Hoppa yfir valmynd
26. mars 1997 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 26. mars 1997

Miðvikudaginn 26. mars 1997 var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, tekið fyrir matsmálið nr. 8/1996,

 

Kópavogsbær

gegn

Vélsmiðju Sigurðar Jónssonar ehf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu skipa þeir Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Magnús Leópoldsson, löggiltur fasteignasali, en formaður nefndarinnar kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnáms:

 

Með matsbeiðni dags. 29. júlí 1996, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 16. september 1996, fór Kópavogsbær, kt. 700169-3759, Fannborg 2, Kópavogi (eignarnemi), þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á fasteigninni Dalvegur 3, Kópavogi.  Nánar tiltekið er um að ræða 480 m²  iðnaðarhúsnæði sem hvílir á 6.570 m² eignarlóð.  Þinglýstur eigandi hins eignarnumda er Sigurður Jónsson, kt. 161121-3559, Hlíðarvegi 26, Kópavogi, en samkvæmt yfirlýsingu lögmanns Sigurðar sem bókuð var við fyrirtöku málsins þann 14. mars 1997, er raunverulegur eigandi  húss og lóðar,  Vélsmiðja Sigurðar Jónssonar ehf., kt. 700172-0589, Dalvegi 3, Kópavogi. (eignarnámsþoli)

 

Eignarnemi vísar til 28. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 varðandi eignarnámsheimildina í máli þessu.

 

III.  Málsmeðferð:

 

Mál þetta var fyrst tekið fyrir þriðjudaginn 20. ágúst 1996.  Þar sem enginn mætti af hálfu eignarnema var málinu frestað til 16. september 1996.

 

Mánudaginn 16. september 1996 var málið tekið fyrir.  Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum.  Af hálfu eignarnámsþola var því mótmælt að eignarnámsheimild væri fyrir hendi í máli þessu.  Eignarnámsþoli lagði fram afrit af kæru vegna þessa til Umhverfisráðuneytisins og gerði þá kröfu að málinu yrði frestað þar til niðurstaða ráðuneytisins lægi fyrir.  Af hálfu eignarnema var frestbeiðninni mótmælt.  Af hálfu matsnefndarinnar var ákveðið að fresta málinu þar til fyrir lægi hvort ráðuneytið teldi að kæra eignarnámsþola ætti að fresta málsmeðferð fyrir nefndinni.

 

Föstudaginn 13. desember 1996 var málið tekið fyrir.  Af hálfu matsnefndar var lagður fram úrskurður Umhverfisráðuneytisins dags. 22. nóvember 1996, þar sem staðfest var ákvörðun eignarnema um töku Dalvegs 3 eignarnámi.  Ekki náðust sættir með aðilum um umráðatöku hins eignarnumda og var málinu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 20. janúar 1997.

 

Að beiði lögmanns eignarnámsþola var fyrirtöku málsins þann 20. janúar 1997 frestað og var málið því næst tekið fyrir mánudaginn 3. febrúar 1997.  Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum.  Sættir voru reyndar en án árangurs.  Af hálfu eignarnema var krafist umráðatöku hins eignanumda þó mati væri ekki lokið með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.  Kröfunni var mótmælt af hálfu eignarnámsþola og krafðist hann sérstaks úrskurðar um þetta atriði.  Málinu frestað til vettvangsgöngu og framlagningar greinargerða vegna kröfu um umráðatöku til 7. febrúar 1997.

 

Föstudaginn 7. febrúar 1997 var málið tekið fyrir.  Af hálfu aðila voru lagðar fram greinargerðir ásamt fylgigögnum vegna kröfu eignarnema um umráðatöku hins eignarnumda.  Þá var gengið á vettvang og aðstæður allar skoðaðar.  Sátt náðist með aðilum um fyrirkomulag umráðatöku hins eignarnumda og var hún bókuð í gerðarbók nefndarinnar.  Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess til 20. febrúar 1997.

 

Með samkomulagi aðila var málflutningnum sem vera átti þann 20. febrúar 1997 frestað.  Málið var næst tekið fyrir föstudaginn 14. mars 1997.  Af hálfu eignarnámsþola voru lögð fram nokkur ný skjöl.  Þá var að beiðni eignarnámsþola bókuð breyting varðandi aðild málsins, en samkvæmt þeirri bókun er raunverulegur eigandi hins eignarnumda Vélsmiðja Sigurðar Jónssonar ehf., kt. 700172-0589, en ekki Sigurður Jónsson persónulega, þó að hann sé þinglýstur eigandi Dalvegs 3.  Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess til 19. mars 1997.

 

Miðvikudaginn 19. mars 1997 var málið tekið fyrir.  Af hálfu eignarnema var því haldið fram að gatnagerðargjald vegna eignarnámsandlagsins væri ógreitt.  Af hálfu eignarnámsþola var þessari fullyrðingu mótmælt.  Aðilar óskuðu eftir fresti á flutningi málsins þar til þetta atriði væri útkljáð.  Sættir reyndar án árangurs.  Málinu frestað til 21. mars 1997.

 

Föstudaginn 21. mars 1997 var málið tekið fyrir.  Af hálfu eignarnema voru lögð fram tvö ný skjöl.  Þá dró eignarnemi til baka fullyrðingu um að gatnagerðargjald vegna eignarnámsandlagsins væri ógreitt.  Að því búnu fór fram munnlegur flutningur málsins og að honum lokunum var málið tekið til úrskurðar.

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

 

Af hálfu eignarnema er þess krafist aðallega, að við mat á hinu eignarnumda verði tekið mið af markaðsverði sambærilegra eigna á skipulögðum iðnaðarsvæðum.

 

Til vara er þess krafist, að tekið verði mið af því hvað það muni kosta eignarnámsþola að koma sér í nýtt hálfbyggt hús, án aðstöðu fyrir starfsfólk, skrifstofu og loftræstingar eins og fasteignin Dalvegur 3 nú er, en ekki verði tekið mið af kostnaði við byggingu á sérhæfðu iðnaðahúsnæði svo sem eignarnámsþoli gerir kröfu um.  Þá gerir eignarnemi kröfu til þess að bæturnar verði lækkaðar vegna þess hagræðis sem í því felst fyrir eignarnámsþola að fá nýja eign í stað notaðrar.

 

Af hálfu eignarnema er því haldið fram að viðræður hafi staðið um árabil við eignarnámsþola um kaup á eigninni og að þær viðræður hafi engan árangur borið, þrátt fyrir að eignarnemi hafi boðið mun hærra verð fyrir eignina en sem nemur verðmæti hennar, í þeirri viðleitni að ná samkomulagi við eignarnámsþola.  Fyrir liggi í gögnum málsins að eignarnemi hafi boðið eignarnámsþola kr. 22.000.000- fyrir eignina.

 

Eignarnemi bendir á að um sé að ræða hálfbyggt iðnaðarhús, sem frá því í apríl 1972 hefur staðið með óvarða milliplötu sem þak.  Ekki hafi verið gengið frá húsinu að utan og lóð sé einnig ófrágengin.

 

Eignarnemi mótmælir því að skipulag lóðarinnar sem svæðis fyrir íbúðabyggð geti skoðast sem orsök þess að eignarnemi hafi aldrei klárað húsið.  Sú ákvörðun hafi ekki legið fyrir fyrr en á árinu 1988, en húsið hafi þá þegar staðið hálfkarað í um 15 ár.

 

Af hálfu eignarnema er því alfarið mótmælt að  byggingin sé mjög sérhæfð.  Um sé að ræða hefðbundið steinsteypt iðnaðarhús fyrir léttan iðnað sem ekki uppfylli þær kröfur sem gerður eru til slíks húsnæðis í dag.  Húsið sé án loftræstingar og með lágmarks einangrun.  Þá bendir eignarnemi á að samkvæmt framlögðum burðarþolsteikningum sé járnabinding í húsinu hefðbundin miðað við iðnaðarhúsnæði fyrir léttan iðnað.  Eignarnemi bendir á að mikið framboð sé af húsum af þessari gerð.

 

Eignarnemi telur að allur rökstuðningur eignarnámsþola fyrir enduröflunarverði sé marklaus þar sem eignarnámsþoli leggi til grundvallar hús af allt annarri gerð og gæðum en það hús sem hér sé til umfjöllunar.

Eignarnemi gerir kröfu til þess að við matið verði litið til þess að hið eignarnumda hús liggi nú undir skemmdum þar sem plata yfir fyrstu hæð hafi verið óvarin allt frá byggingu hússins og einungis hafi verið lokað fyrir stigagang til bráðabirgða.  Þá er þess krafist af eignarnema, að höfð verði hliðsjón af því við matið að eignarnámsþoli hefði þurft að fara í mjög kostnaðarsamar endurbætur og viðgerðir á húsi matsþola til þess að koma því í viðunandi horf.

 

Eignarnemi mótmælir algerlega að eignarnámsþoli fái bætur fyrir byggingarrétt ofan á húsið og bendir í því sambandi á að sé bygging ekki hafin einu ári frá því bygginarleyfi var gefið út, falli það úr gildi.  Af þessum sökum sé ekki um nein verðmæti að ræða.

 

Eignarnemi telur það viðmiðunarverð sem eignarnámsþoli gangi út frá í kröfugerð sinni varðandi verð á lóðinni, kr. 1.975 pr. m²,  sé algerlega ósamanburðarhæft, þar sem byggt sé á keyptu áliti tveggja fasteignasala vegna annars  lands sem hafi verið ólíkt lóð eignarnámsþola að gæðum, m.a. vegna þess að skipt hafði verið um jarðvegsfyllingu í meirihluta þess lands.  Eignarnemi bendir á að hann hafi keypt talsvert af landi í Smárahvammi í júlí 1991 og þá hafi verðið verið kr. 492,93 pr. m².  Sama verð hafi verið greitt fyrir spildu úr landi Arnarness.  Eignarnemi kveður þessi verð hafa byggst á mati Matsnefndar eignarnámsbóta á landi er Garðabær tók eignarnámi í Smárahvammslandi og í landi Arnarness.  Eignarnemi heldur því fram að veruleg verðlækkun hafi orðið á landi frá því þessi kaup voru gerð.

 

Eignarnemi bendir á að lóð eignarnámsþola hafi að mestu verið vannýtt og í órækt og stór hluti lóðarinnar sé mýri með jarðvegsdýpi allt að 6 metrum.  Eignarnemi vísar í þessu sambandi til framlagðs skjals er sýni jaðrvegsdýpi á lóðinni.  Þá telur eignarnemi ekki tækt að hafa til viðmiðunar kaupsamninga um Dalveg 5 og 7 í þessu sambandi, þar sem þær lóðir voru mun stærri og jarðvegsskipti höfðu verið framkvæmd að fullu í  báðum lóðunum og þær malbikaðar að verulegum hluta.

 

Eignarnemi mótmælir alfarið kröfum eignarnámsþola um bætur vegna rekstrarstöðvunar í 9 mánuði.  Eignarnemi bendir á að sátt hafi verið gerð um umráðatöku hins eignarnumda og þar hafi verið við það miðað, að hið eignarnumda húsnæði gæti nýst eignarnámsþola sem lengst þannig að ekki kæmi til rekstrarstöðvunar nema í mjög skamman tíma, eða einungis meðan á flutningi fyrirtækisins yfir í nýtt húsnæði stæði.  Þá kveðst eignarnemi tilbúinn til að ræða lengri afnot eignarnámsþola af eigninni, til að koma í veg fyrir rekstrarstöðvun.  Þá mótmælir eignarnemi því að viðskiptavild eignarnámsþola tapist við það að fyrirtækið flytji,  þar sem í langflestum tilfellum sé fyrirtækið að vinna að tilboðsverkum fyrir ýmsa aðila og því í raun óháð gangandi eða akandi umferð um hverfið.

 

Eignarnemi mótmælir að endingu málskostnaðarkröfu eignarnámsþola sem allt of hárri og gerir þá kröfu að matsnefndin ákveði eignarnema hæfilega þóknun vegna málsins.

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Af hálfu eignarnámsþola eru eftirtaldar kröfur gerðar:

 

A. Að eignarnema verði gert að greiða eignarnámsbætur fyrir Dalveg 3 ásamt sérútbúnaði til rekstrar vélsmiðju á grundvelli enduröflunarverðs eignarinnar.  

 

B.   Að honum verði ákvarðaðar bætur fyrir eftirtalið á grundvelli söluverðs:

1.    6.571 m² eignarlóð að Dalvegi 3.

2.    Réttur til byggingar annarar hæðar að Dalvegi 3,  480 m².

3.    Réttur til fullrar nýtingar á lóðinni í samræmi við veitt byggingaleyfi, alls 2.629 m² að frádregnum 960 m².

 

C.  Að eignarnámsþoli fái að fullu bættan allan kostnað sem hann kann að verða fyrir vegna stöðvunar á rekstri fyrirtækis síns, kostnað við flutning tækja, efnis o.fl. og allan kostnað við uppsetningu tækja að nýju svo og kostnað vegna almenns óhagræðis af eignarnáminu.

 

D.   Þá er krafist matskostnaðar úr hendi eignarnema að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

 

Kröfugerð eignarnámsþola sundurliðast þannig:

 

Kröfuliður A:

 

Byggingarleyfisgjald í Garðabæ (áætlað)                                kr.                50.000-

Skipulagsgjald (áætlað)                                                         kr.              180.000-

Gatnagerðargjöld (m.v. iðanaðarlóð í Garðabæ)                    kr.         11.239.256-

Rafmagnsinntak                                                                     kr.              240.000-

Hitaveituinntak                                                                      kr.              107.000-

Kostnaður við jarðvinnu og botnplötu með sérstakri

styrkingu sbr. útreikninga Stefáns Guðbergssonar verkfr.        kr.         19.304.532-

Meðalkostnaður við byggingu iðanarhúsnæðis skv.

útreikningum Hagstofu Íslands að frádregnum kostnaði

við jarðvinnu                                                                         kr.         38.150.512-

Samtals                                                                                 kr.         69.271.300-

 

Kröfuliður B:

 

6.571 m² eignarlóð (matsverð)                                              kr.         12.977.725-

Réttur til byggingar 2. hæðar að Dalvegi 3                              kr.           3.300.000-

Réttur til fullrar nýtingar á lóðinni í samræmi við

byggingarleyfi, alls 2.628 m² að frádregnum 960 m²,

eða alls 1.668 m²                                                                  kr.           6.004.800-

Samtals                                                                                 kr.         22.282.525-

 

Kröfuliður C:

 

Rekstrarstöðvun í 9 mánuði                                                   kr.           6.912.000-

Tap á viðskiptavild                                                                kr.           2.500.000-

Endurprentun reikninga, bréfsefnis o.fl.

(áætlað) og auglýsingar á nýrri starfsstöð (áætlað)                  kr.              280.000-

Nýtt símanúmer og tenging í tvo aukatengla                            kr.                20.000-

Flutningur og geymsla á vélum og tækjum                              kr.           3.640.000-

Aukakostnaður vegna flutninga fyrirtækisins fjær

Reykjavík og óþægindi vegna þessa.                                     kr.         10.000.000-

Samtals                                                                                 kr.         23.352.000-

 

Kröfuliður D:

 

Kostnaður vegna málsins frá 11.03.1996 til

28.02.1997                                                                          kr.              834.527-

Áætlaður kostnaður vegna undirbúnings og

flutning málsins fyrir matsnefnd                                               kr.                54.820-

Áætlað vinnutap Sigurðar Jónssonar vegna

gagnaöflunar o.fl.                                                                   kr.                60.000-

Samtals án vsk.                                                                     kr.              949.347-

 

Eignarnámsþoli kveður hina eignarnumdu eign hafa verið keypta og byggða til að hýsa atvinnurekstur hans.  Eignarnámsþoli hafi aldrei notað eignirnar til annars og hugsaði þær sem fyrsta áfanga í uppbyggingu fyrirtæksins.  Eignarnámsþoli kveður þessar fyrirætlanir sínar hafa verið að engu gerðar þegar skipulagi svæðisins var breytt og  ákveðið að þar skyldi rísa íbúðabyggð í stað skipulagðs iðnaðarsvæðis. 

 

Af  hálfu eignarnámsþola er því haldið fram að hann eigi þess ekki kost á að fá sams konar aðstöðu keypta sem fullnægi þörfum rekstrar hans.  Það liggi fyrst og fremst í því að hann þurfi sérstyrkt húsnæði, í gólfi og lofti, sem jafnframt sé staðsett á nægjanlega stórri lóð, þannig að hann geti komið þar fyrir stórum smíðahlutum.  Eignarnámsþoli telur að eini möguleikinn til öflunar slíkrar aðstöðu sé að leita eftir leigulóð á iðnaðarsvæði Garðabæjar, en hann hafi nú sótt um úthlutun lóðar að Miðhrauni í Garðabæ.  Af þessum sökum fari hann fram á að honum verði metnar bætur úr hendi eignarnema er nægi til þess að standa straum af byggingu slíks húss og rekstraraðstöðu á hinum nýja stað. 

 

Eignarnámsþoli telur að hann fái tjón sitt ekki að fullu bætt, svo sem hann eigi rétt á, nema við mat á hinu eignarnumda verði miðað við enduröflunarverð.  Eignarnámsþoli bendir í þessu sambandi á 72. gr. stjórnarskrárinnar.

 

Eignarnemi heldur því fram að ekki sé fært að notast við hugsanlegt söluverð eignarinnar og þeim atvinnuhagsmunum sem við hana tengjast,  þar sem eignarnemi sé nú í reynd eini mögulegi kaupandinn að eigninni og þær verðhugmyndir sem hann hafi á eigninni séu óraunhæfar.  Þá bendir eignarnámsþoli á að samsvarandi byggingar á álíka stórri eignarlóð sé ekki hægt að  finna á almennum markaði og því sé engan samanburð hægt að gera við aðrar eignir á almennum markaði.

 

Eignarnámsþoli telur að notagildismælikvarðinn veiti honum heldur ekki fullar bætur, þar sem honum  sé nauðsynlegt að flytja í samsvarandi húsnæði til þess að geta haldið áfram rekstri sínum.  Í notagildsmælikvarðanum séu bætur einungis miðaðar við þá hagsmuni sem í eign eru eru fólgnir, en ekki þann kostnað sem hlýst raunverulega af því að koma sér upp samsvarandi húsnæði.

 

Eignarnámsþoli telur bætur á grundvelli enduröflunarvirðis eignarinnar í raun eina raunhæfa mælikvarðann á bætur vegna eignarnámsins,  þar sem hann hafi  verið sviptur mannvirkjum sem hafi verið nauðsynleg fyrir áframhaldandi atvinnustarfsemi sína og því sé honum nauðsynlegt að afla sér nýrrar sambærilegrar aðstöðu nú, enda hafi hann hvorki menntun né reynslu til að stunda aðra atvinnu.

 

Eignarnemi gerir þá kröfu að litið verði til þess við ákvörðun bóta í málinu að hann hafi reist húsnæði sitt á eignarlóð á skipulögðu iðnaðarsvæði á sínum tíma.  Þetta hafi hann gert með fullkomnu leyfi skipulagsyfirvalda í Kópavogi og mátti því vænta þess að hann gæti nýtt eignir sínar til atvinnurekstrar um ókomin ár.  Eignarnámsþoli telur að hann þurfi ekki að sætta sig við þær bætur sem eignarnemi hefur boðið honum, þar sem þær virðst vera miðaðar við fermetraverð iðnaðarhúsnæðis í almennum kaupum og sölum, en vitað mál sé að verðmæti slíkra eigna sé í lágmarki nú og kostnaður við byggingu þeirra mun meiri.

 

VI.  Álit matsnefndar:

 

Svo sem fram kemur í III. hér að framan hefur matsnefndin farið á vettvang og kynnt sér aðstæður.  Stærð og lega hins eignarnumda er ágreiningslaus með aðilum.  Af hálfu matsnefndarinnar er talið að fullnægjandi eignarnámsheimild liggi fyrir í máli þessu.

 

Almennt er talið að við mat á eignarnámsbótum eigi að miða við söluverð, notagildi eða enduröflunarverð hins eignarnumda.  Yfirleitt er tekið mið af  raunverulegu söluverði, þ.e. markaðsverði, viðkomandi eignar nema notagildsmælikvarðinn leiði til hagstæðari niðustöðu fyrir eignarnámsþola.  Í undantekningartilfellum er talið að miða skuli bætur við enduröflunarverð.

 

Fyrir liggur í máli þessu að með eignarnáminu er eignarnámsþoli sviptur allri aðstöðu til að stunda atvinnu sína og honum þar með gert ókleyft að reka áfram vélsmiðju sína að Dalvegi 3.  Fyrirtæki eignarnámsþola er í fullum rekstri og hann hefur enga aðra starfsaðstöðu tiltæka fyrir rekstur sinn.  Matsnefndin telur af þessum sökum ljóst að eignarnámið sé á margan hátt mjög bagalegt fyrir eignarnámsþola og fyrir liggi að hann þurfi nú að koma sér upp nýrri starfsaðstöðu.   Með vísan til framanritaðs telur matsnefndin að ákvarða skuli bætur til eignarnámsþola í máli þessu á grundvelli enduröflunarverðs.

 

Fallist er á það með eignarnema að húsnæði eignarnámsþola sé á margan hátt ófullkomið til rekstrar vélsmiðju, bæði hvað varðar aðbúnað starfsfólks, einangrun o.fl.  Við ákvörðun bóta verður tekið mið af þessum þáttum til lækkunar á bótafjárhæð.  Þá þykir matsnefndinni einnig ljóst að stór hluti hinnar eignarnumdu lóðar er óhentug til notkunar undir byggingar þar sem jarðvegsdýpt þar er nokkuð mikil.

 

Ekki þykja efni til þess að fallast á þá kröfu eignarnámsþola að hann fái bæði bætur er nemi lóðagjöldum fyrir nýja lóð (kröfuliður A) auk bóta fyrir hina eignarnumdu lóð (kröfuliður B).  Með því móti telur matsnefndin að verið væri að tvígreiða eignarnámsþola bætur fyrir lóðina.

 

Ekki er fallist á að kröfuliður C hjá eignarnámsþola gefi raunhæfa mynd af kostnaði við flutning fyrirtækisins í nýtt húsnæði, tap á viðskiptavild o.fl.  Þá liggur ekkert fyrir um að það hafi nokkurn aukakostnað í för með sér fyrir eignarnámsþola að fyrirtæki hans flytjist fjær Reykjavík.

 

Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að hið eignarnumda hús sé byggt með sérstökum járnastyrkingum.  Samkvæmt framlögðum gögnum virðist vera um venjulegt iðnaðarhúsnæði að ræða hvað þetta varðar.

 

Með vísan til framanritaðs þykja hæfilegar eignarnámsbætur í máli þessu vera kr. 39.510.000- sem sundurliðast þannig:

Gatnagerðargjöld af 6.570 m²  leigulóð                                  kr.         11.700.000-

Áætlaður mismunur á leigu- og eignarlóð                                kr.           1.800.000-

Byggingarleyfis- og skipulagsgjöld                                         kr.              230.000-

Endurbyggingarverð (uppsteypa)                                           kr.         13.060.000-

Endurbyggingarverð (frágangur, eftirlit, hönnun o.fl)                kr          14.940.000-

Frágangur lóðar, girðing, hlið o.fl.                                          kr.           2.400.000-

Frádráttur vegna aldurs og ástands hins eignarnumda           ( kr.           9.120.000- )

Réttur til byggingar 2. hæðar að Dalvegi 3                              kr.           2.500.000-

Kostnaður vegna flutnings                                                      kr.           1.200.000-

Rekstrarstöðvun                                                                    kr.              800.000- 

Samtals                                                                                 kr.         39.510.000- 

 

Að auki skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 700.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað og kr. 450.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

 

Eignarnemi, Kópavogsbær, kt. 700169-3759, Fannborg 2, Kópavogi, greiði eignarnámsþola Vélsmiðju Sigurðar Jónssonar ehf., kt. 700172-0589, Dalvegi 3, Kópavogi, kr. 39.510.000- í eignarnámsbætur og kr. 700.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað.

Þá greiði eignarnemi kr. 450.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

 

__________________________________________

Helgi Jóhannesson, formaður

 

 

______________________________         __________________________________

Vífill Oddsson, verkfræðingur                        Magnús Leópoldsson, lögg. fasteignasali

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum