Hoppa yfir valmynd
9. júlí 1980 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 9. júlí 1980

Ár 1980, miðvikudaginn 9. júlí var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Hjörtur Torfason, hrl.
                  f.h. Landsvirkjunar
                  gegn
                  Dánarbúi Jóns Sigurðssonar
                  Fremra-Hálsi, Kjós

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 9. nóvember 1979 hefur lögmaður eignarnema farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að Matsnefndin framkvæmi mat til eignarnámsbóta á meintu tjóni eiganda jarðarinnar Fremra-Háls í Kjósarhreppi, Kjósarsýslu, vegna 220 kv. háspennulínu (Hvalfjarðarlínu), sem Landsvirkjun hefur reist í landi jarðarinnar. Liggur lína þessi frá spennistöð Landsvirkjunar í Hólmsheiði ofan við Geitháls að nýrri spennistöð á Brennimel skammt frá Grundartanga í Hvalfirði og tengist þar byggðarlínu til Norðulands.

Eigandi jarðarinnar Fremra-Háls er dánarbú Jóns Sigurðssonar og hefur það falið Hilmari Ingimundarsyni, hrl., að gæta réttinda sinna í máli þessu.

Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu er háspennulína sú er um ræðir þriggja fasa lína með 220 kv. spennu, lögð á stauravirki úr stáli. Standa stauravirkin á tveimur steinsteyptum sökklum og eru jafnframt stöguð niður með tveimur festingum. Lína þessi er sögð sömu gerðar og Búrfellslína II, er liggur austan frá Búrfellsvirkjun og Sigölduvirkjun að áðurnefndri spennistöð á Hólmsheiði. Leið þessarar nýju línu er frá Geithálsi austan um Grimmannsfell og yfir Mosfellsheiði, Kjósarskarð, Reynivallaháls, Brynjudalsvog, Þyrilsnes og þaðan norðan Hvalfjarðar að Brennimel að landi Kalastaðakots, en þaðan liggur grein hennar niður að Grundartanga.

Bil milli víra línunnar er talið 9,4 m., þannig að samanlagt spannar hún 18,8 m. breidd. Línunni fylgir bann við byggingum í næsta nánd hennar. Samkvæmt gildandi reglum Rafmagnseftirlits ríkisins eru reglur um fjarlægð bygginga frá línunni í aðalatriðum á þá leið, að lárétt fjarlægð milli ysta vírs hvorum megin og bygginga í nánd skulu vera minnst 10 m. miðað við stöðu vírsins án útsveiflu, og við 45° útsveiflu í óhagstæðustu átt megi vírinn ekki koma nær byggingu en 5 m., mælt lárétt frá þeirri stöðu. Samkvæmt reglunum bætast því 2 x 10 m. við breidd línunnar sjálfrar, að því er tekur til byggingarbanns, þannig að breidd lands í slíku banni verður 38,8 m. samtals, að því er tekur til byggingabanns. Algeng hæð línunnar frá jörðu er 20 m. og algengt haf milli stauravirkja 350-400 m. Algengt er talið að bæta þurfi 5-7 m. við áðurnefnda 10 m. fjarlægð, til að ná tilskyldu marki og eykst þá nefnd heildarbreidd sem því svarar.
Línu þessari fylgja einnig nokkrar takmarkanir varðandi skógrækt (hæð trjáa) en annars er ræktun, vegalagning og ýmis önnur athafnasemi heimil undir línunni. Sagt er að í lagningu línunnar um lönd manna felist þannig ekki eignartaka á landinu sjálfu, heldur á þeirri kvöð að línan fái að standa þar. Er bent á að réttur landeiganda til landsins og hagnýtingar þess sé þannig óskertur að öðru leyti en því, sem leiði af legu línunnar og öryggisreglum samfara henni. Fyrir liggur að jörðin Fremri-Háls er efst í Kjósarskarði vestanverðu og eigi land að hreppamörkum við Mosfellssveit á móti jörðinni Fellsenda. Er háspennulínan sögð liggja um landið í norðlæga stefnu úr Fellsendalandi sunnan megin og yfir í land jarðarinnar Írafells norðanmegin. Í landinu eru sögð standa 14 eða 15 stauravirki línunnar og að heildarlengd hennar í landinu sé talin hérumbil 5.700 m. Frá því er skýrt, að við lagningu háspennulínunnar, sem framkvæmd hafi verið á árinu 1977, hafi ekki náðst samkomulag milli Landsvirkjunar og eiganda Fremra-Háls um bætur fyrir meint tjón hans vegna línunnar, gagnstætt því sem um hafi verið að ræða varðandi aðra landeigendur við línuna að undanteknum eiganda Höfða. Varð að samkomulagi milli aðilanna, að ágreiningur þeirra um fjárhæð bótanna skyldi leystur með mati lögum samkvæmt, þar sem eiganda Fremra-Háls yrðu ákveðnar fullar bætur fyrir réttindi Landsvirkjunar vegna línunnar og spjöll af hennar völdum, eftir því sem Landsvirkjun væri skylt að greiða skv. lögum. Hins vegar greiddi Landsvirkjun eigandanum þá þegar uppí væntanlegar bætur kr. 350.000, er Landsvirkjun taldi samsvara eðlilegum bótum eða verulegum hluta þeirra og með fyrirvara um endanlega ákvörðun bótanna.

Þetta fyrirkomulag aðilanna var gert 21. mars 1977 og greiðsla þá innt af hendi skv. því. Eignarnemi telur skylt að taka tillit til þessarar greiðslu, er bætur verði ákveðnar.

Það er afstaða eignarnema um réttindi í landi Fremra-Háls vegna háspennulínunnar, að línumannvirkin sem eru eign Landsvirkjunarinnar fái að standa í landinu óátalið af eigendum þess og ábúendum og að eignarnemi hafi að þeim óhindraðan aðgang eftir því sem hann þarf vegna byggingaframkvæmdanna og eftirlits og viðhalds mannvirkjanna. Er það krafa eignarnema, að Matsnefndin meti til eignarnámsbóta það tjón, sem kvöð þessi veldur landeiganda, þ.á m. þau eignaspjöll sem verða kunna vegna byggingarframkvæmda við upphaflega lagningu línunnar.

Í beiðni eignarnema um mat þetta segir á þessa leið: "Hvalfjarðarlína er byggð skv. heimildum í lögum nr. 59/1965 um Landsvirkjun með tilheyrandi leyfi ráðherra, sbr. hjálagt bréf iðnaðarráðuneytisins dags. 13. des. 1976, sem veitt var í samræmi við 7. gr. landsvirkjunarlaga og önnur landslög. Nýtur línan og allra réttinda skv. viðeigandi ákvæðum vatnalaga nr. 15/1923, sbr. einkum 55. gr. þeirra laga. Hefur það m.a. verið sérstaklega staðfest með bréfi iðnaðarráðuneytisins dags. 9. maí 1977, en með því var einnig staðfest heimild Landsvirkjunar til að framkvæma eignarnám á lóðum og lendum eftir því sem við þyrfti vegna línunnar, í samræmi við 18. gr. landsvirkjunarlaga."

II.

Mál þetta hefur flutt fyrir eignarnámsþolann db. Jóns Sigurðssonar, Fremra-Hálsi, Hilmar Ingimundarson, hæstaréttarlögmaður. Gerir hann þær kröfur að eignarnámsþola verði ákvarðaðar eignarnámsbætur allt að 25 milljónum króna fyrir línukvöð og jarðspjöll með hæstu dómvöxtum frá 30. janúar 1980 til greiðsludags, svo og lögmannskostnað skv. gjaldskrá L.M.F.Í.

Lögmaðurinn tekur fram, að honum reiknist svo til að landsvæði það sem eignarnáms er krafist á í formi ýmiskonar kvaða muni vera um 26 ha. Stauravirkin séu 15 og liggi meginhluti línunnar um heimalönd jarðarinnar eða mjög nærri þeim. Þetta valdi því að óþægindi af línukvöðinni verði meiri en ella og beri að taka tillit til þess við ákvörðun bóta. Þá beri einnig að taka tillit til þess að eignarnema sé heimiluð óskert umferð um land jarðarinnar hvenær sem þörf krefji ekki aðeins á því svæði, sem línan liggi um heldur og einnig fyrir utan það, ótakmarkað í tíma og rúmi.

Lögmaðurinn óskar eftir því að Matsnefndin sundurgreini matið, þ.e. meti sérstaklega bætur fyrir jarðarspjöll. Hann telur að hugmyndir eignarnema um hæfilegar bætur hafi ávallt verið fjarri lagi. Bendir hann í þessu sambandi á matsmál frá árunum 1969 til 1973. Hafi hér verið um að ræða jarðirnar Miðdalur, Dalland, Lynghól, Sólheimar og Sólheimakot, öll í Mosfellshreppi. Kveðst hann við kröfugerð sína aðallega hafa miðað við matið sem tók til jarðarinnar Miðdals, þar sem töluverður hluti af viðkomandi háspennulínu hafi legið um Mosfellsheiði og landgæði ekki mjög svo ólík því, sem sé á því svæði er háspennulína sú sem mál þetta fjallar um liggur um í landi Fremra-Háls. Í yfirmati 18. júní 1970 hafi hver hektari verið metinn á ca. kr. 34.400.- á verðlagi nú megi ætla að samsvarandi tala yrði um kr. 1.300.00.- til kr. 1.500.000.-. Verðlag á þessu tímabili hafi 30-40 faldast og sé þá miðað við verðtryggð spariskírteini ríkissjóðs. Kröfur eignarnámsþola séu því í samræmi við þetta og séu að þessu leyti til byggðar á 67. gr. stjórnarskrárinnar.

III.

Krafa Landsvirkjunar í máli þessu er sú, að ekki sé óskað eftir eignarnámi í þeim skilningi, að Landsvirkjun verði eigandi að landspildu þeirri sem hér um ræðir, heldur að sú kvöð verði lögð á landið, sem leiðir af því að leggja þurfi umrædda háspennulínu yfir landið og að láta hana standa þar og að hafa óhindraðan aðgang að línumannvirkjunum vegna venjulegs eftirlits og viðhalds. Lítur Matsnefndin svo á að krafa þessi hafi stoð í 18. gr. laga nr. 59/1965 sbr. 55. gr. laga nr. 15/1923.

Það er skoðun matsmanna að þeim beri í mati sínu að meta bætur fyrir þá verðrýrnun sem verður á landi eignarnámsþola við það að sú kvöð hefur verið lögð á landið að háspennulína eignarnema hefur verið lögð yfir það, enda verði og tillit tekið til þeirrar aðstöðu sem eignarnemi telur sig þurfa á landinu. Þá þykir einnig rétt að meta þá röskun og landspjöll, sem eignarnámsþoli hefur orðið fyrir vegna framkvæmda þessara.

Landsvæði það sem háspennulínan liggur um frá Fellsendamörkum niður fyrir Kjóamýri (stauravirki 63-76) er allt þurrlent. Jarðvegur er leirborinn og landið grýtt á köflum.

Gróðurinn á þessu svæði er gisinn heiðagróður með grámosa og lyngmóagróðri inn á milli. Landið nýtist nú sem frekar rýrt beitiland en er óhæft til túnræktar.

Línustæðið er á um 1800 metra kafla fyrir ofan 200 m. hæðalínu. Stauravirki nr. 68 er talið í 199 m. hæð og efsta stauravirkið nr. 63 er í 377,5 m. hæð. Stauravirki nr. 77 er í mýrardragi 106,5 m. hæð og er þar eina ræktanlega landið á Fremra-Hálsi, sem skerðist við línulögnina.

Í Kjóamýri sem liggur austan línustæðisins hefur land skemmst af umferð þungavinnuvéla og er nauðsynlegt að grófræsa land þetta og jafna út ruðninga til þess að fyrirbyggja frekari skemmdir á landinu.

Á landi þessu standa 15 stauravirki. Lengd háspennulínunnar í landi Fremra-Háls er 5695 m. Breidd þess svæðis sem hámarksútsveifla háspennulínunnar nær til og þar með kvöðin er rakin hér að framan.

Jörðin Fremri-Háls hefur verið notuð til búrekstrar á hefðbundinn hátt. Um árabil hefur nokkuð verið sóttst eftir því að fá aðstöðu til byggingar sumarbústaða utan þéttbýliskjarnanna. Hefur nokkuð verið um sölu á löndum undir sumarbústaði í nágrenni Reykjavíkur en ekki er landsvæði það sem um ræðir í þessu máli líklegt til slíkra nota.

Lögmenn aðila hafa skrifað greinargerðir í þessu máli og skýrt það munnlega fyrir Matsnefndinni. Sátt hefur verið reynd í málinu en árangurslaust.

Matsnefndin hefur gengið á vettvang ásamt umboðsmanni eignarnámsþola og lögmanni hans svo og lögmanni eignarnema og tæknifræðingi frá honum.

Með lagningu háspennulínunnar um land eignarnámsþola er sú kvöð lögð á landið að línan fái að standa þar óáreitt framvegis. Jafnframt fylgir það kvöðinni, að umráðamenn línunnar hafi óhindraðan aðgang að línustæðinu til eftirlits, viðhalds og viðgerðar á línumannvirkjunum. Ekki má landeigandi heldur stofna línunni í hættu með aðgerðum á landi sínu, en um þau öryggisskilyrði sem línueigandi þarf að gæta gagnvart umhverfi nú gilda reglur Rafmagnseftirlits ríksins sbr. reglugerð nr. 264/1971.

Fánastangir eða aðrir háir hlutir mega ekki vera það nærri háspennuloftlínum að þeir eða búnaður þeirra geti snert línurnar þótt þær falli eða fánalínan fjúki til.

Umferðarkvöð um landið vegna línunnar getur verið tvenns konar, annars vegar er um að ræða eftirlit og venjulegt viðhald línunnar, sem er framkvæmt með yfirferð 2-4 manna með handverkfæri tvisvar á ári að öllum jafnaði. Nauðsynlegt er talið að þessir menn hafi frjálsa umferð um landið að turnunum en ekki er talið nauðsynlegt að þeir fari með nein ökutæki um ræktað land.
Hins vegar er um að ræða umferð um landið til að framkvæma viðgerðir á hugsanlegum bilunum, t.d. ef línuvír slitnar eða turn brotnar. Undir þeim kringumstæðum þarf að hafa hraðar hendur við úrbætur og gæti þá t.d. verið nauðsynlegt að fara með vélknúið vinnutæki að línustæðinu. Tíðleiki slíkra bilana er talinn afar lítill.

Í vettvangsgöngu þeirri er fram fór kynntu matsmenn sér hvernig umhorfs var á umræddu svæði eftir að eignarnemi hafði lokið framkvæmdum á svæðinu. Farið var meðfram línustæðinu og athugað jarðrask það sem orðið hafði við línuframkvæmdirnar.

Jöfnun lands, ísáning grasfræs og dreifing tilbúins áburðar var að nokkru ábótavant en samkomulag var með aðilum að úr því yrði bætt. Enginn uppblástur virtist líklegur vegna línuframkvæmdanna.

Matsnefndin lítur svo á, að línukvöðin skerði landsafnot eignarnámsþola á þann hátt að honum bera að fá bætur fyrir það. Að því er varðar mat á skerðingunni telur Matsnefndin rétt að hafa hliðsjón af kostum landsins til búskapar en á því svæði, sem línan liggur er land þetta óhreyft frá náttúrunnar hendi.

Matsnefndin hefur undir höndum talsvert miklar upplýsingar um sölur og möt á löndum og landssvæðum í nágrenni Reykjavíkur og víðar um allt land.

Þegar virt eru þau atriði, sem rakin hafa verið og áhrif hafa á mat þetta, tekið tillit til verðbreytinga og að athuguðum öllum málavöxtum, sem matsmenn telja koma hér til greina, þykja bætur til handa eignarnámsþola hæfilega ákveðnar kr. 650.000.- vegna kvaðarinnar og óþæginda og kr. 200.000.- fyrir jarðrask.

Upplýst er í málinu að eignarnemi greiddi eignarnámsþola 21. mars 1977 kr. 350.000.-. Jafnframt var svo umsamið að greiðslu þessa ætti að draga frá þeirri fjárhæð, sem Landsvirkjun bæri að greiða við endanlega ákvörðun á umræddum bótum. Ef þær matsbætur yrðu lægri en ofangreind upphæð, skuldbatt eignarnámsþoli sig til að greiða eignarnema mismuninn án tafar ásamt 13% ársvöxtum frá 21. mars 1977 til endurgreiðsludags.

Þótt nú matsfjárhæðin sé þetta hærri telur Matsnefndin rétt að nota sömu vaxtahæð við uppgjör á málinu nú. Samkvæmt því ber eignarnema að greiða eignarnámsþola kr. 850.000.- að frádregnum kr. 521.427.- eða kr. 328.573.- og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 150.000.- í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 400.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Bárður Daníelsson, verkfræðingur og Björn Bjarnarson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Landsvirkjun, greiði eignarnámsþola dánarbúi Jóns Sigurðssonar, Fremra-Hálsi, Kjósarhreppi kr. 328.573.- og kr. 150.000.- í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 400.000.-.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum