Hoppa yfir valmynd
20. maí 1986 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 20. maí 1986

Ár 1986, þriðjudaginn 20. maí, var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

               Vegagerð ríkisins
                  gegn
               eigendum Krossgerðis I og II
               Beruneshreppi

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

Með bréfi dags. 23. apríl 1986 hefur Vegagerð ríkisins farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metnar verði bætur vegna fyrirhugaðrar efnistöku Vegagerðar ríkisins úr óskiptu landi jarðanna Krossgerðis I og II, Beruneshreppi, Suður-Múlasýslu.

Eigandi Krossgerðis I er Ingólfur Árnason til heimilis þar, en eigandi Krossgerðis II er Rósa Gísladóttir til heimilis að Vesturgötu 17a, Reykjavík. Rósa Gísladóttir hefur í samtali við formann Matsnefndarinnar samþykkt að selt verði efni úr jörðinni, en Ingólfur Árnason hefur mótmælt allri efnistöku úr landinu nema úr brekkunum.

Vettvangsganga í máli þessu fór fram þriðjudaginn 13. maí 1986 og var þá land það sem um ræðir í málinu rækilega skoðað. Matsbeiðandi lagði fram við fyrirtöku málsins uppdrátt að tveimur námusvæðum merktum F, þar sem taka átti 5000 m3 og svæði merkt G, þar sem taka átti ca. 30000 m3. Eftir vettvangsskoðunina var lagður fram nýr uppdráttur í málinu, mskj. nr. 4, þar sem náma G er færð til.

Mál þetta var aftur tekið fyrir í Matsnefndinni fimmtudaginn 15. maí og mætti þá af hálfu matsþola Ingólfs Árnasonar, Friðjón Örn Friðjónsson hdl. Hann ítrekaði mótmæli umbj. síns gegn efnistöku úr landinu og mótmælti umráðatöku Vegagerðarinnar skv. 14. gr. laga nr. 11/1973. Þá áskildi hann sér rétt til að leggja fram í málinu greinargerð síðar um efnishlið málsins, ef til kæmi.

Lögmaður matsbeiðanda tók fram að fyrirhuguð svokölluð náma G sé um 30000 m² að stærð, og náma F um 6000 m² að stærð.

Við skoðun Matsnefndarinnar á svæði F kom í ljós, að land þetta er grámosamóra, jarðvegskenndir á yfirborðinu. Ingólfur upplýsti við vettvangsgönguna að hann hefði í hyggju að rækta þetta svæði. Landsvæði merkt G er í jaðri sandkambs meðfram ströndinni, en þar fyrir ofan tekur við gróið land.

Eignarnámsheimildina er að finna í 59. gr. vegalaga nr. 6/1977 en þar segir, að hver landeigandi sé skyldugur til að láta af hendi land það er þurfi undir vegi, eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, svo og að leyfa að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur sé grjót, möl eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.

Sátt var reynd í máli þessu en árangurslaust.

Málið var tekið til úrskurðar fimmtudaginn 15. maí 1986.

Eignarnemi hefur gert þá kröfu, að Matsnefndin heimili Vegagerðinni skv. 14. gr. laga nr. 11/1973, að taka nú þegar umráð ofangreindra svæða í landi Krossgerðis.

Eignaraðilinn Rósa Gísladóttir er samþykk því, að efni sé selt úr jörðinni, en land jarðanna er í óskiptri sameign.

Eignarnámsheimild Vegagerðarinnar í máli þessu hefur ekki verið véfengd, enda virðist hún tvímælalaus. Matsnefndin telur að matsþolinn Ingólfur Árnason hafi nú þegar nægilegt ræktanlegt land á jörðinni. Skv. því telur Matsnefndin ekki ástæðu til að synja um efnistöku úr námusvæði merktu F.

Að því er varðar efnistöku úr svæði merktu G þá hefur sameiginlegur fundur hreppsnefnda Búða, Stöðvar, Breiðdals, Beruness, Búlands og Geithellnahrepps lýst sig andvíga því, að efni verði tekið úr steypuefnisnámu Djúpavogs-, Breiðdals- og Stöðvafjarðarsvæðis í Krossgerðislandi í Beruneshreppi, nánar tiltekið á Krossársandi í Beruneshreppi. Telja þeir að efnisnáma þessi geri vart meira en fullnægja þörfum byggðalaganna og önnur efnisnáma sem fullnægi kröfum til steypuefnis hafi ekki fundist á svæðinu. Fundurinn mótmælir því harðlega efnistöku á þessu svæði.

Til þess að mæta þessum sjónarmiðum var efnisnáma G færð til á uppdrættinum, eins og sýnt er á mskj. nr. 4, en sá uppdráttur fylgir þessum úrskurði.

Með tilfærslu námusvæðis G hefur að áliti nefndarinnar verið tekið verulegt tillit til þeirra ábendinga sem fram hafa komið í málinu varðandi steypumölina á Krossársandi.

Matsnefndin telur, að það muni ekki spilla sönnunargögnum sem varða mat á skaðabótum, né torvelda matið þótt heimilað verði að hefja þær framkvæmdir á landsvæði merktu G og efnistöku á þeim stað, sem krafist er. En það er yfirlýst af matsbeiðanda að efni þetta sé honum brýn nauðsyn að fá nú þegar umráð yfir, sem burðarlagsefni í nýjan veg á þessu landsvæði.

Að öllu athuguðu sem fram hefur komið í máli þessu fellst Matsnefnd eignarnámsbóta á þá kröfu eignarnema að hann fái nú þegar, með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973, umráð þess landsvæðis sem merkt er G á uppdrættinum og þess efnis 30000 m3, sem hann hyggst taka á svæðinu.

Vegagerðin skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að Krossá breyti ekki um farveg vegna efnistökunnar.

Samkvæmt framangreindu er Vegagerðinni heimil umráð ofangreindra námusvæða, merkt F og G, heimil efnistaka 5000 m3 úr svæði F og 30000 m3 úr svæði G, vinnsla á staðnum og geymsla svo og brottflutningur þess. Er Vegagerðinni heimill umferðarréttur um landið til fullnægingar þessum framkvæmdum.

Að loknum framkvæmdum skal Vegagerðin skila landinu frágengnu, eins og lög mæla fyrir um.

Málskostnaður til matsþola verður ákveðinn síðar.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl., formaður nefndarinnar og matsmennirnir Báður Daníelsson, verkfræðingur og Björn Bjarnarson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Þ v í ú r s k u r ð a s t :

Eignarnema, Vegagerð ríkisins, er heimilt að taka nú þegar umráð námusvæðis merkt F, eða um 6000 m² og námusvæðis merkt G, eða um 30000 m² á uppdrætti jarðanna Krossgerði I og II í Beruneshreppi, svo og að taka jarðefni allt að 5000 m3 úr svæði F og 30000 m3 úr svæði G, vinna þetta efnismagn á svæðinum og geyma það þar, meðan á framkvæmdum stendur og brottflutningi efnisins.

Er eignarnema heimill umferðarréttur um landið til fullnægingar þessum framkvæmdum.

Úrskurðurinn er kveðinn upp að aðilum fjarstöddum, en endurrit sent lögmönnum þeirra samdægurs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum