Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 14/2004: Dómur frá 24. febrúar 2005

Ár 2005, fimmtudaginn 24. febrúar, var í Félagsdómi í málinu nr. 14/2004.

Vélstjórafélag Íslands

(Friðrik Á. Hermannsson hdl.)

gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h.

Útvegsmannafélags Norðurlands vegna

Brims hf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R :

 

 Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 20. janúar sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Hjördís Hákonardóttir, Kristjana Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Valgeir Pálsson.

 

Stefnandi er Vélstjórafélag Íslands, kt. 690269-3419, Borgartúni 18, Reykjavík.

 

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, kt. 420269-0649, Borgartúni 35, Reykjavík, fyrir hönd Útvegsmannafélags Norðurlands, kt. 431096-3239, Fiskitanga, Akureyri, vegna Brims hf., kt. 670269-4429, Fiskitanga, Akureyri.

 

Dómkröfur stefnanda

Að viðurkennt verði að Brim hf., hafi brotið gegn ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, með því að tryggja ekki vélstjórunum Kristjáni Júlíusi Erlingssyni, kt. 080655-4369 og Guðmundi Helga Steingrímssyni, kt. 211068-5239, að lágmarki 30 klukkustunda hafnarfrí eftir komu fiskiskipsins Sólbaks EA-7, skipaskrárnúmer 2262, til Eskifjarðar, að aflokinni veiðiferð, miðvikudaginn 29. september 2004.

Að Brimi hf. verði gert að greiða stefnanda févíti að fjárhæð 373.833 krónur samkvæmt grein 1.56. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, sem renni í félagssjóð stefnanda, vegna brots á ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningnum, með því að tryggja ekki vélstjórunum Kristjáni Júlíusi Erlingssyni, kt. 080655-4369 og Guðmundi Helga Steingrímssyni, kt. 211068-5239, að lágmarki 30 klukkustunda hafnarfrí eftir komu fiskiskipsins Sólbaks EA-7, skipaskrárnúmer 2262, til Eskifjarðar, að aflokinni veiðiferð, miðvikudaginn 29. september 2004

Að Samtök atvinnulífsins verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.

 

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda.

Til vara að krafa stefnanda verði lækkuð.

Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.

 

Með meðalgöngustefnu, þingfestri 27. október 2004 höfðuðu Kristján Júlíus Erlingsson og Guðmundur Helgi Steingrímsson meðalgöngusök í málinu.

       

Dómkröfur meðalgöngustefnenda

Að þeim verði heimiluð meðalganga í málinu.

Að viðurkennt verði að meðalgöngustefnendur séu ekki bundnir af gildandi kjarasamningi VSFÍ og LÍÚ, eftir að þeir sögðu sig úr VSFÍ og hófu störf hjá vinnuveitanda sem er utan LÍÚ.

Að aðalstefnandi verði dæmdur til að greiða meðalgöngustefnendum málskostnað að mati Félagsdóms, með inniföldum áhrifum 24,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

 

Dómkröfur meðalgöngustefnda 

Meðalgöngustefndi, Vélstjórafélag Íslands, krefst þess að viðurkenningar- kröfum meðalgöngustefnenda verði hafnað og að meðalgöngustefnda, Vélstjórafélagi Íslands, verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi meðalgöngustefnenda.

Meðalgöngustefndi, Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna fyrir hönd Útvegsmannafélags Norðurlands vegna Brims hf., gerir ekki athugasemd við að meðalganga verði leyfð, en lætur ekki meðalgöngusök til sín taka að öðru leyti.

 

Með úrskurði Félagsdóms uppkveðnum 20. desember 2004 var hafnað frávísunarkröfu stefnda í málinu.

 

Málavextir

Samkvæmt hlutafélagaskrá er Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. stofnað 17. september 2004. Með samningi dags. 20. september 2004, leigði Brim hf. Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf., fiskiskipið Sólbak EA-7, án allra veiðiheimilda.  Skyldi leigugjaldið vera 24% af andvirði afla Sólbaks EA.  Samkvæmt 12. gr. samningsins skyldi leigutaki greiða allan kostnað vegna reksturs skipsins á leigutímanum en leigusali greiða öll lögboðin árleg fastagjöld af skipinu og tækjum.  Samkvæmt samningnum bar leigusala að sjá um að greiða allar tryggingar af skipinu en leigutaka bar að greiða allar tryggingar af skipverjum.

Í framhaldi af leigu Sólbaks EA frá Brimi hf. til Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf., var gengið frá ráðningarsamningum við skipverja Sólbaks EA.  Að mati stefnanda fara þeir ráðningarsamningar í verulegum atriðum í bága við ákvæði kjarasamninga sjómanna og útvegsmanna.  Samningurinn var birtur á heimasíðu Brims hf. og þar segir m.a. að hafnarfrí sé almennt ein veiðiferð af hverjum þremur veiðiferðum, og almennt sé hver veiðiferð 5 til 7 sólarhringar.  Þá segir orðrétt í samningnum:  ,,Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. er utan við heildarsamtök útvegsmanna og ofangreindur sjómaður staðfestir með undirskrift sinni að vera utan stéttarfélags sjómanna.”

Í kjölfar leigu Sólbaks EA frá Brimi hf. til Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf. og undirritun framangreinds samnings milli fyrirsvarsmanna Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf. og áhafnarinnar á Sólbaki EA, bárust skrifstofu stefnanda beiðnir vélstjóranna tveggja á Sólbaki EA, þeirra Guðmundar Helga Steingrímssonar og Kristjáns Júlíusar Erlingssonar, um úrsögn úr félaginu.       

Kristján Júlíus Erlingsson var lögskráður í stöðu yfirvélstjóra á Sólbaki EA-7 24. september 2004 og þann sama dag var Guðmundur Helgi Steingrímsson lögskráður í stöðu 1. vélstjóra.  Á vottorðinu er útgerðaraðili Sólbaks EA tilgreindur Brim hf.  Sólbakur EA-7 hélt síðan frá Akureyrarhöfn föstudaginn 24. september kl. 17:00, samkvæmt framlögðum upplýsingum frá Hafnasamlagi Norðurlands.  Skipið kom til hafnar í Eskifirði kl. 13:00 miðvikudaginn 29. september 2004 en skipið hélt aftur til veiða kl. 17:00 þann sama dag, samkvæmt upplýsingum frá löggiltum vigtarmanni á Eskifirði.

Stefnandi telur sýnt að Brim hf. hafi brotið gegn ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands með því að stöðva Sólbak EA-7 einungis í fjórar klukkustundir í Eskifjarðarhöfn í stað þrjátíu, eins og framangreint kjarasamningsákvæði kveður á um, eftir að skipið kom til Eskifjarðarhafnar, að aflokinni veiðiferð, miðvikudaginn 29. september 2004.  Stefnandi telur að brot fyrirsvarsmanna Brims hf., varði félagið févíti allt að 373.833 krónur, sbr. ákvæði greinar 1.56. í kjarasamningnum.  Stofnun Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf. um rekstur Sólbaks EA-7, sé málamyndagjörningur og til þess fallinn að koma Brimi hf. undan ákvæðum kjarasamninga sjómanna og útvegsmanna.  Brim hf. sé hinn raunverulegi útgerðaraðili skipsins.  Brim hf. sé innan samtaka Landssambands íslenskra útvegsmanna en félagsmenn sambandsins séu bundnir af ákvæðum kjarasamningsins milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands.  Fyrirsvarsmönnum Brims hf. hafi því borið skylda til að virða framangreint kjarasamningsákvæði um helgarfrí en brot félagsins á ákvæðinu varði félagið févíti.

Stefndi bendir á að Útgerðarfélagið Sólbakur eigi hvorki aðild að Samtökum atvinnulífsins né aðildarfélagi þess, Landssambandi íslenskra útvegsmanna.  Um sé að ræða sjálfstætt félag um rekstur togarans Sólbaks EA-7 sem sé rekstrarlega aðskilið frá stefnda, Brimi ehf.

Samningur um leigu togarans hafi verið gerður 20. september 2004.  Samningnum hafi verið þinglýst þann 28. september 2004. Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. hafi jafnframt gert ráðningarsamninga við skipverja og standi deilan um lögmæti þess samnings, hvort hann standist ákvæði kjarasamninga.   

Stefndi heldur því fram að Samtök atvinnulífsins, Landssamband íslenskra útvegsmanna og Útvegsmannafélag Norðurlands, eigi enga aðkomu að þeirri deilu enda sé útgerðin utan þeirra samtaka.  Vélstjórar þeir sem tilgreindir séu í kröfugerð hafi sagt sig úr Vélstjórafélagi Íslands, þ.e. stefnanda máls þessa.  Hvorki útgerð né vélstjórar skipsins séu því aðilar máls þessa. 

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir á því að Brim hf. hafi brotið gegn ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands með því að tryggja ekki vélstjórunum Kristjáni Júlíusi Erlingssyni, kt. 080655-4369 og Guðmundi Helga Steingrímssyni, kt. 211068-5239, að lágmarki 30 klukkustunda hafnarfrí eftir löndun úr fiskiskipinu Sólbaki EA-7, skipaskrárnúmer 2262, á Eskifirði, miðvikudaginn 29. september 2004.  Í 2. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningnum segi orðrétt:  ,,Hafnarfrí skal vera 1 klst. fyrir hverja 6 ½ klst. af útivistartíma skipsins.”  Síðan segi í 3. mgr. greinar 5.12.:  ,,Hafnarfrí skal þó aldrei vera skemmri tími en 30 klst. að lokinni útivist hverju sinni.”  Útivist skips sé skilgreind svo í ákvæði 4. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningnum:  ,,Útivist skipsins skal reiknast frá því að lagt er af stað með skipið úr höfn í veiðiferð til þess tíma sem skip kemur til hafnar og hafnarfrí hefst.”

Ákvæði greinar 5.12. í kjarasamningnum sé að finna í V. kafla samningsins en í kaflanum sé að finna sérákvæði um kaup og kjör vélstjóra sem starfi á skipum sem stundaðar séu á veiðar með botnvörpu.  Ákvæði greinar 5.12. fjalli sérstaklega um löndunar- og hafnarfrí vélstjóra á togurum þar sem veiðar séu stundaðar með botnvörpu.  Eins og greina megi af framlagðri fiskiskipaskrá Fiskistofu, sé Sólbakur EA-7 skuttogari og í veiðiferð, sem lauk miðvikudaginn 29. september 2004.  Hafi á togaranum verið stundaðar veiðar með botnvörpu, sbr. upplýsingar frá Fiskistofu um löndun Sólbaks EA-7, 29. september 2004.  Um löndunar- og hafnarfrí vélstjóranna tveggja á Sólbaki EA-7 hafi, í umrætt sinn, gilt framangreint ákvæði greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands.

Ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands kveði á um skyldu Brims hf. til að tryggja vélstjórum Sólbaks EA-7 að minnsta kosti þrjátíu klukkustunda hafnarfrí að aflokinni hverri veiðiferð skipsins.  Samkvæmt upplýsingum frá Hafnasamlagi Norðurlands, hafi Sólbaki EA-7 verið haldið til veiða föstudaginn 24. september 2004 kl. 17:00 og, samkvæmt upplýsingum frá höfninni á Eskifirði, hafi skipið komið til hafnar að aflokinni veiðiferð miðvikudaginn 29. september 2004 kl. 13:00.  Veiðiferð skipsins hafi því tekið samtals 116 klukkustundir og samkvæmt ákvæði 2. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi aðila hafi hafnarfrí vélstjóranna því átt að nema tæpum 18 klukkustundum.  Brim hf. hafi hins vegar aðeins veitt vélstjórunum 4 klukkustunda hafnarfrí, en skipinu hafi verið haldið aftur til veiða kl. 17:00 miðvikudaginn 29. september 2004 eftir einungis fjögurra klukkustunda viðkomu.  Fyrirsvarsmenn Brims hf. hafi því, í umrætt sinn, brotið gegn ákvæðum 2. og 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands.  Þar sem ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. kveði hins vegar á um lágmarkshafnarfrí, þrjátíu klukkustundir, þyki rétt að krefja Brim hf. einungis um greiðslu févítis vegna brota á því ákvæði og láta ákvæði 2. mgr. greinar 5.12. í samningnum liggja á milli hluta.

Samkvæmt ákvæði greinar 1.56. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, sem undirritaður hafi verið 9. maí 2001, varði kjarasamningsbrot útgerðarmann févíti allt að 342.110 krónum og renni sú fjárhæð í félagssjóð Vélstjórafélags Íslands.  Samkvæmt ákvæði greinar 1.11. í kjarasamningi aðila hafi févítið hækkað um 3% 01.01.2002, aftur um 3% 01.01.2003 og enn um 3% 01.06.2004.  Er umrætt brot hafi verið framið hafi févítið því numið allt að 373.833 krónum og sé gerð sú krafa að Brim hf. verði dæmt til að greiða þá fjárhæð að fullu.

Stefnandi beinir kröfum sínum að Brimi hf. en ekki að Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf.  Stefnandi byggir á því að Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að vera skráð fyrir útgerð Sólbaks EA-7, standa utan Landssambands íslenskra útvegsmanna og freista þess þar með að semja um lakari kjör til handa skipverjum Sólbaks EA-7 en greini í kjarasamningum sjómanna og útvegsmanna. 

Byggt er á því að dómur Félagsdóms í máli nr. F-15/2001, Vélstjórafélag Íslands gegn Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna fyrir hönd Útvegsmannafélags Snæfellsness vegna Bervíkur ehf., sem kveðinn var upp 8. apríl 2002, hafi fordæmisgildi í þessu máli.  Í málinu hafi Vélstjórafélag Íslands haldið því fram að leigusamningur um skip milli tveggja einkahlutafélaga hefði verið gerður til málamynda og í því augnamiði að skjóta tiltekinni útgerð undan löglega boðuðum verkfallsaðgerðum sjómannasamtakanna í febrúar 2001. Félagsdómur hafi metið leigusamninginn, sem hafi í flestu sams konar yfirbragð og sá samningur sem nú sé deilt um, gerðan til málamynda og í þeim tilgangi að geta haldið fiskiskipinu til veiða í verkfalli sjómannasamtakanna árið 2001.  Hafi Félagsdómur í fyrsta lagi litið til þeirra eigna- og stjórnunartengsla sem hafi verið á milli einkahlutafélaganna. 

Í því máli sem hér sé til umfjöllunar hátti atvikum svo til að Útgerðarfélagið Sólbakur sé 100% í eigu Brims hf., sbr. upplýsingar úr Hlutafélagaskrá um stofnendur Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf.  Bæði félögin eigi lögheimili að Fiskitanga, Akureyri, framkvæmdastjóri beggja félaganna sé Guðmundur Kristjánsson, kt. 220860-4429, en hann sé jafnframt meðstjórnandi og prókúruhafi í Brimi hf., auk þess að vera stjórnarformaður og prókúruhafi í Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf.  Faðir Guðmundar Kristjánssonar, Kristján Guðmundsson, kt. 300328-3779, sé meðstjórnandi Brims hf. og bróðir Guðmundar Kristjánssonar, Hjálmar Þór Kristjánsson, kt. 020758-6949, sé stjórnarformaður Brims hf.  Þá sé fjármálastjóri Brims hf., Sirrý Hrönn Haraldsdóttir, kt. 080871-4309, prókúruhafi í Brimi hf. og í Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf., auk þess sem hún sé varamaður í stjórn síðargreinda félagsins. 

Af framangreindu verði ráðið að um eitt og sama félagið sé að ræða enda erfitt að sjá hagsmuni Brims hf. í því að leigja sjálfum sér skip sitt nema þá fyrir það eitt að skjóta sér undan ákvæðum kjarasamninga sjómanna og útvegsmanna, þar á meðal ákvæðanna um hafnarfrí, sbr. ákvæði greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands. 

Til viðbótar framangreindum eigna- og stjórnunartengslum Brims hf. og Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf., sé bent á eftirfarandi atriði:

Ráðningarsamningarnir milli Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf. og skipverjanna á Sólbaki EA-7 séu birtir á heimasíðu Brims hf.  Hið sama gildi um upplýsingar um landanir skipsins.

Brim hf. sé tilgreint útgerðaraðili Sólbaks EA-7 á lögskráningarvottorðum, sbr. staðfestingu þess efnis frá Siglingastofnun Íslands.  Tilgreining útgerðaraðila á lögskráningarvottorðum hafi margvísleg réttaráhrif og sé röng tilgreining útgerðarmanns á lögskráningarvottorði refsiverð.

Samkvæmt 1. málslið 3. gr. í leigusamningi um Sólbak EA-7, leigist skipið með veiðileyfi innan íslensku fiskveiðilögsögunnar en án allra veiðiheimilda.  Orðrétt segi síðan í 2. málslið 1. mgr. 3. gr. leigusamningsins:  ,,Leigutaki skal leggja skipinu til aflamark og semja við áhöfn um fiskverð.”  Þrátt fyrir þetta samningsákvæði hafi aflamark Brims hf. á Sólbaki EA-7, sem sé meðal annars 162 tonn af þorski, 72 tonn af ýsu, 57 tonn af ufsa, 57 tonn af karfa og rúm 20 tonn af úthafsrækju, svo einhver dæmi séu nefnd, sbr. fyrirliggjandi upplýsingar frá Fiskistofu, staðið óhreyft á Sólbaki EA-7, sbr. yfirlit Fiskistofu um aflahlutdeildarfærslur.  Einhverju af aflamarki hafi verið ráðstafað frá skipinu 24. og 30. september og 1. og 6. október 2004, fyrir tilstuðlan Brims hf., og þyki það sæta undrun með tilliti til þess að skipið sé í leigu hjá Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf.

Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. hafi ekki leigt Sólbak EA-7 neinar veiðiheimildir þrátt fyrir löndun úr skipinu á Eskifirði miðvikudaginn 29. september 2004.  Hvaðan þær veiðiheimildir komi sé hulin ráðgáta, enda hafi félagið aldrei haft yfir neinum veiðiheimildum að ráða.

Varðandi uppsögn framangreinds leigusamnings svo og leigugjald, vísar stefnandi til dóms í Félagsdómsmálinu nr. F-15/2001 sem hann telur hafa fordæmisgildi í máli þessu varðandi þessi atriði. 

Í framangreindu félagsdómsmáli hafi fyrirsvarsmenn þeirra tveggja útgerða, sem þar áttu hlut að máli, alfarið neitað þeim staðhæfingum talsmanna Vélstjórafélags Íslands að leigusamningur um það fiskiskip sem ágreiningurinn stóð um, væri gerður til málamynda.  Framkvæmdastjóri Brims hf. og Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf., Guðmundur Kristjánsson, hafi hins vegar ítrekað komið fram í fjölmiðlum og lýst þeirri skoðun sinni að honum sé ekki fært að gera Sólbak EA-7 út undir núverandi kringumstæðum.  Þá segi beinlínis í þeim ráðningarsamningi sem hann hafi gert við skipverja sína, sbr. upplýsingar af heimasíðu Brims hf., að skipverjunum sé óheimilt að vera í stéttarfélagi sjómanna, sbr. eftirfarandi samningsskilmála: 

“Markmið samnings þessa er að auka ávinning áhafnar og útgerðar umfram það sem almennt tíðkast.  Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. er utan við heildarsamtök útvegsmanna og ofangreindur sjómaður staðfestir með undirskrift sinni að vera utan stéttarfélags sjómanna.”

Með vísan til þessa atriðis geti vart farið á milli mála hver sé tilgangur stofnunar Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf.

Samkvæmt f-lið 2. gr. laga Vélstjórafélags Íslands, sé tilgangur félagsins meðal annars sá ,,að sjá til þess að kjarasamningum félagsins sé fylgt.”  Ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands hafi, eins og áður segi, verið brotið miðvikudaginn 29. september 2004, þegar lágmarks 30 klukkustunda hafnarfrí hafi ekki verið virt að aflokinni 116 klukkustunda veiðiferð Sólbaks EA-7.  Reglur um lágmarkshafnarfrí yfirvélstjóra skipsins, Kristjáns Júlíusar Erlingssonar og 1. vélstjóra þess, Guðmundar Helga Steingrímssonar, hafi því verið brotnar.  Báðir vélstjórarnir hafi verið félagsmenn Vélstjórafélags Íslands þegar núgildandi kjarasamningur milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands var samþykktur í atkvæðagreiðslu félagsmanna Vélstjórafélags Íslands vorið 2001 og báðir hafi þeir greitt atkvæði um samninginn.  Breyti því engu þótt vélstjórarnir hafi nú báðir sagt sig úr Vélstjórafélagi Íslands.

Þeir Guðmundur Helgi Steingrímsson og Kristján Júlíus Erlingsson þurfi að sæta því að vera bundnir við ákvæði kjarasamningsins milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands til 31. desember 2005, þrátt fyrir úrsögn sína úr Vélstjórafélagi Íslands.  Sú niðurstaða byggi á 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Guðmundur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Brims og Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf., sé með sama hætti bundinn af framangreindum kjarasamningi, enda hafi hann verið í samninganefnd útvegsmanna árið 2001 og hafi skrifað undir samning Landssamband íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands.  Þann samning sem hann nú telji ekki ásættanlegan eða framkvæmanlegan fyrir sig og sitt eða sín fyrirtæki.

Samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur reki félög, sem ekki séu meðlimir sambandanna, mál sín og meðlima sinna.  Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sé það verkefni Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á lögunum og tjóni sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvana.  Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sé verkefni Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans.  Sé máli þessu því réttilega stefnt fyrir Félagsdóm af hálfu Vélstjórafélags Íslands á hendur Samtökum atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Norðurlands vegna Brims hf.

Stefnandi kveðst byggja á ákvæðum greina 1.11., 1.56. og 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, dómi Félagsdóms nr. F-15/2001, Vélstjórafélag Íslands gegn Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna fyrir hönd Útvegsmannafélags Snæfellsness vegna Bervíkur ehf., 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, 1. mgr. 130. gr. einkamálalaga nr. 91/1991, 2. mgr. 3. gr., 44. gr. og 45. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.

  

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann eigi ekki aðild að máli þessu.  Því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. hafi tekið við rekstri skipsins við undirritun leigusamnings þann 20. september 2004 og hafi gert það út síðan. Það félag var því rekstraraðili skipsins við löndun þess í Eskifjarðarhöfn þann 28. september 2004.  Þann sama dag hafi samningurinn verið innfærður í þinglýsingarbók.  Máli þessu sé því ranglega beint gegn stefnda. Fyrirkomulag útgerðar skipsins og ráðning starfsmanna sé stefnda að auki með öllu óviðkomandi þar sem umrædd útgerð eigi ekki aðild að samtökum hans. 

Stefndi mótmælir því að fyrrgreindur leigusamningur sé málamyndagerningur. Eins og leigusamningurinn beri með sér sé um að ræða löglegan og formlega gildan leigusamning milli eiganda skips og annars lögaðila.  Hvorki sú staðreynd að Útgerðarfélagið Sólbakur sé dótturfélag  stefnda, Brims hf., né meintur tilgangur samningsins leiði til þess að leigusamningur þessara aðila um skipið geti talist vera málamyndagerningur. Stefndi bendir í því sambandi á að um sé að ræða þinglýstan leigusamning milli tveggja lögaðila með aðskilinn fjárhag.

Stefndi leggur jafnframt á það áherslu að engin forsenda sé fyrir gerð málamyndasamnings þar sem slíkur gerningur leysi útgerð Sólbaks ekki undan því að uppfylla skilyrði almennra kjarasamninga. Slíkur samningur hafi engar réttarverkanir og því engan tilgang. 

Stefndi mótmælir því jafnframt að dómur í Félagsdómsmálinu nr. F-15/2001 hafi fordæmisgildi í máli þessu.  Mál þessi séu ekki sambærileg.

Stefndi byggir á því að Brimi hf. hafi verið heimilt að stofna dótturfélag um útgerð skipsins með þeim hætti sem gert var.  Leigsamningur þessara aðila um skipið hafi verið fullgildur og átt sér efnislegar forsendur. Ágreiningur sé á hinn bóginn um gildi ráðningarsamninga Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf. við skipverja.  Mál til að fá skorið úr þeim ágreiningi hafi verið höfðað á hendur útgerðarfélaginu af Sjómannasambandi Íslands, sbr. Félagsdómsmálið nr. 12/2004. Sú leið standi einnig opin fyrir stefnanda.  Leiði sú skoðun til þess að ákvæði ráðningarsamningsins um hafnarfrí skipverja eða önnur ákvæði samningsins teljist fara í bága við kjarasamning aðila séu þau ógild samkvæmt 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. einnig 1. gr. laga um starfskjör launafólks, nr. 55/1980. 

Atvikum í þessu máli verði því ekki jafnað til málsatvika í Félagsdómsmálinu nr. 15/2001 þar sem óþinglýstur leigusamningur var gerður eftir að verkfall var boðað í þeim tilgangi að komast undan löglegu verkfalli stefnda.

Stefndi mótmælir því að tilgreining útgerðarmanns á lögskráningarvottorði hafi þýðingu í máli þessu og einnig að ákvæði leigusamningsins geti talist óeðlileg.   

Fallist dómurinn á þá málsástæðu stefnanda að leigusamningurinn um Sólbak EA-7 sé málamyndagerningur og Brim hf. raunverlegur útgerðaraðili skipsins leiði sú niðurstaða til þess að félagið skoðast sem aðili að hinum umdeilda ráðningarsamningi við sjómenn. Hvort vélstjórar skipsins hafi sætt verri kjörum en kjarasamningur aðila tryggir þeim þannig að útgerðin hafi brotið gegn 3. mgr. gr. 5.12. í kjarasamningi aðila í umræddu tilviki ræðst þá af túlkun fríákvæða ráðningarsamningsins og tilgangs þeirra hafnarfría sem samið hafi verið um í kjarasamningum aðila.

Telji dómurinn að brotið hafi verið gegn kjarasamningi á þann veg að varði við grein 5.12. í kjarasamningi aðila er gerð krafa til lækkunar á stefnukröfu.  Stefndi byggir lækkunarkröfu sína á því að grein 1.56. tilgreini hámarksfjárhæð og verði því að vega og meta í hverju tilviki fyrir sig hversu alvarlegt brot sé.  Verði þar tekið tillit til þess að það geti vart talist alvarlegt brot útgerðarmanns á kjarasamningi þegar skipverjarnir velja sjálfir að hafa annan hátt á hafnarfríum sem tryggi þeim a.m.k. jafnmarga daga í mánuði hverjum og kjarasamningur aðila ákveði.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi aðallega til kjarasamnings aðila, 7. gr. laga nr. 80/1938 og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks o. fl. og 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Krafa um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður og lagarök í meðalgöngusök 

Meðalgöngustefnendur kveðast byggja kröfu sína um að þeim verði heimiluð meðalgangan á ákvæði 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en þar segi: “Þriðja manni er heimilt að ganga inn í mál annarra ef úrslit þess skipta hann máli að lögum. Skal hann þá stefna báðum eða öllum upphaflegu aðilunum og gera kröfu um að honum verði leyfð meðalgangan og dæmt sakarefnið eða dómur annars felldur þannig að réttur hans verði verndaður.”

Meðalgöngustefnendur kveða augljóst að þeir hafi af því hagsmuni að fá dóm um það hvort þeir séu bundnir af nefndum kjarasamningi eftir að þeir sögðu sig úr VSFÍ og hófu störf hjá aðila utan vébanda LÍÚ.  Verði því að telja einboðið að þeim verði heimiluð meðalganga í máli þar sem m.a. sé byggt á því af hálfu aðalstefnanda að þeir séu bundnir af samningnum, af því einu að þeir hafi verið félagsmenn hjá honum þegar samningurinn var gerður.

Meðalgöngustefnendur kveðast byggja efniskröfu sína á því að tilvísun aðalstefnanda í málinu til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 sé byggð á misskilningi.  Umrætt ákvæði nái eingöngu til þess að félagsbundnir aðilar í stéttarfélögum geti ekki sagt sig úr félögunum og haldið áfram sama eða sambærilegu starfi hjá aðila innan vébanda hins samningsaðilans, öðru vísi en svo að vera bundnir af kjarasamningnum áfram.  Ákvæðið geti alls ekki náð til þess að ófélagsbundnir launþegar séu bundnir, einhliða, af kjarasamningi sem gerður var fyrir úrsögn þeirra úr stéttarfélagi þegar þeir hafa hafið störf hjá aðila sem ekki er innan vébanda hins samningsaðilans.  Í nefndu lagaákvæði sé kveðið á um að launþeginn sé bundinn á meðan hann vinnur þau störf sem samningurinn sé um.  Störf hjá aðila sem sé ekki og hafi aldrei verið innan vébanda samtaka vinnuveitenda, hér LÍÚ, geti aldrei verið störf sem kjarasamningur sé um.  Aðilar vinnumarkaðarins geti ekki samið um störf hjá fyrirtækjum, sem ekki séu innan þeirra vébanda.

Meðalgöngustefnendur kveða ekki mega blanda þessu saman við lagafyrirmæli sem gera ákvæði kjarasamninga á tilteknu sviði að lágmarkskjörum á sama sviði.  Störf hjá vinnuveitanda utan samtaka þeirra, sem séu samningsaðilar, falli ekki undir að vera störf, sem viðkomandi samningur sé um.  Einu áhrif samningsins á viðkomandi sviði séu að ekki megi semja um lakari kjör fyrir sambærileg störf og samningurinn sé um.  Þarna kveða meðalgöngustefnendur vera kjarna málsins.  Aðalstefnandi, VSFÍ, virðist rugla saman ákvæðinu um störf sem samningurinn sé um og því að ekki megi semja um lakari kjör fyrir sambærileg störf og samningurinn sé um.  Þetta sé ekki eitt og hið sama og meðalgöngustefnendur kveðast ekki reiðubúnir til að sætta sig við niðurstöðu í málinu nr. 14/2004, sem hugsanlega kunni að byggja á slíkum sjónarmiðum.

Meðalgöngustefnendur benda á að niðurstaða sem byggi á að þeir séu bundnir af kjarasamningi á þann hátt sem aðalstefnandi tiltekur hafi í för með sér verulega skert félagafrelsi fyrir þá og sé andstæð félagsfrelsisákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 12. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.

Kröfuna um málskostnað kveðast meðalgöngustefnendur byggja á því að aðalstefnandi hafi sett fram og byggt á málsástæðu sem meðalgöngustefnendur geti ekki sætt sig við.  Að auki kveðast meðalgöngustefnendur vísa til 1. mgr. 71. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 9. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, um friðhelgi einkalífs, en það sé réttur þeirra að vera ekki nafngreindir í eða bendlaðir við, án samráðs við þá sjálfa, málaferli milli aðila þeim óviðkomandi.  Með þessari háttsemi sinni hafi aðalstefnandi neytt meðalgöngustefnendur til að höfða meðalgöngusök þessa þannig að tryggt sé að niðurstaða í málinu verði ekki byggð á umræddri málsástæðu.  Af þessum ástæðum sé málskostnaðarkröfunni beint að aðalstefnanda einum.  Meðalgöngustefnendur kveðast ekki vera virðisaukaskattskyldir aðilar og sé þeim því nauðsyn á að fá skattinn dæmdan úr hendi aðalstefnanda á grundvelli skaðleysissjónarmiða.

Um aðild sóknarmegin í meðalgöngusök kveðast meðalgöngustefnendur byggja á 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Meðalgöngustefndi, Vélstjórafélag Íslands, byggir á því að þær dómkröfur meðalgöngustefnenda, að viðurkennt verði að meðalgöngustefnendur séu ekki bundnir af gildandi kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, eftir að þeir sögðu sig úr Vélstjórafélagi Íslands og hófu störf hjá vinnuveitanda sem er utan Landssambands íslenskra útvegsmanna, komist ekki að í málinu enda sé óumdeilt að Brim hf. sé innan Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Meðalgöngustefnendur virðist vera að krefjast viðurkenningardóms í öðru máli en því sem til umfjöllunar sé, máli sem enn hafi ekki verið höfðað, þ.e. máli Vélstjórafélags Íslands gegn Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf.  Komi því til álita að máli meðalgöngustefnenda verði vísað frá dómi án kröfu en slíkt mat sé alfarið látið í hendur Félagsdóms.

Verði dómkröfum meðalgöngustefnenda ekki vísað frá án kröfu er gerð krafa um það að viðurkenningarkröfur meðalgöngustefnenda nái ekki fram að ganga enda byggi dómkröfur meðalgöngustefnenda á því að hið stefnda útgerðarfélag í máli nr. F-14/2004, Brim hf., sé utan Landssambands íslenskra útvegsmanna.  Óumdeilt sé að Brim hf. sé innan Landssambands íslenskra útvegsmanna og sé því þá þegar af þeirri ástæðu útilokað að fella dóm meðalgöngustefnendum í hag á grundvelli dómkrafna þeirra eins og þær birtist í meðalgöngustefnunni.

Telji Félagsdómur að meðalgöngustefnan komist að í málinu og að unnt sé að leggja mat á viðurkenningarkröfur meðalgöngustefnenda samkvæmt framangreindu, er á því byggt að hafna beri þeim sjónarmiðum að baki viðurkenningarkröfum meðalgöngustefnenda í meðalgöngustefnunni.  Beri þar fyrst að líta til þeirra málsástæðna meðalgöngustefnenda að tilvísun stefnanda til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938, í máli Félagsdóms nr. 14/2004, sé byggð á misskilningi.  Að umrætt ákvæði nái eingöngu til þess að félagsbundnir aðilar í stéttarfélögum geti ekki sagt sig úr félögunum og haldið áfram sama eða sambærilegu starfi hjá aðila innan vébanda hins samningsaðilans, öðruvísi en svo að vera áfram bundnir af kjarasamningnum.  Ákvæðið geti alls ekki náð til þess að ófélagsbundnir launþegar séu einhliða bundnir af kjarasamningi sem gerður hafi verið fyrir úrsögn þeirra úr stéttarfélagi þegar þeir hafi hafið störf hjá aðila sem ekki sé innan vébanda hins samningsaðilans.  Að í nefndu lagaákvæði sé kveðið á um að launþeginn sé bundinn á meðan hann vinni þau störf sem samningurinn sé um.  Að störf hjá aðila sem sé ekki og hafi aldrei verið innan vébanda samtaka vinnuveitenda geti aldrei verið störf sem kjarasamningurinn sé um.  Aðilar vinnumarkaðarins geti ekki samið um störf hjá fyrirtækjum sem ekki séu innan þeirra vébanda.

Í fyrsta lagi geti framangreindar málsástæður ekki komist að í málinu þar sem óumdeilt sé að Brim hf. sé innan vébanda Samtaka atvinnulífsins og þar með Landssambands íslenskra útvegsmanna.  Verði Brim hf. dæmt í málinu, þ.e. talið hafa verið hinn raunverulegi útgerðaraðili Sólbaks EA þegar hin meintu kjarasamningsbrot áttu sér stað, komist framangreindar málsástæður meðalgöngustefnenda ekki að.  Framangreindar málsástæður meðalgöngustefnenda hefðu mögulega getað komist að í málinu hefði sakaukastefna Vélstjórafélags Íslands gegn Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf., verið viðurkennd en ekki óformlega vísað frá dómi á grundvelli ómöguleika eins og raun bar vitni.  Málsástæður meðalgöngustefnenda lúti því í raun að máli sem ekki sé til umfjöllunar í máli nr. F-14/2004, þ.e. máli Vélstjórafélags Íslands gegn Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf.; þær lúti í raun að varakröfum Vélstjórafélags Íslands í því máli gegn Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf., sem Vélstjórafélag Íslands reyndi án árangurs að höfða með sakaukastefnu.  Með réttu megi því segja að um aðildarskort sé hér að ræða.

Telji Félagsdómur að framangreindar málsástæður komist að í málinu er á því byggt að Vélstjórafélag Íslands hafi réttilega byggt á ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur í máli nr. F-14/2004.  Meðalgöngustefnendur séu samkvæmt framangreindu lagaákvæði bundnir af tilvitnuðum ákvæðum í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands til 31. desember 2005 en þann dag renni kjarasamningurinn út án uppsagnar.  Meðalgöngustefnendur voru félagsmenn Vélstjórafélags Íslands þegar kjarasamningurinn var undirritaður 9. maí 2001, greiddu um samninginn atkvæði og hafi hingað til starfað eftir ákvæðum kjarasamningsins.  Hugleiðingar þess efnis í meðalgöngustefnu að störf manna um borð í fiskiskipum taki stakkaskiptum eftir því í hvaða atvinnurekendafélagi viðkomandi útgerðarmaður sé, að túlka beri orðalagið störf samkvæmt lagaákvæðinu eftir félagsaðild viðkomandi sjómanns eða útgerðarmanns, séu vægast sagt nýstárlegar og eigi sér enga stoð, hvorki í lögunum sjálfum eða í greinargerð með frumvarpi til þeirra, né heldur í dómafordæmum Félagsdóms.  Megi hér í dæmaskyni vísa til forsendna og niðurstöðu í dómi Félagsdóms frá 17. september 1998 í máli nr. F-7/1998, Vélstjórafélag Íslands gegn Nesbrú ehf. :

“Stefndi er bundinn af kjarasamningi þeim sem stefnandi byggir kröfur sínar á og skiptir ekki máli í því sambandi að stefndi er ekki aðili að ofangreindum kjarasamningi, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.  Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á í máli þessu að vélstjóranum hafi verið greitt í samræmi við kjarasamninginn þrátt fyrir síðar gerða leiðréttingu á uppgjöri.”

Ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda ásamt síðari breytingum, sé sett til verndar launþegum.  Ákvæðið feli það í sér að einstökum atvinnurekendum sé ekki unnt að semja um lakari kjör við launþega sína en viðkomandi kjarasamningar greina.  Ákvæðið feli ekki í sér skert félagafrelsi launþega samkvæmt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar eins og meðalgöngustefnendur halda fram.  Meðalgöngustefnendum sé eftir sem áður frjálst að standa utan stéttarfélaga og semja um kaup og kjör við vinnuveitanda sinn, hver svo sem hann kunni að vera, en slíkir samningar megi ekki fela í sér lakari rétt til handa meðalgöngustefnendum en greini í kjarasamningnum milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands.  Vandséð sé að 1. gr. laga nr. 55/1980 skerði félagafrelsi meðalgöngustefnenda enda sé ákvæðið fyrst og fremst sett með það í huga að atvinnurekendur, sem yfirleitt hafi yfirburðasamningsstöðu gagnvart launþegum sínum, geti ekki þröngvað launþegum til að undirrita samninga sem skerði lágmarkskjör þeirra samkvæmt ákvæðum almennra kjarasamninga á viðkomandi starfssviði.

Meðalgöngustefnendur vísa til þess í meðalgöngustefnu að Vélstjórafélag Íslands hafi brotið á stjórnarskrárvörðum rétti þeirra til friðhelgis einkalífs, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, með því að þeir séu nafngreindir og bendlaðir við, án samráðs þá sjálfa, málaferli milli aðila þeim óviðkomandi.  Framangreint orðalag skjóti skökku við í því ljósi að meðalgöngustefnendur telji sig eiga rétt til að stefna sér inn í mál Félagsdóms nr. F-14/2004, með meðalgöngu samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en skilyrði meðalgöngu sé einmitt það að úrslit málsins skipti viðkomandi aðila máli að lögum.

Meðalgöngustefndi, Vélastjórafélag Íslands, gerir kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi meðalgöngustefnenda og styðst sú krafa við 129.  og 130. gr. laga nr. 90/1991.

 

Niðurstaða

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefndi, Brim hf., eigi ekki aðild að máli þessu.  Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. hafi tekið við rekstri skipsins við undirritun leigusamnings þann 20. september 2004 og hafi gert það út síðan. Því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi, sem beinir kröfum sínum að Brimi hf. en ekki að Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf., byggir á því að leigusamningurinn um skipið hafi verið gerður til málamynda.

Samkvæmt framlögðu vottorði úr hlutafélagaskrá var útgerðarfélagið Sólbakur ehf. stofnað af Brimi hf. og eru samþykktir félagsins dags. 17. september 2004. Tilgangur félagsins er rekstur útgerðar og með leigusamningi dags. 20. september 2004 tók félagið á leigu skip stefnda m.b. Sólbak EA-7 til botnvörpuveiða frá Akureyri.  Í samræmi við ákvæði 2. gr. laga nr. 2/1995 telst útgerðarfélagið Sólbakur ehf. vera dótturfélag stefnanda, sbr. og ákvæði 1. tl. 3. mgr. 11. gr. a laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Af því leiðir að veruleg eigna- og stjórnunartengsl eru á milli félaganna og renna þau út af fyrir sig ekki sérstökum stoðum undir það sjónarmið stefnanda að leigusamningurinn um skipið hafi verðið gerður til málamynda.

Í þeim ráðningarsamningi sem útgerðarfélagið Sólbakur ehf. hefur gert við  skipverja sína kemur fram að markmið samningsins sé að auka ávinning áhafnar og útgerðar umfram það sem almennt tíðkast. Jafnframt er tekið fram að útgerðarfélagið Sólbakur ehf. sé utan við heildarsamtök útvegsmanna og skipverjar staðfesti með undirskrift sinni að vera utan stéttarfélags sjómanna.  Jafnvel þótt tilgangur leigusamnings Brims hf. og útgerðarfélagsins Sólbaks ehf. hafi verið sá einn að gera ráðningarsamning í þessa veru, eins og stefnandi heldur fram, þá leiðir það ekki til þess að samningurinn teljist vera málamyndagerningur, enda verður útgerðarfélagið Sólbakur ehf. eftir sem áður bundið af því að uppfylla skilyrði almennra kjarasamninga og ákvæði laga nr. 55/1980 um lágmarkskjör í ráðningarsamningum sínum við skipverjana á Sólbaki EA-7.  Var og höfðað sérstakt mál á hendur útgerðarfélaginu fyrir Félagsdómi til ógildingar á þeim ráðningarsamningi að því marki sem hann var talinn fara í bága við gildandi kjarasamning.

Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á að einstök efnisákvæði leigusamningsins beri með sér að þau séu gerð til málamynda og eigi ekki að hafa gildi samkvæmt efni sínu.  Fyrir liggur að Fiskistofu var tilkynnt um leigu skipsins í samræmi við ákvæði 1. mgr. 11. gr. b laga nr. 38/1990. Leigusamningi aðila var þinglýst og verður litið svo á að hann hafi fullt gildi milli samningsaðila. Ekki er fallist á það með stefnanda að atvik í máli þessu séu sambærileg atvikum sem fjallað er um í dómi Félagsdóms í málinu nr. 15/2001, þar sem leigusamningur milli þar greindra aðila var í því skyni gerður að halda skipi til veiða í trássi við verkfall Vélstjórafélags Íslands.  Tilgreindur dómur hefur því ekki fordæmisgildi í máli þessu. Þá hefur það enga sérstaka þýðingu í þessu sambandi þótt ráðningarsamningar milli Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf. og skipverjanna á Sólbaki EA-7 og upplýsingar um landanir skipsins hafi verið birtir á heimasíðu Brims hf.  Þá verður ekki heldur séð að tilgreining stefnda sem útgerðaraðila Sólbaks EA-7 á lögskráningarvottorðum  skipti hér máli, enda er skipstjóra skylt að að sjá um að skipverjar séu lögskráðir í og úr skipsrúmi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 43/1987 um lögskráningu sjómanna.  Að þessu athuguðu telst útgerð Sólbaks EA-7 ekki hafa verið í höndum Brims hf. þegar stefnandi telur að kjarasamningur milli sín og Landssambands íslenskra útvegsmanna hafi verið brotinn og mál þetta er sprottið af.

Samkvæmt framansögðu verður fallist á það með stefnda að hann sé ekki réttur aðili að máli þessu.  Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu. Stefnandi skal greiða stefnda 200.000 krónur í málskostnað.

Þessi úrslit málsins leiða til þess að kröfur í meðalgöngusök koma ekki til álita í málinu. Kröfum meðalgöngustefnenda, Kristjáns Júlíusar Erlingssonar og Guðmundar Helga Steingrímssonar, er vísað frá dómi án kröfu.  Málskostnaður í meðalgöngusök fellur niður. 

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna fyrir hönd Útvegsmannafélags Norðurlands vegna Brims hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Vélstjórafélags Íslands, í máli þessu. Stefnandi skal greiða stefnda 200.000 krónur í málskostnað.

Kröfum meðalgöngustefnenda, Kristjáns Júlíusar Erlingssonar og Guðmundar Helga Steingrímssonar, er vísað frá Félagsdómi. Málskostnaður í meðalgöngusök fellur niður. 

 

Eggert Óskarsson

Hjördís Hákonardóttir

Kristjana Jónsdóttir

Gunnar Sæmundsson

Valgeir Pálsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum