Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 1978 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 30. ágúst 1978

Ár 1978, miðvikudaginn 30. ágúst var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Vegagerð ríkisins
                  gegn
                  Pétri Jónssyni
                  Egilsstöðum II

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 13. nóvember 1975 hefur Vegagerð ríkisins með vísun til 10. kafla vegalaga og laga nr. 11/1973 farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta að metnar verði lögboðnar bætur vegna efnistöku úr svonefndu Þórsnesi innan Egilsstaða, sem Pétur Jónsson Egilsstöðum sé eigandi að.

Eignarnemi kveður málavexti þá að 10. september 1971 hafi verið gerður samningur um efnistöku úr Þórsnesi milli Vegagerðar ríkisins og Péturs Jónssonar, Egilsstöðum II. Með samningi þessum hafi eignarnámsþoli veitt eignarnema einkarétt á malartöku á 12000 m² landssvæði í svokölluðu Þórsnesi innan við Egilsstaði. Eftir að lokið hafi verið efnistöku úr hinu umsamda svæði, hafi Vegagerð ríkisins tekið efni á þessu landssvæði fram til haustsins 1975, að eignarnámsþoli hafi bannað alla efnistöku á svæðinu. Á þessum tíma hafi Vegagerðin greitt eignarnámsþola bætur fyrir efnistöku þá, sem fram hafi farið að því marki sem Vegagerðin hafi talið hæfilegt. Telur eignarnemi að það hafi orðið að samkomulagi 21. maí 1974 að eignarnámsþola yrðu þá greiddar kr. 4.00 pr. rúmm. fyrir tekið efni utan áðurgreinds samningssvæðis fyrir árið 1973 og 1974.

Eignarnemi kveður að dráttur hafi orðið á þessari greiðslu og hafi því verið ákveðið að greiða kr. 6.00 pr. rúmm. fyrir efni tekið árin 1973 og 1974. Hafi greiðsla þessi farið fram í júnímánuði 1975 og þá miðað við að tekið efni næmi 48000 rúmm.

Eignarnámsþoli hafi talið magntölur ekki réttar og verð pr. rúmm. of lágt og krafið eignarnema um kr. 20.000.000.- í bætur vegna efnistöku úr Þórsnesi.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta 28. nóvember 1975. Hinn 4. júní 1976 var fundur í Matsnefndinni settur á jörðinni Egilsstöðum II. Á þeim fundi var mættur af hálfu eignarnema Gunnar Gunnarsson, lögfræðingur og með honum Einar Þorvarðarson, umdæmisverkfræðingur, en eignarnámsþoli Pétur Jónsson, var sjálfur mættur og með honum Jón Oddsson, hrl.

Á þessum fundi var gerð svofelld bókun:

"Byrjað var á því að skoða ummerki í Þórsnesi, séð frá hlaðinu á Egilsstöðum.

Síðan var gengið á vettvang, og allar aðstæður skoðaðar, að viðstöddum aðilum og lögmönnum þeirra.

Eignarnámsþoli kveðst ekki samþykkja áframhaldandi efnistöku Vegagerðarinnar í Þórsnesi. Kveður hann samkomulag útilokað, aðallega af tvennu: Að freklega hafi verið brotinn á sér réttur og að hann vilji ekki offra þessu landi, að svo stöddu. Hann kveður einnig efnið dýrmætt og landið fagurt.

Lögmaður eignarnema leggur nú fram nr. 11-12, eignarnámskröfukort og kvittun fyrir útborgun, svohljóðandi ###

Lögmaður eignarnámsþola óskar nú, að lagt verði fram símskeyti, þar sem bönnuð var áframhaldandi efnistaka, en upplýst er, að eftir það hafi engin efnistaka farið fram.

Lögmaður eignarnema gerir nú þá kröfu, að leyft verði að taka þann malarhaug, sem fyrir hendi er í Þórsnesmelum og leyft verði að taka efnið úr því svæði, sem sýnt er á mskj. 11, rómverskur I, og gengur inn í gamla skeiðvöllinn.

Eignarnámsþoli mótmælir alveg þessum kröfum.

Eignarnemi fer fram á úrskurð um þetta atriði."

Úrskurður um þetta atriði var uppkveðinn í Matsnefndinni 8. júní 1976 og segir í forsendum úrskurðarins á þessa leið:

"Samkvæmt því sem upplýst er, þá er nú fyrir hendi malaður efnishaugur í námu þeirri, sem hér um ræðir, efni ca. að magni 2000 rúmm. Eignarnemi gerir þá kröfu nú, að honum verði leyft að taka og flytja burtu þennan malaða efnishaug, sem þarna er fyrir hendi í Þórsnesmóum, og að honum verði leyft að taka efni úr svæði, sem sýnt er á mskj. 11, rómverskir I., en það gengur nokkuð inn í gamla skeiðvöllinn, sem þarna er á staðnum. Eignarnámsþoli mótmælir þessum kröfum og hefur eignarnemi farið fram á úrskurð nefndarinnar um þetta atriði sérstaklega.

Þegar matsmenn gengu á vettvang sáu þeir, að verið var að taka efni úr öðrum námum á þessu sama svæði, eða mjög nálægt gryfjum þeim, sem eignarnemi hefur undanfarið tekið efni úr. Var upplýst, að eignarnámsþoli seldi enn efni úr hinum gömlu gryfjum, sem þarna eru.

Í 59. gr. vegalaga nr. 66/1975 og samsvarandi ákvæði í eldri lögum, segir að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það, er þurfi undir vegi eða til breikkunar eða breytingar eða viðhalds vegum, svo og að leyfa að efni til vegar sé tekið í landi hans, hvort heldur sé grjót, möl eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar, að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.

Í 14. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms segir, að þótt mati sé ekki lokið geti Matsnefnd heimilað eignarnema, að taka umráð verðmætis, sem taka eigi eignarnámi og ráðast í þær framkvæmdir, sem séu tilefni eignarnámsins. Við vettvangsgöngu þá, sem fram fór 4. júní s.l. sáu matsmenn, að mikið efni hefur verið tekið á þessu svæði, sem þarna er um að ræða, og að þarna er mikið umrót og að aðrir en eignarnemi fá enn að flytja efni frá þessu svæði. Matsmenn líta svo á, að þótt eignarnámsþoli kunni að geta stutt rökum sjónarmið þau, sem hann hefur fært fram í þessu máli, þá séu þau ekki þess eðlis, að þau komi í veg fyrir, að eignarnámsþoli verði að hlíta ákvæðum 59. gr. vegalaga. Þá telja matsmenn, að það muni ekki á neinn hátt torvelda framkvæmd efnismats á malarefni því, sem þarna um ræðir og jarðraski, né spilla sönnunargögnum fyrir eignarnámsþola, þótt Vegagerðinni verði veitt leyfi til þess að flytja á burtu efnishaug þann, sem nú er fyrir hendi unninn á staðnum, eða halda áfram efnistöku á þeim ca. 1 ha., sem sýndur er á mskj. nr. 11, merktur I.

Að svo vöxnu máli samþykkti Matsnefndin með samhljóða atkvæðum og með tilvísun til 14. gr. l. nr. 11/1973, að leyfa eignarnema að hefja nú þegar brottflutning á efni því, sem þarna er unnið og er til staðar, og að halda áfram efnistöku á þeim ca. 1 ha., sem áður getur. Þar sem Vegagerð ríkisins framkvæmir skv. vegalögum verk það sem hér um ræðir, á ábyrgð ríkissjóðs Íslands kemur ekki til álita, að ákveða sérstaklega tryggingu fyrir væntanlegum bótum til handa eignarnámsþola, enda verður tekin afstaða til væntanlegra bóta til eignarnámsþola á síðara stigi þessa máls."

Eignarnemi skýrir svo frá að hann hafi á undanförnum árum tekið efni til viðhalds og uppbyggingar vega í nágrenni Egilsstaða úr námum norðan svonefnds Þórsness í landi Egilsstaða II. Samkvæmt samningi dags. 10. september 1971 hafi eignarnámsþola verið greiddar í bætur kr. 2.30 pr. rúmm. vegna efnistöku utan þess svæðis sem samningurinn frá 1971 náði til. Hinn 21. maí 1974 hafi farið fram viðræður við eignarnámsþola og þá orðið að samkomulagi að honum yrðu greiddar kr. 4.00 pr. rúmm. fyrir tekið efni árið 1973 og 1974. Dráttur hafi orðið á umsaminni greiðslu og hafi þá verið ákveðið að greiða kr. 6.00 pr. rúmm. fyrir efni tekið árið 1973 og 1974, eða fyrir 47991 rúmm. kr. 287.946.-. Hafi greiðsla þessi farið fram í júnímánuði 1975 sbr. mskj. nr. 12. Hafi eignarnámsþoli þá ekki kannast við umrætt samkomulag frá 1974 og talið verðið of lágt og magntölur rangar og krafist 20.000.000.- króna í bætur fyrir efnistöku úr Þórsnesi. Hafi frekari samkomulagstilraunir reynst árangurslausar. Eignarnemi segir að umrædd magntala 47.991 rúmm. sé fengin með þeim hætti, sem venja sé. Eignarnemi segir að áætluð magntala eignarnámsþola á mskj. nr. 6 þ.e. 360000 rúmm. sé óraunveruleg.

Eignarnemi hefur varðandi bætur til eignarnámsþola í þessu máli bent á ákvæði 10. kafla vegalaga nr. 6/1977, sem fjalli um eignarnám, jarðrask, átroðning o.fl. Sérstaklega bendir hann á ákvæði 59. gr. og 61. gr. laganna.

Eignarnemi segir að við ákvörðun skaðabóta vegna efnistöku til vegagerðar utan markaðssvæða, þ.e. í dreifbýli þar sem ekki hafi komið fram eftirspurn eftir efni hafi verið sá háttur hafður á skv. nefndum lagasjónarmiðum að kanna hver afrakstur sé af landi því, sem efnistakan fari fram á og verðmæti tjónsins að öðru leyti. Hafi eignarnemi í þeim tilvikum ekki getað komið auga á að landeigandi yrði fyrir öðru tjóni en jarðraski, sem skerti nýtingu á landinu eða möguleika á nýtingu þess til beitar eða ræktunar eða þess búskapar sem á því væri stundaður, ef um nytjar af því væri að ræða á annað borð. Hafi Vegagerðin í slíkum tilfellum talið sig bæta að fullu tjón landeigandans með því að greiða fyrir hvern m² lands sem nýttur er til efnistöku. Verðið hafi verið breytilegt og farið eftir því hve verðmætar nytjar landsins hafi verið en ekki farið yfir kr. 3.00 pr. m² Hafi þá ekki verið tekið tillit til hve djúpt sé tekið.

Eignarnemi kveðst hins vegar hafa haft þann hátt á þegar bætt hafi verið fyrir vegagerðarefni þar sem sölumarkaður sé fyrir hendi, að greiða fyrir magn tekins efnis. Slíkur markaður hafi á síðari árum myndast í vaxandi mæli í grennd við þéttbýlisstaði. Verðlagning efnisins hafi verið mismunandi eftir stöðum og hæst þar sem eftirspurnin hafi verið mest og takmarkað efnismagn hafi verið fyrir hendi, en algengast sé að Vegagerðin hafi greitt kr. 1.00 til 10.00 fyrir hvern rúmm. Sé það yfirleitt nokkuð lægra verð en aðrir aðilar þurfi að greiða og komi þá það til, að eigendur jarðefnisins viðurkenni þörf þjóðfélagsins og sitt eigið hagræði af bættum samgöngum og einnig því að eignarnemi sé í flestum tilvikum stærsti efnistökuaðilinn og því megi segja að um magnafslátt sé að ræða.

Eignarnemi viðurkennir í máli þessi að efnisnáman í Þórsnesi sé á markaðssvæði og hafi greiðslur fyrir efnið á undanförnum árum verið í samræmi við það. Telur eignarnemi að verðákvörðun á jarðefni í Þórsnesi ætti að vera í samræmi við mótað verðlag á efni til vegagerðar í grennd við þéttbýlisstaði landsins þ.e. kr. 1.00 - 10.00 pr. rúmm. eða kr. 12.00 - 15.00 pr. rúmm. sbr. úrskurð í matsmáli vegna efnistöku úr landi Kjalardals í Skilmannahreppi, en sú jörð sé í næsta nágrenni við Akranes og Grundartanga og þar sem nú sé mikill markaður fyrir jarðefni vegna mikilla framkvæmda.

Þá bendir eignarnemi á að hann greiði á árinu 1977 kr. 10.00 pr. rúmm. fyrir efni tekið úr námu í landi Stóru-Fellsaxlar, Skilmannahreppi en Járnblendifélagið greiði kr. 15.00 pr. rúmm. fyrir sama efni úr sömu námu.

Þá bendir eignarnemi á ákvæði í 3. mgr. 59. gr. vegalaga er hljóði svo: Veghaldari skal jafnan leitast við að valda sem minnstum spjöllum á gróðri við vegagerð og græða upp sár sem myndast á grónu landi við vegarframkvæmdir". Þar sem efnistaka fari fram á vegum eignarnema sé það oftast svo, að Vegagerðin opni námur og oft með ærnum tilkostnaði t.d. vegna ofanafýtingar, slétti síðan landið þegar efnistöku sé lokið og sái í það og sé nú svo komið að eignarnemi muni vera annar stærsti landgræðsluaðili á landinu.

II.

Mál þetta hefur flutt fyrir eignarnámsþola Jón Oddsson, hrl. Gerir hann þær kröfur að eignarnámsþola verði metnar lögboðnar bætur vegna jarðefnistöku úr landi hans, auk skaðabóta vegna jarðrasks, ónæðis o.fl. að fjárhæð kr. 34.000.000.- auk fullra vaxta og málskostnaðar skv. gjaldskrá L.M.F.Í. að skaðlausu.

Lögmaður eignarnámsþola segir að forsaga máls þessa sé sú, að Vegagerð ríkisins hafi ruðst inn í land hans án eignarnámsheimildar eða samkomulags og þrátt fyrir bann hans. Er því haldið fram af lögmanninum að þetta hafi valdið umbj. hans sárindum og vonbrigðum og fengið á heilsuþrek hans. Enda meti eignarnámsþoli land sitt meir en til fjármuna. En þótt bætur verði einungis metnar til fjármuna segir lögmaðurinn að taka verði tillit til fleiri atriða en eignartjóns og komið því hér til álita háar miskabætur m.a. með hliðsjón af 257. gr. hegningarlaga.

Lögmaður eignarnámsþola mótmælir eindregið hugmyndum eignarnema um skaðabætur og telur þær ekki vera í samræmi við grundvallarreglu 67. gr. stjórnarskrárinnar um fullt verð. Telur hann sjónarmið eignarnema vera haldið einhverjum venjum stofnunarinnar, sem hafi haft sérfræðinga á sínum vegum í samningamakki við bændur, sem meira og minna hafi verið blekktir í viðskiptum með röngum upplýsingum. Lögmaður eignarnámsþola segir að skv. ákvæðum stjórnarskrárinnar eigi fullt verð að koma fyrir eign þá sem tekin sé eignarnámi. Ákvæði þetta hafi verið skilið svo að átt sé við fullar bætur það sé vísiregla sem vísi til gildandi reglna bótaréttarins á hverjum tíma.

Í lögum um framkvæmd eignarnáms nr. 61/1917 hafi verið gefin sú almenna regla að matsverð eignar skyldi miðað við gangverð, sem eignin hefði í kaupum og sölum. Fræðimenn hafi dregið í efa að þessi regla væri í samræmi við 67. gr. stjórnarskrárinnar þar sem gangverð þýddi ekki ávallt fullar bætur og nú hafi þessi regla verið felld niður í núgildandi lögum um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 þannig að matsmenn hafi óbundnari hendur en áður. Lögmaður eignarnámsþola telur að væntanlega muni þeir þó beita svipuðum grundvallarreglum og oft myndi því verða stuðst við gangverð í mötum vegna þess að ekki sé við annan betri mælikvarða að styðjast.

Lögmaðurinn telur það viðurkennda reglu að það sé hið einstaklingsbundna tjón sem eignarnámsþoli verði fyrir, sem beri að bæta. Gildi þetta bæði um mat á verðmæti eignar og annað tjón sem eigandinn byði svo sem bætur fyrir óþægindi og tekjumissi. Hann kveður það einnig viðurkennda reglu að valin sé sú reikningsaðferð sem gefi eignarnámsþola hæstar bætur.

Lögmaður eignarnámsþola kveður land það sem hér um ræðir vera í nágrenni þéttbýlisskjarna í blómlegri sveit, þar sem mikil uppbygging eigi sér stað. Kauptúnið að Egilsstöðum sé í örum vexti og orðin höfuðborg og miðstöð Austurlands. Af þessum sökum sé mikil eftirspurn á öllu byggingarefni hvort sem sé til bygginga, vegna lóðargerðar, eða vegaframkvæmda. Þessi byggðakjarni hafi því gert það að verkum, að verðlag á byggingarefni hafi mjög hækkað vegna aukinnar eftirspurnar og sé í mun hærra verði en á höfuðborgarsvæðinu við Reykjavík. Þá er því haldið fram að þarna standi fyrir dyrum miklar framkvæmdir vegna flugvallargerðar þ.e. alþjóðaflugvallar á móti flugvellinum í Keflavík. Efni úr landi eignarnámsþola hafi mjög komið til álita þar sem byggingarefni, enda sé umrætt efni er tekið hafi verið til vegagerðar of verðmætt og of dýrt efni til vegagerðar vegna gæða þess og eftirspurnar. Komi hér því reglan um framboð og eftirspurn mjög til álita. Þá er sagt að viðkomandi land sé mjög verðmætt bæði vegna fegurðar og söguhelgi sbr. fornar sagnir og tóftir af Þórsnesþingi er nú hafi verið skemmdar, svo og hafi verið þarna mannvirki, þ.e. mjög vandaður skeiðvöllur og einnig hafi verið farið að leita þangað með byggingu golfvallar. Vegna aðgerða Vegagerðarinnar sé nú land þetta ónýtt til slíkra hluta og því meira og minna orðið verðlaust fyrir eignarnámsþola, og ónýtt sem úthagi og beitiland og til mikillar óprýði.

Eignarnámsþoli telur að magn það sem eignarnemi gefi upp sé bersýnilega rangt. Hann kveðst hafa fengið sérfræðing á Austurlandi til að líta yfir svæðið og gera könnun á því og komi þá í ljós að uppgefið magn af mótaðila sé mun minna en raunverulega hafi verið tekið.

Eignarnámsþoli heldur því fram að magn efnis, sem tekið hafi verið sé 360.000 rúmm. og hafi þeirri tölu ekki verið hnekkt með lögformlegum hætti og beri því að leggja hana til grundvallar við matið. Auk þess bendir hann á gæði þessa efnis, sem hann telur ofan við það sem nota eigi til vegagerðar enda sé það eftirsótt sem byggingarefni. Verðlag á þessu efni vorið 1975 miðað við mikið magn og staðgreiðslu telur eignarnámsþoli þá hafa verið kr. 40.00 pr. rúmm. Miðað við nútímaverðlag, sem hljóti að vera það verðlag sem lagt verði til grundvallar þessu mati muni verðið vera nær tvöfalt, auk vaxta og kostnaðar. Eignarnámsþoli kveður kröfu sína um kr. 34.000.000- einvörðungu miðaða við kröfugerð á mskj. nr. 6 og áskilur hann sér rétt varðandi seinni efnistöku. Þá gerir hann kröfu um bætur vegna landspjalla o.fl. að upphæð kr. 5.200.000.-.

Varðandi málskostnað í máli þessu tekur lögmaður eignarnámsþola fram að málið hafi kostað hann 5 ferðir austur að Egilsstöðum og hafi ferðirnar samtals tekið hann 10 daga.

III.

Matsnefndin hefur farið á vettvang ásamt eignarnámsþola og umboðsmönnum aðila. Skoðuð voru ummerki á staðnum og efnisnáman, svo og var næsta nágrenni skoðað.

Aðilar hafa skýrt mál sitt skriflega og munnlega fyrir nefndinni. Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust.

Eignarnámsheimildina er að finna í 59. grein vegalaga, sbr. l. nr. 71/1963, 23/1970, 80/1973, 11/1975 og nú lög nr. 6/1977. Ber að meta til fébóta efnistöku úr Þórsnessvæði á árunum 1973 og 1974 samtals 50.396 rúmm. Er sú magntala skv. uppgjöf eignarnema 2/12 `77 og fengin með þeim hætti svo sem venja er til, að skóflumaður telur skóflur á bíla og taldir eru bílar undan skóflu, þannig að um tvöfalt eftirlit er að ræða. Magn tekins efnis á árunum 1975 til 1977, skv. sömu skýrslu er samtals 80.537 rúmm. og heildarmagn tekins efnis 130.933 rúmm. Hefur eignarnámsþoli ekki sýnt fram á, að meira efni hafi verið tekið.

Í 59. gr. vegalaga segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það, er þurfi undir vegi eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, svo og að leyfa að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur sé grjót, möl, eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar, að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.
Ekki liggur fyrir í máli þessu sérstök rannsókn á malarefninu, en það er talið nothæft í vegi. Talsvert magn mun vera til á þessum stað af efni þessu.
Matsmenn telja, að eigandi Egilsstaða II bíði tjón af töku malarefnis þessa, í skilningi 59. gr. vegalaga og hann eigi að fá það tjón bætt, þótt efnið sé tekið á óyrktu landi. Um svipað nærtækt efni er ekki að ræða og efnið hefur markaðsverð í nærliggjandi héraði. Nálægð námunnar við þéttbýlisstað orkar til hækkunar á verðmæti efnisins.

Hins vegar er eignarnemi stór efnistökuaðili og honum er skv. 3. mgr. 59. gr. vegalaga skylt að lagfæra allt jarðrask og græða upp sár, sem myndast á grónu landi við vegaframkvæmdir. Í þessu máli er gert ráð fyrir, að eignarnemi fari eftir ofangreindu lagaákvæði, en land þetta er gróið beitiland, með ívafi af lyngi, mosa og mýrargróðri.

Matsmenn hafa í höndum talsvert miklar upplýsingar um markaðsverð og möt á vegagerðarefni um allt land.

Malarnáman er alveg við þjóðveg og er því aðstaða til efnistöku mjög góð. Eignarnemi notar efnið í nágrenninu og aksturskostnaður því lítill. Gæði efnisins bæði til undirbyggingar og slitlags á vegi er talið við hæfi. Eignarnámsþoli hefur einnig annan markað fyrir efnið á Egilsstaðasvæðinu, og er það viðurkennt af eignarnema.

Með hliðsjón af því, sem rakið er hér að framan og öðru, sem matsmenn telja máli skipta, telja matsmenn hæfilegt að meta efni það, sem hér um ræðir á kr. 16.00 pr. rúmmetra, eða framangreint efnismagn 130.933 rúmm. á kr. 2.094.928.- en til frádráttar matsupphæð þessari komi þær kr. 287.946.-, sem eignarnemi greiddi eignarnámsþola í júní 1975, ásamt með venjulegum bankainnlánsvöxtum, eins og þeir hafa verið á hverjum tíma, eða til frádráttar samtals kr. 440.776.-.

Samkvæmt þessu greiði eignarnemi eignarnámsþola kr. 1.654.152.00, og er þá miðað við staðgreiðslu.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði eignarnámsþola skv. 11. gr. laga nr. 11/1973 kr. 200.000.- í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 260.000.-

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., form. nefndarinnar, Björn Bjarnarson, ráðunautur og Ögmundur Jónsson, verkfræðingur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþola Pétri Jónssyni, kr. 1.654.152.00 og kr. 200.000.00 í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 260.000.00.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum