Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 1983 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 3. nóvember 1983

Ár 1983, fimmtudaginn 3. nóvember var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Rangárvallahreppur
                  gegn
                  Magnúsi Klemenssyni
                  v/jarðanna Foss og Árbæjar í
                  Rangárvallahreppi

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 1. des. 1982 til Matsnefndar eignarnámsbóta hefur Brynjólfur Kjartansson hrl. tjáð nefndinni, að umbj. hans, Rangárvallahreppur, geri kröfu til þess að fá neytt eignarnámsheimildar sinnar skv. 2. mgr. 26. gr. laga 65/1976, á 1/5 hluta jarðanna Foss og Árbæjar í Rangárvallahreppi, sem Magnús Klemensson, Ártúni 9, Hellu hafi fengið í arf eftir Guðrúnu Hafliðadóttur skv. erfðaskrá.

Matsbeiðandi segir að skv. skýrum ákvæðum jarðalaga eigi hreppurinn rétt á að fá fasteignaréttindi þessi keypt, en um mat á greiðslu bóta fyrir þau fari eftir lögum um eignarnám.

Magnús Klemensson hafi neitað rétti hreppsins til þess að fá fasteignaréttindi þessi keypt, en aðrir eigendur jarðanna Foss og Árbæjar eru Rangárvallahreppur, Jónína Hafliðadóttir, Ólafía Hafliðadóttir og Hafliðína Hafliðadóttir, en hver þessara aðila er eigandi að 1/5 hluta fasteignanna, en eignarhlutur Magnúsar Klemenssonar sé hinn sami, þ.e. 1/5 hluti.

Samkvæmt framangreindu fer matsbeiðandinn þess á leit við nefndina, að metnar verði eignarnámsbætur til handa Magnúsi Klemenssyni fyrir jarðarhluta hans í áðurgreindum jörðum.

Í bréfi sveitarstjóra Rangárvallahrepps 8. nóv. 1982 til Brynjólfs Kjartanssonar, hrl. segir m.a. á þessa leið:

"Í framhaldi af bréfi mínu dags. 19. ágúst s.l. og samtals við þig um sama mál vil ég koma eftirfarandi á framfæri.

Þann 9. ágúst s.l. gerði hreppsnefnd Rangárvallahrepps eftirfarandi samþykkt með atkv. allra hreppsnefndarmanna:

"Hreppsnefndin samþ. að fela sveitarstjóra að vinna að því að Rangárvallahreppur fái jarðirnar Foss og Árbæ keyptar skv. ákv. jarðalaga, náist ekki samkomulag um sölu þeirra við eigendur.

Samþ. þessi nær jafnt til þess hluta jarðanna í einu lagi sem hreppurinn á ekki, eða einstakra eignarhluta eftir því sem efni standa til."

Þann 27. sept. s.l. gerði hreppsnefndin svofellda bókun:

"Beiðni Rúnars Gunnarssonar um ábúð á Fossi og Árbæ.

Samþ. var svofelld ályktun með atkv. allra hreppsnefndarmanna.

1.   Hreppsnefndin fær ekki séð að ábúð á jörðunum Fossi og Árbæ samrýmist hagsmunum sveitarfélagsins við núverandi ástæður. Hreppsn. getur því ekki samþ. ábúð á þessum jörðum.

2.   Hreppsnefndin samþykkir að vinna að því að fá umræddar jarðir keyptar skv. ákv. jarðalaga."

Magnús Klemensson hefur ekki tekið upp viðræður við hreppsnefndina um sölu á sínum hluta jarðanna Foss og Árbæjar. Í viðræðum við einstaka hreppsnefndarmenn hefur hann lýst því að hann hefði ekki áhuga á slíkum viðræðum enda ekki svarað hreppsnefndinni neinu þar að lútandi sbr. bréf þitt til Magnúsar dags. 8. sept. s.l.

Með tilv. til þessa óska ég eftir því að þú haldir þessu máli áfram skv. ákv. jarðalaga eins og hreppsnefndin hefur ítrekað samþykkt."

Lögmaður hreppsins heldur því fram í málinu, að skv. 26. gr. jarðalaga eigi hreppurinn ótvíræðan rétt til þess að fá eignarhluta þann keyptan, sem ræðir um í þessu máli. Því er algjörlega neitað í málinu að Magnús Klemensson hafi verið fósturbarn arfleifanda. Hann hafi heldur ekki tekið jörðina í ábúð eða til fullra nytja eins og um ræðir í 1. tl. 26. gr. Jörðin sé því ekki í ábúð og ekki hýst og Magnús hafi engan búskap stundað á jörðinni annan en þann, að nota land hennar til beitar fyrir fé sitt.

II.

Fyrir hönd matsþola Magnúsar Klemenssonar hefur flutt mál þetta Sigurður Ólason, hæstaréttarlögmaður. Hefur lögmaðurinn eindregið mótmælt því, að matsgerð fari fram og neitað því að réttargrundvöllur til eignarnáms sé fyrir hendi.

Lögmaður matsþola heldur því fram, að ekki sé fullnægt því ákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar að almenningsþörf sé fyrir hendi í þessu máli. Hann telur skilyrði eignarnáms um þvingunaraðgerðir, að þær komi jafnt niður á einstaklinga, sé ekki fyrir hendi í þessu máli. Lögmaðurinn segir enga skilgreiningu á fósturbarni vera að finna í umræddri lagagrein og heldur ekki annars staðar í lögum. Hins vegar sé aðalinntak fósturhugtaksins umhyggja í einhverri mynd, hvenær sem sé á lífsleiðinni, og enginn vafi sé á því í þessu máli, að matsþoli hafi reynst arfleifanda sem besti fóstursonur og verið leiddur til arfs að jarðarhlutanum af þeim sökum.

Lögmaður matsþola segir, að alveg vanti í þetta mál að almenningsheill sé fyrir hendi. Þá telur hann að nytjar matsþola af jörðinni jafngildi því að hann hafi ábúð á henni. Þá heldur lögmaðurinn því fram, að landnámsstjóri hafi gert sig óvígan í þessu máli og þótt sáttaumleitan hafi farið fram í Matsnefndinni eins og lög bjóði, þá telji hann rétt að skipaðir verði tveir menn, sinn frá hvorum aðila, til þess að taka upp samkomulagsumleitanir, þar sem einnig yrði fjallað um afréttargirðingu, sem hreppurinn hafi ekki fengist til að reisa, þrátt fyrir marg ítrekuð tilmæli. Þá tekur lögmaðurinn það fram, að systurnar sameigendur matsþola, séu honum mjög fylgjandi í þessum málum og sammála honum í öllum greinum.

Lögmaðurinn gerir þær kröfur í málinu, fari matsgerð fram verði matsfjárhæðin ákveðin svo rífleg að öruggt sé að matsþoli beri ekki skarðan hlut frá borði, hvorki beint né óbeint. Þar sem matsþoli hafi fjárbúskap á jörðinni verði um mikla röskun á stöðu hans og högum að ræða, verði eignarhlutinn tekinn af honum. Að vísu afli matsþoli heyja í láglendinu og hafi sín fjárhús þar, en sumarbeitin sé honum nauðsynleg fyrir 150 til 200 ær, sem séu í hans eigu og skilað hafi góðum arði. Hann segir að matsþola sé það persónulegt tilfinningamál, að þurfa að flæmast frá jörðinni og væri sanngjarnt að taka það til greina í miskabótum honum til handa. Lögmaður matsþola mótmælir algjörlega matsgerð Árna Jónssonar, landnámsstjóra. Segir hann að við skoðun Árna á jörðinni hafi einungis sveitarstjórinn verið hafður til leiðsagnar, en matsþola ekki einu sinni gert aðvart um skoðunina. Matsfjárhæðin kr. 155.000.00 fyrir jörð og hús sé auðvitað allt of lág, enda hafi hreppurinn viðurkennt það með því að kaupa svokallaðan Hafliðapart fyrir u.þ.b. helmingi hærra verð að tiltölu. Bendir lögmaður matsþola á, að skv. afsali dags. 7. des. 1981 hafi Hafliði Jóhannsson, sem selt hafi Rangárvallahreppi sinn eignarhluta, 1/5 hluta jarðanna Árbæjar og Foss, fengið greiddar kr. 60.000.00 fyrir eignarhlutann í jörðunum, en í afsalinu hafi einnig verið afsalað auk landsins mannvirkjum öllum, svo og girðingum og öðrum gögnum og gæðum sem jörðinni hafi fylgt að engu undanskildu. Sé þetta verð um helmingi hærra en matsverð Árna Jónssonar.

III.

Matsnefndin hefur farið á vettvang og skoðað jörðina. Viðstaddir vettvangsskoðun voru Jón Þorgilsson, sveitarstjóri og lögmaður Rangárvallahrepps Brynjólfur Kjartansson hrl., en vegna matsþola Sigurður Ólason hrl.

Leitað hefur verið um sættir í málinu en árangurslaust.

Hinn 12. okt. 1983 fór fram munnlegur málflutningur í málinu.

Í 2. mgr. 26. gr. jarðalaga segir á þessa leið:

"Falli fasteignarréttindi við erfðir til annarra en þeirra er greinir í 1. tölulið á hreppsnefnd rétt á að fá þau keypt. Náist ekki samkomulag um verð skal um mat og greiðslu bóta fara eftir lögum um eignarnám."

Í upphafi 26. gr. segir, að ákvæði laganna um forkaupsrétt komi ekki til framkvæmda þegar jarðeigandi selur eða afhendir jörð maka sínum, barni sínu, barnabarni, kjörbarni, fósturbarni, systkini eða foreldri, enda taki viðtakandi jörðina til ábúðar og fullra nytja.

Matsnefndin lítur svo á, að ekki séu í máli þessu komnar fram neinar sönnur fyrir því, að matsþoli hafi verið fósturbarn arfleifanda og ekki lítur nefndin svo á, að matsþoli hafi tekið jörðina til ábúðar og fullra nytja, þótt hann noti hana til beitar fyrir fé sitt.

Samkvæmt framangreindu telur Matsnefndin engan vafa á því, að matsbeiðandi eigi rétt á, skv. 2. mgr. 26. gr. jarðalaga, að fá keyptan jarðahluta þann sem um ræðir í máli þessu. Þar sem ekki hafi náðst samkomulag um verð við matsþola telur nefndin málinu réttilega skotið til Matsnefndar eignarnámsbóta, sem fara eigi með málið eftir lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

Lögmaður matsþola hefur haft uppi í máli þessu margvísleg mótmæli gegn framgangi þessarar matsgerðar, m.a. á grundvelli ákvæða 67. gr. stjórnarskrárinnar um almenningsþörf o.þ.h.

Að svo miklu leyti sem þessi atriði hafa ekki nú þegar verið afgreidd af Alþingi, sem talið hefur verið að mæti almenningsþörfina, telur Matsnefndin það vera á valdsviði dómstóla að fjalla um þessi atriði og getur nefndin því ekki tekið þessi andmæli matsþola til greina.

Matsnefndin hefur fengið landamerkjaskrár jarðanna Árbæjar og Foss og borið þær saman við línurnar, sem dregnar eru á mskj. nr. 5, og ekki séð annað en þær væru rétt færðar.

Fyrir liggur, að eignarnámsþoli hefir eingöngu notað jarðir þessar til sumarbeitar, og getur hann gert svo áfram að því er fram hefur komið í málinu.

Jarðirnar Árbær og Foss liggja norðan Eystri-Rangár, drjúgan spöl austan við býlið Keldur, en frá Keldum og að þéttbýlinu Hellu eru nálægt 16 km. Hér er um að ræða landsvæði, sem oft hefur orðið fyrir geigvænlegum áföllum vegna eldsumbrota. Þannig er Hekla skammt undan, en skv. korti lætur nærri að frá Fossi og í toppgíg á Heklu séu aðeins um 22-23 km. loftlína.

Á þessu svæði hefur og uppblástur og sandfok herjað í gegn um aldir og valdið stórfelldri gróðureyðingu eins og staðfest er í sögulegum heimildum og greinilega mátti sjá við vettvangsgöngu sem farin var þann 16. ágúst sl. Umrædd býli liggja örskammt undan Eystri-Rangá, en Árbær mun hafa farið í eyði árið 1899. Þar eru engin húsakynni uppistandandi lengur, aðeins grónar rústir bera merki um það sem var. Girðing úr 6 strengja gaddavír er umhverfis það sem áður var tún. Er hún að öllu leyti úr sér gengin og löngu hætt að halda búfé og getur beinlínis verið til skaða fyrir það. Í þessu sambandi þykir rétt að benda á 11. gr. girðingalaga nr. 10 frá 25. mars 1965 en í niðurlagi greinarinnar segir: "Nú er hætt að nota girðingu og jafnframt að halda henni við og er þá girðingareiganda skylt að taka hana upp svo að hún valdi ekki tjóni." Land innan girðingarinnar er gróið, en grassvörður er gisinn og töluverðs mosa gætir. Einkum er þetta áberandi í brekkunum ofan og vestan við bæjarrústirnar. Í gróðurlendi þessu er nokkuð um krossmöðru enda er landið þurrlent og jarðvegur sand- og vikurblandinn. Traðir hafa verið heim undir býlið sunnan frá ánni. Frá Árbæ var haldið á smábratta til austurs upp með Eystri-Rangá að Fossi. Ekið var eftir jeppaslóða en á milli bæjanna eru rösklega 2 km. Býlið á Fossi liggur örskammt frá ánni, nánast á bökkum hennar. Jörðin hefur verið í eyði síðan 1968. Girðing er umhverfis túnið, sem er 5,8 ha að stærð samkvæmt jarðræktarskýrslum Búnaðarfélags Íslands. Girðingin er 6 strengja, úr gaddavír, en úr sér gengin og sjáanlega ekki við haldið, enda var sauðfé í túninu. Túnið á Fossi er nokkuð mishæðótt án þess beinlínis að geta kallast þýft. Að áliti matsmanna er það samt vart véltækt nema einstaka smáblettir. Þyrfti að vinna túnið allt upp til þess að hægt væri að koma vélanotkun við.

Túnið er allt þurrlent. Sina var ekki áberandi en mosi var töluverður, enda var grasrót frekar gisin, þar sem ekki hefur verið lögð rækt við túnið um árabil. Á Fossi standa eftirtalin mannvirki: Steinsteypt íbúðarhús um 36 m² og 167 rúmm. samkvæmt fasteignamati 1974. Undir húsinu er lágur kjallari. Hæðin er aðskilin með timburgólfi. Um einangrun er ekki vitað en veggklæðning virðist úr tréplötum. Útveggir hússins eru hraunaðir, en múrhúð er farin að gefa sig nokkuð á sv.horni. Húsið er byggt árið 1937. Á suðurhlið eru 2 gluggar á kjallara og 2 gluggar á hæðinni en í þeim er vandað tvöfalt gler sem mun nýlega sett í, enda er húsið notað að nokkru á sumrin sem bústaður.

Hlaða er til hliðar við íbúðarhús að austanverðu. Veggir hlaðnir úr grjóti. Að öðru leyti járnklæðning sem er ryðguð. Að dómi matsmanna er bygging þessi ónýt.

Þá er hlaðinn fjárkofi nokkru austar, úr grjóti og torfhleðslu með bárujárni. Að hluta til fallinn og ónýtur.

Vatnsbrunnur er vestan íbúðarhúss en í hann var safnað rigningarvatni til notkunar af þaki íbúðarhússins.

Reykhús og þurrkhjallur eru skammt frá brunni. Hvorutveggja ónýtt.

Lítið hlaðið fjós er og á næsta leiti. Ónothæft.

Vélahús 2,5 x 4 m. er rétt við. Járnklæðning á timburgrind, moldargólf. Járn er óryðgað á helmingi þaks. Byggingin er að falli komin.

Steypt áburðarþró með útikamri.

Vestur á túni standa tvö braggafjárhús reist 1950 og 1959. Rúma 60 fjár hvort um sig.

Neysluvatn er ekki fyrir hendi í íbúðarhúsi. Það var að hluta til borið heim úr Eystri-Rangá, eða tekið úr regnvatnsbrunni þeim sem áður er getið. Á jörðinni er ekki rafmagn vegn fjarlægðar frá almenningsveitu en jörðin er afsíðis og vegasamband hennar ekki gott.

Frá Fossi var ekið áfram eftir gömlu Fjallabaksleiðinni, sem liggur upp og austur með Eystri-Rangá. Var farið allt að eystri landsmerkjum jarðarinnar. Þaðan var sveigt aðeins til norðurs og komið upp á hraun og haldið eftir nýrri vegi, sem lagður hefur verið vestur um hraunið í stað gamla Fjallabaksvegar. Syðri hluti landsins austur með Rangá virðist víða dável grasi gróinn, en gróðurinn er smávaxinn enda að sjá alls staðar þurrlent. Á leiðinni ber gróðurlendið þess víða merki að vera viðkvæmt, þar sem slóðar hafa myndast eftir ökutæki, hafa þeir hér og þar skorið í sundur grassvörðinn. Jarðvegur hefur síðan fallið saman og smám saman myndast jarðföll. Þessi umferðarsár voru á köflum nokkuð áberandi á flatlendissvæði sem ekið var um austarlega á landareign Foss. Greinilega mátti sjá að víða er nokkuð djúpur jarðvegur undir því gróðurlendi sem gat að líta, en hann er fíngerður að eðli og greinilega viðkvæmur og fokgjarn. Vettvangskönnunin leiddi í ljós að samfelldasta gróðurlendi beggja jarðanna er innan beltis meðfram Eystri-Rangá. Er það að töluverðu leyti samhangandi allt frá vesturmörkum Árbæjarlands og austur undir austurlandamerki Foss, eins og sést á loftmynd, matsskjal nr. 5. Gróðurlendi þetta er misbreitt og landið á köflum mishæðótt. Fer það hækkandi austur á bóginn og liggur víðast í um 160-200 m. hæð y.s.

Norðan gróðurlendis tekur við apalhraun, en það virðist að því er vettvangskoðun leiddi í ljós, gróðursnautt og örfoka. Hér og þar á stangli gat að líta einstaka kyrkingsleg grös og blómjurtir eins og blóðberg, fálkapung, geldingahnapp, ljónslappa og músareyra, sem gjarnan velja sér ófrjóan og rakasnauðan jarðveg, enda er vart hugsanlegt annað en vatn hripi fljótt niður eftir úrkomur í þessari jarðvegsgerð.

Ekki sáust nein greinileg vegsummerki alvarlegrar gróðureyðingar vegna nýlegs uppblásturs, og bendir það til að jarðvegur sem verið hefur á hreyfingu í hrauninu hafi hægt á sér.

Árbær og Foss eru, eins og áður er vikið að, ekki í alfaraleið og vegasamband jarðanna er erfitt til venjulegs búrekstrar miðað við nútíma aðstæður. Foss er og nánast húsalaus jörð, sem yrði að byggjast upp og rækta frá grunni ef stunda ætti þar búskap.

Að því athuguðu sem rakið er að framan, verðrýrnun peninga og annars þess, sem Matsnefndin telur skipta máli telur Matsnefndin hæfilegt mat jarðanna sem hér segir:

   Land ............................................................................   kr.   780.000.00
   Íbúðarhús á Fossi ........................................................   "   75.000.00
   Nothæft í útihúsum .....................................................   "   10.000.00
      Samtals   kr.   865.000.00

og fellur 1/5 hl. þess til eignarnámsþola, Magnúsar Klemenssonar, eða kr. 173.000.00, og er þá miðað við staðgreiðslu.
Rétt þykir, með vísan til 11. gr. laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 7.500.00 í málskostnað.

Rétt þykir, með vísan til 11. gr. sömu laga að eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 20.000.00.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. laga nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Rangárvallahreppur, greiði eignarnámsþolanum Magnúsi Klemenssyni, kr. 173.000.00 og kr. 7.500.00 í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 20.000.00.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum