Hoppa yfir valmynd
29. desember 1997 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 29. desember 1997

Mánudaginn 29. desember 1997 var í Matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 10/1997:

Landsvirkjun

gegn

Eig. Króks, Grafningshreppi

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Ágreiningsefni:

Með matsbeiðni dags. 5. desember 1997, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 15. desember 1997, fór eignarnemi, Landsvirkjun, þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta að hún mæti eignarnámsþolum, eigendum Króks, Grímsneshreppi, hæfilegar bætur vegna eignarnáms sem gert var á hluta jarðarinnar vegna lagningar Búrfellslínu 3A, 220 kV háspennulínu um jörðina. Eignarnámið nær til lagningar 1.500 m. vegslóða um jörðina auk þess að reisa 4 möstur sem koma til með að bera framangreinda háspennulínu, sem verður um 1.350 m. að lengd í landi jarðarinnar. Þá leggst sú kvöð á næsta nágrenni línunnar, að ekki má byggja önnur mannvirki á 54 m. breiðri landræmu undir og meðfram henni.

Í matsbeiðni var auk þess krafist að eignarnema yrði, á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, fengin umráð þeirra réttinda sem eignarnámið tekur til, þó mati sé ekki lokið, þar sem brýnt sé að framkvæmdir við lagningu línunnar geti hafist sem fyrst.

Við fyrstu fyrirtöku málsins hjá matsnefndinni þann 15. desember 1997 mótmælti fulltrúi eignarnámsþola því að eignarnemi fengi umráð hins eignarnumda landsvæðis. Af hálfu matsnefndar var aðilum málsins gefinn kostur á að skila inn skriflegum greinargerðum vegna þessa og liggja þær nú fyrir.

III. Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi krefst umráða yfir hinu eignarnumda landsvæði með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973, þar sem brýnt þykir að framkvæmdir við lagningu háspennulínunnar geti hafist sem fyrst. Eignarnema þykir mikilvægt að geta nýtt vetrarmánuðina til, framkvæmda við undirstöður mastra, lagningar línuvega og annars undirbúnings fyrir sjálfa uppsetningu línunnar, sérstaklega m.t.t. þess hversu snjólétt er um þessar mundir á svæðinu. Eignarnemi bendir á að matsnefndin hafi þann 22. desember sl. kveðið upp 13 úrskurði vegna kröfu um umráðatöku í sambærilegum málum vegna sömu háspennulínu, og í þeim málum hafi niðurstaðan verið sú að umráðatakan var heimiluð. Eignarnemi telur sömu sjónarmið eiga við í þessu máli og fram koma í þeim málum.

IV. Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að synjað verði kröfu eignarnema um umráðatökuna að svo stöddu. Eignarnámsþolar telja vafasamt að eignarnámsheimild sú er eignarnemi hafi undir höndum myndi standast af málið yrði lagt fyrir dómstóla.

Eignarnámsþolar telja að þó sú regla gildi almennt að eignarnemi fái umráðaheimild eftir að matsbeiðni er komin fram séu rök fyrir að bíða með heimildina í þessu tilviki. Eignarnámsþolar halda því fram að eignarnemi hafi sagst ætla að reisa 400 kV línu á svæðinu, en slík lína sé háð umhverfismati skv. lögum nr. 63/1993 og óheimilt sé að veita leyfi til framkvæmda nema ákvæðum laganna hafi verið gætt. Eignarámsþolar benda á að stutt sé í að niðurstöður varðandi umhverfismatið liggi fyrir og ákvörðun um hvort leyfi til framkvæmdanna verði veitt. Eignarnámsþolar segja eignarnema hafa dustað rykið af 6 ára gamalli skipulagstillögu fyrir 220 kV línu og sé að nota hana núna til að fá framkvæmdaleyfi, en teflir fram nýjun turnateikningum, sem væntanlega henti 400 kV línu.

Eignarnámsþolar telja ný sjónarmið í umhverfismálum geti leitt til þess að lagning línunnar verði ekki leyfð með þeim hætti sem Landsvirkjun ætlast til og þá væru framkvæmdir til lítils auk þess sem þær myndu valda óþarfa landspjöllum.

V. Álit matsnefndar:

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér landsvæði það sem hin fyrirhugaða háspennulína mun liggja um. Fullnægjandi lagaheimild er til eignarnámsins að mati nefndarinnar. Ekkert annað er fram komið í máli þessu en að fyrirhugað sé að leggja 220 kV línu á svæðinu, enda er miðað við þess konar línu í öllum gögnum málsins. Af þessum sökum þykja hugleiðingar um mögulega stækkun línunnar í 400 kV og áhrif þess á matið ekki tímabærar á þessu stigi málsins.

Af hálfu matsnefndarinnar þykir sýnt að framkvæmdir eignarnema á svæðinu muni ekki með neinum hætti torvelda störf nefndarinnar síðar. Þá hefur eignarnámsþoli ekki sýnt fram á framkvæmdir eignarnema á svæðinu, þó mati sé ekki lokið, muni raska neinum þeim hagsmunum hans sem réttlæta það að eignarnema sé gert ókleyft að hefja framkvæmdir á svæðinu.

Með vísan til ofanritaðs er eignarnema heimiluð umráðataka hins eingnarnumda landsvæðis og að hefja framkvæmdir á svæðinu með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Eignarnema, Landsvirkjun, er heimiluð umráð hins eignarnumda lands að Króki, Grafningshreppi, og að hefja framkvæmdir á svæðinu þó mati sé ekki lokið.

__________________________________

Helgi Jóhannesson, hrl., formaður

___________________________

_________________________________

Vífill Oddsson, verkfr.

Kristinn Gylfi Jónsson, vskfr. og bóndi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum