Hoppa yfir valmynd
23. janúar 1991 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurðir 23. janúar 1991

MATSNEFND EIGNARNÁMSBÓTA

   ÚRSKURÐUR
   uppkveðinn 23. janúar 1991
   í eignarnámsmálinu nr. 3/1990:

   Hjalti Jósefsson, Urðarbaki, Þverárhreppi
   gegn
   landbúnaðarráðherra og
   fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.

I. SKIPAN MATSNEFNDAR.

Úrskurð þennan kveða upp Ragnar Aðalsteinsson hrl., formaður matsnefndar eignarnámsbóta, og matsmennirnir Stefán Svavarsson, löggiltur endurskoðandi, og Stefán Tryggvason, bóndi, en formaður hefur kvatt þá til meðferðar þessa máls skv. 2.gr. 2.mgr. l.nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. AÐILAR.

Eignarnemi er landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og fyrir hann flytur málið Gunnlaugur Claessen, ríkislögmaður.

Eignarnámsþoli er Hjalti Jósefsson, bóndi að Urðar-baki, Þverárhreppi, Vestur-Húnavatns-sýslu. Fyrir eignarnámsþola flytur málið Hreinn Loftsson hdl.

Nokkrar af kindum þeim, sem mál þetta snýst um, eru eign Tryggva Rúnars Haukssonar, kt. 050471-4039, Urðarbaki, og eru aðilar sammála um að eignarnámsþoli fari einnig með umboð í hans máli þessu og ákveða skuli bætur í einu lagi.

III. MATSBEIÐNI.

Landbúnaðarráðuneytið ritaði matsnefnd eignarnámsbóta bréf hinn 12. desember 1989 og sendi nefndinni jafnframt afrit af bréfi lögmanns eignarnámsþola til ráðuneytisins dags. 21. nóvember 1989. Í þessu bréfi tilkynnir lögmaðurinn að umbj. hans sætti sig ekki við framboðnar bætur og telji óhjákvæmilegt að krefjast eignarnámsbóta. Í fyrrgreindu bréfi ráðuneyt-isins er vísað til þessarar afstöðu í bréfi lögmanns Hjalta

Jósefssonar og sagt að fjáreigandi geti krafist mats vegna niðurskurðarins eftir lögum um eignarnám og sé matsmönnum þá skylt að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu eða yfirvofandi sýking-arhættu. Á þessum grundvelli boðaði matsnefnd eignar-námsbóta talsmenn aðila til fundar hinn 25. janúar 1990.

IV. ANDLAG EIGNARNÁMS OG TILEFNI.

Tilefni eignarnámsmats er það, að í september 1989 var staðfest riðutilvik í sauðfé að Urðarbaki. Með bréfi dags. 9. nóvember 1989 tilkynnti landbúnaðarráðherra Hjalta Jósefssyni að ákveðið hefði verið að öllu sauðfé í hans eigu yrði fargað með niðurskurði eigi síðar en 21. nóvember 1989. Jafnframt að ákveðið hefði verið að fjárlaust skyldi vera á Urðarbaki frá niðurskurði til 1. nóvember 1991. Jafnframt var Hjalta tilkynnt í bréfinu að hann gæti valið milli eignar-námsbóta og afurðatjónsbóta eins og greiddar séu þeim sem samið er við. Krafist er mats á tjóni eignarnáms-þola, en hann telur það felast í missi hins skorna sauðfjár, spilltri rækt, fóðurkostnaði, heyi sem ekki nýtist, framtíðartekjumissi og ýmiss konar kostnaði, m.a. við hreinsun og endurnýjun fjárhúsa.

V. EIGNARNÁMSHEIMILD.

Aðilar eru sammála um að heimild til meðferðar málsins sé að finna í 42. gr. l. nr. 23/1956 og réttilega hafi verið staðið að ákvörðun um að nota þá heimild. Matsnefnd eignarnámsbóta fellst á að skilyrði meðferð-ar málsins fyrir nefndinni séu uppfyllt.

VI. KRÖFUR EIGNARNÁMSÞOLA.

Eignarnámsþoli gerir eftirfarandi kröfur:

   1.   Bætur fyrir 287 ær       kr. 2.123.800
   2.   Bætur fyrir 10 hrúta       kr. 175.000
   3.   Bætur vegna spilltrar
      ræktunar             kr. 658.800
   4.   Fóðurkostnaður vegna dráttar
      á slátrun í þrjátíu daga    kr. 104.332
   5.   Bætur vegna umframbirgða af
      heyi                kr. 1.515.136
   6.   Afurðatjónsbætur í tvö ár    kr. 3.490.257
   7.   Bætur vegna tapaðrar ullar
      af 296 kindum í fjögur ár    kr. 816.960
   8.   Skertar tekjur vegna nýs
      fjárstofns á tímabilinu
      1992 - 1996          kr. 1.348.389

   9.   Ýmis kostnaður          kr. 1.112.000
                     kr. 11.344.674

Að auki gerir eignarnámsþoli áskilnað um að eignarnemi greiði allan kostnað við vigtun og flokkun hins slátraða sauðfjár og flutningskostnað og annan sláturkostnað.

Að lokum krefst eignarnámsþoli dráttarvaxta af bótafjárhæð og málskostnaðar skv. gjaldskrá LMFÍ, kr. 750.268.

VII. KRÖFUR EIGNARNEMA.

Eignarnemi gerir þær kröfur að bætur verði ákveðnar með eftirfarandi hætti:

   1.   Bætur fyrir felldan fjárstofn   kr. 1.659.661
   2.   Afurðatjónsbætur árið 1990    kr. 1.601.111
   3.   Afurðatjónsbætur árið 1991   kr. 1.155.785
                     kr. 4.416.557

Að auki greiði eignarnemi 90% af flutningskostnaði líflamba skv. framvísuðum reikningum. Eignarnemi afhendi eignarnámsþola sótthreinsunarefni, fúavarnar-efni og málningarefni án endurgjalds. Þá kveðst

eignarnemi þegar hafa greitt kostnað við vigtun og flokkun sauðfjárins fyrir slátrun og greitt allan sláturkostnað.

Lögmaður eignarnema telur matsnefnd eignarnámsbóta ókleift að fella úrskurð um bætur fyrr en allir þættir tjóns eignarnámsþola liggja fyrir og gerir kröfu um frestun málsins á grundvelli þessa sjónarmiðs.

VIII. MÁLSMEÐFERÐ.

Þess er áður getið, að landbúnaðarráðuneytið ritaði
matsnefndinni bréf dags. 12. desember 1989, sem var tilefni fyrirtöku málsins hjá matsnefndinni. Málið var fyrst tekið fyrir hinn 25. janúar 1990, en þá voru talsmenn aðila sammála um eignarnámsheimild og matsnefnd lýsti því yfir að hún teldi skilyrði meðferðar uppfyllt. Málið var tekið fyrir að nýju 15. febrúar 1990 og síðan 1. mars 1990 og þá lagði lögmaður eignarnámsþola fram kröfugerð sína ásamt greinargerð og fylgiskjölum. Málið kom fyrir að nýju hinn 29. mars 1990 og síðan 10. maí 1990, en þá lagði lögmaður eignarnema fram kröfugerð ásamt greinargerð og fylgiskjölum. Þá höfðu verið lögð fram níu skjöl í málinu, en á nefndarfundi 23. júlí 1990 voru lögð fram átta skjöl til viðbótar áður en munnlegur

málflutningur fór fram. Þessi skjöl hafði matsnefndin og talsmenn beggja aðila fengið í hendur áður. Í vettvangsgöngu tóku þátt auk matsnefndarinnar, lögmenn aðila, þeir Hreinn Loftsson hdl. og Gunnlaugur
Claessen, ríkislögmaður. Eignarnámsþoli var sjálfur viðstaddur og með honum Agnar Leví, hreppstjóri og oddviti í Þverárhreppi. Þá tók Kjartan Blöndal, framkvæmdastjóri sauðfjársjúkdómadeildar, og þátt í vettvangsgöngunni. Skoðuð voru fjárhús og hlaða að Urðarbaki og hlustað á sjónarmið um hreinsun húsa að utan sem innan, svo og lóðarinnar í kringum útihúsin.

Að vettvangsgöngu lokinni var málið munnlega flutt og tekið til úrskurðar, en áður hafði árangurslaust verið leitað sátta.

IX. SAUÐFJÁRSJÚKDÓMURINN RIÐA.

Rétt þykir áður en vikið er að hinum eiginlegu atvikum þessa máls, að gera stuttlega grein fyrir sauðfjár-sjúk-dómnum riðu og aðgerðum gegn sjúkdómnum.

Riða er smitsjúkdómur í sauðfé. Smitefni riðu hefur ekki tekist að einangra. Smitefnið veldur skemmdum í taugafrumum og eru einkenni riðu m.a. skjálfti, kláði og lamanir. Mörg ár geta liðið frá sýkingu þar til

sjúkdómseinkenni birtast. Sýkt kind getur borið smit í aðra, enda þótt engin sjúkdómseinkenni séu fram komin. Smitleiðir riðu eru að mestu leyti óþekktar.

Riða var fyrst staðfest með vefjagreiningu eftir seinni heimsstyrjöldina hér á landi, en líklegt er talið að hún hafi borist hingað fyrir síðustu aldamót. Framanaf var riðan bundin við afmörkuð landsvæði, einkum norðanlands. Fyrir 10 - 20 árum tók sjúkdómur-inn að breiðast út og breiddist hratt út. Urðu veruleg afföll árlega af sauðfé vegna riðu á sumum bæjum.

Árið 1986 var ákveðið að skera niður allar riðusýktar hjarðir á landinu í því skyni að gera landið riðu-laust. Hefur fé verið skorið á u.þ.b. 600 bæjum. Þeirri aðferð að skera niður í hjörðum er síðan fylgt eftir með hreinsun á húsum og umhverfi og fjárleysi í a.m.k. tvö ár eftir niðurskurð.

X. MÁLSATVIK.

Hinn 23. september 1989 var staðfest riðutilvik í sauðfé að Urðarbaki, Þverárhreppi, Vestur-Húnavatns-sýslu. Riða hafði ekki fyrr komið fram í sauðfé á bænum. Í framhaldi af því leitaði landbúnaðarráðuneyt-ið eftir samningum við eignarnámsþola um bætur vegna

niðurskurðar á sauðfé á bænum, en samningar tókust ekki. Lokatilraun til samkomulags var gerð á fundi í landbúnaðarráðuneytinu hinn 31. október 1989, en sú tilraun bar ekki árangur. Hinn 9. nóvember 1989 ritaði landbúnaðarráðuneytið eignarnámsþola bréf og tilkynnti honum, að með heimild í 42. gr. l. nr. 23/1956 og á grundvelli tillögu sauðfjársjúkdómanefndar í bréfi dags. 11. október 1989 og í framhaldi af fundinum 31. október 1989 hefði verið ákveðið að öllu sauðfé í eigu eignarnámsþola yrði fargað með niðurskurði eigi síðar en 21. nóvember 1989. Jafnframt að ákveðið hefði verið að fjárlaust skyldi vera á Urðarbaki frá niðurskurði til 1. nóvember 1991 og að eignarnámsþola bæri að hlíta nánari fyrirmælum sauðfjársjúkdómanefndar um sótt-hreinsun húsa. Þá var þess getið að um bætur vegna niðurskurðarins færi eftir ákvæðum l. nr. 23/1956 með síðari breytingum, sbr. jafnframt reglugerð nr. 556/1982. Þess var og getið að samkvæmt lögunum gæti eignarnámsþoli valið milli eignarnámsbóta og afurða-tjónsbóta "eins og greiddar eru samningsaðilum.".

Bústofni eignarnámsþola var síðan fargað með niður-skurði hinn 2. desember 1989. Áður en skorið var niður, eða hinn 21. nóvember 1989, tilkynnti lögmaður eignarnámsþola landbúnaðarráðuneytinu að eignar-námsþoli gerði ekki athugasemdir við framkvæmd
niðurskurðarins enda þótt hann teldi vafa geta leikið á um lögmæti hans og áskildi hann sér rétt til að krefjast bóta ef síðar kynni að koma í ljós að
heimild hafi skort fyrir framkvæmdinni. Þá tók hann fram, að hann teldi að þær bætur sem eignarnámsþola hefðu verið boðnar af hálfu ráðuneytisins nægðu hvergi til að bæta tjón hans og af þeim sökum teldi hann óhjákvæmilegt að krefjast eignarnámsbóta.

Upphaflega var í gögnum málsins staðhæft af eignar-námsþola hálfu að slátrað hefði verið 287 ám og 10 hrútum, en af hálfu eignarnema var miðað við 272 ær og 7 hrúta. Við munnlegan málflutning urðu aðilar ásáttir um að miða skyldi bætur við 296 kindur, svo sem frá er greint í vottorði um slátrun á skj. nr. 13.

XI. SJÓNARMIÐ EIGNARNÁMSÞOLA.

Kröfur eignarnámsþola eru á því byggðar, að hann eigi rétt á að fá að fullu bætt það tjón sem hann hefur orðið fyrir og á eftir að verða fyrir vegna niður-skurðar sauðfjárstofns hans. Þessu til stuðnings vitnar hann til 67. gr. stjórnarskrár Íslands um fullt verð. Eignarnámsþoli kveðst geta sætt sig við að 42. gr. l. nr. 23/1956 um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra sé lagaheimild

til niðurskurðar sauðfjár vegna riðuveiki, en mótmælir því að matsnefnd sé skylt "að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu eða yfirvofandi sýkingarhættu" ef í
þeim orðum 42. gr. l. nr. 23/1956 felist að hann fái ekki fullar bætur.

Eignarnámsþoli styður síðastgreinda afstöðu sína á eftirfarandi hátt:
a)   Almenn lög geti ekki vikið til hliðar stjórnar-skrárákvæði þar sem kveðið sé á um fullar bætur við eignarnám.

b)   Búið sé að skera niður allar riðusjúkar hjarðir á nærliggjandi bæjum við Urðarbak og því litlar líkur á því að riðuveiki komi upp aftur að
      Urðarbaki.

c)   Vitneskja um riðuveiki og smitleiðir hennar sé lítil og það eigi ekki að bitna á eignarnáms-þola einum og fjárhag hans ef bústofn hans er skorinn niður vegna almannahagsmuna, ekki síst þegar upplýst sé að riðuveiki hafi aðeins verið í litlum hluta af fjárstofni hans.

d)   Niðurskurður riðufjár sé notaður til að ná fram

      öðrum markmiðum en útrýmingu veikinnar, þ.e. því markmiði að fækka sauðfé í landinu. Slík markmið eigi ekki að valda eignarnámsþola tjóni
      umfram aðra bændur.

   Til stuðnings fjárkröfum sínum hefur eignar-námsþoli bent á eftirfarandi og er hér á eftir vitnað til kröfuliðanna í kafla VI. hér að framan.

Um 1.

Eignarnámsþoli miðar kröfugerð sína við að lógað hafi verið 287 ám. Kostnaður við kaup á líflömbum hafi haustið 1989 verið kr. 185 fyrir hvert kíló í lifandi vigt lamba og meðalþyngd lambs hafi verið 40 kíló. Þar af leiðandi sé bótakrafan fundin með því að
margfalda 40 kíló með kr. 185 og síðan með fjölda
ánna, 287, og þannig fáist kröfuliðurinn
kr. 2.123.80-0.
Um 2.

Hrútar hafi verið 10, þar af 5 fyrstu verðlaunahrútar á kr. 20.000 hver og 5 annarra verðlauna hrútar á kr. 15.000 hver eða samtals kr. 175.000.

Um 3.

Tún séu 30,5 hektarar og er krafist bóta sem nemi
kostnaði við hálfan áburðarskammt á ári í tvö ár og er miðað við u.þ.b. sex áburðarpoka fyrir hvern hektara. Þetta muni duga til að halda túninu nokkurn veginn í rækt. Næstu tvö ár þar á eftir verði bætur 50% af greindum bótum. Samkvæmt þessu krefst eignar-námsþoli kr. 219.600 á ári í bætur vegna áburðarkaupa fyrsta og annað árið og kr. 109.800 á ári þriðja og fjórða árið eða samtals kr. 658.800.

Um 4.

Eignarnámsþoli segir að sauðféð hafi verið tekið á tún 13. október 1989 til að hafa það víst. Frá 31. október til 2. desember 1989 þegar niðurskurður fór fram hafi
einungis verið beðið eftir að slátrun kæmist í verk skv. fyrirmælum yfirvalda. Telur eignarnámsþoli þennan drátt á slátrun vera á ábyrgð og áhættu eignarnema og krefst viðhaldsfóðurs fyrir 286 kindur í 30 daga miðað við framleiðslukostnaðarverð heys.

Um 5.

Eignarnámsþoli kveðst hafa aflað heyja sumarið 1989

eins og eðlilegt mátti teljast þar sem riðuveiki varð ekki vart í sauðfé hans fyrr en um haustið. Af niðurskurðinum um haustið leiði að hann eigi töluverð-ar umfram-birgðir heys sem hann krefjist bóta fyrir og sé um að ræða 62.300 fóðureiningar skv. fóðurbirgða-skýrslu Búnaðarfélags Íslands. Telur hann verðmæti hverrar fóðureiningar kr. 24,32 og heildarbótakrafan því kr. 1.515.136. Þetta hey sé honum verðlaust vegna niður-skurðarins og verði ekki ráðstafað með sölu.

Um 6.

Eignarnámsþoli telur að afurðatjónsbætur eigi að miða við fullvirðisrétt jarðarinnar Urðarbaks í kjöti og rétt bóndans til að taka heim kjöt úr sláturhúsi. Fjárhæð þessa beri þó að lækka um 25%. Verðmæti fullvirðisréttarins er fundið með því að margfalda
fjölda áa, 300, með kr. 412,56 eða samtals kr. 2.252.578 og vegna réttar til að taka heim úr slátur-húsi er krafist kr. 74.260 þannig að samtals er krafist bóta á ári kr. 2.326.838. Eignarnámsþoli virðist gera ráð fyrir 18.2 kg. kjöts eftir kind-ina.Fyrir fyrsta og annað ár geri sú fjárhæð kr. 4.653.676 og 3/4 af þeirri fjárhæð nemi kr. 3.490.257. Matsnefndin skilur málflutning eignarnáms-þola svo að hann telji, að fjárhæð sem samsvari 25% af tekjunum

sé kostnaður við öflun teknanna, sem sparist.

Um 7.

Krafist er bóta fyrir missta ull af 296 kindum í fjögur ár og er þá miðað við 2 kíló af ull á kind og verðið miðað við 1. flokks ull með hreinleikastuðulinn 1,22. Þannig reiknað gerir eignarnámsþoli bótakröfu að fjárhæð kr. 816.960.

Um 8.

Eignarnámsþoli telur að fyrstu fimm árin eftir að búskapur hefjist að nýju (1992 - 1996) þá nái hann ekki sömu tekjum af nýjum fjárstofni og hann hefði náð af fjárstofni þeim sem slátrað var. Miðar eignarnáms-þoli við að meðaltal slátraðra dilka á árabilinu 1985 - 1988 hafi verið 313 dilkar og meðalverðið árið 1989 hafi verið kr. 6.312 og tekjur hans því á ári kr. 1.975.656. Hann telur að tekjur hans árin 1992 - 1996 hefðu orðið af óbreyttum stofni kr. 9.878.280 en af nýjum fjárstofni kr. 8.529.891 og mismunurinn sé kr. 1.348.389 sem sé bótaskylt tjón hans. Telur eignar-námsþoli að fyrstu fjögur árin, þ.e. 1992 - 1995 verði tekjurnar minni en hann áætlar af gamla stofninum, en fimmta árið, þ.e. árið 1996, verði tekjurnar kr.

2.115.548 eða kr. 139.892 hærri en hann áætlar tekjurnar af hinum niðurskorna sauðfjárstofni.

Um 9.

Eignarnámsþoli áætlar að kostnaður af hreinsun og sótthreinsun fjárhúsa nemi kr. 250.000, kostnaður við endurnýjun fjárhúsa nemi kr. 350.000, kostnaður við sérfræðiaðstoð kr. 75.000, kostnaður við flutning á líflömbum kr. 212.000 og kostnaður við málun á húsum, timbur og veggi vegna hreinsunar kr. 225.000 eða samtals kr. 1.112.000.

Þá krefst eignarnámsþoli þess að við heildarbótafjár-hæðina kr. 11.344.674 bætist dráttarvextir skv. 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. desember 1989. Að lokum krefst eignarnámsþoli málskostnaðar skv. gjaldskrá LMFÍ miðað við hagsmunina kr. 11.344.674 og nemur málskostnaðurinn þannig reiknaður kr. 750.268.

XII. SJÓNARMIÐ EIGNARNEMA.

Kröfur eignarnema um að eignarnámsmálið hvíli og ekki verði kveðinn upp í því úrskurður fyrr en allar greiðslur, sem eignarnemi viðurkenni, séu tölulega upplýstar og í gjalddaga fallnar, eru á því reistar,

að um greiðslur bóta skuli fara eftir fyrirmælum 37. -42. gr. l. nr. 23/1956 og stjórnvaldsreglna, sem settar eru með heimild í þeim lögum. Samkvæmt þessum reglum eigi að greiða bætur á alllöngu tímabili og sé þá horft til þess hvenær einstakir tjónsþættir vegna niðurskurðarins komi raunverulega til og þá á verðlagi þess tíma. Af þessum ástæðum telur eignarnemi mats-nefnd eignarnámsbóta ókleift að fella úrskurð fyrr en allir þættir tjónsins liggi fyrir og að óeðlilegt verði að telja að úrskurður sé fyrr upp kveðinn. Telur eignarnemi að tölulegar upplýsingar geti ekki legið nægjanlega ljósar fyrir fyrr en í fyrsta lagi haustið 1991 þegar haustgrundvallarverð það ár hefur verið ákveðið.

Þá er gerð sú krafa af hálfu eignarnema að matsnefnd eignarnámsbóta leggi alfarið til grundvallar við mat sitt reglur l. nr. 23/1956 um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra svo og reglugerð nr. 556/1982, sem sett sé með heimild í
lögunum. Í lögunum og reglugerðinni séu ítarleg ákvæði um bætur vegna niðurskurðar sauðfjár af völdum sauðfjársjúkdóma og réttur eignarnámsþola til bóta vegna niðurskurðar markist af efnisákvæðum laganna og stjórnvaldsfyrirmæla, en öðru ekki.

Þá krefst eignarnemi þess að matsnefndin taki fullt tillit til niðurlagsákvæðis 42. gr. l. nr. 23/1956, þar sem segi að matsmönnum sé skylt að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu eða yfirvofandi sýkingarhættu, ef krafist er mats vegna niðurskurðar eftir gildandi lögum um eignarnám. Eignarnemi telur að það sé ekki hlutverk matsnefndar eignarnámsbóta að skera úr um stjórnskipulegt gildi settra laga gagnvart stjórnar-skrá. Slíkt sé hlutverk dómstóla. Þess vegna sé nefndinni skylt að leggja til grundvallar mats-störfum sínum þær efnisreglur um bætur sem fram koma í lögunum og reglugerðinni.

Eignarnemi leggur áherslu á að fyrir nokkrum árum hafi verið hafin herferð að frumkvæði bændasamtakanna í því skyni að útrýma riðu með öllu og sú herferð sé að líkindum á lokastigi. Til þessarar herferðar hafi verið varið úr ríkissjóði mörg hundruð milljónum króna til bótagreiðslna skv. þeim bótareglum sem lögin nr. 23/1956 marka. Vitnar eignarnemi m.a. til niðurskurðar á fé gegn mæðiveiki áður fyrr, en þá hafi bætur til bænda ráðist alfarið af efnisreglum umræddra laga.
Eignarnemi krefst, að tekið sé tillit til þess, að komi riða upp í fjárhjörð, þá sé hjörðin raunverulega verðlaus eða verðlítil eign. Stafi þetta bæði af því

að sala á slíku fé, þar sem riða hefur verið staðfest, sé bönnuð, og því að slíkt fé hafi ekkert markaðsgildi og sé óseljanlegt. Þá sé riðusjúk hjörð hættuleg vegna smithættu. Þetta séu atriði sem matsnefndinni beri að taka mið af.

Eignarnemi fellst ekki á að eignarnámsþoli eigi rétt til fullra eignarnámsbóta, eins og um heilbrigt fé væri að ræða. Eignarnemi segir það almenna reglu að ekki þurfi að greiða bætur, þegar skylt sé að eyða
eign vegna hættueiginleika hennar sjálfrar og um eignaupptöku sé að ræða. Samt séu í ýmsum lögum fyrirmæli um bætur til eigenda að fullu eða að hluta og séu slík fyrirmæli byggð á sanngirnisástæðum en ekki á skyldu til bótagreiðslu. Því geti eignarnáms-þoli aðeins krafist þeirra bóta úr ríkissjóði sem lögin nr. 23/1956 og reglugerð nr. 556/1982 ákveði. Bótaréttur eignarnámsþola eigi sér einungis stoð í greindum lögum og reglugerðum, en án laganna hefði eignarnámsþoli orðið að bera tjón sitt bótalaust.

Þá vitnar eignarnemi m.a. í athugasemdir sem fylgdu frumvarpi til laga um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma, og útrýmingu þeirra, sem lagt var fram á Alþingi 1946, en þar sé að stofni til að finna þau ákvæði sem hér skipti máli. Þar segi m.a. að báðir

aðilar, þ.e. ríkið og fjáreigendur, verði að leggja fram sinn skerf, en hvorugur allt. Bændur verði að fórna allmiklu, ríkissjóður leggi á móti. Þannig
sé svo haldið á málum að viðráðanlegt sé. Þá segi í athugasemdunum að í frumvarpinu sé stefnt að því að gera allt sem einfaldast viðvíkjandi framlagi ríkis-sjóðs þótt það kunni að leiða til þess að ekki verði alls staðar mældur og veginn nákvæmlega hlutur hvers einstaklings, en það komi síður að sök, "þegar málið er leyst á félagslegum grundvelli, heldur en ef um ríkisframkvæmd eina væri að ræða.".

Kröfugerð eignarnema hefur áður verið rakin, en sjónarmið hans eru sem hér segir.

Um 1.

Eignarnemi hefur reiknað út frálagsverðmæti fjárstofns eignar-námsþola skv. haustgrundvelli árið 1989 miðað við 279 kindur. Niðurstaða þessara útreikn-inga er kr. 1.659.661 og telur eignarnemi þá fjárhæð hæfilegar bætur fyrir hinn fellda fjárstofn.

Um 2.   

Þá hefur eignarnemi látið reikna út afurðatjónsbætur

skv. haustgrundvelli 1989 fyrir 279 kindur og nema þær bætur kr. 1.601.111 fyrir árið 1990. Er þá miðað við 90% afurðatjóns ársins 1990. Hefur þá verið tekið
tillit til þess að eignarnámsþoli aflaði heyja sumarið 1989 í góðri trú. Því hafi af sanngirnisástæðum þótt rétt að taka þátt í kostnaði við öflun fóðurbirgða með því að bæta 90% afurðatjóns í stað 65%, svo sem venja sé.

Um 3.

Þá telur eignarnemi hæfilegar afurðatjóns-bætur fyrir árið 1991 nema kr. 1.155.785, sem eru skv. útreikn-ingi eignarnema 65% afurðatjóns ársins 1991.

Tölurnar í liðum 1 - 3 hér að framan eru miðaðar við 279 kindur, en eins og áður segir féllust aðilar á í munnlegum málflutningi að bætur skyldi miða við 296 kindur, sem er u.þ.b. 6,1% aukning frá ofangreindri viðmiðun.

Útreikninga á bótum vegna afurðatjóns kveður eignar-nemi byggða á grundvelli fyrirmæla í 11. gr. reglu-gerðar nr. 556/1982 þar sem afurðabætur séu reiknaðar út frá frálagsverði 15 kílóa dilks samkvæmt haust-grundvallarverði fyrir hverja kind.

Um önnur atriði í kröfugerð eignarnámsþola gerir eignarnemi eftirfarandi athugasemdir:

Eignarnemi fellst ekki á að greiða eignarnámsþola bætur nema fyrir tveggja ára fjárleysi. Eignarnámsþola sé heimilt að hefja sauðfjárbúskap að nýju að tveimur árum liðnum frá niðurskurði vegna riðu, en skilyrði þess sé þó að sótthreinsun fjárhúsa og umhverfis
þeirra fari fram á fyrsta ári eftir niðurskurð. Dragi eignarnámsþoli slíka hreinsun sé það á hans áhættu.

Eignarnemi hafnar því alfarið að greiða bætur vegna kaupa á líflömbum, enda séu bæturnar sem greiddar eru vegna niðurskurðar á fjárstofni haustið 1989 greiddar til þess að kaupa nýjan stofn að loknu fjárbanni.
Eignarnemi kveðst skilja kröfugerð eignarnámsþola um bætur fyrir fyrstu fimm árin eftir að sauðfjárrækt hefst að nýju þannig, að eignarnámsþoli telji fjár-stofn sinn sérstaklega afurðasaman. Um þetta liggi ekkert fyrir í gögnum málsins og því sé kröfum um
bætur fyrir sérstaka afurðasemi hafnað.

Þá mótmælir eignarnemi því að metnar verði 75% afurðatjónsbætur árin 1990 og 1991. Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 556/1982 skuli í afurðabætur greiða 65% af frálags-verði 15 kílóa dilks í tvö ár. Þriðja

árið skuli því aðeins greiða að sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem hér eigi ekki við. Í 38. gr. l. nr. 23/1956 sé að vísu sagt að ríkissjóður skuli greiða fjáreigendum afurða-tjónsbætur sem svari til 3/4 lambsverðs á bótaskylda kind. Þetta sé aðeins til að mæta afurðatjóni í eitt ár og sé eingreiðsla og nái ekki lengra. Í reglugerð hafi verið gengið lengra en lögin gera ráð fyrir í þá átt að bæta afurðatjón
bænda. Þá sé það sérstakt við mál eignarnámsþola að fallist skuli hafa verið á að greiða honum 90% afurðatjóns ársins 1990 í stað 65% en ástæða þess sé sú að riða hafi ekki fundist hjá honum fyrr en eftir að hann hafði aflað fóðurs sumarið 1989 í góðri trú og þetta sé gert af sanngirnisástæðum.

Þá mótmælir eignarnemi kröfum um að miða afurðatjóns-bætur við fullvirðisrétt jarðar og rétt bónda til að taka heim kjöt úr sláturhúsi. Verið sé að bæta fjárstofn en ekki fullvirðisrétt. Þá heldur eignarnemi því fram að þessi krafa sé órökstudd.

Eignarnemi mótmælir því að bætur verði ákveðnar fyrir ull af kindunum í fjögur ár. Til slíks sé ekki heimild í lögum eða reglugerðum og að auki sé mótmælt magni og gæðum ullarinnar og árafjölda.

Ekki fellst eignarnemi á að greiða bætur fyrir spillta rækt. Ekki sé gert ráð fyrir slíku í lögum eða reglugerð og að auki þurfi ræktun ekki að spillast
vegna niðurskurðar sauðfjár á bænum og tún að verða arðlaus. Sala á heyi sé heimil til hrossabænda og enginn vafi sé á að markaður sé fyrir hendi fyrir heyið eins og nú hafi árað og þá ekki síst á norður-landi.

Eignarnemi fellst ekki á að bæta flutningskostnað fjár til sláturstaðar, enda þurfi bændur almennt að kosta þann flutning.

Þá hafnar eignarnemi kröfum eignarnámsþola um kostnað við jarðvegsskipti, enda séu engin fyrirmæli um slíkt í lögum eða reglugerð.

Um sótthreinsun, þvott, málningu og fúavörn bendir eignarnemi á að í reglugerð sé ákvæði framyfir lagaskyldu um afhendingu sóttvarnarefnis,málningar og fúavarnarefnis án endurgjalds. Það verði gert í tilviki eignarnámsþola en frekari bótakröfum er hafnað. Eignarnemi telur óþarft að meta þann kostnað, þar sem greint efni verði afhent skv. óskum og eftir þörfum eignarnámsþola.

Þá mótmælir eignarnemi kröfum um bætur fyrir
en-durnýjun á fjárhúsum. Engu þurfi að henda úr fjárhús-um, heldur þrífa og sótthreinsa.

Ekki fellst eignarnemi á kröfu um bætur vegna kostnað-ar við sérfræðilega aðstoð enda sé enginn rökstuðning-ur fyrir kröfunni. Lög og reglugerðir gera ekki ráð fyrir þátttöku ríkissjóðs í slíkum kostnaði.

Eignarnemi telur að sauðfjárveikivarnir hafi ekki gerst sek um seinlæti við aflífun fjárins. Eignarnáms-þola hafi verið kleift að framvísa fénu til slátrunar fyrr en gert var með fyrirvörum um bætur. Unnt hafi verið að vigta og flokka féð mun fyrr en gert var en það hafi verið eignarnámsþoli sem sjálfur ákvað dagsetninguna á framkvæmdinni. Því sé kröfu um fóðurkostnað vegna seinlætis á framkvæmd niðurskurðar mótmælt.

Eignarnemi fellst á að greiða 90% af kostnaði við flutning á líflömbum skv. framvísuðum reikningum þegar þar að kemur. Þar af leiðandi gefur krafa þessi ekki tilefni til mats.

XIII. ÁLIT MATSNEFNDAR EIGNARNÁMSBÓTA.

Um varnir gegn sauðfjársjúkdómum gilda nú l. nr. 23/1956 um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúk-dóma og útrýmingu þeirra með síðari breytingum. Lögin eru að stofni til eldri og voru áður nr. 44/1947 með sama nafni. Gerðar voru nokkrar breytingar á lögunum árið 1956 og lögin nr. 44/1947 endurútgefin sem lög nr. 23/1956.

Í lögunum eru ákvæði um sjúkdóma þá sem lögin ná til og aðgerðir til útrýmingar sauðfjársjúkdóma svo sem um sauðfjárvarnarsvæði, fjárskiptafélög og fjárskipti. Þá eru og í VI. kafla laganna ákvæði um fjárframlög ríkisins til fjárskipta. Framkvæmd laganna heyrir undir landbúnaðarráðherra, sem skipar sauðfjársjúk-dómanefnd til að hafa á hendi stjórn sauðfjársjúkdóma-mála.

Í 13. gr. 2. mgr. og 23. gr. 2. mgr. laganna eru sérákvæði um bætur fyrir kindur sem sleppa yfir varðlínur og kindur sem eru sýktar eða grunur leikur á um að séu sýktar (sbr. og 17. gr.). Í 13. gr. 2. mgr. er kveðið á um að ríkissjóður skuli bæta kind með a.m.k. fullu niðurlagsverði (haustverði). Í 23. gr. 2. mgr. er aðeins ákveðið að sauðfjársjúkdómanefnd

ákveði bætur fyrir sauðfé, sem skorið er, án frekari skilgreiningar. Í þessum tilvikum er einungis fjallað um slátrun einstakra kinda, sem svo er ástatt um sem lýst er í lögunum.

Í VI. kafla laganna (37. gr. - 42. gr.) er hinsvegar fjallað um fjárframlög og bætur vegna fjárskipta, þ.e. þegar skorið er niður sauðfé á ákveðnum landssvæðum og nýtt fé fengið í staðinn annað hvort þegar í stað eða að liðnu einu eða fleirum sauðleysisárum.

Í 37. og 38. gr. er um það fjallað hvernig ríkissjóður skuli bæta fjáreigendum tjón vegna niðurskurðarins og á hvern hátt skuli greiða bætur. Þá er í 41. gr. fjallað um svonefndan uppeldisstyrk, sem greiða skal fjáreigendum sem missa fé vegna vanhalda, og geta ekki búist við fjárskiptum næstu 2 ár.
Rakið er í 42. gr. svohljóðandi ákvæði:

      "Nú telur sauðfjársjúkdómanefnd nauðsynlegt að útrýma sauðfjársjúkdómi með niðurskurði á sýktu eða grunuðu svæði, og skal hún þá senda land-búnaðarráðherra rökstuddar tillögur þar um. Getur ráðherra þá fyrir-skipað niðurskurð, hvort sem atkvæðagreiðsla hefur farið fram á svæðinu eða ekki. Bætur skal greiða fjáreigendum

      samkvæmt ákvæðum þessara laga. Verði krafizt mats vegna niðurskurðarins, eftir gildandi lögum um eignarnám, er matsmönnum skylt að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu eða yfir-vofandi sýking-arhættu."

Þetta ákvæði var efnislega áður að finna í 41. gr. l. nr. 44/1947 þar sem segir m.a. að telji sauðfjársjúk-dómanefnd nauðsynlegt að útrýma sjúkdómi með niður-skurði, þar sem fjárskiptafélag telst ekki stofnað, þá geti hún látið útrýminguna fara fram með samþykki ráðherra. Bætur skuli þá greiða fjáreigendum samkvæmt mati eftir gildandi lögum um eignarnám, en matsmönnum skylt að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu.

Af hálfu eignarnema hefur kröfugerð verið reist á þeim sjónarmiðum, að lögin, þ.e. 37. - 42. gr., kveði nákvæmlega á um það á hvern hátt bætur skuli ákveða og hvenær þær skuli greiða. Til frekari fyllingar á lagareglunum hafi verið sett reglugerð nr. 556/1982 um varnir gegn útbreiðslu riðuveiki og kýlapestar í sauðfé og geitum, svo og teknar aðrar stjórnvalds-ákvarðanir. Telur eignarnemi að eignarnámsþoli eigi aðeins þann rétt til bóta vegna niðurskurðarins, sem kveðið sé á um í greindum lögum og stjórnvaldsl fyrir-mælum. Laga- og stjórnvaldsreglugerðir séu settar til

að auka rétt fjáreigenda, sem fyrir niðurskurði verða, enda hefðu þeir engan bótarétt átt ella. Ákvæði um vernd eignaréttar í 67. gr. stjórnarskrárinnar eigi hér ekki við. Af þessum sömu ástæðum hefur eignarnemi og haldið því fram, að vegna ákvæða í lögum og stjórnvaldsreglum um framkvæmd bótauppgjörs skuli
fresta uppkvaðningu úrskurðar matsnefndarinnar þar til tímamörk í lögunum og stjórnvaldsreglum séu liðin.

Af hálfu eignarnámsþola er því hinsvegar haldið fram, að hvað sem líði ákvæðum VI. kafla l. nr. 23/1956 þá sé um að ræða eignarnám og skuli fullt verð koma fyrir. Með fullu verði sé átt við að meta skuli féð sem niður er skorið án tillits til sýkingar eða sýkingarhættu. Af hálfu eignarnámsþola er því á því byggt, að matsnefnd eignarnámsbóta skuli líta framhjá réttarreglum, þ.m.t. reglum í settum lögum, sem nefndin telur fara í bága við ákvæði 67. gr. stjórnar-skrárinnar.

Matsnefndin lítur svo á, að ákvæði 42. gr. l. nr. 23/1956 beri að skilja þannig, að fjáreigandi, sem þola verður heildarniðurskurð sauðfjár síns, eigi tveggja kosta völ. Annars vegar geti hann gert samning við ríkissjóð um bætur á grundvelli efnisreglna VI. kafla laga nr. 23/1956 og stjórnvaldsreglna, sem

settar hafa verið með heimild í þeim lögum, en hins vegar geti hann krafist eignarnámsmats samkvæmt lögum um eignarnám. Sé síðari leiðin valin beri matsnefnd að leggja til grundvallar reglur stjórnskipunarlaga um fullar bætur eins og þær hafa verið tíðkaðar í löggjöf og lagaframkvæmd. Þessi túlkun matsnefndar--innar styðst bæði við orðalag 42. gr. l. nr. 23/1956 og við samanburð á ákvæðinu við 41. gr. l. nr. 44/1947. Niðurstaða þessi er og í samræmi við túlkun umboðs-manns Alþingis í áliti frá 8. júní 1989 (mál nr. 36/1988).

Af framangreindri túlkun leiðir, að matsnefndin telur sig með engum hætti bundna af ákvæðum í 37. gr. til 40. gr. l. nr. 23/1956 og reglugerð nr. 556/1982 hvorki að því er varðar fjárhæð bóta né heldur hvenær þær komi til greiðslu. Matsnefndin telur og rétt að taka fram, að í þessari afstöðu felst, að hún líti svo á, að sá sem velur þá leið að krefjast mats skv. lögum um eignarnám afsali sér þar með rétti til þeirra lögákveðnu bóta vegna niðurskurðarins sem ákvarðaðar eru í lögum og reglugerð og meti matsnefnd tjón hans minna en greindar reglur gera ráð fyrir, þá ráði matið.
Af hálfu eignarnámsþola hefur því verið haldið fram,
að lokaákvæði 42. gr. um skyldu matsnefndar til að

taka til greina sýkingu fjár á svæðinu eða yfirvofandi sýkingarhættu, væri andstætt ákvæði 67. gr. stjórnar-skrár og því beri að líta framhjá ákvæðinu við ákvörðun "fulls verðs" eða "fullra bóta" til handa eignarnámsþola. Matsnefndin fellst ekki á þetta
sjónarmið. Hún telur að í ákvæði þessu felist aðeins lögfesting á reglu, sem hafa beri hliðsjón af við ákvörðun bóta. Sýking á stöku kind í sauðfjárhjörð sem skorin er niður eða yfirvofandi sýkingarhætta geti
haft áhrif á verðmæti fjárins

Matsnefndin telur skv. framansögðu að það sé hlutverk hennar að meta eignarnámsþola bætur fyrir það tjón sem hann verður fyrir við að fjárstofn hans er felldur og honum gert skylt að búa við sauðleysi í tvö ár, þ.e. frá hausti 1989 til hausts 1991. Haustið 1989 hafi eignarnámsþoli haft eðlilegar tekjur af slátrun haustlamba. Hann hafi hins vegar engar tekjur af sauðfénu haustin 1990 og 1991, en á því hausti verði að gera ráð fyrir að hann kaupi nýjan fjárstofn. Haustið 1990 hefði eignar-námsþoli átt að hafa tekjur sem nema frálags-verði sláturlamba og þarf að meta honum afurðatjón að teknu tilliti til sparaðs kostn-aðar. Sama gildi um tekjur af sauðfé haustið 1991. Matsnefndin byggir á því, að eignarnámsþoli bíði vaxtatap og hafi vaxtahagnað af greiðslum, sem

eðlilegt er að til hefðu fallið haustin 1989, 1990, 1991 og 1992. Þar sem tapið og hagnaðurinn jafnast að meginstefnu út telur matsnefndin ekki ástæðu til að meta tap þetta og hagnað í tölum. Að auki þurfi að meta hvort eignar-námsþoli beri einhvern þann kostnað sem er bótaskyld afleiðing af niðurskurð-inum. Enn-fremur ber að meta hvort það, að hey sem aflað var sumarið 1989 og hefur ekki verið notað teljist tjón eignar-námsþola, sem eignarnema beri að bæta. Þá beri óhjákvæmilega að meta til frádráttar bótum allan beinan sparnað eignar-námsþola árin 1989 - 1991 sem rakinn verður til þess, að ekkert sauðfé er á bænum og því til viðbótar þarf að meta hvort það vinnuafl, sem sauðfjárræktin hefði krafist, nýtist ekki annars-staðar og komi til lækkunar á bótum.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir niðurstöðum matsnefndar eignarnámsbóta um tjón eignarnámsþola og þykir rétt að leggja til grundvallar kröfugerð eignarnámsþola eins og hún er sundurliðuð hér að framan á bls. 4.

Um 1-2. Bætur fyrir 296 kindur.

Aðilar eru ásáttir við að miða bætur við 296 kindur.

Eins og áður er fram komið var staðfest riðutilvik að Urðarbaki í september 1989. Um var að ræða eitt einstakt tilvik um sýkingu og ekki er vitað til að
riða hafi komið fram áður í sauðfé að Urðarbaki.
Matsnefndin telur, að óhjákvæmilegt sé að taka tillit til þess við mat á bótum til eignarnámsþola úr hendi eignarnema vegna niðurskurðarins haustið 1989, að ekki var um heilbrigt fé að ræða. Enda þótt ekki séu upplýsingar um annað en eitt riðutilvik telur
matsnefndin að verðgildi sauðfjárins lækki verulega við það eitt að riðusýking finnst í fénu. Matsnefndin telur, að verðmæti fjárins á fæti sé verulega minna en frálagsverðmæti fjárins vegna sýkingarinnar. Nefndin telur að aðrir sauðfjárbændur myndu sniðganga sýkt fé við kaup á sauðfé og þá mun sýking lækka verð á kjöti, enda þótt ósannað sé, að kjöt af sýktu fé sé hættulegt heilsu manna. Matsnefndin hefur og litið til annarra matssjónar-miða en markaðsverðs, einkum hugsanlegs endurkaupsverðs og afnotaverðmætis fjárins í hendi eignarnámsþola. Matsnefndin telur, að ekki komi til álita að miða endurkaupsverð við heilbrigðan fjárstofn, heldur fjárstofn sem er sambærilegur fjárstofni þeim, sem skorinn var niður. Sú athugun leiðir óhjákvæmilega til sömu niðurstöðu og að framan greinir um markaðs-verðmæti sauðfjárins, þ.e. að endurkaupsverðmæti

nýrrar fjárhjarðar, sem svipað er ástatt um og þá hjörð, sem niður hefur verið skorin, sé lægra en frálagsverðmæti fjárins. Þá kemur til álita, að líta á verðmæti fjárins í hendi eignarnámsþola með það
sjónarmið í huga, að það muni duga honum til sauð-fjárræktar um langa hríð, enda þótt stofninn sé sýktur. Matsnefndinni er kunnugt, að sýking getur
leynst nokkuð lengi í harðgerum fjárstofnum.Mats-nefndin telur verulegar líkur á, að sýking leiði til vanhalda, sem muni aukast og að lokum gera fjárstofn-inn arðminni. Enda þótt matsnefndin treysti sér ekki til að segja til um á hversu löngum tíma slíkt gerist, þá telur hún nægjanlega sýnt fram á slíka þróun. Þetta telur matsnefndin leiða til þess, að verðmæti fjárstofnins í hendi eignarnámsþola sé skert og fari minnkandi og metur því verðmæti hans með þetta sjónarmið í huga lægra en frálagsverðmæti fjárins.

Öllu sauðfénu að Urðarbaki var slátrað og það urðað seint á árinu 1989. Engin lagaskylda knúði á um slíka urðun, heldur var fullkom-lega lögmætt að leggja féð til slátrunar í sláturhús hjá sláturleyfishafa og fá að fullu greitt frálagsverð fyrir kindurnar að frádregnum kostnaði.

Matsnefndin hefur reiknað út frálagsverðmæti sauðfjár-

ins að Urðarbaki haustið 1989 og nemur verðmætið framreiknað til verðlags í janúar 1991 miðað við 296 kindur kr. 1.760.787.- áður en dregin eru frá svonefnd sjóðagjöld, en þau eru 2.1% og nema því kr. 36.977.- og flutningskostnaður á sláturstað áætlaður kr. 18.000.-. Að teknu tilliti til þessara atriða
telur matsnefndin hæfilegt að meta tjón eignarnámsþola kr. 1.705.810.-.

Um 3.   Bætur vegna spilltrar ræktunar.

Matsnefndin fellst ekki á, að nein ástæða sé til að ætla að tún spillist af því að vera hvíld í tvö sumur. Hún fellst ekki á að eignarnámsþoli þurfi að leggja í sérstakan kostnað vegna þess að tún séu ekki notuð sem að ofan segir. Matsnefndin fellst því ekki á að meta eignarnámsþola bætur samkvæmt þessum kröfulið.

Um 4.   Fóðurkostnaður vegna dráttar á slátrun.

Matsnefndin telur hvorki sýnt framá að eignarnemi beri ábyrgð á að því að slátrun fjárins dróst til 2. des-ember 1989 né heldur að nauðsynlegt hafi verið að gefa hey á því tímabili eins og á stóð. Matsnefndin fellst því ekki á að meta eignarnámsþola bætur undir þessum
lið.

Um 5.   Bætur vegna umframbirgða af heyi.

Matsnefndin fellst á, að rétt sé að meta eignar-
námsþola bætur vegna heyöflunar sumarið 1989, enda var honum á þeim tíma ókunnugt um riðusýkingu í fénu.

Matsnefndin hefur á grundvelli upplýsinga í fylgi--
skjölum með framtölum eignarnámsþola reiknað kostnað við heyöflunina miðað við verðlag í janúar 1991 og sundurliðast sá kostnaður þannig:

      Áburður         kr. 168.544.-
      Vélanotkun          kr. 245.190.-
            Samtals   kr. 413.734.-

Matsnefndin hefur reiknað meðalvélarkostnað eignar--námsþola á ári og metur, að 2/3 hlutar hans séu vegna heyskapar. Matsnefndin telur hins vegar ekki rétt að telja vinnu bóndans við heyöflunina með í tjóni hans, enda fær hann sérstakar bætur vegna afurðatjóns.

Matsnefndin metur því tjón eignarnema samkvæmt þessum lið kr. 413.734.-. Eignarnema hefur tekist að selja 130 heyeiningar af 420 eða tæplega þriðjung og að teknu tilliti til þess þykir rétt að lækka bætur undir þessum lið í kr. 285.000.-

Um 6.   Afurðatjónsbætur í tvö ár.

Matsnefndin hefur kynnt sér skattskýrslur eignar-námsþola ásamt viðeigandi landbúnaðarskýrslum. Hefur matsnefndin á grundvelli þessara gagna, sem hún telur trúverðug, reiknað út meðaltekjur eignarnámsþola af sauðfjárræktinni og jafnframt hefur nefndin reiknað út breytilegan kostnað sömu ára af sauðfjár-ræktinni.
Þau ár sem um er að ræða eru 1987, 1988 og 1989. Tekjurnar hefur nefndin síðan uppreiknað til verðlags í janúar 1991 og tekið mið af breytingum á grund-vallarverði kindakjöts í hæsta verðflokki við þann útreikning. Við framreikning kostnaðar hefur verið haft mið af vísitölu lánskjara.

Meðaltekjur áranna 1987-1989 eru reiknaðar með eftirfarandi hætti og er þá tekið tillit til tekna af sauðfé úr landbúnaðarskýrslum eignarnámsþola og Tryggva Rúnars Haukssonar, en aðilar eru ásáttir um að eignarnemi fari með umboð Tryggva:

            Frameikni-      Framreikn.
Ár   Tekjur   stuðull      tekjur:

1989   2.373.426   414,69/393,41   2.501.807
1988   1.965.647   414,69/326,99   2.492.841
1987   1.517.378   414,69/251,63   2.500.662
                     7.495.310
   Meðaltal á ári   2.498.437
Breytilegur kostnaður á árunum 1987-1989 er fundinn með eftirfarandi hætti:

            1989      1988      1987    

Fóður         275.231   157.514    97.145
Sáðvörur      168.504   151.980   106.190
Búvélakostn.      367.767   338.122   359.324
Rekstrarv.      203.283   110.782   215.886
Aðkeypt þjón.   137.047    92.670    72.219
Laun              0       0    45.000
Ýmis gjöld       62.699    51.801    38.540                                       1.214.531 902.869   934.304
          x2969/2540 x2969/2154 x2969/1721
          1.419.662 1.244.484 1.611.8-24

Meðaltal á ári 1.425.323

Á Urðarbaki var að hluta til rekið loðdýrabú á greindu tímabili og hefur nefndin skipt kostnaði á milli búgreina eftir því sem ástæða hefur verið til og byggt þá skiptingu á bestu fáanlegum gögnum um slíkan kostnað.

Niðurstöður af framangreindum útreikningum er eftir-farandi miðað við verðlag í janúar 1991:

      Meðaltekjur á ári      kr. 2.498.437.-
      -Breytilegur kostnaður
      að meðaltali á ári   kr. 1.425.323.-
            Mismunur   kr. 1.073.114.-

Framangreind niðurstaða er sú fjárhæð, sem eignar-námsþoli hefur til ráðstöfunar af sauðfjárræktinni á ári til greiðslu launa, afskrifta og hagnaðar og jafngildir tjóni hans.

Matsnefndin telur því tjón eignarnámsþola vegna afurðamissis í tvö ár hæfilega metið tvöföld framan-greind fjárhæð eða kr. 2.146.228.-.

Um 7.   Bætur vegna tapaðrar ullar.

Matsnefndin hefur tekið tillit til allra tekna af

sauðfjárræktinni í útreikningi sínum undir lið 6 hér að framan og því kemur ekki til álita að meta sérstak-lega tjón vegna tapaðrar ullar.

Um 8.   Skertar tekjur vegna nýs fjárstofns á tímabil-      inu 1992-1996.

Matsnefndin fellst á, að afurðatjón eignarnámsþola sé ekki að fullu bætt fyrr en tekið hefur verið tillit til þess, að tekjur af nýbyrjaðri sauðfjárrækt, skili sér ekki með eðlilegum hætti fyrr en á öðru ári og tekjur á fyrsta ári eftir sauðleysið því mjög skertar. Sá tekjumissir sé afleiðing af niðurskurðinum. Telur matsnefndin að við mat á þeirri bótaskyldu skerðingu beri að hafa eftirfarandi í huga: Tekjur á fyrsta ári eftir sauðleysi, þar sem stofnað er til sauðfjárbú-skapar með kaupum á líflömbum að hausti, verða verulega minni en ella. Stafar þetta m.a. af því að afföll verða meiri en venjulega og frjósemi minni. Telur mats-nefndin hæfilegt að áætla að brúttó tekjur verði aðeins helmin-gur af því sem ella hefði mátt búast við og metur tjónið skv. því kr. 1.249.219.-.

Matsnefndin fellst hins vegar ekki á, að víst sé eða líklegt, að fjárstofninn verði arðminni á öðru ári

eftir sauðleysi en hinn niðurskorni fjárstofn var og telur því þennan lið að fullu bættan með framangreind-um kr. 1.249.219.-.

Um 9.   Ýmis kostnaður.

      a).   Hreinsun og sótthreinsun fjárhúsa og jarðvegsskipti. Matsnefndin fellst ekki á að meta eignarnámsþola bætur vegna
         vinnu hans við hreinsun og sótthreinsun.
         Mats-nefndin telur að eignarnámsþola sé skylt að draga sem mest úr tjóni sínu, m.a. með því að nýta þann tíma, sem sparast vegna sauðleysis-ins, til að sinna verki sem þessu. Matsnefndin telur hins vegar að eignarnámsþoli eigi rétt á bótum vegna kaupa á sótthreinsunarefni og metur þann kostnaðarlið á kr. 10.000.- .
         Þá telur nefndin að meta beri eignar-námsþola sem tjón þann kostnað, sem hann
         hefur af vélavinnu við jarðvegsskipti og áætlar þann kostnað kr. 30.000.-.

      b).   Kostnaður við endurnýjun fjárhúsa.

         Matsnefndin fellst ekki á, að þeir hlutar fjárhúsanna, sem endurnýja þarf að áliti eignarnámsþola, hafi farið forgörðum

         vegna niðurskurðarins og að endur-nýjunarþörfin sé afleiðing hans. Þess
         vegna fellst matsnefndin ekki á að meta eignar-námsþola bætur undir þessum lið.

      c).   Kostnaður við sérfræðiaðstoð. Ekki er ljóst hvað er átt við með þessum kröfu--lið, en eðlilegur kostnaður af sérfræði-aðstoð vegna eignarnámsmáls þessa verður metinn við ákvörðun málskostnaðar til handa eignar-námsþola.

      d).   Kostnaður við flutning á líflömbum. Matsnefndin telur rétt að meta eignar-námsþola bætur undir þessum lið miðað við þrjár ferðir með líflömb í vöruflutn-ingarbifreið frá líklegum afhendingarstað líflamba að Urðarbaki. Er þessi liður áætlaður kr. 72.000.-.      

      e).   Kostnaður við málun vegna hreinsunar.
         Matsnefndin fellst á að bæta beri eignar

         námsþola útlagðan kostnað við kaup á
         málningu og fúavarnarefni vegna endurnýjunar á málningu og fúavörn, sem er afleiðing af sótthreinsun. Kostnað við þennan lið áætlar nefndin kr. 30.000.-.

Samkvæmt framansögðu sundurliðast mat matsnefndar á tjóni eignarnámsþola sem hér segir:

A.   Bætur vegna fellds
      fjárstofns            kr. 1.705.810.-B.   Bætur vegna heyöflunar 1989   kr. 285.000.-C.   Bætur vegna sauðleysis
      í tvo ár            kr. 2.146.228.-D.   Skertar tekjur á fyrsta ári
      eftir sauðleysi         kr. 1.249.219.-E.   Sótthreinsunarefni      kr. 10.000.-F.   Vélavinna við jarðvegs-
      skipti            kr. 30.000.-G.   Kostnaður við flutning á
      líflömbum            kr. 72.000.-H.   Útlagður kostnaður vegna
      málningar og fúavarnar      kr. 30.000.-
               Samtals   kr. 5.528.257.-

Eignarnemi hefur engar greiðslur innt af hendi til
eignarnámsþola upp í tjón hans og er því ekki um slíkan frádrátt að ræða.

Hins vegar kemur til álita, hvort lækka beri metið tjón eignarnámsþola með hliðsjón af því, að vinnufram
lag til sauðfjárræktarinnar sparast og því sennilegt að eignarnámsþoli geti aflað tekna með öðrum hætti til að draga úr tjóni sínu, svo sem honum er rétt og skylt að gera.

Matsnefndin hefur hugleitt, hvort rétt væri að gera ráð fyrir, að eignarnámsþoli hefjist handa um aðra starfsemi á jörðinni á sauðleysistímanum t.d. kálfa-eldi eða aðra sambærilega starfsemi, til að draga úr tjóni sínu. Matsnefndin telur of mikla óvissu fólgna í slíkri starfsemi til að unnt sé að meta tekjur af henni til frádráttar metnu tjóni eignar-námsþola.

Matsnefndin telur hins vegar að Urðarbak sé þannig í sveit sett, að eignarnámsþoli hafi átt og eigi þess kost að afla tekna með því að sækja launavinnu frá heimili sínu og draga þannig úr tjóni vegna niður-skurðarins. Nefndin telur hæfilegt að áætla slíkar tekjur á ári kr. 480.000.- og með hliðsjón af því sé rétt að lækka metnar bætur um tvöfalda þá fjárhæð eða kr. 960.000.-

   SAMANDREGIN NIÐURSTAÐA   .

Heildarniðurstöður matsnefndarinnar eru því sem hér segir:
   Metið tjón         kr. 5.528.257.-      - frádráttur vegna       áætlaðra launatekna      kr. 960.000.-
               Samtals   kr. 4.568.257.-
Samkvæmt framanrituðu telur matsnefndin eignar-námsbætur til handa eignarnámsþola úr hendi eignarnema hæfilega metnar kr. 4.568.257.- sem greiðast í einu lagi. Fjárhæð bóta miðast við verðlag á matsdegi. Mats-nefndin telur það utan hlutverks síns að kveða á um vexti af matsfjárhæð eftir uppkvaðningu úrskurðar.

Eignarnemi greiði eignarnámsþola í málskostnað kr. 290.000.- og hefur þá verið tekið tillit til þeirra hagsmuna sem í húfi eru og hæfilegs vinnuframlags lögmanns eignarnámsþola. Ennfremur hefur verið tekið tillit til ferðakostnaðar og virðisaukaskatts.

Eignarnemi beri kostnað af starfi matsnefndar eignar-námsbóta, þar með talinn ferðakostnaður, samtals kr. 420.000.-.

   MATSORÐ.

Eignarnemi, landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóð, greiði eignarnámsþola, Hjalta Jósefssyni, kr. 4.568.257.- í eignarnámsbætur og kr. 290.000.- í málskostnað.

Eignarnemi beri kostnað af starfi matsnefndar eignarnámsbóta kr. 420.000.-.

MATSNEFND EIGNARNÁMSBÓTA

   ÚRSKURÐUR
   uppkveðinn 23 janúar 1991
   í eignarnámsmálinu nr. 2/1990:

   Haukur Magnússon
   gegn
   landbúnaðarráðherra og
   fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.

I. SKIPAN MATSNEFNDAR.

Úrskurð þennan kveða upp Ragnar Aðalsteinsson hrl., formaður matsnefndar eignarnámsbóta, og matsmennirnir Stefán Svavarsson, löggiltur endurskoðandi, og Stefán Tryggvason, bóndi, en formaður hefur kvatt þá til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. 2. mgr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. AÐILAR.

Eignarnemi er landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og fyrir hann flytur málið Gunnlaugur Claes-sen, ríkislögmaður.

Eignarnámsþoli er Haukur Magnússon, Brekku, Sveins-staðahreppi, Austur-Húnavatnssýslu. Fyrir eignarnáms-þola flytur málið Hreinn Loftsson hdl. Eignarnámsþoli er eigandi jarðarinnar Brekku. Hann er hins vegar ekki eigandi alls þess sauðfjár sem eignarnámsmál þetta snýst um, en eigendur sauðfjárins hafa veitt eignar-námsþola umboð til að fara með málið fyrir sína hönd og að bætur verði ákveðnar í einu lagi. Eignarnemi fellst á þetta fyrirkomulag á aðild og uppgjöri.
Aðrir eigendur fjárins eru Elín Ellertsdóttir, eiginkona Hauks, Sigrún, Sigurlína, Magnús, Guðmundur Ellert og Guðrún Hauksbörn, svo og Ingibjörg og Ásdís Auðunsdætur, Karl Sigfússon og Skúli og Bjarni Ögmundarsynir. Hinir fimm síðastnefndu áttu eina kind hver. Verður hér eftir oftast talað um eignarnámsþola í eintölu.

III. MATSBEIÐNI.

Landbúnaðarráðuneytið ritaði matsnefnd eignarnámsbóta bréf hinn 12. desember 1989 og sendi nefndinni jafnframt afrit af bréfi lögmanns eignarnámsþola til ráðuneytisins dags. 21. nóvember 1989. Í þessu bréfi tilkynnir lögmaðurinn, að umbj. hans sætti sig ekki við framboðnar bætur og telji óhjákvæmilegt að

krefjast eignarnámsbóta. Í fyrrgreindu bréfi ráðuneyt-isins er vísað til þessarar afstöðu í bréfi lögmanns Hauks Magnússonar og sagt að fjáreig-andi geti krafist mats vegna niðurskurðarins eftir lögum um eignarnám og sé matsmönnum þá skylt að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu eða yfirvofandi sýking-arhættu. Á þessum grundvelli boðaði matsnefnd eignar-námsbóta talsmenn aðila til fundar hinn 25. janúar 1990.

IV. ANDLAG EIGNARNÁMS OG TILEFNI.

Tilefni eignarnámsmats er það, að hinn 16. september 1988 var staðfest riðutilvik í sauðfé að Brekku. Í nóvember 1988 gerði eignarnemi tilboð um samninga um bætur á grundvelli staðlaðs samningseyðu-blaðs sem lagt hefur verið til grundvallar samningum í slíkum tilvikum. Eignarnámsþoli vildi hvorki una þeim fébótum sem fram voru boðnar né féllst hann á réttmæti niðurskurðarins, enda taldi hann að ekki væri um alvarlegt tilfelli að ræða. Sumarið 1989 hófust á ný viðræður um fébætur, en ekki báru þær árangur. Héraðsdýralæknirinn, Sigurður H. Pétursson, hefur skýrt svo frá, að fyrir 14 árum hafi riða fyrst komið upp í Brekku, en þá hafi fundist eitt tilfelli, en síðan hafi veikin ekki gert vart við sig aftur fyrr

en haustið 1988. Á árinu 1989 hafi 5 ær drepist úr riðu og segir hann að það bendi til allmikillar og senni-lega vaxandi sýkingar í fénu. Hann segir þó að það sé ályktun sín sem engin leið sé að sanna. Ennfremur segir hann að á næstu tveimur nágrannabæjum sé búið að skera niður vegna riðu og í sýslunni sé nú búið að skera niður á öllum þekktum riðubæjum. Með bréfi dags. 9. nóvember 1989 tilkynnti landbún-aðarráð-herra Hauki Magnússyni að ákveðið hefði verið að öllu sauðfé í hans eigu yrði fargað með niðurskurði eigi síðar en 21. nóvember 1989. Jafnframt að ákveðið hefði verið að fjárlaust yrði á bænum Brekku í Sveinsstaðahreppi frá niður-skurði til 1. nóvember 1991. Jafnframt var Hauki tilkynnt í bréfinu að hann gæti valið milli eignar-námsbóta og afurðatjónsbóta eins og greiddar séu þeim sem samið er við. Í máli þessu er krafist mats á tjóni eignarnámsþola, en það er talið felast í missi hins skorna sauðfjár, spilltri rækt, fóðurkostnaði, heyi sem ekki nýtist, framtíðar-tekjumissi og ýmiss konar kostnaði, m.a. við hreinsun og endurnýjun fjárhúsa.

V. EIGNARNÁMSHEIMILD.

Aðilar eru sammála um að heimild til meðferðar málsins

sé að finna í 42. gr. l. nr. 23/1956 og réttilega hafi verið staðið að ákvörðun um að nota þá heimild. Matsnefnd eignarnámsbóta fellst á að skilyrði meðferð-ar málsins fyrir nefndinni séu uppfyllt.

VI. KRÖFUR EIGNARNÁMSÞOLA.

Eignarnámsþoli gerir eftirfarandi kröfur:

   1.   Bætur fyrir 278 ær       kr. 2.057.200
   2.   Bætur fyrir 13 hrúta       kr. 132.000
   3.   Bætur vegna spilltrar
      ræktunar             kr. 432.000
   4.   Fóðurkostnaður vegna dráttar
      á slátrun í þrjátíu daga    kr. 101.414
   5.   Afurðatjónsbætur í tvö ár    kr. 3.455.304
   6.   Bætur vegna tapaðrar ullar
      af 278 kindum í fjögur ár    kr. 767.280
   7.   Skertar tekjur vegna nýs
      fjárstofns á tímabilinu
      1992 - 1996          kr. 2.399.005
   8.   Ýmis kostnaður          kr. 1.105.000
               Samtals    kr. 1-0.449.203

Að auki gerir eignarnámsþoli áskilnað um að eignarnemi

greiði allan kostnað við vigtun og flokkun hins slátraða sauðfjár og flutningskostnað og annan sláturkostnað.

Að lokum krefst eignarnámsþoli dráttarvaxta af bótafjárhæð frá 2. desember 1989 að telja og máls-kostnaðar skv. gjaldskrá LMFÍ, kr. 758.268.

VII. KRÖFUR EIGNARNEMA.

Eignarnemi gerir þær kröfur að bætur verði ákveðnar með eftirfarandi hætti:

   1.   Bætur fyrir felldan fjárstofn   kr. 1.700.464
   2.   Afurðatjónsbætur árið 1990    kr. 1.159.928
   3.   Afurðatjónsbætur árið 1991   kr. 1.159.928
               Samtals   kr. 4.020.320

Að auki greiði eignarnemi 90% af flutningskostnaði líflamba skv. framvísuðum reikningum. Eignarnemi afhendi eignarnámsþola sótthreinsunarefni, fúavarnar-efni og málningarefni án endurgjalds. Þá kveðst eignarnemi þegar hafa greitt kostnað við vigtun og flokkun sauðfjárins fyrir slátrun og greitt allan sláturkostnað.

Lögmaður eignarnema telur matsnefnd eignarnámsbóta ókleift að fella úrskurð um bætur fyrr en allir þættir tjóns eignarnámsþola liggja fyrir og gerir kröfu um frestun málsins á grundvelli þessa sjónarmiðs.

VIII. MÁLSMEÐFERÐ.

Þess er áður getið, að landbúnaðarráðuneytið ritaði
matsnefndinni bréf dags. 12. desember 1989, sem var tilefni fyrirtöku málsins hjá matsnefndinni. Málið var fyrst tekið fyrir hinn 25. janúar 1990, en þá voru talsmenn aðila sammála um eignarnámsheimild og matsnefnd lýsti því yfir, að hún teldi skilyrði
meðferðar uppfyllt. Málið var tekið fyrir að nýju 15. febrúar 1990 og síðan 1. mars 1990 og þá lagði lögmaður eignarnámsþola fram kröfugerð sína ásamt greinargerð og fylgiskjölum. Málið kom fyrir að nýju hinn 29. mars 1990 og síðan 10. maí 1990, en þá lagði lögmaður eignarnema fram kröfugerð ásamt greinargerð og fylgiskjölum. Þá höfðu verið lögð fram ellefu skjöl í málinu, en á nefndarfundi 23. júlí 1990 voru lögð fram skjöl nr. 12 - 29, en þessi skjöl hafði mats-nefndin og talsmenn beggja aðila fengið í hendur áður. Í vettvangsgöngu tóku þátt af hálfu eignarnáms-þola eignarnámsþolinn sjálfur og lögmaður hans Hreinn Loftsson hdl., en af hálfu eignarnema Kjartan Blöndal,

framkvæmdastjóri sauðfjársjúkdómadeildar, og Gunnlaug-ur Claessen, ríkislögmaður. Ennfremur tók Sigurður H. Pétursson, héraðsdýralæknir, þátt í vettvangsgöngunni og gerði m.a. grein fyrir kröfum um hreinsun fjárhúsa og umhverfis þeirra, svo og framkvæmd slíkrar hreins-unar. Fjárhús og hlaða voru skoðuð og hlustað á sjónarmið aðila, eftir því sem vettvangsgangan gaf tilefni til.

Að vettvangsgöngu lokinni var málið munnlega flutt á Húnavöllum í Austur-Húnavatnssýslu. Að málflutningi loknum var málið tekið til úrskurðar, en áður hafði árangurslaust verið leitað sátta.

IX. SAUÐFJÁRSJÚKDÓMURINN RIÐA.

Rétt þykir áður en vikið er að hinum eiginlegu atvikum þessa máls, að gera stuttlega grein fyrir sauðfjár-sjúk-dómnum riðu og aðgerðum gegn sjúkdómnum.

Riða er smitsjúkdómur í sauðfé. Smitefni riðu hefur ekki tekist að einangra. Smitefnið veldur skemmdum í taugafrumum og eru einkenni riðu m.a. skjálfti, kláði og lamanir. Mörg ár geta liðið frá sýkingu þar til sjúkdómseinkenni birtast. Sýkt kind getur borið smit

í aðra, enda þótt engin sjúkdómseinkenni séu fram komin. Smitleiðir riðu eru að mestu leyti óþekktar.

Riða var fyrst staðfest með vefjagreiningu eftir seinni heimsstyrjöldina hér á landi, en líklegt er talið að hún hafi borist hingað fyrir síðustu aldamót. Framanaf var riðan bundin við afmörkuð landsvæði, einkum norðanlands. Fyrir 10 - 20 árum tók sjúkdómur-inn að breiðast út og breiddist hratt út. Urðu veruleg afföll árlega af sauðfé vegna riðu á sumum bæjum.

Árið 1986 var ákveðið að skera niður allar riðusýktar hjarðir á landinu í því skyni að gera landið riðu-laust. Hefur fé verið skorið á u.þ.b. 600 bæjum.
Þeirri aðferð að skera niður í hjörðum er síðan fylgt eftir með hreinsun á húsum og umhverfi og fjárleysi í a.m.k. tvö ár eftir niðurskurð.

X. MÁLSATVIK.

Á tímabilinu 1970 - 1990 hefur riðuveikistilvikum farið fjölgandi í Austur-Húnavatnssýslu. Tjón af völdum veikinnar hefur verið mismunandi á milli bæja. Sums staðar hefur tjónið verið mikið og annars staðar lítið. Þar sem tjón er mest hafa drepist 20 - 25% af

sauðfénu á einu ári, en algengast er að tjón af völdum riðu hafi verið 3 - 10% á ári hverju. Þó eru dæmi um að tjónið sé minna en 3% á ári. Þar sem veikin kemur fram í fyrsta sinni á bæ er hún venjulega væg fyrstu árin en fer vaxandi.

Í Brekku kom riða fyrst fram fyrir 14 árum og fannst þá eitt tilvik. Síðan varð veikinnar ekki vart fyrr en haustið 1988. Á næsta ári, 1989, drápust fimm ær úr riðu.

Á tveimur nágrannabæjum Brekku er búið að skera niður vegna riðu en í sýslunni er búið að skera niður á öllum þekktum riðubæjum.

Í nóvember 1988 sendi eignarnemi eignarnámsþola drög að samningi um bætur vegna fyrirhugaðs niðurskurðar sauðfjár eignarnámsþola. Tilboð eignarnema til eignarnámsþola var samskonar og samið var um við aðra fjáreigendur, en til grundvallar slíkum samningum er staðlað samningseyðublað, sem eignarnemi hefur gert. Ekki tókust samningar milli aðila. Taldi eignarnáms-þoli bótafjárhæðir, sem fram voru boðnar, ekki bæta honum að fullu tjón hans. Þá véfengdi hann og réttmæti niðurskurðarins.

Enn leituðust aðilar við að komast að samkomulagi um bætur sumarið 1989 en ekki bar sú viðleitni árangur. Lokatilraun til samkomulags var gerð á fundi í landbúnaðarráðuneytinu hinn 31. október 1989, en sú tilraun bar ekki árangur. Hinn 9. nóvember 1989 ritaði landbúnaðarráðuneytið eignarnámsþola bréf og tilkynnti honum, að með heimild í 42. gr. l. nr. 23/1956 og á grundvelli tillögu sauðfjársjúkdómanefndar í bréfi dags. 11. október 1989 og í framhaldi af fundinum 31. október 1989 hefði verið ákveðið að öllu sauðfé í eigu eignarnámsþola yrði fargað með niðurskurði eigi síðar en 21. nóvember 1989. Jafnframt að ákveðið hefði verið að fjárlaust skyldi vera á Brekku frá niðurskurði til 1. nóvember 1991 og að eignarnámsþola bæri að hlíta nánari fyrirmælum sauðfjársjúkdómanefndar um sótt-hreinsun húsa. Þá var þess getið að um bætur vegna
niðurskurðarins færi eftir ákvæðum l. nr. 23/1956 með síðari breytingum, sbr. jafnframt reglugerð nr. 556/1982. Þess var og getið að samkvæmt lögunum gæti eignarnámsþoli valið milli eignarnámsbóta og afurða-tjónsbóta "eins og greiddar eru samningsaðilum.".

Bústofni eignarnámsþola var síðan fargað með niður-skurði hinn 2. desember 1989. Áður en skorið var niður, eða hinn 21. nóvember 1989, tilkynnti lögmaður eignarnámsþola landbúnaðarráðuneytinu að eignar-

námsþoli gerði ekki athugasemdir við framkvæmd niðurskurðarins enda þótt hann teldi vafa geta leikið á um lögmæti hans og áskildi hann sér rétt til að krefjast bóta ef síðar kynni að koma í ljós að heimild hafi skort fyrir framkvæmdinni. Þá tók hann fram, að hann teldi að þær bætur sem eignarnámsþola hefðu verið boðnar af hálfu ráðuneytisins nægðu hvergi til að bæta tjón hans og af þeim sökum teldi hann óhjákvæmilegt að krefjast eignarnámsbóta.

Af hálfu eignarnámsþola er á því byggt að slátrað hafi verið 278 ám og 13 hrútum, þar af 8 veturgömlum, en 5 fullorðnum.

Af hálfu eignarnema er á því byggt að heildartala hins fellda fjárstofns á Brekku hafi verið 280 kindur,
þ.m.t. veturgamlir hrútar, sem væru bættir. Eldri hrútar væru hins vegar ekki bættir.

XI. SJÓNARMIÐ EIGNARNÁMSÞOLA.

Kröfur eignarnámsþola eru á því byggðar, að hann eigi rétt á að fá að fullu bætt það tjón sem hann hefur orðið fyrir og á eftir að verða fyrir vegna niður-skurðar sauðfjárstofns hans. Þessu til stuðnings

vitnar hann til 67. gr. stjórnarskrár Íslands um fullt verð. Eignarnámsþoli kveðst geta sætt sig við að 42. gr. l. nr. 23/1956 um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra sé lagaheimild til niðurskurðar sauðfjár vegna riðuveiki, en mótmælir því að matsnefnd sé skylt "að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu eða yfirvofandi sýkingarhættu" ef í þeim orðum 42. gr. l. nr. 23/1956 felist að hann fái ekki fullar bætur.

Eignarnámsþoli styður síðastgreinda afstöðu sína á
eftirfarandi hátt:

a)   Almenn lög geti ekki vikið til hliðar stjórnar-skrárákvæði þar sem kveðið sé á um fullar bætur við eignarnám.

b)   Búið sé að skera niður allar riðusjúkar hjarðir á nærliggjandi bæjum við Brekku og því litlar líkur á því að riðuveiki komi upp aftur að
      Brekku.

c)   Vitneskja um riðuveiki og smitleiðir hennar sé lítil og það eigi ekki að bitna á eignarnáms-þola einum og fjárhag hans ef bústofn hans er skorinn niður vegna almannahagsmuna, ekki síst

      þegar upplýst sé að riðuveiki hafi aðeins verið í litlum hluta af fjárstofni hans.

d)   Niðurskurður riðufjár sé notaður til að ná fram öðrum markmiðum en útrýmingu veikinnar, þ.e. því markmiði að fækka sauðfé í landinu. Slík markmið eigi ekki að valda eignarnámsþola tjóni umfram aðra bændur.

Til stuðnings fjárkröfum sínum hefur eignarnámsþoli bent á eftirfarandi og er hér á eftir vitnað til
kröfuliðanna í kafla VI. hér að framan.

Um 1.

Eignarnámsþoli miðar kröfugerð sína við að lógað hafi verið 278 ám. Kostnaður við kaup á líflömbum hafi
haustið 1989 verið kr. 185 fyrir hvert kíló í lifandi vigt lamba og meðalþyngd lambs hafi verið 40 kíló. Þar af leiðandi sé bótakrafan fundin með því að
margfalda 40 kíló með kr. 185 og síðan með fjölda
ánna, 278, og þannig fáist kröfuliðurinn
kr. 2.057.200.

Um 2.

Hrútar hafi verið 9, þar af 5 fullorðnir á kr. 12.000 hver, 4 veturgamlir á kr. 10.000 hver og 4 veturgamlir á kr. 8.000 hver eða samtals kr. 132.000.

Um 3.

Krafist er bóta fyrir spillta rækt á 20 hekturum túns og krafist bóta sem nema kostnaði við hálfan áburðar-skammt á ári í tvö ár og er það miðað við u.þ.b. 6 áburðarpoka fyrir hvern hektara. Þetta muni duga til að halda túninu nokkurn veginn í rækt. Næstu tvö ár þar á eftir verði bætur 50% af greindum bótum. Samkvæmt þessu krefst eignarnámsþoli kr. 144.000 í bætur vegna áburðarkaupa 1. og 2. árið og kr. 72.000 á ári 3. og 4. árið eða samtals kr. 432.000.

Um 4.

Eignarnámsþoli segir að sauðféð hafi verið tekið á tún 13. október 1989 til að hafa það víst. Frá 31. október til 2. desember þegar niðurskurður fór fram hafi
einungis verið beðið eftir að slátrun kæmist í verk skv. fyrirskipun yfirvalda. Telur eignarnámsþoli þennan drátt á slátrun vera á ábyrgð og áhættu

eignarnema og krefst viðhaldsfóðurs fyrir 278 kindur í 30 daga miðað við framleiðslukostnaðarverð heys.
Nemur bótafjárhæðin kr. 101.414.

Um 5.

Eignarnámsþoli telur að afurðatjónsbætur eigi að miða við fullvirðisrétt jarðarinnar Brekku í kjöti og rétt bóndans til að taka heim kjöt úr sláturhúsi. Fjárhæð þessa beri þó að lækka um 25%. Verðmæti fullvirðis-réttarins er fundið með því að margfalda fjölda áa, 293,6, með kr. 412,56 eða samtals kr. 2.204.522 og vegna réttar til að taka heim úr sláturhúsi er krafist kr. 99.014 þannig að samtals er krafist bóta á ári kr. 2.303.536 að frádregnum 25%. Eignarnámsþoli virðist gera ráð fyrir 18.2 kg. kjöts eftir kindina. Fyrir fyrsta og annað árið gerir sú fjárhæð kr. 4.607.072 og 3/4 af þeirri fjárhæð nemi kr. 3.455.304. Mats-nefndin skilur málflutning eignar-námsþola svo, að hann telji að fjárhæð sem samsvari 25% af tekjunum sé kostnaður við öflun teknanna, sem sparist.

Um 6.

Krafist er bóta fyrir missta ull af 278 kindum í fjögur ár og er þá miðað við 2 kíló af ull á kind og

verðið miðað við 1. flokks ull með hreinleikastuðulinn 1,22. Þannig reiknað gerir eignarnámsþoli bótakröfu að fjárhæð kr. 767.280.

Um 7.

Eignarnámsþoli telur að fyrstu 5 árin eftir að búskapur hefjist að nýju (1992 - 1996) nái hann ekki sömu tekjum af nýjum fjárstofni og hann hefði náð af fjárstofni þeim sem slátrað var. Miðar eignarnámsþoli við að meðaltal slátraðra dilka á árabilinu 1985 - 1988 hafi verið 344 dilkar og meðalverðið árið 1989 hafi verið kr. 6.301 og tekjur hans því á ári kr.
2.167.544. Hann telur að tekjur hans árið 1992 - 1996 hefðu orðið af óbreyttum stofni kr. 10.837.720 en af nýjum fjárstofni kr. 8.438.715 og mismunurinn sé kr. 2.399.005 sem sé bótaskylt tjón hans. Telur eignar-námsþoli að fyrstu fimm árin, þ.e. 1992 - 1996 verði tekjur hans minni en hann áætlar af gamla stofninum.

Um 8.

Eignarnámsþoli áætlar að kostnaður af hreinsun og sótthreinsun fjárhúsa svo og jarðvegsskipti nemi kr. 350.000, kostnaður við endurnýjun fjárhúsa nemi kr. 350.000, kostnaður við sérfræðiaðstoð kr. 75.000,

kostnaður við flutninga á líflömbum kr. 205.000 og kostnaður við málun á húsum, timbur og veggir, vegna hreinsunar kr. 225.000 eða samtals kr. 1.105.000.

Þá krefst eignarnámsþoli þess, að við heildarbótafjár-hæðina kr. 10.449.203 bætist dráttarvextir skv. 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. desember 1989. Að lokum krefst eignarnámsþoli málskostnaðar skv. gjaldskrá LMFÍ miðað við hagsmunina kr. 10.449.203 og nemur málskostnaðurinn þannig reiknaður kr. 758.268.

XII. SJÓNARMIÐ EIGNARNEMA.

Kröfur eignarnema um að eignarnámsmálið hvíli og ekki verði kveðinn upp í því úrskurður fyrr en allar greiðslur, sem eignarnemi viðurkenni, séu tölulega upplýstar og í gjalddaga fallnar, eru á því reistar, að um greiðslur bóta skuli fara eftir fyrirmælum 37. -42. gr. l. nr. 23/1956 og stjórnvaldsreglna, sem settar eru með heimild í þeim lögum. Samkvæmt þessum reglum eigi að greiða bætur á alllöngu tímabili og sé þá horft til þess hvenær einstakir tjónsþættir vegna niðurskurðarins komi raunverulega til og þá á verðlagi þess tíma. Af þessum ástæðum telur eignarnemi mats-nefnd eignarnámsbóta ókleift að fella úrskurð fyrr

en allir þættir tjónsins liggi fyrir og að óeðlilegt verði að telja að úrskurður sé fyrr upp kveðinn. Telur eignarnemi að tölulegar upplýsingar geti ekki legið nægjanlega ljósar fyrir fyrr en í fyrsta lagi haustið 1991 þegar haustgrundvallarverð það ár hefur verið ákveðið.

Þá er gerð sú krafa af hálfu eignarnema að matsnefnd eignarnámsbóta leggi alfarið til grundvallar við mat sitt reglur l. nr. 23/1956 um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra svo og reglugerð nr. 556/1982, sem sett sé með heimild í
lögunum. Í lögunum og reglugerðinni séu ítarleg ákvæði um bætur vegna niðurskurðar sauðfjár af völdum sauðfjársjúkdóma og réttur eignarnámsþola til bóta vegna niðurskurðar markist af efnisákvæðum laganna og stjórnvaldsfyrirmæla, en öðru ekki.

Þá krefst eignarnemi þess að matsnefndin taki fullt tillit til niðurlagsákvæðis 42. gr. l. nr. 23/1956, þar sem segi að matsmönnum sé skylt að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu eða yfirvofandi sýkingarhættu, ef krafist er mats vegna niðurskurðar eftir gildandi lögum um eignarnám. Eignarnemi telur að það sé ekki hlutverk matsnefndar eignarnámsbóta að skera úr um stjórnskipulegt gildi settra laga gagnvart stjórnar-

skrá. Slíkt sé hlutverk dómstóla. Þess vegna sé nefndinni skylt að leggja til grundvallar matsstörfum
sínum þær efnisreglur um bætur sem fram koma í lögunum og reglugerðinni.

Eignarnemi leggur áherslu á að fyrir nokkrum árum hafi verið hafin herferð að frumkvæði bændasamtakanna í því skyni að útrýma riðu með öllu og sú herferð sé að líkindum á lokastigi. Til þessarar herferðar hafi verið varið úr ríkissjóði mörg hundruð milljónum króna til bótagreiðslna skv. þeim bótareglum sem lögin nr. 23/1956 marka. Vitnar eignarnemi m.a. til niðurskurðar á fé gegn mæðiveiki áður fyrr, en þá hafi bætur til bænda ráðist alfarið af efnisreglum umræddra laga.

Eignarnemi krefst, að tekið sé tillit til þess, að komi riða upp í fjárhjörð, þá sé hjörðin raunverulega verðlaus eða verðlítil eign. Stafi þetta bæði af því að sala á slíku fé, þar sem riða hefur verið staðfest, sé bönnuð, og því að slíkt fé hafi ekkert markaðsgildi og sé óseljanlegt. Þá sé riðusjúk hjörð hættuleg vegna smithættu. Þetta séu atriði sem matsnefndinni beri að taka mið af.

Eignarnemi fellst ekki á að eignarnámsþoli eigi rétt til fullra eignarnámsbóta, eins og um heilbrigt fé

væri að ræða. Eignarnemi segir það almenna reglu að ekki þurfi að greiða bætur, þegar skylt sé að eyða
eign vegna hættueiginleika hennar sjálfrar og um eignaupptöku sé að ræða. Samt séu í ýmsum lögum fyrirmæli um bætur til eigenda að fullu eða að hluta og séu slík fyrirmæli byggð á sanngirnisástæðum en ekki á skyldu til bótagreiðslu. Því geti eignarnáms-þoli aðeins krafist þeirra bóta úr ríkissjóði sem lög nr. 23/1956 og reglugerð nr. 556/1982 ákveði. Bóta-réttur eignarnámsþola eigi sér einungis stoð í greindum lögum og reglugerðum, en án laganna hefði eignarnámsþoli orðið að bera tjón sitt bótalaust.

Þá vitnar eignarnemi m.a. í athugasemdir sem fylgdu frumvarpi til laga um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma, og útrýmingu þeirra, sem lagt var fram á Alþingi 1946, en þar sé að stofni til að finna þau ákvæði sem hér skipti máli. Þar segi m.a. að báðir aðilar, þ.e. ríkið og fjáreigendur, verði að leggja fram sinn skerf, en hvorugur allt. Bændur verði að fórna allmiklu, ríkissjóður leggi á móti. Þannig sé svo haldið á málum að viðráðanlegt sé. Þá segi í athugasemdunum að í frumvarpinu sé stefnt að því að gera allt sem einfaldast viðvíkjandi framlagi ríkis-sjóðs þótt það kunni að leiða til þess að ekki verði alls staðar mældur og veginn nákvæmlega hlutur hvers

einstaklings, en það komi síður að sök, "þegar málið er leyst á félagslegum grundvelli, heldur en ef um
ríkisframkvæmd eina væri að ræða.".

Kröfugerð eignarnema hefur áður verið rakin (sjá kafla VII), en sjónarmið hans eru sem hér segir.

Um 1.

Eignarnemi hefur reiknað út frálagsverðmæti fjárstofns eignar-námsþola skv. haustgrundvelli árið 1989 miðað við 280 kindur. Niðurstaða þessara útreikn-inga er kr. 1.700.464 og telur eignarnemi þá fjárhæð hæfilegar
bætur fyrir hinn fellda fjárstofn.

Um 2. og 3.    

Þá hefur eignarnemi látið reikna út afurðatjónsbætur skv. haustgrundvelli 1989 fyrir 280 kindur og nema þær bætur kr. 1.259.928 fyrir hvort árið 1990 og 1991. Er þá miðað við, að afurðatjónið sé 65% af áætluðu
verðmæti frálags hvort ár um sig. Útreikninga á bótum vegna afurðatjóns kveður eignarnemi byggða á fyrirmæl-um í 11. gr. reglugerðar nr. 556/1982 þar sem afurða-bætur séu reiknaðar út frá frálagsverði 15 kílóa dilks skv. haustgrundvallarverði fyrir hverja kind.

Um önnur atriði í kröfugerð eignarnámsþola gerir eignarnemi eftirfarandi athugasemdir:

Eignarnemi fellst ekki á að greiða eignarnámsþola bætur nema fyrir tveggja ára fjárleysi. Eignarnámsþola sé heimilt að hefja sauðfjárbúskap að nýju að tveimur árum liðnum frá niðurskurði vegna riðu, en skilyrði þess sé þó að sótthreinsun fjárhúsa og umhverfis
þeirra fari fram á fyrsta ári eftir niðurskurð. Dragi eignarnámsþoli slíka hreinsun sé það á hans áhættu.

Eignarnemi hafnar því alfarið að greiða bætur vegna kaupa á líflömbum, enda séu bæturnar sem greiddar eru vegna niðurskurðar á fjárstofni haustið 1989 greiddar til þess að kaupa fyrir nýjan stofn að loknu fjár-banni. Eignarnemi kveðst skilja kröfugerð eignarnáms-þola um bætur fyrir fyrstu fimm árin eftir að sauð-fjárrækt hefst að nýju þannig, að eignarnámsþoli telji fjár-stofn sinn sérstaklega afurðasaman. Um þetta liggi ekkert fyrir í gögnum málsins og því sé kröfum um
bætur fyrir sérstaka afurðasemi hafnað.

Þá mótmælir eignarnemi því að metnar verði 75% afurðatjónsbætur árin 1990 og 1991. Samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 556/1982 skuli í afurðabætur greiða

65% af frálags-verði 15 kílóa dilks í tvö ár. Þriðja árið skuli því aðeins greiða að sérstakar ástæður séu fyrir hendi, sem hér eigi ekki við. Í 38. gr. l. nr. 23/1956 sé að vísu sagt að ríkissjóður skuli greiða fjáreigendum afurða-tjónsbætur sem svari til 3/4 lambsverðs á bótaskylda kind. Þetta sé aðeins til að mæta afurðatjóni í eitt ár og sé eingreiðsla og nái ekki lengra. Í reglugerð hafi verið gengið lengra en lögin gera ráð fyrir í þá átt að bæta afurðatjón
bænda.

Þá mótmælir eignarnemi kröfum um að miða afurðatjóns-bætur við fullvirðisrétt jarðar og rétt bónda til að taka heim kjöt úr sláturhúsi. Verið sé að bæta fjárstofn en ekki fullvirðisrétt. Þá heldur eignarnemi því fram að þessi krafa sé órökstudd.

Eignarnemi mótmælir því að bætur verði ákveðnar fyrir ull af kindum í fjögur ár. Til slíks sé ekki heimild í lögum eða reglugerðum og að auki sé mótmælt magni og gæðum ullarinnar og árafjölda.

Ekki fellst eignarnemi á að greiða bætur fyrir spillta rækt. Ekki sé gert ráð fyrir slíku í lögum eða reglugerð og að auki þurfi ræktun ekki að spillast vegna niðurskurðar sauðfjár á bænum og tún að verða

arðlaus. Sala á heyi sé heimil til hrossabænda og enginn vafi sé á að markaður sé fyrir hendi fyrir heyið eins og nú hafi árað og þá ekki síst á norður-landi.

Eignarnemi fellst ekki á að bæta flutningskostnað fjár til sláturstaðar, enda þurfi bændur almennt að kosta þann flutning.

Þá hafnar eignarnemi kröfum eignarnámsþola um kostnað við jarðvegsskipti, enda séu engin fyrirmæli um slíkt í lögum eða reglugerð.

Um sótthreinsun, þvott, málningu og fúavörn bendir eignarnemi á að í reglugerð sé ákvæði framyfir lagaskyldu um afhendingu málningar og fúavarnarefnis án endurgjalds. Það verði gert í tilviki eignarnáms-þola en frekari bótakröfum er hafnað. Eignarnemi telur óþarft að meta þann kostnað, þar sem greint efni verði afhent skv. óskum og eftir þörfum eignarnámsþola.

Þá mótmælir eignarnemi kröfum um bætur fyrir endur-nýjun á fjárhúsum. Engu þurfi að henda úr fjárhús-um, heldur þrífa og sótthreinsa.

Ekki fellst eignarnemi á kröfu um bætur vegna kostnað-ar við sérfræðilega aðstoð enda sé enginn rökstuðning-ur fyrir kröfunni. Lög og reglugerðir gera ekki ráð fyrir þátttöku ríkissjóðs í slíkum kostnaði.

Eignarnemi telur að sauðfjárveikivarnir hafi ekki gerst sekar um seinlæti við aflífun fjárins. Eignar-náms-þola hafi verið kleift að framvísa fénu til slátrunar fyrr en gert var með fyrirvörum um bætur. Unnt hafi verið að vigta og flokka féð mun fyrr en gert var en það hafi verið eignarnámsþoli sem sjálfur ákvað dagsetninguna á framkvæmdinni. Því sé kröfu um fóðurkostnað vegna seinlætis á framkvæmd niðurskurðar mótmælt.

Eignarnemi fellst á að greiða 90% af kostnaði við flutning á líflömbum skv. framvísuðum reikningum þegar þar að kemur. Þar af leiðandi gefi krafa þessi ekki tilefni til mats.

XIII. ÁLIT MATSNEFNDAR EIGNARNÁMSBÓTA.

Um varnir gegn sauðfjársjúkdómum gilda nú l. nr. 23/1956 um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúk-dóma og útrýmingu þeirra með síðari breytingum. Lögin

eru að stofni til eldri og voru áður nr. 44/1947 með sama nafni. Gerðar voru nokkrar breytingar á lögunum árið 1956 og lögin nr. 44/1947 endurútgefin sem lög nr. 23/1956.

Í lögunum eru ákvæði um sjúkdóma þá sem lögin ná til og aðgerðir til útrýmingar sauðfjársjúkdóma svo sem um sauðfjárvarnarsvæði, fjárskiptafélög og fjárskipti. Þá eru og í VI. kafla laganna ákvæði um fjárframlög ríkisins til fjárskipta. Framkvæmd laganna heyrir undir landbúnaðarráðherra, sem skipar sauðfjársjúk-dómanefnd til að hafa á hendi stjórn sauðfjársjúkdóma-mála.

Í 13. gr. 2. mgr. og 23. gr. 2. mgr. laganna eru sérákvæði um bætur fyrir kindur sem sleppa yfir varðlínur og kindur sem eru sýktar eða grunur leikur um að séu sýktar (sbr. og 17. gr.). Í 13. gr. 2. mgr. er kveðið á um að ríkissjóður skuli bæta kind með a.m.k. fullu niðurlagsverði (haustverði). Í 23. gr. 2. mgr. er aðeins ákveðið að sauðfjársjúkdómanefnd
ákveði bætur fyrir sauðfé, sem skorið er, án frekari skilgreiningar. Í þessum tilvikum er einungis fjallað um slátrun einstakra kinda, sem svo er ástatt um sem lýst er í lögunum.

Í VI. kafla laganna (37. gr. - 42. gr.) er hinsvegar fjallað um fjárframlög og bætur vegna fjárskipta, þ.e. þegar skorið er niður sauðfé á ákveðnum landssvæðum og nýtt fé fengið í staðinn annað hvort þegar í stað eða að liðnu einu eða fleirum sauðleysisárum.

Í 37. og 38. gr. er um það fjallað hvernig ríkissjóður skuli bæta fjáreigendum tjón vegna niðurskurðarins og á hvern hátt skuli greiða bætur. Þá er í 41. gr. fjallað um svonefndan uppeldisstyrk, sem greiða skal fjáreigendum sem missa fé vegna vanhalda, og geta ekki búist við fjárskiptum næstu 2 ár. Í 42. gr. er svohljóðandi ákvæði:

      "Nú telur sauðfjársjúkdómanefnd nauðsynlegt að útrýma sauðfjársjúkdómi með niðurskurði á sýktu eða grunuðu svæði, og skal hún þá senda land-búnaðarráðherra rökstuddar tillögur þar um. Getur ráðherra þá fyrir-skipað niðurskurð, hvort sem atkvæðagreiðsla hefur farið fram á svæðinu eða ekki. Bætur skal greiða fjáreigendum
      samkvæmt ákvæðum þessara laga. Verði krafizt mats vegna niðurskurðarins, eftir gildandi lögum um eignarnám, er matsmönnum skylt að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu eða yfir-vofandi sýking-ar-hættu."

Þetta ákvæði var efnislega áður að finna í 41. gr. l. nr. 44/1947 þar sem segir m.a. að telji sauðfjársjúk-dómanefnd nauðsynlegt að útrýma sjúkdómi með niður-skurði, þar sem fjárskiptafélag telst ekki stofnað, þá geti hún látið útrýminguna fara fram með samþykki ráðherra. Bætur skuli þá greiða fjáreigendum samkvæmt mati eftir gildandi lögum um eignarnám, en matsmönnum skylt að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu.

Af hálfu eignarnema hefur kröfugerð verið reist á þeim sjónarmiðum, að lögin, þ.e. 37. - 42. gr., kveði nákvæmlega á um það á hvern hátt bætur skuli ákveða og hvenær þær skuli greiða. Til frekari fyllingar á lagareglunum hafi verið sett reglugerð nr. 556/1982 um varnir gegn útbreiðslu riðuveiki og kýlapestar í sauðfé og geitum, svo og teknar aðrar stjórnvalds-ákvarðanir. Telur eignarnemi að eignarnámsþoli eigi aðeins þann rétt til bóta vegna niðurskurðarins, sem kveðið sé á um í greindum lögum og stjórnvaldsfyrir-mælum. Laga- og stjórnvaldsreglur séu settar til
að auka rétt fjáreigenda, sem fyrir niðurskurði verða, enda hefðu þeir engan bótarétt átt ella. Ákvæði um eignaréttarvernd í 67. gr. stjórnarskrárinnar eigi hér ekki við. Af þessum sömu ástæðum hefur eignarnemi og haldið því fram, að vegna ákvæða í lögum og stjórn-valdsreglum um framkvæmd bótauppgjörs skuli fresta

uppkvaðningu úrskurðar matsnefndarinnar þar til tímamörk í lögunum og stjórnvaldsreglum séu liðin.

Af hálfu eignarnámsþola er því hinsvegar haldið fram, að hvað sem líði ákvæðum VI. kafla l. nr. 23/1956 þá sé um að ræða eignarnám og skuli fullt verð koma fyrir. Með fullu verði sé átt við að meta skuli féð sem niður er skorið án tillits til sýkingar eða sýkingarhættu. Af hálfu eignarnámsþola er því á því byggt, að matsnefnd eignarnámsbóta skuli líta framhjá réttarreglum, þ.m.t. reglum í settum lögum, sem nefndin telur fara í bága við ákvæði 67. gr. stjórnar-skrárinnar.

Matsnefndin lítur svo á, að ákvæði 42. gr. l. nr. 23/1956 beri að skilja þannig, að fjáreigandi, sem þola verður heildarniðurskurð sauðfjár síns, eigi tveggja kosta völ. Annars vegar geti hann gert samning við ríkissjóð um bætur á grundvelli efnisreglna VI. kafla laga nr. 23/1956 og stjórnvaldsreglna, sem
settar hafa verið með heimild í þeim lögum, en hins vegar geti hann krafist eignarnámsmats samkvæmt lögum um eignarnám. Sé síðari leiðin valin beri matsnefnd að leggja til grundvallar reglur stjórnskipunarlaga um fullar bætur eins og þær hafa verið túlkaðar í löggjöf og lagaframkvæmd. Þessi túlkun matsnefndar-

innar styðst bæði við orðalag 42. gr. l. nr. 23/1956 og við samanburð á ákvæðinu eins og það var í 41. gr. l. nr. 44/1947. Niðurstaða þessi er og í samræmi við túlkun umboðs-manns Alþingis í áliti frá 8. júní 1989 (mál nr. 36/1988).

Af framangreindri túlkun leiðir, að matsnefndin telur sig með engum hætti bundna af ákvæðum í 37. gr. til 40. gr. l. nr. 23/1956 og reglugerð nr. 556/1982 hvorki að því er varðar fjárhæð bóta né heldur hvenær þær komi til greiðslu. Matsnefndin telur og rétt að taka fram, að í þessari afstöðu felst, að hún líti svo á, að sá sem velur þá leið að krefjast mats skv. lögum um eignarnám afsali sér þar með rétti til þeirra lögákveðnu bóta vegna niðurskurðarins sem ákvarðaðar eru í lögum og reglugerð og meti matsnefnd tjón hans lægra en greindar reglur gera ráð fyrir, þá ráði matið.

Af hálfu eignarnámsþola hefur því verið haldið fram, að lokaákvæði 42. gr. um skyldu matsnefndar til að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu eða yfirvofandi sýkingarhættu, væri andstætt ákvæði 67. gr. stjórnar-skrár og því beri að líta framhjá ákvæðinu við ákvörðun "fulls verðs" eða "fullra bóta" til handa eignarnámsþola. Matsnefndin fellst ekki á þetta

sjónarmið. Hún telur að í ákvæði þessu felist aðeins lögfesting á reglu, sem hafa beri hliðsjón af við ákvörðun bóta. Sýking á stöku kind í sauðfjárhjörð sem skorin er niður eða yfirvofandi sýkingarhætta geti
haft áhrif á verðmæti fjárins.

Matsnefndin telur skv. framansögðu að það sé hlutverk hennar að meta eignarnámsþola bætur fyrir það tjón sem hann verður fyrir við að fjárstofn hans er felldur og honum gert skylt að búa við sauðleysi í tvö ár, þ.e. frá hausti 1989 til hausts 1991. Haustið 1989 hafi eignarnámsþoli haft eðlilegar tekjur af slátrun haustlamba. Hann hafi hins vegar engar tekjur af
sauðfénu haustin 1990 og 1991, en á því hausti verði að gera ráð fyrir að hann kaupi nýjan fjárstofn. Haustið 1990 hefði eignar-námsþoli átt að hafa tekjur sem nema frálags-verði sláturlamba og þarf að meta honum afurðatjón að teknu tilliti til sparaðs kostnaðar. Sama gildi um tekjur af sauðfé haustið 1991. Matsnefndin byggir á því, að eignarnámsþoli bíði vaxtatap og hafi vaxtahagnað af greiðslum, sem eðlilegt er að til hefðu fallið haustin 1989, 1990, 1991 og 1992. Þar sem tapið og hagnaðurinn jafnast að meginstefnu út telur matsnefndin ekki ástæðu til að meta tap þetta og hagnað í tölum. Að auki þurfi að meta hvort eignar-námsþoli beri einhvern þann kostnað

sem er bótaskyld afleiðing af eignar-náminu og eignar-nema beri því að bæta. Þá beri óhjákvæmilega að meta til frádráttar bótum allan beinan sparnað eignar-námsþola árin 1989 -1991 sem rakinn verði til þess, að ekkert sauðfé er á bænum og því til viðbótar þarf að meta hvort það vinnuafl, sem sauðfjárræktin hefði krafist, nýtist ekki annars -staðar og komi til lækkunar á bótum.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir niðurstöðum matsnefndar eignarnámsbóta um tjón eignarnámsþola og þykir rétt að leggja til grundvallar kröfugerð
eignarnámsþola eins og hún er sundurliðuð að framan í kafla VI.

Um 1-2. Bætur fyrir 278 ær og 13 hrúta.      

Aðilar eru ekki á eitt sáttir um fjölda þess fjár frá Brekku, sem skorið var niður haustið 1989. Eignar-námsþoli telur ær hafa verið 278 og hrúta 13 eða samtals 291 kind. Eignarnemi telur hins vegar rétt að miða bætur við 280 kindur og hafi þá verið tekið tillit til veturgamalla hrúta en ekki eldri hrúta.
Af hálfu eignarnema hefur verið lögð fram skýrsla um fjölda fjár og þunga að Brekku dags. hinn 27. oktober

1989. Skýrsla þessi er undirrituð af Ólafi G. Vagnssyni og Halldóri Bjarnasyni. Samkvæmt henni eru 282 kindur að Brekku þar af 4 hrútar eldri en vetur-gamlir. Þá er upplýst, að síðar kom fram ein kind. Matsnefndin telur rétt með hliðsjón af afstöðu eignarnema að leggja til grundvallar að kindur þær að Brekku, sem niður voru skornar og bæta hafi verið 280. Eldri hrúta telur matsnefndin verðlausa.

Eins og áður hefur fram komið voru staðfest riðutil-vik að Brekku haustið 1988 og árið 1989 drápust 5 ær úr riðu. Matsnefndin telur, að óhjákvæmilegt sé að
taka tillit til þess við mat á bótum til eignar-námsþola úr hendi eignarnema vegna niðurskurðarins haustið 1989, að ekki var um heilbrigt fé að ræða. Matsnefndin telur að verðgildi sauðfjárins lækki verulega við það eitt að riðusýking finnst í hjörð-inni. Nefndin telur að aðrir sauðfjárbændur myndu sniðganga sýkt fé við kaup á sauðfé og þá mun sýking lækka verð á kjöti, enda þótt ósannað sé, að kjöt af sýktu fé sé hættulegt heilsu manna.Matsnefndin telur, að verðmæti fjárins á fæti sé verulega minna en frálagsverðmæti vegna sýkingar-innar. Matsnefndin hefur og litið til annarra matssjónarmiða en markaðs-verðs, einkum hugsanlegs endurkaupsverðs og afnota-verðmætis fjárins í hendi eignarnámsþola. Matsnefndin

telur, að ekki komi til álita að miða endurkaupsverð við heilbrigðan fjár-stofn, heldur fjárstofn sem er sambærilegur fjárstofni þeim sem skorinn var niður. Sú athugun leiðir óhjákvæmilega til sömu niðurstöðu og að framan greinir um markaðs-verðmæti sauðfjárins, þ. e. að endurkaups-verðmæti nýrrar fjárhjarðar, sem svipað er ástatt um og þá hjörð, sem niður hefur verið skorin, sé lægra en frálagsverðmæti fjárins. Þá kemur til álita að líta á verðmæti fjárins í hendi eignar-námsþola með það sjónarmið í huga, að það muni duga honum til sauðfjár-ræktar um langa hríð, enda þótt stofninn sé sýktur. Matsnefndinni er kunnugt, að sýking getur leynst nokkuð lengi í harðgerðum fjár-stofnum. Matsnefndin telur verulegar líkur á, að sýking leiði til vanhalda, sem muni aukast og að lokum gera fjárstofninn arð-minni. Enda þótt matsnefndin treysti sér ekki til að segja til um á hversu löngum tíma slíkt gerist , þá telur hún nægjanlega sýnt fram á slíka þróun. Þetta telur matsnefndin leiða til þess, að verðmæti fjár-stofnsins í hendi eignarnámsþola sé stórlega skert og fari síminnkandi og metur því verðmæti hans með þetta sjónarmið í huga lægra en frálagsverðmæti fjárins.

Öllu sauðfénu að Brekku var slátrað og það urðað seint á árinu 1989. Engin lagaskylda knúði á um slíka urðun

og var fullkomlega lögmætt að færa fé til slátrunar í sláturhúsi hjá sláturleyfishafa og fá að fullu greitt frálagsverð fyrir kindurnar að frádregnum kostnaði.

Matsnefndin hefur reiknað út frálagsverðmæti sauð-fjárins að Brekku haustið 1989 og miðar þá við 280 kindur. Frálags-verðmæti framreiknað til verðlags í janúar 1991 nemur kr. 1.700.464.- áður en dregin eru frá svonefnd sjóðagjöld, sem eru 2.1% eða kr. 35.710.- og flutningskostnaður á slátursstað áætlaður kr. 18.000.-. Að teknu tilliti til þessara atriða telur matsnefndin hæfilegt að meta tjón eignarnema samkv. þessum lið kr. 1.646.754.-.

Um 3. Bætur vegna spilltrar ræktunar.

Matsnefndin fellst ekki á, að nein ástæða sé til að ætla að tún spillist af því að vera hvíld í tvö sumur. Hún fellst ekki á að eignarnámsþoli þurfi að leggja í sérstakan kostnað vegna þess að tún séu ekki notuð sem að ofan segir. Matsnefndin fellst því ekki á að meta eignarnámsþola bætur samkvæmt þessum kröfulið.

Um 4. Fóðurkostnaður vegna dráttar á slátrun.

Matsnefndin telur hvorki sýnt fram á að eignarnemi beri ábyrgð á því að slátrun fjárins dróst til 2. desember 1989 né heldur að nauðsynlegt hafi verið að gefa hey á því tímabili eins á stóð. Matsnefndin fellst því ekki á að meta eignarnámsþola bætur undir þessum lið.

Um 5. Afurðartjónsbætur í 2 ár.

Matsnefndin hefur kynnt sér skattskýrslur eignar-námsþolanna ásamt viðeigandi landbúnaðarskýrslum. Skýrslur þessar telur matsnefndin trú-verðugar. Á grundvelli þessara gagna hefur matsnefndin reiknað út meðaltekjur eignarnámsþola af búrekstrinum.

Þá hefur nefndin reiknað út breytilegan kostnað sömu ára af sauðfjárræktinni og skipt kostnaði á milli sauðfjárræktar og nautgriparæktar, þar sem það hefur átt við, á grundvelli bestu fáanlegra upplýsinga. Þau ár sem um er að ræða eru 1987, 1988 og 1989. Tekjurn-ar hefur nefndin síðan uppreiknað til verðlags í janúar 1991 og tekið mið af breytingum á grundvallar-verði kindakjöts í hæsta verðflokki við þann útreikn-ing. Við framreikning kostnaðar hefur verið haft mið

af vísitölu lánskjara.

Meðaltekjur áranna 1987 - 1989 eru reiknaðar með eftirfarandi hætti og eru þá lagðar saman tekjur allra eig-narnámsþola skv. skattframtölum og fylgigögnum.

            Framreikni-      Framreikn.
Ár   Tekjur   stuðull      tekjur:

1898   2.797.036   414,69/393,41   2.948.331.-
1988   1.883.954   414,69/326,99   2.389.238.-
1987   1.738.693   414,69/251,63   2.865.392.-
                     8.202.961/3
            Meðaltal á ári    2.734.320.-

Breytilegur kostnað-ur á árunum 1987 -1989 er fundinn með ef-tirfarandi hætti:
            1989      1988      1987   

Fóður (Haukur)   630.805   484.779   227.156
   " (aðrir)   238.432   432.215   166.735
            869.237   916.994   395.891
V/nautgripa      469.388 577.706   237.535
            399.849   339.288   158.356
Sáðvörur      124.842   175.676   139.907
Búvélar      272.304   134.229   195.170

Rekstrarvörur    27.173    35.585    36.331
Laun         183.712    87.600   103.855
Aðk. þjónusta   131.442   120.235    88.181
Ýmis gjöld        91.056    75.075    62.296
          1.230.378   964.458   784.026
          x2969/2540 x2969/2154 x2969/1721                    1.438.186 1.329.376 1.352.691

Meðaltal á ári 1.373.418

Eins og áður greinir var að hluta til rekin nautgripa-rækt á Brekku á greindu tímabili og hefur nefndin skipt kostnaði á milli búgreina eftir því sem ástæða hefur verið til og byggt þá skiptingu á bestu fáan-legum gögnum um slíkan kostnað.

Niðurstöður af framangreindum útreikningum eru
eftirfarandi miðað við verðlag í janúar 1991:

Meðaltekjur á ári af
sauðfjárrækt               kr. 2.734.320.--breyti-legur kostn. vegna sauð-
fjárræktar að meðaltali á ári      kr. 1.373.418.-         
Mismunur               kr. 1.360.902.-

Þessi niðurstaða er sú fjárhæð, sem eignarnámsþoli hefur til ráðstöfunnar af sauðfjárræktinni á ári að meðaltali til greiðslu launa, afskrifta og hagnaðar og jafngildir tjóni hans á ári.

Matsnefndin telur því tjón eignarnámsþola vegna afurðamissis í tvö ár hæfilega metið tvöföld framan-greind fjárhæð eða kr. 2.721.804.-.

Um 6. Bætur vegna tapaðrar ullar.

Matsnefndin hefur tekið tillit til allra tekna af sauðfjárræktinni í útreikningi sínum undir lið 5 hér að framan og því kemur ekki til álita að meta sérstak-lega tjón vegna tapaðrar ullar.

Um 7. Skertar tekjur vegna nýs fjárstofns á tímabil-      inu 1992- 1996.

Matsnefndin fellst á að afurðatjón eignarnámsþola sé ekki að fullu bætt fyrr en tekið hefur verið tillit til þess, að tekjur af nýbyrjaðri sauðfjárrækt, skili sér ekki með eðlilegum hætti fyrr en á öðru ári og tekjur á fyrsta ári eftir sauðleysi því mjög skertar. Sá tekjumissir sé afleiðing af niðurskurðinum. Telur

matsnefndin að við mat á þeirri bótaskyldu skerðingu beri að hafa eftirfarandi í huga:

Tekjur á fyrsta ári eftir sauðleysi, þar sem stofnað er til sauðfjárbúskapar með kaupum á líflömbum að hausti verða verulega minni en ella. Stafar þetta m.a. af því að afföll verða meiri en venjulega og frjósemi minni. Telur matsnefndin hæfilegt að áætla að brúttó tekjur verði aðeins helmingur af því sem ella hefði mátt búast við og metur tjónið samkvæmt því kr. 1.367.160.-.

Matsnefndin fellst hins vegar ekki á, að víst sé eða líklegt, að fjárstofninn verði arðminni á öðru ári eftir sauðleysi en hinn niðurskorni fjárstofn var og telur því þennan lið að fullu bættan með framan-greindum kr. 1.367.160.-.

Um 8. Ýmis kostnaður.

   a).   Hreinsun og sótthreinsun fjárhúsa og jarðvegs-skip-ti. Matsnefndin fellst ekki á að meta eignarnámsþola bætur vegna vinnu hans við hreinsun og sótthreinsun. Nefndin telur að eignarnámsþola sé skylt að draga sem mest úr tjóni sínu, m. a. með því að nýta þann tíma,

      sem sparast vegna sauðleysisins, til að sinna       verki sem þessu. Matsnefndin telur hins vegar       að eignar-námsþoli eigi rétt á bótum vegna kaupa       á sótt-hreinsunarefni og metur þann kostnaðarlið       á kr. 10.000.-.

      Þá telur nefndin að meta beri eignarnámsþola sem tjón þann kostnað sem hann hefur af véla-vinnu við jarðvegsskipti og áætlar þann kostnað kr. 30.000.-.

   b)   Kostnaður við endurnýjun fjárhúsa. Nefndin fellst ekki á, að þeir hlutar fjárhúsanna, sem endurnýja þarf að áliti eignarnámsþola, hafi farið forgörðum vegna niðurskurðarins og að endurnýjunarþörfin sé afleiðing hans. Þess vegna fellst matsnefndin ekki á að meta eignar-námsþola bætur undir þessum lið.

   c)   Kostnaður við sérfræðiaðstoð. Ekki er ljóst hvað er átt við með þessum kröfulið, en eðli-legur kostnaður af sérfræðiaðstoð vegna eignar-námsmáls þessa verður metinn við ákvörðun málskostnaðar til handa eignarnámsþola.

   d).   Kostnaður við flutning á líflömbum. Mats

      -nefndin telur rétt að meta eignarnámsþola bætur undir þessum lið miðað við þrjár ferðir með líflömb í vöruflutningabifreið frá líklegum afhendingarstað líflamba að Brekku. Er þessi liður áætlaður kr. 72.000.-.

   e).   Kostnaður við málun vegna hreinsunar. Mats-nefndin fellst á að bæta beri eignarnámsþola útlagðan kostnað við kaup á málningu og fúa-varnarefni vegna endurnýjunar á málningu og fúavörn, sem er afleiðing af sótthreinsun.
      Kostnaður við þennan lið áætlar nefndin kr. 30.000.-.

Samkvæmt framansögðu sundurliðast mat matsnefndar á tjóni eignarnámsþola sem hér segir:

   A.   Bætur vegna fellds
      fjárstofns            kr. 1.646.754.
   B.   Bætur vegna sauðleysis
      í tvö ár            kr. 2.721.804.-C.   Skertar tekjur á fyrsta ári
      eftir sauðleysi         kr. 1.367.160.-   D.   Sótthreinsunarefni      kr. 10.000.-   E.   Vélavinna við jarðvegs-
      skipti            kr. 30.000.-
-
   F.   Kostnaður við flutning á
      líflömbum            kr. 72.000.-   G.   Útlagður kostnaður vegna
      málningar og fúavarnar      kr. 30.000.-
               Samtals kr. 5.877.718.-
Eignarnemi hefur engar greiðslur innt af hendi til eignarnámsþola eftir tjón hans og er því ekki um slíkan frádrátt að ræða.

Hins vegar kemur til álita hvort lækka beri metið tjón eignarnámsþola með hliðsjón af því, að vinnuframlag til sauðfjárræktarinnar sparast og því sennilegt að eignarnámsþoli geti aflað tekna með öðrum hætti til að draga úr tjóni sínu, svo sem honum er rétt og skylt að gera.

Matsnefndin hefur hugleitt, hvort rétt væri að gera ráð fyrir, að eignarnámsþoli hefjist handa um aðra starfsemi á jörðinni á sauðleysistímanum , t.d. kálfaeldi eða aðra sambærilega starfsemi, til að draga úr tjóni sínu. Matsnefndin telur of mikla óvissu fólgna í slíkri starfsemi til að unnt sé að meta tekjur af henni til frádráttar metnu tjóni eignar-námsþola.

Matsnefndin telur hins vegar, að Brekka sé þannig í sveit sett, að þeir sem þar búa hafi átt og eigi þess kost að afla tekna með því að sækja launavinnu frá heimili sínu og draga þannig úr tjóni vegna niður-skurðarins. Haukur Magnússon, sem á u.þ.b. 45% fjárins, að Brekku hefur gegnt kennarastörfum á vetrum. Hann hefur greitt einum sona sinna laun fyrir vinnu við sauðfjárræktina. Haukur Magnússon er nú elli-lífeyrisþegi og mats-nefndin telur ekki rétt að gera ráð fyrir að hann geti dregið úr tjóni sínu með því að sækja launavinnu frá heimilinu. Sama gildir um eiginkonu hann, Elínu Erlendsdóttur, sem á 14 kindur. Aðrir eigendur sauðfjárins, sem hér skipta máli búa ekki að Brekku að undanskildum Guðmundi Ellert Haukssyni. Guðmundur Ellert átti 38 kindur sem skornar voru. Hann aflar nú tekna með launavinnu utan heimilis. Matsnefndinni þykir rétt að taka tillit til þess, að verulegt vinnuafl sparast á sauðleysisárunum og því kostur á að afla tekna með launavinnu annars staðar. Ekki skiptir hér máli hjá hverjum fjáreig-andanna þetta vinnuframlag sparast, en matsnefn-din telur að hæfilegt sé að áætla að fjáreigendurnir að Hauki undan-skildum, geti aflað launatekna sem nema kr. 240.000.- á ári eða samtals kr. 480.000.- bæði árin.

   SAMANDREGIN NIÐURSTAÐA.

Heildarniðurstöður matsnefndarinnar eru því sem hér segir:

      Metið tjón         kr. 5.877.718.-
      - frádráttur vegna
      áætlaðra launatekna.   kr. 480.000.-
            Samtals   kr. 5.397.718.-

Samkvæmt framanrituðu telur mats-nefndin eignar-námsbætur til handa eignarnámsþola úr hendi eignarnema hæfilega metnar kr. 5.397.718.- sem greiðast í einu lagi. Fjárhæð bóta miðast við verðlag á matsdegi. Matsnefndin telur það utan hlutverk sín að kveða á um vexti af matsfjárhæð eftir uppkvaðningu úrskurðar.

Eignarnemi greiði eigarnámsþola í málskostnað kr.
290.000.- og hefur þá verið tekið tillit til þeirra hagsmuna sem í húfi eru og hæfilegs vinnuframlags lögmanns eignarnámsþola. Ennfremur hefur verið tekið tillit til ferða-kostnaðar og virðisaukaskatts.

Eignarnemi beri kostnað af störfum matsnefndar eignarnámsbóta, þar með talinn ferðakostnaður, samtals kr. 420.000.- .

   MATSORÐ

Eignarnemi , landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs greiði eignarnámsþolum, Hauki
Magnússyni í eigin nafni og fyrir hönd annarra eignar-námsþola, kr. 5.397.718.- í eignar-námsbætur og kr. 290.000.- í málskostnað.

Eignarnemi beri kostnað af starfi matsnefndar eignar-námsbót kr. 420.000.-.

MATSNEFND EIGNARNÁMSBÓTA

   ÚRSKURÐUR
   uppkveðinn 23. janúar 1991
   í eignarnámsmálinu nr. 1/1990:

   Þorgeir Einar Þórarinsson
   og
   Friðgeir Þorgeirsson
   gegn
   landbúnaðarráðherra og
   fjármálaráðherra f.h. ríkis-sjóðs.

I. SKIPAN MATSNEFNDAR.

Úrskurð þennan kveða upp Ragnar Aðalsteinsson hrl., formaður matsnefndar eignarnámsbóta, og matsmennirnir Stefán Svavarsson, löggiltur endurskoðandi, og Stefán Tryggvason, bóndi, en formaður hefur kvatt þá til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. 2. mgr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. AÐILAR.

Eignarnemi er landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og fyrir hann flytur málið Gunnlaugur Claessen, ríkislögmaður.

Eignarnámsþolar eru Þorgeir Einar Þórarinsson, kt. 121215-4899, og Friðgeir Þorgeirsson, kt. 031155-4289, báðir til heimilis að Grásíðu í Kelduhverfi, Norður-Þingeyjarsýslu. Fyrir eignarnámsþola flytur málið Jóhannes Sigurðsson hdl. Eignarnámsþolar eru feðgar og reka félagsbú á jörðinni Grásíðu í Keldu-hverfi.

III. MATSBEIÐNI.

Með bréfi lögmanns eignarnámsþola til matsnefndar eignarnámsbóta hinn 10. janúar 1990 var þess farið á leit við nefndina, að hún hlutaðist til um að mat á eignarnámsbótum færi fram vegna fyrirskipunar land-búnaðarráðuneytisins um niðurskurð á sauðfé í eigu félagsbúsins að Grásíðu. Með matsbeiðninni fylgdi álit umboðsmanns Alþingis frá 8. júní 1989, en þar kom fram að niðurskurður sauðfjár hefði verið fyrirskip-aður vorið 1986, en eignarnámsþolar talið framboðnar-
bætur ófullnægjandi og því kvartað til umboðsmanns hinn 19. september 1988. Niðurstaða umboðsmanns

Alþingis var sú, að eignarnámsþolar gætu krafist þess skv. 42. gr. l. nr. 23/1956 að ákvörðun bóta til þeirra vegna niðurskurðarins væri í samræmi við réttarreglur um eignarnám, sbr. m.a. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

Á grundvelli þessa boðaði matsnefnd eignarnámsbóta talsmenn aðila til fundar hinn 25. janúar 1990.

IV. ANDLAG EIGNARNÁMS OG TILEFNI.

Tilefni eignarnámsmats er það, að riðuveiki hafði orðið vart á því svæði, sem nefnist Skjálfandahólf. Tókust samningar um niðurskurð til útrýmingar veikinni við fjárbændur á svæðinu aðra en eignarnámsþola. Með bréfi landbúnaðarráðuneytisins 26. maí 1986 til sauðfjárveikivarna tilkynnti ráðuneytið um fyrirskipun sína um niðurskurð sauðfjár frá félagsbúinu að Grásíðu, ef ekki náist lausn með samningum við aðila. Vitnaði ráðuneytið til 42. sbr. 44. gr. l. nr. 23/1956.

Sauðfjárveikivarnir rituðu eignarnámsþolum bréf 13. júní 1986 og sendu þeim sýnishorn af samningi sem
gerður hafði verið við fjáreigendur í Skjálfandahólfi um niðurskurð sauðfjár. Eignarnámsþolar töldu niður-

skurðarráðstafanir ófullnægjandi til útrýmingar á riðuveiki og áskildu sér rétt til að krefja ríkissjóð um fullar bætur. Þeir ákváðu þó að hlýta fyrirskipun um niðurskurð.

Eignarnemi greiddi eignarnámsþolum bætur vegna afurðatjóns og voru greiðslur inntar af hendi
26.11.1987, 18.02.1988, 08.12.1988 og 19.12.1988.

Aðilar hafa leitað samkomulags um bótafjárhæðir, en ekki náð samkomulagi.

Í máli þessu er krafist mats á tjóni eignarnámsþola, en það er talið felast í verðmæti fellds fjárstofns, afurðatjóni og ýmiss konar kostnaði, m.a. við hreinsun og endurnýjun fjárhúsa.

V. EIGNARNÁMSHEIMILD.

Aðilar eru sammála um að heimild til meðferðar málsins sé að finna í 42. gr. l. nr. 23/1956 og réttilega hafi verið staðið að ákvörðun um að nota þá heimild. Matsnefnd eignarnámsbóta fellst á að skilyrði meðferð-ar málsins fyrir nefndinni séu uppfyllt.

VI. KRÖFUR EIGNARNÁMSÞOLA.

Eignarnámsþoli gerir eftirfarandi kröfur:

   1.   Bætur fyrir 320 ær       kr. 3.650.035
   2.   Afurðatjónsbætur í 4 ár,
      1986 - 1990          kr. 10.406.104
   3.   Afurðatjón á 1. ári eftir
      fjárleysi            kr. 3.716.465
   4.   Afurðatjón á 2. ári eftir
      fjárleysi            kr. 1.114.940
   5.   Skertar tekjur vegna nýs
      fjárstofns í 25 ár á tíma-
      bilinu 1993 - 2018       kr. 4.645.581
   6.   Ýmis kostnaður vegna ónotaðs
      heys, grafins húsdýraáburðar,
      ónýts timburs, endurvinnslu
      á túnum, sótthreinsunar,
      þvottar, málningar, fúa-
      varnar og jarðvegsskipta   kr. 1.748.019
   7.   Endurbygging fjárhúss       kr. 864.000
               Samtals   kr. 26.145.144

Að auki krefjast eignarnámsþolar þess, að matsnefndin ákvarði kostnað sem eignarnemi á að greiða þeim vegna

reksturs matsmálsins.

VII. KRÖFUR EIGNARNEMA.

Eignarnemi gerir þær kröfur að eignarnámsþolum verði ekki metnar bætur umfram þær, sem þeir hafa þegar fengið greiddar. Þá krefst hann þess að ákveðið verði að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri eignarnáms-málsins.

VIII. MÁLSMEÐFERÐ.

Svo sem áður er getið kröfðust eignarnámsþolar fyrirtöku málsins með bréfi dags. 10. janúar 1990 með heimild í 6. gr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignar-náms. Málið var fyrst tekið fyrir á fundi matsnefndar hinn 25. janúar 1990 og síðan hinn 15. febrúar 1990. Hinn 1. mars 1990 lagði lögmaður eignarnámsþola fram kröfugerð og greinargerð ásamt fylgiskjölum. Hinn 29. mars 1990 lagði lögmaður eignarnema fram kröfugerð og greinargerð ásamt fylgiskjölum.

Þegar málið var fyrst tekið fyrir hinn 25. janúar 1990 voru lögmenn aðila sammála um eignarnámsheimild og matsnefnd lýsti því yfir að hún teldi skilyrði
málsmeðfe-rðar uppfyllt.

Matsnefnd gekk á vettvang hinn 24. júlí 1990 á Grásíðu í Kelduhverfi ásamt eignarnámsþolunum Þorgeiri og Friðgeiri og lögmönnum beggja aðila. Voru bæði fjárhús jarðarinnar og hlöður skoðaðar, svo og umhverfi húsanna. Gerðu eignarnámsþolar grein fyrir þeirri hreinsun sem fram hefði farið, svo og því sem ógert væri. Þeir lýstu og aðferðum við hreinsun.

Að vettvangsgöngu lokinni var haldinn matsnefndar-fundur að Skúlagarði í Kelduhverfi og þá lögð fram fimm ný skjöl. Málið var síðan munnlega flutt og tekið til úrskurðar, en áður hafði matsnefndin árangurslaust leitað sátta með aðilum.

IX. SAUÐFJÁRSJÚKDÓMURINN RIÐA.

Rétt þykir áður en vikið er að hinum eiginlegu atvikum þessa máls, að gera stuttlega grein fyrir sauðfjár-sjúk-dómnum riðu og aðgerðum gegn sjúkdómnum.

Riða er smitsjúkdómur í sauðfé. Smitefni riðu hefur ekki tekist að einangra. Smitefnið veldur skemmdum í taugafrumum og eru einkenni riðu m.a. skjálfti, kláði og lamanir. Mörg ár geta liðið frá sýkingu þar til sjúkdómseinkenni birtast. Sýkt kind getur borið smit í aðra, enda þótt engin sjúkdómseinkenni séu fram

komin. Smitleiðir riðu eru að mestu leyti óþekktar.
Riða var fyrst staðfest með vefjagreiningu eftir seinni heimsstyrjöldina hér á landi, en líklegt er talið að hún hafi borist hingað fyrir síðustu aldamót. Framanaf var riðan bundin við afmörkuð landsvæði, einkum norðanlands. Fyrir 10 - 20 árum tók sjúkdómur-inn að breiðast út og breiddist hratt út. Urðu allt að 25% afföll árlega af sauðfé vegna riðu á sumum bæjum.

Árið 1986 var ákveðið að skera niður allar riðusýktar hjarðir á landinu í því skyni að gera landið riðu-laust. Hefur fé verið skorið á u.þ.b. 600 bæjum. Þeirri aðferð að skera niður í hjörðum er síðan fylgt eftir með hreinsun á húsum og umhverfi og fjárleysi í tvö ár eftir niðurskurð.

X. MÁLSATVIK.

Haustið 1986 var sauðfé skorið niður á þeim bæjum í Skjálfandahólfi, sem staðfest var riðuveiki hjá á undanförnum árum. Jafnframt var gerður samningur við alla fjáreigendur á svæðinu um bætur skv. stöðluðum samningsákvæðum, sem eignarnemi ákvað á grundvelli 37. - 41. gr. l. nr. 23/1956 og 2. kafla reglugerðar nr. 556/1982. Ekki tókust þó samningar við eignarnámsþola,

en þeir féllust á að færa fé sitt til slátrunar. Riðuveiki var staðfest á Grásíðu árið 1983 og hafði nokkrum ám verið slátrað vegna riðuveiki á tímabilinu 1983 til niðurskurðar haustið 1986.

Aðdragandi niðurskurðar sauðfjár eignarnámsþola var sá, að hinn 26. maí 1986 ritaði landbúnaðarráðuneytið sauðfjárveikivörnum bréf um niðurskurð sauðfjár í Skjálfandahólfi. Kemur þar fram að náðst hafi samning-ar við aðra fjáreigendur en eignarnámsþola um bætur. Segir síðan að ráðuneytið fyrirskipi niðurskurð að Grásíðu á grundvelli tillagna sauðfjársjúkdómanefndar og með tilliti til mikilvægis þess markmiðs, sem að sé stefnt með útrýmingu á riðuveiki. Segir að ákvörð-unin skuli koma til framkvæmda um leið og aðstæður leyfa.

Hinn 1. júní 1986 sendi landbúnaðarráðuneytið eignar-námsþolanum Þorgeiri E. Þórarinssyni ljósrit af bréfi ráðuneytisins frá 26. maí þar sem fyrirskipaður er niðurskurður sauðfjár að Grásíðu til útrýmingar riðuveiki.

Sauðfjárveikivarnir rituðu eignarnámsþolum bréf hinn 13. júní 1986 og fylgdi með bréfinu sýnishorn af samningi, sem gerður hafði verið við bændur í Skjálf-

andahólfi um niðurskurð sauðfjár. Segir síðan í
bréfinu að það sé eindregin ósk sauðfjárveikivarna að eignarnámsþolar íhugi vel hvort þeir séu tilbúnir að ganga til samninga á sama hátt og aðrir fjáreigendur sem búið hafi við riðuveiki í Skjálfandahólfi.

Í september 1986 rituðu eignarnámsþolar landbúnaðar-ráðherra bréf og kváðust mundu hlýta fyrirskipuninni í bréfi landbúnaðarráðuneytisins frá 26. maí 1986 um niðurskurð sauðfjár að Grásíðu. Jafnframt lýstu þeir því yfir að þeir teldu þessar ráðstafanir ófullnægj-andi til útrýmingar á riðuveiki og áskildu sér rétt til að krefja ríkissjóð um bætur fyrir allt það tjón, beint og óbeint, sem þeir yrðu fyrir.

Sauðfé eignarnámsþola var síðan slátrað í sláturhúsi haustið 1986 og fengu eignarnámsþolar gert upp fyrir hið slátraða fé á tíðkanlegan hátt.

Eignarnámsþolar rituðu landbúnaðarráðherra bréf dags. 14. desember 1987 og fylgdi bréfinu umsögn Búnaðar-félags Íslands frá 25. ágúst 1987 um fjárbúið að Grásíðu. Í bréfi eignarnámsþola komu fram hugmyndir um bótauppgjör sem væri á því byggt að leggja skyldi til grundvallar hreinar tekjur búsins að Grásíðu árin 1985 og 1986 að viðbættu 50% álagi vegna velræktaðs

fjárstofns, sem felldur hefði verið. Þessu til
viðbótar skyldi bæta allar heyfyrningar á verði metnu af forðagæslumanni. Að öðru leyti kváðust eignarnáms-þolar sætta sig við þá samninga sem aðrir hefðu gert.

Í bréfi Búnaðarfélags Íslands frá 25. ágúst 1987 kom m.a. fram að búið að Grásíðu hefði um langt árabil haft vandað skýrsluhald og að búið væri óumdeilanlega afurðasamt. Veturgamlar ær á búinu hefðu verið lamblausar og afurðir ánna öll ár vel yfir meðaltali fjárræktarfélagsins.

Að lokum segir í bréfinu að þarna hafi verið felldur óvanalega afurðamikill fjárstofn og um hefði verið að ræða fjárstofn sem um áratuga skeið hefði verið ræktaður af einstakri kostgæfni með frábærum árangri.

Leiddi þetta til þess, að eignarnámsþolum voru greiddar bætur í samræmi við hið staðlaða samningsform miðað við tveggja ára fjárleysi, en að auki bætur vegna sérstakrar afurðasemi og kynbótagildis sauðfjár-ins.

Af hálfu sauðfjárveikivarna kom fram að margir bændur í Kelduneshreppi sem skáru sauðfé sitt haustið 1986 höfðu meiri afurðasemi en Grásíðubúið og voru nefnd

sem dæmi búin að Tóvegg, Garði II, Hóli og Krossdal.
E-ignarnámsþolar framkvæmdu ekki sótthreinsun á
fjárhúsum og nánasta umhverfi þeirra að Grásíðu skv. fyrirmælum héraðsdýralæknis, a.m.k. ekki að fullu.

Leiddi þetta til þess, að hluti bóta skv. hinum staðlaða samningi til eignarnámsþola var lagður inn á lokaðan geymslureikning og með bréfi til sýslumanns Þingeyjarsýslu hinn 15. apríl 1989 kröfðust sauðfjár-veikivarnir þess að sýslumaður léti framkvæma sótt-hreinsun á fjárhúsum og nánasta umhverfi Grásíðu í samræmi við fyrirmæli héraðsdýralæknis á kostnað eigenda. Skyldi slíkri hreinsun ljúka fyrir 1. júlí 1989. Kom fram í bréfi sauðfjárveikivarna, að um haustið hefði verið heimiluð fjártaka í Kelduneshreppi til þeirra sem skáru niður fé sitt vegna riðuveiki haustið 1986 með samningum og því nauðsynlegt að umrædd hreinsun yrði framkvæmd. Ekki munu þessar aðgerðir hafa leitt til þess að lokið væri sótthreins-un á Grásíðu og var henni reyndar ekki lokið við vettvangsgöngu matsnefndar í júlí s.l.

Af hálfu eignarnema er á því byggt að slátrað hafi verið 264 ám, 7 hrútum og 49 gemlingum. Þessu er í sjálfu sér ekki mótmælt af hálfu eignarnámsþola en bótakröfur þeirra eru á því byggðar, að eignarnema sé

skylt að bæta fjármissinn með verði 320 líflamba.

XI. SJÓNARMIÐ EIGNARNÁMSÞOLA.

Kröfur eignarnámsþola eru á því byggðar, að þeir eigi rétt á að fá að fullu bætt það tjón sem þeir hafa orðið fyrir og eiga eftir að verða fyrir vegna niðurskurðar sauðfjárstofns þeirra. Þessu til stuðn-ings vitna þeir til 67. gr. stjórnarskrár Íslands um fullt verð. Af hálfu eignarnámsþola er því haldið fram að niðurlagsákvæði 42. gr. l. nr. 23/1956 um takmörkun á bótafjárhæð verði ekki skýrt þannig að um sérstaka lækkunarheimild sé að ræða sem gangi lengra en almennar reglur um verðmat á eignarnumdum hagsmunum, enda mundi slík túlkun brjóta gegn ákvæðum 67. gr. stjórnarskrárinnar. Ákvæði 42. gr. verði því að skýra á þann veg að hafi verðgildi hins eignarnumda sannan-lega rýrnað vegna sýkingar eða sýkingarhættu beri að taka tillit til þess við matið á verðgildi hagsmun-anna. Sé sú regla í samræmi við almennar reglur um verðmat á eignarnumdum hagsmunum, þ.e. að leggja raunverulegt verðmæti hagsmunanna til grundvallar.

Þá er því haldið fram að ekkert mæli sérstaklega með því að verðgildi þeirra hagsmuna sem teknir voru

eignarnámi hafi rýrnað vegna riðuveiki. Í því sambandi er m.a. bent á eftirfarandi:
   a)   Ýmsir sauðfjársjúkdómar hafi hrjáð fjárstofna um langan aldur, svo sem stífkrampi, kýlaveiki, garnaveiki, vöðvasullur, riðuveiki og Hvanneyr-arveiki. Algengt sé að aflífa þurfi nokkrar kindur á ári vegna sauðfjársjúkdóma og slík afföll verði að teljast eðlileg rýrnun á bústofni sem bændur reikni með. Afföll á fjárstofni eignarnámsþola sem rekja megi til þess að lóga hafi þurft örfáum kindum vegna gruns um riðuveiki hafi mátt reikna með og verðmæti fjárstofnsins ekki minna vegna þess. Þá hafi riðuveiki verið þekkt hér í meira en eina öld, en bændur hafi þrátt fyrir það getað stundað sauðfjárbúskap og ekki hafi skortur á sauðfjárafurðum staðið þjóðarbúinu fyrir þrifum.

   b)   Einungis hafi verið skorið fé í Skjálfandahólfi á þeim bæjum þar sem upp hafi komið riða á síðustu fimm árum, en ekki hafi verið skorið á þeim bæjum þar sem riða hafi komið upp fyrr og með því sé verið að staðhæfa að unnt sé að útrýma riðu á annan hátt en með niðurskurði.

   c)   Þekking á riðuveiki sé takmörkuð og því ekki       unnt að fullyrða hver þróun sjúkdómsins hefði orðið ef ekki hefði verið skorið niður.

   d)   Við mat á því hvort sauðfjárstofninn að Grásíðu hafi rýrnað að verðgildi vegna sýkingar eða sýkingar-hættu beri að miða við haustið 1986 en þá hafi vitn-eskja um sjúkdóminn verið jafnvel enn minni en í dag.

   e)   Sauðfé geti smitast eftir öðrum leiðum en frá öðru sauðfé, svo sem öðrum húsdýrum. Niður-skurður tryggi því ekki að riðuveiki verði útrýmt.

      Er því haldið fram af hálfu eignarnámsþola að ósannað sé að verðgildi fjárstofnsins hafi rýrnað sérstaklega enda þótt örfáar kindur hafi greinst með riðuveiki.

Þá er því haldið fram að óheimilt sé að túlka 42. gr. l. nr. 23/1956 á annan hátt en að framan greini, enda færi slík túlkun í bága við 67. gr. stjórnarskrárinn-ar.

Þá er þess krafist að bætur til handa eignarnámsþolum

verði ekki lækkaðar svo neinu nemi, teljist bótatak-mörkun 42. gr. l. nr. 23/1956 hafa sjálfstæða þýðingu enda tryggi niðurskurður ekki útrýmingu sjúkdómsins.

Til stuðnings fjárkröfum sínum hafa eignarnámsþolar
bent á eftirfarandi og er hér á eftir vitnað til kröfuliðanna í kafla VI. hér að framan.

Um 1.

Eignarnámsþolar segja að til að endurnýja bústofninn þurfi að kaupa líflömb þegar fjárleysi verði aflétt. Meðalþyngd líflamba sem kaupa þyrfti yrði u.þ.b. 40 kg. og hvert kg. kosti miðað við verðlag haustið 1989 kr. 185, þannig að hvert líflamb kosti kr. 7.400. Miðað við að þurft hafi að skera niður 320 ær sé heildarkaupverðið kr. 2.368.000. Þá er á því byggt að afurðir eignarnámsþola hafi að magni til verið 24,14% hærri en landsmeðaltal og að auki sé hæfilegt að hækka verð hins fellda fjárstofns um 20% vegna afurðagæða. Kjöt sem lendi í efstu gæðaflokkum sé alla jafnan hreinn hagnaður fyrir bóndann þar sem tilkostnaðurinn sé að öðru leyti sambærilegur. Telja því eignarnáms-þolar rétt að hækka líflambaverðið um 44,14% eða kr. 1.045.235. Þessu til viðbótar krefjast eignarnámsþolar flutningskostnaðar vegna líflambanna sem nemi u.þ.b.

10% af kaupverði þeirra eða kr. 236.800 og bætur vegna hins fellda fjárstofns nemi því samtals kr. 3.650.035 miðað við verðlag í september 1989.

Um 2.

Eignarnámsþolar byggja á því að þeim verði heimilað að taka aftur sauðfé haustið 1990 og fjárleysi vari því í fjögur ár. Að auki líði allmörg ár þar til féð fari að skila þeim afurðum sem fé eignarnámsþola gaf af sér fyrir niðurskurðinn. Eignarnámsþolar byggja á því að meðaltekjur af fjárstofninum á árunum 1983 -1985 hafi verið kr. 3.716.465, en frá beri að draga sparnað í rekstrarútgjöldum. Telja þeir að samtals eigi að draga 30% af tekjutapinu frá bótafjárhæðinni eða kr. 1.114.939, þannig að nettótapið ár hvert nemi kr. 2.601.526 og á fjórum árum samtals kr. 10.406.104.

Um 3.

Þá byggja eignarnámsþolar á því að langan tíma taki að ná fram fyrri afurðasemi. Það verði fyrst á þriðja ári sem sambærilegt afurðamagn fáist og það taki 20 -30 ár að ná sömu kjötgæðum og hinn fyrri stofn náði. Þá er því haldið fram að vegna þess að eignarnámsþolar hafi tíðkað að hafa veturgamlar ær lamblausar í því

skyni að fá fram betri stofn verði tekjur fyrsta
ársins eftir fjárleysið engar og tjón þeirra vegna
þess árs verði því kr. 3.716.465.

Um 4.

Þá er á því byggt að afurðir á öðru ári eftir fjár-leysi verði allt að 30% rýrari en venjulegt var fyrr og afurðatjón þess árs því kr. 1.114.940.

Um 5.

Áætlað er að verðmæti afurða verði að meðaltali um 5% lægra á ári næstu 25 árin og tekjutap af þeim sökum kr. 4.645.581.

Um 6.

Eignarnámsþolar telja ýmsan kostnað vegna hreinsunar-skyldu lögum samkvæmt hæfilega áætlaðan kr. 1.748.019 og sundurliðast hann þannig:

   a)   Brenndar heybirgðir      kr. 285.468
   b)   Grafinn húsdýraáburður      kr. 329.760
   c)   Brennt timbur og vinna við
      endursmíði             kr. 567.596

   d)   Endurvinnsla á túnum      kr. 400.920
   e)   Sótthreinsun og þvottur      kr. 28.000
   f)   Málning og fúavörn       kr. 80.000
   g)   Jarðvegsskipti og uppgræðsla   kr. 56.275
               Samtals    kr. 1.748.019

Um a).
Eignarnámsþolar telja að heybirgðir þeirra hafi numið 18.480 kílóum þegar ákveðið var að skera fé þeirra niður. Kostnaðarverð á heyi sé árið 1989 kr. 12,85 á hvert kíló og tjón þeirra vegna heybirgðanna því kr. 237.468. Þessu til viðbótar þurfi að greiða vinnulaun í 40 klst., kr. 700 á klst., og vélaleigu fyrir drátt-arvél og vagn í 20 klst. á kr. 1.000 hverja klst. eða samtals kr. 20.000 og samtals nemi því tjón vegna heybirgðanna kr. 285.468.

Um b).
Eignarnámsþolar halda því fram að 128 tonn af taði hafi verið í fjárhúsunum þegar niðurskurður var ákveðinn. Verðmæti þessa taðs sem áburðar hafi verið kr. 245.760, en þetta verðmæti hafi glatast þar sem ekki var hægt að nota áburðinn til ræktunar. Til
viðbótar er krafist kr. 49.000 í vinnulaun og kr. 35.000 í vélaleigu við að urða húsdýraáburðinn og heildar-tjón undir þessum lið því kr. 329.760.

Um c).
Því er haldið fram að brenna hafi þurft timbri úr hluta af görðum, gólfgrindum og göngum. Kostnaður við að kaupa nýtt timbur nemi kr. 267.596 og vinnulaun miðað við útselda vinnu hjá húsasmíðameisturum við að endursmíða grindur, gólf og garða nemi kr. 300.000 og tjónið undir þessum lið því samtals kr. 567.596.

Um d).
Þar sem tún hafi ekki verið nýtt að Grásíðu síðustu ár hafi safnast á þau sina. Til að endurvinna túnin þurfi að slá þau og henda sinunni. Er talið að kostnaður við vinnu við það nemi kr. 287.840 og kostnaður vélavinnu kr. 113.080 eða samtals kr. 400.920.

Um e).
Kostnaður við vinnu við sótthreinsun og þvott á fjárhúsum er áætlaður 40 klst. á kr. 700 eða samtals kr. 28.000.

Um f).
Við það er miðað að það taki 40 vinnustundir að mála og fúaverja fjárhús og útseld vinna hjá málarameist-urum sé kr. 1.000 á tímann eða samtals kr. 40.000. Efniskostnaður málningar og fúavarnar er áætlaður kr.

40.000 og tjón undir þessum lið samtals kr. 80.000.

Um g).
Af hálfu eignarnámsþola er á því byggt að skipta þurfi um jarðveg við fjárhús og hlöður og bifreiða- og véla-vinna við það kosti kr. 28.275 og önnur vinna kosti kr. 28.000 og tjón skv. þessum lið því kr. 56.275.

Um 7.

Að Grásíðu eru tvö fjárhús og er annað þeirra byggt 1952 og tekur 100 kindur. Samkvæmt áætlun um sótt-hreinsun, sem Bárður Guðmundsson, héraðsdýralæknir, hefur gert 16. maí 1987 hafi átt að hreinsa út skít og brenna lélegt timbur í fjárhúsinu og að auki að hafa þau lokuð í þrjú ár eftir að nýtt sauðfé kemur á bæinn. Eignar-námsþolar telja ókleift að hreinsa húsin nema gjör-eyðileggja og því sé réttast að brenna þau. Þar sem ekki megi setja fé í húsin fyrstu þrjú árin eftir fjártöku geti þeir einungis haft 2/3 af því fé sem þeir áður höfðu á því tímabili. Telja þeir að kostnað-ur við að byggja slíkt fjárhús nemi kr. 1.152.000, ef gert sé ráð fyrir að ábúendur sjái sjálfir um byggingu hússins, en kr. 1.440.000, ef keypt er vinna byggingar-meistara við smíðina. Telja eignar-námsþolar eðlilegra að miða við hærri töluna og

draga síðan 40% frá þar sem ný hús komi í stað hinn gömlu og tjónið því kr. 864.000.
   
XII. SJÓNARMIÐ EIGNARNEMA.

Eignarnemi krefst þess að matsnefnd eignarnámsbóta leggi alfarið til grundvallar við mat sitt reglur laga nr. 23/1956 um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjár-sjúkdóma og útrýmingu þeirra svo og reglugerð nr. 556/1982, sem sett er með heimild í lögunum. Í lögunum og reglugerðinni séu ítarleg ákvæði um bætur vegna niðurskurðar sauðfjár af völdum sauðfjársjúkdóma og réttur eignarnámsþola til bóta vegna niðurskurðarins markist af efnisákvæðum laganna og stjórnvaldsfyrir-mæla, en öðru ekki.

Þá krefst eignarnemi þess að matsnefndin taki fullt tillit til niðurlagsákvæðis 42. gr. l. nr. 23/1956, þar sem segi að matsmönnum sé skylt að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu eða yfirvofandi sýkingarhættu, ef krafist er mats vegna niðurskurðar eftir gildandi lögum um eignarnám. Eignarnemi telur að það sé ekki hlutverk matsnefndar eignarnámsbóta að skera úr um stjórnskipulegt gildi settra laga gagnvart stjórnar-skrá. Slíkt sé hlutverk dómstóla. Þess vegna sé nefndinni skylt að leggja til grundvallar matsstörfum

sínum þær efnisreglur um bætur sem fram koma í lögunum og reglugerðinni.

Eignarnemi leggur áherslu á að fyrir nokkrum árum hafi verið hafin herferð að frumkvæði bændasamtakanna í því skyni að útrýma riðu með öllu og sú herferð sé að líkindum á lokastigi. Til þessarar herferðar hafi
verið varið úr ríkissjóði mörg hundruð milljónum króna til bótagreiðslna skv. þeim bótareglum sem lögin nr. 23/1956 marka. Vitnar eignarnemi m.a. til niðurskurðar á fé gegn mæðiveiki áður fyrr, en þá hafi bætur til bænda ráðist alfarið af efnisreglum umræddra laga.

Eignarnemi krefst, að tekið sé tillit til þess, að komi riða upp í fjárhjörð, þá sé hjörðin raunverulega verðlaus eða verðlítil eign. Stafi þetta bæði af því að sala á slíku fé, þar sem riða hefur verið staðfest, sé bönnuð, og því að slíkt fé hafi ekkert markaðsgildi og sé óseljanlegt. Þá sé riðusjúk hjörð hættuleg vegna smithættu. Þetta séu atriði sem matsnefndinni beri að taka mið af.

Eignarnemi fellst ekki á að eignarnámsþolar eigi rétt til fullra eignarnámsbóta, eins og um heilbrigt fé væri að ræða. Eignarnemi segir það almenna reglu að ekki þurfi að greiða bætur, þegar skylt er að eyða

eign vegna hættueiginleika hennar sjálfrar og um eignaupptöku sé að ræða. Samt séu í ýmsum lögum fyrirmæli um bætur til eigenda að fullu eða að hluta og séu slík fyrirmæli byggð á sanngirnisástæðum en ekki á skyldu til bótagreiðslu. Því geti eignarnáms-þolar aðeins krafist þeirra bóta úr ríkissjóði sem lögin nr. 23/1956 og reglugerð nr. 556/1982 ákveði.
Bótaréttur eignarnámsþola eigi sér einungis stoð í greindum lögum og reglugerðum, en án laganna hefðu eignarnámsþolar orðið að bera tjón sitt bótalaust.

Þá vitnar eignarnemi m.a. í athugasemdir sem fylgdu frumvarpi til laga um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma, og útrýmingu þeirra, sem lagt var fram á Alþingi 1946, en þar sé að stofni til að finna þau ákvæði sem hér skipti máli. Þar segir m.a. að báðir aðilar, þ.e. ríkið og fjáreigendur, verði að leggja fram sinn skerf, en hvorugur allt. Bændur verði að fórna allmiklu, ríkissjóður leggi á móti. Þannig sé svo haldið á málum að viðráðanlegt sé. Þá segi í athugasemdunum að í frumvarpinu sé stefnt að því að gera allt sem einfaldast viðvíkjandi framlagi ríkis-sjóðs þótt það kunni að leiða til þess að ekki verði alls staðar mældur og veginn nákvæmlega hlutur hvers einstaklings, en það komi síður að sök, "þegar málið

er leyst á félagslegum grundvelli, heldur en ef um
ríkisframkvæmd eina væri að ræða."

Kröfugerð eignarnema hefur áður verið rakin, en hún er í aðalatriðum á því byggð, að eignarnámsþolum hafi þegar að fullu verið bætt tjón þeirra vegna niður-skurðarins haustið 1986.

Samkvæmt matsnefndarskjali nr. 22, sem er bréf sauðfjárveikivarna til ríkislögmanns dags. 27. mars 1990 hafa eignarnámsþolum verið greiddar í bætur kr. 2.223.923,40 í fjórum áföngum, svo sem hér segir:

1.   Greiðsla 26.11.1987 kr. 843.117. Hér er um að ræða afurðatjónsbætur 1987 og er við það miðað að verðmæti 15 kílóa dilks skv. haustgrundvelli 1987 sé kr. 4.065,70. Afurðatjónsbætur nemi 65% af þeirri fjárhæð eða kr. 2.643 og sú fjárhæð marg-földuð með fjölda kinda eða 319, þannig að heild-arbætur nemi kr. 843.117.

2.   Hinn 18.02.1988 voru eignarnámsþolum greiddar kr. 90.214,40 vegna sérstakrar afurðarsemi og var hún reiknuð sem 1,6 kg. á hverja af 320 kindum og kjötverðið reiknað kr. 176,20 hvert kg. og heild-arbætur skv. þessum lið kr. 90.214,40.

3.   Hinn 08.12.1988 voru greiddar afurðatjónsbætur vegna ársins 1988 og var sem fyrr miðað við 65% af 15 kg. dilk. Lagt var til grundvallar haustgrund-vallarverðið 1988 kr. 308,77 hvert kg. kjöts og kindur taldar 320. Þannig reiknað nema afurða-tjónsbæ-tur kr. 1.075.840. Til viðbótar var greidd hækkun vegna sérstakrar afurðarsemi reiknað á sama hátt og áður og nam sú fjárhæð kr. 114.752 og heild-ar-bætur undir þessum lið því kr. 1.190.592. Af þessari fjárhæð var 20% haldið eftir vegna þess að eignar-námsþolar höfðu ekki lokið sótthreinsun. Fé þetta var lagt inná bankabók í Búnaðarbanka Íslands á nafni félagsbúsins Grásíðu og afhendist gegn úttektarvottorði héraðsdýralæknis um fullnað-arhreinsun á fjárhúsum og umhverfi.

4.   Þá greiddi eignarnemi hinn 19. desember 1988 kr. 100.000 til eignarnámsþola vegna sérstaks kynbóta-gildis. Um var að ræða greiðslu í eitt skipti fyrir öll.
      
Áður en málið var tekið til úrskurðar var því lýst yfir af hálfu eignarnema, að það hafi verið mistök að reikna með 319 kindum við uppgjörið 26.11.1987 í stað 320 kinda og yrði það leiðrétt.

Að öðru leyti hefur eignarnemi gert eftirfarandi athugasemdir við rök eignarnámsþola fyrir kröfu-gerð
sinni:

Eignarnemi heldur því fram að ljóst hafi verið þegar niðurskurður fór fram í Skjálfandahólfi haustið 1986 að bændum yrði heimilað að hefja sauðfjárbúskap að
nýju að tveimur árum liðnum, en skilyrði hafi verið að sótthreinsun fjárhúsa færi fram á fyrsta ári eftir niðurskurð. Því er haldið fram að ýmsir fjárbændur í hólfinu hafi tekið fé að nýju að tveimur árum liðnum en nokkrir hafi gert sérstaka samninga um fjárleysi þriðja árið. Hafi þeir samningar verið gerðir í ljósi þess að lengra fjárleysi gæfi enn betri tryggingu fyrir árangri aðgerða.

Því er haldið fram að eignarnámsþolar hafi getað hafið fjárbúskap að nýju að tveimur árum liðnum frá niður-skurði að uppfylltum skilyrðum um sótthreinsun, en slík sótthreinsun hafi ekki farið fram að öllu leyti enn þegar málflutningur fór fram. Eignarnámsþolum hafi borið skylda til að takmarka tjón sitt eftir því sem kostur var, en þeir hafi vanrækt þá skyldu sína. Af þessum ástæðum telur eignarnemi að eignarnámsþolar eigi ekki rétt á bótum fyrir meira en tveggja ára fjárleysi, enda sé það í samræmi við hina almennu

-framkvæmdareglu.

Þá heldur eignarnemi því fram, að sá höfuðstóll, sem til verður við að fella fjárstofninn 1986, eigi að ganga til þess að kaupa nýjan fjárstofn að loknu fjárbanni. Þar af leiðandi verði ekki á það fallist að bæta eigi kaup á líflömbum. Þá bendir hann á það að meðalþynd líflamba, sem eignarnámsþolar reikni með, sé of há. Til dæmis hafi meðalþungi líflamba úr Þistilfirði haustið 1989 verið 37,78 kg. Telur eignarnemi meðalþunga líflamba vera ofáætlaðan um u.þ.b. tvö kg. af eignarnámsþolum.

Þá bendir eignarnemi á, að meðal þeirra 320 kinda, sem skornar voru haustið 1986, hafi verið 49 gemlingar og að í búskap eignarnámsþola hafi tíðkast að hafa veturgamlar ær lamblausar í því skyni að fá fram betri stofn. Telur eignarnemi að afurðatjónsbætur til eignarnema ættu að lækka sem nemur ásetningi og ásetningur haustið 1985 hafi verið 49 gimbrar, en eftir þær hafi eignarnámsþolar ekki fengið afurðir
haustið 1986. Þrátt fyrir það hafi bætur til eignar-námsþola 1987 og 1988 verið ákveðnar án tillits til þess, að þeir hleyptu ekki til gemlinga, sem sé andstætt því sem flestir búendur geri. Hinar greiddu bætur hafi verið miðaðar við heildarfjölda fóðraðra

kinda og við það miðað að allar vetrarfóðraðar ær skiluðu afurðum. Því hafi bótauppgjör vegna afurða--tjóns verið eignarnámsþolum hagstætt að þessu leyti. Þetta beri að líta á við mat á því hvort afurðatjón áranna 1987 og 1988 sé vanmetið eða ekki.

Eignarnemi bendir á að á þeim svæðum þar sem unnt sé að kaupa líflömb, svo sem í Þistilfirði, sé að finna bú með mjög afurðagott sauðfé sem sé sambærilegt því sem eignarnámsþolar áttu. Af þessum sökum ætti ekki að þurfa að vera um afurðatjón að ræða.

Eignarnemi vekur athygli á, að í þeim tilvikum, þegar um fjárleysi á þriðja ári sé samið af sérstökum ástæðum, þá greiðist afurðatjónsbætur sem nemi 45%. Þegar talað sé um afurðatjónsbætur í 38. gr. l. nr. 23/1956 sem nemi 3/4 lambsverðs á bótaskylda kind sé átt við afurðartjón í eitt ár eingöngu og sé um að ræða eingreiðslu. Af þessu leiði að lengra sé gengið í þá átt að bæta tjón í reglugerðinni en lögin geri ráð fyrir.

Mótmælt er að metið sé tjón vegna væntanlegs flutn-ingskostnaðar líflamba þar sem sá kostnaður sé greiddur skv. reikningi þegar hann liggi fyrir. Áætlaðri fjárhæð er mótmælt sem alltof hárri.

Um hina ýmsu kostnaðarliði sem eignarnámsþolar
krefjast bóta fyrir, ber eignarnemi fyrir sig, að engin ákvæði séu í lögum eða stjórnvaldsreglum, sem geri ráð fyrir bótum vegna þeirra atriða, sem krafist sé undir þessum lið, og þ.a.l. komi bætur ekki til álita.

Um tjón vegna heybirgða segir eignarnemi að hann hafi boðist til að hafa milligöngu um sölu á heyi sumarið 1986 en því hafi ekki verið sinnt. Selt hafi verið hey frá riðubæjum til bænda sem voru með annan búpening en sauðfé auk þess sem heimilt sé að selja hey frá riðubæjum til að gefa hrossum. Þ.a.l. hafi ekkert tjón átt að verða af þessum sökum. Útreikningi á söluverði heys er mótmælt sem röngum, enda séu 65% af framleiðslukostnaði á heyi greidd með afurðatjónsbót-um.

Um tap vegna taðs er á því byggt að heimilt sé að nota tað af riðubæjum á nýræktir, svo og tún og selja heyið til bænda þar sem sauðfé er ekki, t.d. til kúabænda. Þá verði allir bændur að hreinsa sauðatað úr fjárhúsum og koma því fyrir án þess að fá þann kostnað endur-goldinn frá ríkinu.

Mótmælt er bótum vegna timburs úr görðum, gólfgrindum

og göngum. Hafi það farið forgörðum sé það vegna þess að það hafi verið svo lélegt að komið hafi verið að óhjákvæmilegri endurnýjun.

Mótmælt er kröfum um bætur vegna endurvinnslu á túnum og sjónarmiðum eignarnámsþola hafnað, en bent á að framlög til endurvinnslu túna séu veitt skv. jarðrækt-arlögum.

Eignarnemi vekur athygli á að skv. 15. gr. reglugerðar frá 1982 séu ákvæði um afhendingu málningar og fúavarnarefnis og skv. hinu staðlaða samningseyðu-blaði, 5. gr., séu ýmiss sótthreinsunarefni lögð til endurgjaldslaust. Þetta sé reyndar fram yfir skyldu. Ekki komi til álita frekari bætur og óþarft sé að meta bótafjárhæðir þar sem efnin hafi annað hvort þegar verið afhent eða verði afhent þegar það sé tímabært.

Mótmælt er að tilefni sé til sérstaks mats á tjóni vegna jarðvegsskipta við fjárhús og m.a. vitnað til 5. gr. fyrrgreinds staðlaðs samningseyðublaðs.

Um kröfur vegna endurbyggingar á 100 kinda fjárhúsi segir eignarnemi m.a. að í þeim lið sé kröfugerð eignarnámsþola komin á það stig að tæpast verði trúað að alvara búi að baki af þeirra hálfu. Unnt eigi að

vera að þvo og sótthreinsa hvern hlut sem vera skal og engu þurfi að henda nema því sem úr sér sé gengið á eðlilegan hátt.

XIII. ÁLIT MATSNEFNDAR EIGNARNÁMSBÓTA.

Um varnir gegn sauðfjársjúkdómum gilda nú l. nr.
23/1956 um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúk-dóma og útrýmingu þeirra með síðari breytingum. Lögin eru að stofni til eldri og voru áður nr. 44/1947 með sama nafni. Gerðar voru nokkrar breytingar á lögunum árið 1956 og lögin nr. 44/1947 endurútgefin sem lög nr. 23/1956.

Í lögunum eru taldir upp þeir sjúkdómar sem lögin ná til og kveðið er á um aðgerðir til útrýmingar sauð-fjársjúkdóma svo og ákvæði um sauðfjárvarnarsvæði, fjár-skiptafélög og fjárskipti. Þá eru og í VI. kafla laganna ákvæði um fjárframlög ríkisins til fjárskipta. Framkvæmd laganna heyrir undir landbúnaðarráðherra, sem skipar sauðfjársjúk-dómanefnd til að hafa á hendi stjórn sauðfjársjúkdóma-mála.

Í 13. gr. 2. mgr. og 23. gr. 2. mgr. laganna eru sérákvæði um bætur fyrir kindur sem sleppa yfir varðlínur og kindur sem eru sýktar eða grunur leikur

um að séu sýktar (sbr. og 17. gr.). Í 13. gr. 2. mgr. er kveðið á um að ríkissjóður skuli bæta kind með a.m.k. fullu niðurlagsverði (haustverði). Í 23. gr. 2. mgr. segir að sauðfjársjúkdómanefnd ákveði bætur fyrir sauðfé, sem skorið er, án frekari skilgre-iningar. Í þessum tilvikum er einungis fjallað um slátrun einstakra kinda, sem svo er ástatt um sem lýst er í lögunum.

Í VI. kafla laganna (37. gr. - 42. gr.) er hinsvegar fjallað um fjárframlög og bætur vegna fjárskipta, þ.e. þegar skorið er niður sauðfé á ákveðnum landssvæðum og nýtt fé fengið í staðinn annað hvort þegar í stað eða að liðnu einu eða fleirum sauðleysisárum.

Í 37. og 38. gr. er um það fjallað hvernig ríkissjóður skuli bæta fjáreigendum tjón vegna niðurskurðarins og á hvern hátt skuli greiða bætur. Þá er í 41. gr. fjallað um svonefndan uppeldisstyrk, sem greiða skal fjáreigendum sem missa fé vegna vanhalda, og geta
ekki búist við fjárskiptum næstu 2 ár.

Í 42. gr. er svohljóðandi ákvæði:

      "Nú telur sauðfjársjúkdómanefnd nauðsynlegt að útrýma sauðfjársjúkdómi með niðurskurði á sýktu

      
      eða grunuðu svæði, og skal hún þá senda land-      búnaðar-rá-ðherra rökstuddar tillögur þar um. Getur       ráðherra þá fyrir-skipað niðurskurð, hvort sem at-      kvæða-greiðsla hefur farið fram á svæðinu eða ekki.       Bætur skal greiða fjáreigendum samkvæmt ákvæðum       þessara laga. Verði krafist mats vegna niður-      skurðar-ins, eftir gildandi lögum um eignar-nám, er       matsmönnum skylt að taka til greina sýkingu fjár       á svæðinu eða yfir-vofandi sýking-ar-hættu."

Þetta ákvæði var efnislega áður að finna í 41. gr. l. nr. 44/1947 þar sem segir m.a. að telji sauðfjársjúk-dómanefnd nauðsynlegt að útrýma sjúkdómi með niður-skurði, þar sem fjárskiptafélag telst ekki stofnað, þá geti hún látið útrýminguna fara fram með samþykki ráðherra. Bætur skuli þá greiða fjáreigendum samkvæmt mati eftir gildandi lögum um eignarnám, en matsmönnum skylt að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu.

Af hálfu eignarnema hefur kröfugerð verið reist á
þeim sjónarmiðum, að lögin, þ.e. 37. - 42. gr., kveði nákvæmlega á um það á hvern hátt bætur skuli ákveða og hvenær þær skuli greiða. Til frekari fyllingar á lagareglunum hafi verið sett reglugerð nr. 556/1982 um varnir gegn útbreiðslu riðuveiki og kýlapestar í sauðfé og geitum, svo og teknar aðrar stjórnvalds--

ákvarðanir. Telur eignarnemi að eignarnámsþoli eigi aðeins þann rétt til bóta vegna niðurskurðarins, sem kveðið sé á um í greindum lögum og stjórnvaldsfyrir-mælum. Laga- og stjórnvaldsreglugerðir séu settar til að auka rétt fjáreigenda, sem fyrir niðurskurði verða, enda hefðu þeir engan bótarétt átt ella. Ákvæði um eignaréttarvernd í 67. gr. stjórnarskrárinnar eigi hér ekki við. Af þessum sömu ástæðum hefur eignarnemi og haldið því fram, að vegna ákvæða í lögum og stjórnvaldsreglum um framkvæmd bótauppgjörs skuli fresta uppkvaðningu úrskurðar matsnefndarinnar þar til tímamörk í lögunum og stjórnvaldsreglum séu liðin.

Af hálfu eignarnámsþola er því hinsvegar haldið fram, að hvað sem líði ákvæðum VI. kafla l. nr. 23/1956 þá sé um að ræða eignarnám og skuli fullt verð koma fyrir. Með fullu verði sé átt við að meta skuli féð sem niður er skorið án tillits til sýkingar eða sýkingarhættu. Af hálfu eignarnámsþola er því á því byggt, að matsnefnd eignarnámsbóta skuli líta framhjá réttarreglum, þ.m.t. reglum í settum lögum, sem nefndin telur fara í bága við ákvæði 67. gr. stjórnar-skrárinnar.

Matsnefndin lítur svo á, að ákvæði 42. gr. l. nr. 23/1956 beri að skilja þannig, að fjáreigandi, sem

þola verður heildarniðurskurð sauðfjár síns, eigi tveggja kosta völ. Annars vegar geti hann gert samning við ríkissjóð um bætur á grundvelli efnisreglna VI. kafla laga nr. 23/1956 og stjórnvaldsreglna, sem settar hafa verið með heimild í þeim lögum, en hins vegar geti hann krafist eignarnámsmats samkvæmt lögum um eignarnám. Sé síðari leiðin valin beri matsnefnd að leggja til grundvallar reglur stjórnskipunarlaga um fullar bætur eins og þær hafa verið túlkaðar í löggjöf og lagaframkvæmd. Þessi túlkun matsnefndar-innar styðst bæði við orðalag 42. gr. l. nr. 23/1956 og við samanburð á ákvæðinu eins og það var í 41. gr. l. nr. 44/1947. Niðurstaða þessi er og í samræmi við túlkun umboðs-manns Alþingis í áliti frá 8. júní 1989 (mál nr. 36/1988).

Af framangreindri túlkun leiðir, að matsnefndin telur sig með engum hætti bundna af ákvæðum í 37. gr. til 40. gr. l. nr. 23/1956 og reglugerð nr. 556/1982 hvorki að því er varðar fjárhæð bóta né heldur hvenær þær komi til greiðslu. Matsnefndin telur og rétt að taka fram, að í þessari afstöðu felst, að hún líti svo á, að sá sem velur þá leið að krefjast mats skv. lögum um eignarnám afsali sér þar með rétti til þeirra lögákveðnu bóta vegna niðurskurðarins sem ákvarðaðar eru í lögum og reglugerð þannig, að meti matsnefnd

tjón hans lægra en greindar reglur gera ráð fyrir, þá ræður matið.

Af hálfu eignarnámsþola hefur því verið haldið fram, að lokaákvæði 42. gr. um skyldu matsnefndar til að taka til greina sýkingu fjár á svæðinu eða yfirvofandi sýkingarhættu, væri andstætt ákvæði 67. gr. stjórnar-skrár og því beri að líta framhjá ákvæðinu við ákvörðun "fulls verðs" eða "fullra bóta" til handa eignarnámsþola. Matsnefndin fellst ekki á þetta sjónarmið. Hún telur að í ákvæði þessu felist aðeins lögfesting á reglu, sem hafa beri hliðsjón af við ákvörðun bóta. Sýking á stöku kind í sauðfjárhjörð sem skorin er niður eða yfirvofandi sýkingarhætta geti
haft áhrif á verðmæti fjárins á því tímamarki, sem niðurskurður er ákveðinn af stjórnvöldum og framkvæmd-ur.

Matsnefndin telur skv. framansögðu að það sé hlutverk hennar að meta eignarnámsþolum bætur fyrir það tjón sem þeir verða fyrir við að fjárstofn þeirra er felldur og þeim gert skylt að búa við sauðleysi í tvö ár, þ.e. frá hausti 1986 til hausts 1988. Haustið 1986 höfðu eignarnámsþolar eðlilegar tekjur af slátrun haustlamba. Þeir höfðu hins vegar engar tekjur af
sauðfénu haustin 1987 og 1988, en á því hausti hefði

mátt gera ráð fyrir að þeir keyptu nýjan fjár-stofn.
Haustið 1987 hefðu eignarnámsþolar átt að hafa tekjur sem nema frálagsverði sláturlamba og þarf að meta
afurðatjónið að teknu tilliti til sparaðs kostnaðar. Sama gildir um tekjur af sauðfé haustið 1988. Að auki þarf að meta hvort eignar-námsþolar beri einhvern þann kostnað sem er sennileg afleiðing af eignarnáminu og eignarnema beri því að bæta. Þá ber óhjákvæmilega að meta til frádráttar bótum allan beinan sparnað eignarnámsþola sem rakinn verður til þess, að ekkert sauðfé er á bænum og því til viðbótar þarf að meta hvort það vinnuafl, sem sauðfjárræktin hefði krafist, nýtist ekki annars-staðar og komi til lækkunar á bótum.

Þegar tjón eignarnámsþola hefur verið metið skv. framansögðu telur matsnefndin sér bera að meta til
verðgildis á matsdegi þær bótafjárhæðir, sem eignar-nemi hefur þegar innt af hendi til eignarnámsþola og draga þá fjárhæð frá hinum metnu bótum.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir niðurstöðum matsnefndar eignarnámsbóta um tjón eignarnámsþola og þykir rétt að leggja til grundvallar kröfugerð eignarnámsþola eins og hún er sundurliðuð hér að
framan á bls. 5.

Um 1. Bætur fyrir 320 ær.
Eins og áður er fram komið, var það staðfest árið 1983, að fé af Grásíðu væri sýkt af riðu og var nokkrum ám slátrað vegna þess á tímabilinu fram til niðurskurðar haustið 1986. Matsnefndin telur, að óhjákvæmilegt sé að taka tillit til þess við mat á bótum til eignar-námsþola úr hendi eignarnema vegna niðurskurðarins haustið 1986, að ekki var um heilbrigt fé að ræða. Að vísu eru ekki fyrir hendi upplýsingar um það, hversu víðtæk sýkingin var, en matsnefndin telur að verðgildi sauðfjárins lækki verulega við það eitt að riðusýking finnst í fénu. Matsnefndin telur, að verðmæti fjárins á fæti sé verulega minna en frálagsverðmæti fjárins vegna sýkingarinnar. Nefndin telur að aðrir sauðfjárbændur myndu sniðganga sýkt fé við kaup á sauðfé og þá mun sýkingin lækka verð á kjöti, enda þótt ósannað sé, að kjöt af sýktu fé sé hættu-legt heilsu manna. Mats-nefndin hefur og litið til annarra mats-sjónar-miða en markaðsverðs, einkum hugsanlegs endurkaupsverðs og afnotaverðmætis fjárins í hendi eignarnámsþola. Matsnefndin telur, að ekki komi til álita að miða endurkaupsverð við heilbrigðan fjárstofn, heldur fjárstofn sem sé sambærilegur fjárstofni þeim sem skorinn hefur verið niður. Sú athugun leiðir óhjá-kvæmilega til sömu niðurstöðu og að framan greinir um markaðsverðmæti sauðfjárins, það

er að endurkaups-verðmæti nýrrar fjárhjarðar, sem svipað er ástatt um og þá hjörð sem niður hefur verið skorin, sé lægra en frálagsverðmæti fjárins. Þá kemur til álita, að líta á verðmæti fjárins í hendi eignar-námsþola með það sjónarmið í huga, að það muni duga þeim til sauðfjár-ræktar um langa hríð, enda þótt sauð-féð sé sýkt. Mats-nefndinni er kunnugt, að sýking getur leynst nokkuð lengi í harðgerum fjárstofnum. Mats-nefndin telur verulegar líkur á að sýking leiði til vanhalda, sem muni aukast og að lokum gera fjár-stofninn arðminni. Enda þótt mats-nefndin treysti sér ekki til að segja til um á hversu löngum tíma slíkt gerist, þá telur hún nægjan-lega sýnt fram á slíka þróun. Þetta telur mats-nefndin leiða til þess, að verð-mæti fjár-stofnsins í hendi eignarnámsþola sé stór-lega skert og fari síminnkandi og metur því verðmæti hans með þetta sjónarmið í huga lægra en frálagsverð-mæti fjárins.

Öllum sauðfjárstofninum að Grásíðu var slátrað haustið 1986 í sláturhúsi og fengu eignarnámsþolar fullt frálagsverð fyrir féð. Með hliðsjón af ástandi hins sýkta fjárstofns telur matsnefndin, að fjárstofninn sem niður var skorinn hafi verið að fullu greiddur með niðurlagsverði hans haustið 1986.

Matsnefndin fellst hins vegar á, að eignarnemi eigi að bæta eignarnámsþolum kostnað við að flytja fé af heilbrigðu svæði til Grásíðu og telur þann kostnað hæfilega metinn sem kostnað við þrjár ferðir með vörubíl og nemi kostnaður við hverja ferð kr. 15.000.-og heildarflutningskostnaður kr. 45.000.-.

Um 2-3. Afurðatjón.

Matsnefndin hefur kynnt sér skattskýrslur eignar-námsþola ásamt við-eigandi landbúnaðarskýrslum. Hefur matsnefndin á grundvelli þessara gagna, sem hún telur trúverðug, reiknað út meðaltekjur Grásíðubúsins af sauðfjárrækt-inni og jafnframt hefur nefndin reiknað út breytilegan kostnað sömu ára af sauðfjárræktinni. -Þau ár sem um er að ræða eru 1983, 1984 og 1985. Tekjur hefur nefndin síðan uppreiknað til verðlags í janúar 1991 og tekið mið af breytingum á grund-vallarverði kindakjöts í hæsta verðflokki við þann útreik-ning. Við framreikning kostnaðar hefur verið tekið mið af lánskjaravísitölu.

Meðaltekjur áranna 1983 - 1985 eru reiknaðar með eftir-farandi hætti:

               Framreikni-      Framreikn.-
Ár      Tekjur   stuðull      tekjur:

1983    921.944   414,69/100,95    3.787.231
1984   1.000.583   414,69/119,21    3.480.679
1985   1.537.807   414,69/163,86    3.891.817
                        11.159.727
                  Meðaltal    3.719.909

Breytilegur kostnaður áranna 1983 - 1985 er fundinn með eftirfarandi hætti:

                1983    1984    1985
Fóðurvörur       72.820    74.306    70.418
Sáðvörur      111.331   168.021   172.396
Búvélakostn.       57.883    72.391    59.920
Rekstrarv.       49.917    22.068    4.647
Aðkeypt þjón.    57.411    67.489   124.016
Ýmis gjöld       25.924    15.084    30.846
               375.286   419.359   462.243
             x2969/669 x2969/903 x2969/1178
             1.665.507 1.378.823 1.165.025

         Meðaltal   1.403.118

Niðurstöður af framangreindum útreikningum eru eftirfarandi, á verðlagi í janúar 1991:

      Meðaltekjur á ári         kr. 3.719.909.-      Breytilegur kostnaður að
      meðaltali á ári         kr. 1.403.118.-                  Mismunur   kr. 2.316.791.-
Framangreind niðurstaða er sú fjárhæð, sem eignar-námsþolar hafa til ráðstöfunar á ári til greiðslu launa, afskrifta og hagnaðar og jafngildir tjóni þeirra.

Matsnefndin fellst á það með eignarnema, að eignar--námsþolum hafi verið ljóst, eða að minnsta kosti mátt vera ljóst, að bann við sauðfjárrækt var ekki ætlað að standa lengur en í tvö ár frá haustinu 1986 til haustsins 1988, en þá hafi eignarnámsþolum verið heimilt að hefja sauðfjárrækt að nýju, að uppfylltum skilyrðum um sótthreinsun og aðrar slíkar ráðstafanir.
Eignarnámsþolar hafa dregið slíka hreinsun og eru afleiðingar af þeim drætti eignarnema óviðkomandi og alfarið á áhættu eignarnámsþolanna. Því beri aðeins að meta tjón eignarnámsþola miðað við algjört fjár-leysi í tvö ár.

Matsnefndin telur hins vegar, að tjón eignarnámsþola sé ekki að fullu bætt, fyrr en tekið hefur verið tillit til þess, að tekjur af nýbyrjaðri sauðfjárrækt eftir fjárleysi, sem byrjuð er að nýju, skili sér ekki með eðli-legum hætti fyrr en á öðru ári og tekjur á fyrsta ári sauðfjár-ræktarinnar því mjög skertar. Sá tekjumissir sé afleiðing af niðurskurðinum.

Matsnefndin fellst ekki á það sjónarmið eignar-námsþola, að tjón hans beri að meta með hliðsjón af þeirri reglu hans að hleypa ekki til ánna á fyrsta ári þeirra. Sú aðferð er almennt ekki viðhöfð og telur matsnefndin hana ekki tryggja betri árangur. Mats-nefndin fellst hins vegar á, að tekjur á fyrsta ári eftir sauðleysi þar sem stofnað er til fjárbúskapar að nýju með kaupum á líflömbum að hausti, verði verulega minni en ella. Stafar þetta m.a. af því, að afföll verða meiri en venjulega og frjósemi minni. Telur mats-nefndin hæfilegt að áætla að brúttó tekjur að frádregnum breytilegum kostnaði verði aðeins helmingur af því, sem ella hefði mátt búast við og metur tjónið samkvæmt því kr. 1.859.955.-.

Samkvæmt framansögðu telur matsnefndin tjón eignar--námsþolanna vegna hins algjöra banns við sauðfjárrækt í tvö ár hæfilega metið þannig:

   Bætur vegna sauðfjár-banns í tvö ár    kr. 4.633.582.
   Bætur vegna skertra tekna á fyrsta
   ári eftir að sauðfjárrækt hefst
   að nýju               kr. 1.859.955.-               Samtals   kr. 6.493.537.

Um 4-5. Afurðartjón á öðru ári eftir fjárleysi og                       síðar.

Af hálfu eignarnámsþola er því haldið fram að tekjur á öðru ári eftir fjárleysi verði 30% minni en við eðlilegar aðstæður og síðan verði verðmæti afurða 5% lægra á ári næstu 25 árin þar á eftir.

Matsnefndin fellst með engu móti á, að sýnt hafi verið fram á af hálfu eignarnámsþola að víst sé eða líklegt að arðsemi fjárstofnsins verði svo miklu minni en áður var og gert er ráð fyrir samkvæmt þessum kröfu-lið. Matsnefndin telur að við eðlilegar aðstæður megi hafa eðlilegar tekjur af sauðfjárstofninum á öðru ári eftir fjárleysi og eignarnámsþolar eigi þess kost, að afla sér arðsams og frjósams fjárstofns við kaup líflamba, sem sé sambærilegur þeim stofni sem niður hefur verið skorinn. Að vísu leiðir breytt
aldurssamsetning stofnsins til lítið eitt minni

afurðarsemi fyrst í stað, en sá mismunur jafnast upp síðar að mati nefndarinnar. Matsnefnd metur því
eignar-námsþolum ekki bætur samkvæmt þessum kröfu-liðum.

Um 6. Ýmis kostnaður.

      Um a).   Brenndar heybirgðir. Svo sem þegar er fram komið var eignarnámsþolum tilkynnt um fyrirhugaðan niðurskurð vorið 1986. Hafi þeir stofnað til sérstaks kostnaðar við heyöflun sumarið 1986 eða síðar, þá fellst matsnefndin ekki á að rétt sé að meta þann kostnað sem tjón eignar-námsþolanna. Eignarnámsþolar áttu þess kost að spara slíkan kostnað.

      Um b).   Grafinn húsdýraáburður. Matsnefndin fellst ekki á, að tað í fjárhúsum nýtist eignar-námsþolum ekki vegna niður-skurðar-ins. Heimilt er að plægja taðið niður og nýta það með þeim hætti hvort sem er í endur-unnin tún eða nýrækt.

      Um c).   Brennt timbur o.fl. Eignarnámsþolar halda því fram, að timbur úr görðum, gólfgrindum og göngum hafi farið eða muni
            fara forgörðum við sótthreinsun. Beri því eignar-nema að bæta þeim kostnað vegna nýs timburs og vinnulaun við endursmíði. Matsnefndin fellst ekki á, að þeir hlutar fjárhús-anna, sem endurnýja þarf að áliti eignar-námsþola, hafi farið forgörðum vegna niður-skurðarins og endur-nýjunar-þörfin séf afleiðing hans. Þess vegna fellst mats-nefndin ekki á að meta eignar-námsþolum bætur undir þessum lið.

      Um d).   Endurvinnsla á túnum. Matsnefndin telur, að hvíld túna í tvö sumur spilli ekki túni. Hún fellst ekki á að eignar-námsþolar þurfi að leggja í sérstakan kostnað vegna þess að tún séu ekki notuð
            tvö sumur í röð og fellst því ekki á þennan kröfulið eignarnáms-þola.

      Um e).   Sótthreinsun og þvottur. Eignarnámsþolar áætla kostnað við vinnu við sótthreinsun og þvott á fjárhúsum hæfilega metinn á kr. 28.000.-. Matsnefndin telur að

            bændunum beri að vinna sjálfir að hreins-un og nýta til þess þann tíma, sem ella hefði farið til sauðf-já-rræktarinn-ar.

      Um f).   Um málningu og fúavörn. Eignarnámsþolar áætla að vinna við málningu og fúavörn fjárhúsa nemi kr. 40.000.- og efnis--
            kostnaður málning-ar og fúavarnar nemi kr. 40-.000.- og kröfur sam-kvæmt þessum lið nemi því samtals kr. 80.000.-. Mats-nefndin fellst á áætlun eignar-námsþola um efnis-kostnað og leggur hana til grund-vallar mati sínu. Um vinnuliðinn gildir hins vegar það sama og sagt er hér að framan undir e, um að bóndanum beri að nota þann tíma sem sparast frá sauðfjár-ræktinni til að draga úr tjóni sínu, en hann getur auðveldlega sjálfur annast þessa vinnu. Nefndin metur því tjón skv. þessum lið kr. 40.000.-

      Um g).   Jarðvegsskipti og uppgræðsla. Eignar-námsþolar áætla kostnað við framangreint kr. 28.275.- vegna aðkeyptrar vélavinnu en kr. 28.000.- vegna annarrar vinnu. Við niðurskurðinn á sauðfénu verður tími

            bóndans laus til annarra starfa en
            hirðingu sauðfjárins eins og áður segir.             Tjón-þolum ber að draga sem mest úr tjóni             sínu og í þessu tilviki meðal annars með             því að nota þann tíma sem frá sauðfjár-ræktinni sparast til að vinna að öðrum þáttum við búið, sem bændur eru fullfærir um. Því fellst matsnefndin aðeins á að meta beri bætur vegna aðkeyptrar véla-vinnu og fellst nefndin á áætlun eignar-námsþola og telur bætur skv. þessum lið hæfi-lega metnar kr. 28.275.-

Um 7.   Endurbygging fjárhúss.

Eignarnámsþolar gera kröfu um að eignarnemi bæti þeim 60% kostnaðar við að byggja 100 kinda nýtt fjárhús í stað fjárhúss frá 1952. Telja eignarnámsþolar að hreinsun fjárhússins leiði til gjöreyðileggingar þess. Matsnefndin fellst ekki á sjónarmið eignarnámsþola samkvæmt þessum kröfulið. Greint fjárhús er næstum 40 ára gamalt og þarfnast því mikillar endurnýjunar og viðhalds. Slík stórfelld endurnýjun er ekki
afleiðing af niðurskurði sauðfjárins eða óhjákvæmi-legri hreinsun fjárhúsanna. Matsnefndin hafnar því með öllu þessum kröfulið.


Eignarnámsþolar hafa ekki gert kröfu um bætur vegna kostnaðar við kaup á sótthreinsunarefnum og virðast hafa sætt sig við að fá þau endurgjaldslaust hjá eignar-nema.

Samkvæmt framansögðu sundurliðast mat mats-nefndar-innar á tjóni eignarnámsþola sem hér segir:

a)   Bætur vegna sauðleysis í
      tvö ár                kr. 4.633.582.-b)   Flutningskostnaður líf-
      lamba               kr. 45.000.-c)   Bætur vegna tekjuskerðingar
      á fyrsta ári eftir sauðleysi   kr. 1.859.955.-d)   Kostnaður vegna málnin-gar og
      og fúavarnar            kr. 40.000.-e)   Kostnaður við aðkeypta
      vélavinnu vegna jarðvegsskipta
      og uppgræðslu            kr. 28.725.-                  Samtals   kr. 6.607.262.-
Frá framangreindri metinni tjónsfjárhæð ber að draga þær bætur, sem eignarnemi hefur þegar greitt eignar-námsþolum og sundurliðaðar eru á bls. 25-26 hér að framan. Bætur þessar voru greiddar á tímabilinu 26.11.1987 til 19.12.1988 og nema samtals kr.

2-.223.923.40. Matsnefndin hefur framreiknað greiðslur þessar miðað við vísitölu lánskjara frá greiðsludögum til janúar mánaðar 1991 og nemur verðmæti greiðslanna þannig reiknað á janúarverðlagi 1991 samtals kr. 3.700.376. Á fjárhæðir þessar hafa og verið reiknaðir 6% vextir á ári. Eignarnemi lagði 20% af bótum greiddum 8. desember 1988 að fjárhæð kr. 1.190.592.-inn á sérstakan bankareikning í nafni eignarnámsþola vegna þess að ekki var lokið sótthreinsun að Grásíðu. Matsnefndin telur að, að lögmæt séu þau skilyrði sem sett voru fyrir afhendingu greiðslu þessarar og tekur því fullt tillit til hennar við frádrátt frá metnu tjóni, enda verður eignarnámsþolum afhent bankabók sú, sem fjárhæðin var lögð inn á, að lokinni hreinsun. Greind innistæða ber að sjálfsögðu vexti í þágu eignarnámsþola.

Þá ber og að líta til þess við mat á tjóni eignar-námsþola, að þeir hafa óhjákvæmilega haft lausan tíma til að sinna öðrum verkefnum í þau tvö ár, sem sauðleysið varði. Annar eignarnámsþolanna, Þorgeir Einar Þórarinsson, nýtur lögboðins elli-lífeyris og telur nefndin ekki unnt að gera þá kröfu til hans, að hann hefjist handa um að draga úr fjártjóni sínu vegna niðurskurðarins með því að leita eftir launuðu starfi eða gera aðrar sambærilegar ráðstafanir. Hinn eignar-

námsþolinn, Friðgeir Þorgeirsson, hefur hins vegar svo sem honum var rétt og skylt, gripið til þess að vinna launavinnu í auknum mæli eftir niðurskurð og þannig takmarkað tjónið af niðurskurðinum.

Tekjur Friðgeirs af launavinnu fyrir niðurskurð voru sem hér segir:
         Árið 1983         kr.   16.805.-
         Árið 1984         kr.   75.775.-
         Árið 1985         kr.   92.647.-
         Árið 1986         kr. 270.397.-

Tekjur hans eftir niðurskurð voru sem hér segir:
         Árið 1987         kr.   853.417.-
         Árið 1988         kr. 1.163.413.-
         Árið 1989         kr. 1.242.578.-

Matsnefndin telur augljóst af framangreindu að sauðleysið á Grásíðu frá hausti 1986 til haustsins 1988 gerði eignar-námsþolanum kleift að auka tekjur af launavinnu, og hefur hann með því uppfyllt þá skyldu sína að draga sem mest úr tjóninu af völdum niður-skurðarins. Matsnefndin telur rétt og skylt að taka tillit til þessarar auknu tekna við mat á tjóni eignarnámsþola. Ekki telur matsnefndin hins vegar rétt að leggja til grundvallar lækkun bótafjárhæðar-

innar alla þá aukningu á launatekjum sem skattframtöl eignarnámsþolans Friðgeirs bera með sér, enda líklegt, að hann hefði getað aukið launavinnu nokkuð þótt sauðleysið hefði ekki komið til. Hafa verður í huga að matsnefndin gerir ráð fyrir nokkurri vinnuskyldu eignarnámsþolans við hreinsun ofl. á tímabilinu. Telur matsnefndin því rétt að miða við það að helming-ur tekna Friðgeirs í tvö ár komi til frádráttar. Meðal-tekjur Friðgeirs á ári 1987-1989 námu kr. 1.086.469.- og framreiknað til verðlags í janúar 1991 nemur sú fjárhæð kr. 1.509.455.-. Þessa fjárhæð ber að draga frá þegar metnum bótum.

Samandregin niðurstaða.

Heildarniðurstöður matsnefndarinnar eru því sem hér segir:
      Metið tjón         kr. 6.607.262
      - verðmæti greiddra
      skaðabóta         kr. 3.700.376
      - frádráttur vegna
      launatekna          kr. 1.509.455                 Samtals kr. 1.397.441         

Samkvæmt framnarituðu telur matsnefndin eignar-námsbætur til handa eignarnámsþolum úr hendi eignar-

nema hæfilega metna kr. 1.397.441.- sem greiðist í einu lagi. Fjárhæð bóta miðast við verðlag á mats-degi.

Eignarnemi greiði eignarnámsþolum í málskostnað kr. 260.000.- og hefur þá m. a. verið tekið tillit til þeirra hagsmuna sem í húfi eru og hæfilegs vinnu-framlags lögmanns eignarnámsþola. Ennfremur hefur verið tekið tillit til ferða-kostnaðar og virðis-aukaskatts.

Eignarnemi beri kostnað af starfi matsnefndar eignar-námsbóta, sem nemur að meðtöldum ferðakostnaði kr. 470.000.-.
   MATSORÐ

Eignarnemi, landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs greiði eignarnámsþolum, Þorgeiri Einari Þórarinssyni og Friðgeiri Þorgeirssyni, kr. 1.397.441.- í eignarnámsbætur og kr. 260.000.- í málskostnað.

Eignarnemi beri kostnað af starfi matsnefndar eignar-námsbóta kr. 470.000.-.




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum