Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2000 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurðir 1. nóvember 2000

Miðvikudaginn 1. nóvember 2000 var tekið fyrir matsmálið nr. 7/2000

Vegagerðin

gegn

Eigendum Selvalla, Helgafellssveit

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu þeir Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðngur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni dags. 12. apríl 2000, sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 8. maí 2000, fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms í landi Selvalla Helgafellssveit. Tilefni eignarnámsins er lagning nýs vegar um svæðið, en eignarnámsheimildina er að finna í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994. Í matsbeiðninni var þess jafnframt farið á leit að matsnefndin heimilaði eignarnema að taka umráð hins eignarnumda, þrátt fyrir að matinu væri ekki lokið, með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973.

Andlag eignarnámsins er 9 ha. landspilda sem fer undir hinn nýja veg, 2250 m. löng og 40 m. breið. Að auki er krafist mats á 10.000 m³ af malarefni sem tekið verður úr landi Seljavalla vegna veglagningarinnar. Efnið verður notað í fyllingar og neðra burðarlag. Að auki er krafist mats á bótum vegna tímabundinna afnota af landi undir vinnubúðir vektaka í landi eignarnámsþola, en um er að ræða um 1.500 m² svæði sem notað verður undir vinnubúðir til 15. október 2001.

Eigendur Selvalla, Helgafellssveit, eru Jón Thors, kt. 110432-3059, Safamýri 39, Reykjavík og Ásta I. Thors, kt. 160636-4329, Hagamel 31, Reykjavík (eignarnámsþolar).

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta mánudaginn 8. maí 2000. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Matsnefndin heimilaði eignarnema að taka umráð hins eignarnumda þó mati væri ekki lokið, enda fullnægjandi lagaheimild til eignarnámsins, auk þess sem aðilar gerðu ekki kröfu til að leggja fram greinargerðir vegna þess þáttar málsins. Að því búnu var málinu frestað til 8. júní til vettvangsgöngu.

Ekki gat orðið af vettvangsgöngunni þann 8. júní, en fimmtudaginn 22. júní var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Að því búnu var málinu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 22. ágúst 2000.

Greinargerð eignarnema barst nokkru fyrr en ráðgert var og var málið því tekið fyrir fimmtudaginn 10. ágúst 2000. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 14. september 2000.

Fimmtudaginn 14. september 2000 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings til 6. október 2000.

Af óviðráðanlegum orsökum varð að fresta flutningi málsins þann 6. október, en föstudaginn 13. október 2000 var málið tekið fyrir. Fram fór munnlegur flutningur og var málið að því búnu tekið til úrskurðar.

 

IV. Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi kveðst hafa gert eignarnámsþolum skriflegt tilboð um bætur fyrir hið eignarnumda með bréfi dags. 28. febrúar 2000. Tilboðið hafi hljóðað upp á eftirfarandi:

Beitiland 9 ha. kr. 46.800-

Malarefni 10.000 m³ kr. 45.000-

Jarðrask og átroðningur kr. 50.000-

Samtals kr. 141.800-

Eignarnemi kveður eignarnámsþola hafa hafnað tilboðinu og því sé það niður fallið og óskuldbindandi fyrir eignarnema.

Eignarnemi kveður eignarnámið ná til 2250 m. langs og 40 m. breiðs kafla í landi eignarnámþola, samtals 9 ha., auk 10.000 m³ malarefnis sem tekið verður úr landinu. Eignarnemi kveður landið undir veginn vera óræktað land sem geti nýst sem beitiland en alls ekki til ræktunar. Eignarnemi kveður veginn muni liggja um land þar sem eru grónir eða lítt grónir melar, en að öðru leyti sé landið dæmigert heiðarland.

Eignarnemi byggir á því að umrætt land geti ekki talist verðmætara en gengur og gerist um landbúnaðarland. Af þeim sökum sé eðlilegt að miða bætur fyrir land við orðsendingu nr. 14/1999 um landbætur o.fl. sem Vegagerðin gefi út að höfðu samráði við Bændasamtök Íslands. Um sé að ræða viðmiðun sem almennt sé stuðst við þegar bændum eru boðnar bætur fyrir landbúnaðarland, þegar það er í meðallagi verðmætt, og skerðing á ræktunarlandi hefur ekki tilfinnanleg áhrif á heildarstærð ræktanlegs lands viðkomandi jarðar. Samkvæmt þessu er það álit eignarnema að eðlilegt sé að bæta óræktunarhæft beitiland með 5.200 kr./ha. Eignarnemi bendir á að fasteignamat Selvalla í heild.

Að mati eignarnema er verðmæti hins eignarnumda malarefnis að hámarki það sem fram kemur í áðurnefndri orðsendingu eignarnema um landbætur o.fl. nr. 14/1999. Eignarnemi telur að miða eigi við verð fyrir möl utan markaðssvæða, þar sem ekki sé til staðar markaður fyrir malarefni til mannvirkjagerðar í nágrenni Dals. Gæði hins eignarnumda malarefnis séu takmörkuð og taka verði mið af því. Eignarnemi kveðst muni nota hið eignarnumda malarefni í fyllingar og neðri hluta burðarlags og því beri að bæta það sem fyllingarefni. Eignarnemi tekur sérstaklega fram að hann sé langstærsti notandi malarefnis til mannvirkjagerðar á landsbyggðinni og því eðlilegt að reikna með nokkrum magnafslætti til hans miðað við aðra kaupendur malarefnis. Ennfremur er bent á lagaskyldur eignarnema, sem hefur ríkari skyldur en aðrir efnistökuaðilar m.t.t. frágangs og uppgæðslu efnistökustaða.

Varðandi mat á bótum fyrir tímabundin afnot af landi undir vinnubúðir telur eignarnemi eignarnámsþola ekki verða fyrir neinu tjóni vegna þessa. Þes hafi verið gætt aðvelja vinnubúðunum stað þar sem lítið rask hljótist af og að röskun, ef einhver er, sjáist sem minnst af fyrirhuguðu vegarstæði. Snúningsplan sé þar fyrir þannig að ekki sé um óraskað svæði að ræða.

Af hálfu eignarnema er á því byggt að bætur til eignarnámsþola eigi að miðast við sannað fjárhagslegt tjón hans af eignarnáminu. Til frádráttar bótum eigi að koma hagsbætur þær sem ætla megi að hljótist af framkvæmdum þeim sem eru tilefni eignarnámsins. Í þessu sambandi verði að taka til greina það hagræði sem ný vegtenging hafi fyrir landeigendur, sem geri landið aðgengilegra og betur fallið til nýtingar.

Til stuðnings framangreindum kröfum vísar eignarnemi til vegalaga nr. 45/1994, einkum IX. kafla. Ennfremur er vísað til 72. gr. stjórnarskráinnar.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er eftirfarandi kröfur gerðar:

  1. Að fullar bætur komi fyrir allt land sem fer undir vegi og þar sem ekki má reisa byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki vegna vegarins, þ.e. á 30 m. kafla frá miðlínu vegar í hvora átt. Samtals gera eignarnámsþolar því kröfu til þess að þeim verði dæmdar bætur fyrir eignarnám á 13,5 ha. lands (2250 m. x 60 m.), en ekki 9 ha. (2250 m. x 40 m.) eins og eignarnemi gerir kröfu um.

  2. Í annan stað gera eignarnámsþolar kröfu til þess að fullar bætur komi fyrir það land sem liggur í næsta nágrenni við hinn fyrirhugaða veg og helgunarsvæði hans, þar sem eignarnámsþolar telja að land utan 60 m. helgunarsvæði vegarins rýrni í verði vegna framkvæmdarinnar.

  3. Þá krefjast eignarnámsþolar bóta vegna tímabundinna og varanlegra óþæginda vegna lagningar vegarins.

  4. Þá er krafist bóta vegna allrar efnistöku sem fyrirhuguð er í landi þeirra.

  5. Að endingu er krafist kostnaðar vegna rekstrar málsins fyrir matsnefndinni.

Rökstuðningur eignarnámsþola er eftirfarandi:

Varðandi lið 1:

Eignarnámsþolar krefjast þess að fá fullar bætur fyrir það land sem þeir eru sviptir umráðum yfir vegna veglagningarinnar. Eignarnámsþolar telja að vegna ákvæðis í 33. gr. vegalaga nr. 45/1994, er kveður á um að ekki megi koma fyri á landi byggingum, leiðslum eða öðrum mannvirkjum, föstum eða lausum nær vegi en 30 metra frá miðlínu stofnvegar, nema leyfi Vegagerðarinnar komi til, séu þeir í raun sviptir umráðum yfir 51 ha. lands vegna framkvæmdarinnar, en ekki 34 ha. eins og eignarnemi heldur fram.

Af hálfu eignarnámsþola er talið að það verð sem eignarnemi hefur boðið fyrir landið sé allt of lágt og hafnar alfarið að orðsending eignarnema sjálfs sé höfð þar til viðmiðunar. Eignarnámsþolar telja ljóst að fullt verð eigi að koma fyrir hið eignarnumda land og því séu staðlaðar bætur eins og fram koma í orðsendingu eignarnema ekki rétt aðferð við að finna út verðmætið, enda ekkert tillit tekið til aðstæðna á hverjum stað með þeirri aðferð.

Eignarnámsþolar telja að sú staðreynd að landið hafi nú verið skipulagt sem land undir nýjan veg hljóti að fela í sér verðmætaaukningu á landinu sem bæta beri þeim.

Eignarnámsþolar telja erfitt að meta verðmæti landins sem tekið hefur verið eignarnámi. Almennt söluverð sambærilegra jarða gefi enga vísbendingu þar um, þar sem það verð miðast við sölu á almennum frjálsum markaði á óskipulögðum svæðum og landbúnaðarafnot. Eignarnámsþolar benda á að í skýrslu um umhverfismat sem unnin var vegna framkvæmdarinnar komi fram að svæðið sem hinn nýji vegur komi til með að liggja um hafi marga kosti fram yfir aðrar leiðir sem kannaðar voru. Þá komi fram í skýrslunni að veglínan sé yfirleitt vel gróin. Suðurhluti hennar algróin, en gróðurhulan gisnari á noðurhlutanum. Eignarnámsþolar telja því augljóst að verið er að fórna fögru og friðsælu svæði fyrir hagsmuni almennings.

Eignarnámsþolar benda til samanburðar á nýleg möt Matsnefndar eignarnámsbóta vegna lagningar Búrfellslínu 3A um lönd í Gnúpverjahreppi, en þar hafi land verið metið á bilinu 150.000- til 400.000- kr./ha.

Að áliti eignarnámsþola er rétt að miða við 250.000- kr./ha. í máli þessu og því séu hæfilegar bætur fyrir 13,5 ha. lands kr. 3.375.000-.

Varðandi lið 2:

Eignarnámsþolar telja að land í næsta nágrenni við 60 m. helgunarsvæði vegarins komi til með að rýrna í verði vegna nálægðar við veginn. Þeim séu þannig í raun bönnuð hefðbundin afnot af því landi sem næst liggur vegna óhagræðis og óþæginda við að setja niður mannvirki í miklu návígi við veginn. Eignarnámsþolar telja bætur vegna þessa þáttar hæfilegar kr. 1.000.000-.

Varðandi lið 3:

Eignarnámsþolar krefjast sérstaklega bóta fyrir tímabundið og varanleg óþægindi og rask sem vegurinn komi til með að hafa í för með sér. Varðandi tímabundin óþægindi er vísað til hávaða og aukinnar umferðar þungaflutningabifreiða meðan á lagningu vegarins stendur auk þess sem eignarnámsþolar veittu leyfi fyrir því að vinnubúðir yrðu reistar á landi þeirra meðan á framkvæmdinni stendur. Varanlegt ónæði af veginum felst í aukinni umferð og þeirri mengun og hávaða sem því fylgi. Auk þess sem vegurinn felur í sér mikla sjónmengun á svæðinu. Að áliti eignarnámsþola gera þessi atriði jörðina verðminni en áður var. Telja eignarnámsþolar hæfilegar bætur vegna þessa vera kr. 350.000-.

 

 

Varðandi lið 4:

Af hálfu eignarnámsþola er á því byggt að malarnámur þær er eignarnemi hyggst taka efni úr séu í raun á markaðssvæði, enda hafi eignarnemi óskað eftir efnistöku á svæðinu. Eignarnámsþolar telja að við matið á efninu eigi m.a. að taka tillit til þess að eignarnemi spari sér flutningskostnað á efninu þar sem það er svo nálægt þeim stað sem það verður notað. Eignarnámsþolar telja verð fyrir sambærilegt efni til verktaka sé 50 kr./m³. Eignarnámsþolar hafna alfarið þeim verðum sem fram koma í orðsendingu eignarnema sjálfs, enda sé þar um að ræða einhliða verðákvörðun af hálfu eignarnema. Af hálfu eignarnámsþola er gerð krafa um kr. 500.000- fyrir þá 10.000 m³ sem teknir verða eignarnámi.

Varðandi lið 5:

Gerð er krafa til málskostnaðar af hálfu eignarnámsþola og að höfð sé hliðsjón af umfangi málsins, vettvangsgöngu o.fl. við mat á hæfilegum kostnaði til eignarnámsþola.

 

VI. Álit matsnefndar:

a) Bætur fyrir land:

Fullnægjandi lagaheimild er til eignarnámsins og hefur matsnefndin farið á vettvang og kynnt sér aðstæður svo sem fram hefur komið. Lega og lögun hins eignarnumda lands er óumdeild.

Að áliti matsnefndarinnar er hið eignarnumda land dæmigert íslenskt heiðarland. Hæð þess yfir sjávarmáli og gisið gróðurfar á landinu gerir það af verkum að landið hentar illa til sumardvalar og er óraunhæft að mati nefndarinnar að eftirspurn geti orðið eftir landinu fyrir sumarhúsabyggð, þó náttúrufegurð sé þar vissulega fyrir hendi. Allt að einu verður að líta til þess við matið að verð á jörðum, einkum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, hefur farið hækkandi síðustu misserin. Þau verð sem upp eru gefin í orðsendingu eignarnema þykja ekki gefa raunhæfa mynd af verðmæti þess lands sem um er að tefla í máli þessu.

Ekki er fallist á það með eignarnámsþolum að eignarnema verði gert að greiða að fullu fyrir 60 m. breiða spildu undir hinn fyrirhugaða veg, enda hefur einungis 40 m. breið spilda verið tekin eignarnámi. Á hinn bóginn er litið til þess við matið að skv. ákvæðum vegalaga er eignarnámsþolum bannað að reisa mannvirki innan 30 metra frá miðlínu vegarins, nema með samþykki eignarnema, og ber því að greiða þeim bætur fyrir þá kvöð sem leggst á 10 m. breitt belti sitthvoru megin vegarins. Það land mun hins vegar nýtast þeim til hvers konar landbúnaðarnota sem fyrr.

Með vísan til þess sem að framan segir þykja hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda land vera sem hér segir, og hefur þá verið tekið tillit til þess að á sumum hlutum þess er malarefni sem nýtist eignarnema við framkvæmdir hans:

Bætur fyrir hið eignarnumda land kr. 360.000-

Bætur fyrir takmörkun á nýtingarmöguleikum

vegna 60 m. helgunarsvæðis kr. 53.000-

Samtals kr. 413.000-

 

b) Bætur fyrir malarefni:

Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að malarnámur þær sem hin eignarnumda möl verður tekin úr sé á markaðssvæði, enda liggur ekki fyrir að nein eftirspurn sé eftir mölinni af hálfu annarra en eignarnema sjálfs.

Með vísan til þessa þykir rétt að líta til orðsendingar eignarnema um mat á verðmæti hins eignarnumda malarefnis. Svo sem fram hefur komið mun eignarnemi nota efnið í fyllingar og neðra burðarlag. Fallist er á að bæta beri efnið sem fyllingarefni. Með hliðsjón af þessu þykja hæfilegar bætur fyrir 10.000 m³ af malarefni vera kr. 50.000-.

Rétt þykir að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 300.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins og kr. 400.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar við störf Matsnefndar eignarnámsbóta í málinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþolum, Jóni Thors, kt. 110432-3059, Safamýri 39, Reykjavík og Ástu I. Thors, kt. 160636-4329, Hagamel 31, Reykjavík, sameiginlega, kr. 463.000- í eignarnámsbætur og kr. 300.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna rekstur matsmáls þessa.

Þá greiði eignarnemi kr. 400.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar við Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

Helgi Jóhannesson, hrl.

Vífill Oddsson, verkfr. Kristinn Gylfi Jónsson, vskfr. og bóndi

 

Miðvikudaginn 1. nóvember 2000 var tekið fyrir matsmálið nr. 6/2000

Vegagerðin

gegn

Eigendum Dals, Miklaholtshreppi

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu þeir Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðngur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni, sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 8. maí 2000, fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms í landi Dals Miklaholtshreppi. Tilefni eignarnámsins er lagning nýs vegar um svæðið, en eignarnámsheimildina er að finna í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994. Í matsbeiðninni var þess jafnframt farið á leit að matsnefndin heimilaði eignarnema að taka umráð hins eignarnumda, þrátt fyrir að matinu væri ekki lokið, með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973.

Andlag eignarnámsins er 34 ha. landspilda sem fer undir hinn nýja veg, 8500 m. löng og 40 m. breið. Að auki er krafist mats á 84.000 m³ af malarefni sem tekið verður úr landi Dals vegna veglagningarinnar. 60.000 m³ verða notaðir í fyllingar, 20.000 m³ í burðarlag og 4.000 m³ í bundin slitlög.

Eigendur Dals, Miklaholtshreppi, eru Ásþór Jóhannsson, kt. 210655-3609 og Katrín Ævarsdóttir, kt. 070154-3669 bæði til heimils að Dal, Miklaholtshreppi (eignarnámsþolar).

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta mánudaginn 8. maí 2000. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Matsnefndin heimilaði eignarnema að taka umráð hins eignarnumda þó mati væri ekki lokið, enda fullnægjandi lagaheimild til eignarnámsins, auk þess sem aðilar gerðu ekki kröfu til að leggja fram greinargerðir vegna þess þáttar málsins. Að því búnu var málinu frestað til 8. júní til vettvangsgöngu.

Ekki gat orðið af vettvangsgöngunni þann 8. júní, en fimmtudaginn 22. júní var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Að því búnu var málinu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 22. ágúst 2000.

Greinargerð eignarnema barst nokkru fyrr en ráðgert var og var málið því tekið fyrir fimmtudaginn 10. ágúst 2000. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 14. september 2000.

Fimmtudaginn 14. september 2000 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings til 6. október 2000.

Af óviðráðanlegum orsökum varð að fresta flutningi málsins þann 6. október, en föstudaginn 13. október 2000 var málið tekið fyrir. Fram fór munnlegur flutningur og var málið að því búnu tekið til úrskurðar.

 

 

 

 

IV. Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi kveðst hafa gert eignarnámsþolum skriflegt tilboð um bætur fyrir hið eignarnumda með bréfi dags. 28. febrúar 2000. Tilboðið hafi hljóðað upp á eftirfarandi:

Ræktunarhæft land 20 ha. kr. 290.000-

Beitiland 14 ha. kr. 77.800-

Malarefni 84.000 m³ kr. 522.000-

Jarðrask og átroðningur kr. 50.000-

Samtals kr. 934.800-

Eignarnemi kveður eignarnámsþola hafa hafnað tilboðinu og því sé það niður fallið og óskuldbindandi fyrir eignarnema.

Eignarnemi kveður eignarnámið ná til 8.500 m. langs og 40 m. breiðs kafla í landi eignarnámþola, samtals 34 ha., auk 84.000 m³ malarefnis sem tekið verður úr landinu. Eignarnemi kveður landið undir veginn vera óræktað land sem geti nýst sem beitiland en síður til ræktunar vegna staðsetningar þess. Þó fellst eignarnemi á að 20 ha. gætu talist ræktunarhæft land, en 14 ha. séu örugglega óræktunarhæft land. Eignarnemi kveður veginn muni liggja um land þar sem er mýrlendi, en mólendi og melar sumstaðar inn á milli á þeim hluta landsins sem lægst liggur, en að öðru leyti sé landið dæmigert heiðarland.

Eignarnemi byggir á því að umrætt land geti ekki talist verðmætara en gengur og gerist um landbúnaðarland. Af þeim sökum sé eðlilegt að miða bætur fyrir land við orðsendingu nr. 14/1999 um landbætur o.fl. sem Vegagerðin gefi út að höfðu samráði við Bændasamtök Íslands. Um sé að ræða viðmiðun sem almennt sé stuðst við þegar bændum eru boðnar bætur fyrir landbúnaðarland, þegar það er í meðallagi verðmætt, og skerðing á ræktunarlandi hefur ekki tilfinnanleg áhrif á heildarstærð ræktanlegs lands viðkomandi jarðar. Samkvæmt þessu er það álit eignarnema að eðlilegt sé að bæta rætunarhæft land undir veg með 14.500 kr./ha. en óræktunarhæft með 5.200 kr./ha. Samkvæmt fyrrgreindri greiningu landsins í ræktunarhæft og óræktunarhæft land ættu heildarbætur því að vera kr. 362.800- fyrir hið eignarnumda land.

Eignarnemi telur veglagninguna ekki hafa nein teljandi neikvæð áhrif á landkosti jarðarinnar. Sérstaklega er tekið fram að engin truflun verði á veiði vegna framkvæmdanna. Ekki sé um rask að ræða í Straumfjarðará og veglínan hvergi nærri ánni þannig að veiði spillist.

Eignarnemi kveður veglagninguna hafa ótvírætt hagræði í för með sér fyrir eignarnámsþola. Með tilkomu hins nýja vegar opnist nýtingarmöguleikar sem ekki hafi áður verið til staðar. Stór hluti jarðarnnar verði aðgengilegur til útivistar og annarra nota með tilkomiu greiðfærs vegar um landið. Nýting veiðihlunninda verði til muna hagkvæmari en áður og líklegra að unnt verði að selja veiðileyfi í ánni með bættri aðkomu að henni, en í dag er stærsti hluti hennar aðeins aðgengilegur fótgangandi mönnum, eða á mjög vel búnum ökutækjum.

Að mati eignarnema er verðmæti hins eignarnumda malarefnis að hámarki það sem fram kemur í áðurnefndri orðsendingu eignarnema um landbætur o.fl. nr. 14/1999. Eignarnemi telur að miða eigi við verð fyrir möl utan markaðssvæða, þar sem ekki sé til staðar markaður fyrir malarefni til mannvirkjagerðar í nágrenni Dals. Gæði hins eignarnumda malarefnis séu takmörkuð og taka verði mið af því. Eignarnemi kveðst muni nota hið eignarnumda malarefni þannig að 60.000 m³ fari í fyllingar, 20.000 m³ í burðarlag og 4.000 m³ í bundin slitlög. Eignarnemi tekur sérstaklega fram að hann sé langstærsti notandi malarefnis til mannvirkjagerðar á landsbyggðinni og því eðlilegt að reikna með nokkrum magnafslætti til hans miðað við aðra kaupendur malarefnis. Ennfremur er bent á lagaskyldur eignarnema, sem hefur ríkari skyldur en aðrir efnistökuaðilar m.t.t. frágangs og uppgæðslu efnistökustaða.

Af hálfu eignarnema er á því byggt að bætur til eignarnámsþola eigi að miðast við sannað fjárhagslegt tjón hans af eignarnáminu. Til frádráttar bótum eigi að koma hagsbætur þær sem ætla megi að hljótist af framkvæmdum þeim sem eru tilefni eignarnámsins. Í þessu sambandi verði að taka til greina það hagræði sem ný vegtenging hafi fyrir landeigendur, sem geri landið aðgengilegra og betur fallið til nýtingar.

Til stuðnings framangreindum kröfum vísar eignarnemi til vegalaga nr. 45/1994, einkum IX. kafla. Ennfremur er vísað til 72. gr. stjórnarskráinnar.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er eftirfarandi kröfur gerðar:

  1. Að fullar bætur komi fyrir allt land sem fer undir vegi og þar sem ekki má reisa byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki vegna vegarins, þ.e. á 30 m. kafla frá miðlínu vegar í hvora átt. Samtals gera eignarnámsþolar því kröfu til þess að þeim verði dæmdar bætur fyrir eignarnám á 51 ha. lands (8500 m. x 60 m.), en ekki 34 ha. (8500 m. x 40 m.) eins og eignarnemi gerir kröfu um.

  2. Í annan stað gera eignarnámsþolar kröfu til þess að fullar bætur komi fyrir það land sem liggur í næsta nágrenni við hinn fyrirhugaða veg og helgunarsvæði hans, þar sem eignarnámsþolar telja að land utan 60 m. helgunarsvæði vegarins rýrni í verði vegna framkvæmdarinnar.

  3. Þá krefjast eignarnámsþolar bóta vegna tímabundinna og varanlegra óþæginda vegna lagningar vegarins.

  4. Þá er krafist bóta vegna allrar efnistöku sem fyrirhuguð er í landi þeirra.

  5. Að endingu er krafist kostnaðar vegna rekstrar málsins fyrir matsnefndinni.

Rökstuðningur eignarnámsþola er eftirfarandi:

Varðandi lið 1:

Eignarnámsþolar krefjast þess að fá fullar bætur fyrir það land sem þeir eru sviptir umráðum yfir vegna veglagningarinnar. Eignarnámsþolar telja að vegna ákvæðis í 33. gr. vegalaga nr. 45/1994, er kveður á um að ekki megi koma fyri á landi byggingum, leiðslum eða öðrum mannvirkjum, föstum eða lausum nær vegi en 30 metra frá miðlínu stofnvegar, nema leyfi Vegagerðarinnar komi til, séu þeir í raun sviptir umráðum yfir 51 ha. lands vegna framkvæmdarinnar, en ekki 34 ha. eins og eignarnemi heldur fram.

Af hálfu eignarnámsþola er talið að það verð sem eignarnemi hefur boðið fyrir landið sé allt of lágt og hafnar alfarið að orðsending eignarnema sjálfs sé höfð þar til viðmiðunar. Eignarnámsþolar telja ljóst að fullt verð eigi að koma fyrir hið eignarnumda land og því séu staðlaðar bætur eins og fram koma í orðsendingu eignarnema ekki rétt aðferð við að finna út verðmætið, enda ekkert tillit tekið til aðstæðna á hverjum stað með þeirri aðferð.

Eignarnámsþolar telja að sú staðreynd að landið hafi nú verið skipulagt sem land undir nýjan veg hljóti að fela í sér verðmætaaukningu á landinu sem bæta beri þeim.

Eignarnámsþolar telja erfitt að meta verðmæti landins sem tekið hefur verið eignarnámi. Almennt söluverð sambærilegra jarða gefi enga vísbendingu þar um, þar sem það verð miðast við sölu á almennum frjálsum markaði á óskipulögðum svæðum og landbúnaðarafnot. Eignarnámsþolar benda á að í skýrslu um umhverfismat sem unnin var vegna framkvæmdarinnar komi fram að svæðið sem hinn nýji vegur komi til með að liggja um hafi marga kosti fram yfir aðrar leiðir sem kannaðar voru. Þá komi fram í skýrslunni að veglínan sé yfirleitt vel gróin. Suðurhluti hennar algróin, en gróðurhulan gisnari á noðurhlutanum. Eignarnámsþolar telja því augljóst að verið er að fórna fögru og friðsælu svæði fyrir hagsmuni almennings.

Eignarnámsþolar benda til samanburðar á nýleg möt Matsnefndar eignarnámsbóta vegna lagningar Búrfellslínu 3A um lönd í Gnúpverjahreppi, en þar hafi land verið metið á bilinu 150.000- til 400.000- kr./ha.

Að áliti eignarnámsþola er rétt að miða við 250.000- kr./ha. í máli þessu og því séu hæfilegar bætur fyrir 51 ha. lands kr. 12.750.000-.

Varðandi lið 2:

Eignarnámsþolar telja að land í næsta nágrenni við 60 m. helgunarsvæði vegarins komi til með að rýrna í verði vegna nálægðar við veginn. Þeim séu þannig í raun bönnuð hefðbundin afnot af því landi sem næst liggur vegna óhagræðis og óþæginda við að setja niður mannvirki í miklu návígi við veginn. Eignarnámsþolar telja bætur vegna þessa þáttar hæfilegar kr. 3.000.000-.

 

 

Varðandi lið 3:

Eignarnámsþolar krefjast sérstaklega bóta fyrir tímabundið og varanleg óþægindi og rask sem vegurinn komi til með að hafa í för með sér. Varðandi tímabundin óþægindi er vísað til hávaða og aukinnar umferðar þungaflutningabifreiða meðan á lagningu vegarins stendur. Varanlegt ónæði af veginum felst í aukinni umferð og þeirri mengun og hávaða sem því fylgi. Auk þess sem vegurinn felur í sér mikla sjónmengun á svæðinu. Að áliti eignarnámsþola gera þessi atriði jörðina verðminni en áður var. Telja eignarnámsþolar hæfilegar bætur vegna þessa vera kr. 950.000-.

Varðandi lið 4:

Af hálfu eignarnámsþola er á því byggt að malarnámur þær er eignarnemi hyggst taka efni úr séu í raun á markaðssvæði, enda hafi eignarnemi óskað eftir efnistöku á svæðinu. Eignarnámsþolar telja að við matið á efninu eigi m.a. að taka tillit til þess að eignarnemi spari sér flutningskostnað á efninu þar sem það er svo nálægt þeim stað sem það verður notað. Eignarnámsþolar telja verð fyrir sambærilegt efni til verktaka sé 50 kr./m³. Eignarnámsþolar hafna alfarið þeim verðum sem fram koma í orðsendingu eignarnema sjálfs, enda sé þar um að ræða einhliða verðákvörðun af hálfu eignarnema. Af hálfu eignarnámsþola er gerð krafa um kr. 4.200.000- fyrir þá 84.000 m³ sem teknir verða eignarnámi.

Varðandi lið 5:

Gerð er krafa til málskostnaðar af hálfu eignarnámsþola og að höfð sé hliðsjón af umfangi málsins, vettvangsgöngu o.fl. við mat á hæfilegum kostnaði til eignarnámsþola.

 

 

 

 

 

 

VI. Álit matsnefndar:

a) Landverð:

Fullnægjandi lagaheimild er til eignarnámsins og hefur matsnefndin farið á vettvang og kynnt sér aðstæður svo sem fram hefur komið. Lega og lögun hins eignarnumda lands er óumdeild.

Að áliti matsnefndarinnar má skipta hinu eignarnumda landi í tvo flokka. Annars vegar er það land sem sunnar liggur, sem er gróðursælt og ákjósanlegt til hvers konar landbúnaðarnota og sem land undir sumarhús. Hins vegar er það norðurhluti landsins sem liggur hærra, fjarri bæjarhúsunum, er gróðursnauðari og hentar ekki vel til landbúnaðarnota, nema e.t.v. til beitar, né sem land undir sumarhús. Af hálfu matsnefndarinnar er litið svo á að 5 km. af hinu eignarnumda landi falli í betri flokkinn, en 3,5 km. í þann sem síðri er.

Ekki er fallist á það með eignarnámsþolum að eignarnema verði gert að greiða að fullu fyrir 60 m. breiða spildu undir hinn fyrirhugaða veg, enda hefur einungis 40 m. breið spilda verið tekin eignarnámi. Á hinn bóginn er litið til þess við matið að skv. ákvæðum vegalaga er eignarnámsþolum bannað að reisa mannvirki innan 30 metra frá miðlínu vegarins, nema með samþykki eignarnema, og ber því að greiða þeim bætur fyrir þá kvöð sem leggst á 10 m. breitt belti sitthvoru megin vegarins. Það land mun hins vegar nýtast þeim til hvers konar landbúnaðarnota sem fyrr.

Að áliti matsnefndarinnar er jörðin Dalur á því svæði landsins sem telst ákjósanlegur fyrir hvers konar útivist og sumarhúsabyggð, þó jörðin sé í töluverðri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og því ekki á vinsælasta sumarhúsasvæði landsins. Slík lönd hafa hækkað umtalsvert í verði síðustu misserin og ber að taka tillit til þess við matið. Þau verð sem upp eru gefin í orðsendingu eignarnema þykja ekki gefa raunhæfa mynd af verðmæti þess lands sem um er að tefla í máli þessu.

Með vísan til þess sem að framan segir þykja hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda land vera sem hér segir, og hefur þá verið tekið tillit til þess að á sumum hlutum þess er malarefni sem nýtist eignarnema við framkvæmdir hans:

Bætur fyrir 5 km. langa og 40 m. breiða spildu

syðst í landinu kr. 1.600.000-

Bætur fyrir 3,5 km. langa og 40 m. breiða

spildu norðar í landinu. kr. 560.000-

Bætur fyrir takmörkun á nýtingarmöguleikum

vegna 60 m. helgunarsvæðis kr. 200.000-

Samtals kr. 2.360.000-

b) Verð fyrir malarefni:

Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að malarnámur þær sem hin eignarnumda möl verður tekin úr sé á markaðssvæði, enda liggur ekki fyrir að nein eftirspurn sé eftir mölinni af hálfu annarra en eignarnema sjálfs.

Með vísan til þessa þykir rétt að líta til orðsendingar eignarnema um mat á verðmæti hins eignarnumda malarefnis. Svo sem fram hefur komið mun eignarnemi nota 60.000 m³ í fyllingar, 20.000 m³ og 4.000 m³ í bundin slitlög. Með hliðsjón af þessu þykja hæfilegar bætur fyrir malarefnið vera kr. 580.000-.

Rétt þykir að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 300.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins og kr. 400.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar við störf Matsnefndar eignarnámsbóta í málinu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþolum, Ásþóri Jóhannssyni, kt. 210655-3609 og Katrínu Ævarsdóttur, kt. 070154-3669 báðum til heimils að Dal, Miklaholtshreppi, sameiginlega kr. 2.940.000- í eignarnámsbætur og kr. 300.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna rekstur matsmáls þessa.

Þá greiði eignarnemi kr. 400.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar við Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

Helgi Jóhannesson, hrl.

Vífill Oddsson, verkfr. Kristinn Gylfi Jónsson, vskfr. og bóndi

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum