Hoppa yfir valmynd
10. maí 1982 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 10. maí 1982

Ár 1982, mánudaginn 10. maí var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Vegagerð ríkisins
                  gegn
                  eigendum jarðarinnar
                  Syðra-Vallholts,
                  Seyluhreppi, Skagafjarðarsýslu

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 31. ágúst 1981 hefur Vegagerð ríkisins farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metnar verði lögboðnar bætur vegna fyrirhugaðrar efnistöku Vegagerðar ríkisins úr landi jarðarinnar Syðra-Vallholts, Seyluhreppi, Skagafjarðarsýslu.

Eignarnemi segir að viðræður hafi farið fram við eigendur jarðarinnar, sem séu Gunnar Gunnarsson, bóndi, Syðra-Vallholti, sem sé eigandi að 50%, Vilhjálm Sigurðsson, Laugarhúsi, Varmahlíð, eiganda að 25% og Hjört Vilhjálmsson, Hólmagrund 17, Sauðárkróki og Sigurð Vilhjálmsson, Greniteigi 45, Keflavík, sem eiga til samans 25%, en ekki hafi náðst samkomulag um bætur fyrir efnistöku úr landi jarðarinnar.

Eignarnemi kveður jarðefnið í landi Syðra-Vallholts vera ætlað m.a. til slitlagsgerðar, þ.e. í svonefnda klæðningu á vegi, og sé efnið þá mulið áður en það sé notað.

Eignarnemi taldi sér brýnt að fá umráð efnisins úr landi Syðra-Vallholts sem fyrst, þar sem fyrir dyrum stæði að hefja þá þegar framkvæmdir við efnisvinnsluna, þótt úrskurður um verðmæti efnisins liggi ekki fyrir, fyrr en síðar og óskaði eignarnemi því eftir úrskurði skv. 14. gr. laga nr. 11/1973.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir á fundi Matsnefndarinnar sem haldinn var á jörðinni Syðra-Vallholti þriðjudaginn 8. september 1981. Var þá færð til bókar svohljóðandi úrskurður:

"F.h. eignarnema mætir Gunnar Gunnarsson hdl., og leggur fram nr. 1, beiðni um mat þetta svohlj. ###

Þá eru einnig mættir Jónas Snæbjörnsson umdæmisverkfræðingur og Gísli Felixson rekstrarstjóri.

Af hálfu eignarnámsþola eru mættir Gunnar Gunnarsson ábúandi hér, eigandi að 50% jarðarinnar og Hjörtur Vilhjálmsson eigandi að 12.5%.
Gengið var á vettvang og landið og allar aðstæður skoðaðar.

Gunnar Gunnarsson bóndi leggur nú fram skýrslu, merkta nr. 2, svohlj. ###

Matsnefndarmenn báru nú saman ráð sín og voru sammála um, að það myndi ekki torvelda framkvæmd matsins né spilla sönnunargögnum fyrir eignarnámsþola, þótt eignarnema verði leyft að hefjast nú þegar handa um töku malarefnis á umræddu svæði. Voru matsmenn því sammála um með tilvísun til 14. greinar laga um framkvæmd eignarnáms að leyfa eignarnema að hefjast nú þegar handa um efnistöku á umræddu landsvæði og taka umráð nauðsynlegs lands til þeirra framkvæmda.

Málinu var nú frestað um óákveðinn tíma til greinargerðar og frekari gagnasöfnunar.

Mál þetta hefur flutt fyrir eignarnema Gunnar Gunnarsson, hdl. og hefur hann m.a. lagt fram eftirfarandi gögn í málinu: Greinargerð, kort, kornakúrfur og greinargerð frá rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins, kvittun dags. 29.4.1981, samning ódags. frá september 1981 milli Vegagerðar ríkisins og Eiríks Valdimarssonar, Vallanesi, samning dags. 23. sept. 1981 milli Vegagerðar ríkisins og Sæmundar Sigurbjörnssonar, Syðstu-Grund.

Eignarnemi skýrir svo frá, að í byrjun september 1980 hafi staðið til að hefja mölun efnis í Skagafirði vegna væntanlegra slitlagagerðar þar næstkomandi sumar. Var augastaður hafður á námu austan Vallhólmsvegar, skammt norðan heimreiðar að Stokkhólma í landi Syðra-Vallholts. Samkomulagsumleitanir um heimild til efnistöku úr þessari námu og um verðmæti efnisins hafi farið fram við landeigendur, en samningar ekki tekist. Hafi því verið stofnað til þessa matsmáls og vettvangsskoðun farið fram 8. sept. 1981 og sama dag hafi Matsnefndin kveðið upp þann úrskurð, að eignarnema væri heimilt að hefjast handa um efnistöku á umræddu landsvæði, og taka umráð nauðsynlegs lands til þeirra framkvæmda.

Mölun efnis á þessum stað hafi hafist skömmu síðar og verið malaðar haustið 1981 samtals 10.124 rúmm. Efnistakan fari fram á lítt grónu sléttu landi úr framburðareyrum Héraðsvatna og sé dýpt námunnar ca. 1-1,5 m.

Eins og fram komi á kornakúrfum sé efnið gott bæði til nota í klæðningu og steypu, en þó svo gróft að hluta til að ekki sé unnt að nota það í steypu, nema harpa það eða mala fyrst. Til standi að nota efnið sumarið 1982 til slitlagagerðar á Sauðárkróksbraut og á Norðurlandsveg í Vallhólmi og Blönduhlíð.

Um eignarnámsheimild sína vísar eignarnemi til 59. greinar vegalaga nr. 66/1977. Þá bendir hann á 61. gr. sömu laga, að því er varðar hvaða sjónarmiða skuli gæta við mat og sé þar m.a. kveðið á um, að tillit skuli taka til árlegs afrakstrar af landi því er um ræðir og athuga vandlega allt það er geti haft áhrif á verðmæti þess er meta skuli. Sérstaklega skuli taka tillit til þess, ef ætla megi að land hækki í verði við vegagerð.

Á síðustu tveim árum hafi lagningu bundins slitlags víða um land aukist mikið með aðferð er kölluð hafi verið klæðning. Sú aðferð sé í því fólgin, að heitu asfalti er sprautað á þjappað malaryfirborð vegar og síðan er brotinni möl dreift yfir asfaltið. Mölin sem notuð er við þessa aðferð þurfi að uppfylla viss skilyrði. Þau helstu séu að mölin þurfi að vera hrein og sterk og hafa góða viðloðun við asfaltið. Möl sem notuð sé til steypugerðar sé yfirleitt nothæf í klæðningu en þó sé það ekki algilt, t.d. sé ekki hægt að nota steypumöl, sem hafi litla viðloðun.

Aukin lagning bundins slitlags hafi leitt til ásóknar Vegagerðarinnar í efni með þeim gæðaeiginleikum, sem að framan greinir. Hafi þá m.a. verið leitað fanga í gömlum steypuefnisnámum og efnið tekið úr þeim, ef það hafi staðist gæðaprufur.

Alkunna sé að verð á steypuefni hafi verið nokkuð mismunandi á landinu. Verðið hafi að nokkru ráðist af framboði og eftirspurn og sé að sjálfsögðu hæst þar sem eftirspurnin sé mest og takmarkað efnismagn fyrir hendi.

Á síðastliðnu ári hafi Vegagerð ríkisins boðið sem greiðslu fyrir efni í klæðningu kr. 1.00 fyrir hvern rúmmetra. Hafi það að sönnu verið lægra verð en aðrir aðilar hafi þurft yfirleitt að greiða, ef um steypuefni var að ræða og komi það þá til að eigendur efnisins hafi viðurkennt þörf þjóðfélagsins og sitt eigið hagræði af bættum samgöngum og einnig það, að Vegagerðin sé í flestum tilvikum lang stærsti efnistökuaðilinn og megi því segja að um magnafslátt sé að ræða.

Þegar meta skuli verðmæti nefnds malarefnis í landi Syðra-Vallholts sé það eðlilegt, að mið sé tekið af framangreindum sjónarmiðum og þeirri verðmiðun, sem fram komi á kvittun á mskj. nr. 6, en þar sé um að ræða efni, sem tekið sé á markaðssvæði í grennd við Akranes. Þá telur eignarnemi einnig, að hafa beri til viðmiðunar umsamið verð í samningum dags. í september 1981, mskj. nr. 7 og 8, við eigendur Vallaness í Vallhólmi og Syðstu-Grundar í Blönduhlíð fyrir efni við Grundarstokk, en þar hafi verið samið um að greiða kr. 2.00 pr. rúmm. fyrir efni, sem nothæft sé til steypu, en það efni sé hægt að nota beint í steypu óunnið, og það liggi nær markaðssvæðum heldur en efni í landi Syðra-Vallholts.

Til marks um þennan mun sé talið hæfilegt að greitt sé 50% hærra verð fyrir efni við Grundarstokk, heldur en fyrir efnið í Syðra-Vallholti.

Þá getu eignarnemi þess til nánari skýringar, að ástæðan fyrir því að Vegagerðin hafi valið þennan tiltekna stað til töku efnis í klæðningu sé sú, að æskilegt sé að verulegur hluti efnis til þeirra nota sem hér um ræðir sé nokkuð grófur, svo sem efnið sunnan í Vallhólma sé, en efnið við Grundarstokk sé hins vegar meira sandblandað.

Þá tekur eignarnemi fram, að efnið á þessu svæði í Syðra-Vallholti sé nánast ótakmarkað og beri að hafa hliðsjón af því við ákvörðun verðmætis þess, sbr. 1.mgr. 59. gr. vegalaga, þar sem segi m.a., að bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar, að landeigandi hafi beðið skaða við það. Liggi ekki fyrir, að smávægileg efnistaka Vegagerðarinnar á umræddum stað valdi landeigendum tjóni, þar sem um ótakmarkað efnismagn sé að ræða.

Vegna þess álits landeigenda, sem fram komi á mskj. nr. 2, að varanleg spjöll verði á landi því þar sem efnið sé tekið úr, þá fer eignarnemi þess á leit að sundurgreint verði yfirborðsverðmæti landsins annars vegar og verðmæti malarinnar hins vegar, verði fallist á þetta sjónarmið landeigenda.

Eignarnemi tekur fram, að það atriði sem hafi átt hvað mestan þátt í því, að Vegagerðin hafi náð hagstæðari efnistökusamningum en aðrir aðilar sé sú stefnumörkun sem komi fram í 3. mgr. 59. gr. vegalaga, sem sé svohljóðandi:

"Veghaldari skal jafnan leitast við að valda sem minnstum spjöllum á gróðri við vegagerð og græða upp sár sem myndast á grónu landi við vegaframkvæmdir."

Þar sem efnistaka á vegum Vegagerðar ríkisins fari fram sé það oftast svo, að Vegagerðin opni námur oft með ærnum tilkostnaði, t.d. vegna ofanafýtingar, slétti síðan landið þegar efnistöku sé lokið og sái í það og sé nú svo komið, að Vegagerðin muni vera annar stærsti landgræðsluaðili á landinu. Eignarnemi fullyrðir að þessi vinna Vegagerðarinnar sé í langflestum tilvikum umfram það, sem aðrir efnistökuaðilar geri, en samningar við þá séu yfirleitt við það miðaðir, að þeir geti gengið í opið stálið, eða jafnvel í uppýtta hauga, og þurfi þeir því hvorki að leggja í kostnað við opnun eða lokun náma. Hafi landeigendur kunnað vel að meta þessa snyrtingar og landgræðslustarfsemi Vegagerðarinnar og gefi þess vegna kost á hagstæðari samningum. Þá hafi það komið fram hjá landeigendum, að þeir telji sig búa við öruggari magntalningu og meira greiðsluöryggi, ef samið sé við Vegagerðina og virt henni þetta til lækkunar á verði.

II.

Eignarnámsþolar í máli þessu hafa sent Matsnefndinni ýtarlegar greinargerðir. Í aðilaskýrslu þeirra Gunnars Gunnarssonar og Hjartar Vilhjálmssonar mskj. nr. 2, segir á þessa leið:

"Við undirritaðir landeigendur að Syðra-Vallholti óskum eftir því að tekið verði fullt tillit til þess, við mat á möl í landi Syðra-Vallholts, að mölin er tekin á þurru grasigrónu landi, sem auðvelt er að taka til ræktunar. Hér er því um mjög gott túnstæði að ræða.

Hins vegar, þegar mölin hefur verið tekin, þá er landið eftir ónothæft til hvers konar nytja, hvort heldur sem væri til ræktunar eða beitar, þar sem jarðvegurinn hefur verið fjarlægður, og svo grunnt er á vatn, að tjarnir myndast í malargryfjunum.

Þetta land verður því algjörlega gagnslaust um ófyrirsjáanlega framtíð eftir malarnámið, og ólíkt verr farið heldur en land sem tekið er undir vegi og bekki meðfram þeim. Vegabekkirnir og jafnvel kantarnir verði grasi grónir, og notast á ýmsan hátt, og ólíkt betur, heldur en land það sem hér um ræðir, og verður í botni malargryfjanna. Þess vegna er það aðeins sanngjörn krafa okkar, að við fáum hærri greiðslu fyrir mölina, heldur en fyrir tún sem tekið er undir vegi.

Þá er og á það að líta, að landspjöll verða mikil, vegna þess hve grunnt er á vatn í jarðveginum, og þess vegna ekki hægt að taka mölina mikið neðar heldur en í eins metra dýpt. Öðru máli gegnir í þykkum malarkömbum, þar sem lítil spjöll verða á landi, jafnvel við mikið malarnám. Við óskum þess að þetta verði haft í huga við mat á mölinni.

Þá viljum við jafnframt nefna það, að hér er um mjög gott efni að ræða, mjög góða möl í steinsteypu, og ósanngjarnt að meta þetta efni lágt, og ausa af því í óhófi, sem um lítilfjörlegt væri að ræða. Sýnishorn af þessari möl hafa verið rannsökuð, og hafa gefið góða raun, þykir þó mölin í grófara lagi, eins og hún kemur fyrir. Mölin hefur verið notuð í steinsteypu og reynst vel, þótt gróf sé, og verður að teljast hið ákjósanlegasta byggingarefni.

Á s.l. ári voru lagðir hér út vegkaflar með þessari möl, bæði hér í Vallhólmi og eins út á Langholti, og sú reynsla, sem þegar er fengin af mölinni, lofar góðu, enda verður að telja grófleika malarinnar til góða, við slíka notkun hennar, hörpun og íblöndun sem slitlag á vegi. Vegagerðin keypti hvern rúmmetir af mölinni á kr. 400 gamlar, kr. 4.00 á núverandi gengi, og það er eindregin ósk okkar og krafa, að mat á mölinni verði ekki undir því verði, miðað við núverandi verðlag, og fylgi verðlagsþróun og vísitölu sem verðtryggt efni."

Í bréfi Sigurðar Vilhjálmssonar til formanns Matsnefndarinnar segir á þessa leið:

"1.   Vegna þess hvað jarðirnar eru landlitlar teljum við útilokað að láta eyðileggja landið þannig að það verði einskis nýtilegt á eftir.

2.   Þetta land er mjög æskilegt til ræktunar vegna legu þess og hvað það er þurrt, og litlar líkur á kali í vondum árum.

3.   Þetta efni er fyrirtaks fyrsta flokks byggingarefni, og við teljum okkur ekki geta látið það fyrir einhverjar smánarbætur.

Ég er búinn að hafa samband við Gunnar og Hjört í gegnum síma og við höfum kynnt okkur innihald bréfanna og samþykkt þau hver hjá öðrum munnlega vegna fjarlægðar. Og krefjumst við þess að þessar ábendingar okkar verði teknar fyllilega til greina við mat á landinu ef til kemur."

Í greinargerð þeirra Gunnars Gunnarssonar og Hjartar Vilhjálmssonar dags. 10. mars 1982, segir m.a. á þessa leið:

"Við viljum í fyrsta lagi mótmæla því að Vegagerðin meti möl í landi Syðra-Vallholts þriðjungi lakari heldur en möl hjá nágrönnum okkar í Vallanesi og Syðstu-Grund, með því að gera samninga við þá um malarkaup, og greiða þeim 50% hærra verð heldur en okkur verður dæmt, skv. samningi þar um, sem Vegagerðin hefur lagt fram í okkar máli.

Við teljum þetta í hæsta máta ósanngjarnt, óréttlátt, og þessir samningar geta haft mikil áhrif til lækkunar á greiðslu til okkar. Í raun og veru þá eru malarefnin á öllum þessum jörðum jafngóð til sinna nota, hrein efni, sá er einn munurinn, að mölin í landi Syðra-Vallholts hentar betur, er mikið betri í bundið slitlag á vegi heldur en Vatnamölin.
..........................................................................................................................................
Það skal viðurkennt, að Vatnamölin er betri í steinsteypu eins og hún kemur fyrir, en þegar búið er að vinna Vallholtsmölina, þá er hún orðin eitt hið besta efni til steypugerðar sem völ er á, vegna herslu sinnar og góðra eiginleika.

Þess vegna gerum við þá kröfu að okkur verði ekki mismunað í þessum efnum, og við fáum eigi lægri greiðslu fyrir möl heldur en nágrannar okkar, og höldum okkur enn við upphaflega kröfu, kr. 4.00 pr. rúmm.

Á það verður að líta, að það kemur ekkert í stað þessarar malar. Þar standa aðeins tjarnir eftir, nema á miklum þurrkatímum. Mölin í Vallanesi og Syðstu-Grund er hins vegar í og við vatnafarveginn, og berst að jafnt og þétt sem framburður, enda þótt af sé tekið.

Við viljum mótmæla því sem fram kemur í greinargerð Vegagerðarinnar, bls. 4, 3. málsgr., að efni sé hér nær ótakmarkað. Hér er farið inn á afgirt land, að vísu ennþá aðeins notað til beitar. Hér er þó um að ræða eitthvert besta og hentugasta túnstæði sem um getur, og eru þá allir þess kostir í burtu með mölinni, þegar hún er farin.

Þá viljum við einnig taka fram, að náma þessi er mjög auðunnin frá náttúrunnar hendi. Ofantaka er mjög lítil, og nánast hægt að ganga að efninu eins og það kemur fyrir, til vinnslu. Það er ekki lítill hagur fyrir Vegagerðina að geta átt aðgang að slíkum aðstæðum, og mætti meta það að verðleikum.
..........................................................................................................................................
Í raun og veru þá er þessi möl svo góð, að hún kemst ekki í nokkurn samjöfnuð við annað en það besta og fullkomnasta malarefni sem til er. Þess vegna höldum við okkur við upphaflega kröfu, kr. 4.00 pr. rúmm., jafnframt því að samningi vegagerðar við nágranna okkar, og hér liggja frammi sem gögn, þeim verði breytt á þann hátt, að við stöndum allir jafnir gagnvart Vegagerðinni, hvað greiðslu fyrir möl viðvíkur. Á öllum þessum stöðum er um hið besta efni að ræða, til hinna ýmislegu nota, hvort heldur er til steinsteypu, uppfyllingar í vegi eða sem klæðning og slitlag. Við lítum svo á, að það efnið hljóti þó að vera hið dýrmætasta af þessum þremur, og þá eiginleika á þó mölin í Syðra-Vallholti, sem Vegagerðin hefur sett skör lægra um sinn. En það er bæði von okkar og trú, að slíkt óréttlæti verði leiðrétt sem fyrst.

Við teljum það harðar aðgerðir gagnvart okkur, af hálfu Vegagerðarinnar, að gera slíka samninga um efniskaup, og greiða fyrir þriðjungi hærra verð heldur en dæmt verður að greiða okkur fyrir möl í næsta nágrenni. Við mótmælum gjörsamlega slíkum vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið um efniskaup til uppfyllingar í vegi og varnargarða við hina nýju brú á Héraðsvötnum hjá Vallanesi, samkvæmt þeim samningum sem Vegagerðin hefur gert við bændur í Vallanesi og Syðstu-Grund, og lagt fram sem gögn í þessu máli.

Við mótmælum því að nágrönnum okkar verði greitt 50% hærra verð fyrir uppfyllingarefni heldur en okkur verður dæmt fyrir úrvalsmöl, og framar að gæðum til klæðningar heldur en Vatnamölin, svo vitnað sé í sjálfa greinargerð Vegagerðarinnar, bls. 4, 2. málsgr.
..........................................................................................................................................
Þá viljum við einnig taka fram, að fyrir nokkrum árum fékk Vegagerðin að taka hér möl til uppfyllingar í hinn nýja Vallhólmsveg fyrir ofan Velli í Hólmi. Þar var um talsvert magn að ræða, a.m.k. 15.000 rúmm., og fyrir það magn voru einungis greiddar 100.000 gamlar krónur, eitt þúsund krónur á nýgengi.

Okkur þætti ekki ósanngjarnt, þótt Vegagerðin meti þessa gjöf okkar að einhverju, því gjöf er þetta og ekkert annað, og gengi til móts við kröfur okkar nú, kr. 4.00 pr. rúmm., sem alls ekki er ósanngjarnt með tilliti til alls og alls. Ósanngirnin er á hina hliðina, að ætla að greiða öðrum þriðjungi hærra verð fyrir möl, sem nær ekki þeim gæðakröfum sem hér er krafist og fyrir liggja, skv. framlögðum gögnum.
..........................................................................................................................................
Fyrir því stendur enn sanngjörn krafa okkar, um kr. 4.00 pr. rúmm., og að auki góð umbun fyrir áðurtekna möl, sem fyrr er nefnd og næstum gefin var."

III.

Matsnefndin hefur farið á vettvang ásamt aðilum og umboðsmönnum þeirra. Var landið skoðað og farið um gryfjuna, sem nú þegar er á staðnum og litið yfir landið allt og nágrenni þess.

Aðilar hafa skýrt málið fyrir Matsnefndinni bæði í skriflegum greinargerðum og munnlega á vettvangi, en málið var tekið til úrskurðar 29. apr. 1982.

Leitað hefur verið um sættir með aðilum en árangurslaust.

Eignarnámsheimildina er að finna í 59. gr. vegalaga nr. 6/1977. Ber að meta til fébóta efnistöku, sem eignarnemi hefur undirbúið og mun láta fram fara á árinu 1982 úr námu austan Vallhólmsvegar, skammt norðan heimreiðar að Stokkhólma, í landi Syðra-Vallholts. Mölun efnis á þessum stað hófst haustið 1981 og voru þá malaðir samtals 10124 rúmm. Þá ber og að meta landspjöll, jarðrask og óhagræði vegna þessarar efnistöku.

Í 59. gr. vegalaga segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það er þurfi undir vegi, eða til breytingar, breikkunar, eða viðhalds vegum, svo og að leyfa að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur sé grjót, möl, eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar, að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.

Efnistaka sú er hér um ræðir er úr fornum framburðareyrum Héraðsvatna, og er dýpt námunnar á staðnum talin ca. 1-1,5 m.

Samkvæmt rannsókn efnistökumanns telur hann efnið lagskipt, laust og auðunnið í stáli. Ennfremur að efnið sé hreint, vel núið, ríkjandi sterklegt basalt. Þá telur hann, varðandi fylliefni til olíumalar að æskilegt sé, að verulegur hluti efnis sé nokkuð grófur, því séu námurnar syðst á svæðinu jákvæðastar með tilliti til efnisvinnslu (mölunar).

Um stærð námusvæðisins segir í rannsókninni: "Þrengri afmörkun svæðisins er um 5 x 1 km, ræma sem liggur sem næst norður-suður (sbr. skissu) um miðjan Vallhólmann."

Samkvæmt rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið, sbr. mskj. nr. 5, er nauðsynlegt að mala efnið, til þess að kornastærð þess sé innan þeirra marka sem Vegagerðin gerir um efni til klæðningar. Efni til klæðningar, sem tekið er úr námu Syðra-Vallholts, og unnið er af Vegagerð ríkisins, votsigtað, sýnir 100% viðloðun og er innan þeirra stærðarmarka sem norskar kröfur gera til olíumalarefnis.

Steypustöð Skagafjarðar tók á tímabili steypumöl úr áreyrum Héraðsvatna í landi Syðstu-Grundar og Vallaness en hefur hætt því. Steypustöðin hefur nú samning um efnistöku, í landi Skarðs, í ósum Gönguskarðsár.

Eignarnámsþolar halda því fram, að efnið hafi verið notað í steinsteypu og reynst vel þótt gróft sé og ómalað hafi verið. Efni þetta á að nota sumarið 1982 til slitlagagerðar á Sauðárkróksbraut og á Norðurlandsveg í Vallhólmi og Blönduhlíð.

Náman sem efnið verður tekið úr mun að líkindum safna í sig vatni og landið því verða ónothæft til hvers konar nytja eftir efnistökuna. Eins og er nú er land þetta eingöngu notað til beitar.

Við matið ber að hafa í huga 3. mgr. 59. gr. vegalaga þar sem segir, að veghaldari skuli jafnan leitast við að valda sem minnstum spjöllum á gróðri við vegagerð og græða upp sár sem myndast á grónu landi við vegaframkvæmdir. Í 61. gr. vegalaga segir, að við matið skuli taka tillit til árlegs afrakstrar af landi því, er um ræðir svo og til þess hvort girðingar þurfi að flytja eða nýjar að setja, og athuga vandlega allt það er geti haft áhrif á verðmæti þess er meta skuli. Matsnefndin lítur svo á, að í þessu máli verði um að ræða varanleg spjöll á landi því, sem efnið er tekið úr. Eignarnemi hefur farið þess á leit, að sundurgreint verði yfirborðsverðmæti landsins annars vegar og verðmæti malarinnar hins vegar, sem tekin verður á þessum stað. Þar sem hér hafa eingöngu verið um beitarafnot að ræða af þessu landi sýnast ekki efni til að meta landeigendum bætur sérstaklega vegna þess fjárhagstjóns, sem efnistakan hefur í för með sér fyrir beitarafnot landsins, en landspjöllin, jarðraskið og óhagræðið verður metið sérstaklega. Landsvæði þar sem um ræðir liggur vel við efnistöku, skammt frá vegi. Talsverðar upplýsingar liggja fyrir í málinu um verð á efni, sem eignarnemi hefur tekið í næsta nágrenni við Syðra-Vallholt og Matsnefndin hefur undir höndum talsvert miklar upplýsingar um sölur og möt á efni víðsvegar um landið.

Land það sem efnistakan fer fram í er þurrt og jafnlent, ódýrt í ræktun, þar sem það þarfnast ekki framræslu, og jöfnun lands í lágmarki. Landið er magurt en svarar vel áburði, kalhætta er talin lítil á þessu svæði. Land þetta býður því upp á góða möguleika til túnræktar. Eftirspurn eftir leigulandi til ræktunar er vaxandi í Hólminum vegna fyrirhugaðrar graskögglaverksmiðju, sem hefur ekki nægjanlegt landrými til umráða.

Við matið er áætlað að úr einum fermetra lands fáist 0.80 rúmm. hreint efni.

Þegar virt er málsreifun aðila í máli þessu, vitneskja sú sem Matsnefnd hefur aflað sér og annað sem nefndin telur skipta máli, telja matsmenn hæfilegt endurgjald til eignarnámsþola vegna efnistöku, vinnslu efnis á staðnum, landskemmda og óhagræðis vera sem hér segir og er þá miðað við staðgreiðslu.

1.   Efnistaka 10124 m3 á kr. 2.20 ......................................   kr.   22.272.80
2.   Varanlegar skemmdir á landi .......................................   "   3.037.20
3.   Bráðabirgðaafnot lands, óhagræði
   og óþægindi vegna efnistöku ......................................   "   1.690.00
      Samtals   kr.   27.000.00

Bætur til eigenda Syðra-Vallholts skiptast þannig:

1.   Gunnar Gunnarsson .....................................................   kr.   13.500.00
2.   Vilhjálmur Sigurðsson ................................................   "   6.750.00
3.   Hjörtur Vilhjálmsson ...................................................   "   3.375.00
4.   Sigurður Vilhjálmsson .................................................   "   3.375.00
      Samtals   kr.   27.000.00

Rétt þykir samkvæmt 11. gr. laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði til ríkissjóðs samkvæmt kostnaði af starfi Matsnefndarinnar kr. 6000.00.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Bárður Daníelsson, verkfræðingur og Björn Bjarnarson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþolum eigendum Syðra-Vallholts, Seyluhreppi, þeim Gunnari Gunnarssyni, Vilhjálmi Sigurðssyni, Hirti Vilhjálmssyni og Sigurði Vilhjálmssyni kr. 27.000.00.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 6000.00.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum