Hoppa yfir valmynd
5. janúar 2009 Dómsmálaráðuneytið

Matsmál nr. 2/2008, úrskurður 5. janúar 2009

Mánudaginn 5. janúar 2009 var í Matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 2/2008

Vegagerðin

gegn

Eyvindartungu ehf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

 

I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Magnús Leópoldsson, lögg. fasteignasali, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

 

Með matsbeiðni dags. 16. maí 2008 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta, fór eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2900, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna 9,35 ha. spildu undir vegsvæði og 200.000 m³ malarefnis úr landi Eyvindartungu. Eignarnámsþoli er Eyvindartunga ehf., kt. 440102-5060, Eyvindartungu, 801, Selfossi.

 

 

III.  Málsmeðferð:

 

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta fimmtudaginn 12. júní 2008. Þá lagði eignarnemi fram matsbeiðni ásamt fylgiskjölum. Málinu  var að því búnu frestað til vettvangagöngu.

 

Miðvikudaginn 18. júní 2008 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Málnu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema.

 

Mánudaginn 1. september 2008 var málið tekið fyrir. Eignarnemi lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola.

 

Þriðjudaginn 14. október 2008 var málið tekið fyrir. Eignarnámsþoli lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings fyrir matsnefndinni.

 

Mánudaginn 15. desember 2008 var málið tekið fyrir og flutt munnlega fyrir matsnefndinni og tekið til úrskurðar að því loknu.

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

 

Af hálfu eignarnema eru boðnar fram bætur fyrir hið eignarnumda sem hér segir:

 

Bætur fyrir eignarnumið land 9,35 ha. x 500.000 kr.                 kr.           4.675.000

Bætur að álitum vegna óhagræðis af skiptungu lands o.fl.        kr.           9.500.000

Bætur fyrir fyllingaefni úr „skeringum“ utan hins

eignarnumda svæðis 200.000 m³ x 20 kr.                                  kr.           4.000.000

Bætur vegna bráðabirgðaafnota lands                                       kr.              100.000

Samtals                                                                                       kr.         18.275.000

 

Eignarnemi kveður hið eignarnumda land vera 40m. breitt veghelgunarsvæði sem nauðsynlegt er vegna lagningu hins nýja vegar. Eignarnemi telur hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda land vera kr. 500.000 pr./ha. Telur eignarnemi landið fremur rýrt, tiltölulega lítill nýtilegur gróður sé á því og stórir „skallablettir“ á því eins og sjá megi af loftmynd af svæðinu. Þá telur eignarnemi að ekki verði litið fram hjá þeirri staðreynd að landið liggi allt mun hærra en t.d. byggðin á Laugarvatni, en byggðin þar sé í u.þ.b. 75 m. hæð yfir sjávarmáli en hið eignarnumda land liggi allt a.m.k. 100 m. hærra. Telur eignarnemi að engin tilviljun sé að þarna hafi ekki risið sumarhúsabyggð, þrátt fyrir mikla eftirspurn eftir slíkum löndum í svæðinu á síðastliðnum árum. Telur eignarnemi að landinu megi á engan hátt jafna t.d. til lands undir sumarhúsabyggð í Miðhúsaskógi eða Brekkuskógi þar sem kjarrgróður sé mun meiri og land allt búsældarlegra og hentugra til slíkra nota.

 

Eignarnemi telur það ekki skipta neinu um verðmæti hins eignarnumda lands þó að skv. aðalskipulagi eigi að rísa frístundabyggð í nágrenni við veginn. Landið hafi ekki enn verið deiliskipulagt og ekkert bendi til að þar rísi frístundabyggð, hvorki í nánni né lengri framtíð.

 

Eignarnemi telur að draga eigi frá ákvörðuðum bótum það hagræði sem eignarnámsþoli muni hafa af eignarnáminu og framkvæmdum eignarnema á svæðinu, þar sem framkvæmdin muni nýtast eignarnema öðrum fremur þar sem hinn nýi vegur muni tengja svæði jarðarinnar sem áður voru takmörkuð not fyrir vegna vetrarófærðar.

 

Eignarnemi kveðst tilbúinn til að greiða kr. 9.500.000 til eignarnámsþola í bætur fyrir óhagræði af skiptingu lands eignarnámsþola. Kveður eignarnemi bótafjárhæðina vera að álitum og færa megi rök fyrir því að fjárhæðin sé allt of há þegar litið sé til landgæða og staðsetningar landsins.

 

Eignarnemi býður fram kr. 20 pr./m³ í bætur fyrir eignarnumið malarefni. Eignarnemi kveður efnið vera algerlega óunnið til notkunar í fyllingar. Eignarnemi kveður fjárhæðina sem boðin er miðast við bætur í orðsendingu eignarnema nr. 7/2007 sem liggi fyrir í málinu, að teknu tilliti til verðhækkana sem orðið hafa síðan hún var gefin út.

 

Þrátt fyrir að eignarnemi telji eignarnámsþola ekki verða fyrir neinu tjóni vegna bráðabirgðanotkunar hans á landi eignarnámsþola meðan á framkvæmdum stendur býður eignarnemi allt að einu fram kr. 100.000 í bætur fyrir þennan þátt málsins.

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Af hálfu eignarnámsþola er talið að hið eignarnumda svæði eigi að teljast 13,95 ha. að stærð, enda segi í 32. gr. vegalaga að bygginar, leiðslur, auglýsingaspjöld, skurði eða önnur mannvirki föst eða laus, megi ekki staðsetja nær vegi en 30 m. frá miðlínu stofnvega nema með samþykki veghaldara. Þannig hljóti veghelgunarsvæðið að vera 60 m. breitt en ekki 40 m. eins og eignarnemi haldi fram.

 

Eignarnámsþoli telur að hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda land séu kr. 5.000.000 pr./ha. eða samtals kr. 69.750.000. Þá telur eignarnámsþoli að hæfilegar bætur  fyrir skiptingu landsins séu kr. 20.000.000. Þá fellst eignarnámsþoli á kr. 20 pr./m³ fyrir fyllingarefnið, samtals kr. 4.000.000 og kr. 100.000 í bætur fyrir bráðabirgðaafnot landsins.

 

Eignarnámsþoli bendir á að í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé í kafla 4.16 kveðið á um að við deiliskipulag svæða utan þéttbýlis skuli þess gætt að ekki sé byggt nær stofn- og tengivegum en 100m.  Fjarlægðarmörk reglugerðarinnar gildi þrátt fyrir að minni fjarlægð sé sýnd að byggingarreitum í gömlu deiliskipulagi. Þannig telur eignarnámsþoli að helgunarsvæði, þ.e. byggingarbann vega við frístundabyggðir sé í raun 100 m. frá vegi en ekki 30 m. frá miðlínu. Ef miðað er við að breidd vegarins sjálfs sé að meðaltali 20 m. að teknu tilliti til skerfina er raunhæft að tala um 220 m. svæði. Þetta þýði að í raun fari 49,664 ha. lands Eyvindartungu undir veginn.

 

Eignarnámsþoli mótmælir því að landið sé rýrt og lítt heppilegt til frístundabyggðar. Það sé einmitt ákjósanlegt til slíkra nota, þaðan sé víðsýnt auk þess sem kvöldsólar gæti. Telur eignarnámsþoli að landið standi þar ekki að baki öðrum löndum í nágrenninu t.d. í Úthlíð, Brekkuskógi, að Snorrastöðum og fleiri svæðum.

 

Eignarnámsþoli mótmælir því að við mat á bótum skuli tekið tillit til árlegs afraksturs af svæðinu. Telur eignarnámsþoli að líta verði til þeirra vinsælda sem landið njóti sem útivistarsvæði og möguleika á slíkri notkun þess. Vísar eignarnámsþoli sérstaklega til dóms Hæstaréttar í svokölluðu Ásgarðsmáli (1994/906) í þessu sambandi.

 

Eignarnámsþoli mótmælir því sérstakelga að framkvæmd eignarnema nýtist honum umfram aðra á svæðinu og hafnar því frádrætti frá bótum vegna þessa. Fráleitt sé að land Eyvindartungu hækki í verði vegna framkvæmdanna fremur en annað land á svæðinu.

 

Eignarnámsþoli kveður það afar bagalegt hvað hinn nýji vegur muni skera landið í sundur og því séu kr. 20.000.000 í bætur vegna þess þáttar sanngjarnar. Eignarnámsþoli bendir á að nú geysi óðaverðbólga hér á landi og því nemi uppreiknað tilboðsverð eignarnema í dag  kr. 29.193.596.

 

VI.  Niðurstaða matsnefndarinnar:

 

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að eignarnema verði gert að taka stærra landsvæði eignarnámi en krafist er í matsbeiðni. Af þessum sökum er litið svo á að eignarnámsandlagið sé það sem tilgreint er í kafla II. í úrskurði þessum.

Að áliti matsnefndarinnar er hið eignarnumda land misverðmætt. Þannig er það land sem næst liggur Laugavatni og er lægst yfir sjávarmáli verðmætara en það sem hærra liggur. Hið verðmætara land er vel hentugt til frístundabyggðar en hitt síðra. Þannig álítur matsnefndin að flokka megi landið í þrennt. Gott land, milligott og síðra. Að áliti matsnefndarinnar er hæfilegt verð fyrir það land sem verðmætast er kr. 3.500.000 pr./ha. Hæfilegt verð fyrir land í milliflokki telst vera kr. 1.500.000 pr./ha og það land sem hæst liggur og síst er þykir hæfilega metið á kr. 500.000 pr./ha. Heildarverðmæti hins eignarnumda lands að teknu tilliti til þess sem að framan greinir er kr. 17.725.000.

 

Eignarnemi og eignarnámsþoli eru sammála um að eignarnámsþola beri sérstakar bætur vegna þess að hinn nýi vegur skiptir landi eignarnámsþola þannig að óhagræði valdi. Matsnefndin fellst á að með þessu ónýtist meira land en það sem tekið er eignarnámi, land sem að öðrum kosti hefði verið hægt að nýta t.d. til frístundabyggðar. Bætur vegna þessa ákvarðast kr. 9.500.000.

 

Hæfilegar bætur fyrir bráðabirgðaafnot lands þykja vera kr. 100.000 og fyrir hið eignarnumda malarefni kr. 4.000.000.

 

Eignarnemi skal greiða eignarnámsþola kr. 1.700.000 auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs máls þessa og kr. 1.200.000 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta við mál þetta.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2900, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, Eyvindartungu ehf., kt. 440102-5060, Eyvindartungu, 801, Selfossi, kr. 31.325.000 í eignarnámsbætur og kr. 1.700.000 auk virðisaukaskatts í kostnað vegna rekstur matsmáls þessa.

 

Þá greiði eignarnemi kr. 1.200.000 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

_________________________________

Helgi Jóhannesson

 

 

___________________________                  _______________________________

Vífill Oddsson                                                            Magnús Leópoldsson

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum