Hoppa yfir valmynd
4. september 2013 Dómsmálaráðuneytið

Matsmál nr. 1/2013, úrskurður 4. september 2013

Miðvikudaginn 4. september 2013  var í Matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 1/2013

Hestamannafélagið Funi

gegn

Aðalheiði Guðmundsdóttur

og kveðinn upp svohljóðandi 

ú r s k u r ð u r :

I.  Skipan matsnefndar eignarnámsbóta: 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu þeir Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Magnús Leópoldsson, lögg. fasteignasali, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II.  Matsbeiðni, aðilar og matsandlag: 

Með matsbeiðni dags. 2. maí 2013 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 30. maí 2013 fór matsbeiðandi, Hestamannafélagið Funi, kt. 470792-2219, Hólsgerði, 601 Akureyri, (eignarnemi), þess á leit við nefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á 4,41 ha. lands úr jörðnni Munkaþverá, 601, Akureyri, vegna lagningar reiðvegar um landið. Eignarnámsþoli er eigandi jarðarinnar, Aðalheiður Guðmundsdóttir, kt. 100529-4409, Munkaþverá, 601 Akureyri.

Eignarnemi byggir eignarnámsheimild sína á 6. mgr. 37. gr. vegalaga nr. 80/2007 og ákvörðun innanríksráðuneytisins um heimild til eignarnámsins dags. 25. nóvember 2010.

III.  Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir fimmtudaginn 30. maí 2013. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni og fleiri gögn og var málinu að því búnu frestað til vettvangsgöngu til 5. júní 2013.

Miðvikudaginn 5. júní 2013 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður kannaðar og málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 26. júní 2013.

Miðvikudaginn 26. júní 2013 var máli tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð og var málinu að því búnu frestað til framagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola. 

Miðvikudaginn 31. júlí 2013 var málið tekið fyrir. Eignarnámsþoli lagði fram greinargerð o.fl. og var málnu að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess fyrir matsnefndinni til 22. ágúst 2013.

Fimmtudaginn 22. ágúst 2013 var málið tekið fyrir og flutt munnlega fyrir matsnefndinni og tekið til úrskurðar að því loknu.

IV.  Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi kveður hestamannafélögin Funa og Létta í Eyjafirði hafa reynt að ná samkomulagi við eignarnámsþola um lagningu reiðvegar um land Munkaþverár, en án árangurs. Eignarnemi segir það hafa verið mat Vegagerðarinnar að öryggi allra vegfarenda í Eyjafjarðarsveit yrði ekki tryggt með öðrum hætti en að reiðleið um svæðið yrði færð frá akvegi. Eignarnemi kveður þann kost einan hafa verið í stöðunni að krefjast eignarnáms þar sem ekki tókst að ná samkomulagi við eignarnámsþola. Hinn 25. nóvember 2010 veitti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið heimild til eignarnámsins. 

Eignarnemi kveður einkum verða að líta til eftirgreindra atriða við mat á verðmæti hins eignarnumda lands:

Um sé að ræða 10 m. breitt og 4.410 m. langt svæði við bakka Eyjafjarðarár, samtals 4,41 ha. að stærð. Eignarnemi kveður landið vera í jaðri jarðarinnar og hafi eignarnámið því ekki áhrif á nýtingarmöguleika jarðarinnar, hvort sem er til landbúnaðar, malartöku eða annars. Þá muni fyrirhugaður reiðvegur ekki hefta umferð um landið. 

Eignarnemi bendir á að nálægð hins eignarnumda lands við Eyjafjarðará takmarki nýtingarmöguleika eignarnámsþola til arðbærrar mannvirkjagerðar á hinu eignarnumda svæði enda lífríki árinnar viðkvæmt og slíkar framkvæmdir háðar skilyrðum, takmörkunum og leyfum. Þá geti stafað flóðahætta á hinu eignarnumda landi í leysingum.

Eignarnemi kveður afar lítið jarðrask muni fylgja lagningu reiðvegarins og einunigs á köflum verði um malarflutninga að ræða í reiðstígana. Mesta framkvæmdin felist í lagningu girðingar meðfram reiðstígnum en val á girðingarefni og staðsetningu hliða verði reynt að ákveða í samráði við eignarnámsþola ef hægt er. 

Eignarnemi krefst þess að tekið verði tillit til þeirrar verðmætaaukningar sem gæti orðið á öðru landi eignarnámsþola við eignarnámið þar sem framkvæmdin muni koma jörð eignarnámsþola í gott reiðvegasamband sem sé til þess fallið að auka verðmæti jarðarinnar allrar.

Eignarnemi mótmælir sérstaklega kröfum eignarnámsþola um að málinu verði vísað frá nefndinni sem og að afgreiðslu þess verði frestað. Þá gerir eignarnemi kröfu til þess að við ákvörðun málskostnaðar eignarnámsþola verði einungis litið til þeirrar vinnu sem nauðsynleg var vegna eignarmatsmálsins sjálfs.

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist aðallega að málinu verði vísað frá matsnefndinni. Til vara er þess krafist að málinu verði frestað að svo stöddu. Þá er krafist kr. 1.481.067 í  kostnað vegna reksturs matsmálsins. 

Eignarnámsþoli byggir aðalkröfu sína um frávísun málsins á því að það land sem tekið er eignarnámi nú sé ekki það sama og það land sem markað var með hnitum í afstöðumynd sem lögð var til grundvallar í ákvörðun ráðherra um eignarnámið. Eignarnemi kveður eignarnámsþola ekki hafa neina heimild til að marka hið eignarnumda með öðrum hætti en gert var samkvæmt þeim gögnum sem lágu fyrir þegar ráðherra heimilaði eignarnámið.

Varakröfu sína byggir eignarnámsþoli á því að hann hafi þegar höfðað mál á hendur eignarnema með stefnu sem gefin var út þann 10. júlí sl. þar sem krafist er ógildingar eignarnámsheimildarinnar. Telur eignarnemi að úrslit þess máls geti haft veruleg áhrif hér og því sé rétt að fresta matsmálinu þar til niðurstaða í dómsmálinu liggur fyrir. 

Fallist matsnefndin ekki á frávísun eða frestun málsins gerir eignarnámsþoli kröfu til þess að litið verði til eftirgreindra atriða við mat á hinu eignarnumda landi:

Eignarmámsþoli telur að hið afmarkaða eignarnumda land gefi ekki rétta mynd af raunverulegri stærð þess lands sem fari forgörðum vegna eignarnámsins. Þannig hljóti matsnefndin að þurfa að taka tillit til lands meðfram bakka Eyjafjarðarár sem augljóslega verði ónýtt eignarnámsþola. Telur eignarnámsþoli að land sem raunverulega þurfi að meta í þessu sambandi sé a.m.k. helmingi stærra en það land sem gerð er krafa um mat á í máli þessu. 

Eignarnámsþoli telur að matsnefndin verði að greina milli óræktaðra bakkasvæða og ræktaðs lands við mat á bótum. Þá telur eignarnemi að matsnefndin verði að meta til verðs malarveg sem ráðuneytið hafi samþykkt að tekinn yrði eignarnámi, en um sé að ræða veg sem þoli mikla þungaflutninga og því hafi hann kostað verulega fjármuni á sínum tíma.

Eignarnámsþoli kveður fyrirhugaða reiðvegi um landið muna hafa áhrif á nýtingu jarðarinnar, enda hafi ekki verið reiðstígur þar áður. Þannig telur eignarnámsþoli að sauðfjárbeit við reiðveginn verði torveldari auk þess sem malarflutningar verði ekki mögulegir eftir þeim vegi sem notaður hefur verið til þeirra hluta hingað til. Þá telur eignarnámsþoli að töluvert jarðrask muni fylgja gerð reiðvegarins sem taka beri tillit til við matið. 

Eignarnámsþoli telur að nýtingarmöguleikar jarðarinnar undir frístundabyggð verði verulega skertir vegna eignarnámsins þar sem reiðvegur meðfram ánni geri þann hluta jarðarinnar sem annars væri hentugur undir frístundabyggð mun lakari til þeirra nota en ella. Eignarnámsþoli mótmælir sérstaklega að nátturuverndar- og  skipulagslög dragi úr verðmæti landsins á bökkum Eyjafjarðarár. Þá mótmælir eignarnámsþoli því sérstaklega að væntanlegir reiðvegir muni hafa áhrif til hækkunar á verðmæti jarðarinnar.

Eignarnámsþoli kveðst muni krefjast þess að fjárheld girðing verði sett meðfram reiðveginum. Þá gerir eignarnámsþoli kröfu til þess að matsnefndin taki tillit til kostnaðar við viðhalds þeirra girðinga í framtíðinni við ákvörðun bótanna.

VI.  Álit matsnefndar:

Matsnefndin telur að fullnægjandi eignarnámsheimild sé fyrir hendi í málinu. Þá er að áliti matsnefndarinnar ekki sá óskýrleiki í gögnum um legu hins eignarnumda að það hindri að matsnefndin meti til verðmætis það land sem eignarnemi krefst mats á og nánar er afmarkað á matsskjali nr. 14, né að ástæða til að ætla að ákvörðun ráðherra um að heimila eignarnámið hafi verið byggt á óskýrum eða röngum gögnum. Að þessu virtu, og því að verkefni matsnefndarinnar er þröngt afmarkað í 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, er hvorki fallist á aðalkröfu eignarnámsþola um frávísun málsins, né að því verði frestað meðan einkamál er rekið um lögmæti eignarnámsins. 

Matsnendin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Fallist er á það með eignarnámsþola að landið vestan fyrirhugaðs reiðvegar að bökkum Eyjafjarðarár verði ekki nýtanlegt á stórum köflum vegna hins fyrirhugaða reiðvegar og þeirra girðinga sem settar verða upp meðfram honum. Taka ber tillit til þessa við matið. Þá er það álit matsnefndarinnar að hin fyrirhugaða framkvæmd muni rýra jörðina í verði meira en sem nemur verðmæti hinna 4,41 ha lands sem tekið er eignarnámi, enda mun allt land jarðarinnar sem liggur að Eyjafjarðará að nokkru ónýtast vegna framkvæmdarinnar og gera það minna hentugt til ýmis konar nýtingar. Þá er að mati nefndarinnar ljóst að reiðvegurinn og girðingin meðfram honum muni hafa truflandi áhrif á aðgengi að Eyjafjarðará til veiðiiðkunar o.fl., þó að aðkoma veiðimanna að ánni verði ekki bönnuð.

Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að bæta verði malarveginn sem eignarnemi nýtir til malarflutninga úr námu á svæðinu, enda mun reiðvegurinn liggja meðfram þeim vegi en ekki á honum. 

Fyrir liggur að skylda hvílir á eignarnema að girða af hinn fyrirhugaða reiðveg og er við það miðað við ákvörðun bótanna.

Matsnefndin fellst ekki á það með eignarnema að fram lagt málskostnaðaryfirlit eignarnámsþola innihaldi yfirlit yfir vinnu sem ekki tengist matsmáli þessu.

Með vísan til þess sem að framan greinir þykja hæfilegar eignarnámsbætur fyrir 4,41 ha. lands sem tekið er eignarnámi vera kr. 1.700.000. Þá telur matsnefndin aðra verðlækkun jarðarinnar vegna eignarnámsins og lýst hefur verið hér að framan vera hæfilega metna á kr. 3.800.000. Hæfilegar eignarnámsbætur teljast því samtals vera kr. 5.500.000.

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 1.481.067 þar með talinn virðisaukaskattur, í kostnað vegna rekstur matsmáls þessa og kr. 1.000.000 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta.


ÚRSKURÐARORÐ:

 Eignarnemi, Hestamannafélagið Funi, kt. 470792-2219, Hólsgerði, 601 Akureyri, skal greiða eignarnámsþola, Aðalheiði Guðmundsdóttur, kt. 100529-4409, Munkaþverá, 601 Akureyri, kr. 5.500.000 í eignarnámsbætur og kr. 1.481.067, þar með talinn virðisaukaskattur, í kostnað vegna rekstur matsmáls þessa.

Þá skal eignarnemi greiða kr. 1.000.000 í ríkissjóð vegna kostnaðar við Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

 

_________________________________

Helgi Jóhannesson, hrl.

 

 

______________________________                                                ___________________________

Magnús Leópoldsson, lögg. fasteignasali                                           Vífill Oddsson verkfr.

 

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum