrir sameiginlega samningagerð sé kjarasamningur stefnda við hvert stéttarfélag prentaður í sérútgáfum fyrir hvert og eitt stéttarfélag.  Í sumum útgáfum sé bætt við skýringum á einstökum greinum kjarasamningsins. Þetta eigi til dæmis við um útgáfu á kjarasamningi stefnda og Starfsmannafélags Fjarðarbyggðar sem sé eitt af stéttarfélögum Kjarna stéttarfélaga opinberra starfsmanna. Í skýringu með grein 2.5.3. segi m.a.:  „Sé um endurtekin útköll að ræða með stuttu millibili, skal greiða samfelldan tíma frá upphafi fyrra/fyrsta útkalls þangað til síðara/síðasta útkalli lýkur.“  Sömu skýringu sé að finna í útgáfu á kjarasamningi stefnda og Starfsmannafélags Skagafjarðar.  Þó svo að þessi skýring sé ekki í öllum útgáfum kjarasamningsins felist ekki í því viðurkenning á mismunandi túlkun á samhljóða ákvæðum samkomulagsins.  Verði að ætla að forsvarsmenn stefnanda hafi vitað eða mátt vita um þessa skýringu á kjarasamningsákvæðinu hjá öðrum stéttarfélögum. Stefndi telji að þessi tiltekna skýring í ofangreindum kjarasamningum sé sameiginlegur skilningur stefnda og allra  þeirra stéttarfélaga sem að kjarasamningnum komu að stéttarfélagi stefnanda undanskildu.

 

Niðurstaða

Í kjarasamningsákvæði því, sem deilt er um í máli þessu, er kveðið á um að starfsmaður eigi rétt á 4 klukkustunda yfirvinnugreiðslu þegar hann er kallaður til vinnu sem er ekki í beinu framhaldi eða undanfari daglegrar vinnu hans.

Ágreiningslaust er með aðilum að félagsmönnum stefnanda hefur frá 1. janúar 1985 verið greitt fyrir hvert útkall óháð því hvenær fyrra útkalli lauk. Þá eru aðilar sammála um að framkvæmdin hafi verið sú sama frá því að stefndi tók við rekstri Fjórðungssjúkahússins á Akureyri á árinu 1990 allt þar til stefnda var tilkynnt með rafbréfi 7. ágúst 2002 að sjúkrahúsið hefði ákveðið á fundi 30. júlí sama ár að breyta henni.

Stefnandi mátti treysta því við gerð síðasta kjarasamnings milli aðila, sem tók gildi 1. apríl 2001, að greitt yrði fyrir útköll til samræmis við þá venju sem skapast hafði samkvæmt framansögðu. Verður slíkri venjubundinni framkvæmd almennt ekki breytt nema með nýjum kjarasamningi milli aðila. Getur þar engu breytt hvernig viðlíka samningsákvæði eru eða hafa verið túlkuð af öðrum stéttarfélögum.

Samkvæmt framansögðu er viðurkennt að stefnda beri samkvæmt grein 2.3.3 í gildandi kjarasamningi Starfsmannafélags Akureyrarbæjar og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs að greiða minnst 4 klukkustundir í yfirvinnukaup fyrir hvert skipti sem starfsmaður er kallaður til vinnu sem ekki er í beinu framhaldi eða undanfari daglegrar vinnu hans.

Þá ber eftir þessum úrslitum að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

 

Dómsorð:

Viðurkennt er að stefnda beri samkvæmt grein 2.3.3 í gildandi kjarasamningi Starfsmannafélags Akureyrarbæjar og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs að greiða minnst 4 klukkustundir í yfirvinnukaup fyrir hvert skipti sem starfsmaður er kallaður til vinnu sem ekki er í beinu framhaldi eða undanfari daglegrar vinnu hans.

Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.

 

Helgi I. Jónsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Kristján Torfason

Guðni Á. Haraldsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum