Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 1979 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 2. nóvember 1979

Ár 1979, föstudaginn 2. nóvember var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Svavar Magnússon
                  bóndi, Búðardal I, Dalasýslu
                  gegn
                  Sigurborgu Karlsdóttur og
                  Ragnheiði Karlsdóttur

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 9. júní 1979 hefur Svavar Magnússon, bóndi, Búðardal I, á Skarðströnd í Dalasýslu óskað eftir því, að sá hluti ábýlisjarðar hans, sem hann ekki á, verði metinn til kaupverðs af Matsnefnd eignarnámsbóta á grundvelli gildandi laga um eignarnám.

Matsbeiðandi kveður það fullreynt af sinni hálfu, að engir samningar geti átt sér stað varðandi kaup hans á umræddum jarðarhlutum.

Í bréfi til jarðanefndar Dalasýslu skýrir matsbeiðandi svo frá, að tvær móðursystur hans, Sigurborg Karlsdóttir og Ragnheiður Karlsdóttir, eigi 3/5 hl. lands og 2/5 hl. íbúðarhúss í Búðardal I. Hann eigi 2/5 hl. lands og allar byggingar á jörðinni utan íbúðarhúss og svo til alla ræktun. Að vísu sé það vafamál hversu stór hluti systranna sé í íbúðarhúsinu vegna breytinga og endurbóta, sem á því hafi verið gerðar síðustu 35 ár.

Matsbeiðandi kveðst síðustu 2 ár hafa verið að reyna að fá hluta systranna keyptan en það hafi reynst árangurslaust.

Telur hann það alveg óviðunandi, að búa á jörðinni við þær aðstæður sem nú séu, að því er varðar eignarráð annarra en hans á jörðinni. Nefnir hann sem dæmi, að síðastliðið sumar hafi hann ekki fengið veðheimild til kaupa á dráttarvél, sem honum hafi verið nauðsynlegt að eignast og hann því orðið að fá ábyrgð sveitarsjóðs Skarðshrepps fyrir dráttarvélaláninu úr stofnlánadeild landbúnaðarins.

Í bréfi hreppsnefndar Skarðshrepps í Dalasýslu, dags. 24. okt. 1978 segir á þá leið, að hreppsnefnd Skarðshrepps sé kunnugt um það að Svavar Magnússon hafi undanfarin ár reynt að eignast alla ábýlisjörð sína. Hann hafi óskað eftir umsögn hreppsnefndarinnar varðandi þessi kaup. Hreppsnefndin segir síðan, að umræddur bóndi sé með betri bændum í sveitinni og hafi setið jörð sína með ágætum. Bóndinn hafi lýst því yfir, að fái hann ekki ábýlisjörð sína til fullrar eignar og umráða, þá muni hann neyðast til að fara af jörðinni. Segir hreppsnefndin það álit sitt, að slíkt megi ekki henda. Það sé því ákveðin skoðun hreppsnefndar Skarðshrepps, að nauðsynlegt sé fyrir hagsmuni sveitarfélagsins, að Svavar Magnússon fái ábýlisjörð sína Búðardal I til fullrar eignar.

Í bréfi Landsnáms ríkisins dags. 20. mars 1978 segir á þessa leið: "Landnámsstjórn mælir með að Svavar Magnússon fái heimild til að leysa til sín 3/5 hluta af jörðinni Búðardal I, Skarðshreppi ásamt eignarhlutum í mannvirkjum, skv. heimild í 14. grein jarðalaga nr. 65/1976, en eigendur eru Hákon Jónsson, Skarphéðinsgötu 12, Reykjavík og Ragnheiður Karlsdóttir, Þórsgötu 19, Reykjavík."

Með bréfi dags. 23. mars 1978 hefur Svavar Magnússon farið þess á leit við landbúnaðarráðherra, að hann gefi sér meðmæli þess efnis að fá keypta þá jarðarhluta í Búðardal I, Skarðshreppi, Dalasýslu, sem hann ekki eigi nú þegar, sbr. 14. gr. jarðalaga nr. 65/1976.

Í bréfi landbúnaðarráðherra dags. 9. jan. 1979 segir á þessa leið:

"Ráðuneytinu hefur borist beiðni yðar þess efnis, að yður verði heimilað skv. 14. gr. laga nr. 65, 31. maí, 1976, að leysa til yðar eignarhluta meðeigenda yðar, þeirra Sigurborgar Karlsdóttur, Skarphéðinsgötu 12 og Ragnheiðar Karlsdóttur, Þórsgötu 19 í Reykjavík, í jörðinni Búðardal I, Skarðshreppi, Dalasýslu.

Með bréfum dagsettum 20. mars 1978, og 16. ágúst 1977, hafa Landnám ríkisins og Jarðanefnd Dalasýslu mælt með því að yður verði heimilað að leysa til yðar eignarhluti meðeigenda yðar.

Hreppsnefnd Skarðshrepps hefur í bréfi dags. 24. október s.l. lýst yfir að það sé í þágu sveitarfélagsins að þér fáið Búðardal I til fullrar eignar.

Með vísan til framanskráðs og tilliti til annarra aðstæðna leyfir ráðuneytið að þér leysið til yðar eignarhluti Sigurborgar og Ragnheiðar Karlsdætra í Búðardal I, Skarðshreppi.

Náist ekki samkomulag um greiðslu andvirðis eigna þeirra, skal fara um mat og greiðslu bóta skv. lögum um framkvæmd eignarnáms nr. 11, 6. apríl 1973."

II.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta miðvikudaginn 12. september 1979. Mættir á þeim fundi voru Svavar Magnússon, Hákon Jónsson eiginmaður Sigurborgar Karlsdóttur og Ragnheiður Karlsdóttir.

Sátt var reynd með aðilum en árangurslaust.

Á þessum fundi var gerð svofelld bókun: "Aðilar eru sammála um, að Svavar hafi endurbyggt íbúðarhúsið að innan lagt í það ljós og hita, múrað það að utan og skipt um þak og glugga. Einnig hafi Svavar skipt um þak á fjósi, hækkað það undir ris og einangrað það að innan og lagt í það rafmagn.
Eignarnámsþolar óska ekki eftir að vera viðstödd þegar skoðun fer fram á landi og húsum."

Hinn 26. september 1979 var fundur í Matsnefnd eignarnámsbóta haldinn á jörðinni Búðardal I á Skarðsströnd. Á þessum fundi er færð til bókar svofelld skýrsla, er Svavar Magnússon gaf og staðfesti Magnús Halldórsson, sem einnig var mættur, þær upplýsingar sem eru í eftirfarandi skýrslu.

"Matsbeiðandi lýsir því yfir, að Búðardalur I og II séu óskiptar að öðru leyti en því er varðar tún og alla ræktun, svo og húsnæði og peningahús séu sér fyrir hvora jörð.

Tún og ræktað land Búðardals I er talið 20.7 ha. skv. fasteignamati.

Gamla túnið ca. 2 ha. er í sameign málsaðila, en alla ræktun kveðst matsbeiðandi einn eiga.

Gamlar girðingar í sameign aðilanna eru ca 200 m. og upplýsir Magnús Halldórsson að þær séu reistar 1937.

Upplýst er að ekkert malarefni sé í landinu né önnur efni og ekkert steypuefni.

Engin hlunnindi til sjávar fylgja jörðinni, sem nytjuð hafa verið undanfarin ár að nokkru gagni. Matsbeiðandi kveðst hafa búið á jörðinni síðan 1960 og aldrei haft tekjur af dúntöku né öðrum slíkum hlunnindum frá sjó. Hann kveður engin hlunnindi vera til landsins, sem nytjuð hafi verið, hvorki veiði né annað. Laxastigi hafi verið gerður í Búðardalsá fyrir 2 árum, en engar tekjur verið af ánni ennþá. Áin hafi verið leigð til 10 ára leigulaust gegn því að leigutaki gerði laxastigann og reyndi að rækta ána upp.

Engin silungsveiði fylgir jörðinni.

Engar engjar hafa verið nytjaðar til slægna.

Ekkert afréttarland sem fleiri eiga fylgir jörðinni.

Engin hús nema íbúðarhúsið og gamalt viðbyggt fjós og hlaða, byggt 1935, koma undir matið. Íbúðarhúsið er 80 m² að flatarmáli, kjallari, hæð og ris.

Íbúðarhúsið er hitað upp, bæði með rafmagni og olíukyndingu, sem matsbeiðandi hefur kostað.

Íbúðarhúsið og fjósið var nú skoðað.

Síðan fór fram venjuleg vettvangsganga, var landið skoðað, girðingar og annað, sem Matsnefndin taldi nauðsynlegt að skoða.

Matsbeiðandi telur fullræktað allt land sem ræktanlegt sé og tilheyrir Búðardal I.

Matsbeiðandi kveðst s.l. vetur hafa verið með á fóðrum 10 kýr og 10 geldneyti og 320 fjár. Hann kveðst eiga 5 hesta.

Hann kveður jörðina eina ekki geta borið nema helminginn af þessum búpeningi, enda nytjar hann einnig annað land.

Íbúðarhúsið er sagt byggt 1926.

Matsmenn taka fram, að möguleikar til áframhaldandi ræktunar séu mjög takmarkaðir og kostnaðarsamir.

Matsbeiðandi óskar ekki að taka frekara fram og lagði málið í úrskurð fyrir sitt leyti."

Ofangreind bókun var lesin fyrir eignarnámsþolum í málinu. Telur Ragnheiður að dálítil selveiði hafi áður verið á jörðinni og lítilsháttar dúntekja en kveður litla rækt hafa verið lögð við hana. Þá segir hún að Helluhólmi hafi verið í nokkur ár leigður áhugamönnum um friðun arnarins en lítið muni hafa verið sinnt um það síðastliðin tvö ár og ekkert greitt í leigu þau ár.

Ragnheiður telur að möguleikar séu á frekari ræktun í svokölluðum Kotflóa. Þá telur Ragnheiður að áin sé verðmæt hlunnindi en hún muni tilheyra 6 jörðum sem liggi að henni.

III.

Matsnefndin hefur farið á vettvang og skoðað jörðina Búðardal I og allar aðstæður á staðnum. Þá voru girðingar einnig skoðaðar og ræktun og hús.

Eignarnámsheimildina er að finna í 14. gr. l. nr. 65 frá 1976, þá hefur eignarnemi einnig fengið tilskilin leyfi til eignarnámsins eins og að framan er rakið.

Rétt þykir að taka fram eftirfarandi varðandi jörðina Búðardal I á Skarðsströnd.

Land, landgæði og ræktun.

Í máli þessu liggur fyrir landskiptagjörð dags. 9. des. 1959 milli þáverandi ábúanda og eiganda og í umboði annarra eigenda um jöfn skipti ræktanlegs lands innan ákveðinna marka en land utan þeirra er óskipt.

Þann 3. apríl 1960 gefur Bjarni F. Finnbogason f.h. nýbýlanefndar Dalasýslu umsögn um skiptingu jarðarinnar Búðardals á Skarðsströnd í Dalasýslu með tilliti til stofnunar nýbýlis á jörðinni.

Nýbýlanefnd Dalasýslu komst að þeirri niðurstöðu, að ræktunarmöguleikar væru ekki það miklir fyrir hendi, nærliggjandi, að skilyrði væru til stofnunar nýbýlis samkvæmt landnámslögum.

Skipting ræktaðs og nærtæks ræktanlegs lands telur Matsnefndin vera um 15 ha. á hvoru býli, sem þá hafa hvort um sig fengið um 4,4 ha. af gamla Búðardalstúninu.

Eftirtektarvert er eftirfarandi orðrétt ályktun nýbýlanefndar Dalasýslu:

"Með tilliti til þess, að tvíbýli hefur verið á jörðinni Búðardal á undanförnum árum, svo og að nærliggjandi virðist vera ræktanlegt land að stærð 18 ha., telur nýbýlanefnd Dalasýslu réttlætanlegt að skipta jörðinni í tvennt, jafnvel þó hún ekki fullnægi ströngustu skilyrðum lagalega séð varðandi ræktunarmöguleika.

Þó telur nýbýlanefndin að tæplega geti samþykkt á stofnun nýbýlis komið til greina, en bendir á, sem hugsanlegan möguleika framlag til bæjarflutnings."

Túnstærð Búðardals I er nú talin 20.7 ha. og Búðardals II 14.9 ha.

Í vettvangsgöngu gat Svavar þess, að hann hefði tekið land til ræktunar úr óskiptu landi jarðanna og bæri honum á einn eða annan hátt að standa skil á því við framhaldslandskipti milli jarðanna. Þá upplýsti hann ennfremur að hann hefði á leigu 8 ha. túns frá Búðardal II og 8 ha. frá Tindum, sem væri eyðijörð.

Samkvæmt jarðskrá 1977/78 eru Tindar sagðir notaðir að hluta af Svavari Magnússyni, Karli Péturssyni og fleirum.

Af því ræktaða landi, sem Svavar hefur nú eru 56% frá Búðardal I en 44% frá öðrum jörðum.

Það er samdóma álit Matsnefndar eignarnámsbóta, að um nærtækt gott ræktunarland sé ekki að ræða á Búðardalsjörðunum. Að vísu er nokkuð óræktað af nærtækum grýttum gróðursnauðum melum, land sem er mjög kostnaðarsamt í ræktun, og líkur eru fyrir að ekki verði teknir til ræktunar fyrr en annað ræktanlegt land þrýtur.

Fjarliggjandi mýrlendi er tiltækt til ræktunar en hafa ber í huga þá erfiðleika, sem eru á vörslu og nýtingu slíks lands. Þá kemur ennfremur til athugunar réttur sá sem Búðardalur II á til úrskiptingar á ræktanlegu landi.

Sumarbeitiland Búðardals er nokkuð víðlent og hluti þess grösugur og nýtist vel í blönduðum búskap.

Ef sauðfjárbúskapur væri eingöngu stundaður á jörðunum væri óvíst hvort beitilandið þyldi það álag. Eins og er nýtur Búðardalur góðs af eyðibýlunum hvað sumarbeitilönd áhrærir.

Bústofn á Búðardal I hefur verið skv. jarðaskrá 1976/77 510 ærgildi en 1977/78 562 ærgildi. (sauðfé 312, kýr 10, geldneyti 5, hross 5)

Hús.

Af þeim gögnum sem nefndin hefur aflað og þeim umsögnum sem þar eru má nokkurn veginn gera sér grein fyrir því ástandi, sem húsin voru í þegar til endurbyggingar kom.

Í því sambandi vaknar sú spurning, hvort það hafi raunverulega svarað kostnaði að nota þá umgjörð sem notuð var við endurbyggingu.

Neðanmáls á byggingarvottorði Bjarna Óskarssonar til landnámsstjóra er innfært efniskaup 150 þúsund, vinna svipuð. Eftir því ætti endurbygging íbúðarhússins að hafa kostað kr. 300.000.- á árunum 1961-1964.

Hlunnindi: Öll hlunnindi óskipt sameign Búðardals I og II
a. Dúntekja og selveiði

Í fasteignamati því sem tók gildi árið 1942 eru til hlunninda í Búðardal talin mótak, dúntekja og selveiði.

Sá háttur mun hafa verið hafður á, að Búðardalsbændur stunduðu ekki sjálfir sjávarhlunnindin, en fengu aðra til þess uppá hlutaskipti og mun þar helmingareglan hafa ráðið.

Fyrir nokkrum árum settist örn að í aðal varplandinu með þeim afleiðingum að dúntaka hefur ekki reynst arðbær og hefur því fallið niður og sama gegnir með selveiðina. Varplandið var í nokkur ár leigt Birni Guðbrandssyni, lækni, sem er áhugamaður um verndun arnarins. Leigugjaldið hefur verið sagt kr. 40.000.- á ári meðan það var. Leiga þessi hefur nú fallið niður og engar tekjur eru nú sem stendur af þessum hlunnindum. Örninn er nú alfriðaður og á meðan svo er, er erfitt fyrir landeigendur að nýta þau landsvæði sem hann hefur tekið sér bólfestu í og nágrenni þeirra.

Í fasteignamati eru hlunnindin metin á kr. 105.000.- sem er tífaldur ársarður af áætluðum tekjum sem skv. því ættu að vera kr. 10.500.-.

b. Lax og silungsveiði

Allt fram til ársins 1978 var engin veiði í Búðardalsá fyrir landi Búðardalsjarðanna. Þær fyrirstöður voru í ánni er hindruðu fiskgöngu um hana. Úr þessu hefur nú verið bætt og í ágústmánuði 1978 er talið að fyrsti fiskurinn hafi getað gengið óhindrað upp ána.

Þann 29. ágúst 1973 staðfestir landbúnaðarráðherra samþykkt fyrir Veiðifélag Búðardalsár, Skarðsströnd, sem nær yfir þær jarðir sem aðild eiga að vatnasvæði árinnar.

Það mun hafa verið árið 1971, sem veruleg hreyfing komst á að gera Búðardalsá fiskgenga er aðilar á vatnasvæði árinnar leigðu veiðifélaginu ána til 10 ára með því skilyrði að áin yrði gerð fiskgeng. Á þessum tíma hefur félagið fengið leyfi til að fresta framkvæmdum um eitt ár á leigutímabilinu, sem þá framlengdist tilsvarandi og rennur út árið 1982.

Á árinu 1978 veiddust 100 laxar í Búðardalsá skv. skýrslum Veiðimálastofnunarinnar, þar af er talið að 1-3 laxar hafi veiðst fyrir ofan brú.

Jónas Gestsson, útibússtjóri Landsbankans í Ólafsvík, upplýsir að á árinu 1979 hafi veiðst milli 140-150 laxar í Búðardalsá, þar af muni 10-15 laxar hafa veiðst í Lambatangafljóti, sem er fyrir landi Búðardals. Veiðiskýrsla fyrir 1979 er ekki fullfrágengin.

Framkvæmdin við að gera Búðardalsá fiskgenga hefur tekist og Veiðimálanefnd hefur viðurkennt stofnkostnað að upphæð kr. 9,5 milljónir, en telur þó að fjármagnskostnaður geti verið orðinn einar 12 milljón krónur þar sem vextir og ræktunarkostnaður er ekki með útreikningum.

Vegna þess hve stutt er umliðið síðan að fiskur fór að ganga um ána, þá hefur engin arðskrá verið samin og ekkert uppgjör vegna stofnframkvæmda verið gert.

Matsnefndin álítur að fresta beri mati á laxveiðihlunnindum þar til þessi mál liggi ljósara fyrir og metur því ekki þennan þátt málsins.

Búseta í Skarðshreppi.

Ef athugað er hvaða þróun hefur orðið á búsetu á jörðum í Skarðshreppi kemur í ljós að í byggð og með búsetu eru eftirtaldar jarðar: Á, Búðardalur I, Búðardalur II, Fagridalur Ytri, Geirmundarstaðir, Klifmýri, Skarð I og Skarð II. Eyðijarðir eru: Barmur frá 1961, Heinaberg frá 1972, Hvalgrafir frá 1967, Kross frá 1972, Nýp frá 1964, Reynikelda frá 1965 og Tindar frá 1975.

Þá hafa Geirmundarstaðir verið auglýstir til sölu á haustmánuðum 1979.

Þá má ennfremur benda á að á árinu 1976/77 er bústofn Búðardals II talinn 218 ærgildi en er árið 1977/78 37 ærgildi.

Búsetan í sveitum landsins hefur áhrif á margan hátt og ef að dregur úr byggð frekar en orðið er í Skarðshreppi má búast við að til auðnar komi.

Þá hefur Matsnefndin aflað sér upplýsinga um nýlegar sölur á jörðinni Þorbergsstöðum í Laxárdal, Dalasýslu og hluta úr jörðunum Nýp og Heinabergi á Skarðsströnd.

Heildarfasteignamat jarðarinnar Búðardalur I er kr. 14.624.000.- og sundurliðast þannig:

   Landverð ................   kr.   628.000.-
   Tún 20.7 ha. ...........   "   2.100.000.-
   Íbúðarhús ...............   "   2.580.000.-
   Útihús ....................   "   9.211.000.-
   Hlunnindi ...............   "   105.000.-

Þegar virtar eru framangreindar upplýsingar sem raktar hafa verið um jörð þessa og áhrif á matið og að athuguðum öllum málavöxtum, þykja bætur til eignarnámsþolanna Sigurborgar Karlsdóttur og Ragnheiðar Karlsdóttur hæfilega ákveðnar þannig:

Stærð ræktunarhæfs gróins lands á Búðardal I og II áætlar Matsnefndin alls 60 ha. Þar í er innifalin stærð þess lands sem ræktað hefur verið á jörðunum.

Land þetta telur Matsnefndin hæfilegt að meta á kr. 4.000.000.-. Gróið beitiland er metið á sama hátt á kr. 6.250.000.-.

Annað lítt gróið land til beitar metur nefndin á kr. 600.000.-.

Heildargrunnverð lands Búðardalsjarða er þannig metið á samtals kr. 11.350.000.-, sem skiptist til jafns milli jarðanna með kr. 5.675.000.- á jörð.

Hlutur eignarnámsþola í landverði verður því kr. 3.405.000.-.

Bætur til eignarnámsþola verða þá sem hér segir:

1)   Grunnverð ræktaðs og ræktanlegs lands       kr.   1.350.000.-
2)   Beitiland ...............................................................   "   1.875.000.-
3)   Annað land ............................................................   "   180.000.-
4)   Bætur fyrir ræktun á gömlu túni ...........................   "   475.000.-
5)   Bætur vegna húsa .................................................   "   400.000.-
7)   Bætur vegna hlunninda .........................................   "   60.000.-
      Bætur alls   kr.   4.340.000.-

og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 300.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Svavar Magnússon, greiði eignarnámsþolunum Sigurborgu Karlsdóttur og Ragnheiði Karlsdóttur kr. 4.340.000.-

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 300.000.-.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum