Hoppa yfir valmynd
25. mars 1980 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 25. mars 1980

Ár 1980, þriðjudaginn 25. mars, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Jóhann H. Níelsson, hrl.
                  f.h. Eyþórs Stefánssonar o.fl.,
                  eigenda Eyvindarstaða o.fl.,
                  Álftanesi
                  gegn
                  Vegagerð ríkisins

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að á árinu 1978 hófst Vegagerð ríkisins handa um endurbætur og breikkun á þjóðvegi nr. 416 í Bessastaðahreppi og er hér um að ræða hringveg um Álftanes. Kaflinn sem framkvæmdir þessar tóku til er sagður hafa náð frá Bessastaðaafleggjaranum að Landakotsafleggjaranum.

Við þessa framkvæmdir breikkaði vegurinn töluvert og voru girðingar færðar út.

Sagt er að Vegagerð ríkisins hafi yfirtekið þennan vegarkafla af sýsluvegarsjóði Gullbringusýslu árið 1965 og vegurinn síðan verið auðkenndur, sem þjóðvegur nr. 416.

Segir í matsbeiðni dags. 9/7 `79 að ekki hafi náðst samkomulag milli landeigenda og forráðamanna Vegagerðar ríkisins um bætur fyrir hið eignarnumda land og sé því eigendum landsins, með hliðsjón af 6. gr. sbr. 5. gr., 4. gr. og 2. gr. l. nr. 11/1974, nauðsynlegt að fá úrskurð Matsnefndar eignarnámsbóta um eignarnámsbætur.

Í matsbeiðni er talið að hið eignarnumda land sé að stærð 7229,5 m² og skiptist þannig:

1.   Sameign Eyvindarstaða ...............................................   2890   m²
2.   Akurgerði ....................................................................   1618,5   "
3.   Lóð úr Eyvindarholti ...................................................   549   "
4.   Norður-Eyvindarstaðir .................................................   2052   "
5.   Sumarbústaðalóð úr landi Eyvindarstaða ....................   120   "
      Samtals    7229,5   m²

Undir rekstri málsins hafa aðilar orðið sammála um að stærð hins eignarnumda lands sé 5955 m².

Eftirgreindir aðilar eru sagðir eigendur hins eignarnumda lands:

1.   Eyþór Stefánsson, Akurgerði, eigandi að Akurgerði og 1/5 hluta sameignar Eyvindarstaða.

2.   Ólafur Stefánsson, Tjörn, eigandi að 1/5 hluta sameignar Eyvindarstaða.

3.   Gunnar Stefánsson, Norður-Eyvindarstöðum, eigandi að Norður-Eyvindarstöðum og 1/5 hluta sameignar Eyvindarstaða.

4.   Haraldur Stefánsson, Háteigsvegi 48, eigandi að sumarbústaðalóð og 1/5 hluta sameignar Eyvindarstaða.

5.   Jóhanna Stefánsdóttir, Eyvindarholti, eigandi að 1/5 hluta sameignar Eyvindarstaða.

6.   Ármann Pétursson, Eyvindarholti, eigandi að lóð úr landi Eyvindarholts.

Í greinargerð matsbeiðanda er sagt, að ágreiningur í máli þessu sé fyrst og fremst um verð en auk þess greini aðila á um breidd vegarins fyrir framkvæmdina. Telja matsbeiðendur veginn hafa verið 9 m. breiðan en segja að eignarnemi telji hann hafa verið 12 m. breiðan.

II.

Vegagerð ríkisins gerir þær kröfur, að landeigendum verði metnar bætur skv. 10. kafla vegalaga nr. 6/1977 sbr. 2. og 10. gr. laga nr. 11/1973.

Gerir eignarnemi þá kröfu, að til grundvallar mati sínu hafi matsmenn orðsendingu nr. 3/1979 um landbætur, en til frádráttar bótum komi þær hagsbætur, bæði almennar og sérgreindar, sem eignarnámsþolum hlotnist við vegagerðina.

Eignarnemi skýrir svo frá, að á árinu 1978 hafi Álftanesvegur frá Bessastaðavegi að afleggjara að Landakoti, um 1 km. leið, verið lagður bundnu slitlagi. Við framkvæmd þessa hafi vegurinn breikkað eilítið og orðið að færa út girðingar, þar sem þær hafi verið fyrir, um ca. 3 m. til hvorrar handar.

Hafi vegsvæðið breikkað við þetta úr ca. 9-10 m. í ca. 15-16 m., og hafi nú orðið um það samkomulag milli Vegagerðarinnar og landeigenda, að miða við að samtals 5955 m² hafi fallið undir vegsvæðið við breikkun vegarins og færslu girðinganna.

Með bréfi dags. 20.4.1979 hafi landeigendur krafist kr. 2.812.- fyrir hvern m², sem undir veginn hafi farið, eða samtals kr. 16.745.460.- fyrir landið, er farið hafi undir breikkunina.

Eignarnemi hafi ekki talið sér fært að ganga að þessari kröfu og boðið bætur í samræmi við orðsendingu nr. 3/1979, enda hafi farið fram landbótauppgjör á Álftanesi á árinu 1978 í samræmi við þágildandi orðsendingu um landbætur, m.a. við einn af þeim landeigendum, sem að þessu máli standa, sbr. mskj. nr. 11. Landeigendur hafi ekki talið sig geta gengið að þessu tilboði.

Til stuðnings kröfu sinni um að einungis skuli bæta ræktun þess lands, sem farið hafi undir breikkað vegsvæði Álftanesvegar bendir eignarnemi á eftirfarandi: Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. vegalaga nr. 6/1977 megi ekki staðsetja byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki, föst eða laus nær vegi en 15 m. frá miðlínu þjóðbrauta og 30 m. frá miðlínu stofnbrauta, nema leyfi vegamálastjóra komi til.

Álftanesvegur sé þjóðbraut og hafi einnig verið það áður en til breikkunar hans kom. Hafi því verið og sé óheimilt að staðsetja mannvirki nær miðlínu hans en 15 m., þ.e. 30 m. svæði hafi verið og sé kvaðabundið og ekki heimilt að ráðstafa því til mannvirkjagerðar. Komi því ekki til álita að meta verðmæti þessa lands til jafns við valið byggingarland og breytist því aðstaða landeigenda til nýtingar landsins, þ.e. þessa 30 m. svæðis, í engu við breikkun vegsvæðisins. Þeirra tjón sé eingöngu bundið við það, að missa ræktað land undir vegsvæðið og því beri að miða bætur við það.

Eignarnemi tekur fram, að lega Álftanesvegar sé í samræmi við skipulagsuppdrátt og eigendur lands meðfram Álftanesvegi hafi óskað eftir því, að hluta þess verði breytt í byggingarlóðir.

Samkvæmt 30. gr. skipulagslaga beri landeigendum þegar svona háttar til, að láta endurgjaldslaust af hendi til almenningsþarfa, t.d. gatna, leikvalla o.s.frv., sem svari 1/3 af heildarflatarmáli þeirra byggingalóða sem heimilaðar séu sem slíkar.

Staðfest sé í mörgum matsgerðum, að ákvæði þetta nái einnig til lands undir þjóðvegi.

Samkvæmt þessu og með vísan til 30. gr. skipulagslaga telur Vegagerð ríkisins að landeigendur við Álftanesveg eigi að leggja endurgjaldslaust til land undir þann veg, sem sé forsenda þeirrar byggðar, sem þar er að rísa og sem gerir þeim kleift að selja þar byggingalóðir á háu verði.

Eignarnemi segir að 16. febr. 1978 hafi verið greiddar bætur fyrir land undir nýjan veg frá Álftanesvegi heim að Jörfa í Bessastaðahreppi í samræmi við þágildandi orðsendingu um landbætur nr. 9/1977, sbr. mskj. nr. 11. Telur eignarnemi að þetta bótauppgjör hafi verulegt fordæmisgildi fyrir það mál sem hér um ræðir.

Eignarnemi segir að ef til áliti koma að bæta það land, sem um ræðir í þessu máli, hærra verði en að framan greinir þá krefst hann þess, að til frádráttar bótum komi þær hagsbætur, bæði almennar og sérgreindar, sem eignarnámsþolum hlotnist við vegagerðina.

Sé það meginregla í íslenskum bótarétti, að tjónþoli skuli fá tjón sitt bætt en ekki meira. Um þetta segi í 61. gr. vegalaga nr. 6/1977, að við mat beri að taka sérstakt tillit til þess ef ætla megi að land hækki í verði við vegagerð. Vísar eignarnemi einnig um þetta til skoðana fræðimanna. Eignarnemi telur það vafalaust, að með lagningu bundins slitlags á Álftanesveg hafi land þar um slóðir hækkað í verði.

III.

Matsnefndin hefur farið á vettvang ásamt umboðsmönnum aðila og nokkrum eigendum. Var vegurinn skoðaður svo og nágrenni hans og svæðið beggja vegna við veginn. Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust. Aðilar hafa skýrt mál sitt fyrir nefndinni bæði í skriflegum greinargerðum og munnlega.

Eignarnámsheimildina er að finna í 59. gr. vegalaga nr. 80/1973 sbr. lög nr. 66/1975 og l. nr. 6/1977. Viðfangsefni Matsnefndar í þessu máli er að meta til fébóta landsvæði það er fór undir breikkun á þjóðvegi nr. 416 í Bessastaðahreppi á Álftanesi, en um stærð þess svæðis er nú ekki ágreiningur.

Í 59. gr. vegalaga segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það er þurfi undir vegi eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, svo og að leyfa að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur sé grjót, möl eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skulu því aðeins greiddar, að þeirra sé krafist og álitið verði, að landeigandi hafi beðið skaða við það.

Eignarnemi hefur í máli þessu bent á það ákvæði 69. gr. vegalaga, að ekki megi staðsetja byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki, föst eða laus, nær vegi 15 m. frá miðlínu þjóðbrauta og 30 m. frá miðlínu stofnbrauta, nema leyfi vegamálastjóra komi til. Ekki er ágreiningur um það, að Álftanesvegur sé þjóðbraut og hafi verið það áður en til breikkunar hans kom. Samkvæmt því gildir áður nefnt lagaákvæði um staðsetningu mannvirkja við Álftanesveg og svæði það, sem eignarnemi hefur tekið til sinna nota er því kvaðabundið og ekki heimilt að ráðstafa því til mannvirkjagerðar.

Álftanesvegur mun vera í samræmi við skipulagsuppdrátt og eigendur lands á þessu svæði hafa ráðstafað hluta þess í byggingarlóðir og er töluverð byggð nú þegar risin upp á þessu svæði.

Samkvæmt almennum reglum og viðtekinni skýringu á 30. gr. skipulagslaga ber landeigendum, þegar svona háttar til, að láta endurgjaldslaust af hendi til almenningsþarfa, sem svarar 1/3 af heildarflatarmáli þeirra lóða, sem teknar hafa verið eignarnámi.

Þá mun og reynslan undanfarið hafa verið sú, að eftirsókn eftir lóðum undir íbúðarhús og aðrar byggingar hafi mjög aukist við það, ef lagt hefur verið bundið slitlag á aðliggjandi vegi.

Hafa byggingarlóðir á líkum svæðum hækkað í verði vegna svona framkvæmda.

Aðilar eru sammála um að stærð hins eignarnumda lands í þessu máli sé 5955 m², en land þetta var allt ræktað sem tún og sundurliðast þannig:

1.   Sameign Eyvindarstaða ...............................................   2326   m²
2.   Akurgerði ....................................................................   1499   "
3.   Lóð úr Eyvindarholti ...................................................   439   "
4.   Norður-Eyvindarstaðir .................................................   1587   "
5.   Sumarbústaðalóð úr landi Eyvindarst. .........................   104   "
      Samtals ..   5955   m²

Land þetta hefur verið ræktað og nýtt undanfarið sem landbúnaðarland. Mannvirki hafa ekki staðið á landinu.

Landsvæði á þessum stað er skipulagsskylt, og deiliskipulagning hefur farið fram á hluta af svæðinu og töluverð byggð risin þarna í nágrenninu.

Í bréfum Zophoníasar Pálssonar, skipulagsstjóra dags. 21. febr. 1978 og 1. mars 1978 til hreppsnefndaroddvita Bessastaðahrepps, þar sem hann gerir grein fyrir deiliskipulagi á allstóru svæði, segir svo: "Samtals eru því rými fyrir 203 einbýlishús í landi Landakots og Eyvindarstaða, en allt þetta svæði er fyrirtaks land til bygginga."

Þykir rétt með vísan til legu landsins og allra aðstæðna að miða við það, að framtíðarnýting lands á þessum stað verði sú, að á því verði reistar byggingar, svo sem eignarnámsþolar hafa haldið fram. Með vísan til almennra reglna um ákvörðun eignarnámsbóta og samkvæmt meginreglum 29. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 þykir rétt að leggja þá nýtingu landsins til grundvallar matsbótum. Jafnframt er tekið tillit til þess, að allt landið hefur ekki enn verið skipulagt. Þá er og höfð hliðsjón af kvöðinni samkvæmt ákvæðum 69. greinar vegalaga, svo og ákvæðum 30. greinar skipulagslaga, sem áður er getið. Matsnefndin hefur ekki möguleika eða gögn til þess að reikna verðhækkun á öðru landi vegna þessarar vegalagningar inn í þetta mat.

Með hliðsjón af því, sem að framan er rakið, gögnum málsins og öðrum upplýsingum, sem nefndin hefur aflað, verðbreytingum og öðru því, sem nefndin telur máli skipta, telur Matsnefndin hæfilegt mat fyrir land eignarnámsþolanna vera kr. 700.- fyrir hvern fermetra landsins. Bætur verða því sem hér segir:

Eignarnámsþolar   Bætur vegna sameignar   Bætur v. séreignar   Bætur alls
      kr.   kr.   kr.

1.   Eyþór Stefánsson   325.640   1.049.300   1.374.940
2.   Ólafur E. Stefánsson   325.640   325.640
3.   Gunnar Stefánsson   325.640   1.110.900   1.436.540
4.   Haraldur Stefánsson   325.640   72.800   398.440
5.   Jóhanna Stefánsdóttir   325.640   325.640
6.   Ármann Pétursson         307.300   307.300
      Kr.   1.628.200   Kr.   2.540.300   Kr.   4.168.500

Samkvæmt þessu verða heildarbætur til eignarnámsþola kr. 4.168.500.- og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþolum kr. 150.000.- í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 300.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð:

Eignarnemi Vegagerð ríkisins, greiði eftirtöldum eignarnámsþolum fébætur, sem hér segir:

   Eyþóri Stefánssyni   kr.   1.374.940
   Ólafi E. Stefánssyni   "   325.640
   Gunnari Stefánssyni   "   1.436.540
   Haraldi Stefánssyni   "   398.440
   Jóhönnu Stefánsdóttur   "   325.640
   Ármanni Péturssyni   "   307.300

Eignarnemi greiði eignarnámsþolum heildarkostnað vegna málsins, kr. 150.000.-.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 300.000.-.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum