Hoppa yfir valmynd
29. júní 1981 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 29. júní 1981

GreinÁr 1981, mánudaginn 29. júní, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Vegagerð ríkisins
                  gegn
                  Eiríki Sigurjónssyni
                  Lýtingsstöðum, Holtahreppi

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 6. apríl 1979 hefur Vegagerð ríkisins, með vísan til 10. kafla vegalaga nr. 6/1977, farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metnar verði lögboðnar bætur vegna efnistöku úr landi jarðarinnar Lýtingsstaða, Holtahreppi, Rangárvallasýslu, sem Eiríkur Sigurjónsson er eigandi að.

Getur eignarnemi þess, að hann hafi fengið heimild til að hefja vinnslu efnis í landi Lýtingsstaða, en ekki hafi náðst samkomulag um bætur vegna efnistökunnar. Hafi aðilar orðið sammála um að leggja málið fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta til úrskurðar.

Eignarnemi tekur fram, að hann hafi á undanförnum árum tekið efni til viðhalds og uppbyggingar vega úr námu milli Hagabrautar og heimreiðar að Hvammi í landi Lýtingsstaða, Holtahreppi, Rangárvallasýslu. Hinn 3. febrúar 1971 hafi verið gerður samningur við Eirík Sigurjónsson um efnistöku á þessum stað og skv. honum greiddar bætur fyrir jarðrask og átroðning á 5,25 ha. svæði samtals kr. 105.000.- eða kr. 20.000.- pr./ha. Efni sé nú að mestu þrotið úr þessari námu og því verið nauðsynlegt að leita fanga annars staðar. Hafi þótt vænlegt að leita efnis vestan heimreiðar að Lýtingsstöðum, sem nota mætti sem jöfnunarlag undir bundið slitlag á Suðurlandsveg í malarslitlög. Leitað hafi verið eftir efni í olíumöl í námunni en ekki hafi verið um slíkt efni að ræða þar. Eignarnemi telur skert svæði vegna efnistökunnar vera ca. 1.5 ha.

Eignarnemi bendir á, að fara eigi um mat þetta eftir 10. kafla vegalaga. Bendir hann þar sérstaklega á 1. mgr. 59. gr. Þá bendir hann á 61. gr. vegalaga um hvaða sjónarmiða skuli gæta við mat, og þar sé m.a. kveðið á um að tillit skuli taka til árlegs afrakstrar af landi því er um ræðir og athuga vandlega allt það er geti haft áhrif á verðmæti þess er meta skuli. Sérstaklega skuli taka tillit til þess ef ætla megi að land hækki í verði við vegagerð.

Eignarnemi segir, að við ákvörðun skaðabóta vegna efnistöku til vegagerðar utan markaðssvæða, þ.e. í dreifbýli, þar sem ekki hafi komið fram eftirspurn eftir efni, t.d. til gatna og húsagerðar, hafi verið sá háttur hafður á skv. framangreindum lagasjónarmiðum, að kanna hver afrakstur sé af landi því, sem efnistakan fer fram á og verðmæti tjónsins að öðru leyti. Hafi Vegagerð ríkisins í þeim tilvikum ekki getað komið auga á, að landeigandi yrði fyrir öðru tjóni en jarðraski, sem skerti nýtingu á landinu eða möguleika á nýtingu þess til beitar eða ræktunar eða þess búskapar sem á því væri stundaður, ef um nytjar af því væri að ræða á annað borð.

Hafi Vegagerðin þá talið sig bæta að fullu tjón landeigandans með því að greiða fyrir hvern fermetra lands, sem nýttur er til efnistöku. Verðið hafi verið breytilegt og farið eftir því, hve verðmætar nytjar landsins hafi verið. Hafi þá ekki verið tekið tillit til þess, hve djúpt er tekið. Sem dæmi um afgreiðslu mála á þennan hátt bendir eignarnemi á samning mskj. nr. 4.

Hins vegar hafi eignarnemi haft þann hátt á, þegar bætt hafi verið fyrir vegagerðarefni, þar sem sölumarkaður er fyrir hendi, að greiða fyrir magn tekins efnis. Slíkur markaður hafi nú á síðari árum myndast í vaxandi mæli í grennd við þéttbýlisstaði, þar sem eftirspurn hefur orðið til vegna nota jarðefnis til ýmiskonar byggingaframkvæmda. Verð efnisins hafi verið nokkuð mismunandi eftir stöðum, að sjálfsögðu hæst þar sem eftirspurnin er mest og takmarkað efnismagn fyrir hendi, en algengast sé að Vegagerð ríkisins hafi greitt kr. 5.00 - kr. 20.00 fyrir hvern rúmmetra. Sé það yfirleitt nokkru lægra verð en aðrir aðilar hafi þurft að greiða og komi þá það til, að eigendur efnisins viðurkenni þörf þjóðfélagsins og sitt eigið hagræði af bættum samgöngum og einnig það, að Vegagerðin sé í flestum tilvikum langstærsti efnistökuaðilinn, og megi því segja, að um magnafslátt sé að ræða.

Eignarnemi tekur fram, að jörðin Lýtingsstaðir verði að teljast á mörkum þess sem viðurkennt hafi verið sem markaðssvæði, og hafi ekki verið það þegar samningurinn mskj. nr. 4 hafi verið gerður, og ekki liggi fyrir, að aðrir en eignarnemi hafi tekið þar efni. Með bættum samgöngum við þéttbýlissvæði, t.d. Selfoss og Hellu, megi þó búast við að ásókn í efni skapist svo fremi sem nægt jafngott eða betra efni liggi ekki nær. Þeir markaðsmöguleikar, sem skapist fyrir tilverknað eignarnema eigi að koma honum til góða þegar verðmæti efnis er metið. Ef niðurstaða Matsnefndar verði sú að meta skuli efnið sjálft sem verðmæti, krefst eignarnemi, að matsfjárhæð verði í neðri mörkum þess, sem venja sé að greiða á markaðssvæðum með hliðsjón af staðsetningu efnisins og þeirri ásókn sem í það er.

Eignarnemi segir það atriði, sem ekki hafi átt hvað minnstan þátt í því að hann hafi náð hagstæðari efnistökusamningum en aðrir aðilar sé sú stefnumörkun, sem komi fram í 59. gr. 3. mgr. vegalaga. Í greininni segi að veghaldari skuli jafnan leitast við að valda sem minnstum spjöllum á gróðri við vegagerð og græða upp sár sem myndist á grónu landi við vegaframkvæmdir.

Þar sem efnistaka á vegum eignarnema fari fram sé það oftast svo að eignarnemi opni námur, oft með miklum tilkostnaði t.d. vegna ofanafýtingar, slétti síðan landið þegar efnistöku sé lokið og sái í það og sé nú svo komið, að eignarnemi muni vera annar stærsti landgræðsluaðili í landinu. Fullyrðir eignarnemi að þessi vinna hans sé í langflestum tilvikum umfram það sem aðrir efnistökuaðilar geri, en samningar við þá séu yfirleitt við það miðaðir, að unnt sé að ganga í opið stálið eða jafnvel í uppýtta hauga og þurfi þeir því hvorki að leggja í kostnað við opnun né lokun náma. Hafi landeigendur kunnað vel að meta þessar snyrtingar og landgræðslustarfsemi eignarnema og gefi þess vegna kost á hagstæðum samningum. Þá hafi það ósjaldan komið fram hjá landeigendum, að þeir telji sig búa við öruggari magntalningu og meira greiðsluöryggi, ef samið er við eignarnema og virt honum þetta til lækkunar á verði.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir 8. maí 1979 á fundi Matsnefndarinnar sem haldinn var á jörðinni sjálfri.

Síðan var máli þessu frestað til 9. júní 1981 og þá tekið fyrir að nýju og fór þá einnig fram, eins og í fyrra skiptið, vettvangsganga og skoðun á öllum aðstæðum á staðnum.

II.

Mál þetta hefur flutt fyrir eignarnámsþola Hafsteinn Baldvinsson, hrl. Gerir hann þá kröfu að við ákvörðun eignarnámsbóta vegna jarðefnistöku úr landi jarðarinnar Lýtingsstaða verði eftirfarandi atriði höfð að leiðarljósi. Eignarnema hafi verið heimiluð taka jarðefnis þegar á árinu 1979 í trausti þess að samkomulag næðist um greiðslu bóta fyrir töku jarðefnisins. Samkomulag hafi ekki náðst og því verið óskað eignarnáms. Á árinu 1979 hafi skv. upplýsingum eignarnema verið tekið jarðefni úr landinu sem nemi samtals 29.163 rúmmetrum og á árinu 1980 samtals 10.875 rúmm., eða alls 40.038 rúmm. af efni.

Eignarnámsþoli hafi engar bætur fengið enn vegna töku þessa efnis og sé því eðlilegt að bætur til hans verði metnar með hliðsjón af gildandi verðmæti í dag. Samkvæmt upplýsingum eignarnema sé einnig ráðgert að á landi jarðarinnar verði tekið jarðefni á árinu 1981.

Er því krafa lögmannsins að bætur fyrir töku jarðefnis verði miðaðar við tiltekið gjald pr. rúmm. af jarðefni. En bent er á að verð fyllingarefnis sé að sjálfsögðu mjög misjafnt, miðað við markaðssvæði en í Reykjavík og nágrenni muni rúmmetri af fyllingarefni í dag almennt vera seldur á kr. 2.40.

Segir eignarnámsþoli að á Kjalarnesi muni Vegagerðin hafa í desember 1980 samið um að greiða kr. 1.36 pr. rúmm. af fyllingarefni (Gkr. 136 pr/rúmm.)

Þá segir lögmaðurinn að við ákvörðun bóta í því tilfelli sem hér um ræðir beri einnig á það að líta, að á Rangárvöllum muni vera um mjög takmarkað magn að ræða af jafn góðu efni og sé að finna í landi Lýtingsstaða.

Lögmaður eignarnámsþola segir það misskilning hjá eignarnema að bótafjárhæð til eignarnámsþola fyrir töku jarðefnisins eigi að lækka fyrir það að eigendur jarðefnis viðurkenni þörf þjóðfélagsins og sitt eigið hagræði af bættum samgöngum. Vegaframkvæmdanna og bættra samgangna njóti allir, þótt einstakir þegnar þjóðfélagsins þurfi vegna þeirra að sæta skerðingu á eignum sínum. Það væri ranglátt gagnvart eignarnámsþola að ákveða bætur lægri til hans af því að hann kunni að njóta framkvæmdanna eins og allir aðrir, sem ekki hafi þurft að sæta neinum skerðingum á eignum sínum af þessum sökum.
Löggjafinn geri ráð fyrir því, að menn fái fullar bætur fyrir eign sem af þeim sé tekin og að almennur hagur sem menn hafa af framkvæmdunum komi þar ekki til álita, þótt hins vegar sérstakar hagsbætur kunni að koma til frádráttar bótum. Um slíkar sérstakar hagsbætur eignarnámsþola í þessu máli sé hins vegar ekki að ræða. Hins vegar séu Lýtingsstaðir eins og nú sé komið, prýðilega í sveit sett miðað við markaðssvæði höfuðborgarsvæðisins, eða sem svarar ca. 1 klst. akstur frá Reykjavík.

Þá tekur eignarnámsþoli fram, að taka beri fullt tillit til þess að það land sem skert var sé gróið land og hafi verið ágætlega hæft til beitar. Sé ljóst eins og umhorfs sé nú á landinu að langur tími muni líða uns land þetta verði jafngott á ný, jafnvel svo áratugum skiptir.

Sé þetta m.a. augljóst þeim sem séð hafa jarðefnanámu þá, sem opnuð var af Vegagerð ríkisins austan Hagabrautar. Upphaflega hafi verið gert ráð fyrir að stærð landsins sem efnið væri tekið úr yrði um 1,5 ha., en nú sé ljóst af ráðagerðum eignarnema að land það sem hann hyggst bæta við upphaflega ráðgert svæði, sé mun stærra eða allt að tvöföldun.

Telur lögmaður eignarnámsþola óhjákvæmilegt, að sérstakar bætur verði metnar til umbj. hans vegna þessarar skerðingar á beitilandi hans, sem fyrirsjáanlegt sé að muni verða honum ónothæft um lengri tíma, en land þetta sé í beinu framhaldi af ræktuðu landi jarðarinnar og eðlilegt framhald þess, en jarðrask þetta komi nú í veg fyrir frekari nytjar landsins til ræktunar.

Þá er bent á að vegna framkvæmdanna við jarðvinnslu efnisins hafi eignarnemi haft tímabundin afnot af landi eignarnámsþola og sé skylt að bæta það. Vegna þess að malarnámið sé mjög nærri íbúðarhúsi eignarnámsþola á jörðinni hafi hann og fjölsk. hans öll haft mjög mikil óþægindi af hávaða frá grjótkvörnum eignarnema og öðrum stórvirkum vélum. Hafi þetta ástand verið viðloðandi sumrin 1979 og 1980 til mikilla óþæginda. Sé því vafalaust að Matsnefndinni beri að ákveða bætur fyrir hin tímabundnu afnot landsins, átroðning og óþægindi, sbr. dóm Hæstaréttar frá 30. mars 1980.

Þá mótmælir lögmaður eignarnámsþola því, sem fram kemur í greinargerð eignarnema, að sérstaklega skuli taka tillit til þess ef ætla má að land hækki í verði við vegagerð.

Með hliðsjón af ofangreindum dómi Hæstaréttar sé ljóst, að almennar hagsbætur sem verði við vegagerð eigi ekki að koma til frádráttar eða lækkunar á bótum og ekki verður séð að neinar sérstakar hagsbætur komi hér til álita. Hins vegar megi halda fram að þau ógrónu sár, sem Vegagerðin hafi valdið á landi eignarnámsþola hafi frekar rýrt jörðina í verði. Varðandi það atriði að eignarnemi hafi náð hagstæðari efnistökusamningum en ella vegna þess að hann græði upp þau sár sem hann valdi löndum jarðanna þá sé þar um misskilning að ræða hjá eignarnema, ef hann álíti að bætur eigi að verða lægri til matsþola fyrir þá sök, enda sé það lögboðin skylda eignarnema að vinna það verk. Með því að græða upp þau sár sem eignarnemi veldur geri hann tæplega meira en halda í horfinu, ef hann græðir þau sár sem hann sjálfur myndar á grónu landi við vegaframkvæmdir.
Þá heldur eignarnámsþoli því fram, að Vegagerðin hafi eyðilagt veg að fjárhúsum jarðarinnar með framkvæmdum sínum.

III.

Matsnefndin hefur farið tvisvar á vettvang og skoðað landið og allar aðstæður á staðnum. Viðstaddur í bæði skiptin var Eiríkur Sigurjónsson eignarnámsþoli og lögmaður hans Hafsteinn Baldvinsson, hrl., en fyrir eignarnema var viðstaddur vettvangsskoðun Gunnar Gunnarsson, hdl. og með honum Sigurður Jóhannsson, umdæmistæknifræðingur og Steingrímur Ingvarsson, verkfræðingur eignarnema.

Aðilar hafa skýrt mál sitt fyrir nefndinni í skriflegum greinargerðum og munnlega. Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust.

Eignarnámsheimildina er að finna í 59. gr. vegalaga nr. 6/1977.

Í 59. gr. vegalaga segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það, er þurfi undir vegi eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skulu því aðeins greiddar að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.

Matsnefndin hefur undir höndum orðsendingu Vegagerðar ríkisins um landbætur 1980 og 1981. Þá hefur Matsnefndin aflað sér upplýsinga um búskap og búrekstraraðstöðu á Lýtingsstöðum.

Land það sem efnistakan hefur farið fram á er gróðurrýrt holt milli klapparhryggja skammt frá íbúðarhúsum Lýtingsstaða.

Samfara efnistökunni hefur orðið allmikið jarðrask og þar sem hún hefur staðið nokkuð lengi yfir, hafa fylgt henni talsverð óþægindi fyrir eignarnámsþola. Þá hefur vegagerðin notað heimreiðina til umferðar að efnistökustaðnum og haft afnot af landsvæði utan hins eiginlega efnistökustaðar.

Samkvæmt vegalögum er Vegagerðinni skylt að jafna landið og sá í það að lokinni efnistöku. Allt að einu mun verða talsverð breyting á landinu á þessum stað frá því sem áður var. Ágreiningslaust er í málinu, að eignarnemi hefur tekið á þessum stað alls 40.038 teningsmetra af efni. Engar bætur hefur eignarnámsþoli fengið greiddar vegna töku þessa efnis og er það til óhagræðis fyrir hann að fá nú andvirði þess í einu lagi. Efnistaka á þessum stað er frekar auðveld og hefur efnið verið notað sem jöfnunarefni eða burðarefni undir olíumöl og er metið sem slíkt.

Þegar virt er málsreifun aðilanna í þessu máli svo og gögn þau er fram hafa verið lögð í því þ.á m. rannsókn á nýtingargildi efnisins telja matsmenn hæfilegt endurgjald til eignarnámsþola vegna efnistöku og vinnslu efnis á staðnum vera sem hér segir og er þá miðað við staðgreiðslu bóta:

1.   Efnistaka 40.038 m3 á 0.60 kr.      24.022.80
2.   Bráðabirgðaafnot lands      200.20
3.   Óhagræði og óþægindi meðan á efnistöku stóð      1.000.00
      Samtals   kr.   25.23.00

Rétt þykir að eignarnemi greiði eignarnámsþola skv. 11. gr. laga nr. 11/1973 kr. 2000.00 í málskostnað.

Þá þykir rétt með vísan til 11. gr. sömu laga að eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 3.500.00.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi Vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþola Eiríki Sigurjónssyni, Lýtingsstöðum, kr. 25.223.00 og kr. 2000.00 í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 3.500.00.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum