Hoppa yfir valmynd
30. maí 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2005: Dómur frá 30. maí 2005

Ár 2005, mánudaginn 30. maí, var í Félagsdómi í málinu nr. 8/2005

      

Félag íslenskra atvinnuflugmanna

(Karl Ó. Karlsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu vegna

Landhelgisgæslu Íslands

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R

 

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 2. maí sl.     

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Halldór H. Backman og Kristján Torfason.

 

Stefnandi er Félag íslenskra atvinnuflugmanna, kt. 530169-3839, Háaleitisbraut 68, Reykjavík.

Stefndi er Íslenska ríkið, kt. 550169-2829, vegna Landhelgisgæslu Íslands, kt. 710169-5869.

 

Dómkröfur stefnanda

Að ákvæði greinar 17-16 í kjarasamningi stefnanda við Flugleiðir hf./Icelandair ehf., sbr. 15. gr. kjarasamnings stefnanda við Flugleiðir hf./Icelandair ehf. frá 10. maí 2004, gildi um kjör flugmanna Landhelgisgæslu Íslands.

Að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati réttarins að teknu tilliti til virðisaukaskatts, hver sem úrslit málsins verða.

 

Dómkröfur stefnda

Stefndi gerir þá kröfu að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

 

Málavextir

Stefnandi er stéttarfélag atvinnuflugmanna og hefur, samkvæmt samþykktum sínum, m.a. með höndum gerð kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna.  Stefnandi hefur um árabil gert kjarasamninga um störf atvinnuflugmanna, þ.á.m. við Flugleiðir hf./Icelandair ehf., nú síðast 10. maí 2004.  Í samræmi við ákvæði 10. gr. laga nr. 25/1967, um Landhelgisgæslu Íslands, hefur, frá upphafi, farið um kaup og kjör flugmanna Landhelgisgæslu Íslands samkvæmt gildandi kjarasamningum stefnanda f.h. flugmanna við Flugleiðir hf./Icelandair ehf.  Á árinu 1987 gerðu aðilar máls þessa í fyrsta sinn sérkjarasamning um störf flugmanna Landhelgisgæslunnar vegna breytinga á vaktafyrirkomulagi flugmanna á þyrlum Landhelgisgæslunnar og til þess að skapa heimild til þess að taka upp sérstakt bakvaktafyrirkomulag á F-27 flugvélum Landhelgisgæslunnar. Um önnur atriði var í sérkjarasamningnum vísað til gildandi kjarasamninga stefnanda við Flugleiðir hf./Icelandair ehf. og um kaup og kjör flugmanna Landhelgisgæslunnar hafi farið samkvæmt því.

Þann 25. ágúst 2004 gerði stefnandi síðast sérkjarasamning við stefnda ríkið vegna flugmanna Landhelgisgæslu Íslands undir yfirskriftinni: “Samkomulag fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Félags íslenskra atvinnuflugmanna vegna starfa flugmanna hjá Landhelgisgæslu Íslands”.  Skyldi samningurinn gilda til 31. desember 2007 og falla þá úr gildi án sérstakrar uppsagnar.  

Í grein 1.1.1. í sérkjarasamningnum er svofellt ákvæði:

“Að öðru leyti en í samningi þessum greinir fer um kaup og kjör flugmanna skv. samningi FÍA og Flugleiða hf. /Icelandair ehf. frá 10. maí 2004”. 

Samkvæmt tilvitnuðum kjarasamningi stefnanda við Flugleiðir hf. /Icelandair ehf. frá 10. maí 2004, var m.a. samið um ferðatilhögun flugmanna í ferðum á vegum félaganna með setningu nýs ákvæðis, í grein 15, sem varð að grein 17-16, og er svohljóðandi:

“Bóka skal flugmenn á viðskiptafarrými eða betra þegar ferðast er á vegum Icelandair eða annarra fyrirtækja Flugleiðasamstæðunnar (Flugleiða hf), hvort sem er með eigin vélum eða öðrum flugfélögum. Flugmaður víkur sæti fyrir fullborgandi farþega í vélum Icelandair. Þó  er heimilt að ætla flugmanni annað en viðskiptafarrými með erlendum flugfélögum sé áætlaður flugtími innan við eina klst.”

Stefnandi heldur því fram að í samræmi við framangreind kjarasamningsákvæði hafi flugmenn Landhelgisgæslunnar verið bókaðir á viðskiptafarrými í ferð til og frá Íslandi á vegum Landhelgisgæslunnar eftir gildistöku núgildandi kjarasamnings en þeirri bókun hafi síðan verið breytt af hálfu Landhelgisgæslunnar.  Flugmenn Landhelgisgæslunnar hafi í kjölfarið gert kröfu til þess að vera bókaðir á viðskiptafarrými en verið synjað af hálfu Landhelgisgæslunnar.  Hafi því verið borið við að ómögulegt sé fyrir Landhelgisgæsluna að framfylgja kjarasamningsákvæðinu gagnvart flugmönnum sínum þar sem um innanhússframkvæmd sé að ræða af hálfu Icelandair ehf. gagnvart flugmönnum sínum og að flugmönnum Landhelgisgæslunnar beri að fara eftir reglum nr. 39/1992 um greiðslu ferðakostnaðar á vegum ríkisins.  Stefnandi kveðst ósammála afstöðu Landhelgisgæslunnar, sbr. bréf lögmanns stefnanda til Landhelgisgæslunnar, dags. 27. september 2004, 6. október 2004 og 19. október 2004.  Afstaða Landhelgisgæslunnar, svo sem hún birtist í bréfum, dags. 14. október 2004 og 25. október 2004, sé óásættanleg, ólögmæt og í andstöðu við gildandi kjarasamning aðila.

Aðilar funduðu um málið en samkomulag náðist ekki.  Telur stefnandi því nauðsynlegt að fá leyst úr málinu fyrir Félagsdómi.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að skýrt sé kveðið á um það í grein 1.1.1. í sérkjarasamningi stefnanda og ríkisins vegna flugmanna Landhelgisgæslunnar, frá 25. ágúst 2004, að um kaup og kjör þeirra fari, að öðru leyti en greini í sérkjarasamningnum, samkvæmt kjarasamningi stefnanda og Flugleiða hf./Icelandair ehf. frá 10. maí 2004.  Með kjarasamningi stefnanda og Flugleiða hf./Icelandair ehf. frá 10. maí 2004 hafi síðast gildandi kjarasamningur verið framlengdur til 31. desember 2007 með þeim breytingum sem í þeim samningi hafi falist.

Sérkjarasamningur stefnanda og ríkisins vegna flugmanna Landhelgisgæslunnar tilgreini ekki hvernig skuli hátta ferðatilhögun flugmanna Landhelgisgæslunnar þegar þér séu í ferðum á vegum Landhelgisgæslunnar og því fari um það atriði samkvæmt tilvitnuðum samningi stefnanda og Flugleiða hf./Icelandair ehf. 

Samkvæmt grein 17-16 í kjarasamningi stefnanda og Flugleiða hf./Icelandair ehf. beri flugmönnum félaganna réttur til þess að ferðast á viðskiptafarrými þegar þeir ferðist á vegum félaganna, svo sem nánar greini í ákvæðinu.  Grein 17-16 beri að túlka og beita að breyttu breytanda um flugmenn Landhelgisgæslunnar. Flugmönnum Landhelgisgæslunnar beri, samkvæmt framangreindu, kjarasamningsbundinn réttur til þess að ferðast á viðskiptafarrými vegna ferða til og frá Íslandi á vegum Landhelgisgæslunnar, hvort heldur er vegna ferða erlendis til æfinga eða í öðrum erindum er tengjast Landhelgisgæslunni.

Stefnandi vekur athygli á því að ákvæði 17-16 í kjarasamningi stefnanda og Flugleiða hf./Icelandair ehf. sé nýtt ákvæði sem hafi fyrst tekið gildi með samþykkt kjarasamnings þessara aðila frá 10. maí 2004.  Á sama tíma hafi ennfremur verið sett fram nýtt ákvæði,  grein 17-17, sem kveði á um að Flugleiðir hf./Icelandair ehf. skuli láta flugmönnum í té fartölvur til notkunar við störf sín, svo sem nánar sé kveðið á um í samningnum.  Í viðræðum aðila um gerð kjarasamnings stefnanda og stefnda vegna flugmanna Landhelgisgæslunnar hafi verið sett fram tillaga til bókunar af hálfu stefnda þess efnis að greint ákvæði um fartölvur ætti ekki við um flugmenn Landhelgisgæslunnar og að það væri ákvörðunaratriði Landhelgisgæslunnar hvort fartölvur yrðu taldar hluti af búnaði flugmanna síðar.  Sú tillaga hafi ekki verið samþykkt af stefnanda og hafi Landhelgisgæslan framfylgt ákvæðinu samkvæmt efni sínu.  Kjarasamningsákvæði um ferðatilhögun flugmanna, sem aðilar deili um, hafi með sama hætti legið fyrir áður en gengið hafi verið frá gerð kjarasamnings vegna flugmanna Landhelgisgæslunnar.  Það hafi því staðið samninganefnd stefnda næst að gera athugasemdir teldi hún ástæðu til þess að undanskilja það ákvæði, sbr. fyrri athugasemdir við ákvæði um fartölvur, fyrri venjur og viðræður aðila sumarið 2004.

Af gefnu tilefni kveðst stefnandi mótmæla því að grein 17-16 í kjarasamningi stefnanda og Flugleiða hf./Icelandair ehf. fjalli um innanhússframkvæmd hjá þeim félögum og að ómögulegt sé fyrir Landhelgisgæsluna að framkvæma og framfylgja ákvæðinu með sama hætti gagnvart sínum flugmönnum.  Stefnda hefði verið í lófa lagið að semja um nánari útfærslu á ákvæðinu, teldi hann ástæðu til þess.  Unnt sé að framkvæma ákvæðið með sama hætti og því sé framfylgt af Flugleiðum hf./Icelandair ehf.  Framkvæmdin sé með þeim hætti að flugfélögin bóki flugmenn í viðkomandi ferð á viðskiptafarrými og taki frá sæti með sama hætti og um venjubundna farþega sé að ræða.  Flugfélögin geti ekki selt öðrum þessi sæti og því verði félögin fyrir nákvæmlega sama kostnaði og Landhelgisgæslan verði fyrir.  Flugmenn Flugleiða hf./Icelandair ehf. víki almennt ekki úr sæti fyrir fullborgandi farþegum þegar þeir fari utan til æfinga í flughermi.  Viðskiptafarrými sé stækkað, sætum bætt við, ef mikið berist af bókunum.  Í örfáum undantekningartilfellum, þegar fullborgandi farþegi bóki sig inn á síðustu stundu, hafi flugmenn Flugleiða hf./Icelandair ehf. fallist á að víkja.  Það sé því vandséð að viðkomandi kjarasamningsákvæði verði ekki beitt með nákvæmlega sama hætti gagnvart flugmönnum Landhelgisgæslunnar.  Jafnvel þó beita yrði ákvæðinu í framkvæmd með eilítið öðrum hætti  gagnvart flugmönnum Landhelgisgæslunnar þá leiði það ekki til þess að ákvæðinu sé rýmt út.  Aðalkjarasamningur stefnanda og Flugleiða hf./Icelandair ehf. gildi um kaup og kjör flugmanna Landhelgisgæslunnar, nema annað sé beinlínis tekið fram í sérkjarasamningi stefnanda og ríkisins vegna flugmanna Landhelgisgæslunnar.  Nefna megi launahækkun vegna yfirtöku Flugfélags Íslands á innanlandsflugi og rekstri Fokker-flugvéla o.fl.

Stefnandi leggi áherslu á að fyrirkomulag um ferðatilhögun sé sérregla sem samið hafi verið um í kjarasamningi aðila.  Kjarasamningsákvæðið gangi framar eldri og einhliða reglum ríkisins nr. 39/1992, um greiðslu ferðarkostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins.  Einhliða ákveðnar ferðakostnaðarreglur ríkisins geti ekki vikið til hliðar tvíhliða og lögbundnu kjarasamningaákvæði.  Samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1967, um Landhelgisgæslu Íslands, sé kveðið á um það að laun og kjör þeirra starfsmanna sem vinni að staðaldri við störf á sjó eða í lofti, skuli vera í samræmi við kjarasamninga viðkomandi stéttarfélaga, eftir því sem við eigi, eða eftir sérstökum samningum stéttarfélaga við stjórn Landhelgisgæslunnar.  Í samræmi við það hafi verið samið í sérkjarasamningi um kjör flugmanna Landhelgisgæslunnar, sbr. nú síðast gildandi kjarasamning frá 24. ágúst 2004, en með tilvísun að öðru leyti til kjarasamnings stefnanda við Flugleiðir hf./Icelandair ehf.  Landhelgisgæslan sé bundin við gerða samninga um störf flugmanna þeirra og mótmæli stefnandi túlkun Landhelgisgæslunnar á 10. gr. laga 25/1967, um Landhelgisgæslu Íslands.  Tilgangur sérstaks ákvæðis um ferðatilhögun flugmanna sé málefnalegur og eigi sér eðlilegar skýringar þar sem flugmönnum sé, starfs síns vegna, gert að undirgangast reglulega og stranga þjálfun erlendis í flughermi, á öllum tímum sólarhrings, eins og dæmi sanni, til þess að viðhalda atvinnuréttindum sínum og færni í starfi.  Ferðatilhögun sé oft hagað með þeim hætti að flugmenn hafi ekki fengið næga hvíld og því hafi borið að taka upp það ákvæði sem nú sé ágreiningur um.

Horfa verði til þess við túlkun og skýringu á 10. gr. laga 25/1967, sérkjarasamningi aðila og ákvæðum aðalkjarasamnings stefnanda við Flugleiðir hf./Icelandair ehf. að flugmenn Landhelgisgæslunnar hafi hvorki verkfallsrétt, né rétt til þess að taka þátt í verkfallsaðgerðum og því sé samningsstaða þeirra bæði sérstök og takmörkuð.

Stefnandi vísar til dóms Félagsdóms frá 27. apríl 1995 í málinu nr. 1/1995 í máli Alþýðusambands Íslands f.h. Flugvirkjafélags Íslands gegn fjármálaráðherra f.h. ríkisins vegna Landhelgisgæslu Íslands.  Niðurstaða þess dóms hafi fullt og ótvírætt fordæmisgildi í þessu máli.

Stefnandi kveðst sækja mál þetta á grundvelli ákvæða laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, einkum 2. tl. 1. mgr. 44. gr.  Málskostnaðarkrafa styðjist við reglur XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur og krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er studd við ákvæði laga 50/1988, um virðisaukaskatt.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

Af hálfu stefnda er á það bent að á undanförnum árum hafi margoft verið um það rætt milli aðila, fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og stefnanda vegna flugmanna Landhelgisgæslu, að gera þyrfti sérstakan og heildstæðan kjarasamning.  Ýmis ákvæði samnings stefnanda við Flugleiðir hf./Icelandair ehf. eigi alls ekki við um flugmenn Landhelgisgæslu, eðli málsins samkvæmt, að mati stefnda þar sem ekki sé um sambærilega starfsemi að ræða.  Í samræmi við þá skoðun hafi fylgt yfirlýsing af hálfu samninganefndar ríkisins og Landhelgisgæslu með samkomulagi aðila, sem undirritað var þann 12. desember 2003, þar sem fram hafi komið eindreginn vilji til að gengið yrði frá heildstæðum kjarasamningi milli aðila.

Eins og fram komi hér að framan séu ýmis ákvæði samnings stefnanda við Flugleiðir hf./Icelandair ehf. í kjarasamningi stefnanda og Samtaka atvinnulífsins vegna Flugleiða hf./Icelandair ehf. sem eigi alls ekki við um flugmenn Landhelgisgæslu, eðli máls samkvæmt, þar sem m.a sé ekki um sambærilega starfsemi að ræða.  Að mati stefnda séu ákvæði samkomulags fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Félags íslenskra atvinnuflugmanna byggð á þeirri forsendu að samningsákvæðin í samningi stefnanda við Flugleiðir hf./Icelandair ehf. séu framkvæmanleg og eigi yfirleitt við um starfsemi Landhelgisgæslu.  Að mati stefnda séu augljóslega ákvæði í samningnum sem eigi ekki við og séu ekki framkvæmanleg fyrir stefnda og geti ekki átt við um starfsemi Landhelgisgæslu, m.a. greinar 17-11 og 17-12 sem fjalli um frímiðarétt og einnig ákvæði það sem um sé deilt í þessu máli, grein 17-16.  Að mati stefnda sé um innanhússframkvæmd hjá Flugleiðum hf./Icelandair ehf. að ræða og ómögulegt sé fyrir Landhelgisgæsluna að framkvæma og framfylgja ákvæðinu með sama hætti gagnvart flugmönnum sínum og Flugleiðir hf./Icelandair ehf.  Bent er á að Landhelgisgæslan sinni ekki áætlunarflugi með farþega og hafi engin tök á að ráðstafa sætum í flugvélum Flugleiða hf./Icelandair ehf. Greinin sé augljóslega miðuð við Flugleiði hf./Icelandair ehf. og starfsmenn þeirra og þær aðstæður sem þar séu fyrir hendi og sé einhliða samið miðað við rekstur flugfélags í samkeppni, en slíkt eigi ekki við um Landhelgisgæsluna.  Stefndi vísar einnig til orðalags 10. greinar laga nr. 25/1967 framangreindri skoðun sinni til stuðnings: “..eftir því sem við á..”

Túlkun fjármálaráðuneytisins sé sú að umrædd grein 17.16. í kjarasamningi stefnanda við Flugleiði hf./Icelandair ehf., geti ekki, í þessu tilviki, yfirfærst yfir á flugmenn Landhelgisgæslunnar.

Lýsing í bréfi lögmanns FÍA frá 19. október 2004 um hvernig ákvæðinu sé framfylgt hjá Flugleiðum hf. staðfesti, að mati stefnda, einungis það að Landhelgisgæslan sitji ekki við sama borð varðandi framkvæmdina og að kjarasamningsákvæðið sé einhliða samið miðað við rekstur flugfélags í samkeppni og sé óframkvæmanlegt fyrir Landhelgisgæsluna.  Flugleiðir hf. geti einhliða breytt þessari framkvæmd eða fyrirkomulagi sem lögmaðurinn lýsi og það sem í dag sé sagt vera undantekningartilvik og gert með samþykki flugmanna, þ.e. að víkja fyrir greiðandi farþegum, gæti orðið almenna reglan á morgun.  Þá sé rétt að benda á að ekkert í kjarasamningsákvæðinu segi að samþykki flugmanns þurfi heldur segi að flugmaður víki fyrir fullborgandi farþega.  Eftir standi kjarasamningsákvæði sem, samkvæmt orðanna hljóðan, miði við rekstur flugfélags í millilandaflugi sem geti framkvæmt umrætt ákvæði gagnvart flugmönnum sínum með þeim hætti sem passi fyrir rekstur félagsins hverju sinni.  Landhelgisgæslan hafi ekki þennan möguleika og yrði alltaf að greiða fullt fargjald á viðskiptafarrými fyrir sína flugmenn hjá ákveðnu flugfélagi þrátt fyrir möguleika á hagstæðari fargjöldum hjá öðrum flugfélögum.  Þá vilji stefndi í þessu sambandi minna á bæði jafnræðis- og samkeppnissjónarmið.  Stefndi telur það ekki geta staðist að ríkistofnun sé gert að kaupa eingöngu dýrustu farmiða fyrir ákveðna starfsmenn hjá einu ákveðnu flugfélagi.   Landhelgisgæslan geti t.d. ekki, samkvæmt túlkun stefnanda, keypt flugmiða hjá Iceland Express því þar sé ekki boðið upp á viðskiptafarrými.  Þá sé á það bent að Flugleiðir hf./Icelandair ehf. greiði ekki sérstaklega þessa flugmiða og verði ekki fyrir viðbótarútgjöldum fyrir það eitt að flugmenn séu á viðskiptafarrými.  Flugmenn Landhelgisgæslu séu hins vegar ávallt fargþegar sem gert sé að greiða að fullu og víki þar af leiðandi ekki.

Stefndi telur að ekki sé hægt að líkja kjarasamningsákvæði 17-17 um fartölvur saman við ákvæði 17-16 um ferðatilhögun.  Í kjaraviðræðum hafi fartölvuákvæðið verið rætt vegna þess að talið hafi verið að með ákvæðinu væri verið að ganga lengra en nauðsyn krefði og að það hentaði ekki starfsemi og flugmönnum Landhelgisgæslu. Reynt hafi verið að ná samkomulagi um þessa grein en þegar það hafi ekki gegnið eftir hafi alveg verið ljóst að ákvæðið myndi yfirfærast yfir á flugmenn enda vel framkvæmanlegt fyrir Landhelgisgæsluna.

Stefndi  telur, í ljósi þess að ekki sé mögulegt fyrir Landhelgisgæsluna að fylgja ákvæði 17-16 í kjarasamningi stefnanda og Flugleiða hf./Icelandair ehf. um ferðatilhögun, sé eðlilegt fyrir Landhelgisgæsluna að miða ferðatilhögun flugmanna sinna við reglur nr. 39/1992 um greiðslu ferðakostnaðar á vegum ríkisins vegna ferðalaga flugmanna sinna eins og um aðra starfsmenn stofnunar og ríkisins. 

Stefndi mótmælir sem röngu að dómur Félagsdóms frá 27. apríl 1995, fjalli um sambærileg álitaefni og hér um ræði.  Stefndi telur þann dóm ekki eiga við um það mál sem hér sé til umfjöllunar.

Stefndi mótmælir öllum málsástæðum og rökum stefnanda. 

Um málskostnaðarkröfu stefnda í málinu er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 með lögjöfnun.

Þá er vísað til laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.  Auk framangreindra lagaraka vísar stefndi til almennra reglna vinnuréttar.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1967 um Landhelgisgæslu Íslands skulu laun og kjör þeirra starfsmanna sem vinna að staðaldri við störf á sjó eða í lofti vera í samræmi við kjarasamninga viðkomandi stéttarfélaga, eftir því sem við á, eða eftir sérstökum samningum stéttarfélaga við stjórn Landhelgisgæslunnar. Sérstakt samkomulag hefur og verið gert milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og stefnanda um kjör flugmanna Landhelgisgæslunnar, nú síðast með samningi frá 25. ágúst 2004. Í grein 1.1.1 í samkomulagi þessu er kveðið á um það að um kaup og kjör flugmanna fari að öðru leyti samkvæmt kjarasamningi stefnanda og Flugleiða hf. /Icelandair ehf.

Samkomulag stefnanda og ríkisins vegna flugmanna Landhelgisgæslunnar kveður ekki á um það hvernig háttað skuli ferðatilhögun flugmanna Landhelgisgæslunnar þegar þeir þurfa að ferðast á vegum hennar. Um það atriði kemur því til álita hið umdeilda ákvæði í grein 17-16 í kjarasamningi, stefnanda og Flugleiða hf./Icelandair ehf., sem hljóðar svo: “Bóka skal flugmenn á viðskiptafarrými eða betra þegar ferðast er á vegum Icelandair eða annarra fyrirtækja Flugleiðasamstæðunnar (Flugleiða hf), hvort sem er með eigin vélum eða öðrum flugfélögum. Flugmaður víkur sæti fyrir fullborgandi farþega í vélum Icelandair. Þó  er heimilt að ætla flugmanni annað en viðskiptafarrými með erlendum flugfélögum sé áætlaður flugtími innan við eina klst.”

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að ákvæði framangreinds samkomulags aðila byggi á þeirri forsendu að samningsákvæðin í samningi stefnanda við Flugleiðir hf./Icelandair ehf. séu framkvæmanleg og eigi yfirleitt við um starfsemi Landhelgisgæslu. Svo sé ekki varðandi hið umdeilda kjarasamningsákvæði greinar 17-16. Það sé einhliða samið miðað við rekstur flugfélags í samkeppni og sé óframkvæmanlegt fyrir Landhelgisgæsluna.  Þá sé eðlilegt fyrir Landhelgisgæsluna að miða ferðatilhögun flugmanna sinna við reglur nr. 39/1992 um greiðslu ferðakostnaðar á vegum ríkisins vegna ferðalaga flugmanna sinna eins og um aðra starfsmenn stofnunar og ríkisins. Á þetta verður ekki fallist. Samkvæmt skýru orðalagi í grein 1.1.1 í fyrrgreindu samkomulagi skal sú ferðatilhögun, sem kveðið er á um í grein 17-16 í greindum kjarasamningi einnig gilda um flugmenn Landhelgisgæslu Íslands. Engin fyrirvari er gerður, hvorki almennt né varðandi einstök ákvæði þess samnings. Þá verður ekki séð að hið umdeilda kjarasamningsákvæði sé óframkvæmanlegt fyrir Landhelgisgæsluna.  Um er að ræða kjarasamningsákvæði sem gengur framar reglum ríkisins nr. 39/1992 um ferðakostnað.

Samkvæmt framansögðu verður fallist á dómkröfu stefnanda í máli þessu eins og nánar greinir í dómsorði,

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

 

D ó m s o r ð

Viðurkennt er að ákvæði greinar 17-16 í kjarasamningi stefnanda við Flugleiðir hf./Icelandair ehf., sbr. 15. gr. kjarasamnings stefnanda við Flugleiðir hf./Icelandair ehf. frá 10. maí 2004, gildi um kjör flugmanna Landhelgisgæslu Íslands.

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Félagi íslenskra atvinnuflugmanna,  200.000 krónur í málskostnað.

 

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Halldór H. Backman

Kristján Torfason



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum