Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 3/2002: Dómur frá 8. júlí 2002

Ár 2002, mánudaginn 8. júlí, var í Félagsdómi í málinu nr. 3/2002

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga

(Gísli Tryggvason hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R:

Mál þetta var tekið til úrskurðar mánudaginn 13. maí sl. að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda.

Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Erla Jónsdóttir, Kristján Torfason og Magnús I. Erlingsson.

 

Stefnandi er Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, kt. 570194-2409, Suðurlandsbraut 22, Reykjavík.

Stefndi er Íslenska ríkið, kt. 550169-2989, Arnarhváli, Reykjavík.

 

Dómkröfur stefnanda 

Stefnandi krefst í fyrsta lagi

1.     viðurkenningar á því að skilja beri ákvæði 1.1.1 svo og önnur ákvæði í þágildandi kjarasamningi aðila þannig að öllum félagsmönnum stefnanda, sbr. nánar á dskj. nr. 3, sem innt höfðu af hendi umsamda vinnuskyldu sína fyrir maí 2001 gagnvart stefnda þegar tímabundið verkfall stefnanda hófst á miðnætti, kl. 00:00, hinn 30. maí 2001, hafi borið full og óskert mánaðarlaun frá stefnda fyrir þann mánuð í samræmi við umsamið starfshlutfall þeirra og að stefnda hafi því verið óheimilt að skerða laun þeirra eins og gert var.

Í öðru lagi krefst stefnandi þess að

2.     stefnda verði með dómi gert að greiða stefnanda

a)  aðallega sekt (févíti) að fjárhæð 2.000.000 kr. en

b)  til vara bætur sem nema sömu fjárhæð í félagssjóð stefnanda vegna brots

á kjarasamningi sem felst í því sem krafist er viðurkenningar á að standist

ekki kjarasamning aðila.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins - að teknu tilliti til þess að um er að ræða einhliða ákvörðun stefnda án samráðs við stefnanda og að blandað er saman óskyldum valdþáttum fjármálaráðherra.

 

Dómkröfur stefnda 

Aðallega að málinu verði vísað frá Félagsdómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Til þrautavara að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað.        

 

Málsatvik

Málavextir eru þeir að stefnandi boðaði þann 14. maí 2001 til verkfalls fyrir hönd félagsmanna sinna dagana 30. til 31. sama mánaðar. Verkfallið, sem dæmt var lögmætt með dómi Félagsdóms frá 29. maí 2001 í máli nr. 13/2001, hófst á miðnætti aðfaranótt miðvikudagsins 30. maí og lauk tveimur sólarhringum síðar. Í verkfallsboðun segir að verkfallið sé gert í þeim tilgangi að stuðla að framgangi fyrirliggjandi krafna stefnanda í yfirstandandi deilu um kjarasamning og taki til þeirra félagsmanna í félaginu sem starfi hjá ríkinu og þeim stofnunum sem ríkið hafi samningsumboð fyrir.

Vegna fyrirhugaðs verkfalls ritaði fjármálaráðuneytið bréf, dags. 23. maí 2001, til heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva og annarra vinnustaða félagsmanna stefnanda. Voru í bréfinu tíundaðar reglur um undanþágur og launagreiðslur í verkfalli. Þar var tekið fram að við útborgun launa 1. júní skyldi draga tvo vinnudaga frá föstum launum og/eða kostnaðargreiðslum hjúkrunarfræðinga í verkfalli ef samningar hefðu ekki náðst fyrir lokavinnslu launanna. Var tekið fram að sú tilhögun væri óháð því hvort viðkomandi ætti vinnuskyldu þessa daga eða ekki, jafnt yrði dregið frá öllum. 

Stefnandi mótmælti þessu við stefnda með bréfi, dags. 31. maí 2001. Var þess krafist að hjúkrunarfræðingar sem skilað hefðu fullum vinnumánuði í samræmi við starfshlutfall sitt fengju full laun fyrir störf sín. Í því fælist að hjúkrunarfræðingar sem ekki hefðu átt að vera við störf verkfallsdagana samkvæmt vinnuskrá, en hefðu innt af hendi vinnuskyldu sína ættu að fá full laun.

Af hálfu stefnda var gerð nánari grein fyrir afstöðu stefnda í bréfi, dags. 11. júní 2001. Þar sagði m.a. að þar sem verkfall stefnanda væri félagsleg aðgerð yrðu allir félagsmenn að sitja við sama borð um frádrátta launa og skipti þá ekki máli hvort um tímabundið eða ótímabundið verkfall væri að ræða. Frádráttur á launum þeirra hjúkrunarfræðinga, sem tóku þátt í verkfallinu, byggðist á þeim reglum sem framfylgt hefði verið við launaútreikning í verkföllum ríkisstarfsmanna.

Stefnandi áréttaði fyrri mótmæli sín í bréfi, dags. 22. október 2001 og taldi að fjöldi hjúkrunarfræðinga sem skilað hefði fullri vinnuskyldu hefði ekki fengið greidd laun fyrir vinnu sína. Ítrekaði félagið að þeir fengju greitt og vísaði til álits laganefndar BHM.

Stefndi svaraði stefnanda bréflega þann 22. nóvember 2001 og áréttaði fyrri afstöðu sína.

Mál þetta var þingfest fyrir Félagsdómi 27. mars sl.

 

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Viðurkenningarkrafa

Almennt

Stefnandi kveður ákvæði 1.1.1 í kjarasamningi aðila orðað með ótvíræðum hætti - "sem gegnir fullu starfi" - þannig að taka beri til greina kröfu stefnanda um viðurkenningu á rétti umræddra starfsmanna til mánaðarlauna, enda hafi þeir gegnt starfi sínu í samræmi við umsamið starfshlutfall. Sjálf fyrirsögn undirkafla l.l í kjarasamningi, "Mánaðarlaun", beri þessum skilningi einnig skýrt vitni. Sama sé að segja um önnur ákvæði kjarasamnings, svo sem 1.1.2 og 1.4.1 þar sem sérstakar reiknireglur komi fram ef umbreyta þurfi mánaðarlaunum/mánaðarkaupi í laun miðað við annað og skemmra tímabil. Sama gildi um ákvæði 1.5.1, 1.5.2 og 1.7.1 þar sem yfirvinnutímakaup, stórhátíðakaup og desemberuppbót sé skilgreint út frá mánaðarlaunum, og greiðslutímabil yfirvinnu berum orðum miðað við mánuð í ákvæði 2.3.7. Enn fremur sé það óumdeild, óskráð og löngu hefðbundin meginregla íslensks vinnuréttar að laun miðist við mánuð og vinnuskyldan þar með í raun, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Gildi þá að mati stefnanda einu hvort um sé að ræða almennan vinnurétt eða opinberan starfsmannarétt, enda hafi eina frávikið verið hvort mánaðarlaun væru greidd eftirá eins og nú sé almenn regla, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 70/1996, eða fyrirfram til eins mánaðar eins og meginreglan hafi verið samkvæmt 20. gr. eldri laga nr. 38/1954 um sama efni, sbr. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Aðrar reglur kjarasamnings svo sem um orlofsrétt í ákvæði 4.1.1 í kjarasamningi aðila, svo og greiðslur í sjóði, sbr. ákvæði 4.9.1 og 10.4.1, og námsleyfi, sbr. ákvæði 10.1.2, miðist sömuleiðis við mánaðarstarf. Enn aðrar reglur miðist við vinnuskyldudaga, svo sem reglur um fæðispeninga, sbr. ákvæði 3.4.2.

Einhliða órökstudd aðgerð

Aðrar málsástæður stefnanda tjáir hann í fyrsta lagi vera þá að stefndi, fjármálaráðherra, hafi engin haldbær rök fært fram fyrir einhliða ákvörðun sinni ­hvorki úr lögum né kjarasamningi aðila - sem leiði þegar af þeirri ástæðu til þess að ákvörðunin sé ólögmæt og að fallast eigi á kröfur stefnanda. Aðeins sé nefnt í bréfi stefnda, dags. 11. júní 2001, að um sé að ræða "félagslega aðgerð ("kollektiv")" og síðan sé að því er virðist byggt á jafnræðisreglu og "reglu sem framfylgt hafi verið við launaútreikning í verkföllum ríkisstarfsmanna". Um þetta segir stefnandi að óljós skírskotun til hugtaka vinnumarkaðsréttar á borð við "félagsleg" eða "kollektiv" eða til jafnræðisreglu geti ekki réttlætt eignaupptöku lögvarinna launa samkvæmt kjarasamningi á borð við þessa. Þá hafi engar reglur verið settar um launaútreikning í verkföllum ríkisstarfsmanna; einu reglurnar um verkföll þeirra sé að finna í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Auk þess hafi tímabundin verkföll verið fátíð hjá ríkisstarfsmönnum og reyndar virðist stefndi framan af hafa talið þau almennt óheimil. Stefnandi kveðst telja stefnda sekan um rökvillu, er hann mismuni áðurnefndum hópum félagsmanna sem eins sé ástatt um, þ.e. annars vegar þeim sem áttu vinnuskyldu a.m.k. annan verkfallsdaganna tveggja og unnu - þeir fengu greidd laun - og hins vegar þeim sem unnu í maí en áttu ekki að vinna a.m.k. annan verkfallsdaginn - en fengu samt ekki óskert laun. Báðir hóparnir hafi unnið eins og aldrei hefði komið til verkfalls.

Stjórnarskrárvernd eignarréttar

Í öðru lagi byggir stefnandi kröfur sínar á eignarréttarákvæði l. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, enda sé krafa einstakra félagsmanna stefnanda lögvarin hvað sem líði hugsanlegum hagsmunum stefnda og sjónarmiðum sem stefndi kunni að geta fært fram fyrir einhliða ákvörðun sinni - hvort sem þau séu málefnaleg eða ekki. Óljós rök stefnda, sem áður sé vitnað til, geti ekki leitt til þess að félagsmenn stefnanda verði sviptir stjórnarskrárvörðum eignarrétti til launa sem þeir hafi þegar unnið til enda hafi Hæstiréttur fjallað um "skerðingu á þegar áunnum réttindum" í dómi, sbr. H 1992:1962  og talið hana óheimila - einmitt með skírskotun til jafnræðisreglu.

Ráðningarsamband

Í þriðja lagi byggir stefnandi kröfur sínar á þeirri meginreglu íslensks vinnuréttar að slík félagsleg aðgerð, sem verkfall sé, raski ekki ráðningarsambandi einstakra launamanna og vinnuveitanda þeirra, enda þurfi ekki að verkfalli loknu að ráða starfsmenn aftur til starfa eins og t.a.m. samkvæmt dönskum rétti. Vinnuveitanda sé því eftir sem áður skylt að inna launagreiðslur af hendi í réttu hlutfalli við vinnuframlag starfsmanna sinna. Tilgreind sjónarmið stefnda séu auk þess af sviði vinnumarkaðsréttar og geti því ekki haft áhrif á vinnuréttarlegt samband sem áður segir.

Óréttmæt auðgun

Í fjórða lagi kveðst stefnandi telja að niðurstaða í samræmi við afstöðu stefnda myndi leiða til óréttmætrar auðgunar stefnda á kostnað einstakra félagsmanna stefnanda, þeirra sem voru í svonefndu vaktafríi annan verkfallsdaganna tveggja og höfðu innt af hendi vinnuskyldu sína fyrir umræddan mánuð. Þótt vinnuskylda eins og ýmsar vinnu- og hvíldartímareglur sé öðrum þræði miðuð við viku eða önnur tímabil kveður stefnandi það vera staðreynd að greiðsluskylda stefnda, eins og annarra vinnuveitenda, þ.e. launagreiðsla til ríkisstarfsmanna, sé í öllu tilliti miðuð við tímabilið mánuð ­bæði samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og samkvæmt ákvæði 1.1 í þágildandi kjarasamningi aðila og núgildandi kjarasamningi. Eina undantekningin frá mánaðarkaupi sé þegar tímavinnufólk eigi í hlut, sbr. ákvæði 1.4.2 í kjarasamningi aðila.

Hlutfallsleg röskun í vinnudeilu

Í fimmta lagi kveðst stefnandi telja að þeir félagsmenn stefnanda, sem voru í svonefndu vaktafríi og höfðu því enga vinnuskyldu gagnvart stefnda (hvorki skilyrta á bakvakt né óskilyrta), hafi ekki verið í verkfalli, enda hafi þeir ekki lagt niður störf, sbr. áðurnefnt um rökleysu af hálfu stefnda í mismunun milli sambærilegra hópa. Því hafi einhliða ákvörðun stefnda um að svipta umrædda einstaklinga launarétti sínum ekki aðeins verið aðför gegn eignarrétti þeirra, heldur hafi hún raskað félagslegu jafnvægi aðila vinnudeilu með því að verkfall stefnanda hafði fyrir vikið minni slagkraft en nemi sparnaði stefnda af aðgerðinni. Slík hlutfallsleg röskun stangist bæði á við óskráða meðalhófsreglu og 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar um samningsrétt launafólks, sbr. 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, enda sé almennt viðurkennt að verkfallsréttur sé óaðskiljanlegur hluti samningsréttar sem eftir tilkomu ákvæðis 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar árið 1995, sbr. 13. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sé stjórnarskrárvarinn.

Lögmætisregla

Í sjötta lagi kveður stefnandi stefnda hafa brotið lögmætisreglu með því að freista þess að sporna við tímabundnum verkföllum með því að beita alla félagsmenn stefnanda óbeinum viðurlögum í formi óréttmæts launaafdráttar eins og hér um ræðir.

Valdníðsla

Í sjöunda lagi telur stefnandi að hér hafi átt sér stað óheimil samblöndun valdþátta stefnda fjármálaráðherra sem launagreiðanda ríkisstarfsmanna skv. 8. tl. I. hluta 5. gr. auglýsingar nr. 96/1969 um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands annars vegar og hins vegar sem viðsemjanda stéttarfélaga ríkisstarfsmanna, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Um sé að ræða valdníðslu í lagaskilningi, enda hefði stefndi að öðrum kosti viðhaft samráð eða teflt fram frambærilegum röksemdum.

Samráð

Í áttunda lagi hafi stefndi að sögn stefnanda ekkert samráð haft við stefnanda og fari það sjálfstætt í bága við 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveðið sé á um að í lögum skuli kveða á um "rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu". Sá samningsréttur sé að meginstefnu til félagslegur, þ.e. í höndum stéttarfélaga launafólks, sbr. l. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Vart verði fundin ríkari ástæða en sjálf launin fyrir vinnuframlag, sem þegar hafi verið innt af hendi, til þess að fella undir þessa reglu samningsrétt "um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu".

Hefð

Í níunda lagi kveður stefnandi enga hefð hafa myndast um slík tímabundin verkföll, enda vart hægt að finna dæmi um lögleg tímabundin verkföll ríkisstarfsmanna að frátöldu eins dags verkfalli Félags íslenskra náttúrufræðinga hinn 11. febrúar 1992 sem ekki hafi verið vefengt fyrir dómi. Á hinn bóginn hafi Félagsdómur komist að þeirri niðurstöðu 20. janúar 1993 í máli stefnda gegn Sjúkraliðafélagi Íslands nr. 14/1992 að vinnustöðvun sjúkraliða tímabilið 1.-3. desember 1992 hafi verið ólögmæt, sbr. Fd X:l (6). Í því sambandi kveðst stefnandi vilja árétta að grundvallarmunur sé á tímabundnu verkfalli - sem taki aðeins til vinnuskyldu þeirra sem áttu samkvæmt fyrirfram ákveðnu vinnuskipulagi að vera við störf þann tíma sem verkfallið nái til - og ótímabundnu verkfalli sem taki eðli sínu samkvæmt einnig til vinnuhléa og tímabila þar sem minni mannafli sé við störf, svo sem á nóttunni og um helgar, nema að því leyti sem efnisregla 5. tl. l. mgr. 19. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna leiði til undanþágu frá verkfalli.

Samkvæmni

Í tíunda lagi kveður stefnandi stefnda ekki samkvæman sjálfum sér í því hverja félagsmenn stefnanda hann telur eiga rétt til launa óháð vinnuskyldu og hverja ekki, þar sem sambærilegum hópum félagsmanna stefnanda sé mismunað eftir því hvort vinnuskyldu þeirra hafi borið upp á annan verkfallsdaginn eða ekki. Telur stefnandi þessa staðreynd styðja þá afstöðu stefnanda að aðeins þeir, sem með verkfalli stefnanda hafi orðið að leggja niður störf, sem vinna hefði átt ella, eigi að sæta frádrætti af launum sem ella hefðu verið greidd, enda hafi stefndi aðeins orðið af vinnuframlagi þeirra; sbr. grundvallarreglur vinnuréttarins: engin vinna - engin laun; vinna - laun.

       

Fjárkröfur

Dómkröfu stefnanda til sektar (févítis) og til vara skaðabóta að fjárhæð 2.000.000 kr. styður hann við þá staðhæfingu að stefndi hafi með synjun sinni á réttmætum greiðslum samkvæmt kjarasamningi til félagsmanna stefnanda brotið kjarasamning og þar með gerst sekur um brot sem njóti aðallega viðurlagaverndar 1. mgr. 65. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og meginreglna vinnumarkaðsréttar en til vara sérstaks ákvæðis 13. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna þar sem kveðið sé á um fébótaskyldu aðila kjarasamnings. Hér hátti svo til að æðsti fulltrúi stefnda ríkisins á þessu sviði, fjármálaráðherra, eða fulltrúar hans hafi ákveðið að synja um hinar umkröfðu greiðslur þrátt fyrir kjarasamning. Því telur stefnandi að ótvírætt brot hafi verið framið af hálfu stefnda sem a.m.k. beri að víta fyrir eða bæta að álitum - ef ekki með sekt (févíti) þá með bótum í félagssjóð stefnanda - auk greiðslna ásamt dráttarvöxtum til einstakra félagsmanna stefnanda sem krafist sé viðurkenningar á. Bendir stefnandi á að stefndi hafi reynt að auðgast á kostnað félagsmanna stefnanda.

Fjárhæð sektar (févítis) og til vara skaðabóta sé að álitum og miðuð við að röksemdir og þar með málsbætur séu engar - einkum í ljósi þess að æðsti fyrirsvarsmaður stefnda eigi í hlut, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og ákvörðun sé tekin vísvitandi en hvorki af misgáningi, af réttlætanlegum ástæðum né í kjölfar samráðs, enda þótt tími hafi gefist til samráðs. Stefnandi telur að ekki verði betur séð en að ákvörðunin sé tekin sem liður í þvingunaraðgerðum stefnda í tengslum við vinnudeilu og þar með hafi stefndi í raun blandað saman hlutverki sínu sem fyrirsvarsmaður ríkisins við gerð kjarasamninga annars vegar og sem greiðandi launa ríkisstarfsmanna samkvæmt 8. tl. I. hluta 5. gr. auglýsingar um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Um sé að ræða valdníðslu í lagaskilningi.

Ef fallist verði á kröfu stefnanda um sekt (févíti) kveður stefnandi augljóst að engin varnaðaráhrif séu fólgin í því að stefnda ríkinu verði gert að greiða sekt í ríkissjóð, sbr. þó 35. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Stefnandi hafi ítrekað en án árangurs krafið stefnda um efndir kjarasamnings að þessu leyti og sé stefnanda því nauðsyn á að höfða mál þetta til viðurkenningar rétti félagsmanna sinna.

 

Fylgikröfur

Krafa stefnanda um málskostnað styðst við 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að því er fjárhæð varðar.

Kröfu sína um greiðslu málskostnaðar kveðst stefnandi aðallega styðja við 1. mgr. 130. gr. eml. en til vara við 2. ml. 3. mgr. 130. gr. eml. Styðst krafa stefnanda aðallega við það að stefndi tapi máli í öllu verulegu. Að öðrum kosti styðst krafa stefnanda um málskostnað til vara við þá staðreynd að stefndi hafi sem opinber vinnuveitandi ekki aðeins yfirburðarstöðu gagnvart einstökum launamönnum heldur einnig forgangsrétt til túlkunar - bæði á lögum og reglugerðum er varða starfsmannarétt og á kjarasamningum og ráðningarsamningum þótt tvíhliða séu. Einstakir launamenn verði að hlíta ákvörðunum stefnda, þ.m.t. einstakra ríkisstofnana, sbr. 2. ml. 60. gr. stjskr. Sama gildir um stéttarfélag eins og stefnanda og önnur samtök launamanna sem einungis geti látið reyna á afstöðu vinnuveitenda með málsókn. Stefndi hafi í þessu tilviki tekið einhliða ákvörðun án nokkurs samráðs - svo sem í samstarfsnefnd - og ekki stutt hana neinum haldbærum röksemdum og hafnað rökstuddum og ítrekuðum tilmælum stefnanda um leiðréttingu.

Þá megi hafa hliðsjón af meginreglu 4. mgr. 130. gr. eml. en með því að mál þetta sé eins konar prófmál fyrir alla hlutaðeigandi félagsmenn stefnanda og raunar annarra stéttarfélaga komist stefndi, íslenska ríkið, hjá því að gegn því séu höfðuð mörg mál um sama álitaefni.

 

Lögsaga Félagsdóms

Lögsaga Félagsdóms í máli þessu byggir að sögn stefnanda á því að ríkið hafi synjað fjölda félagsmanna stefnanda um greiðslur sem stefnandi telur tvírætt lögvarðar og kjarasamningsbundnar og styður við áðurgreind ákvæði kjarasamnings aðila. Málið varði því skilning á kjarasamningi, sbr. 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

 

Málsástæður og lagarök stefnda vegna frávísunarkröfu

Stefndi telur kröfugerð og málatilbúnað stefnanda óljósan og þannig í ósamræmi við 25. gr. og 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Þá telur stefndi að sakarefnið sé þess eðlis að geta ekki átt undir Félagsdóm í skilningi 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. einnig 24. gr. laga nr. 91/1991. Málsástæður stefnda þessa efnis eru rökstuddar nánar þannig:

Viðurkenningarkrafa stefnanda lúti að því hvernig skilja beri ákvæði 1.1.1 svo og önnur ákvæði í þágildandi kjarasamningi aðila. Tilvísun þessi sé ómarkviss og óljós. Sé kröfugerðin almenns eðlis, einnig með því að vikið sé ótilgreint að öðrum ákvæðum þágildandi kjarasamnings. Meðan á verkfalli stóð hafi umræddur kjarasamningur ekki verið í gildi, þótt við hann hafi verið miðað eftir að hann féll formlega úr gildi, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 94/1986, meðal annars um útreikninga á launum í verkfalli og frádráttar frá launum. Þetta atriði ráði þó ekki úrslitum heldur hitt að vandséð sé að ágreiningur geti verið um almennan skilning á ákvæði 1.1.1 í kjarasamningi eða öðrum ákvæðum hans, heldur byggist afstaða stefnda og réttarstaða félagsmanna stefnanda, sem aftur ráði sakarefni málsins, á meginreglum vinnuréttar um hvort réttur til launa í verkfalli geti verið lögvarinn. Beiting ákvæða kjarasamnings um það hvernig brot úr mánaðarlaunum sé reiknað ráðist af þeirri meginreglu vinnuréttar sem afstaða stefnda byggir á, þ.e. að draga beri frá launum í verkfalli burtséð frá því hvort starfsmaður, sem verkfall tekur til og ekki hefur heimild til að vinna, hefði átt vinnuskyldu á verkfallstíma eða ekki vegna vaktavinnufyrirkomulags eða annars. Stefnandi geri ekki viðurkenningarkröfu sem beinist að fá framgengt viðurkenningu á tiltekinni réttarstöðu eða réttarsambandi í samhengi við atvik málsins, heldur um hvernig skilja beri kjarasamning. Stefnandi geri hins vegar í sjálfu sér ekki ágreining um hvernig frádráttur hafi verið framkvæmdur, heldur um réttmæti hans við ákveðnar aðstæður. Tilvísun til dómskjals í kröfugerð með óljósum hætti sé ódómtæk, en í skjali nr. 3 sem vísað sé til sé ekki um tæmandi talningu að ræða varðandi þá sem dómkröfum virðist ætlað að taka til. Sé listinn ekki í samræmi ágreiningsefnið og í honum nokkrar villur. Auk þess sé beinlínis sagt í stefnu að á listunum sé að finna félagsmenn sem viðurkenningarkrafa taki ekki til, þ.e. félagsmenn sem hefðu átt vaktafrí annan daginn. Óljóst sé í raun hvað átt sé við með orðunum "full og óskert mánaðarlaun frá stefnda fyrir þann mánuð í samræmi við umsamið starfshlutfall þeirra". Í kröfugerð málsins sé þar að auki að finna málsástæður sem óheimilt sé að réttarfarsreglum að gera að sjálfstæðum lið í dómkröfum. Megi þar nefna eins konar forsendu í dómkröfunni um að ótilgreindir félagsmenn hafi innt af hendi umsamda vinnuskyldu. Hér sé um umdeilda málsástæðu að ræða. Stefndi telur að eftir því sem frekast verði ráðið um afmörkun sakarefnis verði það fremur lagt til almennra dómstóla, sbr. 24. gr. laga nr. 91/1991 og til hliðsjónar H. 1995:1542, enda varði sakarefnið tæplega ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans, svo sem lagt sé til Félagsdóms að dæma um samkvæmt 26. gr. laga nr. 94/1986. Enn fremur sé viðurkenningarkrafa stefnanda í raun krafa um greiðslu vangoldinna launa, þ.e. "frádregna vaktafrís­upphæð" hvers félagsmanns.

Stefndi krefst þess að fjárkröfum stefnanda verði vísað frá dómi. Þar sem viðurkenningarkrafa stefnanda og málatilbúnaður henni tengdur sé vanreifaður sé ekki tilefni til að dæma um fjárkröfur stefnanda, sbr. Félagsdóm frá 8. júní 2000 í málinu nr. 5/2000. Engu að síður beri að vísa fjárkröfum stefnanda sjálfstætt frá dómi, verði niðurstaðan sú að viðurkenningarkrafa sé tæk til efnismeðferðar. Fjárkröfur þess efnis að stefnda verði aðallega gert að greiða stefnanda sekt (févíti) að fjárhæð 2.000.000 kr, en til vara til bætur sömu fjárhæðar, séu án alls rökstuðnings með tilliti til þeirra réttarreglna sem fjalla annars vegar um sektir og hins vegar févíti. Sekt og févíti séu í eðli sínu óskyld úrræði eða viðurlög að gildandi rétti bæði réttarfarslega og efnislega. Hvort tveggja skilji sig einnig frá skaðabótum, en þessu þrennu blandi stefnandi saman með óskiljanlegum hætti. Aðalfjárkrafa stefnanda (sekt (févíti)) sé því óljós og valkvæð um grundvöll þeirrar greiðslu sem krafist sé. Snúist fjárkrafan um sekt, sem sé refsikrafa, er á það bent að Félagsdómur hafi ekki lögsögu um framgang refsikröfu á hendur fjármálaráðherra, fremur en almennir dómstólar. Um kröfuna að öðru leyti bendir stefndi á að sektarheimild laga nr. 80/1938 sé í 70. gr. og felist í 1. mgr. 65. gr. laganna tilvísun til hennar. Sektarákvæði nefndra laga geti ekki átt við þar sem lögin eiga almennt ekki við um réttarsamband aðilanna, nema að því er varðar málsmeðferð fyrir Félagsdómi hvar ákvæðum laga nr. 94/1986 sleppir og þar sem sérstaklega sé kveðið á um. Sektarheimildir þær sem fram koma í báðum lögunum, þ.e. enn fremur í 35. gr. þeirra síðarnefndu, eigi aðeins við um brot gegn lögunum en ekki varðandi ágreining um skilning á kjarasamningi eða brot gegn ákvæðum kjarasamnings. Stefnandi virðist þó ekki byggja á 35. gr. laga nr. 94/1986. Þá verði hvergi ráðið að sektarákvæði laganna beri að skilja þannig að það heimili greiðslu févítis í félagssjóð stefnanda. Sektir greiðist almennt í ríkissjóð og séu sektarheimildir nefndra laga engin undantekning þar frá. Engin heimild sé hins vegar til að greiða stefnanda sekt.

Beri að skilja aðalfjárkröfu stefnanda sem kröfu um févíti, þá sé engin heimild til greiðslu févítis í lögum nr. 94/1986 og verði slíkri kröfu ekki fundin stoð í 13. gr. þeirra laga. Þá sé engin heimild til greiðslu févítis í kjarasamningi.

Með framangreindu hafi stefndi bent á að fjárkröfur stefnanda séu ýmist vanreifaðar, óljósar eða byggðar á misskilningi um heimildir til sekta eða févítis. Séu þetta því atriði sem varði frávísun. Auk þessa sé engin grein gerð fyrir saknæmri eða refsinæmri háttsemi stefnda heldur virðast nefndar kröfur einvörðungu settar fram í þeim tilgangi að lýsa vanþóknun á afstöðu stefnda. Til stuðnings varakröfu um "bætur" sé ekki gerð tilraun til að sýna fram á tjón. Sé hvergi í stefnu eða sóknargögnum útlistun á ætluðu tjóni. Frumskilyrði til greiðslu bóta sé tjón. Engri málsreifun eða sönnun sé til að dreifa til stuðnings kröfu um bætur og sé krafan því vanreifuð. Stefndi telur einnig að stefnandi hafi ekki gert grein fyrir hvernig Félagsdómi sé kleift að dæma um fjárkröfurnar á grundvelli 26. gr. laga nr. 94/1986.

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísast í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Þess er sérstaklega krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað óháð málsúrslitum auk álags, sbr. 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, meðal annars vegna krafna stefnanda um "sekt (févíti)" eða bóta til vara. Milli aðila hefur verið ágreiningur um réttmæti launafrádráttar, en fjárkröfur stefnanda eru án nokkurs tilefnis af hálfu stefnda og byggja á staðhæfingum sem séu rangar og haldlausar.

       

Niðurstaða

Stefnandi krefst í fyrsta lagi viðurkenningar á því að skilja beri ákvæði 1.1.1 svo og önnur ákvæði í þágildandi kjarasamningi aðila þannig að öllum félagsmönnum stefnanda, sem upp eru taldir á framlögðu yfirliti, og sem innt höfðu af hendi umsamda vinnuskyldu sína fyrir maí 2001 gagnvart stefnda þegar tímabundið verkfall stefnanda hófst á miðnætti, kl. 00:00, hinn 30. maí 2001, hafi borið full og óskert mánaðarlaun frá stefnda fyrir þann mánuð í samræmi við umsamið starfshlutfall þeirra og að stefnda hafi því verið óheimilt að skerða laun þeirra eins og gert var.

Grein 1.1.1 í kjarasamningi aðila hljóðar svo:

"Mánaðarlaun starfsmanns sem gegnir fullu starfi, skulu greidd samkvæmt eftirfarandi launatöflum:"

Í grein 1.1.1.1 er tekin upp gildandi launatafla fyrir tímabilið 1. janúar - 31. desember 1999 og í grein 1.1.1.2 er tekin upp gildandi launatafla fyrir tímabilið frá 1. janúar 2000. Í grein 1.1.2 er fjallað um útreikning á broti úr mánaðarlaunum og í grein 1.1.3 er gerð grein fyrir hækkun launatöflu á samningstímanum.

Ágreiningslaust er að mánaðarlaun starfsmanns, sem gegnir fullu starfi, skuli greidd samkvæmt tilgreindum launatöflum eftir því sem við á. Ekki verður séð að nokkur ágreiningur sé um skilning á ákvæði 1.1.1 í kjarasamningi aðila og ekki er sérstaklega vísað til annarra ákvæða í honum, sem ágreiningi geta valdið um það sakarefni sem viðurkenningarkrafan lýtur að.

Ágreiningur aðila snýst um það hvort þeir félagsmenn stefnanda sem innt höfðu af hendi umsamda vinnuskyldu sína fyrir maí 2001 gagnvart stefnda þegar tímabundið verkfall stefnanda hófst á miðnætti 30. maí 2001 hafi þurft að þola skerðingu launa vegna verkfallsins. Af hálfu stefnanda hefur ekki verið gerð glögg grein fyrir þeim félagsmönnum hans, sem hér eiga hlut að máli, og tilvísun hans í framlagt yfirlit yfir félagsmenn stefnanda í vaktafríi verkfallsdagana 30. og 31. maí 2001 er ófullnægjandi, auk þess sem hún stangast á við framlögð gögn af hálfu stefnda í málinu. Þá lýtur kröfugerð stefnanda í raun að almennri viðurkenningu á greiðslu vangoldinna launa til félagsmanna stefnanda án nokkurrar afmörkunar eða takmörkunar. Viðurkenningarkrafan er og forsenda fyrir framsettum fjárkröfum stefnanda í málinu.

Viðurkenningarkrafa stefnanda í málinu er ómarkviss, óljós og alltof víðtæk og samhengi málsástæðna stefnanda við dómkröfur er óskýrt. Kröfugerð stefnanda að þessu leyti samræmist því ekki d- og e-liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Eins og málið er lagt fyrir er vandséð að það eigi undir dóminn á grundvelli 3. tl. 1. mgr. 26. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, auk þess sem sakarefnið getur átt undir almenna dómstóla.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, ber að vísa málinu frá Félagsdómi.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.

Málskostnaður fellur niður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum