Hoppa yfir valmynd
30. mars 1983 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 30. mars 1983

Ár 1983, miðvikudaginn 30. mars, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Hafnarfjarðarbær
                  gegn
                  Erlendi Erlendssyni

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir, að með eignarnámsbeiðni dags. 8. mars 1983 hefur Valgeir Kristinsson hdl. farið þess á leit f.h. Hafnarfjarðarbæjar með vísan til 4. gr. laga nr. 11/1973 og með heimild í 28. gr. skipulagslaga nr. 19/1964, að metnar verði eignarnámsbætur fyrir leiguréttindi Erlends Erlendssonar, til heimilis að Sólbergi Hafnarfirði, á 7715,5 m² landspildu úr landi Sólbergs, sem upphaflega er úr landi jarðarinnar Setbergs í Hafnarfirði skv. leigusamningi dags. 4. ágúst 1933 til 50 ára. Segir eignarnemi að leigusamningnum hafi verið sagt upp og renni samningurinn úr gildi 4. ágúst 1983.

Lega landspildunnar er að austanverðu vegarins er liggur upp að Þórsbergi og er stærð hennar þannig: Frá læknum að vestan upp í Hamarinn 112 metrar, að norðan 101 metri, að austan niður að læknum 109 metrar og með læknum 54 metrar eða samtals 8560 m². Frá þessari stærð er dregin lóðin umhverfis íbúðarhúsið, sem stendur á lóðinni 844.5 m².

Ennfremur óskar eignarnemi eftir, að eignarnámsbætur verði metnar fyrir bárujárnsklætt hús á lóðinni og girðingar um lóðina.

Þá er þess krafist skv. heimild í 14. gr. laga nr. 11/1973, að eignarnema verði heimilað að taka nú þegar umráð umræddrar eignar vegna fyrirhugaðra framkvæmda á landinu.

Fram kemur í málinu, að eignarnemi gerði samning 4. júlí 1980 við eigendur jarðarinnar Þórsbergs í Hafnarfirði um landakaup vegna fyrirhugaðrar þróunar byggðar í Hafnarfirði.

Samkvæmt 4. lið þessa samnings skal eignarnemi kaupa 1. áfanga landsins ekki síðar en í apríl 1983. Með bréfi dags. 15. nóvember 1982 hefur bæjarstjórnin í Hafnarfirði óskað þess, að hið fyrsta verði gengið frá kaupum á 1. áfanga, þ.e. 62750 m² lands.

Af hálfu eignarnema er því haldið fram, að seljendur landsins hafi átt að annast um að aflétta öllum kvöðum af landinu, sem selja átti og afhenda, en honum hafi ekki tekist það til þessa.

Samkvæmt upphaflega samningnum hafi lóð þessi verið leigð til að byggja á henni hús og mannvirki svo og til ræktunar og yfir höfuð til hverrar verklegra og vandlegra afnota. Lóðin hafi verið leigð til 50 ára, þannig að leiguliðinn hafi haft rétt til að selja og veðsetja afnotarétt sinn til lóðarinnar ásamt húsum og mannvirkjum á henni en vilji hann selja lóðarréttindi sín að nokkru eða öllu leyti hafi eigandi jarðarinnar Setbergs forkaupsrétt. Að þessum 50 árum liðnum skuli fara fram nýtt mat á lóðaleigunni.

Eins og nú sé komið segir eignarnemi, að óhjákvæmilegt sé að umrætt eignarnám fari fram, þar sem landspildan sé á svæði sem úthlutað verði undir íbúðarbyggð á næstunni. Gatnagerðarframkvæmdir séu og að hefjast á þessum stað.

Um heimild sína til eignarnámsins vísar eignarnemi til 28. greinar skipulagslaga en skipulagsuppdráttur að Setbergi hafi verið staðfestur af ráðherra 31. jan. 1983.

II.

Af hálfu matsþola hefur flutt mál þetta Guðjón Steingrímsson, hrl. Gerir hann þær kröfur, aðallega að synjað verði um, að hið umbeðna mat fari fram, en til vara, að metnar verði hæstu bætur fyrir hagsmuni umbj. síns, og að eignarnema verði gert að greiða málskostnað skv. gjaldskrá L.M.F.Í. hvernig sem matsmálið annars fari.

Þá krefst eignarnámsþoli þess, að synjað verði beiðni eignarnema um afhendingu landsins nú þegar skv. 14. gr. laga nr. 11/1973 en verði ekki á það fallist verði eignarnema gert að setja nægjanlega háa peningatryggingu fyrir afhendingu.

Eignarnámsþoli heldur því fram, að hið fyrirhugaða eignarnám sé óþarft og byggist ekki á almannahagsmunum og vísar um það til 67. gr. stjórnarskrárinnar. Telur hann erfitt að skilja hvaða hagsmunir það séu, sem leiði til þess að bærinn vilji taka lóðirnar eignarnámi, þar sem bærinn ætli sér hvort sem er að selja þær öðrum, en eignarnámsþoli hafi boðist til að afhenda bænum allt það land sem nauðsynlegt sé undir götur og önnur opin svæði skv. skipulaginu gegn því að honum sjálfum verði leyft að nýta tvær byggingarlóðir fyrir sjálfan sig og börn sín og að selja aðrar lóðir. Þessu hafi eignarnemi hafnað.

Þeirri fullyrðingu eignarnema, að samningurinn um landið renni út 4. ágúst 1983 mótmælir eignarnámsþoli algerlega. Heldur hann því fram að samningurinn sé erfðafestusamningur sem eigi að gilda um ókomna framtíð en að heimilt sé að endurskoða umsamda leigu á 50 ára fresti.

Ef samningurinn ætti að falla úr gildi að liðnum 50 árum þyrfti ekki að setja ákvæði um nýtt mat á lóðarleigunni að liðnu 50 ára leigutímabilinu. Telur eignarnámsþoli greinilegt, að samningsaðilar hafi hugsað sér að samningurinn ætti að gilda áfram.

III.

Matsnefndin gekk á vettvang 18. mars 1983 og voru viðstaddir þá vettvangsskoðun lögmenn aðila, eiginkona eignarnámsþola svo og Hermann Sigurðsson. Var snjór þá fallinn á landið og hafa aðilarnir samþykkt að nefndin skoðaði landið þótt þeir væru ekki viðstaddir og hefur nefndin aftur skoðað landið og þá á auðu, þann 29. mars.

Um eignarnámsheimild sína vísar eignarnemi til 28. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 og er upplýst að skipulagsuppdráttur af landsvæðinu var staðfestur af ráðherra 31. janúar 1983. Fellst Matsnefndin á, að eignarnemi hafi lögmæta heimild til þess eignarnáms sem hér um ræðir.

Eignarnemi gerir kröfu til að fá tiltekið landsvæði, 7715,5 m², afhent nú þegar skv. 14. gr. laga nr. 11/1973. Þó er samkomulag um að hesthúsið á landinu fái að standa fram í júní n.k.

Lögmaður eignarnámsþola hefur mótmælt því, að eignarnemi fái afhent umráð landsins með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973. Ekki hafa í málinu komið fram sérstök, sem nefndin getur fallist á gegn slíkri afhendingu.

Land það sem um ræðir í máli þessu er lítt grónir móar og hefur verið notað til hrossabeitar. Verðmæti landsins verður síðar metið en á þessu stigi málsins verður einungis tekið tillit til umráðaréttar skv. 14. gr. laga nr. 11/1973.

Við skoðun á vettvangi hefur Matsnefndin orðið sammála um, að það muni ekki torvelda endanlegt mat á þessu landi né spilla sönnunargögnum fyrir eignarnámsþola, þó að eignarnema verði nú þegar leyft að fá umráð landsvæðisins.

Samkvæmt því fellst Matsnefnd eignarnámsbóta á að eignarnemi fái nú þegar umráð landsvæðis að stærð 7715,5 m². Eignarnámsþoli hefur gert þá kröfu að verði á það fallist að eignarnemi fái umráð landsvæðisins verði honum gert að setja nægjanlega háa peningatryggingu fyrir afhendingu landsins. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 11/1973 ber að fallast á þá kröfu og þykir trygging til eignarnámsþola hæfilega metin á þessu stigi kr. 150.000.- bankatrygging.

Síðar mun Matsnefndin framkvæma endanlegt mat á þessu landi svo og hesthúsi því, sem stendur á landinu. Þá mun og verða tekið tillit til kröfu eignarnámsþola um greiðslu málskostnaðar af málinu.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar, Björn Bjarnarson, ráðunautur og Bárður Daníelsson, verkfræðingur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. l. nr. 11/1973.

Þ v í   ú r s k u r ð a s t :

Eignarnema, Hafnarfjarðarbæ, er heimilt að taka nú þegar umráð þeirra 7715,5 fermetra úr landi Sólbergs, upphaflega úr landi jarðarinnar Setbergs, sem um ræðir í máli þessu gegn kr. 150.000.- bankatryggingu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum