Hoppa yfir valmynd
15. júlí 1977 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 15. júlí 1977.

Ár 1977, föstudaginn 15. júlí, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

             Njarðvíkurbær
   gegn
               Eigendum Höskuldarkots,
               Þórukots og
               Njarðvík I

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi til Matsnefndar eignarnámsbóta dags. 14. apríl 1977 hefur bæjarstjóri Njarðvíkurbæjar tjáð Matsnefndinni, að bæjarstjórn Njarðvíkur hafi á fundi sínum 28. des. 1976 samþykkt að taka eignarnámi land undir framlengingu Sjávargötu í Njarðvíkurbæ.

Eignarnámið sé gert til framkvæmdar á staðfestu deiliskipulagi hafnarsvæðisins í Ytri-Njarðvík. Nái eignarnám þetta til landspildna úr jörðunum Höskuldarkoti, Þórukoti og Njarðvík I.

Eignarnámsþolar í máli þessu hafa samþykkt, að matsmálið verði rekið í einu lagi gagnvart öllum ofangreindum landeigendum og var fulltrúi þeirrra við matið Páll S. Pálsson hrl.

Brýn nauðsyn sé á þessu sumri að hefjast handa um hitaveitu- og vatnsveituframkvæmdir í framlengingu Sjávargötu.

Mál þetta var tekið fyrir á fundi í Matsnefnd eignarnámsbóta, í Njarðvík 23. júní 1977 og var þá gerð svofelld bókun.

"Matsmenn gengu nú á vettvang og skoðuðu landsvæði það, sem um ræðir í þessu máli og aðstæður á staðnum. Viðstaddir þessa skoðun voru umboðsmenn aðila.

Matsmenn voru þeirrar skoðunar, að það myndi ekki torvelda framkvæmd eignarnámsmats né spilla sönnunargögnum fyrir eignarnámsþolum, þótt eignarnemi hefji nú þegar vegaframkvæmdir þær, sem fyrirhugaðar eru á svæðinu. Samkvæmt því voru matsmenn sammála um, með tilvísun til 14. gr. laga nr. 11/1973, að heimila eignarnema að taka nú þegar umráð þess landsvæðis, sem mál þetta fjallar um og hefja framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru á landinu".

II.

Af hálfu eignarnámsþola eru gerðar í máli þessu þær kröfur, aðallega, að hið umbeðna mat nái ekki fram að ganga eins og það sé sett fram, en til vara, að eignarámsþolum verði úrskurðaðar fyllstu bætur skv. stjórnarskrá og lögum, fyrir það land, sem óhjákvæmilega kunni að falla undir eignarnámið. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar til handa eignarnámsþolum, vegna lögfræðilegrar aðstoðar við matið.

Bent er á, að í bréfi skipulagsstjóra dags. 11. febr. 1977 til bæjarstjórans í Njarðvíkurbæ sé skýrt tekið fram og vitnað til 28. gr. skipulaglaga um heimild til þess að taka einstakar eignir eignarnámi, ef þess gerist nauðsyn vegna framkvæmda á staðfestu skipulagi. Til stuðnings aðalkröfunni vísar lögmaður eignarnámsþola til staðfests skipulags fyrir Ytri-Njarðvík, sbr. tilvitnað bréf skipulagsstjóra. Þegar bæjarstjórnin hafi tekið ákvörðun um eignarnám vegna framlengingar Sjávargötu hafi landeigendum verið sendir uppdrættir er sýndu landið, sem taka ætti eignarnámi vegna þessara framkvæmda. Grunnkort af landinu hafi sýnt að eftirtaldir landskikar skyldu teknir eignarnámi:

1.   Úr landi Höskuldarkots   2864 m²
   lóðarviðbót fyrir Mörk   115 "   
      Samtals   2979 m²
   þar af land nú undir Smiðjustíg   985 "

2.   Úr landi Þórukots      493 "
   þar af nú undir Smiðjustíg      483 "

3.   Njarðvík I,      1910 "
   þar af er 50% í eigu Njarðvíkur-
   bæjar, en í eigu db. Einars Jónassonar    955 "

4.   Lóðarskerðing, Borgarvegur 2   57 "

Nú bregði svo við eignarnámsþolum að óvörum, að lagður sé fram nýr uppdráttur með matsbeiðni, er sýni mjög lítinn og takmarkaðan hluta af því landi, sem ónýtist vegna hinna fyrirhuguðu framkvæmda. Eignarnámsþolar telji, að uppdrátturinn sem nú er lagður fram, sem grundvöllur eignarnáms fái ekki staðist sem slíkur, sbr. samþykkt bæjarstjórnar og áður tilvitnaðan uppdrátt. Sá uppdráttur sýni þær spildur, sem óhjákvæmilegt sé að taka eignarnámi, til þess að leyfa fyrirhugaðar framkvæmdir. Skv. þessu sé það skoðun eignarnámsþola, að Matsnefnd eignarnámsbóta leyfi ekki framkvæmdir vegna lagningar fyrirhugaðrar Sjávargötu, nema í samræmi við þann uppdrátt sem bæjarstjórnin miðaði samþykkt sína við.

Eignarnámsþolar mótmæla því sérstaklega, sem lögleysu og óviðkomandi lagningu Sjávargötu, að tekið sé eignarnámi landræma umhverfis húsið Mörk.

Einnig mótmæla þeir, að skv. nýja uppdrættinum, sem fylgir matsbeiðninni virðist Grundvarvegur opnaður sem akvegur til Sjávargötu. Þetta sé ekki í samræmi við staðfest skipulag, enda myndi þetta raska stórlega aðstöðu húseignanna Grundarvegur 1, Grundarvegur 2 og Smiðjustígs 4.

Skv. skipulaginu eigi þarna að vera gangstígur, sbr. fyrri uppdrátt vegna eignarnámsins.

Varðandi varakröfu sína, þ.e., ef til eignarnáms komi, þá vitna eignarnámþolar til kaupsamnings, sem lagður er fram í málinu varðandi sölu á 1200 m² lands á lóðinni Bolafótur 3 (iðnaðarlóð) dags. 30. sept. 1976, þar sem söluverðið hafi verið kr. 1.745,- pr. m²- Að sjálfsögðu eigi sú viðmiðun að taka breytingum í samræmi við núgildandi verðlag.

Eignarnámsþolar minna á, að á sínum tíma hafi þeir mótmælt breytingu á skipulagi, sem gerð hafi verið á þessu svæði 1972 og 1973 og enn sé í gildi. Þeir áskilji sér enn allan rétt vegna þess tjóns, sem skipulagsbreytingin hafði í för með sér vegna einstakra húsa, sem byggð hafi verið í samræmi við þágildandi skipulag. Er áskilinn allur réttur til þess að krefjast þeirra bóta í sérstöku máli.

III.

Eignarnámsheimildina fyrir töku þess landsvæðis, sem ræðir um í máli þessu er að finna í 28. gr. skipulagslaga nr. 19/1964, þar sem um staðfest skipulag á svæðinu er að ræða. Matsnefndin hefur gengið á vettvang og skoðað aðstæður á staðnum. Leitað hefur verið sátta með aðilum en árangurslaust.

Lagður er fram í máli þessu uppdráttur, L-63, dags. í janúar og mars 1977 er sýnir landspildur þær, sem óskað er eignarnáms á í máli þessu. Úr landi Höskuldarkots er tekið eignarnámi land að stærð 1634 m². Úr landi Þórukots landspilda að stærð 60 m² og úr landi Njarðvíkur I 50% af 694 m² eða 347 m².

Þar sem eignarnám þetta er gert til framkæmdar á staðfestu skipulagi hafnarsvæðisins í Ytri-Njarðvík hefur aðalkrafa eignarnámsþola ekki við rök að styðjast og verður því ekki tekin til greina.

Landspilda sú sem um ræðir er eignarnema brýn nauðsyn að fá umráð yfir vegna hitaveitu og vatnsveituframkvæmda í framlengingu Sjávargötu, en landspildan fer öll undir lagningu þessarar götu.

Verkefni Matsnefndar eignarnámsbóta er því í þessu máli að meta til verðs ofangreint land. Um verð á landi því, sem um ræðir benda eignarnámþolar á kaupsamning dags. 30. sept. 1976 varðandi sölu 1200 m² lands á lóðinni Bolafótur 3, en þar er um iðnaðarlóð að ræða. Verð á þeirri lóð hafi verið kr. 1745.- pr. m². Hins vegar eigi verð þetta að taka breytingum, í samræmi við núgildandi verðlag.

Við skoðun á landi þessu kom í ljós að meginhluti þess er gróinn íslenskum túngróðri í góðum myldnum jarðvegi. Virðist svo sem um gamalgróið tún sé að ræða, sem ekki hafi verið nytjað til búskapar um árabil.
Landið er ógirt, og engin mannvirki á því.

Fasteignamat á lóðum við Sjávargötu er nú um kr. 1400.- pr. m². Landsvæði þetta er skipulagsskylt og deiliskipulagning svæðis þessa hefur farið fram. Þegar athuguð er lega landsins og allar aðstæður er líklegt að framtíðarnýting lands þessa hefði orðið sú, að á því hefði verið reist hús, ef ekki hefði komið til eignarnáms, enda naumast um aðra arðbæra nýtingu landsins að ræða. Með vísan til almennra reglana um ákvörðun eignarnámsbóta og með hliðsjón af reglum 29. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 þykir rétt að leggja þessa nýtingu landsins til grundvallar matsbótum. Hins vegar þykir rétt að taka tillit til þess, hvernig landið er skipulagt og að ekki hefði verið leyft að byggja á því. Þá verður að hafa í huga ákvæði 30. gr. skipulagslaga nr. 19/1964, eftir því sem við á.

Samkvæmt framangreindu og með hliðsjón af öðru því, sem Matsnefndin telur máli skipta þ.á m. verðbreytingum, telur Matsnefndin að hæfilegt mat á landi þessu sé 1440.00 pr. m², og er þá miðað við staðgreiðslu.

Samkvæmt þessu greiði eignarnemi eigendum Höskuldarkots kr. 2.352.960.-, eigendum Þórukots kr. 86.400.- og eigendum Njarðvíkur I. kr. 499.680.- og eignarnámsþolum sameiginlega í málskostnað kr. 100.000.-, skv. 11. gr. l. nr. 11/1973.

Þá þykir rétt, að eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 175.000.-, skv. 11. gr. sömu laga.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Ögumundur Jónsson, verkfræðingur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. . nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Njarðvíkurbær, greiði eigendum Höskuldarkots kr. 2.352.960.-, eigendum Þórukots kr. 86.400.- og eigendum Njarðvíkur I. kr. 499.680.- og eignarnámsþolum sameiginlega í málskostnað kr. 100.000.-.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 175.000.-.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum