Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 1980 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 14. nóvember 1980

Ár 1980, föstudaginn 14. nóvember var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir málið:

                  Jón Hjaltason, hrl. f.h.
                  erfingja Högna Sigurðssonar
                  gegn
                  Flugmálastjórn ríkisins

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 30. september 1979 hefur Jón Hjaltason, hrl. f.h. erfingja Högna Sigurðssonar frá Vatnsdal í Vestmannaeyjum, farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metið verði eftir matsreglum um eignarnám hæfilegt endurgjald úr hendi Flugmálastjórnar ríkisins fyrir töku Flugmálastjórnarinnar á túni þeirra, B.Í. nr. 21, undir flugvöll í Vestmannaeyjum. Þá er krafist málskostnaðar fyrir Matsnefndinni.

Landsvæði það er um ræðir er samkvæmt erfðafestusamningi dags. 15. september 1928, 22880 m² að flatarmáli. Er sagt að það hafi allt verið ræktað tún er það fór undir flugvallarendann.

Eignarnámsþolar sem eiga kröfuréttinn í óskiptri sameign segjast hafa allt frá því fyrir lá að flugbrautarendinn færi yfir túnið leitað eftir bótum fyrir það, eða frá árinu 1972, en án árangurs. Þar sem Flugmálastjórnin hafi ekki átt frumkvæðið að því að láta eignarnámsmat fara fram verði eignarnámsþolar að biðja um matið.

Í leigusamningnum um landið dags. 15. sept. 1928 segir m.a. á þessa leið:

Högna Sigurðssyni sé leigð til túnræktar landspilda sú sem um ræðir í samningnum. Landið sé leigt á erfðafestu til 75 ára, eða til þess tíma sem ákveðinn verður í jarðræktarlögum, frá fardögum 1927 að telja. Hin leigða landspilda sé 22880 m² að flatarmáli og auðkennd á uppdrætti Búnaðarfélags Íslands dags. 11. nóv. 1927 með tölunni 21.

Landið er leigt til túnræktar en ekki til annarra afnota. Byggingar má ekki gera á leigulandinu, nema fengið sé sérstakt leyfi umboðsstjórnarinnar til þess. Leigutaki skal hafa girt leigulandið gripheldri girðingu áður en ár er liðið frá því landið er honum útmælt, ella fellur landið aftur til ríkissjóðs án endurgjalds. Við þennan tölulið stendur á spássíunni, landið er að nokkru leyti ræktað.

Á hverju ári skal leigutaki rækta til túns ekki minna en helming landsins þannig að landið sé fullræktað á næstu tveimur árum eftir að útmæling fór fram. Þau ár sem leigutaka eru ætluð til að rækta landið greiðir hann enga leigu eftir það en að þeim árum liðnum 15 kr. fyrir hvern hektara á ári næstu 25 árin. Eftir þann tíma ákveður atvinnumálaráðherra leiguna. Árgjaldið greiðist í fardögum ár hvert, í fyrsta sinn í fardögum 1930 og er tryggt með forgangsrétti í eigninni á undan öllum öðrum veðskuldum. Afgjaldið má taka lögtaki.

Í 8. tölulið leigusamningsins segir á þessa leið: "Þarfnist bæjarfélagið, ríkissjóður eða einstakir menn landsins til sérstaks atvinnurekstrar er leigutaka skylt að láta af hendi leigurétt sinn ef umboðsmaður mælir með því og Atvinnumálaráðuneytið samþykkir það, hvort heldur er að öllu landinu eða nokkrum hluta þess, gegn 2.500.- kr. gjaldi fyrir hvern ræktaðan ha. Þó geta aðilar krafist mats ef þeir vilja eigi sæta þessum kjörum. Nú eru byggingar, girðingar eða önnur slík mannvirki í þeim hluta landsins, sem umboðsstjórnin krefst sér afhent, og skal þá greiða eiganda þeirra að auki andvirði þeirra eftir mati tveggja óvilhallra dómkvaddra manna."

Með þessum takmörkunum er leigutaka heimilt að selja leigurétt sinn, veðsetja hann eða ráðstafa honum á annan hátt, þó að áskyldu samþykki umboðsvaldsins, ef um sölu, veðsetningu eða aðra ráðstöfun leiguréttar á lóðarhluta er að ræða.

II.

Með mál þetta hefur farið fyrir hönd eignarnema, Flugmálastjórnar ríkisins, Jóhannes L.L. Helgason, hrl., sem getur fallist á f.h. umbjóðenda sinna, að matið verði látið ná til landsins alls svo sem krafist er, þrátt fyrir að nokkur hluti landsins sé óskertur af flugbraut.

Þá gerir eignarnemi þá kröfu, að landið verði einvörðungu metið á grundvelli notkunar þess og verðmætis sem ræktunarlands.

Þá mótmælir hann kröfu matsbeiðanda á mskj. nr. 6 um að mat á landi Heiðabæjar í okt. 1975 verði lagt til viðmiðunar mati þessu, þar sem hann telur að mat þetta hafi ekki fordæmisgildi, svo sem fram kemur á mskj. nr. 9. Um verðmæti landsins tekur eignarnemi fram: Matsbeiðendur upplýsa að túnið hafi verið nytjað allt fram á árið 1973, en þá var flugbrautin þegar komin inn á túnið sbr. mskj. nr. 5, bréf Jóns Hjaltasonar til Flugmálastjórnar dags. 30. ágúst 1973. Þá telur eignarnemi að leggja eigi til grundvallar verðmæti landsins eins og það er, þegar matið fer fram.

Verulegan hluta landsins telur hann ennþá nýtanlegan þrátt fyrir flugbrautina, og hafi verið það alla tíð. Þá telur hann að erfðafestuhafar hafi ekki nýtt landið, og sé það ekki lengur í fullri rækt.

Þá bendir eignarnemi á þær breytingar sem hafa orðið á búskaparháttum í Eyjum eftir gos, m.a. minni nýting túna vegna minnkandi skepnuhalds, og telur, að þetta eigi að verka til lækkunar á mati á túni. Girðingar telur eignarnemi lélegar og að þeim hafi ekki verið haldið við, og beri að miða matið við ástand þeirra nú.

III.

Matsnefndin gekk á vettvang þann 6. júní 1980 og skoðaði landið og allar aðstæður á staðnum. Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust.

Matsbeiðandi hefur hafið mál þetta skv. 6. gr. laga nr. 11/1973, enda hefur eignarnemi nú tekið hluta af landinu undir framlengingu á flugbraut. Matsmenn hafa eftir föngum kynnt sér mál þetta.

Landið er á uppdrætti Búnaðarfélags Íslands auðkennt með tölunni 21.

Samkvæmt erfðaleigusamningi Högna Sigurðssonar í Vatnsdal, dags. 15. sept. 1928 er landsstærð 22880 m² og tekið fram, að landið sé að nokkru leyti ræktað, enda er samningur þessi frábrugðinn öðrum samningum sem gerðir eru um ræktunarlönd á Vestmannaeyjajörðum, að því er tekur til lengd þess tíma sem leigulandið á að ræktast á, sem er hér 2 ár, í stað 5 ára annars.

Samkvæmt skrá Búnaðarfélags Íslands yfir útteknar jarðabætur, er nýrækt Högna á árinu 1928, talin 0.320 ha. og á árinu 1929 0.875 ha., eða samtals 1.195 ha. Svarar þetta mjög vel til þess er segir í samningnum að leigutaki skuli rækta eigi minna en hálfan hluta af landinu á ári, þannig að það sé fullræktað á tveimur árum. Styrkur á þessar framkvæmdir var kr. 306.85.

Leigutaka bera bætur fyrir þær framkvæmdir sem hann hefur gert á landinu skv. erfðaleigusamningi.

Matsnefndin hefur talsvert mikla vitneskju um sölur og möt á lóðum og lendum víðsvegar um landið. Þegar tekið er tillit til þeirra atriða, sem að framan eru rakin, verðs á sambærilegu landi, verðbreytinga og annarra atriða, sem Matsnefndin telur hér skipta máli telur Matsnefndin hæfilegt að meta eignir þær, sem hér um ræðir þannig:

1.   Bætur fyrir ræktað land sem notið hefur
   styrks, 11950 fermetrar á kr. 25 ...........................   kr.   298.750
2.   Bætur fyrir missi afnota og erfðaleigu-
   réttinda á 22880 m² á kr. 180 ...........................   "   4.118.400
3.   Bætur fyrir 5 str. vírgirðingu ................................   "   105.850
4.   Bætur fyrir girðingar með undirhleðslu ...............   "   50.000
      Bætur samtals   kr.   4.573.000

og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir að eignarnemi greiði samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 eignarnámsþolum kr. 300.000 í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 400.000.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Flugmálastjórn, greiði eignarnámsþolum Jóni Hjaltasyni, hrl. f.h. erfingja Högna Sigurðssonar kr. 4.573.000 og kr. 300.000 í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 400.000.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum