Hoppa yfir valmynd
14. júlí 1979 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 14. júlí 1979

Ár 1979, laugardaginn 14. júlí, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Hafnarfjarðarbær
                  gegn
                  Sigurði Gíslasyni,
                  Hafnarfirði

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 13. janúar 1977 hefur Hafnarfjarðarbær farið þess á leit, að metnar verði eignarnámsbætur fyrir nokkrar landspildur, sem merktar eru með grænum tölustöfum á uppdrætti, sem fylgdi matsbeiðninni á svonefndu Hvammasvæði sunnan klaustursins í Hafnarfirði.

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 28. september 1976 var samþykkt tillaga um að landsvæði þau í Hvömmum, sem nú eru óbyggð og falla undir væntanlegt skipulag verði tekin eignarnámi, þar sem kaupstaðnum sé nauðsynlegt að eignast land þetta, vegna fyrirsjáanlegrar og eðlilegrar þróunar kaupstaðarins.

Lóð eignarnámsþolans, Sigurðar Gíslasonar er nr. 33 á uppdrættinum.

Heimild til eignarnámsins er í 27. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 og samþykki félagsmálaráðherra til eignarnámsins er útgefið 14. desember 1976.

Eignarnemi kveður heimild sína til eignarnámsins á leigulandi eignarnámsþola vera ótvíræða.

Krafa eignarnema er sú, að eignarnámsþola verði ákvarðaðar kr. 155.145.- fyrir missi leiguréttar á 10.343 m² ræktunarlóð á "Hvammasvæðinu" norðan við Reykjanesbraut í Hafnarfirði, auk þess verði ákvarðaðar hæfilegar bætur fyrir gripahús 65 m², 143 rúmm. á lóðinni og girðingar.

Verðkrafa eignarnema er byggð á því, að eignarnámsþoli hafi einungis takmörkuð leiguréttindi á ræktunarlóð þeirri, sem málið fjallar um, og bætur fyrir missi leiguréttarins eigi að miðast við að eignarnámsþola mætti segja upp með eins árs fyrirvara. Hæfilegar bætur fyrir ræktun og leiguréttindi séu kr. 15.- pr. m², eða alls kr. 155.145.- fyrir 10.343 m² landspildu.

II.

Fyrir eignarnámsþola hefur flutt mál þetta Árni Björn Birgisson, viðskiptafræðingur.

Hann kveður umbj. sinn hafa haft umráð yfir þessu landi frá 1965. Umráðin hafi hann fengið í arf eftir föður sinn, sem hafi haft þau frá 1949.

Hann segir eignarnámsþola hafa allt tíð staðið í þeirri trú, að hér væri um erfðafestuland að ræða og vísar hann til hefðarlaga um rétt sinn. Eignarnámsþoli hafi alla tíð greitt gjöld af landinu og leigulóðargjöld til Hafnarfjarðarbæjar hafi verið felld niður að hluta vegna óvissu um eignarhald á landinu.

Eignarnámsþoli hafi nýtt eignina, rekið þar fjárbúskap og haft þar hross á fóðri. Túnið hafi hann allt ræktað og girt landið og haldið húsum og girðingum við.

III.

Land þetta er merkt nr. 33 á framlögðum uppdrætti. Er hér um leiguland að ræða og segir svo í leigusamningi, sem landbúnaðarráðherra hefur afhent um landið og undirritað 13. okt. 1949, en enginn leigutaki undirritað, að landið sé leigt til ræktunar. Mjög takmörkuð réttindi fylgja landinu og stendur þannig í 1. grein:

"Landið er leigt til 10 ára frá fardögum 1949 að telja, aðeins til ræktunar, en eigi til annarrar notkunar, með nánar tilgreindum skilyrðum og takmörkunum."

Í 7. grein segir:

"Leigutaki má ekki reisa önnur mannvirki á landinu en þau, sem nauðsynleg eru til ræktunar landsins, svo sem safnþrær."

Í 8. grein segir:

"Leigutaka er algerlega óheimilt að leyfa öðrum mönnum, stofnunum eða félögum, að byggja á landinu eða gera önnur mannvirki á því."

Í 14 grein segir:

"Hvenær sem ríkir telur sig þarfnast landsins til notkunar undir opinber mannvirki ríkis, hrepps- eða bæjarfélags, svo og til sérstaks atvinnureksturs, er leigutaka skylt að láta af hendi leigurétt sinn til landsins, að nokkrum hluta þess eða því öllu. Fyrir ræktun og önnur mannvirki á þeim hluta landsins, sem ríkið vill taka, skal greiða leigutaka eftir mati úttektarmanna eða eftir mati óvilhallra, dómkvaddra manna, nema öðruvísi semjist. Opinber styrkur, sem greiddur hefur verið til mannvirkjanna, skal dreginn frá söluverðinu. Fyrir þann hluta landsins, sem óræktaður kann að vera, greiðist ekkert endurgjald. Nú krefst ríkið meira af landinu en 1/4 hluta þess, og getur þá leigutaki krafist, að landið verði allt tekið með mannvirkjum, sem á því eru, eftir mati."
Og í 15 grein segir:

"Land undir vegi er leigutaki skyldur til að láta af hendi samkvæmt ákvæðum vegalaganna."

Eignarnámsheimild eignarnema virðist ótvíræð.

Matsnefnd hefur farið á vettvang og skoðað landið og mannvirki á því.

Sátt var reynd en árangurslaust.

Um ræktun landsins og mannvirki skal tekið fram.

Landið er allt ræktað sem tún og er í góðri rækt. Landið er girt girðingu, sem ekki hefur verið vel við haldið.

Fjárhús og sambyggð hlaða eru á landinu, 65 m², 143 rúmm.

Ekki verður fallist á það, að meta beri land þetta sem erfðafestuland. Beiðni um eignarnám á landinu (leiguréttindunum) er dags. 13. janúar 1977, en var tekin fyrir í Matsnefndinni 30. maí 1978 og mætti þá umboðsmaður eignarnámsþola f.h. hans. Landið er leigt upphaflega til 10 ára frá fardögum 1949, og var því við fyrirtökuna 30. maí 1978 eitt ár eftir af síðasta tíu ára tímabili leigunnar. Má því skoða eignarnámið sem uppsögn á leiguréttindunum.

Við ákvörðun fébóta til eignarnámsþola ber því að miða við þau réttindi, sem leigusamningurinn heimilar, þ.e. nýtingu landsins til ræktunar og mannvirkjagerð í þágu slíks reksturs. Þá ber að taka tillit til þess, hvernig ráðstöfunarréttinum til annarra er háttað.

Eins og til hagar verður að telja leiguréttindum þessum lokið er rétt er samkvæmt 14. gr. leigusamningsins að meta eignarnámsþola bætur fyrir ræktun og mannvirki á landinu.

Bætur teljast hæfilega metnar þannig:

   Bætur fyrir ræktun ................................................   kr.   217.000.-
   Bætur fyrir girðingar .............................................   "   140.000.-
   Bætur fyrir byggingar (4000 kr/m3) ......................   "   572.000.-
   Afnotamissir landsins í 1 ár ..................................   "   90.000.-
      Samtals   kr.   1.019.000.-

og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir að eignarnemi greiði eignarnámsþola skv. 11. gr. laga nr. 11/1973 kr. 200.000.- í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 100.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., form. nefndarinnar, Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Hafnarfjarðarbær, greiði eignarnámsþola Sigurði Gíslasyni kr. 1.019.000.- og kr. 200.000.- í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 100.000.-.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum