Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2009 Dómsmálaráðuneytið

Matsmál nr. 11/2008, úrskurður 14. apríl 2009

Þriðjudaginn 14. apríl 2009 var í Matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 11/2008:

Sigríður Jónsdóttir og Sævar Bjarnason
gegn
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu

Í máli þessu er kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

Mál þetta barst Matsnefnd eignarnámsbóta með matsbeiðni, dags. 27. nóvember 2008, og var tekið til úrskurðar 27. mars sama ár. Matsbeiðendur eru Sigríður Jónsdóttir og Sævar Bjarnason, bæði til heimilis að Arnarholti í Bláskógarbyggð, en matsþoli er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið Skúlagötu 4 í Reykjavík. Matsnefndina skipa í máli þessu Helgi Jóhannesson, hrl. og formaður nefndarinnar, Benedikt Bogason, dómstjóri, og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi. Þá síðarnefndu kvaddi formaður nefndarinnar til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973.

I Kröfur málsaðila

Matsbeiðendur gera þá kröfu að Matsnefnd eignarnámsbóta meti þeim bætur fyrir ársbyrgðir af sauðfjártaði sem urðað var í kjölfar þess að sauðfé á býli sem þau reka á jörðinni Arnarholti var skorið niður. Matsþoli krefst þess að málinu verði vísað frá nefndinni

II Málsatvik

Í upphafi árs 2004 greindist riðuveiki í sauðfé á þremur bæjum í Biskupstungum í Bláskógarbyggð. Af því tilefni var um haustið skorið niður fé af þessum bæjum og fé sem gengið hafði saman við það af öðrum bæjum í nágrenninu. Meðal þess fé sem skorið var niður var fjárhjörð matsbeiðanda. Landbúnaðarráðherra tók ekki formlega ákvörðun um niðurskurð á fé matsbeiðanda í samræmi við 8. gr. laga nr. 25/1993. Af hálfu matsþola hefur hins vegar komið fram að munnlegt samkomulag hafi verið gert um niðurskurðinn áður en fénu var slátrað síðla árs 2004. Hinn 13. febrúar 2005 gerðu aðilar með sér samning um niðurskurð vegna riðuveiki. Samkvæmt þeim samningi bar að farga öllu sauðfé á jörðinni auk þess sem matsbeiðendur skuldbundu sig til að taka ekki upp sauðfjárhald á jörðinni eða nýta ræktað land jarðarinnar og útihús fyrir sauðfé frá niðurskurði til 1. september 2006. Samkvæmt samningnum átti ríkissjóður að greiða bætur vegna niðurskurðarins og var í þeim efnum vísað til II. kafla reglugerðar nr. 651/201. Enn fremur sagði í samningnum að öll hús sem sauðfé hefðu komið í, áhöld og annað sem verið hefur í snertingu við sauðfé, skyldi sótthreinsa eftir nauðsynlega tiltekt samkvæmt fyrirsögn héraðsdýralæknis. Það sem ekki var unnt að hreinsa skyldi eyða. Jafnframt bar að koma öllu taði úr húsum og grafa það ásamt gömlum haugum, nema yfirdýralæknir veitti sérstaka heimild til nýtingar taðsins. Þá voru nánari ákvæði um framkvæmdina, þar með talið um skiptingu kostnaðar milli aðila og bætur vegna förgunar innréttinga og hreinsunar. Frá því samningur þessi var gerður hafa matbeiðendur verið í miklum samskiptum við landbúnaðarráðuneytið og undirstofnanir þess vegna uppgjörs bóta. Einnig beindu matsbeiðendur kvörtun til umboðsmanns Alþingis og af því tilefni skilaði hann áliti sínu 7. apríl 2008 (mál nr. 4917/2007). Af þessu tilefni hafa ýmsir bótaliðir verið endurskoðaðir og matsbeiðendum verið greiddar frekari bætur án þess að það verði nánar rakið hér. Aftur á móti hefur ekki verið fallist á að greiða matsbeiðendum bætur fyrir það tað sem var urðað.

III Málsástæður aðila

Matsbeiðendur halda því fram að þau hafi farið fram á það við héraðsdýralækni að fá að fella búfjáráburð þeirra niður og nýta hann þannig en því hafi verið hafnað og héraðsdýralæknir fyrirskipað að haugurinn yrði urðaður. Einnig halda matsbeiðendur því fram að þau hafi gert ráð fyrir því að fylgiskjal yrði útbúið við staðlaðan samning um niðurskurð um bætur vegna endurnýjunar í fjárhúsum og hreinsun vegna jarðvegsskipta en af því hafi ekki orðið. Þá fullyrða matsbeiðendur að engar viðræður hafi farið fram þegar gengið var frá samningnum 13. febrúar 2005 um ráðstöfun haugsins eða vegna kostnaðar við að farga húsum, heyjum eða öðru því sem þurfti að hverfa af yfirborði jarðar. Loks fullyrða matsbeiðendur að taðið sé afurð sem beri að bæta en ekki eingöngu verðlaus óhreinindi. Matsþoli vísar til þess að með samningi, dags. 13. febrúar 2005, hafi verið samið um niðurskurð alls fjárstofns á búi matsbeiðenda. Er því eindregið mótmælt að héraðsdýralæknir hafi gefið fyrirskipun á grundvelli laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, sem jafnað verði til eignarnáms, enda hafi ráðherra einn þá valdheimild, sbr. 8. gr. laganna. Á hinn bóginn kunni vel að vera að matsbeiðendur hafi fengið leiðbeiningar frá dýralækni hvernig ætti að standa að hreinsun og urðum og við það tækifæri hafi þeim verið synjað um að nýta taðið. Að baki því búi þær ástæðum að mikil smithætta sé af taðinu en af þeim sökum sé það með öllu verðlaust og hafi því ekki verið bætt sérstaklega.

IV Niðurstaða

Svo sem hér hefur verið rakið gerður málsaðilar með sér samning, dags. 13. febrúar 2005, um niðurskurð á búfé á býli matsbeiðenda og um bætur af því tilefni. Samkvæmt þeim samningi átti að grafa allt tað úr húsum ásamt gömlum haugum nema yfirdýralæknir veitti sérstaka heimild til nýtingar taðsins. Málinu var því ráðið til lykta á einkaréttarlegum grundvelli. Hvort heimild hafi staðið til að stjórnvöld leystu úr málinu á þann veg og hvernig staðið var að þeirri málsmeðferð að öðru leyti getur ekki haft áhrif á hvort mál þetta verður borið undir matsnefndina. Samkvæmt framansögðu var ekki tekin ákvörðun um niðurskurð á grundvelli 8. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, eða önnur sú ákvörðun sem jafnað verður til eignarnáms. Við þær aðstæður er Matsnefnd eignarnámsbóta ekki bær til að ákveða bætur eftir lögum um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973, sbr. einnig dóma Hæstaréttar 22. janúar 2009 í máli nr. 248/2008 og 2. október 2008 í máli nr. 619/2007. Verður málinu því vísað frá nefndinni. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 11/1973 greiðist kostnaður af starfi nefndarinnar úr ríkissjóði, svo sem greinir í úrskurðarorði.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá Matsnefnd eignarnámsbóta. Kostnaður af stöfum nefndarinnar vegna málsins, 200.000 greiðist úr ríkissjóði.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum