Hoppa yfir valmynd
22. september 1980 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 22. september 1980

Ár 1980, mánudaginn 22. september, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Vegagerð ríkisins
                  gegn
                  eigendum Selfoss I, II og III,
                  Selfosshreppi

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 24. sept. 1979 hefur Vegagerð ríkisins farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metnar verði lögboðnar bætur vegna breikkunar vegsvæðis Eyrarbakkavegar um land jarðanna Selfoss I, II og III í Árnessýslu á árinu 1978. Gerir eignarnemi þá kröfu að til grundvallar mati sínu hafi matsmenn orðsendingu nr. 7/1980 um landbætur sbr. mskj. nr. 5, en til frádráttar á bótum komi þær hagsbætur bæði almennar og sérgreindar, sem eignarnámsþolum hlotnast við vegagerðina.

Eignarnemi skýrir svo frá, að á árinu 1978 hafi verið hafist handa við að leggja Eyrarbakkaveg bundnu slitlagi. Við framkvæmd þessa hafi vegurinn breikkað eilítið og orðið að færa út girðingar í landi jarðanna Selfoss I, II og III um ca. 7-10 m. og nemi heildarstærð lands frá þessum jörðum samtals 4772 m².

Viðræður við landeigendur hafi farið fram og bréfaskipti átt sér stað án þess að samkomulag hafi náðst um bætur fyrir landið. Hafi því verið ákveðið að afhenda málið Matsnefnd eignarnámsbóta til úrlausnar.

Til stuðnings þeirri kröfu sinni að einungis skuli bætt fyrir það land, sem fór undir breikkað vegsvæði Eyrarbakkavegar, sem búskaparland, tekur eignarnemi fram eftirfarandi.

Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. vegalaga nr. 6/1977 megi ekki staðsetja byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki, föst eða laus, nær vegi en 15 m. frá miðlínu þjóðbrauta og 30 m. frá miðlínu stofnbrauta, nema leyfi vegamálastjóra komi til.

Eyrarbakkavegur sé stofnbraut og hafi verið það einnig áður en breikkun hans kom til. Hafi því verið og sé óheimilt að setja mannvirki nær miðlínu hans en 30 m., þ.e. 60 m. svæði hafi verið og sé kvaðabundið og ekki heimilt að ráðstafa því til mannvirkjagerðar, nema með leyfi vegamálastjóra. Komi því alls ekki til álita að meta verðmæti þessa lands til jafns við valið byggingarland og breytist aðstaða landeigenda til nýtingar þessa lands í engu við breikkun vegsvæðisins. Tjón þeirra sé eingöngu við það bundið, að missa ræktað land undir vegsvæðið og beri því að miða bætur við það.

Eignarnemi bendir á, að samkvæmt fasteignamatsskrá komi fram að 8 ha. af túni jarðarinnar Selfoss I, séu metnir á kr. 1.721.000 eða kr. 21.51 pr. m². Á sama hátt séu 10 ha. af túni jarðarinnar Selfoss II metnir á kr. 2.151.000 eða kr. 21.51 pr. m².

Ljóst sé af þessu, að landið vestan Eyrarbakkavegar sé metið sem búskaparland, enda sé ekki fyrir hendi nein deiliskipulagning af því og óvíst hvenær eða hvort slíkt komi til.

II.

Mál þetta hefur flutt fyrir eignarnámsþolana Brandur Brynjólfsson, hæstaréttarlögmaður. Gerir hann þær kröfur, að umbjóðendum hans verði metnar ekki lægri bætur en kr. 1000.- pr. m² vegna breikkunar vegsvæðis Eyrarbakkavegar um land jarðanna Selfoss I, II og III í Árnessýslu á árinu 1978, auk málskostnaðar.

Ágreiningslaust er í málinu af hans hálfu að stærð landsvæðis þess sem hér um ræðir sé 4772 m².

Eignarnámsþoli segir að kröfur sínar byggist aðallega á hinu svokallaða byggingarsjónarmiði, þ.e.a.s., að líklegt framtíðar notagildi landsins sem tekið var eignarnámi sé til byggingarlóða og/eða athafnasvæðis fyrir ýmiskonar atvinnurekstur. Landið sé við mörk Selfosskaupstaðar og bygginga- og athafnasvæði í næsta nágrenni.

Lögmaður eignarnámsþola heldur því fram, að gögn frá Fasteignamati ríkisins vegi þungt um niðurstöðu málsins, en þar sé fasteignamat lóða við suðurenda Eyrarvegar um kr. 2.500.- pr. m². Fasteignamat þetta sé frá 25. nóv. 1979 en árlegar hækkanir á fasteignamati hafi undanfarin ár verið um 30-50% á lóðum í Reykjavík. Telur hann því sanngjarnt að miða við um 2/5 af gildandi fasteignamati.

Þá bendir lögmaðurinn á, að með eignarnáminu á árinu 1978 hafi tún eignarnámsþola verið skert og búrekstrarstaða hans verið rýrð. Þá bendir lögmaður eignarnámsþola á verð byggingalóða í Árbæjarhverfi norðan Ölfusár en þær hafi verið mjög eftirsóttar og söluverð þeirra margfalt fasteignamat lóða við sunnanverðan Eyrarveg.

III.

Matsnefndin hefur farið á vettvang og skoðað land það sem hér um ræðir. Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust. Aðilar hafa skýrt mál sitt fyrir nefndinni bæði í skriflegum greinargerðum og munnlega er málið var tekið til úrskurðar.

Eignarnámsheimildina er að finna í 59. gr. vegalaga nr. 6/1977. Viðfangsefni Matsnefndarinnar í þessu máli er að meta til fébóta landsvæði það er fór undir breikkunina á Eyrarbakkavegi en um stærð þess svæðis er ekki ágreiningur.

Í 59. gr. vegalaga segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það er þurfi undir vegi eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, svo og að leyfa, að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur sé grjót, möl eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skulu því aðeins greiddar, að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.

Eignarnemi hefur í máli þessu bent á það ákvæði 69. gr. vegalaga, að ekki megi staðsetja byggingar, leiðslur eða önnur mannvirki, föst eða laus, nær vegi en 15 m. frá miðlínu þjóðbrauta og 30 m. frá miðlínu stofnbrauta nema leyfi vegamálastjóra komi til. Ekki er ágreiningur um það í málinu að Eyrarbakkavegur er stofnbraut og hafi verið það einnig áður en til breikkunar hans kom. Var og er óheimilt að staðsetja mannvirki nær miðlínu hans en 30 metra. Samkvæmt því var og er 60 m. svæði við veg þennan kvaðabundið og ekki heimilt að ráðstafa því til mannvirkjagerðar, nema með leyfi vegamálastjóra. Skv. því sem nú segir og með vísan til ofangreinds lagaákvæðis var og er óheimilt að ráðstafa landsvæði því til mannvirkjagerðar, sem um ræðir og meta á í þessu máli.

Land eignarnámsþola er skipulagsskylt en engin deiliskipulagning hefur farið fram á því. Samkvæmt almennum reglum og viðtekinni skýringu á 30. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 ber landeigendum þegar deiliskipulagning fer fram að láta endurgjaldslaust af hendi til almenningsþarfa sem svarar 1/3 hluta af heildarflatarmáli þeirra lóða sem teknar eru eignarnámi.

Upplýst er í máli þessu, að með samningi dags. 29. febr. 1972 hafi eigendur Selfossjarðanna samþykkt að leyfa Selfosshreppi að leggja holræsi í gegnum land þeirra frá Eyrarvegi og niður í Ölfusá ásamt tilheyrandi mannvirkjagerð þar að lútandi. Land þetta er látið af hendi til afnota fyrir Selfosshrepp óafturkallanlega um alla framtíð. Greiðsla fyrir land þetta 29. febr. 1972 var kr. 60.- pr. m² og telur lögmaður eignarnámsþola að það mundi samsvara í dag kr. 600.- pr. m².

Skv. staðfestum skipulagsuppdrætti frá 1978 um skipulag Selfoss árin 1978 til 1999 er þetta landsvæði Selfossjarða talið varasamt til bygginga vegna flóðahættu.

Af landsvæði því, sem um ræðir í þessu máli hafa 2972 m² verið fullræktað tún, 1800 m² er beitiland, sem hefir verið nýtt sem landbúnaðarland. Byggingar hafa ekki staðið á landinu, sem var afgirt.

Landsvæði þetta er eins og áður segir skipulagsskylt en deiliskipulagning hefur ekki farið fram á því.

Við ákvörðun bóta fyrir land þetta þykir rétt að taka tillit til þess, að sú kvöð hvílir á landinu að ekki má byggja á því, nema með leyfi vegamálastjóra. Með hliðsjón af því telur nefndin ekki rétt að meta land þetta sem byggingaland.

Matsnefndinni er kunnugt um verð og möt á landi víðsvegar um landið.

Þegar tekið er tillit til þeirra atriða sem að framan eru rakin, verðs á sambærilegu landi við svipaðar aðstæður, verðbreytinga og annarra atriða, sem Matsnefndin telur hér skipta máli, telur Matsnefndin hæfilegt að meta land þetta þannig:
1.   Grunnverð lands, nettóræktunarkostnaður
   og afurðatjónsbætur í 2 ár, 2972 ferm,
   metið á kr. 125.- pr. m², eða .............................   kr.   371.500.-
2.   Grunnverð óræktaðs lands, 1800 ferm,
   metið á kr. 20.- pr. m², eða ...............................   "   36.000.-
      Samtals   kr.   407.500.-

og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþolum kr. 100.000.- í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 200.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþolum, eigendum jarðanna Selfoss I, II og III, þeim Sigrúnu Arnbjarnardóttur, Guðrúnu Sigurgeirsdóttur, Sigurgeiri Höskuldssyni, Bjarna Sigurgeirssyni og Gunnari Gunnarssyni kr. 407.500.- og kr. 100.000.- í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 200.000.-.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum