Hoppa yfir valmynd
17. desember 1985 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 17. desember 1985

Ár 1985, þriðjudaginn 17. desember, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir málið:

Hólmavíkurhreppur
gegn
Jóni G. Kristjánssyni
f.h. eigenda
gömlu verzlunarlóðarinnar
Hólmavík, Strandasýslu

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

I.

Með ódagsettu bréfi mótteknu 26. júní 1985 hafa Hólmavíkurhreppur í Strandasýslu og eigendur "gömlu verzlunarlóðarinnar" á Hólmavík farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að meta til verðs "gömlu verzlunarlóðina" svokölluðu á Hólmavík.

Upphaf máls þessa er það, að með bréfi dags. 16. ágúst 1977 fóru eigendur "gömlu verzlunarlóðarinnar" á Hólmavík þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, með vísan til 6. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms og 28. gr. sbr. 29. gr. skipulagslaga, að "gamla verzlunarlóðin" á Hólmavík yrði metin til verðs.

Mál þetta var tekið fyrir á fundi Matsnefndarinnar á Hólmavík 24. ágúst 1977 og því síðan frestað um óákveðinn tíma.

Í framhaldi af ofangreindu máli hafa aðilar málsins hinn 18. júní 1985 orðið ásáttir um, að Matsnefnd eignarnámsbóta meti til staðgreiðsluverðs alla "gömlu verzlunarlóðina" á Hólmavík, ásamt fjöru og sjávarréttindum, leigusamningum og öllum réttindum skv. þeim svo og öllum öðrum réttindum, sem hinu selda kunni að fylgja, venju og lögum samkvæmt með tilgreindum undantekningum.

Mál þetta var síðan tekið fyrir í Matsnefndinni á Hólmavík 6. september 1985 og var þá gengið á vettvang og landið og allar aðstæður skoðaðar.

Hólmavíkurhreppur bendir á í málinu, að landeigendur hafi þegar selt stóran hluta landins á leigu til langs tíma á lágum kjörum. Þá telur hreppurinn að skv. 30. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 sé landeigendum skylt að láta 1/3 hluta af seldu eða leigðu landi endurgjaldslaust af hendi við sveitarfélagið til almenningsþarfa, t.d. gatna, leikvalla o.s.frv. Bent er á að Hólmavíkurhreppur hafi búið til nýtt land með uppfyllingu meðfram gömlu kaupstaðarlóðinni.

Hólmavíkurhreppur upplýsir, að á síðustu 10 árum hafi aðeins verið seldar tvær lóðir á Hólmavík, þ.e. lóðirnar nr. 23 og 25 við Kópnesbraut. Sölur þessar hafi farið fram í maí 1981 og verðið þá verið kr. 30.000.00 fyrir hvora lóð. Hreppsnefndin hafi hafnað forkaupsrétti að lóðunum, þar sem hún hafi talið verðið óeðlilega hátt. Verið sé að reisa einbýlishús á annarri lóðinni en á hinni lóðinni standi grunnur undir hús, en framkvæmdir þar hafi stöðvast og eigendur lóðarinnar reynt að selja hana án árangurs.

Hvað varðar íbúafjölda í Hólmavíkurhreppi árin 1975 til 1984 bendir hreppsnefndin á eftirfarandi:

Ár íbúafjöldi

1975 343
1976 371
1977 367
1978 385
1979 385
1980 398
1981 410
1982 397
1983 708
1984 417

Upplýsingar hafa komið fram í málinu um ársverk í Hólmavíkurhreppi 1983, skiptingu ársverka eftir atvinnugreinum, meðaltekjur á ársverk og frávik tekna frá landsmeðaltali.

Skv. þessum upplýsingum voru meðaltekjur í Hómavíkurhreppi um 5% undir landsmeðaltali árið 1983 en árið 1980 var þetta frávik rúm 4%. Árið 1983 eru tekjur í Hólmavíkurhreppi sagðar 6% lægri en meðaltekjur á Vestfjörðum, en það ár hafi meðaltekjur Vestfirðinga verið kr. 275.000.00 á ársverk. Flest ársverk Hólmvíkinga eru unnin í þjónustugreinum en sjávarútvegur fylgir þar fast á eftir. Sjávarútvegurinn sé ótvíræð undirstaða atvinnulífsins á Hólmavík. Talsverður hluti iðnaðar og byggingastarfa sé einnig háður útgerðinni. Vegna tiltölulega hárra tekna við sjávarútveg leggi sú atvinnugrein mest af mörkum í sjóði sveitarfélagsins. Atvinna á Hólmavík standi nú og falli með framhaldi rækjuveiða en þær veiðar hafi verið undirstaða atvinnunnar síðustu árin. Samgöngur við Hólmavík fara að lang mestu leyti fram á landi og á það bæði við um fólk og vöruflutninga. Leiðin milli Reykjavíkur og Hólmavíkur er talin greiðfær meirihluta ársins og með tilkomu vegarins yfir Steingrímsfjarðarheiði hafi Hólmavík komist í vegarsamband við Ísafjarðardjúp. Áætlunarflug er til Hólmavíkur tvisvar í viku en yfir vetrarmánuðina þarf stundum að seinka ferðum eða fella þær niður vegna slæmra flugskilyrða. Flugvöllur er á Hólmavík en er talinn vanbúinn tækjum. Höfnin á Hólmavík er sögð svo grunn að stærri bátar og skip komist ekki inní hana.

Upplýst er að hausið 1985 hafi 6 íbúðir verið í byggingu á Hólmavík ef frá eru taldar þær íbúðir, sem íbúar hafa þegar flutt í. Meðalaldur íbúða á Hólmavík er talinn fara hækkandi og hann hafi verið mjög hár til skamms tíma og því brýn þörf á endurbótum og nýbyggingum. Árið 1978 hafi íbúðir á Hólmavík 40 ára og eldri verið hlutfallslega tvöfalt fleiri en að meðaltali á landinu öllu. Talið er að Hólmvíkingar hafi undanfarin ár búið þröngt í fremur gömlum húsum. Ekkert íbúðarhús hafi verið byggt á "gömlu verzlunarlóðinni" um nokkurra ára skeið. Framhald íbúðarbygginga á Hólmavík er sagt ráðast af ástandi í atvinnumálum staðarins. Af öðrum byggingum á Hólmavík eru nú til verzlunarhús, frystihús og sláturhús KSH, pósthús, bankahús, vélaverkstæði, sjúkraskýli, heilsugæslustöð og grunnskóli. Samkomuhús staðarins er sagt vera braggi frá stríðsárunum en stefnt sé að því að hefja framkvæmd við nýtt félagsheimili vorið 1986. Leikskóli er í smíðum og verður fokheldur haustið 1985. Þá er verið að reisa vöruskemmur og iðnaðarhúsnæði á svonefndu Skeiði.

Á Hólmavík er aðstaða til garðræktar talin mjög erfið, enda sé jarðvegur víðast grunnur og mikið af klöppum sem standi upp úr. Á milli klappanna myndist sumstaðar frárennslislausnir jarðvegsreitir, sem skapi plöntum erfið vaxtarskilyrði. Matjurtagarðar á bæjarlandinu eru sagðir fáir og litlir og einnig beri lítið á skrúðgörðum. Trjárækt er sögð lítil enda þrífist fáar trjátegundir vel á staðnum vegna sjávarseltu.

Aðstaða til hvers konar lagna, er sögð mjög erfið á bæjarlandinu þar sem klappir standi víða upp úr jarðveginum og af þeim sökum þurfi oft miklar sprengingar til að ryðja leiðina fyrir vatns- og frárennslislögnum. Sama gildi um lagningu rafleiðslna og símaþráða.

II.

Af hálfu landeigenda, matsþola í máli þessu, hefur flutt mál þetta Jón G. Kristjánsson, hdl. Hefur hann í greinargerð rakið tildrög máls þessa frá sjónarmiði umbj. hans og m.a. lagt fram kauptilboð dags. 4. des. 1976 er hreppurinn gerði þá landeigendum. Í því kauptilboði segir á þessa leið:

"Í framhaldi af bréfaskriftum landeigenda "Gömlu verzlunarlóðarinnar" til hreppsnefndar Hólmavíkurhrepps hefur hreppsnefnd Hólmavíkurhepps á fundi sínum hinn 2.12.1976 ákveðið að gera landeigendum "Gömlu verzlunarlóðarinnar" annars vegar og meðeigendum sínum í landi Kálfaness hins vegar eftirfarandi tilboð:

a) Gamla verzlunarlóðin (stærð verði nákvæmlega fundin út hjá Skipulagi ríkisins) kauptilboð kr. 55 m².

b) Annað skipulagt land úr landi Kálfaness (stærð verði nákvæmlega fundin út hjá Skipulagi ríkisins) kauptilboð kr. 40 m².

c) Landsvæði merkt 1,4,5 á meðfylgjandi uppdrætti (stærð verði nákvæmlega fundin út hjá Skipulagi ríkisins). Kauptilboð kr. 15 m².

Tilboð hreppsnefndar er bundið því skilyrði að land það sem merkt er 1,4,5, á meðfylgjandi uppdrætti verði falt til kaups.

Eins og fram kemur í tilboðunum er gert ráð fyrir að stærðarmörk verði ákveðin í samræmi við Skipulag ríkisins.

Kauptilboð þetta miðast við að helmingur kaupverðs verði greiddur innan sex mánaða frá undirskrift samninga og eftirstöðvar greiðist með jöfnum greiðslum næstu 8 ár þar í frá, eða eftir nánari samkomulagi.

Skriflegt svar við tilboði þessu óskast sent fyrir 31.12.1976".

Eigendur svöruðu þessu kauptilboði með bréfi dags. 30. des. 1976 og höfnuðu því, þar sem það væri bundið skilyrðum sem ekki væri á þeirra valdi að taka ákvörðun um. Lögmaðurinn hafnar því að eigendur séu skyldugir til að láta 1/3 hluta lands af hendi endurgjaldslaust til sveitarfélagsins skv. 30. gr. skipulagslaga. Kaupsamningur aðilanna sé afdráttarlaus að þessu leyti og tilgreint í honum hvað skuli vera undanskilið. Samningurinn hefði orðið að greina frá því sérstaklega, ef aðilar ætluðu sér að skilja undan 1/3 hluta landsins.

Skv. 30. gr. skipulagslaga sé það skilyrði, að landeigandi óski eftir, að óbyggðu landi verði breytt í byggingalóðir, en það skilyrði sé ekki til staðar í þessu máli. Samkvæmt því beri að meta allt landið til fulls verðs.

Heildarstærð "gömlu verzlunarlóðarinnar" skv. útreikningi Forverks h.f. er 9,7 ha. Þar frá dragast lóðir Höfðagötu 5, Hafnarbrautar 17, Borgarbrautar 2, Höfðagötu 11, Brunngötu 4, svo og lóð niðursuðuverksmiðju, reitur I á framlögðum uppdrætti, þannig að í máli þessu ber að meta til verðs 9,27 ha. af landi auk fjöru og sjávarréttinda. Kaupum fylgja allir leigusamningar og önnur þau réttindi, sem lögum og venjum skv. fylgja sölu á landi. Ekki er ágreiningur með aðilum um þessi atriði.

Lóðarsamningar sem til eru eru sagðir gerðir fyrir mörgum árum. Í þeim séu almennt ekki ákvæði um leigutíma né sérstök uppsagnarákvæði. Í þeim er tilgreind ársleiga, sem miðaðist við verðlag þess tíma er samningurinn var gerður.

Landeigendur segja að skipulagðar leigulóðir skv. deiliskipulagi eins og tíðkist í dag hafi ekki verið, er lóðirnar voru látnar af hendi, enda hafi skipulagsmál hjá Hólmavíkurhreppi verið óljós og í miklum ruglingi.

Talið er að í gildi hafi verið samþykkt skipulag af Hólmavík og staðfest af ráðherra 9. maí 1949. Ekki muni þó hafa verið farið eftir því, þar sem það hafi verið talið ónothæft. Hins vegar hafi verið farið eftir skipulagstillögu frá því í ágúst 1972, en nú sé til nýtt aðalskipulag frá 1985.

Þar sem flestir lóðarsamningar innan "gömlu verzlunarlóðarinnar" hafi verið gerðir fyrir 1972 þá falli lóðarmörk sumstaðar ekki að skipulögðum lóðarmörkum. Sveitarfélög hafi forræði yfir skipulags- og byggingarmálum og landeigendum því verið fyrirmunað að ná fram bestri lóðarnýtingu án fulltingis hreppsins.

Það er sagt óumdeilt, enda sé til Hæstaréttardómur fyrir því, að heimilt sé að segja upp ákvæðum leigusamninga, hvað varðar endurgjald eð lóðarleigu. Enn fremur sé ótvírætt að sveitarfélög hafi heimild til að breyta ákvæðum um legu og stærð lóða til samræmis við samþykkt skipulag.

Skv. þessu hafi hreppurinn það í hendi sér, að fá fram breytingar á lóðarsamningum um lóðaleigu til samræmis við nýjustu samninga um leið og hreppurinn eignist landið. Það sé aðeins framkvæmdaratriði, en lóðarleiga nýjustu samninga hreppsins muni nú vera 3% af fasteignamati lóðar. Samkvæmt þessu mótmæla landeigendur því að ákvæði núverandi leigusamninga eigi að hafa áhrif á landverð til lækkunar, þar sem ná megi fram á fyrsta ári eðlilegri lóðaleigu ef hreppurinn ákveður slíkt.

Landeigendur segja að reitur II á uppdrætti, 0,1 ha, sé að hluta til úr náttúrulegu landi" gömlu verzlunarlóðarinnar" en að hluta til uppfylling. Reitur III, 0.6 ha., sé alfarið uppfyllt land.

Þar sem sjávarútvegur sé undirstaða atvinnulífs á Hólmavík í dag þá undirstriki að verðmæti fjöru- og sjávarréttinda við höfnina. Það land sem búið hafi verið til sé ákjósanlegt fyrir atvinnustarfsemi enda skipulagt sem slíkt. Almennt hafi verið viðurkennt að meta beri fjöru- og sjávarréttindi til fjár.

Nýtt aðalskipulag Hólmavíkur liggur nú fyrir samþykkt af hreppsnefnd 12. sept. 1985. Skipulagsstjórn ríkisins hafi einnig samþykkt tillöguna. Samkvæmt þessu aðalskipulagi sé gert ráð fyrir landfyllingu við reit I og yst í reit II.

Landeigendur telja, að hluti af núverandi landfyllingu reits III sé eign landeigenda, en það sé fylling sem gerð hafi verið fyrir framan Hafnarfraut 31 af Olíufélagi Íslands h/f og falli til landeigenda skv. samningi. Hins vegar sé ógjörningur að ákvarða þá stærð í fermetrum.

Matsþolar benda á að frá 1975 til 1984 hafi íbúum Hólmavíkur fjölgað um 21,5%. Þetta undirstriki að uppgangur sé í sveitarfélaginu. Atvinna hafi verið næg og ástandið á þann veg að frekar hafi vantað fólk, sérstaklega iðnaðarmenn en ekki atvinnu.

Matsþolar benda á, að Steingrímsfjarðarheiði hafi verið opnuð og stóraukið ferðamannastraum til Hólmavíkur og veturinn frá Reykjavík til Hólmavíkur sé góður. Hafnaraðstaða á Hólmavík sé þokkaleg, áætlunarflug tvisvar í viku og fyrirhugaðar breytingar til hins betra á flugvallarsvæðinu og geri allt þetta mögulegt, að Hólmavík muni halda áfram að stækka og velmegun aukast.

Í málinu er lagður fram útdráttur úr fasteignamatsskrá frá 24. nóvember 1984. Um þessa skrá segir svo í greinargerð lögmanns landeigenda:

"Til að nálgast stærð mögulegra byggingalóða innan g.v.l. má nota þær tölulegu upplýsingar í meðfylgjandi útdrætti. Niðurstaðan verður ekki vísindalega nákvæm en gefur e.t.v. betri hugmynd um mögulega nýtingu landsins til bygginga en eru tiltækar í dag.

Meðalstærð fyrrgreindra 42 lóða, sem eru bæði íbúðar og atvinnuhúsnæði, að hafnarsvæði undanskildu, er um 724 m². Reitur III verður talinn með hafnarsvæði.

A. 42 lóðir skv. f.e.m. 724 m² eða 30.411 m²
B. 9 lóðir í fasteignaskrá án mats 724 m² eða 6.516 m²
C. A.m.k. 10 íbúðarlóðir sem koma má fyrir skv.
skipulagi 724 7.240 m²
D. Nýjar atvinnulóðir þ.m.t. fyrirhuguð verslun
K.S.H. skv. skipulagi, a.m.k. 5.000 m²
49.167 m²

Hafnarlóð 2.730 m²
Reitur III 6.000 x N 0.6 = 3.600 m² 6.330
Samtals 55.497.-

Nýting lóða af heildarstærð er því 55.497:92.700=0.60, sem er mjög sennileg tala og lægri en skipulagslög gera ráð fyrir sbr. 1/3 hluta undir götur og opin svæði.

Mat ofangreindra lóða er því sem næst þannig, ef gengið er út frá gildandi f.e.m. Almennar íbúðar- og atvinnulóðir 49.167x74.58= kr. 3.666.875
Hafnarlóðir 6.330x132,60= 839.358 (sic)
eða samtals á verðlagi 1984 kr. 4.506.233

Samkvæmt upplýsingum frá fasteignamati ríkisins gæti hækkunarstuðull á f.e.m. fyrir 1985 orðið um 1.25 á síðasta mat frá 1984. Stuðull þessi verður vafalaust til áður en úrskurður er kveðinn upp og treysti ég því að Matsnefnd muni nota réttan stuðul til viðmiðunar. Verðmæti lóðar væri þá 5.632.791 kr.

Ofangreind nálgun er varfærnisleg og frekar vanreiknuð en ofreiknuð."

Lögmaðurinn segir að framangreint verð samsvari því, að hver fermeter landsins væri kr. 60,76 virði og séu þá fjöru- og sjávarréttindi meðtalin svo og þau sem nýta eigi enn frekar til landstækkunar. Kr. 60.00 arðgefandi bæði í beinar tekjur og óbeinar með þeim möguleikum sem felast í gatnagerðargjaldi af ódýrum og góðum byggingarlóðum, sérstaklega fyrir atvinnustarfsemi geti varla talist óeðlilegt verð og er bent á í því sambandi nýlegt mat Matsnefndarinnar þar sem vegarstæði í Selási í Reykjavík hafi verið metið á kr. 150.00 hver m². Miðbæjarsvæði Hólmavíkur þar sem öll atvinnustarfsemi fari fram geti ekki verið verðminni en 40% af vegastæði í Selási. Matsnefndin tekur fram, að hér hafi verið um land undir íbúðarhúsnæði að ræða.

III.

Matsnefndin hefur farið á vettvang ásamt umboðsmönnum aðila. Skoðað var allt land "gömlu verzlunarlóðarinnar" og m.a. farið um hafnarsvæðið.

Aðilar hafa lagt fram greinargerðir í málinu svo og skýrt sjónarmið sín munnlega fyrir nefndinni. Leitað hefur verið um sættir með aðilum en árangurslaust. Málið var tekið til úrskurðar 5. desember 1985.

Eignarnámsheimild Hólmavíkurhrepps er að finna í 28. gr. skipulagslaga nr. 19/1964. Kröfur eignarnámsþola hafa stoð í 6. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Ekki er ágreiningur með aðilum um þetta atriði.

Mannvirkjagerð á landi þessu er erfið vegna klappa ef eyrin er undanskilin og fyllt landsvæði verður að verja fyrir ágangi sjávar.

Gróður á erfitt uppdráttar. Hafnarskilyrði eru aðeins fyrir minni báta.

Við mat á landsvæðinu hefur Matsnefndin litið á ásigkomulag svæðisins, legu þess, nýtingu þess nú og horfur á nýtingu þess í framtíðinni. Tekið er tillit til þess að landi hefur að mestu leyti verið leigt út nú þegar, svo og þess að heimilt er fyrir Hólmarvíkurhrepp að fá leigunni á lóðunum breytt, þannig að endurskoða má samningana hvað leigukjör varðar. Einnig hefur veirð reynt að hafa í huga áætlun um aukningu byggðar á Hólmavík á komandi tímum.

Hólmavík liggur vel við samgöngum miðað við það sem gerist á þessu svæði. Landsvæðið er skipulagsskylt og aðalskipulag hefur verið staðfest á þessu ári. Rétt þykir með vísan til legu landsins og allra aðstæðna að miða við, að framtíðarnýting þeirra lóða sem nú eru óbyggðar verði sú, að á þeim verði reist hús eign og á öðrum hluta svæðisins. Er því með vísan til almennra reglna um ákvörðun eignarnámsbóta, og með hliðsjón af meginreglum 29. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 rétt að leggja þá nýtingu landsins til grundvallar matsbótum að það verði allt byggt og á hafnarsvæðinu rísi atvinnuhúsnæði.

Þá telur Matsnefndin að hafa beri hliðsjón af ákvæði 30. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 og eignarnámsþolum sé skylt að láta 1/3 hluta landsins undir götur og önnur opin svæði endurgjaldslaust, enda hefur 30. gr. ekki verið skilin þannig m.a. vegna viðurkenndrar jafnræðisreglu að landeigandi þurfi að krefjast að viðkomandi landsvæði verði breytt í byggingalóðir.

Matsnefndin lítur ekki svo á, að hreppsfélagið hafi afsalað sér hagræði því sem fólgið er í 30. gr. skipulaglaga. Til þess að svo væri þyrfti sveitarfélagið að hafa tekið það fram berum orðum. Ekki verður heldur svo víðtækur skilningur lagður í samning aðilanna frá 18. júní 1985.

Landeigendur eru eftirtaldir aðilar að málinu og eignahluti hvers þeirra sem hér segir:

Kristján Jónsson 2/5 hl.
Arndís Benediktsdóttir 1/10 "
Ingimundur Benediktsson 1/10 "
Guðrún Benediktsdóttir 1/10 "
Finnur Benediktsson 1/10 "
Finnur Magnússon 1/25 "
Jón Magnússon 1/25 "
Ásgeir Magnússon 1/25 "
Ingibjörg Magnúsdóttir 1/25 "
Halldór Hjálmarsson 1/175 "
Magnús Hjálmarsson 1/175 "
Ingimar Hjálmarsson 1/175 "
Ragnheiður Hjálmarsdóttir 1/175 "
Röfn Hjálmarsdóttir 1/175 "
Sólveig Hjálmarsdóttir 1/175 "
Hlíf Hjálmarsdóttir 1/175 "

Í máli þessu er upplýst um tvær lóðarsölur, sem áttu sér stað á Hólmavík í maí 1981. Þá hefur Matsnefndin undir höndum til samanburðar matsgerð hæstaréttardómaranna Gizurar Bergsteinssonar, Gunnars Thoroddsen og Loga Einarssonar á eignunum Vatneyri og Geirseyri á Patreksifirði frá 1970. Upplýsingar eru í málinu um fasteignamöt á lóðum á Hólmavík.

Að athuguðum öllum þeim aðstæðum og sjónarmiðum sem rakin hafa verið hér að framan, verðbreytingum og öðru því, sem Matsnefndin telur hér skipta máli, m.a. upplýsingum sem nefndin hefur um sölur og möt á lóðum víðs vegar á landinu þykir landsvæði það, sem meta skal í málinu hæfilega metið þannig:

Gamla verzlunarlóðin kr. 3.500.000.-
og er þá miðað við staðgreiðslu.

Allir leigusamningar svo og fjöru og sjávarréttindi eru innifalin í matinu.

Hólmavíkurhreppur greiðir kostnað lögmanns landeigenda, skv. frásögn lögmannsins.

Rétt þykir með vísan til 11. gr. laga nr. 111/1973 að Hólmavíkurhreppur greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matnefndarinnar kr. 85.000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl. formaður nefndarinnar og matsmennirnir Bárður Daníelsson, verkfræðingur og Björn Bjarnarson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. laga nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Hólmavíkurhreppur greiði eftirtöldum eignarnámsþolum fébætur, sem hér segir:

Kristján Jónsson kr. 1.400.000.-
Arndís Benediktsdóttir " 350.000.-
Ingimundur Benediktsson " 350.000.-
Guðrún Benediktsdóttir " 350.000.-
Finnur Benediktsson " 350.000.-
Finnur Magnússon " 140.000.-
Jón Magnússon " 140.000.-
Ásgeir Magnússon " 140.000.-
Ingibjörg Magnúsdóttir " 140.000.-
Halldór Hjálmarsson " 20.000.-
Magnús Hjálmarsson " 20.000.-
Ingimar Hjálmarsson " 20.000.-
Ragnheiður Hjálmarsdóttir " 20.000.-
Röfn Hjálmarsdóttir " 20.000.-
Sólveig Hjálmarsdóttir " 20.000.-
Hlíf Hjálmarsdóttir " 20.000.-

Hólmavíkurhreppur greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 85.000.00.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum