Hoppa yfir valmynd
14. janúar 1985 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 14. janúar 1985

Ár 1985, mánudaginn 14. janúar var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið

               Vegagerð ríkisins
                  gegn
               Hannesi Davíðssyni, eiganda Þórukots,

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 5. nóvember 1984 hefur Vegagerð ríkisins með vísan til 10. kafla laga nr. 6/1977 og laga nr. 11/1973 farið þess á leit með Matsnefnd eignarnámsbóta, að metnar verði bætur vegna skerðingar á landi Þórukots í Bessastaðahreppi, sem verði við endurbætur á Álftanesvegi. Í bréfinu segir, að land Þórukots skerðist um 709 m², en í viðbótarmatsbeiðni dags. 14. nóvember 1984 er tala þessi hækkuð í 799 m². Við munnlegan flutning málsins 9. janúar 1985 var af hálfu eignarnema lögð fram leiðrétting á kröfugerðinni á þann veg, að krafist er að 634 m² verði teknir eignarnámi eða 485 m², ef eignarnámsþoli gerir ekki kröfu til að girt verði meðfram Álftanesvegi í landi Þórukots. Af hálfu eignarnámsþola hefur ekki verið tekin afstaða til þess, hvort hann vilji láta girða meðfram veginum, ef til kemur. Krafa eignarnema er því nú um 634 m² úr landi eignarnámsþola. Breytingar á kröfugerð eru vegna nákvæmari mælinga, sem eignarnámsþoli hefur látið gera, en ekki breytinga á fyrirhuguðum vegi. Af hálfu eignarnámsþola, Hannesar Davíðssonar, er þess krafist, að hafnað verði beiðni eignarnema um að teknir verði eignarnámi 799 m² af landi Þórukost, til vara, og eignarnámið taki aðeins til 100 m². Önnur varakrafa eignarnámsþola er, að eignarnámið nái aðeins til 334 m², þriðja varakrafa, að eignarnámið nái aðeins til 381 m², en þrautavarakrafa, að eignarnámið nái aðeins til 386 m². Þá er þess krafist, að synjað verði ósk eignarnema um heimild til að fá umráð landsins, hvernig sem málið að öðru leyti fer, þar til fyrir liggur endanlegur dómur í málinu: Hannes Davíðsson gegn félagsmálaráðherra f.h. félagsmálaráðuneytisins og oddvita Bessastaðahrepps f.h. hreppsins, sem þingfest var á bæjarþingi Reykjavíkur 8. nóvember 1984. Krafist er málskostnaðar alls úr hendi eignarnema, þ.m.t. málflutningslauna skv. gjaldskrá L.M.F.Í. Krafist er tryggingar skv. 14. gr. laga nr. 11/1973, ef fallist verður á kröfu eignarnema og verði hún í formi bankaábyrgðar eða sparisjóðsbókar.

II.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta 15. nóvember 1984. Fyrir eignarnema hefur Gunnar Gunnarsson hdl. mætt í málinu. Hannes Davíðsson mætti sjálfur, er málið var fyrst tekið fyrir, en Ragnar Aðalsteinsson hrl., hefur að öðru leyti rekið málið fyrir hans hönd. Matsnefndin fór á vettvang 4. desember 1984 og kynnti sér allar aðstæður. Eignarnámsþoli og fulltrúi eignarnema voru viðstaddir vettvangsgönguna.

Umboðsmenn aðila hafa að svo stöddu einskorðað málflutning sinn við kröfu eignarnema um að fá nú þegar umráð þess lands, sem málið snýst um og lagt þann þátt málsins undir úrskurð nefndarinnar.

Sátt hefur verið reynd með aðilum, en án árangurs.

III.

Eignarnemi vísar til 59. gr. vegalaga nr. 6/1977 um heimild til eignarnámsins. Segir hann, að breytingar á Álftanesvegi verði unnar samkvæmt skipulagsuppdrætti, sem hafi fengið þá meðferð, sem skipulagslög gera ráð fyrir, samþykktur af hreppsnefnd Bessastaðahrepps og Skipulagsstjórn ríkisins og staðfestur af félagsmálaráðuneytinu 18. júlí 1984.

Eignarnemi telur sér nauðsynlegt að fá umráð landins nú þegar, enda hafi verið gerður samningur við verktaka um lagningu Álftanesvegar. Vegarlagningin sé þegar komin að landi Þórukots og sé nauðsynlegt að halda henni áfram m.a. vegna hættu á ófærð vegna snjóa.

Af hálfu eignarnámsþola er aðalkrafa hans rökstudd með því, að skilyrði eignarnáms skv. 59. gr. laga nr. 6/1977 séu ekki fyrir hendi. Eignarnema sé engin þörf á frekara landi til vegagerðar á þessum stað, þar sem hann hafi þegar forræði vegarstæðis, sem sé fullnægjandi í hvívetna. Hafi eignarnemi heldur enga tilraun gert til að sýna fram á nauðsyn fyrirhugaðrar vegarlagningar með þeim hætti, sem fyrirhugað sé.

Fyrstu varakröfu sína rökstyður eignarnámsþoli með því, að í bréfi Skipulags ríkisins til félagsmálaráðuneytisins dags. 16. júlí 1984 segir, að ekki verði séð, að fyrirhuguð vegarlagning muni skerða land Þórukots, "nema ef vera skyldi ca. 100 m² mælt af uppdrætti í mkv. 1:5000". Telur eignarnámsþoli, að þetta hafi verið forsenda staðfestingar skipulagsins af hálfu ráðherra og sé því bindandi fyrir eignarnema, sem verði að halda sig innan ramma skipulags.

Aðrar varakröfur sínar rökstyður eignarnámsþoli með því, að ekki þurfi að skerða land eignarnámsþola eins mikið og gerð sé krafa til, þótt miðlína Álftanesvegar verði þar sem óformað sé. Ekki þurfi að taka nema 334 m², ef tekinn sé skiki, sem miðist við línu dregna samsíða miðlínu en í 7.25 metra fjarlægð frá henni og 3 m. utan við öxl vegarins. Sé dregin bein lína milli skurðpunkta lóðamarka og boga 10 m. frá miðlínu þurfi 381 m². Sé línan dregin við fláafót þurfi að taka 386 m² og séu þá 8.03. frá miðlínu að fláafæti.

Sem fyrr segir krefst eignarnámsþoli þess, að hvernig sem málið að öðru leyti fari, verði synjað ósk eignarnema um að fá nú þegar umráð landins, þar til fyrir liggur endanlegur dómur í máli því, sem eignarnámsþoli hefur höfðað fyrir bæjarþingi Reykjavíkur á hendur félagsmálaráðherra f.h. félagsmálaráðuneytis og oddvita Bessastaðahrepps f.h. hreppsins, en í máli þessu krefst stefnandi ógildingar á skipulagstillögu að legu Álftanesvegar og Skólavegar í Bessastaðahreppi, sem auglýst var í Lögbirtingarblaði hinn 28. mars 1984 svo og ógildingar á staðfestingu félagsmálaráðherra hinn 18. júlí 1984 á skipulagstillögunni. Telur eignarnámsþoli, að það væri allt of dýrt að byggja nú veg í landi hans og flytja svo veginn að fengnum ógildingardómi. Sé því hætta á, að þá yrði látið sitja við orðinn hlut og réttur þegnanna til að bera stjórnvaldsákvarðanir undir dómstóla í raun að engu gerður.

IV.

Samkvæmt auglýsingu nr. 346/1984 var skipulagsuppdráttur, sem sýnir legu Álftanesvegar og Skólavegar staðfestur lögum samkvæmt 18. júlí 1984. Það á ekki undir Matsnefnd eignarnámsbóta að úrskurða um, hvort svo hafi verið staðið að gerð skipulagsuppdráttarins og staðfestingu, að varði ógildingu. Það á heldur ekki undir Matsnefnd eignarnámsbóta að hnekkja mati eignarnema á nauðsyn eignarnámsins að því marki, sem krafist er. Verður því að fallast á, að eignarnemi hafi viðhlítandi eignarnámsheimild, sbr. 59. gr. laga nr. 6/1977. Málshöfðun eignarnámsþola til ógildingar á skipulagsákvörðunum á heldur ekki að fresta málsmeðferð fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.

Ákvæði 14. gr. laga nr. 11/1973 þykir bera að skýra svo, að Matsnefnd eignarnámsbóta sé rétt að heimila eignarnema að taka umráð verðmæta, sem taka á eignarnámi, þótt mati sé ekki lokið, ef honum er þörf á því og þetta torveldar ekki störf Matsnefndarinnar. Fallast má á það með eignarnema, að honum sé nauðsyn að fá nú þegar umráð landsins til framkvæmda. Verður ekki séð, að þetta mundi torvelda framkvæmd matsins né spilla sönnunargögnum og því þykir rétt að heimila eignarnema nú þegar umráð landsins.

Ekki þykir ástæða til að úrskurða sérstaklega um málskostnaðarkröfu eignarnámsþola í þessum þætti málsins.

Samkvæmt ákvæðum 14. gr. laga nr. 11/1973 ber að taka til greina kröfu eignarnámsþola um tryggingu fyrir greiðslu bóta og kostnaðar vegna umráðatöku landsins nú þegar. Aðilar hafa ekki tjáð sig sérstaklega um tryggingarfjáræð, en hún þykir hæfilega ákveðin bankatrygging að fjárhæð kr. 200.000.00.

Úrskurð þennan hafa kveðið upp þeir Jóhannes L. L. Helgason, hrl., formaður nefndarinnar, Bárður Daníelsson, verkfræðingur og Óli Valur Hansson, sem formaður hefur hvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Þ v í ú r s k u r ð a s t :

Eignarnema, Vegagerð ríkisins, er heimilt að taka nú þegar umráð 634 m² af landi Þórukots í Bessastaðahreppi til vegarlagningar svo sem sýnt er í teikningum í gögnum málsins, enda setji hann eignarnámsþola bankatryggingu að fjárhæð kr. 200.000.00 vegna væntanlegra eignarnámsbóta og kostnaðar.

Málskostnaður úrskurðast ekki í þessum þætti málsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum