Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2004 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 5. nóvember 2004

Föstudaginn 5. nóvember 2004 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 8/2004

Kópavogsbær

gegn

Aðalheiði Tómasdóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r :

 

 

I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Magnús Leópoldsson, löggiltur fasteignasali, en formaður nefndarinnar kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

 

Með matsbeiðni dags. 4. ágúst 2004 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 25. ágúst 2004 fór Kópavogsbær, Fannborg 2, Kópavogi (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur fyrir fasteignina Hábraut 4, Kópavogi, en eigandi eignarinnar er Aðalheiður Tómasdóttir, kt. 101112-3229 (eignarnámsþoli).  Ástæða matsbeiðnarinnar er sú að samkvæmt deiliskipulagi er gert ráð fyrir að húsið að Hábraut 4 þurfi að víkja og að lóðin verði nýtt undir bifreiðastæði fyrir listasafn og tónlistarhús.

 

Ekki er ágreiningur milli aðila um að reka mál þetta fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.

 

 

 

 

III.  Málsmeðferð:

 

Mál þetta var fyrst tekið fyrir miðvikudaginn 25. ágúst.  Þá lagði eignarnemi fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum.  Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu til 20. september 2004.

 

Mánudaginn 20. september 2004 var málið tekið fyrir.  Gengið var á vettvang og aðstæður kannaðar.  Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerða af hálfu aðila til 11. október 2004.

 

Fimmtudaginn 15. október 2004 var málið tekið fyrir.  Þá höfðu greinargerðir borist frá aðilum málsins og voru þær lagðar fram ásamt fylgiskjölum.  Af hálfu nefndarinnar var ekki talin þörf á munnlegum flutningi málsins og var málið því tekið til úrskurðar.

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

 

Eignarnemi bendir á að um sé að ræða 54 ára gamla húseign sem sé barns síns tíma og komið að viðhaldi á ýmsum hlutum hennar.  Húsið skiptist í tvær íbúðir, önnur 118,6 fm. að stærð og hin 60,80 fm. að stærð auk timburgeymslu 13 fm. að stærð.  Eignarnemi kveður fasteignamat eignarinnar vera kr. 24.146.000-.

 

Eignarnemi kveður eignarnámsþola ekki hafa gert neina athugasemd við nýtt deiliskipulag á svæðinu þegar það var kynnt með lögbundnum hætti árið 1987.  Langur aðdragandi sé að eignarnáminu en af hálfu eignarnema var fyrst falast eftir eigninni árið 1998. 

 

Eignarnemi kveður engar forsendur vera fyrir því að víkja frá þeirri meginreglu að miða bætur fyrir  hið eignarnumda við markaðsverð eignarinnar.  Eignarnemi bendir á að eignarnámsþoli búi ekki í eigninni lengur og að hún sé í útleigu eða láni til afkomenda eignarnámsþola.  Eignarnámsþola standi til boða sambærilegar eignir á svæðinu og því séu engin rök fyrir því að beita reglunni um endurstofnsverð við mat á bótum í málinu.  Þá telur eignarnemi engar forsendur til að bæta ófjárhagslegt tjón vegna röskunar á stöðu og högum.

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að bætur verði ákvarðaðar út frá endurstofnsverði eignarinnar auk bóta vegna fjárhagslegs óhagræðis samtals ekki lægri en kr. 39.704.000-.  Til vara krefst eignarnámsþoli þess að miðað verði við markaðsverð fasteigna auk bóta vegna fjárhagslegs óhagræðis, samtals ekki lægra en kr. 35.000.000-.   Til þrautavara er þess krafist að við mat á fasteign eignarnámsþola verði miðað við markaðsverð samkvæmt fyrirliggjandi mati tveggja fasteignasala auk bóta vegna fjárhagslegs óhagræðis, samtals ekki lægri fjárhæð en kr. 31.000.000-.  Í öllum tilvikum krefst eignarnámsþoli kostnaðar vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.

 

Eignarnámsþoli kveður leigulóð sína vera 1341 ferm. að stærð.  hann kveðst ekki hafa haft neina hugmynd um að nýtt deiliskipulag hefði verið auglýst á árinu 1997, hvað þá að gert væri ráð fyrir að bílastæði yrðu á lóð hans.  Eignarnámsþoli kveðst fyrst hafa heyrt af málinu á árinu 1998 þegar bréfi hafi borist frá eignarnema þar sem hann hafi lýst áhuga sínum á að kaupa eignina.

 

Eignarnámsþoli hefur hafnað því að selja eignarnema eignina þar sem fjölskylda hans nýti hana í dag.  Kveðst eignarnámsþoli þurfa að byggja eða kaupa tveggja íbúða hús til að verða eins sett og hún er í dag.  Aðalkrafa eignarnámsþola byggir á því að kostnaður við að byggja slíkt hús nemi kr. 38.704.000- en að auki er krafist kr. 1.000.000- fyrir fjáhagslegt óhagræði, röskum vegna flutninga o.fl.  Gert er ráð fyrir að hver fermeter í nýju húsnæði kosti kr. 160.000- og lóðin sé kr. 10.000.000- virði.

 

Hvað varakröfu varðar bendir eignarnámsþoli á að fyrir liggi verðmöt tveggja fasteignasala, Ásbyrgis og Hraunhamars sem hafi verið unnið í maí 2004.  Mat þeirra hafi þá verið kr. 30.000.000- fyrir báðar íbúðirnar.  Síðan það mat var unnið hafi húsið verið málað og gerðar á því ýmsar lagfæringar, þá hafi verðlag fasteignum hækkað á síðustu mánuðum.  Telur eignarnámsþoli raunhæft verð fyrir eignina vera kr. 34.000.000- auk þess sem gerð er krafa um kr. 1.000.000- fyrir fjárhagslegt óhagræði eins og í aðalkröfu.

 

Þrautavarakröfuna byggir eignarnámsþoli á framangreindum verðmötum Ásbyrgis og Hraunhamars.

 

Lögmaður eignarnámsþola hefur lagt fram málskostnaðarreikning upp á kr. 279.191-, þ.m.t. vsk. og er gerð krafa um greiðslu þess kostnaðar auk bóta fyrir eignina.

 

VI.  Niðurstaða matsnefndar:

 

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér fasteign þá sem krafist hefur verið mats á.   Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að leggja til grundvallar við matið enduröflunarvirði eignarinnar með þeim hætti sem eignarnámsþoli gerir kröfu til. Kemur því til skoðunar að meta eignina miðað við markaðsvirðri hennar.

 

Um er að ræða fasteign sem stendur mjög miðsvæðis í helsta þéttbýliskjarna landsins, þ.e. á stór-Reykjavíkursvæðinu.  Eignin er 54 ára gömul og ber merki notkunar svo sem vonlegt er.  Um er að ræða tvær íbúðir, önnur 118,6 ferm. að stærð og hin 60,80 ferm. að stærð.  Þá fylgir eigninni 13 ferm. timburgeymsla.  Húsið er reisulegt og stendur nærri allri helstu þjónustu sem eykur fremur verðmæti eignarinnar.  Þá er stutt frá húsinu að stórum umferðaræðum. 

 

Lóðin undir húsinu er óvenju stór eða 1341 ferm. að stærð sem er nærri tvöföld venjuleg stærð á einbýlishúsalóðum í nýjum hverfum.

 

Með hliðsjón af framangreindu og ástandi hússins telur matsnefndin hæfilegar bætur fyrir hina eignarnumdu húseign og lóðarréttindi vera kr. 30.500.000-.  Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að hann eigi að auki rétt á sérstökum bótum vegna fjárhagslegs óhagræðis sem leiðir af eignarnáminu eins og á stendur í máli þessu.

 

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 279.191-, þ.m.t. virðisaukaskattur, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta og kr. 600.000- í ríkissjóð vegna starfa matsnefndarinnar í máli þessu.

 

 

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Eignarnemi, Kópavogsbær, Fannborg 2, Kópavogi, skal greiða eignarnámsþola, Aðalheiði Tómasdóttur, kt. 101112-3229, kr. 30.500.000- í eignarnámsbætur og kr. 279.191- í kostnað vegna reksturs málsins fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.

 

Þá skal eignarnemi greiða kr. 600.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

_________________________________

Helgi Jóhannesson

 

_______________________________                      __________________________

Ragnar Ingimarsson                                                      Magnús Leópoldsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum