Hoppa yfir valmynd
14. apríl 1980 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 14. apríl 1980

Ár 1980, mánudaginn 14. apríl, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Bæjarstjórn Seltjarnarness
                  gegn
                  Ísbirninum h/f

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 24. febr. 1980 hefur Benedikt Sveinsson, hrl. f.h. bæjarstjórnar Seltjarnarness óskað eftir því að fram fari eignarnámsmat á landsvæði er liggur að Suðurströnd á Seltjarnarnesi, áður lóðunum nr. 18 og 20 við Selbraut og 9 og 11 við Bakkabraut.

Skýrir matsbeiðandi svo frá, að ákveðið hafi verið að taka umrætt landsvæði til opinberra þarfa, en fyrirhugað sé að byggja á landinu framtíðar dagheimili bæjarins ásamt leiksvæðum.

Eigandi þessa landsvæðis er talinn Ísbjörninn h.f. Varðandi eignarnámsheimild sína vísar eignarnemi til 28. gr. skipulagslaga nr. 19/1964.

Eignarnemi skýrir svo frá, að samkvæmt skipulagi, staðfestu 1973, eigi landsvæði er liggi að Suðurströnd á Seltjarnarnesi, eign Ísbjarnarins h.f., áður lóðirnar nr. 18 og 20 við Selbraut og 9 og 11 við Bakkabraut, að fara undir opinberar byggingar.

Nú hafi þessu verið breytt og ákveðið að taka þetta svæði til opinberra þarfa og í því framhaldi hafi bæjarstjóri ritað eignarnámsþola bréf 25. sept. 1978 og óskað viðræðna um málið.

Jafnframt hafi í bréfi bæjarstjórans verið haldið fram, að óuppgert væri framlag Ísbjarnarins h.f. til almenningsþarfa, skv. 30. gr. skipulagslaga, vegna landsvæðis í eigu félagsins. Landsvæði þetta hafi eignarnámsþoli á sínum tíma keypt af Kveldúlfi h.f. úr Melshúsatúni og hafi það þá verið um 6894 m². Áður en til þessa máls hafi komið hafi eignarnámsþoli verið búinn að nýta af landinu 4 lóðir samtals að stærð 3894 m².

Þegar leyfðar hafi verið byggingar á þeim lóðum hafi verið gerður fyrirvari af hálfu Seltjarnarnesbæjar um að óuppgert væri framlag til almenningsþarfa, þ.e. 1/3 hluti af landinu.

Hafi kröfum Seltjarnarnesbæjar að þessu leyti verið hafnað og orðið að samkomulagi að bæjarstjóri óskaði eignarnámsmats á landi því er hér um ræðir. Heldur eignarnemi því fram, að við ákvörðun bóta fyrir landið verði að taka með í reikninginn að eignarnámsþoli eigi eftir að standa eignarnema skil á landi til almenningsþarfa skv. 30. gr. skipulagslaga, þ.e.a.s., 2262 m².

II.

Mál þetta hefur flutt fyrir eignarnámsþola Benedikt Blöndal, hrl. Gerir eignarnámsþoli þær kröfur, að lóðir þær sem eignarnámi séu teknar í þessu máli verði metnar til verðs í samræmi við gangverð á lóðum undir einbýlishús á Seltjarnarnesi. Þá gerir hann kröfu um málskostnað úr hendi eignarnema að skaðlausu skv. 5. gr. gjaldskrár L.M.F.Í.

Eignarnámsþoli segir að mál þetta snúist um eignarnám fjögurra lóða undir einbýlishús, sem eignarnámsþoli hafi keypt af Kveldúlfi h.f. í október 1958. Lóðirnar hafi þá verið nr. 9 og 11 við Bakkabraut og 18 og 20 við Selbraut. Hinn 30. nóv. 1956 hafi hreppsnefnd Seltjarnarneshrepps samþykkt skipulagsuppdrátt fyrir svokallað Melshúsatún á Seltjarnarnesi, svæði sem takmarkist af Bakkabraut, Nesvegi, Skerjabraut og Skerjafirði. Þá hafi Kveldúlfur h.f. átt þarna land og hafi nú byrjað að selja lóðir úr þessu landi sínu, þ.á m. til eignarnámsþola, sem hafi keypt 8 lóðir andspænis frystihúsi sínu. Seltjarnarneshreppur hafi fallið frá forkaupsrétti.

Skipulagssamþykktin 1956 hafi verið gerð í samræmi við þágildandi skipulagslög nr. 55/1921 og allt svæðið ætlað undir íbúðarhús. Hafi þáverandi landeigandi látið af hendi án endurgjalds land undir götur á svæðinu, umfram lagaskyldu en með samkomulagi við hreppsnefndina.

Svo hafi það skeð 26. febr. 1973, að staðfestur hafi verið nýr skipulagsuppdráttur um skipulag Seltjarnarness. Á því skipulagi sé sett, sem óráðstafað svæði, lóðir þær sem um ræðir í þessu máli. Á undan þessu kveðst eignarnámsþoli hafa áskilið sér allan rétt vegna þessara skipulagsbreytinga, sbr. mskj. nr. 7.

Næst hafi það skeð að 25. sept. 1978 hafi eignarnemi tilkynnt eignarnámsþola, að ákveðið hefði verið að taka þessar lóðir hans til opinberra þarfa fyrir dagheimili og leiksvæði. Jafnframt hafi eignarnemi haldið því fram, að eignarnámsþoli ætti, skv. 30. gr. skipulagslaga, að leggja fram land til almenningsþarfa sem svaraði 1/3 af samanlagðri stærð þeirra lóða, sem hann hafði keypt af Kveldúlfi h.f. Hafi eignarnemi talið framlag þetta eiga að vera 2.298 m² og þyrfti hann því ekki að kaupa nema 1002 m² lands af eignarnámsþola.

Eignarnámsþoli kveðst hafa mótmælt þessari kröfugerð algerlega með bréfi 5. okt. 1978, mskj. 9. Jafnframt hafi eignarnámsþoli lýst því yfir að hann væri reiðubúinn til samninga um sölu lóðanna gegn greiðslu gangverðs fyrir þær.

Eignarnámsþoli leitaði álits Páls Líndals, lögmanns, um þetta efni og er umsögn hans lögð fram í málinu, mskj. nr. 11.

Eignarnámsþoli hefur ekki véfengt eignarnámsheimild eignarnema á landi þessu.

Hins vegar mótmælir eignarnámsþoli því eindregið, að honum beri nú að leggja fram land skv. 30. gr. skipulagslaga.

Eignarnámsþoli kveðst hafa keypt á sínum tíma byggingalóðir undir einbýlishús skv. þágildandi skipulagi, er hafi verið í samræmi við þágildandi lög. Nú vilji eignarnemi láta skipulagslögin frá 1964 verka afturfyrir sig og beita þeim til að ónýta eigin gerninga fyrir gildistöku þeirra. Telur eignarnámsþoli slíka afturvirkni með öllu óheimila og mótmælir hann henni algerlega. Telur hann að eignarnemi ætli sér nú að fá tvisvar ókeypis land til opinberra þarfa, því við gerð skipulagsins 1956 hafi Kveldúlfur h/f látið af hendi ókeypis land undir götur. Einnig líti svo út, sem eignarnemi vilji beita eignarnámsþola öðrum lögum en aðra lóðareigendur á Melshúsatúni, því ekki sé til þess vitað að aðrir hafi verið krafðir framlags skv. 30. gr. skipulagslaga eða látið lóðir af hendi skv. þeirri lagagrein.

Eignarnámsþoli segir, að ef eignarnemi eigi kröfurétt skv. 30. gr. núgildandi skipulagslaga hljóti sú krafa að beinast að þeim sem landið hafi átt, áður en það var skipulagt.

Eignarnámsþoli kveðst á sínum tíma hafa keypt lóðir þessar vegna nálægðar þeirra við frystihús sitt. Þegar svo ákveðið hafi verið að reisa nýtt frystihús í Örfirisey þá taldi hann sig ekki lengur hafa hagsmuni af því að ráða yfir lóðum þarna og hafi selt 4 lóðir á útmánuðum 1977 fyrir samtals kr. 15.400.000.- og jafnframt greitt gatnagerðargjald kr. 1.190.900.-. Þær lóðir sem mál þetta fjallar um hafi þá ekki verið unnt að selja vegna aðgerða eignarnema. Telur eignarnámsþoli, að þetta eigi að hafa í huga við ákvörðun bóta svo og verðlagsbreytingar, sem síðar hafa orðið. Krefst hann þess, eins og áður segir, að bætur verði ákveðnar í samræmi við gangverð á einbýlishúsalóðum á Seltjarnarnesi.

III.

Matsnefndin hefur farið á vettvang ásamt umboðsmönnum aðila og skoðað land þetta og nágrenni þess. Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust. Aðilar hafa skýrt mál sitt fyrir nefndinni, bæði með skriflegum greinargerðum og munnlega. Eignarnemi hefur um eignarnámsheimild sína vísað til 28. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 og hefur eignarnámsheimild hans ekki verið véfengd í málinu.

Á fundi Matsnefndar með lögmönnum aðila 10. apríl 1980, benti nefndin á, að ekki væri samræmi í skjölum málsins á uppgefnum tölum um landstærð, og óskaði eftir því, að aðilar gæfu upp hina raunverulegu stærð, sem til mats ætti að koma.

Lögmenn urðu ásáttir um að sú landsstærð væri 3123 m².

Viðfangsefni Matsnefndar í þessu máli er því að meta til fébóta landsvæði að stærð 3123 m², er liggur að Suðurströnd á Seltjarnarnesi.

Deiliskipulagning á landi þessu var gerð 1956, en tölur skv. því skipulagi um landstærðir eru sagðar hafa verið áætlaðar. Á skipulagsuppdrættinum frá 1956 var gert ráð fyrir byggingum á þessu landsvæði. Hinn 26. febr. 1973 var staðfestur nýr skipulagsuppdráttur um skipulag á Seltjarnarnesi enda þá búið að mæla út landið og ákveða lóðarstærðir.

Með breytingunni 1973, var svæði þessu breytt í óráðstafað svæði, en nú lýsir eignarnemi því yfir, að fyrirhugað sé að byggja á landi þessu framtíðar dagheimili bæjarins, ásamt leiksvæðum.

Land þetta er allt ræktað tún, en hefur ekki verið nýtt að undanförnu og á því hafa ekki verið reist mannvirki.

Land þetta er skipulagsskylt og deiliskipulagning, hefur farið fram á svæðinu. Yfirlýst er í máli þessu að reisa eigi á landinu byggingar. Verður því ekki talið, að landsvæði þessu sé óráðstafað skipulagslega séð.

Samkvæmt því, og með vísan til legu landsins og allra aðstæðna, verður að miða við það, að framtíðarnýting þess verði í samræmi við það, sem að framan segir. Ber því með vísan til almennra reglna um ákvörðun eignarnámsbóta og með hliðsjón af meginreglum 29. gr. skipulagslaga nr. 19/1964, að leggja þessa nýtingu landsins til grundvallar matsbótum.

Upplýst er í málinu, að á sínum tíma hafi Kveldúlfur h/f látið ókeypis land að stærð 2.31 ha. undir götur, stíga, opin svæði o.þ.h.

Ekki eru lagarök fyrir því, að Matsnefnd eignarnámsbóta geti í þessu máli dregið frá matsbótum framlag skv. 30. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 vegna þeirra lóða, er seldar voru 1977, og leyfðar byggingar á. Þá er upplýst í málinu, að sveitarstjórnin hafi aldrei krafist slíks framlags af þeim, sem aðeins áttu eina lóð.

Hins vegar verður vegna þeirra lóða, sem meta á í þessu máli og sameinaðar hafa verið í eitt svæði, að hafa hliðsjón af ákvæðum 30. gr. skipulagslaga.

Fasteignamat á landi þessu 1/1 `80 er sagt kr. 5730.- pr. m².

Fram hefur komið í málinu, að hinn 1. apríl s.l. hafi land við Nesbala, Seltjarnarnesi, verið selt fyrir kr. 15.484.- hver m².

Landsvæði þetta er á ákjósanlegum stað og liggur vel við samgöngum. Nýting þess er auðveld og útsýni fagurt.

Aðilar eru sammála um, að mat þetta eigi að miða við verðlag 1. janúar 1980. Höfð er hliðsjón af því, að mat þetta miðast við staðgreiðslu matsfjárhæðar.

Þegar gögn um verð fasteigna á Seltjarnarnesi, sem Matsnefndinni eru kunn, eru virt, höfð hliðsjón af þeim sjónarmiðum og atriðum, sem rakin eru að framan, svo og verðlagsbreytingum og öðru því, er nefndin telur máli skipta, telur Matsnefndin hæfilegt endurgjald fyrir land eignarnámsþola vera kr. 9000.- á hvern fermetra eða alls kr. 28.107.000.- og er þá miðað við staðgreiðslu.
Rétt þykir samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 500.000.- í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 500.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð:

Eignarnemi, bæjarstjórn Seltjarnarness, greiði eignarnámsþola, Ísbirninum h.f., kr. 28.107.000.- og kr. 500.000.- í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 500.000.-.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum