Hoppa yfir valmynd
17. nóvember 1980 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 17. nóvember 1980

Ár 1980, mánudaginn 17. nóvember var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir málið:

                  Hreppsnefnd Ketildalahrepps
                  Vestur-Barðastrandarsýslu
                  gegn
                  Björgvini Einarssyni
                  eiganda Hringsdals

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir, að með kaupsamningi dags. 1. desember 1978 selur Björgvin Einarsson, Ísól h/f, Skipholti 17, Reykjavík, jörðina Hringsdal í Ketildalahreppi í V-Barðastrandarsýslu. Umsamið kaupverð var kr. 6.250.000. Kaupverðið skyldi greiðast þannig, að við undirskrift kaupsamning voru greiddar kr. 1.500.000, hinn 15. febr. 1979 kr. 2.500.000, hinn 1. mars 1979 kr. 2.230.512, en auk þess skyldi kaupandi yfirtaka áhvílandi lán á jörðinni við Búnaðarbanka Íslands að upphæð kr. 19.488.-.

Kaupsamningur þessi var háður skilyrðum um samþykki hreppsnefndar og jarðanefndar á sölunni. Með bréfi dags. 1. desember 1978 var oddvita Ketildalahrepps sendur kaupsamningurinn um jörðina og sveitarsjóði Ketildalahrepps boðinn forkaupsréttur á henni skv. jarðalögum nr. 65/1976, á því söluverði og greiðslukjörum er greinir í umræddum kaupsamningi.

Með bréfi dags. 28. desember 1978 tilkynnir oddvitinn umboðsmanni seljanda, að á fundi sínum 27. desember hafi hreppsnefndin rætt bréf hans og kaupsamninginn um jörðina Hringsdal. Væri hreppsnefndin sammála um, að með því að heldur gerðist sveitarþröngt í sveitinni væri æskilegt að hreppurinn gæti sjálfur tryggt sér eignar eða umráðarétt yfir eyðijörðum í sveitinni. Áskyldi hreppsnefndin sér því frekari frest til að kanna rétt sinn í þessu efni og athuga möguleika sína á að neyta forkaupsréttar síns.

Með bréfi dags. 8. janúar 1979 óskaði umboðsmaður seljanda eftir samþykki jarðanefndar á sölu jarðarinnar Hringsdals í Ketildalahreppi. Með bréfi dags. 20. febr. 1979 tilkynnti jarðanefndin seljanda, að vel athuguðu máli gæti jarðanefndin ekki gefið samþykki sitt fyrir þessari sölu til aðila utan Ketildalahrepps, þar sem hreppsnefndin teldi að bændur viðkomandi sveitar hafi fulla þörf á nefndri jörð til nytja. Á framangreindum forsendum neitaði jarðanefnd V-Barðastrandarsýslu um samþykki sitt á þessari fyrirhuguðu sölu.

Með bréfi dags. 7. mars 1979 óskaði umboðsmaðurinn eftir því við oddvita hreppsins, að hann sendi staðfestingu á því, að Ketildalahreppur ætlaði að nota sér forkaupsréttinn að jörðinni Hringsdal. Með bréfi dags. 9. apríl 1979 endurkrafði kaupandinn Ísól h/f eiganda jarðarinnar um þær kr. 1.500.000, sem greiddar höfðu verið við undirritun kaupsamningsins.

Með stefnu dags. 18. september 1979 höfðar svo Björgvin Einarsson mál fyrir aukadómþingi Barðastrandarsýslu gegn hreppsnefnd Ketildalahrepps og krefst þar greiðslu á kr. 6.250.000 ásamt vöxtum og málskostnaði, allt gegn útgáfu stefnanda á afsali fyrir jörðinni Hringsdal, Ketildalahreppi.

Hinn 23. október 1979 var á aukadómþingi Barðastrandarsýslu tekið fyrir málið: Beiðni oddvita Ketildalahrepps um dómkvaðningu matsmanna til að meta jörðina Hringsdal til peningaverðs. Í úrskurði Jóhannesar Árnasonar, sýslumanns, sem upp var kveðinn samstundis segir á þessa leið: "Með vísun til gagna málsins og vegna framkominna mótmæla, svo sem rakið hefur verið, ber að synja beiðni um dómkvaðningu matsmanna, þar sem forkaupsréttarhafa ber, skv. 2. mgr. 25. gr. jarðalaga, að krefjast mats innan 15 daga frá því að tilboð barst og upplýst er að lengri tími leið frá því að bréf Helga Ólafssonar, löggilts fasteignasala dags. 1. desember 1978 barst oddvita og þar til matsbeiðnin er send 17. september 1979, sbr. bréfið dskj. nr. 1."

Með hliðsjón af framangreindu sendi Sigurður Baldursson, hrl., bréf dags. 30. júní 1980 til Matsnefndar eignarnámsbóta og segir í bréfinu á þessa leið: "Ég leyfi mér f.h. hreppsnefndar Ketildalahrepps í V-Barðastrandarsýslu að fara þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta að jörðin Hringsdalur í Ketildalahreppi verði metin til peningaverðs skv. ákvæðum 2. gr. laga nr. 11/1973 og 8. gr. laga nr. 65/1976.

Hér með sendist heiðraðri Matsnefnd eintak af skjölum málsins: Björgvin Einarsson gegn Ketildalahreppi og vísast um rökstuðning til greinargerðar minnar í því máli á rskj. nr. 14."

Í greinargerð lögmannsins í matsmálinu segir á þessa leið:

"Eignarnámsheimild umbj. míns styðst við þá kröfu matsþola, að Ketildalahreppur kaupi jörðina Hringsdal í Ketildalahreppi.

Umbj. minn telur, eins og fram kemur í greinargerð minni á rskj. 14 í aukadómþingsmáli matsþola gegn umbj. mínum, að með mál þetta skuli fara eftir 8. gr. laga nr. 65/1976.

Fyrir liggur, að Ísól h.f., sem gerði kaupsamning um jörðina Hringsdal 1. desember 1978, sbr. rskj. 3, hætti við kaupin af ástæðum sem umbj. minn getur ekki borið ábyrgð á. Málið snýst því ekki lengur um það, að umbj. minn gangi inn í kaup skv. 25. grein jarðalaga, heldur um þá kröfu eignarnámsþola, að umbj. minn leysi til sín jörðina, og hljóta þá að gilda ákvæði 8. greinar jarðalaga með vísan til 4. gr. laga nr. 11/1973.

Eignarnámið lýtur að sjálfri jörðinni Hringsdal með mannvirkjum, gögnum og gæðum, svo sem vettvangsganga og skoðun mun væntanlega leiða í ljós."

II.

Mál þetta hefur flutt fyrir Matsnefndinni v/Björgvins Einarssonar, Kristinn Björnsson, héraðsdómslögmaður. Í greinargerð sinni í málinu lýsir hann þeirri skoðun umbj. síns, að Matsnefnd eignarnámsbóta hyggist ákvarða kaupverð jarðarinnar Hringsdals í Ketildalahreppi skv. 8. gr. laga nr. 65/1976, þá beri nefndinni að taka mið af kaupverði í kaupsamningi umbj. hans og Ísól h/f dags. 1. des. 1978 að viðbættum eðlilegum verðbótum á þá fjárhæð í samræmi við verðlagshækkanir til dagsins í dag. Þá gerir hann kröfu um málskostnað úr hendi Ketildalahrepps í samræmi við lágmarksgjaldskrá L.M.F.Í.

Lögmaðurinn skýrir svo frá, að Ísól h/f hafi hætt við kaupin á jörð þessari vegna sýnilegrar mótstöðu hreppsnefndar og jarðanefndar. Umbj. hans hafi þótt rétt og sanngjarnt að samþykkja að Ísól h/f dragi sig út úr samningnum, enda hafi hann staðfastlega verið í þeirri trú að hreppurinn myndi ganga inn í kaupin skv. kaupsamningi þeim sem gerður hafði verið. Það hafi ekki verið fyrr en með bréfi sínu dags. 24. maí 1979, að oddviti hreppsins hafi minnst á, að kaupverð jarðarinnar væri of hátt. Segja megi með sanni að þessi málsástæða hafi komið umbj. hans í opna skjöldu. Ef þessi afstaða hreppsnefndar hefði verið kunn frá fyrstu tíð megi ætla að umbj. hans hefði ekki samþykkt að leysa Ísól h.f. undan samningnum, heldur hefði hann bent á, að hreppsnefndin hefði ekki svarað bréfi hans dags. 1. desember 1978 í samræmi við 7. gr. jarðalaga eða innan 30 daga. Bréf hreppsnefndar dags. 28. janúar 1979 hafi verið alveg ólögmæt afgreiðsla á erindi seljanda jarðarinnar, því þar áskilji oddvitinn sér frekari frest til ákvörðunartöku en fyrir því sé enginn bókstafur í lögum.

Þannig mætti einnig afgreiða jarðanefnd sýslunnar, því að svarbréf hennar hafi borist 42 dögum eftir að henni var skrifað. Seljandi jarðarinnar hafi því í grandaleysi tekið þá ákvörðun, að endurgreiða Ísól h/f þegar greidda peninga og selja hreppnum jörð sína.

Það hafi svo ekki verið fyrr en í ljós kom að hreppurinn vildi ekki greiða seljanda kaupverðið skv. kaupsamningi að ákvörðun hafi verið tekin um málshöfðun. Sáttatilraunir hafi verið reyndar áður en árangurslaust.

Nú virðist það vera skoðun hreppsnefndar, að þar sem seljandi hefði gert góð kaup á jörðinni árið 1972 sé óeðlilegt að hann geti selt hana vel 6 árum síðar, en þar sé um hreint markaðsverð að ræða. Það sé staðreynd að kaupsamningur sá, sem gerður var við Ísól h/f sé í alvöru gerður af báðum aðilum og alls ekki þar verið að reyna að komast framhjá forkaupsrétti hreppsins. Telur seljandi það ótrúlegt að óreyndu að jörð á borð við þá sem hér um ræðir verði ekki metin hærra til peningaverðs en notuð bifreið. Þegar seljandi hafi keypt jörðina 1972 hafi verið erfiðir tímar fyrir afskekkt sveitarfélög á vestfjörðum. Í dag séu samgöngur allt aðrar og betri en þá t.d. flugvellir bæði á Bíldudal og í Selárdal.

III.

Matsnefndin hefur farið á vettvang og skoðað jörð þá, sem hér um ræðir. Skoðuð voru uppistandandi hús og farið um mikinn hluta landsins, og séð yfir allt landið.

Sátt var reynd en árangurslaust.

Eignarnámsheimild eignarnema er að finna í 8. gr. jarðalaga nr. 65/1976, sbr. 21. gr. og 23. gr. sömu laga. Ekki eru í 8. grein laganna hliðstæð ákvæði við 25. grein laganna, heldur segir í 8. gr., að kaupverð eignarinnar skuli ákveðið samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973.

Lög nr. 61/1917 um framkvæmd eignarnáms voru afnumin með lögum nr. 11/1973. Ekki er talið, að með afnámi hinna fyrri laga hafi út af fyrir sig átt að breyta reglum um ákvörðun á fjárhæð eignarnámsbóta. Í lögum frá 1917 segir, að matsverð eignar skuli miðað við gangverð, sem eignin mundi hafa í kaupum og sölum. Í ýmsum lögum eru ákvæði um fjárhæð eignarnámsbóta, sbr. 140. gr. vatnalaga, 29. gr. skipulagslaga o.fl. Hins vegar hefur Matsnefnd eignarnámsbóta frjálsari hendur skv. lögum nr. 11/1973, en matsmenn höfðu skv. lögunum frá 1917.

En telja verður að meginregla ísl. laga um ákvörðun eignarnámsbóta komi fram í 29. grein skipulagslaga og 61. gr. vegalaga, sbr. 67. gr. stjórnarskrárinnar.

Í 61. gr. vegalaga segir, að við matið skuli taka tillit til árlegs afrakstrar af landi því sem um ræðir, og athuga beri vandlega allt það er geti haft áhrif á verðmæti þess, er meta skuli. Í 29. gr. skipulagslaga segir m.a., að við þar tilgreindar ástæður sé sveitarstjóra skylt að kaupa eign fullu verði, og einnig að miða beri við þann arð, sem telja megi, að eðlileg notkun eignarinnar gefi af sér.

Hringsdalur er lítill dalur til sv. í fjallgarðinum að sunnanverðu við Arnarfjörð í Ketildalahreppi. Dalur þessi er allur heldur hálendari en næstliggjandi dalir í hreppnum. Lengd hans frá sjó og að 300 m. hæðarlínu fram undir dalbotni er um 4 km. Hringsdalurinn er umleikinn 600-650 m. háum hlíðbröttum fjöllum á 3 vegu. Mesta vídd hans spannar um 1450-1500 m. á milli fjallseggja. Rétt við dalsmynnið er hann um 1250 m. breiður sé miðað við 100 m. hæðarlínu, og við 200 m. hæðarlínu er víddin um 1350 m. Eru þarna þverbrattir hamranúpar. Um 2 km. frá sjó er dalbreiddin nálægt 450 m. í 100 m. hæð y.s.

Eftir endilöngum Hringsdal liðast samnefnd á. Lengd hennar að sjó er um 4.3-4.4 km. Kvíslar hennar eru tvær innst í dalnum um 300 m. y.s. en sameinast nokkru utar. Farvegur Hringsdalsár nær góðu falli nokkru áður en dregur fram undir ós hennar við Arnarfjörð, skammt ofan brúar á vegi. Gætir þar umtalsverðs stórgrýtis og umróts, sem bendir til, að áin muni geta vaxið töluvert í vorleysingum. Að jafnaði er þó rennsli í ánni lítið. Við vettvangsgöngu áleit Matsnefndin að vatnsrennslið hefði þá verið um 100 l/sek. Telur hún ekki óhugsanlegt að ána mætti virkja þar sem fall hennar er mest, og ná úr henni allt að 20 kw. afli.

Hringsdalsá er nú talin fisklaus, en að sögn gekk silungur í hana þar til fyrir fáeinum árum. Var áin þá stífluð fram í dalnum. Upplýst var, að sú stífla hefði brostið og eftir það hafi fiskur horfið með öllu. Bærinn Hringsdalur stendur fram undir dalsmynninu að austanverðu við Hringsdalsá og er eina býlið í dalnum. Þar mun búskap hafa verið hætt laust fyrir 1960, að því er upplýst hefur verið, og jörðin ekki setin síðan. Um stærð jarðarinnar er Matsnefnd ekki kunnugt, en vettvangsgangan leiddi í ljós að þar virtist landþröngt og undirlendi það takmarkað, að jörðin leyfir ekki stóran bústofn. Samkvæmt athugun á kortum virðast rösklega 90 ha. vera neðan 60 m. hæðarlínu. Á milli 60 og 100 m. hæðarlínu virðast vera um 80 ha. og á milli 100 og 200 m. hæðarlínu er 90-100 ha. Gróflega áætlað eru þannig um 265-275 ha. lands neðan 200 m. y.s., ýmist gróið eða gróðurvana.

Til ræktunar virðast landkostir bæði illa lagaðir og rýrir enda er víðast hvar jarðgrunnt og mjög grýtt. Að austanverðu við Hringsdalsá er útjörð í meira lagi mosagróin með strjálingi af frekar gisnum grassverði og lynggróðri. Haglendi virðist þar snöggt en fer þó batnandi er fram á dalinn sækir.

Vestan árinnar, næst henni, eru gróðurlausar melaræmur, en á milli þeirra og fjallsróta er nokkuð um gróið land. Hlíðar fjalla virðast á blettum allvel grónar neðst, ofar eru þær skriðrunnar og fljótlega hömróttar. Inn undir miðbiki dalsins vestan ár, tekur við mýrlendisskák neðan urða fjallshlíðarinnar, sem hugsanlega mætti taka til ræktunar ef framræst væri. Í stuttu máli virðist gróðurlendi jarðarinnar til beitar mjög takmarkað, hvort heldur er gras eða annar æðri gróður, og á vettvangsgöngu vottaði vart fyrir hrís, en dalurinn mun hafa verið nefndur Hrísdalur áður fyrr.

Við gróflega áætlun út frá korti gæti sæmilegt haglendi numið allt að 170-180 ha. í Hringsdal.

Sigurður Sigurðsson fv. búnaðarmálastjóri, sem ferðaðist um Ketildalahrepp sumarið 1920, komst þannig að orði um jörðina Hringsdal í skýrslu sem birt var, að hún væri hrjóstrug jörð og að erfitt væri um vik að gera jarðabætur sakir þess hversu landið væri grýtt og seinunnið. Hann undraðist þó túnbætur þær og myndarleg mannvirki, sem gerð höfðu verið á jörðinni. Samkvæmt fasteignabók um býli, sem útgefin var árið 1942, nam bústærð þá í Hringsdal um 220 ærgildum. En upplýst er að þar sé frábær fjörubeit meðfram Arnarfirði og gróðurlendi talið kjarngott, þótt snöggt virðist við sýn.

Samkvæmt skýrslum Búnaðarfélags Íslands um jarðabætur í Hringsdal, mun ræktað tún, rétt áður en búsetu jarðarinnar lýkur, hafa numið 6 ha. Til viðbótar voru matjurtagarðar um 605 m² undir bökkum út undir sjó. Túnið, sem hýsir öll mannvirki jarðarinnar, og nær fram að vegi skammt undan sjó, er mjög óslétt og víða stórþýft og grýtt. Mjög takmarkaður hluti þess hefur verið véltækt, eins og fram kemur í skýrslu trúnaðarmanna Búnaðarfél. Íslands árið 1944. En hann telur þá túnþýfið um 3.48 ha. Í bréfi ábúanda og þáverandi eiganda, Bjarna H. Finnbogasonar til B.Ísl. dags. 21. febr. 1957 upplýsti hann, að í Hringsdal hafi ekki verið véltækur blettur til árið 1952, hvorki í gamla túninu né nýræktinni.

Samkvæmt jarðabótaskýrslum B.Ísl. var túnið girt og styrkur veittur út á 1113 lmtr. í girðingum á tímabilinu 1950-1954. Grjótnám við ræktun hefur numið 144 m3, en það hefur verið notað til að girða túnið á 3 vegu ásamt vírstrengjum ofan á, eins og nú ónýtar menjar þeirra bera vitni um. Framlag á jarðræktarframkvæmdir og mannvirkjagerð í Hringsdal greitt af Búnaðarfélagi Íslands, nam á árunum frá 1925 og fram til 1957 samtals kr. 30.216.93. Þar af fóru 13.120 kr. til ræktunar, um 10.960 kr. til vélgrafinna skurða, sem voru 1218 lmtr. (árið 1956), og 6.136 kr. til hlöðubygginga fyrir þurr- og vothey.

Girðingar umhverfis tún Hringsdals eru nú að mestu úr sér gengnar og fallnar og túnið því algjörlega ófriðað, enda óáborið og ónýtt til slægna um árabil. Er því eigi unnt að meta það til verðgildis á annan hátt en sem vel gróið land í besta beitarflokki.

Í túni Hringsdals standa eftirfarandi mannvirki sem nú skal stuttlega lýst.

Íbúðarhús:   Flatarmál 60 m², rúmmál 300 m3. Húsið var upprunalega úr timbri og járnvarið, byggt laust eftir aldamót. Árið 1952 var það endurbætt, en þá voru steyptir utan um það 8" veggir. Var þetta mjög vel gert, skv. upplýsingum sem skráðar eru hjá Byggingastofnun landbúnaðarins. Eru útveggir hússins sterklegir að sjá og virðast þeir hvergi farnir að gefa sig. Áfast íbúðarhúsi við sv. hlið þess er 2 x 5 m. að mestu leyti gólflaus léleg viðbygging, klædd asbestplötum á þétta óeinangraða timburklæðningu. Kjallari rétt manngengur, er undir nyrðri enda húss. Stærð hans eru rösklega 12 m² (20 m3), moldargólf. Hefur hann verið notaður sem geymslurými fyrir rótarávexti og aðra matvöru. Aðeins er innangengt utanfrá í þessa geymslu. Á hæð íbúðarhúss, sem gengið er inn í um gang í viðbyggingu, er komið inn í all rúmgóðan innri gang. Þar er geymslupláss ásamt bröttum stiga í íbúðarris. Á hæðinni er eldhús með allstóru búri til hliðar. Í eldhúsi er borð meðfram endilöngum útvegg. Í því er vaskur, 5 skápar og 3 skúffur. Við nv. enda borðs er skápur úr lofti í gólf. Til hliðar við borð er olíueldavél sem breytt hefur verið úr kolaeldavél, sem hitar upp allt húsið. Dúkur er á gólfi en timburgólf er í öllu húsinu. Til viðbótar á hæð eru 2 herbergi. Eru vistarverur ýmist klæddar masonitplötum eða panel á veggjum, en loft timburklætt. Rishæð er öll undir súð. Þar eru þrjú herbergi ásamt rúmgóðum palli framan við stiga. Er kvistur á einu herbergjanna fyrir miðju húsi. Tvö herbergjanna eru ýmist klædd masonitplötum eða veggfóðri með nýlegum dúki á gólfi. Eitt herbergið er óklætt, en þar eru plötur fyrir hendi og timbur á gólfi. Í vistarverum hússins eru alls 6 fjögurra leggja miðstöðvarofnar. Á íbúðarhúsi er allgott þakjárn, en lélegt á viðbyggingu. Um einangrun húss er lítið vitað. Íbúðarhúsið er málað að utan. Að áliti Matsnefndar eru vistarverur íbúðarhússins ekki í nothæfu ástandi fyrir fasta búsetu. Hins vegar mætti með kostnaðarlitlum umbótum gera húsið vistlegt sem íverustað að sumarlagi.

Peningshús, 34 m², er skammt vestan íbúðarhúss. Steypt að hluta til, en áföst við er 22 m² viðbygging, að hluta úr timbri og steinsteypu. Þak er þétt klætt á 6" borð undir málað þakjárn sem tekið er að ryðga. Á peningshúsi eru 5 gluggar. Í því eru 5 básar með einföldum milligerðum úr timbri. Byggingin er í nothæfu ástandi. Sama gildir um steyptan votheysturn við enda á gripahúsi. Flatarmál hans er 3 x 3 m., hæð röskir 5 m. Rúmmál 45-50 m3. Þak klætt járni, op á hlið.

Í na. á túni stendur hlaðið fjárhús (torf, grjót) sem gæti hafa rúmað á annað hundrað fjár. Húsið er fallið og með öllu verðlaust. Áfast gafli fjárhússins er hlaða, 7 x 8 m. að grunnfleti. Tveir veggir hennar eru steyptir í 4 m. hæð, en hinir tveir eru timburklæddir. Rishæð 5 m. Rými 265 m3. Þakjárn á 1/4 hl. þaks virðist gott, en er tekið að ryðga á öðrum hlutum þess. Við syðri gafl hlöðu eru 2 steyptar gryfjur til verkunar á votheyi. Ná þær þvert fyrir gafl. Nothæfar. Samkvæmt jarðabótaskýrslum Búnaðarfélags Íslands mun hlaðan hafa verið reist árið 1955 og var þá búin súgþurrkun. Nam ríkisframlag á þessar framkvæmdir rösklega 2200 kr. Er jarðarhús þetta í þokkalega nothæfu ástandi.

Tveir torfhlaðnir kofar með þakjárni standa í námunda við lækjarsitru, sem rennur þvert í gegn um túnið. Var annar notaður sem hrútakofi, en hinn sem brunnhús, sem síðar var breytt í reykhús. Kofar þessir eru verðlausir að áliti Matsnefndar.

Girðing. Norðan túns meðfram vegi eru slitrur af um 280 m. langri girðingu. Hafa þar verið 5-6 strengir gaddavírs og að hluta til netgirðing á tréstaurum með 5-6 m. bili. Margir staurar eru þegar mjög feysknir og efniviðurinn í heild ekki talinn matshæfur að áliti Matsnefndar.

Hlunnindi.

Í Fasteignamatsbók 1942 eru í Hringsdal skráð eftirfarandi hlunnindi á landi og í sjó: Mótekja, beitutekja og útræði. Á vettvangsgöngu upplýstu málsaðilar að lítilsháttar sjóbirtingsveiði hefði verið fyrr á árum. Einnig annar fiskur, á meðan útræði var stundað í Arnarfirði. Það upplýstist einnig að hrognkelsaveiði væri í firðinum, þó mun utar en fyrir Hringsdalslandi. Um malar- eða sandtekju, eða aðra söluvöru í landi Hringsdals, kváðu aðilar að ekki væri um að ræða, og hefði aldrei verið.

Matsnefndin hefir undir höndum talsvert miklar upplýsingar um sölur og möt á lóðum og löndum víðsvegar um landið. Þegar tekið er tillit til þeirra atriða, sem rakin eru að framan, verðs á svipuðu landi þarna og annars staðar, verðbreytinga og annarra atriða sem Matsnefndin telur hér skipta máli telur Matsnefndin hæfilegt mat á eignum þessum, sem hér segir, og er þá einnig tekið tillit til hlunninda, er fylgja jörðinni:

   Grunnverð á grónu landi ......................................   kr.   4.170.000
   Annað land ...........................................................   "   125.000
   Peningshús ásamt þurrheys og
   votheyshlöðum .....................................................   "   580.000
   Íbúðarhús, hæð og ris með tilheyr.
   viðbyggingu .........................................................   "   1.850.000
      Samtals   kr.   6.725.000

og er þá miðað við að matsfjárhæðin verði greidd innan 30 daga frá uppkvaðningu þessa úrskurðar.

Rétt þykir samkvæmt 11. grein laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 100.000 í málskostnað.

Þá þykir rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs skv. 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 290.000.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Bárður Daníelsson, verkfræðingur, og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð:

Eignarnemi, hreppsnefnd Ketildalahrepps f.h. hreppsins, greiði eignarnámsþola Björgvini Einarssyni kr. 6.725.000 og kr. 100.000 í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 290.000.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum