Hoppa yfir valmynd
17. maí 2004 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 17. maí 2004

Grein

Mánudaginn 17. maí 2004 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 2/2004

Landssími Íslands hf.

gegn

Gullveri sf.

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Benedikt Bogason, héraðsdómari, en formaður nefndarinnar kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

Með matsbeiðni dags. 27. febrúar 2004 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 15. mars 2004 fór Landssími Íslands hf., kt. 500269-6779, Ármúla 25, Reykjavík, (eignarnemi), þess á leit við nefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á hluta fasteignarinnar Aðalgata 7, Stykkishólmi. Eignin er þinglesin eign Gullvers sf., kt. 650882-0329, Strandgötu 25, Hafnarfirði (eignarnámsþoli).

Nánar tiltekið er um að ræða mat á 12x12 metra stórri spildu úr ofangreindri lóð ásamt 2 metra breiðri lagnaleið frá mastri sem á spildunni stendur út fyrir lóðamörk. Þá er og krafist mats á bótum fyrir rétti eignarnema til umferðar að hinni eignarnumdu spildu um lóð eignarnámsþola.

Eignarnámið byggir á 70. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, sbr. áður 3. mgr. 48. gr. laga um sama efni nr. 107/1999, en samgönguráðherra heimilaði eignarnámið með ákvörðun dags. 5. janúar 2004 að fenginni umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar dags. 12. febrúar 2003.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta mánudaginn 15. mars 2004. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni og önnur gögn. Eftirfarandi bókanir voru gerðar við fyrirtökuna:

Lögmaður eignarnámsþola mótmælir sérstaklega eignarnáminu sjálfu og telur ekki skilyrði fyrir hendi til þess. Kveður hann umbj. sinn ætla að láta reyna á það mál fyrir dómstólum. Eignarnámsþoli mótmælir að málið haldi áfram meðan þessi ágreiningur er óleystur.

Eignarnemi krefst þess að málið haldi áfram fyrir nefndinni þar sem hafðar eru uppi hindranir af hálfu eignarnámsþola við því að starfsmenn eignarnema fái aðgang að fjarskiptamastri sem er á lóðinni.

Eignarnámsþoli segir ekkert liggja fyrir um það í gögnum málsins að slík hindrun sé fyrir hendi og það sé röng fullyrðing af hálfu eignarnema.

Málinu var að framangreindum bókunum lokið var málinu frestað til vettvangsgöngu til 7. apríl 2004.

Miðvikudaginn 7. apríl 2004 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður kannaðar. Eignarnámsþoli hafði komið þeim boðum í gegnum lögmann sinn að nefndinni væri óheimilt að fara inn á lóð hans við vettvangsgönguna og varð nefndin við þessari kröfu. Enginn mætti f.h. eignarnámsþola við vettvangsgönguna. Málinu var að henni lokinni frestað til framlagningar greinargerða af hálfu aðila til 28. apríl 2004.

Miðvikudaginn 28. apríl var málið tekið fyrir. Af hálfu aðila voru lagðar fram greinargerðir ásamt fylgiskjölum. Matsnefndinni þótti ekki efni til að láta flytja málið munnlega fyrir nefndinni og var málið því tekið til úrskurðar að framlagningunni lokinni.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema er þess krafist aðallega að eignarnámsþola verði ákveðnar kr. 50.000- í bætur fyrir hið eignarnumda. Til vara er þess krafist að bæturnar verði ákveðnar kr. 100.000-. Til þrautavara er þess krafist að metnar bætur verði ákveðnar eins hóflegar og frekast er kostur að mati nefndarinnar. Þá er þess krafist að kostnaður sá sem eignarnema verður gert að greiða eignarnema verði ákveðinn óverulegur.

Eignarnemi bendir á að honum sé mikilvægt að fá eignarétt og umferðarrétt að hinni eignarnumdu spildu, því á spildunni standi fjarskiptamastur sem nauðsynlegt sé fyrir rekstur eignarnema. Samningatilraunir við eignarnámsþola um kaup eða leigu á spildunni hafi engan árangur borið og því hafi eignarnema verið nauðugur sá kostur einn að taka spilduna eignarnámi skv. heimild í lögum um fjarskipti að undangenginni umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar og heimild samgönguráðherra. Eignarnemi kveðst m.a. hafa boðið eignarnámsþola kr. 1.200.000- fyrir spilduna, en því boði hafi verið hafnað.

Um málavexti vísar eignarnemi einkum til ákvörðunar samgönguráðherra um eignarnámsheimildina svo og umsagnar Póst- og símamálastofnunar, en gögn þessi hafa verið lögð fram í málinu.

Varðandi aðalkröfu vísar eignarnemi til þess að skv. fram lögðu mati löggilts fasteigna- og skipasala sé verðmæti skikans í hæsta lagi kr. 100.000-. Það beri þó að athuga í því sambandi að miðað sé við að um fullkominn eignarrétt eignarnámsþola sé að ræða. Það eigi hins vegar ekki við í þessu tilviki, því lóð eignarnámsþola sé erfðafestuland samkvæmt lóðarleigusamningnum sem um lóðina gildir og því sé ekki rétt við mat á spildunni að jafna henni til eignarlands.

Um varakröfu vísar eignarnemi einnig til ofangreinds mats löggilts fasteigna- og skipasala. Það mat sýni að hæsta hugsanlegt markaðsverð spildunnar en við það beri að miða við matið svo sem venja sé. Eignarnemi telur ekki að sjónarmið um skerta nýtingu lóðarinnar vegna mastursins sem á spildunni sé geti leitt til hækkunar á verðmatinu. Það hafi verið reist á sjöunda áratugnum og getur því ekki hafa komið eignarnámsþola í opna skjöldu. Í kaupsamningi um eignina komi skýrt fram að eignin seldist í núverandi ástandi, sem kaupandi hafi kynnt sér með skoðun og sætti sig við að öllu leyti. Þetta sama hafi verið áréttað í afsali um eignina. Þá telur eignarnemi einnig ljóst að þó mastrið yrði fjarlægt standi það á óbyggilegum hól í horni lóðarinnar sem aldrei muni geta nýst sem byggingarstaður.

Varðandi þrautavarakröfu bendir eignarnemi á að heildarverð eignarinnar hafi verið kr. 8.780.000- en fyrir það hafi eignarnámsþoli keypt tveggja hæða hús með kjallara og viðbyggingum auk lóðar. Meginverðmæti eignarinnar hljóti að felast í íbúðarhúsinu sem alls sé 432,5 ferm. að stærð. Lóðin sé samtals 5.349 ferm. að stærð en verðmæti hennar sé óverulegt í þessum kaupum hvað þá hinn 12x12 metra skili sem um er deilt.

Eignarnemi bendir á að það sé mat Póst- og fjarskiptastofnunar að tilboði eignarnema um kaupverð sé ríflegt miðað við stærð þess lóðarhluta sem óskað er eftir. Þetta mat hafi stofnunin byggt á upplýsingum sem eignarnemi lagði fram um leigukjör fyrir samsvarandi aðstöðu, en algengasta leiguverð fyrir sambærilega aðstöðu sé á bilinu kr. 30-40.000- á ári. Þá bendir eignarnemi enn á að hér sé ekki um eignarland að ræða heldur erfðafestuland sem hljóti að vera verðminna en hefðbundið eignarland.

Eignarnemi mótmælir því sérstaklega að tilboð sem gerð hafi verið á fyrri stigum málsins séu á nokkurn hátt bindandi fyrir eignarnema úr því sem komið er.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist aðallega að málinu verið vísað frá Matsnefnd eignarnámsbóta. Til vara er þess krafist að eignarnema verði gert að greiða eignarnámsþola kr. 27.000.000- í bætur fyrir hið eignarnumda að viðbættum dráttarvöxtum skv. lögum nr. 38/2001 frá 5. janúar 2004 til greiðsludags. Í báðum tilvikum er að auki krafist að eignarnemi greiði eignarnámsþola kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni auk virðisaukaskatts.

Af hálfu eignarnámsþola er þess sérstaklega krafist að formaður matsnefndarinnar víki sæti í máli þessu með vísan til g-liðar 5. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Krafist er sérstaks úrskurðar um þetta atriði.

Eignarnámsþoli áskilur sér rétt til að hækka kröfu sína komi fram umkrafðar upplýsingar um tekjur eignarnema af rekstri fjarskiptabúnaðarins og kostnað við að fjarlægja búnaðinn af lóð eignarnámsþola.

Eignarnámsþoli kveðst hafa keypt Aðalgötu 7 af ríkissjóði fyrir milligöngu Ríkiskaupa sem auglýstu eignina til sölu í febrúar 2001. Eignarnámsþoli kveðst hafa átt hæsta boðið og því fengið eignina. Eignarnámsþoli kveðst ekki hafa skoðað eignina fyrr en ljóst var að hann hefði átt hæsta boðið og eftir að ljóst var að Stykkishólmsbær gæti ekki gengið inn í kaupin vegna forkaupsréttar. Eignarnámsþoli kveður að þá fyrst hafi honum orðið ljóst að í einu horni lóðarinnar hafi fjarskiptamannvirki eignarnema staðið. Eignarnámsþoli telur staðsetningu mastursins hafa það í för með sér að stór hluti lóðarinnar verði ekki nýttur með eðlilegum hætti auk þess sem mastrinu fylgi bæði hljóð- og sjónmengun.

Eignarnámsþoli kveðst ítrekað hafa reynt að fá svör við þeirri kröfu sinni að fá kr. 55.000- á mánuði í leigugreiðslu fyrir spilduna, en því hafi ekki verið svarað fyrr en eftir mikinn eftirrekstur og þá neitandi, en jafnframt hafi eignarnemi boðið kr. 1.000.000- fyrir spilduna.

Eignarnámsþoli lýsir í greinargerð sinni til nefndarinnar samskiptum sínum við eignarnema þar á meðal tilraunir hans til að fá eignarnema til að greiða leigu fyrir spilduna auk samskipta við eignarnema vegna mótmæla eignarnámsþola við eignarnáminu sjálfu. Eignarnámsþoli kveðst hafa mótmælt hjá Matsnefnd eignarnámsbóta að lagaheimild væri fyrir eignarnámsákvörðuninni og því að málið væri tekið til meðferðar hjá nefndinni meðan ágreiningur væri til staðar um lögmæti eignarnámsákvörðun samgönguráðuneytisins. Krafist hafi verið rökstuðnings fyrir því af hverju nefndin tæki málið fyrir. Sá rökstuðningur hafi ekki borist lögmanni eignarnámsþola fyrr en um tveir dagar voru til vettvangsgöngu og hafi ákvörðunin valdið miklum vonbrigðum, enda langt frá því að vera ítarlegur eins og farið hafi verið fram á og því alls ekki fullnægjandi að mati eignarnámsþola.

Varðandi aðalkröfu eignarnámsþola um frávísun málsins er á því byggt að ákvörðun samgönguráðuneytisins uppfylli ekki nauðsynleg lagaskilyrði. Þá liggi fyrir að ákvörðun ráðuneytisins beinist ekki að réttri fasteign við Aðalgötu í Stykkishólmi þar sem búnaður eignarnema er staðsettur að Aðalgötu 7a í Stykkishólmi en ákvörðun ráðuneytisins tilgreini Aðalgötu 7.

Eignarnámsþoli telur að auki að með eignarnámsákvörðuninni hafi verið gengið lengra en nauðsyn bar til þar sem önnur úrræði hefðu ekki verið reynd til hins ýtrasta fyrst. Þannig hafi reglur stjórnsýslulaga verið brotnar með ákvörðuninni, einkum 10. og 12. gr. laga nr. 37/1993.

Krafa eignarnámsþola um frávísun málsins frá nefndinni byggir enn fremur á því að beiðni eignarnema og ákvörðunin sé svo óljós og óskýr um það hvað séu hin eignarnumdu verðmæti og réttindi að ókleift sé að leggja mat á verðmæti þeirra. Þá er enn fremur talið að með hinni umdeildu ákvörðun samgönguráðuneytisins hafi ráðuneytið tekið afstöðu í máli undirstofnunar sama ráðuneytis þar sem sami húsbóndi ráði ríkjum á báðum vígstöðvum. Vandaðir stjórnsýsluhættir hefðu augljóslega verið að skipa samgönguráðherra ad hoc til meðferðar og ákvörðunar í máli eignarnema.

Varðandi þá skoðun sína að fullar bætur fyrir hið eignarnumda séu kr. 27.000.000- bendir eignarnemi á að aðstaða sú sem eignarnemi hafi á lóð eignarnámsþola sé eignarnema afar mikilvæg og mjög mikilvægur hlekkur í heildar dreifikerfi eignarnema á seldri þjónustu. Þá byggir eignarnámsþoli enn fremur á því að aðstæður hagi því þannig á vettvangi að mastur eignarnema hafi í raun þær afleiðingar að um 100% skerðingu lóðarinnar sé að ræða að viðbættri hljóð- og sjónmengun, enda sé virkið aðeins í 40 metra fjarlægð frá íbúðarhúsinu að Aðalgötu 7. Þá liggi lagnir ofanjarðar frá mastrinu að tækjahúsi eignarnema á aðliggjandi lóð við Skúlagötu.

Eignarnámsþoli vísar til 72. gr. stjórnarskrárinnar, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga um fjarskipti nr. 81/2003, laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973, laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Eignarnámsþoli skorar í greinargerð sinni sérstaklega á eignarnema að leggja fram upplýsingar um árlegar tekjur sem eignarnemi hafi af leigu á aðstöðu í fjarskiptavirkinu, svo og upplýsingar um kostnað af því að flytja aðstöðuna af lóðinni og byggja hana upp annars staðar. Áskorun þessari beinir eignarnemi til eignarnámsþola í samræmi við 8. gr. laga nr. 11/1973.

VI. Álit matsnefndarinnar:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að formaður matsnefndarinnar víki sæti í máli þessu með vísan til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sbr. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af hálfu eignarnámsþola er því haldið fram að sú staðreynd að Hallmundur Albertsson hdl., núverandi starfsmaður eignarnema hafi áður starfað á lögmannsstofu formanns nefndarinnar og fyrrum upplýsingafulltrúi eignarnema starfi þar nú, valdi því að ekki sé hægt að útiloka að ómálefnaleg sjónarmið ráði ferðinni við úrlausn máls þessa. Formaður nefndarinnar hefur á fyrri stigum málsmeðferðar þessarar neitað að víkja sæti í máli þessu enda valda ofangreindar ástæður ekki vanhæfi hans til meðferðar málsins. Kröfu um að formaður víki sæti er því enn og aftur hafnað.

Eignarnámsþoli krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá matsnefndinni af ástæðum sem gerð er grein fyrir í greinargerð og nokkuð hafa verið raktar hér að framan. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 er það hlutverk Matsnefndar eignarnámsbóta að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Þetta verksvið matsnefndarinnar verður að túlka þröngt og hefur nefndin ekki úrskurðarvald um þau atriði sem aðalkrafa eignarnámsþola gengur út á. Þessar málsástæður eignarnámsþola leiða því ekki til frávísunar málsins. Þá er ekki fallist á þá málsástæðu eignarnámsþola að vafi leiki á hver hin eignarnumdu réttindi í málinu séu.

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að tekjumöguleikar eignarnema af mastri því sem stendur á spildunni geti haft áhrif á matsfjárhæðina. Vissulega er það hentugt fyrir eignarnema að fjarskiptamastrið skuli standa þar sem það er og veldur eignarnámsheimildin og eignarnámið því að eignarnemi þarf ekki að leggja út í kostnað við flutning þess. Hlýtur að verða að líta til þessa við ákvörðun bóta til eignarnámsþola. Fallist er á það með eignarnema að hann sé á engan hátt bundinn af þeim boðum sem hann hefur komið á framfæri við eignarnámsþola fyrir spilduna.

Svo sem fram kemur er hin eignarnumda spilda 12x12 metrar að stærð eða 144 ferm. Þess ber að geta að hin eignarnumda spilda nær ekki að lóðamörkum og myndast því lítt nýtanlegt svæði frá spildunni að lóðamörkum. Að áliti matsnefndarinnar veldur fjarskiptamastur það sem á spildunni stendur því að eign eignarnema er ekki eins verðmæt og annars væri.

Auk þess að krefjast bóta fyrir spilduna sjálfa er krafist mats á bótum fyrir umferðarrétt eignarnema um lóð eignarnámsþola að mastrinu, enda er eignarnema það nauðsynlegt í þágu reksturs þess. Þá er enn fremur óskað mats á landi undir lagnir frá mastrinu út fyrir lóðamörk.

Matsnefndinni þykir ljóst að þó umferð eignarnema um lóð hans vegna mastursins sé ekki teljandi þá er slík umferðarkvöð til þess fallin að rýra verðmæti eignar hans meira en væri ef einungis væri um að ræða eignarnám á spildunni. Það sama má segja um lagnir eignarnema sem liggja frá spildunni út fyrir lóðamörk. Þá hefur matsnefndin við ákvörðun bóta meðal annars haft í huga áhrif hljóð- og sjónmengunar sem af fjarskiptamastrinu hlýst og er til þess fallið að rýra enn frekar verðmæti eignarinnar.

Með vísan til framanritaðs er það álit matsnefndarinnar að hæfilegar bætur til eignarnámsþola séu sem hér segir:

Bætur fyrir 144 ferm. spildu og ónýtanlegt

land í kringum hana kr. 200.000-

Bætur vegna lagna að lóðamörkum, almenna

verðrýrnun og umferðarréttar til framtíðar kr. 800.000-

Samtals kr. 1.000.000-

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 250.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna rekstur máls þessa fyrir matsnefndinni og kr. 600.000- í ríkissjóð vegna starfa matsnefndarinnar í máli þessu.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfu eignarnámsþola um að formaður nefndarinnar víki sæti.

Aðalkröfu eignarnámsþola er vísað frá nefndinni.

Eignarnemi, Landssími Íslands hf., kt. 500269-6779, Ármúla 25, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, Gullveri sf., kt. 650882-0329, Strandgötu 25, Hafnarfirði, kr. 1.000.000- í eignarnámsbætur og kr. 250.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.

Þá skal eignarnemi greiða kr. 600.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

____________________________________

Helgi Jóhannesson hrl.

______________________________ ___________________________

Vífill Oddsson Benedikt Bogason



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum