Hoppa yfir valmynd
19. janúar 1991 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 19. janúar 1991

MATSNEFND EIGNARNÁMSBÓTA.

   ÚRSKURÐUR.

            uppkveðinn 19 janúar 1991
            í eignarnámsmálinu nr. 9/1990:

               Landsvirkjun
               gegn
               Magnúsi Hjaltested.

I.   SKIPAN MATSNEFNDAR.

Úrskurð þennan kveða upp Ragnar Aðalsteinsson hrl., formaður matsnefndar eignarnámsbóta, og matsmennirnir Stefán Tryggvason, bóndi, og Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur, en formaður hefur kvatt þá til meðferðar þessa máls skv. 2.gr. 2.mgr. l.nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. AÐILAR.   

Eignarnemi er Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, en eignarnámsþoli er Magnús Hjaltested, kt. 280341-2079, Vatnsenda, Kópavogi.

III. MATSBEIÐNI.

Matsbeiðni lögmanns eignarnema er dagsett 30. nóvember 1990, en Landsvirkjun sendi beiðnina til nefndarinnar ásamt fylgiskjölum með bréfi dags. 3. desember 1990.

IV. ANDLAG EIGNARNÁMS OG TILEFNI.

Tilefni eignarnáms er fyrirhuguð lögn 220 kV. háspennulínu milli Búrfellslínu II, þar sem línan liggur um Sandskeið, og nýrrar aðveitustöðvar við Hamranes við Hafnarfjörð. Andlag eignarnámsins er réttur fyrir eignarnema til að reisa 11 möstur í landi Vatnsenda, leggja vegarslóða og halda honum við samsíða háspennulínunni og kvöð um bann við mannvirkjum undir og til hliðar við línuna á 3,6 kílómetra svæði og nær kvöðin til 19.5 hektara lands í landi Vatnsenda.

V. EIGNARNÁMSHEIMILD.

Eignarnemi vísar til 18.gr. l.nr. 42/1983 um Landsvirkjun og bréfs iðnaðarráðuneytisins til Landsvirkjunar dags. 23. nóvember 1990 um heimild til eignarnáms, en í síðastgreindu bréfi, þar sem ráðuneytið staðfestir heimild til handa Landsvirkjun til eignarnáms á lóðum og löndum er og vísað til 55.gr. vatnalaga nr. 15/1923 um heimild il eignarnáms.

Eignarnámsþoli telur ákvörðun um eignarnám haldna slíkum ágalla, að hún geti ekki talist grundvöllur undir málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta og krefst frávísunar málsins. Um þann ágreining einan er fjallað í þessum úrskurði matsnefndar.

VI. KRÖFUR EIGNARNEMA.

Kröfur eignarnema eru þær, að matsnefndin meti bætur til eignarnámsþola "vegna eignarnáms á landsréttindum og afnotarétti í landi Jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi vegna 220 kV háspennulínu (Búrfellslínu 3B). þ.s. línan mun liggja um Vatnsendaland." Þá krefst eignarnemi umráða lands með heimild í 14.gr. laga nr. 11/1973 um eignarnám.

Í þessum þætti málsins gerir eignarnemi þær kröfur, að frávísunarkröfum eignarnámsþola verði hafnað og fram fari mat á eignarnámsbótum til handa eignarnámsþola í samræmi við matsbeiðni.

VII. KRÖFUR EIGNARNÁMSÞOLA.

Í þessum þætti gerir eignarnámsþoli þær kröfur aðallega, að eignar- námsbeiðni eignarnema verði vísað frá matsnefnd eignarnámsbóta, en til vara, að matsnefndin úrskurði, að eignarnám skv. ákvörðunum þeim, sem
eignarnámsbeiðnin er reist á, sé ólögmætt.

VIII. MÁLSMEÐFERÐ.

Svo sem áður segir er matsbeiðni eignarnema dags. 30. nóvember 1990 og fylgdi hún bréfi eignarnema dags. 3. desember 1990 til matsnefndar. Matsnefndin tók málið fyrir hinn 10. janúar 1991 kl. 14.00, en fyrr þann dag hafði matsnefndin ásamt talsmönnum aðila o.fl. freistað þess að komast á vettvang, en það tókst ekki sökum ófærðar. Skjöl eignarnema voru lögð fram nr. 1-6A, og svo og greinargerð eignarnámsþola ásamt fylgiskjölum nr. 7-12. Að auki voru á þeim á þeim fundi lögð fram skjöl nr. 13-17. Að svo búnu fór fram munnlegur málflutningur um kröfur eignarnámsþola um frávísun málsins og að svo búnu var sá þáttur málsins tekinn til úrskuðar.

XI. MÁLSATVIK.

Hinn 19. júlí 1988 birtist í 86. tbl. Lögbirtingablaðs útg. 19. júlí 1989 " Auglýsing um legu 220 kV háspennulínu frá Búrfellsvirkjun að Hamranesi í Hafnarfirði." Auglýsing þessi er frá skipulagsstjóra ríkisins og dags. í júlí 1989. Í auglýsingunni er vísað til 17. og 18.gr. skipulagslaga og lýst eftir athugasemdum við tillögu að legu
" 220 kV háspennulínu frá Búrfellsvirkjun að Hamranesi við Hafnarfjörð." Segir að tillaga að legu línunnar liggi frammi almenningi til sýnis frá 19. júlí - 30. ágúst 1989 á auglýstum skrifstofutíma og síðan eru sýningarstaðir tillögunnar taldir upp. Þeir eru tólf í jafnmörgum sveitarfélögum, þ.á.m. í Kópavogi. Er almenningi gert að skila athugasemdum fyrir 14. september 1989 og þeir sem ekki geri athugasemdir teljist samþykkir tillögunni.

Auglýsing þessi var birt víðar, m.a. í dagblöðum um sama leyti.

Samkvæmt skjölum málsins (skjal nr. 8) fóru fram viðræður á milli aðila haustið 1990 um bætur fyrir lögn háspennulínunnar um land Vatnsenda, en ekki náðist samkomulag, enda bar mikið á milli, sbr. bréf lögmanns eignarnámsþola á skj. nr. 8 til eignarnema.

Af afstöðnum þessum viðræðum ritaði eignarnemi bréf þann 16. nóvember 1990 til iðnaðarráðherra og lýsti fyrirhugaðri línu, þ.e. þeim hluta sem liggja á um Mosfellsbæ, Kópavog, Reykajvík, Garðabæ og Hafnarfjörð og er samtals u.þ.b. 24 km. löng. Óskar eignarnemi eftir heimild ráðherra til að taka eignarnámi landsréttindi vegna umræddrar háspennulínu í samræmi við l. nr. 11/1973 og 18 gr. l. um Landsvirkjun nr. 42/1983, sbr. 2. og 6.gr. laganna.

Með bréfi dags. 23. nóvember 1990 staðfesti iðnaðarráðuneytið heimild til eignarnáms á lóðum og löndum eftir því sem við þurfi vegna línunnar, jafnt vegna byggingar línunnar og tilheyrandi vegslóða, sem og vegna síðara eftirlits og viðhalds. Heimild þessi til handa Landsvirkjun er veitt " að því leyti sem það reynist óhjákvæmilegt að hennar mati til lausnar á vandamálum í samskiptum við landeigendur varðandi línu þessa."

Óumdeilt er, að eignarnemi sendi lögmanni eignarnámsþola afrit af bréfinu til iðnaðarráðherra frá 16. nóvember 1990 og að eignarnámsþoli kom ekki af því tilefni á framfæri neinum athugasemdum, hvorki við eignarnema eða iðnaðarráðuneytið. Hins vegar ritaði lögmaður eignarnámsþola bréf hinn 5. desember 1990 og kvaðst sér hafa borist þann dag afrit af matsbeiðni í máli þessu.    Í bréfinu segir lögmaðurinn, að iðnaðarráðuneytinu hafi láðst að gefa umbj. sínum, þ.e. eiganda Vatnsenda, "kost á að gæta andmælaréttar síns gagnvart fyrirliggjandi eignarnámsbeiðni." Telur lögmaðurinn ákvörðuna því ógilda að lögum. Eignarnemi sendi afrit af bréfi lögmannsins til iðnaðarráðuneytisins með bréfi dags. 13. desemmber 1990 og óskaði athugunar á því, hvort eignarnámsþoli gæti e.t.v. haft uppi einhver þau rök, sem komið geti í veg fyrir framgang eignarnámsins og tafið framkvæmdir Landsvirkjunar. Þess er óskað að nauðsynlegar ráðstafanir

verði gerðar, ef ástæða þykir til. Iðnaðarráðuneytið svaraði þessu með bréfi til lögmanns eignarnámsþola dags. 8. janúar 1991. Telur ráðuneytið eignarnámsþola þegar hafa haft " það tækifæri til athugasemda sem við á og nauðsyn er á, þannig að frekari umfjöllun ætti að vera óþörf." Vitnaði ráðuneytið meðal annars í ofangreinda auglýsingu skipulagsstjóra frá 1989.

X. SJÓNARMIÐ EIGNARNEMA.

Sjónarmið eignarnema eru í þessum þætti málsins þau að eignarnámsþola hafi gefist kostur á að koma að athugasemdum sumarið og haustið 1989, þegar skipulagsstjóri ríkisins auglýsti legu háspennulínunnar, m.a. um Kópavog þar sem Vatnsendaland er. Auglýsingin hafi verið tilhlýðilega birt. Engin ástæða hafi verið til að gefa eignarnámsþola sérstaklega kost á að koma að sjónarmiðum sínum á síðari stigum , þegar eignarnemi óskaði eftir heimild iðnaðarráðherra til eignarnámsins eða þegar iðnaðarráðuneytið undirbjó heimild sín til handa eignarnema.

XI. SJÓNARMIÐ EIGNARNÁMSÞOLA.

Eignarnámsþoli byggir kröfur sínar í þessum þætti málsins aðallega á því, að það sé ófrávíkjanleg regla ísl. réttar að gefa beri þeim, sem eignarnám beinist að, kost á að gæta andmælaréttar síns. Það hafi hvorki iðnaðarráðuneytið né Landsvirkjun gert og sé því eignarnámsákvörðunin ógild að stjórnarfarsrétti. Málsmeðferð fyrir matsnefnd verði ekki reist á slíkri ógildri ákvörðun. Beri því að vísa málinu frá matsnefnd. Þá telur eignarnámsþoli eignarnámsbeiðni ekki nægilega skýra og leiði það til frávísunar frá nefndinni. Einnig sé heimild ráðuneytisins óskýr. Þar sé hvorki getið lögunar né stærðar lands þess sem heimilt sé að taka eignarnámi. Ráðherra sé ekki heimilt að framselja vald til eignarnema til að taka ákvörðun um skerðingar þær, sem matsbeiðni beinist að. Telur eignarnámsþoli matsnefnd skylt skv. 5.gr. l. nr. 11/1973 um eignarnám að taka afstöðu til lögmætis eignarnámsins.

XII. SJÓNARMIÐ MATSNEFNDAR.

Í 6.gr. l. nr. 42/1983 er lögð sú skylda á eignarnema, Landsvirkjun, að tryggja að afl- og orkuþörf viðskiptavina fyrirtækisnins verði ávallt fullnægt. Einnig að kappkosta styrkingu og frekari uppbyggingu meginstofnlínukerfis þess til að tryggja rekstraröryggi. Í 7.gr. laganna er kveðið á um að heimild ráðherra þurfi til byggingar nýrra raforkuvera og meginstofnlína og skal senda ráðherra uppdrætti og lýsingu á fyrirhuguðum mannvirkjum áður en byrjað er á nýjum mannvirkjum.

Í 18.gr. laganna er ákveðið, að ráðherra geti heimilað Landsvirkjun að taka eignarnámi lönd, mannvirki og önnur réttindi sem nauðsynleg eru til framkvæmda samkvæmt lögunum og um framkvæmd eignarnámsins fari

eftir l. nr. 11/1973.

Matsnefndin telur með hliðsjón af sjónarmiðum, sem fram koma í hrd. 1980. 1763 ( Fellahreppsmál) að ekki hafi verið staðið rétt að ákvörðun um eignarnám á landsréttindum í Vatnsendalandi vegna 220 kV háspennulínunnar. Telur matsnefndin, að Landsvirkjun hafi borið að gera grein fyrir fyrirhuguðum eignarskerðingum í beiðni til iðnaðarráðherra um heimild til eignarnáms. Þá hafi annað hvort Landsvirkju eða iðnaðarráðherra borið að kynna þeim, sem fyrirhugað eignarnám beindist að, þær eignaskerðingar, sem áformaðar voru og gefa þeim kost á að koma viðhorfum sínum til eignarnámsins, þ.á.m. til þess hversu víðtækt það skuli vera, á framfæri áður en ákvörðun um eignarnámið er tekin. Telur matsnefndin, að í því tilviki sem hér er til úrlausnar hafi iðnaðarráðherra átt að leggja fyrir Landsvirkjun að skýra nánar í hverju eignarskerðingarnar væru fólgnar. Að svo búnu hafi iðnaðarráðherra átt að kynna eignanda Vatnsenda áformaðar eignaskerðingar og gefa honum kost á að koma viðhorfum sínum á framfæri. Jafngilt hefði verið, að Landsvirkjun hefði annast þennan undirbúning og sent gögn þar um til ráðherra.

Matsnefndin telur að mikill misbrestur hafi orðið á að framangreindum reglum hafi verið fylgt og telur matsnefndin eignarnámsákvörðunina því vera haldna slíkum ágöllum, að valdi ógildi hennar. Ákvarðanir, sem matsnefnd eignarnámsbóta kynni að taka á grundvölli slíkrar ákvörðunar yrðu ógildar. Því telur matsnefndin að skilyrði málsmeðferðar fyrir nefndinni skv. 5.gr. l. nr 11/1973 séu ekki uppfyllt og vísar málinu frá nefndinni.

Matsnefndin telur að auglýsing frá skipulagstjóra ríkisins um legu háspennulínunnar og áskorun til almennings um að koma á framfæri athugasemdum þar við geti með engu móti komið í stað þess, að gefa aðila sem væntanlegt eignarnám beinist að, kost að koma viðhorfum sínum á framfæri. Ofangreindum lagaskilyrðum hafi því ekki verið fullnægt með slíkri auglýsingu.

Rétt þykir að eignarnemi, Landsvirkjun, greiði í ríkissjóð kostnað af starfi matsnefndar eignarnámsbóta í þessum þætti málsins og nemur hann kr. 120.000.-

   ÚRSKUÐARORÐ.

Matsbeiðni Landsvirkjunar er vísað frá matsnefnd eignarnámsbóta.

Landsvirkjun greiði ríkissjóði í kostnað af starfi matsnefndar eignarnámsbóta kr. 120.000.-.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum