Hoppa yfir valmynd
18. maí 1991 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurðir 18. maí 1991

MATSNEFND EIGNARSNÁMSBÓTA

   ÚRSKURÐUR

   uppkveðinn 18. maí 1991
   í eignarnámsmálinu nr. 3/1991:

   Landsvirkjun
   gegn
   Birgittu Halldórsdóttur,
   Halldóri Eyþórssyni
   og
   Sigurði Inga Guðmundssyni.

I.   Skipan matsnefndar.

Úrskurð þennan kveða upp Ragnar Aðalsteinsson hrl., formaður matsnefndar eignarnámsbóta, og matsmennirnir Stefán Tryggvason, bóndi, og Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur, en formaður hefur kvatt þá til meðferðar þessa máls samkvæmt 2. gr. 2. mgr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Aðilar.

Eignarnemi er Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, en eignarnámsþolar eru Birgitta H. Halldórsdóttir, kt. 200659- 7249, Halldór Eyþórsson, kt. 120324-3659, og Sigurður Ingi Guðmundsson.

Eignarnámsþolar eru öll til heimilis að Syrði-Löngumýri, Svínavatnshreppi, A-Húnavatnssýslu. Hin tvö fyrsttöldu eru feðgin og þinglýstir eigendur jarðarinnar Syðri Löngumýrar, en Sigurður Ingi er maki Birgittu og ábúandi á jörðinni.

III. Matsbeiðni.

Matsbeiðni lögmanns eignarnema er dags. 29. apríl 1991.

IV. Andlag eignarnáms og tilefni.

Tilefni eignarnáms er fyrirhuguð lögn hundrað 132 kV háspennulínu frá Blönduvirkjun að byggðalínu við vesturbakka Blöndu, en áætlað er að taka virkjunina í notkun í október 1991. Andlag eignarnáms er réttur fyrir eignarnema til að reisa átta turnmöstur í landi Syðri-Löngumýrar, leggja vegarslóða og halda honum við samhliða háspennulínunni og kvöð um bann við mannvirkjum á 60 metra breiðu svæði undir og til hliðar við línuna á 2,5 km löngu svæði og nær kvöðin því til 15 hektara lands í landi jarðarinnar.

V. Eignarnámsheimild.

Eignarnemi vísar til 18. gr. l. nr. 42/1983 um Landsvirkjun og bréfs iðnaðarráðuneytisins til Landsvirkjunar dags. 5. apríl 1991, en síðastgreindu bréfi vísar ráðuneytið til bréfs síns til Landsvirkjunar frá 28. mars 1984 um leyfi til Landsvirkjunar til að virkja Blöndu, en leyfið hafi náð bæði til virkjunarinnar og til byggingar flutningslína og aðveitustöðva. Ráðuneytið heimilar í bréfinu frá 5. apríl 1991 Landsvirkjun að taka eignarnámi landsréttindi í landi Syrði-Löngumýrar og er vísað til 55. gr. vatnalaga nr. 15/1923 um heimild til eignarnáms.

Af hálfu eignarnámsþola er heimild til eignarnáms ekki véfengd né heldur að rétt sé staðið að ákvörðun um að nota heimildina.

Matsnefnd eignarnámsbóta telur skilyrði fyrirtöku eignarnámsmálsins uppfyllt.

VI. Kröfur eignarnema.

Eignarnemi krefst þess að matsnefndin meti bætur til eignarnámsþola vegna eignarskerðinga þeirra sem leiði af lagningu háspennulínunnar og vegarslóða meðfram henni í landi Syðri-Löngumýrar. Að auki krefst eignarnemi þess að Landsvirkjun verði með heimild í 14. gr. l. nr. 11/1973 um eignarnám "fengin umráð þess lands sem eignarnámið tekur til" og framkvæmdir leyfðar.

VII.Kröfur eignarnámsþola.

Kröfur eignarnámsþola eru þær í þessum þætti málsins að synjað verði um framgang kröfu um umráð lands og leyfi til framkvæmda a.m.k. að svo stöddu.

VIII.Málsmeðferð.

Svo sem áður segir er matsbeiðni eignarnema dags. 29. apríl 1991. Matsnefnd tók málið fyrir í dag, en fyrr um daginn hafði hún ásamt eignanámsþolanum Sigurði Inga Guðmundssyni, lögmanni eignarnámsþolanna Sigurði Halldórssyni hdl., lögmanni eignarnema Hreini Loftssyni hdl. og starfsmanni Landsvirkjunar, Theódór Theódórssyni, gengið á vettvang og kynnt sér aðstæður og hlustað á sjónarmið aðila. Að vettvangsgöngu lokinni hélt matsnefndin fund með aðilum og talsmönnum þeirra og gaf þeim kost á að tjá sig um kröfur eignarnema um umráð lands og leyfi til framkvæmda. Að því loknu tók matsnefndin kröfuna um umráð lands og leyfi til framkvæmda til úrskurðar.

IX. Málsatvik

Í upphafi skal þess getið, að eignarnámsmál þetta á sér allnokkurn aðdraganda, en ráðherra veitti Landsvirkjun leyfi til að virkja Blöndu hinn 28. mars 1984, en áður hafði verið birt auglýsing dags. 4. ágúst 1982 um fyrirhugaða virkjun Blöndu. Hinn 30. apríl 1987 veitti ráðherra Landsvirkjun leyfi til að framkvæma eignarnám á vatnsréttindum, löndum, mannvirkjum og öðrum réttindum vegna virkjunarinnar.

Hinn 10. júlí 1990, 31. október 1990 og 7. nóvember 1990 átti Landsvirkjun fundi með fulltrúa eignarnámsþola um bætur vegna línulagnarinnar, en ekki náðist samkomulag.

Málið var lagt fyrir byggingarnefnd Svínavatnshrepps svo og hreppsnefnd samkvæmt fyrirmælum skipulagslaga, en vegna ágreinings lauk þeim þætti málsins ekki fyrr en með úrskurði umhverfisráðuneytisins 26. apríl 1991.

Hin fyrirhugaða háspennulína liggur frá stjórnstöð Blönduvirkjunar að byggðalínu við Blöndu. Þegar línan kemur í land Syðri-Löngumýrar liggur hún með framan til í Stóradalshálsi sem liggur því sem næst frá austri til vesturs sunnan Blöndu, en túnið að Syðri-Löngumýri er við rætur hálsins. Átta turnmöstur verða í landi Surði-Löngumýrar, öll uppi á hálsinum. Hálsinn, þar sem línustæðið liggur, er mismunandi grónir melar og er þar beitiland, sem matsnefndin telur að nýtist vel, einkum þegar líður á sumar. Turnmöstrin sem bera línuna munu öll sjást frá bænum að Syðri-Löngumýri. Girðingar skipta landi Höllustaða að austan og landi Ytri-Löngumýrar að vestan frá landi Syðri-Löngumýrar. Land jarðarinnar er hins vegar ógirt til suðurs og getur fé því rásað upp á Stórdalsháls.

Á Syðr-Löngumýri eru u.þ.b. 150 ær svo og hestar.

X. Sjónarmið eignarnema

Sjónarmið eignarnema í þessum þætti málsins eru einkum þau, að ekki verði dregið lengur að hefjast handa um að leggja vegarslóða meðfram línustæðinu og byggja undirstöður og reisa möstrin sem bera línuna. Virkjunin eigi að komast í gagnið í október n.k. og búið sé að gera verksaminga við verktaka um línulögnina. Landsvirkjun verði ekki kennt um drátt á málinu, heldur stafi hann af erfiðleikum við að ná samkomulagi um línustæði og bætur fyrir eignarskerðingar.

Af hálfu Landsvirkjunar er því lýst yfir, að hún muni gæta þess að taka eins mikið tillit og unnt er til búskaparaðstæðna hjá eignarnámsþolum, m.a. þess að sauðburður fari í hönd og standi næstu þrjár til fjórar vikurnar. Þá muni Landsvirkjun og gæta þess að loka öllum girðingum sem fara þarf í gegnum og sjá til þess að fé fari ekki um slík op, enda verði sett hlið þar sem nauðsynlegt er. Sama gildi um vegarslóða, hann verði svo gerður að sem minnstum spjöllum valdi fyrir eignarnámsþola.
XI. Sjónarmið eignarnámsþola.

Af hálfu eignarnámsþola er á það bent að framkvæmdir á þessum tíma árs séu mjög til þess fallnar að valda tjóni fyrir þá sem búa við sauðfé. Sauðburður fari í hönd og sauðfé sé allt í nánd við þá staði, sem fyrirhugaðar framkvæmdir verði á. Eignarnámsþolar geti ekki haft sauðfé né heldur hross sín annars staðar, enda séu landshættir slíkir. Framkvæmdirnar hafi áhrif bæði á ærnar og lömbin og ekki síður á hryssur og folöld. Búfé muni hnappast saman og af því sé augljós hætta bæði á undanvillingum og lakari þroska og þar með afurðum. Þá er og bent á dýraverndurnarsjónarmið í þessu sambandi.

Ekki fallast eignarnámsþolar á að þeir eigi sök á því að framkvæmdir hafi dregist fram á vorið.

XII. Álit matsnefndar.

Í 14. gr. l. um framkvæmd eignarnáms er kveðið á um að matsnefnd eignarnámsbóta geti heimilað eignarnema að taka umráð verðmætis sem taka á eignarnámi og ráðast í framkvæmdir, sem eru tilefni eignarnámsins, enda þótt mati sé ekki lokið. Eignarnemi styður kröfur sínar í þessum þætti málsins við þessa lagaheimild.

Matsnefnd hefur þegar gengið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Matsnefnd telur að framkvæmdir muni ekki með neinum hætti torvelda ákvörðun bótafjárhæðar síðar. Matsnefnd er hins vegar þeirrar skoðunar að sá tími sem nú fer í hönd sé viðkvæmur fyrir eignarnámsþola vegna sauðburðar, enda þótt matsnefndin telji að eignarnámsþolar geri heldur meira en ástæða er til úr þeirri hættu, sem sauðfé og hrossum stafi af framkvæmdunum. Leiði framkvæmdirnar til tjóns á búfé eignarnámsþola geti þeir gert sérstakar kröfur vegna þess. Með hliðsjón af því að eignarnemi hefur lýst því yfir að hann muni láta haga framkvæmdum þannig að sem mest tillit verði tekið til búskaparstarfa á jörðinni og að hann muni hafa samráð við eignarnámsþola um framkvæmdirnar og með því að óhjákvæmilegt er að áliti nefndarinnar að hefjast handa við framkvæmdir við línulögnina vegna tengingar hennar næsta haust telur matsnefnd rétt að heimila eignarnema umráð lands sem línan og vegarslóðinn liggja um samkvæmt framlögðum uppdrætti á skj. nr. 3 og ráðast í framkvæmdir samkvæmt matsbeiðni á skj. nr. 1. og greinargerð á skj. nr. 2.

Málinu verður síðan framhaldið til ákvörðunar bóta til handa eignarnámsþolum og þá verður tekin afstaða til kostnaðar af starfi matsnefndar og kostnaðar eignarnámsþola af málinu.

   
   ÚRSKURÐARORÐ.

Eignarnema, Landsvirkjun, eru heimiluð umráð lands að Syðri-Löngumýri, Svínavatnshreppi, vegna fyrirhugaðrar lagnar á 132 kV háspennulínu frá Blönduvirkjun að byggðalínu á vesturbakka Blöndu. Jafnframt er eignarnema heimilað að ráðast í þær framkvæmdir, sem lýst er í matsbeiðni á skj. nr. 1 og greinargerð á skj. nr. 2., sbr. uppdrátt á skjali nr. 3.

Ragnar Aðalsteinsson
Stefán Tryggvason
Ragnar Ingimarsson

MATSNEFND EIGNARSNÁMSBÓTA

   ÚRSKURÐUR

   uppkveðinn 18. maí 1991
   í eignarnámsmálinu nr. 4/1991:

   Landsvirkjun
   gegn
   Birni Pálssyni,
   og
   Birni Björnssyni.

I.   Skipan matsnefndar.

Úrskurð þennan kveða upp Ragnar Aðalsteinsson hrl., formaður matsnefndar eignarnámsbóta, og matsmennirnir Stefán Tryggvason, bóndi, og Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur, en formaður hefur kvatt þá til meðferðar þessa máls samkvæmt 2. gr. 2. mgr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Aðilar.

Eignarnemi er Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, en eignarnámsþolar eru Björn Pálsson, kt. 250205-4579 og Björn Björnsson.

Eignarnámsþolar eru báðir til heimilis að Ytri-Löngumýri, Svínavatnshreppi, A-Húnavatnssýslu. Þeir eru feðgar og er hinn fyrrnefndi þinglýstur eigandi jarðarinnar Ytri-Löngumýrar, en sá síðarnefndi er ábúandi á jörðinni.

III. Matsbeiðni.

Matsbeiðni lögmanns eignarnema er dags. 29. apríl 1991.

IV. Andlag eignarnáms og tilefni.

Tilefni eignarnáms er fyrirhuguð lögn hundrað 132 kV háspennulínu frá Blönduvirkjun að byggðalínu við vesturbakka Blöndu, en áætlað er að taka virkjunina í notkun í október 1991. Andlag eignarnáms er réttur fyrir eignarnema til að reisa tíu turnmöstur í landi Ytri-Löngumýrar, leggja 4,8 metra breiðan vegarslóða og halda honum við samhliða háspennulínunni og kvöð um bann við mannvirkjum á 60 metra breiðu svæði undir og til hliðar við línuna á 3 km löngu svæði og nær kvöðin því til 18 hektara lands í landi jarðarinnar.

V. Eignarnámsheimild.

Eignarnemi vísar til 18. gr. l. nr. 42/1983 um Landsvirkjun og bréfs iðnaðarráðuneytisins til Landsvirkjunar dags. 5. apríl 1991, en síðastgreindu bréfi vísar ráðuneytið til bréfs síns til Landsvirkjunar frá 28. mars 1984 um leyfi til Landsvirkjunar til að virkja Blöndu, en leyfið hafi náð bæði til virkjunarinnar og til byggingar flutningslína og aðveitustöðva. Ráðuneytið heimilar í bréfinu frá 5. apríl 1991 Landsvirkjun að taka eignarnámi landsréttindi í landi Ytri-Löngumýrar og er vísað til 55. gr. vatnalaga nr. 15/1923 um heimild til eignarnáms.
Af hálfu eignarnámsþola er heimild til eignarnáms ekki véfengd né heldur að rétt sé staðið að ákvörðun um að nota heimildina.

Matsnefnd eignarnámsbóta telur skilyrði fyrirtöku eignarnámsmálsins uppfyllt.

VI. Kröfur eignarnema.

Eignarnemi krefst þess að matsnefndin meti bætur til eignarnámsþola vegna eignarskerðinga þeirra sem leiði af lagningu háspennulínunnar og vegarslóða meðfram henni í landi Ytri-Löngumýrar. Að auki krefst eignarnemi þess að Landsvirkjun verði með heimild í 14. gr. l. nr. 11/1973 um eignarnám "fengin umráð þess lands sem eignarnámið tekur til" og framkvæmdir leyfðar.

VII.Kröfur eignarnámsþola.

Kröfur eignarnámsþolana Björns Björnssonar eru þær í þessum þætti málsins að synjað verði um framgang kröfu um umráð lands og leyfi til framkvæmda a.m.k. að svo stöddu. Jarðareigandinn Björn Pálsson fellst hins vegar á kröfu eignarnema um umráðtöku lands og leyfi til framkvæmda.

VIII.Málsmeðferð.

Svo sem áður segir er matsbeiðni eignarnema dags. 29. apríl 1991. Matsnefnd tók málið fyrir í dag, en fyrr um daginn hafði hún ásamt eignanámsþolanum Birni Björnssyni, lögmanni eignarnema Hreini Loftssyni hdl. og starfsmanni Landsvirkjunar, Theódór Theódórssyni, gengið á vettvang og kynnt sér aðstæður og hlustað á sjónarmið aðila. Að vettvangsgöngu lokinni hélt matsnefndin fund með aðilum og talsmönnum þeirra og gaf þeim kost á að tjá sig um kröfur eignarnema um umráð lands og leyfi til framkvæmda. Að því loknu tók matsnefndin kröfuna um umráð lands og leyfi til framkvæmda til úrskurðar.
IX. Málsatvik

Í upphafi skal þess getið, að eignarnámsmál þetta á sér allnokkurn aðdraganda, en ráðherra veitti Landsvirkjun leyfi til að virkja Blöndu hinn 28. mars 1984, en áður hafði verið birt auglýsing dags. 4. ágúst 1982 um fyrirhugaða virkjun Blöndu. Hinn 30. apríl 1987 veitti ráðherra Landsvirkjun leyfi til að framkvæma eignarnám á vatnsréttindum, löndum, mannvirkjum og öðrum réttindum vegna virkjunarinnar.

Hinn 10. júlí 1990, 31. október 1990 og 7. nóvember 1990 átti Landsvirkjun fundi með fulltrúa eignarnámsþola um bætur vegna línulagnarinnar, en ekki náðist samkomulag.

Málið var lagt fyrir byggingarnefnd Svínavatnshrepps svo og hreppsnefnd samkvæmt fyrirmælum skipulagslaga, en vegna ágreinings lauk þeim þætti málsins ekki fyrr en með úrskurði umhverfisráðuneytisins 26. apríl 1991.

Hin fyrirhugaða háspennulína liggur frá stjórnstöð Blönduvirkjunar að byggðalínu við Blöndu. Þegar línan kemur í land Ytri-Löngumýrar liggur hún til að byrja með framan til í Stóradalshálsi sem liggur því sem næst frá austri til vesturs sunnan Blöndu, en beygir síðan til norðvesturs niður hlíðar hálsins og síðan yfir beitiland vestan við túnið á Ytri-Löngumýri og þaðan að Blöndu þar sem hún tengist byggðalínunni. Tíu turnmöstur verða í landi Ytri-Löngumýrar og helmingur þeirra uppi á hálsinum. Hálsinn, þar sem línustæðið liggur, er mismunandi grónir melar og er þar beitiland, sem matsnefndin telur að nýtist vel, einkum þegar líður á sumar. Landið sem línan liggur síðan um til noðrvesturs telst einnig ágætis beitiland. Turnmöstrin sem bera línuna munu öll sjást frá bænum að Ytri-Löngumýri. Girðingar skipta landi milli Syðri-Löngumýrar og Ytri-Löngumýrar. Land jarðarinnar er hins vegar ógirt til suðurs og getur fé því rásað upp á Stórdalsháls.

Á Ytri-Löngumýri eru u.þ.b. 600 ær svo og hestar.

X. Sjónarmið eignarnema

Sjónarmið eignarnema í þessum þætti málsins eru einkum þau, að ekki verði dregið lengur að hefjast handa um að leggja vegarslóða meðfram línustæðinu og byggja undirstöður og reisa turnana sem bera línuna. Virkjunin eigi að komast í gagnið í október n.k. og búið sé að gera verksaminga við verktaka um línulögnina. Landsvirkjun verði ekki kennt um drátt á málinu, heldur stafi hann af erfiðleikum við að ná samkomulagi um línustæði og bætur fyrir eignarskerðingar.

Af hálfu Landsvirkjunar er því lýst yfir, að hún muni gæta þess að taka eins mikið tillit og unnt er til búskaparaðstæðna hjá eignarnámsþolum, m.a. þess að sauðburður fari í hönd og standi næstu þrjár til fjórar vikurnar. Þá muni Landsvirkjun og gæta þess að loka öllum girðingum sem fara þarf í gegnum og sjá til þess að fé fari ekki um slík op, enda verði sett hlið þar sem nauðsynlegt er. Sama gildi um vegarslóða, hann verði svo gerður að sem minnstum spjöllum valdi fyrir eignarnámsþola.
XI. Sjónarmið eignarnámsþola.

Af hálfu eignarnámsþolans Björns Björnssonar er á það bent að framkvæmdir á þessum tíma árs séu mjög til þess fallnar að valda tjóni fyrir þá sem búa við sauðfé. Sauðburður fari í hönd og sauðfé sé allt í nánd við þá staði, sem fyrirhugaðar framkvæmdir verði á. Eignarnámsþolar geti ekki haft sauðfé né heldur hross sín annars staðar, enda séu landshættir slíkir. Framkvæmdirnar hafi áhrif bæði á ærnar og lömbin og ekki síður á hryssur og folöld. Búfé muni hnappast saman og af því sé augljós hætta bæði á undanvillingum og lakari þroska og þar með afurðum. Þá er og bent á dýraverndurnarsjónarmið í þessu sambandi.

Ekki fallast eignarnámsþolar á að þeir eigi sök á því að framkvæmdir hafi dregist fram á vorið.

XII. Álit matsnefndar.

Í 14. gr. l. um framkvæmd eignarnáms er kveðið á um að matsnefnd eignarnámsbóta geti heimilað eignarnema að taka umráð verðmætis sem taka á eignarnámi og ráðast í framkvæmdir, sem eru tilefni eignarnámsins, enda þótt mati sé ekki lokið. Eignarnemi styður kröfur sínar í þessum þætti málsins við þessa lagaheimild.

Matsnefnd hefur þegar gengið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Matsnefnd telur að framkvæmdir muni ekki með neinum hætti torvelda ákvörðun bótafjárhæðar síðar. Matsnefnd er hins vegar þeirrar skoðunar að sá tími sem nú fer í hönd sé viðkvæmur fyrir eignarnámsþola vegna sauðburðar, enda þótt matsnefndin telji að eignarnámsþolar geri heldur meira en ástæða er til úr þeirri hættu, sem sauðfé og hrossum stafi af framkvæmdunum. Leiði framkvæmdirnar til tjóns á búfé eignarnámsþola geti þeir gert sérstakar kröfur vegna þess. Með hliðsjón af því að eignarnemi hefur lýst því yfir að hann muni láta haga framkvæmdum þannig að sem mest tillit verði tekið til búskaparstarfa á jörðinni og að hann muni hafa samráð við eignarnámsþola um framkvæmdirnar og með því að óhjákvæmilegt er að áliti nefndarinnar að hefjast handa við framkvæmdir við línulögnina vegna tengingar hennar næsta haust telur matsnefnd rétt að heimila eignarnema umráð lands sem línan og vegarslóðinn liggja um samkvæmt framlögðum uppdrætti á skj. nr. 3 og ráðast í framkvæmdir samkvæmt matsbeiðni á skj. nr. 1. og greinargerð á skj. nr. 2.

Málinu verður síðan framhaldið til ákvörðunar bóta til handa eignarnámsþolum og þá verður tekin afstaða til kostnaðar af starfi matsnefndar og kostnaðar eignarnámsþola af málinu.

   
   ÚRSKURÐARORÐ.

Eignarnema, Landsvirkjun, eru heimiluð umráð lands að Ytri-Löngumýri, Svínavatnshreppi, vegna fyrirhugaðrar lagnar á 132 kV háspennulínu frá Blönduvirkjun að byggðalínu á vesturbakka Blöndu. Jafnframt er eignarnema heimilað að ráðast í þær framkvæmdir, sem lýst er í matsbeiðni á skj. nr. 1 og greinargerð á skj. nr. 2., sbr. uppdrátt á skjali nr. 3.

Ragnar Aðalsteinsson
Stefán Tryggvason
Ragnar Ingimarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum