Hoppa yfir valmynd
31. maí 1985 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 31. maí 1985

Ár 1985, föstudaginn 31. maí var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. l. nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

               Reykjavíkurborg
   gegn
               Magnúsi S. Hjaltested
               Vatnsenda

og í því kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

I

Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 18. jan. 1985, hefur Reykjavíkurborg sent Matsnefnd eignarnámsbóta matsbeiðni þar sem m.a. segir á þessa leið: "Reykjavíkurborg hefur ákveðið að neyta heimildar 26. gr. laga nr. 15/1923 til þess að öðlast afnotarétt af landi jarðarinnar Vatnsenda í eigu Magnúsar S. Hjaltested, Vatnsenda, Kópavogi, fyrir vatnslögn er lögð var með samþykki landeiganda síðla árs 1972 og tekin í notkun fyrri hluta árs 1973. Um er að ræða 18 þumlunga aðfærsluæð fyrir Breiðholtsbyggðina í Reykjavík og vatnsgeyma á Vatnsendahvarfi sem áform voru um að reisa en ekki er víst að af verði. Reykjavíkurborg þarf á að halda rétti til að hafa vatnsæðina þar í jörð sem hún er ótakmarkaðan tíma svo og réttinn til aðgangs að henni til eftirlits og viðhalds." Síðar í bréfi borgarinnar segir á þessa leið: "Samkvæmt framansögðu er þess hér með óskað, að Matsnefnd eignarnámsbóta úrskurði um bætur til landeiganda, Magnúsar S. Hjaltested, vegna þeirra eignaskerðingar er hér hefur verið lýst svo og kostnað vegna matsmálsins, sbr. 1. - 11. gr. l. nr. 11/1973. Þá er þess óskað að Matsnefndin heimili Reykjavíkurborg þegar í stað nauðsynleg umráð þess lands sem vatnsæðin liggur um, gegn tryggingu ef ákveðin verður, sbr. 14. gr. l. nr. 11/1973."

Mál þetta hefur flutt fyrir Matsnefndinni Þórólfur K. Beck, hrl. Gerir hann þær kröfur, að svo stöddu, að máli þessu verði vísað frá Matsnefnd eignarnámsbóta og umbj. hans úrskurðaður málskostnaður skv. gjaldskrá L.M.F.Í. Lagarök og ástæður eignarnámsþola til þess að vísa málinu frá Matsnefnd eru taldar í aðalatriðum eftirfarandi:

"a)   Land þetta og nauðsynleg afnot og eignaréttur að því var afhent matsbeiðanda fyrir um áratug síðan. Eignarnáms er þegar af þeirri ástæðu hvorki þörf né nauðsyn, þar sem um er að ræða gerning, sem byggir á frjálsum samningi aðila. Lagaheimild brestur af þessari ástæðu til málsmeðferðar fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta, þar sem um slíka málsmeðferð hefir eigi samist með aðilum.

b)   Allt land Vatnsenda er í lögsagnarumdæmi Kópavogs. Reykjavíkurborg brestur af þeirri ástæðu allar lagaheimildir til eignarnáms í öðru sveitarfélagi. Gildir einu hvort borgin hyggst neyta heimildar 26. gr. vatnalaga eða annarra eignarnámsheimilda.

c)   Dregið er í efa að lega vatnsæðarinnar hafi verið ákvörðuð af réttum skipulagsstjórnvöldum og með lögformlegum hætti samkvæmt skipulagslögum.

d)   Ekki er upplýst hvaða aðili hefur tekið ákvörðun um eignarnám þetta af hálfu Reykjavíkurborgar, t.d. hvenær borgarráð hefir samþykkt eignarnámið á fundi og síðar borgarstjórn. Er því mótmælt meðan annað er eigi upplýst að eignarnámsákvörðun þessi hafi verið tekin af þar til bærum aðila fyrir hönd borgarinnar.

e)   Því er og mótmælt, að við undirbúning stjórnvaldsákvörðunar um eignarnám þetta hafi verið gætt lögmætra aðferða og í raun vikið frá grundvallarreglum við slíkan undirbúning. Er hér skírskotað til svonefndrar andmælareglu sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli Fellahrepps o.fl. gegn Halldóri Vilhjálmssyni svonefnds Lagarfells- eða Hlaðamáls. Er ljóst að hlutaðeigandi aðilum var ekki gefinn neinn kostur á að tjá sig um fyrirhugaða stjórnvaldsákvarðanatöku um eignarnám né leitað samninga um bætur áður en ákvörðun marklaus og skylt að vísa henni frá.

f)   Mál þetta er þegar til meðferðar hjá öðrum matsmönnum dómkvöddum af hinu þar til bæra embætti þ.e. bæjarfógetaembættinu í Kópavogi. Er með matsbeiðni borgarlögmanns verið að gera tilraun til að baka umbjóðanda mínum tvöfaldan kostnað við hagsmunagæslu á tveim vígstöðum. Virðist eðlilegt að Matsnefnd eignarnámsbóta stemmi stigu við slíku og eigi síður því að tíma og starfi nefndarinnar sé að nauðsynjalausu sóað með því að hafa fulla hliðsjón af því hvernig málið er vaxið að þessu leyti við ákvörðun málskostnaðar.

g)   Matsbeiðni er óljós að ýmsu leyti. Virðist fyrir það fyrsta sem óskað sé mats á einhvers konar afnotarétti að því er virðist ævarandi. Hins vegar virðist engum vafa undirorpið, að í reynd mun umbjóðandi minn sviptur rétti að landinu um alla framtíð. hann mun einnig þurfa að girða spildu þessa. Uppdrættir eru óljósir og flatarmál spildnanna kemur ekki fram í matsbeiðni."

II.

Eins og rakið hefur verið að framan er krafist umráðaréttar í þessu máli skv. 14. gr. laga nr. 11/1973. Í greinargerð matsbeiðanda er tekið fram, að eignarnáms sé ekki óskað til þess að fá leyfi til að leggja umrædda vatnsæð heldur til þess að fá formlega heimild fyrir lögninni og úrskurð um bætur til landeiganda. Um þetta atriði hefur ekki enn gengið neinn úrskurður í Matsnefnd eignarnámsbóta. Þar sem Matsnefndin er eina stjórnvaldið sem lögsögu hefur um þetta atriði og úrskurður ekki enn kveðinn upp verður þessu máli, þegar af þeirri ástæðu, ekki vísað frá Matsnefndinni.

Ákvæði 147. gr. Vatnalaga um dómkvaðningu matsmanna eru í samræmi við ákvæði þágildandi laga nr. 61/1917 um framkvæmd eignarnáms. Nú hefur Matsnefnd eignarnámsbóta tekið við verkefnum laga nr. 61/1917 og skv. meginreglum íslenskra laga og lagarökum, sbr. 150. gr. vatnalaga, telur Matsnefndin eðlilegast, að gegnum úrskurði um umráðaréttinn skv. 14. gr. laga nr. 11/1973 úrskurði einnig um fébætur til landeiganda.

Valdsvið Matsnefndar eignarnámsbóta nær til alls landsins, en er ekki takmarkað við tiltekið lögsagnarumdæmi.

Kópavogskaupstaður hefur sumpart samþykkt þessar vatnsvirkjunarframkvæmdir og sumpart vísað málinu til meðferðar aðilanna sjálfra.

Ekki er annað upplýst en ákvörðun um vatnslögnina hafi á sínum tíma verið tekin af þar til bærum starfsmanni borgarinnar. En fyrir liggur í málinu, að eignarnámsþoli hefur með bréfi dags. 2. júní 1975 heimilað Vatnsveitu Reykjavíkur að hefja framkvæmdir þá þegar.

Dómkvaðning matsmanna í Kópavogi er, að áliti nefndarinnar hluti af gagnaöflun eignarnámsþola í málinu.

Skv. framansögðu verður málinu ekki vísað frá Matsnefndinni.

Síðar verður ákveðið um málskostnað til eignarnámsþola, svo og um kostnað til ríkissjóðs af rekstri málsins.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson hrl, formaður nefndarinnar og matsmennirnir Bárður Daníelsson, verkfræðingur og Björn Bjarnarson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Þ v í ú r s k u r ð a s t .

Frávísunarkrafa eignarnámsþola, Magnúsar S. Hjaltested er ekki tekin til greina.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum