Hoppa yfir valmynd
30. júní 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2008: Dómur frá 30. júní 2009

Ár 2009, þriðjudaginn 30. júní, var í Félagsdómi í málinu nr. 8/2008.

 

Starfsmannafélag Kópavogs

vegna Andreu Ingibjargar Gísladóttur

gegn

Kópavogsbæ

 

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R :

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 2. júní sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Guðni Á. Haraldsson og Gísli Gíslason.

 

Stefnandi er Starfsmannafélag Kópavogs (SFK), kt. 451275-2249, Digranesvegi 12, Kópavogi, vegna Andreu Ingibjargar Gísladóttur, kt. 301157-4959.

 

Stefndi er Kópavogsbær, kt. 700169-3759, Fannborg 2, Kópavogi.

 

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að við leiðréttingu launa Andreu Ingibjargar Gísladóttur, bókara á skrifstofu Kópavogsbæjar, í apríl 2006, afturvirkt til 1. desember 2002, á grundvelli starfsmats, hafi borið að tengja starfsmatið við launaflokka miðað við að lægsti launaflokkur sé 108. launaflokkur og lægsta stigagjöf samkvæmt tengitöflu 265 stig, þá skuli miðað við að 7 stig séu á milli launaflokka, sbr. gr. 1.3.1 í kjarasamningi Starfsmannafélags Kópavogs og launanefndar sveitarfélaga f. h. Kópavogsbæjar með gildistíma frá 1. apríl 2005 til 30. nóvember 2008, og 7. tölul. 2. gr. samkomulags sömu aðila um nýjan kjarasamning dags. 19. október 2005.

Stefnandi krefst einnig málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá Markarinnar lögmannsstofu hf. og að við ákvörðun virðisaukaskatts verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns.

 

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá er gerð krafa um að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

Með úrskurði uppkveðnum 22. desember sl. var hafnað kröfu stefnda um frávísun málsins.

 

Málavextir

Stefnandi lýsir málavöxtum svo:

Í kjarasamningsviðræðum fulltrúa Samflots sex bæjarstarfsmannafélaga, Kjarna og Starfsgreinasambands Íslands við Launanefnd sveitarfélaga á árinu 2001 var ákveðið að taka upp nýtt launakerfi að breskri fyrirmynd, sem þýtt var og lagað að íslenskum aðstæðum.

 

Nýr kjarasamningur Launanefndar sveitarfélaga f.h. stefnda við stefnanda var undirritaður 9. apríl 2001. Í grein 1.3.1 í samningnum kemur fram, að við röðun í launaflokka skuli miða við niðurstöðu starfsmats sem samningsaðilar koma sér saman um. Jafnframt segir orðrétt í bókun II í 15. kafla samningsins:

Aðilar eru sammála um að nýtt starfsmatskerfi verði tekið í notkun 1. des. 2002 að aflokinni prófun og aðlögun. Samstarfsnefnd hefur yfirumsjón með því starfi, þ.á.m. að semja um tengingu starfsmats og launa.

Nýtt starfsmat getur leitt til allt að tveggja til fjögurra prósenta launahækkunar frá 1. des. 2002. Fram til þess tíma gilda ekki ákvæði kjarasamnings aðila um starfsmat og framkvæmd þess.

Við þessa kerfisbreytingu skal tryggt að enginn starfsmaður lækki í launum þrátt fyrir að í ljós komi að viðkomandi starfi hafi áður verið raðað hærra í launaflokk miðað við niðurstöðu röðunar á grundvelli nýs starfsmatskerfis.

 

Samstarfsnefnd um starfsmat tók til starfa í nóvember 2001 og var nefndinni m.a. ætlað það hlutverk að vinna að innleiðingu starfsmatsins. Í þessu sambandi vísast til fræðslubæklings um starfsmat, sem gefinn var út á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga í október 2003. Sú vinna tók mun lengri tíma en ráð var fyrir gert í upphafi. Þegar nefndin hætti störfum í nóvember 2004 hafði starfsmati verið lokið vegna flestra starfa sem félagsmenn aðildarfélaga Samflots sex bæjarstarfsmannafélaga, Kjarna og Starfsgreinasambands Íslands gegna. Innleiðing starfsmatsins kom hins vegar ekki til framkvæmda á starfstíma nefndarinnar.

Þann 19. nóvember 2004 gengu Starfsgreinasamband Íslands, Samflot sex bæjarstarfsmannafélaga og Kjarni frá Samkomulagi um starfsmat við Launanefnd sveitarfélaga. Í 1. tölul. samkomulagsins segir orðrétt:

1.     Tenging starfsmats og launa byggir á eftirfarandi forsendum:

            1.1       Lágmarkslaunaflokkur er 107

            1.2       Stigabil milli launaflokka er 8

            1.3       Nettóbreyting er 2,7%

                        Brúttóbreyting er 4,67%

 

Með samkomulaginu fylgdi verklýsing og leiðbeiningar um innleiðingu matsins. Í 3. tölul. samkomulagsins lýsa aðilar sig sammála um að koma á fót sameiginlegri samstarfsnefnd, úrskurðarnefnd, um framkvæmd starfsmatsins. Úrskurðarnefnd þessi tók við af samstarfsnefndinni sem getið er um hér að framan.

  

Á fundi fulltrúa Starfsgreinasambands Íslands, Samflots sex bæjarstarfsmannafélaga, Kjarna og Launanefndar sveitarfélaga, sem haldinn var þann 23. nóvember 2004, var samþykkt skjal með heitinu Almennt um innleiðingu starfsmats 2004. Í skjalinu, sem dagsett er 24. nóvember 2004, kemur fram að búið sé að meta störf sem um 90% starfsmanna gegna, en vegna þess hversu fjölbreytt störf eru stunduð í sveitarfélögunum hafi hins vegar ekki tekist að meta öll störf. Síðan segir orðrétt:

Það er þó mat samningsaðila að ekki sé rétt að bíða lengur með framkvæmdina og nægilegur fjöldi starfa hafi verið metinn svo innleiða megi matið gagnvart meginþorra starfsmanna.

Kjör starfsmanna sem sinna störfum sem ekki hafa fengið starfsmat haldast óbreytt að sinni en haldið verður áfram vinnu við að ljúka matinu gagnvart þeim.

 

Á sama skjali segir orðrétt á blaðsíðu 3:

Lögð er áhersla á að í upphafi verði laun greidd út um næstu mánaðamót í samræmi við hið nýja mat. Eins og áður hefur verið getið á starfsmatið að gilda frá 1. desember 2002 og því ljóst að veruleg vinna getur verið fólgin í því að greiða þeim sem fá hækkanir afturvirkt til þess tíma. Þar sem ekki hefur verið samið um annað ber að miða leiðréttingar við gildandi launatöflu ársins 2004. Ef mögulegt er að klára greiðslur í samræmi við það í næstu launakeyrslu þá ber að stefna að því. Aðilar gera sér hins vegar grein fyrir því að ólíklegt sé að það náist og því sé hugsanlega nauðsynlegt að framkvæma sérstaka launakeyrslu vegna þessa síðar í desember.

 

Í samræmi við framangreint var hafist handa við leiðréttingu launa gagnvart þeim starfsmönnum, þ.á m. félagsmönnum stefnanda, sem lokið hafði verið við að meta. Laun umræddra aðila voru leiðrétt afturvirkt til 1. desember 2002 miðað við þá launatöflu sem í gildi var á árinu 2004, með tengingu starfsmats við launaflokka í samræmi við samkomulagið frá 19. nóvember 2004.

Þau störf sem ekki höfðu fengið starfsmatsniðurstöðu og þ.a.l. ekki leiðréttingu launakjara í lok ársins 2004 voru flokkuð sem „núllstörf“ eða „fryst störf“. Að því er varðar stefnanda var um að ræða 80-90 störf/starfsmenn sem féllu í flokk „núllstilltra“ starfa.  Andrea Ingibjörg Gísladóttir var meðal þeirra sem ekki hafði fengið starfsmat og var því í núllstilltu starfi er þarna var komið við sögu.

Í 1. tölul. yfirlýsingar stefnda frá 1. júlí 2005 er m.a. kveðið á um að stefndi og stefnandi skyldu stofna starfshóp sem skipaður yrði tveimur fulltrúum stefnda og tveimur fulltrúum stefnanda. Yfirlýsingin er ódagsett en hún var undirrituð 1. júlí 2005. Í 2. tölul. yfirlýsingarinnar segir að starfshópurinn skuli sjá til þess að störf verði metin samkvæmt starfsmati og laun lagfærð í samræmi við þá niðurstöðu sem endurmat leiðir til.  Jafnframt er tekið fram að starfshópurinn skuli hafa lokið störfum eigi síðar en 1. desember 2005.

 

Þann 19. október 2005 var undirritað Samkomulag um nýjan kjarasamning Launanefndar sveitarfélaga og Starfsmannafélag Kópavogs. Í 1. gr. samkomulagsins segir orðrétt:

Launanefnd sveitarfélaga og Starfsmannafélag Kópavogs gera með sér samkomulag um að kjarasamningur Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga frá 29. maí 2005 sem gildir til 30. nóvember 2008 gildi fyrir Starfsmannafélag Kópavogs og taki við af kjarasamningi aðila sem rann út 31. mars 2005 með þeim breytingum og frávikum sem fram koma í 2. gr., 6. gr. og 7. gr. þessa samkomulags.

 

Grein 1.3 í kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Samflots sex bæjarstarfsmannafélaga frá 29. maí 2005, sem vísað er til í 1. gr. samkomulagsins, ber heitið Röðun í launaflokka.  Þar segir:

Við röðun starfa í launaflokka skal miða við niðurstöðu starfsmats. Samningsaðilar eru sammála um að notast við “breska starfsmatskerfið”. Við tengingu starfsmatsins við launaflokka skal miða við að lægsti launaflokkur sé 108. launaflokkur og lægsta stigagjöf samkvæmt tengitöflu verði 265 stig. Þá skal miðað við að 7 stig séu á milli launaflokka. Um nánari atriði varðandi starfsmatið, s.s. um endurmat o.fl. skulu aðilar semja sérstaklega.

Framangreind viðmið taka gildi þann 1. júní 2006. Fram að þeim tíma gildir núverandi tenging starfsmats við laun.

 

Í 7. tölul. 2. gr. samkomulags Launanefndar sveitarfélaga og stefnanda frá 19. október 2005 segir:

Breytt tenging starfsmats við laun, samkvæmt grein 1.3.1 í kjarasamningnum tekur gildi 1. janúar 2006.

 

Samkvæmt framanskráðu fer ekki á milli mála að kjarasamningurinn frá 29. maí 2005 gildir fyrir stefnanda og tók við af kjarasamningi stefnanda við stefnda frá 9. apríl 2001. Jafnframt að breytt viðmið tengingar starfsmats við laun tók gildi þann 1. janúar 2006.

 

Í 5. gr. samkomulagsins frá 19. október 2005 segir enn fremur:

Aðilar munu ljúka mati á öllum störfum sem ekki hafa þegar verið metin samkvæmt nýju starfsmatskerfi fyrir 15. febrúar 2006, sbr. lið 2 í yfirlýsingu frá 1. júlí 2005. Takist það ekki skulu aðilar meta sameiginleg viðbrögð og verði ekki sátt um þau er kjarasamningur aðila uppsegjanlegur með gildistöku frá 15. maí 2006 enda verði það tilkynnt fyrir 15. mars 2006.

 

Í febrúarmánuði 2006 var lokið við meta hluta af núllstilltu störfunum.  Vísast til bréfs Karls Björnssonar, sviðsstjóra kjarasviðs Launanefndar sveitarfélaganna, dags. 14. febrúar 2006, sem sent var Kópavogsbæ, Starfsmannafélagi Kópavogsbæjar og úrskurðarnefnd um starfsmat. Fyrirsögn bréfsins er Starfsmati lokið – Kópavogsbær.  Síðar í bréfinu kemur upptalning á störfum, sem metin höfðu verið til stiga.

Andrea Ingibjörg Gísladóttir gegnir starfi bókara hjá Kópavogsbæ. Starf hennar var metið til 374 stiga.

Eins og áður er getið áttu Andrea Ingibjörg og aðrir félagsmenn stefnanda sem eins var ástatt um, þ.e. starfsmenn Kópavogsbæjar í núllstilltum störfum, rétt til afturvirkrar launahækkunar frá 1. desember 2002.  Að fengnu starfsmatinu voru laun Andreu Ingibjargar leiðrétt afturvirkt í aprílmánuði 2006, en með aðilum er ágreiningur um forsendur launaleiðréttingarinnar.

Stefnandi telur að miða beri tengingu starfsmats við launaflokka við grein 1.3.1 í kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga frá 29. maí 2005, sbr. ódagsetta greinargerð stefnanda. Samkvæmt því hefði launaleiðréttingin átt að miðast við launaflokk 124.  Stefndi telur hins vegar að miða eigi tenginguna við Samkomulag um starfsmat frá 19. nóvember 2004, sbr. álitsgerð Sigurðar Óla Kolbeinssonar, hdl., dags. 1. júní 2006. Samkvæmt því miðaðist launaleiðrétting við launaflokk 122 og var launaleiðréttingin gerð þannig.  Athugast að Sigurður Óli var lögfræðingur launanefndarinnar á þessum tíma. Enginn ágreiningur sé um að afturvirkni launakjara til 1. desember 2002. Til nánari glöggvunar á tengingu starfsmats við launaflokka er lögð fram í málinu tengitafla.  Hún beri með sér um hvað ágreiningur málsaðila snýst.

 

Af hálfu stefnda er eftirfarandi tekið fram um leiðréttingu launa á grundvelli starfsmatsins 2006:

Í apríl 2006 leiðrétti stefndi laun þeirra starfsmanna sem fengið höfðu nýtt starfsmat. Leiðréttingin náði aftur til 1. desember 2002 þar sem við átti. Stefndi, líkt og önnur bæjarfélög sem voru aðilar að upphaflegum samkomulögum samningsaðila  og nýjum kjarasamningi 2005, miðaði leiðréttinguna við þá launataxta sem í gildi voru þegar launaleiðréttingin var gerð, þ.e launatöflu ársins 2006. Beitt var sömu aðferð og við leiðréttinguna 2004.

Nýjar tengireglur tóku gildi hjá stefnda 1. janúar 2006 þar sem samið var um nýja tengireglu í kjarasamningum Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga 2005.

Niðurstaða starfsmats fyrir stefnanda lá fyrir í byrjun febrúar 2006. Stiganiðurstaða var 374 stig. Samkvæmt tengitöflu gáfu 374 stig röðun í 122 lfl. frá 1.12.2002 – 31.12.2005. Samkvæmt breyttri tengireglu gáfu 374 stig röðun í lfl. 124 frá 1.1.2006. Áður var stefnandi í launaflokki 122. Starfsmatið leiddi þannig ekki til sjálfstæðrar hækkunar um launaflokk hjá stefnanda, umfram það sem ný tengiregla leiddi til frá 1.1.2006. Stefnandi hlaut hins vegar við leiðréttinguna 1 launaflokk umfram röðun samkvæmt starfsmati og nýrri tengireglu, þ.e. var raðað í launaflokk 125 í stað flokks 124 samkvæmt nýrri tengingu starfsmatsstiga við launatöflu.

Stefndi leiðrétti laun vegna breyttra tengireglna með aukaútborgun þann 21. febrúar 2006. Við þá útborgun fluttist stefnandi vegna þeirra breytinga úr launaflokki 122 í launaflokk 125 frá 1. janúar 2006 að telja, er ný tengitafla tók gildi.

Eins og greint er frá í stefnu leiðrétti stefndi síðar, eða í byrjun apríl 2006, laun starfsmanna vegna breyttrar launaflokkaröðunar skv. starfsmati.  Sú leiðrétting tók hins vegar ekki til stefnanda þar sem starfsmatið leiddi ekki til sjálfstæðrar launaflokkahækkunar hvaða hana varðaði.

Samkvæmt  niðurlagi greinar 1.3.1. í kjarasamningi LN og samflotsins frá 2005 gildir tengireglan frá nóvember 2004 allt fram til 1. júní 2006. Sú tímasetning var flutt fram til 1. janúar 2006 hjá stefnda með samkomulagi LN og SFK 19. október 2005.

Þar sem ekki hafi náðst sátt milli málsaðila um lausn á málinu sé stefnanda nauðugur sá kostur að höfða dómsmál þetta til viðurkenningar á réttindum félagsmanna sinna.  Með úrskurði Félagsdóms í máli nr. F-8/2006, uppkveðnum 11. janúar 2007, var máli stefnanda gegn stefnda vegna umrædds ágreinings vísað frá dómi vegna ágalla á kröfugerð.  Með stefnu í máli þessu er kröfugerð breytt með tilliti til forsendna í úrskurðinum.  Málið er höfðað vegna Andreu Ingibjargar Gísladóttur og gengið út frá að það verði fordæmi í sambærilegum málum annarra starfsmanna Kópavogsbæjar.

 

Dómsvald Félagsdóms

Stefnandi kveður mál þetta falla undir lögsögu Félagsdóms á grundvelli 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst byggja á eftirtöldum málsástæðum og lagarökum:

Störf þeirra félagsmanna stefnanda sem ekki fengu starfsmatsniðurstöðu í lok ársins 2004 féllu í flokk „núllstilltra“ starfa, eins og áður sé rakið. Starfsmennirnir fengu því ekki greiddar launahækkanir afturvirkt til 1. desember 2002 þegar matið var innleitt gagnvart meginþorra starfsmanna. Þvert á móti héldust kjör þeirra óbreytt meðan mati á störfum þeirra var ólokið.  Að fengnu starfsmati á hluta af núllstilltu störfunum leiðrétti stefndi í aprílmánuði 2006 laun Andreu Ingibjargar og annarra sem eins var ástatt um  afturvirkt til 1. desember 2002.  Leiðréttingin miðaðist við launatöflu ársins 2006 samkvæmt kjarasamningnum frá 29. maí 2005 en tengireglu, sem hafi verið afnumin með sama samningi.  

Af hálfu stefnanda sé byggt á því að við leiðréttingu á launum Andreu Ingibjargar hafi borið að fara eftir kjarasamningnum frá 29. maí 2005, þ.e. samningnum sem var í gildi þá er launaleiðréttingin var gerð.  Einnig vísast um þetta til 7. tölul. 2. gr. samkomulags um nýjan kjarasamnings frá 19. október 2005, þar sem segir að breytt tenging starfsmats við laun, samkvæmt gr. 1.3.1 í kjarasamningnum, taki gildi 1. janúar 2006.  Leiðrétting á launum Andreu Ingibjargar hafi verið gerð eftir þann tíma.

Stefnandi mótmælir sérstaklega þeirri ályktun, sem fram komi í áðurnefndri álitsgerð Sigurðar Óla Kolbeinssonar, hdl., að við launleiðréttinguna beri að greina sérstaklega á milli „almennra taxtahækkana“ og „hækkana á grundvelli breyttrar tengingar starfsmats við laun“.  Stefnandi bendir á að í báðum tilvikum sé um kjarasamningsbundna („kollektiva“) launahækkun að ræða.  Launanefnd sveitarfélaga hefði þurft að taka það sérstaklega fram ef breytt tenging starfsmats við laun, sem taka átti gildi 1. janúar 2006, hafi eingöngu átt við hluta af umsömdum hækkunum.

Stefnandi mótmælir einnig þeirri ályktun lögmannsins að ef fallist yrði á kröfu stefnanda væri starfsmönnum Kópavogsbæjar mismunað.  Krafa stefnanda sé eingöngu sú að farið verði eftir gildandi kjarasamningum á hverjum tíma.  Stefnandi hafi engu ráðið um hve lengi það dróst að klára mat á störfunum, sem nefnd voru „núllstillt störf“.

Krafa um málskostnað sé reist á 130. gr. laga um meðferð einkamála.  Krafa um að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns sé skaðleysiskrafa, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og eignist því ekki frádráttarrétt við greiðslu skattsins samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

Sýknukrafa stefnda er byggð á því að framkvæmd hans hafi verið í fullu samræmi við  kjarasamninga og samkomulög samningsaðila um framkvæmd starfsmats og leiðréttingu launa í framhaldi af því.  

Tilgangur starfsmatsins hafi verið að tryggja að starfsmönnum væru ákvörðuð laun með málefnalegum og hlutlægum hætti, sbr. grein 1.3.1 í kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga og bækling samningsaðila um starfsmat. Því hafi þannig ekki verið ætlað að leiða til hækkunar launa umfram það sem kynni að leiða af starfsmatinu.  Í samkomulagi um starfsmat, dags. 19. nóvember 2004, sé kveðið á um mörk kostnaðar við innleiðingu starfsmatsins. Í 1. gr. segir þannig að nettóbreyting skuli vera 2,7% en brúttóbreyting 4,67%. Þessar hlutfallstölur hafi markað það svigrúm sem samningaaðilar höfðu við uppsetningu tengitaflna. Framlagðri yfirlýsingu stefnda um launaþróun og launasamsetningu háskólamenntaðra starfsmanna sé ætlað að tryggja að enginn starfsmaður stefnda lækki í launum við starfsmatið, en sú hefði orðið raunin í allmörgum tilvikum m.v. niðurstöður mats 2004.

Krafa um afturvirkni launabreytinga verði einungis byggð á skýrum ákvæðum í kjarasamningi.

Stefndi bendir á að fyrrgreind yfirlýsing hans lúti eingöngu að útfærslu þágildandi kjarasamnings  og samkomulags um starfsmat frá 19. október 2004. Þeirri útfærslu hafi hins vegar ekki verið lokið við gildistöku nýs kjarasamnings Launanefndar sveitarfélaga og Starfsmannafélags Kópavogs, dags. 19. október 2005. Sá samningur breyti ekki forsendum fyrrgreinds starfsmats og tengingu þess við laun fyrir gildistöku hans.

Stefndi telur að launagreiðslur til stefnanda séu í fullu samræmi við samninga um starf stefnanda. Nýtt starfsmat breytti ekki launaflokkaröðun stefnanda. Það starfsmat hafi ekki verið vefengt. Stefnandi eigi því ekki rétt á afturvirkri leiðréttingu launa samkvæmt ákvæðum kjarasamnings Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga og samkomulagi um starfsmat.

Stefnandi naut líkt og aðrir starfsmenn hagræðis vegna breyttra tengireglna samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Starfsmannafélags Kópavogs. Laun stefnanda hafi verið leiðrétt í samræmi við það. Þessi breyting tengitaflna sé hluti þeirra kjarabóta sem samið hafi verið um með gildistíma frá og með 1. janúar 2006. Stefnandi hafi því fengið þær kjarabætur sem hann eigi tilkall til. Samkvæmt skýrum ákvæðum greinar 1.3.1. í kjarasamningnum hafi nýjar tengireglur ekki tekið gildi fyrir þann tíma. Afturvirknikrafa stefnanda verði hvorki byggð á þeim samningi, né öðrum samningum sem gilda um starf stefnanda.

Það að miðað hafi verið við fjárhæðir, sem voru í launatöflunni sjálfri þegar leiðréttingin átti sér stað í apríl 2006, hafi verið gert í samræmi við samkomulag um leiðréttingar þeirra sem fengu strax niðurstöður úr starfsmati 2004 samkvæmt samningi og hafi með því verið gætt lagaskilyrða um jafnræði milli þessara tveggja hópa við uppgjör. Aldrei hafi verið samið um að miða skyldi við breyttar tengireglur.

Aðrir aðilar að kjarasamningum Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga um starfsmat hafi ágreiningslaust viðhaft sömu framkvæmd samningsins og stefndi við afturvirka leiðréttingu vegna nýs starfsmats 0-flokka 2006. Úrskurðarnefnd Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga og Starfsmannafélags Kópavogs um starfsmatið hafi staðfest þessa túlkun. Sameiginleg túlkun samningsaðila liggi því fyrir og verði ekki  breytt einhliða af stefnanda enda ekkert sem gefur tilefni til slíkrar breytingar. 

Stefndi mótmælir þeim skilningi stefnanda að við leiðréttingu launa stefnanda hafi borið að fara eftir kjarasamningi frá 2005. Stefndi hafni því jafnframt að leiðrétting á launum stefnanda hafi brotið gegn þeim samningi.

Með vísan til alls þessa sé fullyrðingum stefnanda um vangoldin laun því mótmælt sem röngum og krafist sýknu á öllum kröfum stefnanda.

Stefndi byggir fyrst og fremst á tilvitnuðum kjarasamningum Launanefndar sveitarfélaga og Samflots bæjarstarfsmannafélaga og kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Starfsmannafélags Kópavogs, ásamt tilvitnuðum samkomulögum sömu aðila um útfærslur starfsmats, almennum reglum samningalaga, 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og almennum reglum vinnuréttar.

Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, 129. og 130. gr.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Samkvæmt dómkröfu stefnanda er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að við leiðréttingu á launum Andreu Ingibjargar Gísladóttur, bókara á skrifstofu Kópavogsbæjar, í apríl 2006, afturvirkt til 1. desember 2002, á grundvelli starfsmats, hafi borið að tengja starfsmatið við launaflokka með tilteknum hætti, sbr. grein 1.3.1 í kjarasamningi milli Launanefndar sveitarfélaga annars vegar og Samflots bæjarstarfsmannafélaga hins vegar frá 29. maí 2005  með gildistíma frá 1. apríl 2005 til 30. nóvember 2008. Stefnandi gerðist aðili að þeim kjarasamningi með samkomulagi við Launanefnd sveitarfélaga, dags. 19. október 2005. Í 7. tölul. 2. gr. þess samkomulags er kveðið á um breytta tengingu starfsmatsins við laun samkvæmt grein 1.3.1 í kjarasamningnum.

Grein 1.3.1 í kjarasamningnum frá 29. maí 2005, sem ber yfirskriftina „Röðun í launaflokka“, er svohljóðandi:

„Við röðun starfa í launaflokka skal miða við niðurstöðu starfsmats. Samningsaðilar eru sammála um að notast við „breska starfsmatskerfið“. Við tengingu starfsmatsins við launaflokka skal miða við að lægsti launaflokkur sé 108. launaflokkur og lægsta stigagjöf samkvæmt tengitöflu verði 265 stig. Þá skal miðað við að 7 stig séu á milli launaflokka. Um nánari atriði varðandi starfsmatið, s.s. um endurmat o.fl. skulu aðilar semja sérstaklega.

Framangreind viðmið taka gildi 1. júní 2006. Fram að þeim tíma gildir núverandi tenging starfsmats við laun.“

Í 7. tölul. 2. gr. umrædds samkomulags frá 19. október 2005 segir svo:

„Breytt tenging starfsmats við laun, samkvæmt grein 1.3.1 í kjarasamningnum tekur gildi 1. janúar 2006.“

Samkvæmt framansögðu er dómkrafa stefnanda byggð á greindum ákvæðum kjarasamningsins og samkomulagsins, eins og stefnandi túlkar ákvæði þessi. Felur krafan í sér að viðurkennt verði að laun Andreu Ingibjargar Gísladóttur verði leiðrétt á grundvelli starfsmats með þeirri tengingu starfsmatsins við launaflokka sem tók gildi 1. janúar 2006 og reiknist afturvirkt til 1. desember 2002. Það ákvæði felur í sér að 7 stig eru á milli launaflokka í stað 8 áður.

Í málinu er upplýst um tildrög og framvindu þess starfsmats sem í málinu greinir. Kemur m.a. fram að með kjarasamningi milli málsaðila frá 9. apríl 2001 hafi svo verið samið um að í röðun í launaflokka skyldi miða við niðurstöður starfsmats er samningsaðilar kæmu sér saman um og nánar var lýst, meðal annars í bókunum með kjarasamningnum. Skyldi nýtt starfsmatskerfi tekið í notkun hinn 1. desember 2002. Hins vegar tók vinnan lengri tíma en gert hafði verið ráð fyrir. Þegar samstarfsnefnd um starfsmat hætti störfum í nóvember 2004 hafði starfsmati þó verið lokið vegna flestra starfa. Í kjölfar sérstaks samkomulags frá 19. nóvember 2004 um starfsmat milli Starfsgreinasambands Íslands, Samflots sex bæjarstarfsmannafélaga og Kjarna annars vegar og Launanefndar sveitarfélaga hins vegar varðandi gildistöku og innleiðingu starfsmatsins samkvæmt kjarasamningnum frá 9. apríl 2001, sbr. og samþykkt sömu aðila frá 23. nóvember 2004 með yfirskriftinni „Almennt um innleiðingu starfsmats 2004“, var hafist handa um leiðréttingu launa þeirra starfsmanna sem lokið hafði verið við að meta. Voru launin leiðrétt afturvirkt til 1. desember 2002 miðað við gildandi launatöflu 2004 með tengingu samkvæmt samkomulaginu um starfsmat frá 19. nóvember 2004. Þau störf, sem ekki höfðu verið metin og fengu þar af leiðandi ekki leiðréttingu launakjara í lok árs 2004, voru skilgreind sem „núllstörf“. Í stefnu kemur fram að hjá stefnanda hafi þá verið um að ræða 80-90 störf sem flokkuð hafi verið sem „núllstörf“ eða „fryst störf“. Bendir stefnandi á að starf Andreu Ingibjargar Gísladóttur hafi verið meðal þeirra starfa sem ekki hafi fengið starfsmat og því um „núllstillt“ starf að ræða. Af hálfu stefnda er í þessu sambandi vakin athygli á því að skrifstofustörf hafi verið meðal þeirra starfa, sem fengið hafi starfsmat 2004, en í fæstum tilvikum hafi það mat leitt til hærri launaflokkaröðunar. Vegna óánægju með þetta hafi skrifstofustörf hjá stefnda fengið nýtt starfsmat sem farið hafi verið með á sama hátt og „núllstörf“.

Samkvæmt gögnum málsins verður að telja upplýst að niðurstaða starfsmats vegna starfs Andreu Ingibjargar Gísladóttur hafi legið fyrir samkvæmt starfsmati 2004, en ekki leitt til launahækkunar. Hafi verið farið  með starfið, jafnt sem önnur skrifstofustörf hjá stefnda, sem „núllstarf“ og það fengið nýtt starfsmat, sbr. m.a. fyrirliggjandi ódagsetta yfirlýsingu stefnda sem mun hafa verið gefin út í júlí 2005. Niðurstaða nýs starfsmats varðandi starfið lá fyrir í febrúar 2006. Samkvæmt breyttri tengireglu leiddi stigagjöf til röðunar á starfinu í 124. launaflokk í stað 122. launaflokks, auk þess sem einn launaflokkur bættist við umfram röðun við leiðréttinguna þannig að Andreu var raðað í 125 launaflokk.

Óumdeilt er að almennt ber að leiðrétta launakjör á grundvelli starfsmats aftur til 1. desember 2002. Hins vegar er ljóst að ágreiningur málsaðila liggur í því frá hvaða tíma ber að reikna launaleiðréttingu vegna þeirrar breyttu tengingar starfsmats við laun sem fram kemur í grein 1.3.1 í kjarasamningnum. Af hálfu stefnanda er miðað við 1. desember 2002 í þessum efnum, en stefndi telur að miða beri við 1. janúar 2006 þegar sú tengiregla hafi tekið gildi. Stefnandi bendir á að störf þeirra félagsmanna, sem ekki hafi fengið starfsmatsniðurstöðu í lok ársins 2004, hafi fallið í flokk „núllstilltra starfa“, eins og fram er komið. Því hafi starfsmennirnir ekki fengið greiddar launahækkanir afturvirkt til 1. desember 2002 þegar matið hafi verið innleitt gagnvart meginþorra starfsmanna. Þvert á móti hafi kjör þeirra haldist óbreytt meðan mati á störfum þeirra var ólokið. Að fengnu starfsmati á hluta af hinum „núllstilltu“ störfum hafi stefndi leiðrétt í apríl 2006 laun Andreu Ingibjargar Gísladóttur og annarra, sem eins stóð á um, afturvirkt til 1. desember 2002. Hafi leiðréttingin miðast við launatöflu ársins 2006 samkvæmt kjarasamningnum frá 29. maí 2005 en tengitöflu sem hafi verið afnumin með sama samningi. Telur stefnandi að borið hafi, við leiðréttingu á launum Andreu Ingibjargar Gísladóttur, að fara eftir ákvæði umrædds kjarasamnings, sbr. og 7. tölul. 2. gr. samkomulagsins frá 19. október 2005, þar sem svo sé mælt fyrir að breytt tenging starfsmats við laun samkvæmt grein 1.3.1 í kjarasamningnum taki gildi 1. janúar 2006. Leiðrétting launa Andreu Ingibjargar Gísladóttur hafi verið gerð eftir þann tíma. Að öðrum kosti fengi hún einungis taxtahækkanir en ekki verðbætur. Af hálfu stefnda er því haldið fram að framkvæmd hans á launaleiðréttingu hafi verið í fullu samræmi við kjarasamninga og samkomulög aðila um framkvæmd starfsmats og leiðréttingu launa í framhaldi af því. Er vísað til þess að nýtt og óvefengt starfsmat hafi ekki leitt til breytinga á launaflokkaröðun og launum Andreu Ingibjargar Gísladóttur, sbr. greinargerð sviðsstjóra kjarasviðs Launanefndar sveitarfélaga, dags. 14. febrúar 2006, um lok starfsmats sem liggur fyrir í málinu, enda hafi hún hlotið sömu stig. Breytt tengitafla með nýjum samningi hafi hækkað laun Andreu Ingibjargar. Þannig hafi starfsmatið engu breytt fyrir hana og því ekki fyrir að fara neinni leiðréttingu vegna starfsmats. Í samræmi við þetta hafi launin verið leiðrétt. Breyting á tengitöflum séu hluti kjarabóta sem samið hafi verið um frá og með 1. janúar 2006. Samkvæmt skýrum ákvæðum greinar 1.3.1 í kjarasamningnum hafi nýjar tengireglur ekki tekið gildi fyrir það tímamark. Því verði krafa stefnanda um afturvirkni hvorki byggð á þeim samningi né öðrum samningum er gildi um starfið.

Eins og fram er komið var tekin upp breytt tenging starfsmats við laun með grein 1.3.1 í kjarasamningnum frá 29. maí 2005. Þar er mælt svo fyrir að hin breyttu viðmið skyldu taka gildi hinn 1. júní 2006 og jafnframt tekið fram að fram að þeim tíma „gildir núverandi tenging starfsmats við laun“. Með 7. tölul. 2. gr. samkomulags aðila máls þessa um nýjan kjarasamning frá 19. október 2005 var efnislega sú eina breyting gerð á grein 1.3.1 í kjarasamningnum að þar greind gildistaka var færð fram til 1. janúar 2006. Samkvæmt þessu gilti eldri tenging starfsmats vegna uppgjörs launa, sem kveðið var á um í samkomulagi um starfsmat frá 19. október 2004, til 1. janúar 2006. Að þessu athuguðu verður ekki talið að krafa stefnanda um viðurkenningu á afturvirkri leiðréttingu til 1. desember 2002 á launum Andreu Ingibjargar Gísladóttur, miðað við hina breyttu tengingu starfsmats við laun, standist, þar sem slíkt eigi sér hvorki stoð í kjarasamningsákvæðum milli aðila né fyrrgreindri yfirlýsingu frá júlí 2005. Þvert á móti er tekið fram í samkomulagi aðila um nýjan kjarasamning að hin nýju viðmið taki fyrst gildi hinn 1. janúar 2006 og fram að þeim tíma gildi eldri tenging starfsmats við laun. Þannig er tryggt að uppgjör launabreytinga vegna starfsmatsins sé framkvæmt samkvæmt sömu reglu gagnvart öllum starfsmönnum stefnda. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að um annað hafi verið samið. Breytir engu í því efni að dráttur hafi orðið á framkvæmd og uppgjöri starfsmatsins. Að svo vöxnu máli verður að sýkna stefnda af dómkröfu stefnanda í máli þessu.

Samkvæmt úrslitum málsins verður stefnanda gert að greiða stefnda 250.000 krónur í málskostnað.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Kópavogsbær, skal vera sýkn af kröfu stefnanda, Starfsmannafélags Kópavogs vegna Andreu Ingibjargar Gísladóttur, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Guðni Á. Haraldsson

Gísli Gíslason



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum