Hoppa yfir valmynd
18. júlí 1980 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurðir 18. júlí 1980

Ár 1980, föstudaginn 18. júlí var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir málið:

                  Sigurður Á. Guðmundsson og
                  Jónas Guðmundsson
                  gegn
                  Vestmannaeyjabæ

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 12. ágúst 1979 hefur Jón Hjaltason, hrl., f.h. Sigurðar A. Guðmundssonar, Kríuhólum 4, Reykjavík og Jónasar Guðmundssonar, Holtsbúð 79, Garðabæ, farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metið verði eftir matsreglum um eignarnám hæfilegt endurgjald úr hendi Vestmannaeyjabæjar fyrir töku bæjarins á túni þeirra nr. 179 vestur á Hamri í Vestmannaeyjum, ásamt safnþró sem í túninu er svo og auk annarra mannvirkja, þ.á m. girðinga um túnið. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Matsnefndinni.

Eignarnámsþoli skýrir svo frá, að í eldgosinu í Vestmannaeyjum 1973 hafi vikri verið ekið á tún hans, sem hafi verið í mjög góðri rækt. Síðar hafi þetta svæði verið tekið undir skipulag og nú hafi a.m.k. tvö hús verið byggð á túninu. Hafi bærinn ekki fengist til að greiða eðlilegar bætur fyrir þessa eignatöku, en hún hafi verið gerð án samráðs við eigendur réttindanna og bærinn nú þegar ráðstafað, án samráðs við þá, lóðum úr túninu undir húsbyggingar.

Tún þetta er sagt að stærð 20800 m². Hafi Guðmundur Böðvarsson Vestmannaeyjum átt helminginn áður á móti Alfreð Þorgrímssyni, en hann hafi selt Sigurði Á. Guðmundssyni sinn helming með afsali 3. júlí 1950. Hinn helmingur túnsins hafi fallið í arf til bræðranna Sigurðar Á. Guðmundssonar og Jónasar Guðmundssonar eftir andlát föður þeirra, Guðmundar Böðvarssonar. Er Sigurður því nú eigandi að 3/4 hlutum alls túnsins en Jónas eigandi 1/4 hluta þess. Þeir standa saman að matsbeiðni þessari.

Vestmannaeyjabær hafi ekki haft frumkvæði um eignarnámsmat og dregist hafi óhóflega að fá lyktir á málið og sé eigendum því nauðugur einn kostur að hafa frumkvæði um eignarnámsmatið.

Eignarnámsþoli leggur fram í málinu afsal dags. 3. júlí 1950, gefið af Alfreð Þorgrímssyni, þar sem hann selur og afsalar Sigurði Á. Guðmundssyni í Vestmannaeyjum afnotarétti sínum að túnbletti sem sé 1/2 túnið nr. 179 vestur á Hamri, ásamt safnþró, sem í túninu sé og fylgi með í kaupunum. Kaupverð hinna seldu eigna er kr. 2000 og er það talið að fullu greitt við afsalið.

II.

Af hálfu eignarnema hefur flutt mál þetta Jón Óskarsson, bæjarlögmaður. Hefur hann lagt fram greinargerð í málinu. Einnig var hann viðstaddur vettvangsskoðun. Hann bendir á að í samningi eignarnámsþola um land þetta sé tekið fram, að sumt af landinu sé óræktanlegt og sé því lítt sennilegt að það hafi allt verið í mjög góðri rækt þegar Viðlagasjóður lét aka á það vikri. Hins vegar mótmælir hann því ekki að eitthvað hafi verið ræktað af landspildunni en eignarnámsþola beri að sýna fram á hvað mikið hafi verið ræktað af landinu. Rétturinn til landsins hafi glatast samkvæmt samningnum um það ef það sem ræktanlegt var hefur ekki verið ræktað.

Hann bendir á, að samningurinn um land þetta sé erfðafestusamningur til tiltekins tíma og landið sé leigt til túnræktar eingöngu en ekki til annarra afnota. Byggingar megi ekki gera á leigulandinu nema fengið sé sérstakt leyfi umboðsstjórnarinnar til þess. Hann segir að ekki hafi verið upplýst að eignarnámsþoli hafi fengið leyfi til að byggja safnþró á landinu né aðrar byggingar og komi því ekki til álita neinar bætur fyrir slíkt.

Telur eignarnemi augljóst, að með byggingu safnþróar á landinu hafi samningurinn um það verið brotinn. Þar sem landið hafi eingöngu verið leigt til túnræktar hafi verið óheimilt að byggja á því safnþró eða að hafa þar kálgarða.

Þá bendir eignarnemi á það, eins og áður segir, að landið sé leigt til ákveðins tíma og nú sé mikill tími liðinn af leigutímabilinu og taka beri tillit til þess við matið.

III.

Matsnefndin hefur gengið á vettvang og skoðað landið og allar aðstæður á staðnum.

Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust.

Matsbeiðandi hefur hafið mál þetta samkvæmt 6. grein laga nr. 11/1973, enda eignarnemi nú þegar tekið landið til sinna þarfa, og byrjað að úthluta því undir byggingar.

Matsmenn hafa eftir föngum kynnt sér mál þetta.

Land nr. 179, landstærð 20.800 m². Samkvæmt uppdrætti B.Í. í samningi talið hraunland, sumt óræktanlegt.

Samkvæmt úttektarskýrslum B.Í. vegna styrkja á jarðabætur í Vestmannaeyjum hefur Ágúst Guðmundsson Ásnesi framkvæmt eftirtaldar jarðabætur á landi þessu á tímabilinu 1930/40, nýrækt 12780 m², grjótnám 273 rúmm., 95 m. tvíhlaðinn grjótveggur undir þriggja strengja gaddavírsgirðingu, 512 m. vírnetsgirðingu með gaddavírsstreng yfir, ásamt áburðarþró (for) reist 1937. Styrkir á ræktun og girðingar námu kr. 1099.46 og kr. 414.24 á forina.
Á vettvangsgöngunni reyndi Matsnefndin að gera sér grein fyrir framkvæmdum vegna ræktunar landsins. Nokkur garðbrot grjótgarða fundust, svo og girðingaspottar, bæði net og gaddavír, hvorutveggja komið vel til ára sinna. Áburðargeymslan var óbrotin á svæðinu.

Matsnefndin var sammála um, að áburðargeymslan hefði lokið hlutverki sínu, og hefði ekkert verðgildi.

Matsnefndin var sammála um eftirfarandi matsatriði og mat vegna eignarnáms á landinu og er þá tekið tillit til jarðræktarstyrks, sem veittur hefur verið til framkvæmda ræktunar og mannvirkja:

1.   Bætur fyrir   ræktun   12780 m² á 28/-      kr.   375.840.-
2.   "   "   missi afnota- og
   erfðaleiguréttinda   12780 m² á 150/-      "   1.917.000.-
3.   Bætur fyrir girðingar      "   57.160.-
      Samtals   kr.   2.350.000.-

og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 50.000.- í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 200.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vestmannaeyjabær, greiði eignarnámsþolum, Sigurði Á. Guðmundssyni og Jónasi Guðmundssyni kr. 2.350.000.- og kr. 50.000.- í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 200.000.-

Ár 1980, föstudaginn 18. júlí var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir málið:

                  Jóhann Gíslason og
                  Guðjón Gíslason
                  gegn
                  Vestmannaeyjabæ

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 14. ágúst 1979 hefur Jón Hjaltason hrl. f.h. Jóhanns Gíslasonar, Byggðarholti 14, Mosfellssveit og Guðjóns Gíslasonar, Reykjavík, farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metið verði eftir matsreglum um eignarnám hæfilegt endurgjald úr hendi Vestmannaeyjabæjar fyrir töku kaupstaðarins á túni þeirra við Hraunbúðir í Vestmannaeyjum nr. 134, merktu á uppdrætti Búnaðarfélags Íslands XC, erfðafestusamningur dags. 27. apríl 1929. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Matsnefndinni.

Tún þetta er sagt 10000 m² að flatarmáli og hafi verið í mjög góðri rækt, en einnig er óskað sér mats á mannvirkjum á túninu, sem hafi verið steingirðing umhverfis allt túnið, safnþró steinsteypt og hús hlaðið úr grjóti með járnþaki og vatnsból við húsið.

Með bréfi 20. júlí 1973 sagði Vestmannaeyjabær upp leigusamningi um tún þetta. Var uppsögn þessari svarað með bréfi 28. júlí 1973 og þar boðið upp á samninga um yfirtöku bæjarins á túninu og þeim mannvirkjum sem á því voru. Eignarnemi hafi ekki fengist til samninga en hins vegar tekið túnið til sinna nota og séu spildur úr túninu nú þegar komnar undir húsbyggingar.

Fram er lögð í málinu uppsögnin dags. 20. júlí 1973 á leiguréttinum að landsvæði þessu og segir í bréfinu, að uppsögnin sé reist á heimild í 8. gr. leigusamningsins og sé þess óskað að leigutaki hafi sem fyrst samband við lögmann Vestmannaeyjabæjar til samninga um bætur fyrir ræktun og/eða mannvirki á landinu.

II.

Af hálfu eignarnema hefur flutt mál þetta Jón Óskarsson, bæjarlögmaður. Hefur hann lagt fram greinargerð í málinu. Einnig var hann viðstaddur vettvangsskoðun.

Hann bendir á að samningurinn um land þetta sé erfðafestusamningur til tiltekins tíma og landið sé leigt til túnræktar eingöngu en ekki til annarra afnota. Byggingar megi ekki gera á leigulandinu nema fengið sé sérstakt leyfi umboðsstjórnarinnar til þess. Hann segir að ekki hafi verið upplýst að eignarnámsþoli hafi fengið leyfi til að byggja safnþró á landinu né aðrar byggingar og komi því ekki til álita neinar bætur fyrir slíkt.

Telur eignarnemi augljóst, að með byggingu safnþróar á landinu hafi samningurinn um það verið brotinn. Þar sem landið hafi eingöngu verið leigt til túnræktar hafi verið óheimilt að byggja á því safnþró eða að hafa þar kálgarða.

Þá bendir eignarnemi á það, eins og áður segir, að landið sé leigt til ákveðins tíma og nú sé mikill tími liðinn af leigutímabilinu og taka beri tillit til þess við matið.

III.

Matsnefndin hefur gengið á vettvang og skoðað landið og allar aðstæður á staðnum.

Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust.

Matsbeiðandi hefur hafið mál þetta samkvæmt 6. grein laga nr. 11/1973, enda eignarnemi nú þegar tekið landið til sinna þarfa, og byrjað að úthluta því undir byggingar.

Matsmenn hafa eftir föngum kynnt sér mál þetta.

Tún nr. 134, land auðkennt á uppdrætti Búnaðarfélags Íslands X e. Landstærð skv. samningi 10.000 m². Landspilda þessi var upprunalega seld á leigu til Jóns Jónssonar í Hlíð með 75 ára erfðafestusamningi, en færðist yfir á hendur Guðjóns Gíslasonar og Jóhanns Gíslasonar, samkvæmt heimildarbréfum dags. 16.4.1932, 12.7.1932 og 1.9.1935, að því er ljósrit veðbókarvottorðs Bæjarfógeta Vestmannaeyja dags. 15. ágúst 1979, sýnir. Samkvæmt úttektarskýrslum trúnaðarmanna Búnaðarfélags Íslands í Vestmannaeyjum er samanlögð ræktun lands talin 7820 m², og styrkur samkvæmt jarðræktarlögum kr. 648.-.

Tekin hefur verið út ein áburðargeymsla árið 1928, en styrkur vegna hennar nam kr. 266.47. Grjótnám á landinu hefur samtals numið 163 m3.

Í vettvangsgöngu Matsnefndar virtist henni augljóst að landið muni hafa verið að stórum hluta til ræktað, að undanskyldum nyrsta hluta þess. Upplýst var að umhverfis landið muni að hluta til hafa verið 98 m 3 strengja vírgirðing með undirhleðslu, og tvíhlaðnir grjótgarðar í fulla hæð 25 lm. Fyrir mannvirkjum þessum vottaði vart lengur. Auk áburðargeymslu sem brot sáust úr, bentu vegsummerki til þess, að grjóthlaðið hýsi hefði staðið nokkru neðar geymslunnar.

Matsnefndin hefur orðið sammála um að leggja úttekt á jarðræktarskýrslum til grundvallar matinu, og er þá tekið tillit til opinberra styrkja sem veittir hafa verið til ræktunar.

Matsnefndin telur að safnþró sú, svo og hlaðið grjóthýsi, sem reist voru á landinu, séu löngu búnar að gegna sínu hlutverki og hafi ekki lengur verðgildi, auk þess vafasamt um heimildir fyrir byggingaframkvæmdum á sínum tíma.

Bætur ákveðast því þannig:

1.   Bætur fyrir   ræktun   7820 m² á 28/-      kr.   218.960.-
2.   Bæturfyrir missi afnota
   og erfðaleiguréttinda   7820 m² á 150/-      "   1.173.000.-
3.   Bætur fyrir girðingar      "   24.040.-
      Samtals   kr.   1.416.000.-

og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 50.000.- í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 200.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vestmannaeyjabær, greiði eignarnámsþolum, Jóhanni Gíslasyni og Guðjóni Gíslasyni kr. 1.416.000.- og kr. 50.000.- í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 200.000.-.

Ár 1980, föstudaginn 18. júlí var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir málið:

                  Bjarni Bjarnason,
                  Vestmannaeyjum
                  gegn
                  Vestmannaeyjabæ

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 12. ágúst 1979 hefur Jón Hjaltason, hrl. f.h. Bjarna Bjarnasonar, Vestmannabraut 52, Vestmannaeyjum farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metið verði eftir matsreglum um eignarnám hæfilegt endurgjald úr hendi Vestmannaeyjabæjar fyrir töku bæjarins á túnum eignarnámsþola, ræktunarlandi nr. 230, 26000 m² að flatarmáli, og túni hans sunnan Ofanleitisvegar, merktu á uppdrætti Búnaðarfélags Íslands 1. nóv. 1927 með tölunni II að stærð 12800 m², eða landsvæði samtals 38800 m² að flatarmáli.

Þá er krafist málskostnaðar fyrir Matsnefndinni.

Eignarnámsþoli skýrir svo frá, að tún þessi hafi Vestmannaeyjabær tekið undir skipulag bæjarins. Bærinn hafi fjarlægt girðingar um túnin og rótað þar til og tekið þau undir byggingar, enda þegar búið að byggja hús á túnunum, án þess að samráð hafi verið haft við rétthafa túnanna og án þess að honum hafi verið boðnar bætur fyrir eignartökuna.

Þar sem Vestmannaeyjabær hafi ekki fengist til að bæta þessa eignatöku, né til þess að hafa frumkvæði að eignarnámsmati, þá sé eignarnámsþola ein leið fær að beiðast eignarnámsmats. Telur eignarnámsþoli þá jafnframt rétt að hafa hliðsjón af ákvæði 8. gr. í eldri erfðafestusamningnum, þar sem reiknað er með 2.500 kr. bótum fyrir hektara í slíkum tilvikum á árinu 1928, og sú fjárhæð framreiknuð til eðlilegs verðlags í dag. Þá óskar eignarnámsþoli þess að sérmetin verði mannvirki öll á túnunum, girðingar og annað sem fjarlægt hefur verið.

Fram hefur komið í máli þessu leigusamningur dags. 27. júní 1928. Í þeim samningi er leigutaka leigð til túnræktar landspilda að stærð 12800 m² að flatarmáli. Er landið leigt á erfðafestu til 75 ára, eða til þess tíma sem ákveðið verður í jarðræktarlögum frá fardögum 1928 að telja. Er landspilda þessi auðkennd á uppdrætti Búnaðarfélags Íslands 1. nóv. 1927 með tölunni II. Landið er leigt til túnræktar en ekki til annarra afnota. Byggingar má ekki gera á leigulandinu, nema fengið sé sérstakt leyfi umboðsstjórnarinnar til þess. Leigutaki skal hafa girt landið gripheldri girðingu áður en ár er liðið frá því honum er útmælt landið. Á spássíu samningsins stendur: Landið er fullræktað. Leigugjald fyrir landið er 19 kr. á ári næstu 25 árin eftir að landið er ræktað, en eftir þann tíma ákveður atvinnumálaráðherra leiguna. Árgjaldið greiðist í fardögum ár hvert, í fyrsta sinn í fardögum 1929. Í 8. gr. samningsins segir á þessa leið: "Þarfnist bæjarfélagið, ríkissjóður eða einstakir menn landsins til sérstaks atvinnurekstrar, er leigutaka skylt að láta af hendi leigurétt sinn, ef umboðsmaður mælir með því og atvinnumálaráðuneytið samþykkir það, hvort heldur er að öllu landinu eða nokkrum hluta þess, gegn 2500 kr. gjaldi fyrir hvern ræktaðan ha., þó geta aðilar krafist mats ef þeir vilja eigi sæta þessum kjörum. Nú eru byggingar, girðingar eða önnur slík mannvirki í þeim hluta landsins, sem umboðsstjórnin krefst sér afhent, og skal þá greiða eiganda þeirra að auki andvirði þeirra eftir mati tveggja óvilhallra dómkvaddra manna."

Með þessum takmörkunum er leigutaka heimilt að selja leigurétt sinn, veðsetja hann eða ráðstafa honum á annan hátt, þó að áskyldu samþykki umboðsvaldsins ef um sölu, veðsetningu eða aðra ráðstöfun leiguréttar á lóðarhluta er að ræða.

Með leigusamningi dags. 19. sept. 1938 er leigutaka leigð á erfðafestu landspilda sú sem nánar er lýst í samningnum. Hin leigða landspilda er 26000 m² að flatarmáli úr landi jarðarinnar Eystri-Vesturhúsa í Vestmannaeyjum (Hraunland). Landamerki eru þau sem uppdráttur Búnaðarfélags Íslands ber með sér, milli skáka auðkenndra 11, 10B, 13B, 9B og Ofanleitisvegar og auðkennd með töluna 230 í fasteignamatsskrám og veðmálabókum embættisins. Landið er leigt á erfðafestu til 50 ára. Leigutaki skal hafa girt landið gripheldri girðingu áður en 1 ár er liðið frá því honum er það afhent. Á hverju ári skal leigutaki rækta til túns ekki minna en 1/10 hl. landsins, þannig að landið sé allt fullræktað á næstu 10 árum eftir að útmæling fór fram. Árleg leiga er 35.- kr. með hliðsjón af að mikið er óræktanlegt af landinu.

Í 7. gr. samningsins segir: "Hvenær sem ríkið telur sig þarfnast erfðafestulandsins til notkunar undir opinber mannvirki ríkis eða bæjarfélags eða til sérstaks atvinnureksturs, er leigutaka skylt að láta af hendi erfðafesturétt sinn á landinu, nokkrum hluta þess eða því öllu, gegn sannvirði þess sem kostað hefur að rækta landið, eftir mati tveggja óvilhallra dómkvaddra matsmanna. Fyrir þann hluta landsins sem óræktaður kann að vera greiðist ekkert endurgjald. Nú eru byggingar, girðingar eða önnur mannvirki í þeim hluta landsins sem umboðsstjórnin krefst sér afhent, og skal þá greiða eiganda þeirra að auki andvirði þeirra eftir mati tveggja óvilhallra dómkvaddra manna. Taki ríkið meira af landinu en 1/3 hluta þess getur leigutaki krafist þess að landið verði allt tekið með þeim mannvirkjum sem á því eru eftir mati." Með þessum takmörkunum er leigutaka heimilt að selja leigurétt sinn veðsetja hann eða ráðstafa honum á annan hátt þó að áskyldu samþykki umboðsvaldsins ef um sölu, veðsetningu eða aðra ráðstöfun eignarréttar á landinu er að ræða.

II.

Af hálfu eignarnema hefur flutt mál þetta Jón Óskarsson, bæjarlögmaður. Hefur hann lagt fram greinargerð í málinu. Einnig var hann viðstaddur vettvangsskoðun.

Hann bendir á, að samningurinn um land þetta sé erfðafestusamningur til tiltekins tíma og landið sé leigt til túnræktar eingöngu en ekki til annarra afnota. Byggingar megi ekki gera á leigulandinu nema fengið sé sérstakt leyfi umboðsstjórnarinnar til þess. Hann segir að ekki hafi verið upplýst að eignarnámsþoli hafi fengið leyfi til að byggja safnþró á landinu né aðrar byggingar og komi því ekki til álita neinar bætur fyrir slíkt.

Telur eignarnemi augljóst, að með byggingu safnþróar á landinu hafi samningurinn um það verið brotinn. Þar sem landið hafi eingöngu verið leigt til túnræktar hafi verið óheimilt að byggja á því safnþró eða að hafa þar kálgarða.

Þá bendir eignarnemi á það, eins og áður segir, að landið sé leigt til ákveðins tíma og nú sé mikill tími liðinn af leigutímabilinu og taka beri tillit til þess við matið.

III.

Matsnefnd hefur gengið á vettvang og skoðað landið og allar aðstæður á staðnum.

Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust.

Matsbeiðandi hefur hafið mál þetta samkvæmt 6. grein laga nr. 11/1973, enda eignarnemi nú þegar tekið landið til sinna þarfa, og byrjað að úthluta því undir byggingar.

Matsmenn hafa eftir föngum kynnt sér mál þetta.

Land B.Í. 11, landstærð 12.800 m², allt ræktað skv. erfðaleigusamningi. Í spjaldskrá B.Í. og frumskýrslum um úttekt jarðabóta, í Vestmannaeyjum, vegna jarðræktarstyrks sést ekki að þessi framkvæmd hafi notið neins styrks úr ríkissjóði.

Land nr. 230, landstærð 26000 m².

Samkvæmt úttektarskýrslum er land þetta kallað Eystri-Vesturhús og eru jarðabætur færðar á Björn Guðmundsson eiginmann Snjáfríðar Hildibrandsdóttur.

Í úttektarskýrslunum er nýrækt lands talin 25240 m² og styrkur skv. jarðræktarlögum kr. 757.29.

Þá hafa verið teknar út fjórar áburðargeymslur (forir) á þessum árum: 1925, 1928, 1930 og 1940, styrkur vegna þeirra var kr. 650.36.

Í vettvangsgöngu skýrði Bjarni Bjarnason, frá því, að hann hefði endurnýjað allar girðingar um fyrrnefnda bletti, sem eru samliggjandi. Uppistandandi var á löngum kafla 5 strengja vírnetsgirðing með gaddavírsstreng undir og ofaná. Girðing þessi var í góðu ástandi. Þá sást einnig, að á öðrum stöðum umhverfis landið hafði verið gaddavírsgirðing á grjótundirhleðslu. Þá var á landinu 3ja strengja milligirðing, niðurfallin. Ekki þótti matsmönnum ástæða til að meta hana. Það er sameiginlegt álit matsmanna, að forir þær sem byggðar hafa verið til hagnýtingar fiskúrgangs til áburðar, hafi lokið hlutverki sínu fyrir alllöngu og myndu ekki nýttar þó uppi hefðu staðið og því frekar til óþurftar. Verða þær því ekki metnar til verðs.

Við matið er tekið tillit til eftirfarandi:

1.   Áætlaður ræktunarkostnaður landsins.
2.   Opinberir styrkir til framkvæmdanna.
3.   Gerð og ástand girðinga.
4.   Afnotaverðmæti landsins á grundvelli erfðaleigusamninganna.

Að þessu athuguðu ákvarðast bætur hæfilegar metnar þannig:

1.   Bætur fyrir ræktað land sem ekki hefur
   notið styrks 12800 m² á 40/-      kr.   512.000
2.   Bætur fyrir missi afnota og erfðaleigu-
   réttinda sama lands 12800 m² á 175/-      "   2.240.000
3.   Bætur fyrir ræktað land sem notið hefur
   styrks 25240 m² á 23/-      "   580.520
4.   Bætur fyrir missi afnota og erfðaleigu-
   réttinda sama lands 25240 m² á 28/-      "   706.720
5.   Bætur fyrir vírnetsgirðingar      "   152.000
3.   "   "   aðrar girðingar      "   36.760
      Samtals   kr.   4.228.000

og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 75.000.- í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 200.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vestmannaeyjabær, greiði eignarnámsþola Bjarna Bjarnasyni kr. 4.228.000.- og kr. 75.000.- í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 200.000.-.

Ár 1980, föstudaginn 18. júlí var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir málið:

                  Halldóra Þórólfsdóttir
                  Hátúni 4, Reykjavík
                  gegn
                  Vestmannaeyjabæ

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 12. ágúst 1979 hefur Jón Hjaltason, hrl., f.h. Halldóru Þórólfsdóttur farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metið verði til eignarnáms hæfilegt endurgjald úr hendi Vestmannaeyjabæjar fyrir töku bæjarins á túni eignarnámsþola nr. 139 vestur við Hamar í Vestmannaeyjum, austan við tún Guðmundar Böðvarssonar, en túnið sé að stærð 20000 m², og auðkennt á uppdrætti Búnaðarfélags Íslands frá 1. nóv. 1927 með tölunni VI C. Auk þess verði metin öll mannvirki á túninu, þar með taldar girðingar sem fjarlægðar hafi verið. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Matsnefndinni.

Eignarnámsþoli skýrir svo frá, að í eldgosinu í Vestmannaeyjum 1973 hafi vikri verið ekið á túnið, en það hafi verið í mjög góðri rækt. Þar hafi verið frjósamir kartöflugarðar, auk vel ræktaðs túns. Nú hafi túnið verið tekið undir skipulag bæjarins og þegar sé farið að byggja á túninu, án þess að um það væri leitað samráðs við eiganda réttindanna og engar bætur hafi fengist frá bænum fyrir eignartöku þessa.

Nú sé eignarnámsþola nauðugur einn kostur, að fara fram á eignarnámsmat og fá þannig lyktir á málið. Í matsbeiðni í málinu segir á þessa leið: "Hjálagt fylgir ljósrit af erfðaleigusamningnum dags. 7. nóv. 1928 og ber að hafa til hliðsjónar við matið umreikning á þeim krónum 2.500.-, er greinir í 8. tl. erfðafestubréfsins, ef réttindin eru tekin af, umreiknað til verðlags í dag."

Fram er lagt í málinu ljósrt af ofangreindum erfðafestusamningi. Segir í samningnum að landið sé leigt á erfðafestu til 75 ára, eða til þess tíma, sem ákveðið verði í jarðræktarlögum, frá fardögum 1928 að telja. Hin leigða landspilda sé 20000 m² að flatarmáli. Landið sé leigt til túnræktar en ekki til annarra afnota. Byggingar megi ekki gera á leigulandinu, nema fengið sér sérstakt leyfi umboðsstjórnarinnar til þess. Leigutaki skal hafa girt leigulandið gripheldri girðingu áður en ár er liðið frá því landið er honum útmælt. Á hverju ári skuli leigutaki rækta til túns eigi minna en 1/5 hluta af landinu, þannig að landið sé fullræktað á næstu 5 árum eftir að útmæling til hans hafi farið fram.

Í 8. tl. leigusamningsins segir á þessa leið: "Þarfnist bæjarfélagið, ríkissjóður eða einstakir menn landsins til atvinnurekstrar er leigutaka skylt að láta af hendi leigurétt sinn, ef umboðsmaður mælir með því og atvinnumálaráðuneytið samþykkir það, hvort heldur er að öllu landinu eða nokkrum hluta þess, gegn 2500 kr. gjaldi fyrir ræktaðan ha., þó geta aðilar krafist mats, ef þeir vilja eigi sæta þessum skilyrðum.

Nú eru byggingar, girðingar eða önnur slík mannvirki í þeim hluta sem umboðsstjórnin krefst sér afhent, og skal þá greiða eiganda þeirra andvirði þeirra eftir mati tveggja óvilhallra dómkvaddra manna." Í 9. tl. segir að með þessum takmörkunum sé leigutaka heimilt að selja leigurétt sinn eða ráðstafa honum á annan hátt, þó að áskildu samþykki umboðsmannsins, ef um sölu, veðsetningu eða aðra ráðstöfun leiguréttar á lóðarhlutanum sé að ræða.

II.

Af hálfu eignarnema hefur flutt mál þetta Jón Óskarsson, bæjarlögmaður. Hefur hann lagt fram greinargerð í málinu. Einnig var hann viðstaddur vettvangsskoðun.

Hann bendir á, að samningurinn um land þetta sé erfðafestusamningur til tiltekins tíma og landið sé leigt til túnræktar eingöngu en ekki til annarra afnota. Byggingar megi ekki gera á leigulandinu nema fengið sé sérstakt leyfi umboðsstjórnarinnar til þess. Hann segir að ekki hafi verið upplýst að eignarnámsþoli hafi fengið leyfi til að byggja safnþró á landinu né aðrar byggingar og komi því ekki til álita neinar bætur fyrir slíkt.

Telur eignarnemi augljóst, að með byggingu safnþróar á landinu hafi samningurinn um það verið brotinn. Þar sem landið hafi eingöngu verið leigt til túnræktar hafi verið óheimilt að byggja á því safnþró eða að hafa þar kálgarða.

Þá bendir eignarnemi á það, eins og áður segir, að landið sé leigt til ákveðins tíma og nú sé mikill tími liðinn af leigutímabilinu og taka beri tillit til þess við matið.

III.

Matsnefndin hefur gengið á vettvang og skoðað landið og allar aðstæður á staðnum.

Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust.

Matsbeiðandi hefur hafið mál þetta samkvæmt 6. grein laga nr. 11/1973, enda eignarnemi nú þegar tekið landið til sinna þarfa, og byrjað að úthluta því undir byggingar.

Matsmenn hafa eftir föngum kynnt sér mál þetta.

Erfitt er að gera sér grein fyrir þeirri ræktun, sem á landinu hefur verið vegna þess umróts sem hefur orðið á því af byggingarframkvæmdum. Kort það sem lagt er fram í máli þessu gefur þó nokkra hugmynd um, að landið hefur verið mishæðótt hraunlendi, líklega jarðvegsgrunnt og því erfitt í ræktun.
Hjá Búnaðarfélagi Íslands sýna úttektarskýrslur yfir tímabilið 1930-1939 að Guðjón Hafliðason á Skaftafelli hefur ræktað undir liðnum "Nýrækt" 11720 m² lands. Grjótnám úttekið hefur verið 314 m3, tvíhlaðnir grjótgarðar minnst 1,25 m. á hæð en 93 m. á lengd. Þá hefur á árinu 1931 verið girt netgirðing með gaddavírsstreng yfir að lengd 384 m.

Tvær áburðargeymslur (forir) hafa verið byggðar á landinu, sú fyrri árið 1930 og hin síðari 1937. Jarðabótastyrkir á ræktun hafa verið kr. 829, 37 og á "forirnar" kr. 708.48.-.

Þar sem vitað er að mjög nákvæm úttekt var á öllum jarðabótum í Vestmannaeyjum vegna styrkveitinga skv. jarðræktarlögum telur Matsnefndin rétt að hafa hliðsjón af þeim í máli þessu, þar sem það á við.

Matsnefndin telur að áburðargeymslur þær sem byggðar hafa verið á landinu séu búnar að þjóna tilgangi sínum og væru ekki nýttar nú þó uppi hefðu staðið og telur þær að fullu afskrifaðar enda komnar til ára sinna.

Landið hefur verið vinnufrekt í ræktun sem sést af því mikla grjótmagni sem kemur uppúr því. Ef grjót það sem hefur farið í garðhleðslu er reiknað með verður magnið um 390 m3.

Matsnefndin hefur orðið sammála um eftirfarandi matsatriði og mat vegna lands Halldóru Þórólfsdóttur og er þá tekið tillit til jarðræktarstyrks sem veittur hefur verið til framkvæmda.

1.   Bætur vegna nýræktar   11720 m² á   30/-   kr.   351.600
2.   "   "   missi afnota
   og erfðaleiguréttinda   11720 m² á   150/-   "   1.758.000
3.   Bætur vegna girðinga      "   50.400
      Bætur samtals   kr.   2.160.000

og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 50.000.- í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 200.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vestmannaeyjabær, greiði eignarnámsþola Halldóru Þórólfsdóttur kr. 2.160.000.- og kr. 50.000.- í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 200.000.-.

Ár 1980, föstudaginn 18. júlí var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir málið:

                  Björgvin Jónsson, Úthlíð,
                  Vestmannabraut 58 A
                  Vestmannaeyjum
                  gegn
                  Vestmannaeyjabæ

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 12. ágúst 1979 hefur Jón Hjaltason, hrl., f.h. Björgvins Jónssonar farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metið verði hæfilegt endurgjald úr hendi Vestmannaeyjakaupstaðar fyrir töku kaupstaðarins á túni hans, auðkenndu nr. IV E á uppdrætti Búnaðarfélags Íslands, en stærð túnsins sé 19000 m².

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi eignarnema.

Þá er í málinu krafist sér mats á mannvirkjum öllum er standi á túni þessu.

Eignarnámsþoli skýrir svo frá, að tún þetta hafi gegn andmælum hans verið tekið af Vestmannaeyjabæ undir skipulag og þegar sé búið að byggja á túninu. Engar bætur hafi verið boðnar fyrir eignatöku þessa þegar frá sé skilið bréf bæjarlögmanns dags. 20. júlí 1973.

Eignarnámsþoli tekur fram, að þar sem Vestmannaeyjabær hafi látið hjá líða að bæta eignatöku þessa og allan tímann hliðrað sér hjá því að láta framkvæma eignarnámsmat, þótt bæjarfélagið hafi þegar tekið túnið og sett það undir byggingar, þá sé honum sú ein leið fær, að krefjast eignarnámsmats. Eignarnámsþoli kveður allt túnið hafa verið mjög vel ræktað.

Með beiðni eignarnámsþola fylgdi útdráttur úr þinglýstum lóðarleigusamningi dags. 25. sept. 1929 varðandi tún þetta.

Í greindum samningi segir, að landið sé leigt á erfðafestu til 75 ára eða til þess tíma, sem ákveðinn verði í jarðræktarlögum, frá fardögum 1929 að telja. Hin leigða landspilda sé 190000 m² að flatarmáli. Í 6. tölulið samningsins segir, að ef girðingum sé ekki við haldið eða leigulandið gangi úr sér að rækt svo til auðnar horfi, hvorttveggja eftir mati óvilhallra manna, falli landið aftur til ríkissjóðs án endurgjalds en ríkisstjórnin hafi forkaupsrétt að mannvirkjum þeim, sem kunni að vera á landinu önnur en ræktunarumbætur, eftir mati þar til kvaddra manna.

Þau ár sem leigutaka eru ætluð til að rækta landið greiðir hann enga leigu eftir það, en að þeim árum liðnum kr. 15.- fyrir hvern hektara á ári næstu 25 árin. Eftir þann tíma ákveður atvinnumálaráðherra leiguna. Árgjaldið greiðist í fardögum ár hvert í fyrsta sinn í fardögum 1935 og er tryggt með forgangsrétti í eigninni á undan öllum öðrum veðskuldum.

Með bréfi eignarnámsþola til eignarnema dags. 9. maí 1972 hefur eignarnámsþoli gert athugasemdir við skipulagið á landi hans og mótmælt því. Krefst hann þess að fá að halda erfðafestusamningi sínum eins og hann veiti honum frekast rétt til.

Með bréfi dags. 20. júlí 1973 til eignarnámsþola segir eignarnemi honum upp leigurétti að ræktunarspildu í Vestmannaeyjum, sem merkt er á uppdrætti Búnaðarfélags Íslands IV C og sem seld hafi verið honum á leigu með erfðafestusamningi dags. 25. sept. 1929. Ástæða uppsagnarinnar er tilgreind sú, að vegna atburða síðustu mánaða þurfi Vestmannaeyjabær nú á þessu landi að halda til skipulagningar og bygginga. Uppsögn þessi er sögð reist á heimild í 8. gr. leigusamningsins og er þess óskað, að eignarnámsþoli hafi sem fyrst samband við eignarnema til samninga um bætur fyrir ræktun og/eða mannvirki á landinu.

Með bréfi dags. 8. ágúst 1973 mótmælir lögmaður eignarnámsþola uppsögninni og segir að um óuppsegjanlegan erfðafestusamning til 75 ára sé að ræða frá 25. sept. 1929 að telja. Telur lögmaðurinn því uppsögnina markleysu.

Lögmaðurinn tekur fram, að ekki sé kunnugt um að neitt staðfest skipulag geri ráð fyrir opinberum byggingum á svæði því, sem umræddur erfðafestusamningur fjalli um og séu þess vegna ekki skilyrði fyrir töku túnsins skv. 8. gr. leigusamningsins.

II.

Af hálfu eignarnema hefur flutt mál þetta Jón Óskarsson, bæjarlögmaður. Hefur hann lagt fram greinargerð í málinu. Einnig var hann viðstaddur vettvangsskoðun.

Hann bendir á, að samningurinn um land þetta sé erfðafestusamningur til tiltekins tíma og landið sé leigt til túnræktar eingöngu en ekki til annarra afnota. Byggingar megi ekki gera á leigulandinu nema fengið sé sérstakt leyfi umboðsstjórnarinnar til þess. Hann segir að ekki hafi verið upplýst að eignarnámsþoli hafi fengið leyfi til að byggja safnþró á landinu né aðrar byggingar og komi því ekki til álita neinar bætur fyrir slíkt.

Telur eignarnemi augljóst, að með byggingu safnþróar á landinu hafi samningurinn um það verið brotinn. Þar sem landið hafi eingöngu verið leigt til túnræktar hafi verið óheimilt að byggja á því safnþró eða að hafa þar kálgarða.

Þá bendir eignarnemi á það, eins og áður segir, að landið sé leigt til ákveðins tíma og nú sé mikill tími liðinn af leigutímabilinu og taka beri tillit til þess við matið.

III.

Matsnefndin hefur gengið á vettvang og skoðað landið og allar aðstæður á staðnum.

Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust.

Matsbeiðandi hefur hafið mál þetta samkvæmt 6. grein laga nr. 11/1973, enda eignarnemi nú þegar tekið landið til sinna þarfa, og byrjað að úthluta því undir byggingar.

Matsmenn hafa eftir föngum kynnt sér mál þetta.

Land nr. 171, B.Í. IV E. Landstærð samkvæmt leigusamningi um erfðafestu 19000 m².

Landið, sem verið hefur mishæðótt hraunlendi, hefur verið erfitt í ræktun.

Úttektarskýrslur trúnaðarmanna Búnaðarfélags Íslands sýna að útteknar jarðabætur hjá Björgvini á árunum 1930/39 hafa verið 5630 m² í nýrækt og 120 m3 í grjótnámi. Á framkvæmdir þessar hefur verið veittur jarðræktarstyrkur samtals að upphæð kr. 518.93. Auk þess hefur á árinu 1934 verið veittur styrkur á áburðargeymslu (for) kr. 121.13.

Við vettvangsgöngu taldi Björgvin að helmingur landsins hefði verið ræktaður. Ennfremur upplýsti hann að netgirðing hefði verið á 3 vegu og grjótgarður á eina hlið. Öll vegsummerki þessara girðinga voru nú horfin.

Matsnefndin telur rétt að leggja úttektina og athugun á staðnum til grundvallar matinu og er þá tekið tilliti til þess jarðræktarstyrks, sem veittur hefur verið til framkvæmda. Ekki er lagt mat á áburðargeymslu þar sem nefndin telur hana að fullu afskrifaða og verðlausa.

Bætur ákveðast þannig:

1.   Bætur fyrir ræktun   9500 ferm á   28/-   kr.   266.000
2.   "   "   missi afnota
   og erfðaleiguréttinda   9500 ferm á   150/-   "   1.425.000
3.   Bætur fyrir girðingar      "   29.000
      Samt.   kr.   1.720.000

og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 50.000.- í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 200.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vestmannaeyjabær, greiði eignarnámsþola Björgvini Jónssyni, kr. 1.720.000.- og kr. 50.000.- í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 200.000.-.

.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum