Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2007 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 14. febrúar 2007

Miðvikudaginn 14. febrúar 2007 var tekið fyrir eignarmatsmálið nr. 1/2007,

 

Kópavogsbær

gegn

Þorsteini Hjaltested

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.  Skipan matsnefndarinnar:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu þeir Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Benedikt Bogason, dómstjóri og Ragnar H. Hall hrl., en formaður matsnefndarinnar kvaddi þá síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II.  Matsbeiðni og andlag eignarnámsins:

 

Með matsbeiðni dags. 25. janúar 2007 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 8. febrúar 2007, fór Kópavogsbær, Fannborg 2, Kópavogi (eignarnemi) þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á 864 ha. spildu úr jörðinni Vatnsenda í Kópavogi. Þinglýstur eigandi jarðarinnar er eignarnámsþolinn, Þorsteinn Hjaltested, kt. 220760-5619, Vatnsenda, Kópavogi.  Eignarnámsheimildina er að finna í 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 37/1997.

 

III. Málsmeðferð:

 

Mál þetta var tekið fyrir hjá Matsnefndinni þann 8. febrúar 2007. Þá hafði matsnefndinni borist bréf ásamt fylgigögnum frá Sigmundi Hannessyni hrl. f.h. Sigurðar K. Hjaltested og Karls Lárusar Hjaltested, sem mótmæltu því að málið héldi áfram fyrir matsnefndinni þar sem þeir telja sig aðila matsmálsins. Vegna þessa var Sigmundur Hannesson hrl. einnig boðaður til fyrirtöku málsins.  Af hálfu eignarnema og eignarnámsþola var aðild umbjóðenda Sigmundar Hannessonar hrl. mótmælt. Af hálfu eignarnema og eignarnámsþola var lögð fram sáttargerð í matsmálinu þar sem aðilar sættast á bætur fyrir hið eignarnumda land, en fela matsnefndinni að ákvarða eignarnámsþola hæfilegan kostnað vegna matsmálsins.

 

Matsefndin gaf Sigmundi Hannessyni hrl. kost á að skýra sjónarmið sín varðandi aðild umbjóðenda sinna og fulltrúar eignarnema og eignarnámsþola skýrðu viðhorf sín til þeirra röksemda.  Að því loknu var bókuð afstaða matsnefndarinnar til kröfu lögmannsins sem hér segir: 

 

“Af hálfu Matsnefndar eignarnámsbóta er ekki tekin afstaða til röksemda umbj. Sigmundar Hannessonar hrl. og telur nefndin að úr þeim ágreiningi verði ekki leyst fyrir nefndinni heldur almennum dómstólum.  Matsnefndin telur að sá ágreiningur hafi ekki áhrif á meðferð matsmálsins fyrir nefndinni eins og það liggur fyrir, enda hafa aðilar eignarnámsins náð samkomulagi um bætur fyrir hið eignarnumda land og verkefni matsnefndarinnar einungis bundið við ákvörðun málskostnaðar til handa eignarnámsþola.  Samkvæmt þessu telur matsnefndin umbj. Sigmundar Hannessonar hrl. ekki eiga aðild að þessu máli.”

 

Sigmundur Hannesson hrl. vék af fundi eftir þessa bókun. Aðilar málsins reifuðu kröfur sínar vegna málskostnaðar munnlega og var málið að því búnu tekið til úrskurðar.

 

IV.  Niðurstaða:

 

Verð það sem aðilar málsins hafa orðið ásáttir um fyrir hið eignarnumda land skiptist í beinar peningagreiðslur upp á kr. 2.250.000.000- auk þess sem eignarnámsþoli heldur eftir byggingarlóðum sem eignarnemi sér um að skipuleggja og annast gatnagerð fyrir, án kostnaðar fyrir eignarnámsþola. Fullvíst má telja að verðmæti sáttagerðarinnar sé á bilinu 6.500-8.000 millj. fyrir eignarnámsþola.

 

Af hálfu aðila hefur því ekki verið haldið fram að þóknun  til eignarnámsþola eigi að taka mið af vinnuframlagi við samningagerðina, enda mun það verk hafa verið mjög yfirgripsmikið og margbrotið, spannað fjölda ára og erfitt að ákvarða hvað af því verki var nákvæmlega tengt því að koma á sáttum í matsmálinu og hvað tengdist öðrum málum í sambandi við uppbyggingu á svæðinu.  Af hálfu matsnefndarinnar þykir rétt að líta til þeirra verðmæta sem skipta um hendur með eignarnáminu við ákvörðun kostnaðar til eignarnámsþola.  Tekið er tillit til stærðar viðskiptanna sem að áliti matsnefndarinnar á að hafa áhrif á þá viðmiðunarprósentu sem lögð er til grundvallar við ákvörðunina.  Með vísan til framangreinds þykir hæfileg þóknun til eignarnámsþola vegna matsmáls þessa vera kr. 50.000.000- auk virðisaukaskatts.

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Eignarnemi, Kópavogsbær, Fannborg 2, Kópavogi, greiði eignarnámsþola, Þorsteini Hjaltested, kt. 220760-5619, Vatnsenda, Kópavogi, kr. 50.000.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna matsmáls þessa.

Þá skal eignarnemi greiða kr. 600.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

 

________________________________
Helgi Jóhannesson hrl.

 

 

_____________________________                 _____________________________

Benedikt Bogason                                                 Ragnar H. Hall

 

 

 

 

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum