Hoppa yfir valmynd
28. október 1977 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 28. október 1977

Ár 1977, föstudaginn 28. október, var í Matsnefnd eignarnámsbóta, skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

               Vegagerð ríkisins
                  gegn
               Daníel Daníelssyni
               Tannstöðum,
               Vestur-Húnavatnssýslu

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 21. okt. 1975 hefur Vegagerð ríkisins með vísan til 10. kafla vegalaga nr. 66/1975 og l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms farið þess á leit að metnar verði lögboðnar bætur vegna fyrirhugaðrar lagningar Norðurlandsvegar um land Tannstaða í Vestur-Húnavatnssýslu, en eigandi og ábúandi Tannstaða sé Daníel Daníelsson, bóndi.

Viðræður hafi farið fram milli eignarnema og eignarnámsþola, en samningar ekki tekist.

Eignarnemi kveður framkvæmd við vegagerðina hafa staðið yfir í Hrútafirði sumarið 1975 og sé nú fram haldið með skurðgreftri á Hrútafjarðarhálsi. Sé í ráði að ljúka skurðagerð með hinum fyrirhugaða vegi um Hrútafjarðarháls haustið 1975.

Er að því hafi komið að grafa í landi Tannstaða hafi eignarnámsþoli neitað umferð um land sitt. Brýnt sé að ljúka skurðgreftri sem fyrst. Var þess vegna óskað, að Matsnefndin tæki mál þetta fyrir sem fyrst, og heimilaði jafnframt eignarnema samkvæmt 14. gr. l. nr. 11/1973 að taka umráð þess lands, sem taka átti eignarnámi, þótt niðurstaða Matsnefndar lægi ekki fyrir fyrr en síðar.

Upplýsir eignarnemi að stærð landspildunnar, sem fari undir vegsvæði í landi Tannstaða, sé ca. 6 ha.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir 25. okt. 1975 á fundi Matsnefndarinnar, sem haldinn var á jörðinni Tannstöðum.

Á þessum fundi voru mættir af hálfu eignarnema, Gunnar Gunnarsson, lögmaður, og með honum Guðmundur Arason, verkfræðingur. Eignarnámsþoli var sjálfur mættur og með honum Aðalbjörn Benediktsson, héraðsráðunautur.

Var á fundi þessum gerð svofelld bókun:

"Eignarnámsþoli gerir þá kröfu, að undirgangur verði gerður undir hinn nýja þjóðveg fyrir sauðfé, þar sem búskaparaðstaða versni mikið við hinn nýja þjóðveg, vinna aukist við búreksturinn og auk þess óttist hann að féð verði afurðaminna en ella. Hann gerir ráð fyrir 2 m. breiðum undirgangi en hæðin verði að ráðast eftir því hvernig til hagi við þjóðveginn.

Eignarnámsþoli samþykkir nú, að Vegagerð ríkisins megi halda áfram vegaframkvæmdum þeim, sem unnið er að, en hann heldur fast við kröfur sínar, sem bókaðar eru hér að framan.

Matsmenn og aðilar gengu nú á vettvang og skoðuðu allar aðstæður.

Að lokinni vettvangsgöngu, var aftur haldið að Tannstöðum, og óskaði Aðalbjörn tekið fram, að það væri hans álit, að afurðatjón muni hljótast af fyrir jörðina vegna hinna nýju framkvæmda og vegarlagningar, enda sé land þetta verðmætt sem beitiland, sérstaklega að vetrinum."

Í greinargerð sinni í málinu hefur eignarnemi skýrt svo frá, að á undanförnum árum hafi staðið yfir endurlagning Norðurlandsvegar í Hrútafirði og hafi sú uppbygging náð að Heggstaðanesvegi að norðan í landi Tannstaðabakka er mál þetta hófst. Sé í ráði að halda áfram austur yfir Hrútafjarðarháls, og sé þá farið um land Tannstaða.

Norðurlandsvegur á Hrútafjarðarhálsi hafi ekki áður legið um land Tannstaða. Stærð þess lands, sem nú fari undir vegsvæði sé 5,9 ha. Girt muni verða beggja vegna vegarins en breidd vegsvæðisins sé 40 m. Í greinargerð eignarnema segir síðan á þessa leið: "allt fram á síðustu ár greiddi Vegagerð ríksins landeigendum ekki bætur vegna vegagerðar utan þéttbýlis, nema ræktuðu landi væri spillt. Þóttu samgöngubætur til hagsbóta fyrir jarðir, og komu bótakröfur sjaldan fram.

Á þessu hafur orðið breyting, og eru landeigendur nú í vaxandi mæli farnir að gera kröfur um, að land, sem nota má til ræktunar eða beitar, verði einnig bætt.

Sjálfsagt þótti að mæta þessum kröfum, og var í því skyni leitað álits sérfróðra aðila um, hvað teldist hæfilegar bætur í þessum tilvikum. Þeir, sem til var leitað, voru m.a. Búnaðarfélag Íslands, Landnám ríkisins, Yfirfasteignamat, fyrrverandi landnámsstjóri og Ingvi Þorsteinsson, magister.

Á fundi, er haldinn var á skrifstofu vegamálastjóra 04.11.1971, sbr. matsskj. nr. 7, með aðilum frá Búnaðarfélagi Íslands, yfirfasteignamati, samgönguráðuneyti og Vegagerð ríkisins voru lagðar fram tillögur, sem myndaðar voru úr umsögnum framantalinna aðila. Voru fundarmenn sammála um tillögurnar, og voru þær staðfestar af stjórn Búnaðarfélags Íslands með bréfi dags. 30. nóv. 1971, sbr. matsskj. nr. 8. Í samræmi við niðurstöður þessar var gefin út orðsending nr. 1/1972 um landbætur, sbr. matsskj. nr. 9. Framangreindar niðurstöður hafa síðan verið endurskoðaðar árlega fyrri hluta árs með tilliti til hækkandi verðlags og verðmætis lands, og hefur ætíð verið haft samráð við stjórn Búnaðarfélags Íslands við ákvörðun verðgrundvallar. Við endurskoðun hefur verið miðað við áætlaða vísitölu þess árs, sem er að líða, þegar endurskoðun fer fram. Sú vísitala er reiknuð eftir á um áramót, og eru því inni í henni allar hækkanir á árinu. Síðasta endurskoðun þessa verðlagsgrundvallar fór fram í maí sl., sbr. orðsendingu nr. 5/1976 um landbætur, matsskj. nr. 10." Skv. þessu er það krafa eignarnema, að til grundvallar mati sínu leggi matsmenn orðsendingu nr. 5/1976, sbr. mskj. nr. 10. Um sé að ræða 59000 m² af ræktunarhæfu grónu landi, sem reiknast skv. nefndri orðsendingu á kr. 3.00 pr. m² þ.e., boðnar heildarbætur nemi kr. 177.000.-.

Greiðslutilboð þetta miðist við það að ekki séu fyrir hendi sérstakar aðstæður, sem réttlætt geti hærri bótagreiðslu. Athygli er á því vakin að jarðeigendur í Hrútafirði og Hrútafjarðarhálsi vestanverðum hafi verið samþykkir og mælt sumir eindregið með þeirri veglínu, sem endanlega hafi verið valin upp úr Hrútafirði, sbr. mskj. nr. 4, 5 og 6.

Eignarnemi kveðst alls ekki geta fallist á að gera undirgang undir veginn á kostnað Vegagerðar ríkisins. Mótmælir eignarnemi þeirri fullyrðingu eignarnámsþola, að búskaparaðstaða hans versni vegna endurlagningar Norðurlandsvegar. Við lagningu vegarins myndist rúml. 60 ha. afgirt hólf, sem vegna stærðar sinnar og legu sé hið ágætasta beitarhólf. Að vísu þurfi að fara um lengri veg til þess að koma búfénaði í hólfið en á móti komi að nýting landsins sé til muna betri þegar beitt sé í smærri hólf og muni það vera vísindalega kannað og sannað af búvísindamönnum. Þá hafi búskaparhættir breyst á þann veg á síðari árum að vetrarbeit hafi að mestu verið hætt og heimahagar einkum verið beittir vor og haust. Sé því tiltölulega sjaldan, sem færa þurfi fé milli bæjarhúsa og beitarhólfs og þess vegna varla um merkjanlegt aukavinnuálag ábúanda Tannstaða að ræða, þar sem smölun verði að fara fram á öllu heimalandinu, hvort sem því sé skipt eða ekki.

Bent er á að svo hátti til á flestum bújörðum á landinu, að vegur eða vegir skipti þeim og hluti þær niður. Sennilegt sé, að oft sé þetta til óhagræðis fyrir ábúendur jarðanna og jafnvel til fjárhagslegs tjóns í sumum tilfellum, þó neitar eignarnemi því að svo sé í máli þessu. Telur eignarnemi að e.t.v. megi orða það svo, að óþægindi þessi séu venjuhelguð kvöð á bújarðir, óhjákvæðileg afleiðing vegagerðar, sem viðurkennd sé sem forsenda byggðar og búskapar í landinu. Þá bendir eignarnemi til samanburðar á lagafyrirmæli, sem leggi bótalaust skyldur og kvaðir á jarðeigendur, beinlínis vegna vegagerðarframkvæmda í landi þeirra, sbr. l. nr. 10/1965, 7. gr.

Eignarnemi hefur látið gera kostnaðaráætlun varðandi undirgang og telur að slíkur undirgangur kosti kr. 2.500.000.-, sbr. mskj. nr. 11. Þó geri sú áætlun ráð fyrir bestu aðstæðum þ.e. engum sprengingum né sérsakri "dreneringu", og megi því gera ráð fyrir að í flestum tilvikum sé kostnaðurinn meiri. Á móti framangreindri tölu megi nefna, að land sunnan væntanlegs þjóðvegar í landi Tannstaða muni vera rúml. 60 ha. Ef land þetta yrði bætt á sama hátt og landið, sem fari undir vegsvæðið, skv. orðsendingu nr. 5/1976 og félli þá til Vegagerðar ríkisins, sem hennar eignarland, þá næmu þær bætur um kr. 1.800.000.-. Ef krafa landeiganda um undirganginn næði fram að ganga sé augljóst að hagkvæmara væri fyrir Vegagerðina að kaupa upp allt landið sunnan vegarins, heldur en að byggja undirganginn. Þá bendir eignarnemi á, hvað slíkt fordæmi muni kosta vegasjóð og skattborgarana í þessu landi, ef farið yrði inn á þá braut, að gera undirgöng undir þjóðveginn í tilfellum, eins og þeim sem hér um ræðir.
Þá bendir eignarnemi á 3. málsgr. 61. gr. vegalaga, sem segi að sérstaklega skuli taka tillit til, ef ætla megi að land hækki í verði við vegagerð. Endurlagning Norðurlandsvegar hljóti að auka mjög á öryggi í samgöngumálum og orka þannig á fjárgildi þeirra jarða, sem af honum hafi not.

II.

Eignarnámsþoli gerir þá kröfu eins og áður segir að undirgangur verði gerður undir hinn nýja þjóðveg fyrir sauðfé, þar sem búskaparaðstaða muni versna mikið við hinn nýja veg, vinna muni aukast við búreksturinn og auk þess, kveðst hann óttast að féð verði afurðaminna en ella. Gerir hann ráð fyrir 2ja metra breiðum undirgangi en hæðin verði að ráðast eftir því hvernig til hagi við þjóðveginn. Þá hefur héraðsráðunautur, Aðalbjörn Bendiktsson, sem mætt hefur með eignarnámsþola í málinu tekið fram, að það væri hans álit að afurðartjón muni hljótast af fyrir jörðina vegna hinna nýju framkvæmda og vegalagningar, enda sé land það, sem hér um ræðir verðmætt sem beitiland, sérstaklega að vetrinum. Að beiðni eignarnámsþola hafa búnaðarráðunautar V-Húnavatnssýslu gefið umsögn um greinargerð Vegagerðarinnar í máli þessu sbr. mskj. nr. 13.

III.

Matsnefndin hefur farið á vettvang ásamt eignarnámþola og umboðsmönnum eignarnema og héraðsráðunaut og skoðað aðstæður og land á þessum stað. Aðilar hafa skýrt mál sitt fyrir nefndinni, munnlega og skriflega. Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust.

Eignarnámsheimildina er að finna í 59. gr. vegalaga sbr. l. nr.66/1975.

Í 59. gr. vegalaga segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það, er þurfi undir vegi eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skulu því aðeins greiddar að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.

Auk þeirra gagna, sem málsaðilar hafa lagt fram hefur Matsnefndin aflað sér frekari upplýsinga um búskap og búrekstraraðstöðu á Tannstöðum, svo sem með:

1. Ljósriti af spjaldskrá Búnaðarfélags Íslands, sem sýnir útteknar jarðabætur á Tannstöðum s.l. 10 ár.

2. Skýrslu um búfé, fóðurforða og uppskeru í Staðarhreppi haustið 1976.

3. Ritið landgræðsluáætlun 1974 - 1978, en þar er m.a. umsögn um nýtingu lands og ástand gróðurs í heimalöndum og afréttum í V-Húnavatnssýslu með hliðsjón af þeim beitarþunga, sem í högum er.

Þá hefur Matsnefndin undir höndum orðsendingu Vegagerðar ríkisins nr. 9/1977 um landbætur.

Samkvæmt skýrslum forðagæslumanna, haustið 1976, var til ásetnings á Tannstöðum talið 274 ær, 60 lömb, 6 hrútar, 3 hestar fjögurra vetara, 5 trippi og 1 folald og svarar þetta til um 360 ærgilda. Taða af túnum sumarið 1976 var talin 838 rúmmetrar eða 44910 fóðureiningar.

Eignarnámsþoli telur landstærð Tannstaða vera um 300 ha., sem skiptist þannig: Um 40 ha. eru norðan við land Jaðars í um 2ja km. fjarlægð frá öðru heimalandi Tannstaða.

Annað heimaland Tannstaða skiptist í Heggstaðanesveg og er landið sunnan hans afgirt beitiland um 220 ha. að stærð. Norðan Heggstaðanesvegar að sjó er tún og ræktunarland jarðarinnar en tún Tannstaða er skv. spjaldskrá Búnaðarfélags Íslands nú talið vera 34,4 ha.

Beitilandið er breytilegt að gróðurfari eftir rakaástandi þess: Þar eru hallalitlir brokflóar, hallamýrar með mismunandi staragróðri. þurrlendari jaðar með blönduðum gróðri og vallendi í setruðningshólum og görðum. Land þetta er því með fjölbreytilegt gróðurfar, sem nýtist vel til sauðfjárbeitar. Með framræslu og áburði má stórauka og bæta gróðurfar lands þessa í búskaparlegu tilliti.

Vegsvæði það, sem Vegagerð ríkisins tekur til sín með eignarnámi þessu liggur um land Tannstaða frá vestri til austurs og er 1475 m. á lengd og 40 m að breidd. Flatarmál þess er 5,9 ha. Vegsvæðið slítur um 63 ha. (reiknað skv. mskj. nr. 2) úr samhengi við annað heimaland Tannstaða. Þetta landsvæði er í um 1 km. fjarlægð frá bænum.

Nýja veglínan skapar því óhagræði í nýtingu landsins, hindrar fjrálsa umferð fénaðar um það og útheimtir meiri aðgæslu með búfénað og jörð á hólfuðu landi.

Matsnefndin lítur svo á, að með skipulagi á nýtingu landsins, með tilliti til skiptingar í hólf, megi verulega draga úr því óhagræði, er verður við skiptinguna.

Hólfaskiptingin yrði þannig: Samfellt heimabeitiland Tannstaða er nú talin 220 ha., frá því dragast við landtökuna um 6 ha. vegna vegsvæðisins, og verða þá 214 ha. eftir, þar af verður í hólfi sunnan nýja vegarins um 63 ha. og því 151 ha. norðan vegar, með óbreyttan samgang við tún og að fjöru.

Eins og fyrr er getið eiga Tannstaðir 40 ha. lands í um 2 km. fjarlægð frá heimalandinu.

Matsmönnum virðist, að beina megi beit í ákveðin hólf á vissum árstímum án þess að tíðar tilfærslur séu nauðsynlegar. Flutning milli hólfanna, sunnan og norðan vegar, mætti auðvelda með vélbúnum gagnstæðum hliðum á veggirðingunum, og væri við þau, innan girðingar útbúnaður, sem auðveldaði fjárrekstur að og yfir veginn.

Þá þykir vert að benda eignarnema á, að rétt sé að setja upp vegmerki til aðvörunar á þeim tíma, sem umferð fjár er yfir veginn.

Matsmenn telja að undirgangur undir veginn sé ekki raunhæf lausn.

Ekki sé víst um örugga umferð að göngum og um þau að vetrarlagi vegna snjóa og hálku.

Að þessu athuguðu hefur Matsnefndin metið þær bætur, sem meta ber vegna framkvæmda eignarnema þannig:

1.   Eignarnámsþoli missir af grónu beitilandi
   alls 5.9 ha. á 40.000.- kr. ha.....................   kr.   236.000.-
2.   Útbúnaður vegna aðrekstraraðstöðu.........    "   150.000.-
3.   Bætur vegna skipulagsbreytinga..............    "   100.000.-
      Bætur alls   kr.   486.000.-

Framangreind fjárhæð er miðuð við staðgreiðslu.

Rétt þykir að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. laga nr.11/1973 kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 175.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Ögmundur Jónsson, verkfræðingur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþola, Daníel Daníelssyni, Tannstöðum, Vestur-Húnavatnssýslu, kr. 486.000.-.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 175.000.-.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum