Hoppa yfir valmynd
30. apríl 1998 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 30. apríl 1998

Föstudaginn 30. apríl 1998 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 3/1998

Vegagerðin

gegn

Eigendum Miðfells, Þingvallahreppi

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu skipa þeir Helgi Jóhannesson, hrl, formaður, Dr. Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnáms:

Með matsbeiðni dags. 2. mars 1998, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 23. mars 1998, fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7 (eignarnemi) þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á 35.000 m³ af malarefni úr námu í Stekkjarhorni í landi Miðfells, Þingvallahreppi. Eignarnámið styðst við heimild í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994. Í matsbeiðni var þess jafnframt krafist að eignarnemi fengi umráð hins eignarnumda þó mati væri ekki lokið sbr. 14. gr. laga nr. 11/1973.

Eignarnámsþolar eru eigendur Miðfells, Þingvallahreppi, sem skv. matsbeiðni eru 42 aðilar. Þar sem ekki þótti fullvíst að vitað væri um alla eigendur var tilkynning um fyrstu fyrirtöku málsins hjá matsnefndinni birt í Lögbirtingablaðinu sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir mánudaginn 23. mars 1998. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni auk fylgiskjala. Þá lagði matsnefndin fram afrit boðunarbréfa og fleiri gögn vegna málsins. Fram kom að einn eignarnámsþola, Þórdís Ottesen, féllst ekki á kröfu eignarnema um umráðatöku skv. 14. gr. laga nr. 11/1973. Málinu var frestað til vettvangsgöngu til 1. apríl 1998.

Miðvikudaginn 1. apríl var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Matsnefnd gaf aðilum frest til 17. apríl 1998 til að skila greinargerðum vegna kröfu um umráðatöku, en næsta fyrirtaka málsins var ákveðin þann 27. apríl 1998.

Þriðjudaginn 21. apríl 1998 kvað matsnefndin upp úrskurð þar sem eignarnema var heimiluð umráðataka hins eignarnumda þó mati væri ólokið.

Mánudaginn 27. apríl 1998 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum. Eignarnámsþolinn Jón Ingileifsson lagði einnig fram greinargerð. Þá hafði nefndinni borist greinargerð eignarnámsþolanna Ásu Ottesen, Snjólaugs Þorkelssonar, Jakobínu Boeskov og Guðmundar Gunnarssonar. Aðrir eignarnámsþolar skiluðu ekki greinargerðum vegna verðmatsins. Var málið að framlagningu lokinni tekið til úrskurðar. Ekki þótti þörf á munnlegum flutningi málsins fyrir nefndinni.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi kveður aðdraganda eignarnámsins vera þann að eignarnemi hafi þann 14. október 1995 gert samning við fulltrúa landeigenda Miðfells um efnistöku úr Stekkjarholtsnámunni. Áður en samningur þessi var undirritaður hafði eignarnemi fengið álit Náttúruverndarráðs á efnistökunni, en ráðið féllst á hana með ákveðnum skilyrðum. Eignarnemi hóf efnistöku á grundvelli samningsins vorið 1996 og voru þá um sumarið teknir u.þ.b. 16.000 m³ af efni úr námunni.

Einn landeigenda, Þórdís Ottesen, lýsti andstöðu sinni við efnistökuna og taldi sig óbundna af samningi þeim sem gerður var við fulltrúa landeigenda. Vegna þessa freistaði Þórdís að stöðva efnistökuna með lögbanni og höfðaði mál til ógildingar á samningnum. Dómsmálinu var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur þann 16. febrúar sl.

Eignarnemi telur í ljósi þess að ágreiningur er milli landeigenda um gildi samningsins frá 14. október 1995, að nauðsynlegt sé fyrir hann að beita eignarnámsheimild sinni, til að hann fái óhindraðan aðgang og umráð yfir malarefninu.

Eignarnemi gerir þá kröfu að bætur fyrir hið eignarnumda malarefni verði að hámarki ákvarðaðar kr. 30,00 pr. m³, en það er sama verð og samið var um í samningi aðila frá 14. október 1995. Þá hafnar eignarnemi kröfum eignarnámsþola um bætur fyrir annað en andvirði malarinnar.

Eignarnemi telur malarefnið nýtilegt í hvers konar vegagerð. Eignarnemi telur námuna ekki vera á markaðssvæði fyrir möl þar sem hún sé staðsett fjarri þéttbýlissvæðum og því sé sala á efni úr henni ekki hagkvæm í neinum mæli. Þá liggi ekki fyrir að eftirspurn sé frá neinum nema eignarnema sjálfum eftir efni úr námunni. Eignarnemi bendir og á að vegna staðsetningar og umhverfis námunnar sé hún ekki til þess fallin að vera opin fyrir sölu á malarefni, þar sem öll mannvirkjagerð sé takmörkuð í næsta nágrenni hennar og öllu jarðraski verði að halda í lágmarki. Þá varð það að samkomulagi eignarnema, landeigenda og náttúruverndaryfirvalda að námunni yrði lokað eftir að efnistöku eignarnema lyki.

Eignarnemi vísar sérstaklega til orðsendingar sinnar um landbætur, greiðslur fyrir efnistöku o.fl. nr. 13/1997 sem lögð hefur verið fram í málinu. Samkvæmt henni er verð á malarefni utan markaðssvæða kr. 4,50 pr. m³ fyrir fyllingarefni, kr. 9,00 pr. m³ fyrir burðarlagsefni og kr. 18,00 pr. m³ fyrir efni í bundin slitlög. Eignarnemi kveður þessa verðskrá vera ákveðna miðað við að greiða bæri virðisaukaskatt af efninu, en samkvæmt úrskurði Yfirskattanefndar dags. 8. október 1997 í málinu nr. 771/1997, sem lagður hefur verið fram í málinu eru greiðslur til landeigenda fyrir möl almennt ekki virðisaukaskattsskyldar þegar ekki er um að ræða sölu í atvinnuskyni. Eignarnemi heldur því fram að algengt sé að greiða kr. 12.00 pr. m³ fyrir malarefni vegna vegagerðar úr námum á Suðurlandi og hefur eignarnemi m.a. lagt fram lista yfir verðlagningu úr ýmsum námum þessu til stuðnings. Eignarnemi telur því að umsamið verð, kr. 30,00 pr. m³ sé umtalsvert hærra en gengur og gerist sbr. það sem fram hefur komið og því geti bætur aldrei orðið hærri en það.

Eignarnemi telur að líta beri til þess við ákvörðun bóta að efnið í Miðfelli sé fast og stórvirkar vinnuvélar þurfi til að losa það úr námunni. Þá bendir eignarnemi á að samkvæmt samningi aðila frá 14. október 1995 taki hann að sér að ganga frá námunni að efnistökunni lokinni, en það hafi ótvíræðan sparnað í för með sér fyrir eignarnámsþola þar sem náman var ófrágengin frá fyrri tíð vorið 1996 er eignarnemi hóf efnistöku úr henni.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Svo sem fram hefur komið hafa matsnefndinni borist tvær greinargerðir frá eignarnámsþolum, annars vegar frá Jóni Ingileifssyni og hins vegar frá Ásu Ottesen, Snjólaugi Þorkelssyni, Jakobínu Boeskov og Guðmundi Gunnarssyni sameiginlega.

  1. Sjónarmið Jóns Ingileifssonar:

    Af hálfu eignarnámsþolans, Jóns Ingileifssonar, er þess krafist að lágmarksverð pr. m³ efnis úr námu eignarnámsþola sé metið á kr. 120,00 auk virðisaukaskatts. Í þessu sambandi bendir eignarnámsþolinn á að um sé að ræða áberandi efnistökustað úr fjalli sem sé náttúruperla á svæði mjög nærri þjóðgarði. Þá geti efnistakan haft neikvæð áhrif á sölu sumarbústaðalóða á svæðinu.

    Eignarnámsþolinn telur að forsendur fyrir verðinu sem um var samið við eignarnema í samningi frá 14. október 1995 séu brostnar þar sem efnistakan sé með öðrum og meira áberandi hætti en til hafi staðið.

    Eignarnámsþolinn heldur því fram að verð það sem fram kemur í orðsendingu eignarnema nr. 13/1997 gefi ekki rétta mynd af efnisverðmæti á svæðinu. Bendir hann í því sambandi m.a. á að algent verð fyrir sambærilegt efni til verktaka sé kr. 50,00 pr. m³. Þá heldur eignarnámsþolinn því fram að Rafmagnsveita Reykjavíkur hafi á sl. ári samið um kaup á möl á Nesjum á 25.000 m³ af möl á Nesjum á kr. 160,00 pr. m³ og kr. 100,00 pr. m³ fyrir efni umfram nefnda 25.000 m³. Eignarnemi telur ekki óeðlilegt að hafa þann samning til viðmiðunar við verðlagningu efnis úr Miðfellsnámunni.

  2. Sjónarmið Ásu Ottesen, Snjólaugs Þorkelssonar, Jakobínu Boeskov og Guðmundar Gunnarssonar:

Af hálfu ofangreindra eignarnámsþola er þess krafist að auk þess verðs sem um var samið milli aðila í samningnum frá 14. október 1995 skuli ákvarða bætur að fjárhæð kr. 1.000.000- vegna jarðrasks af hálfu eignarnema umfram það sem honum var heimilt. Þá er krafist hæfilegs málskostnaðar með vísan til 11. gr. laga nr. 11/1973.

Eignarnámsþolar halda því fram að forsenda þess verðs sem um var samið í samningi aðila hafi verið sú að eignarnemi myndi að öllu leyti fylgja þeirri framkvæmdatilhögun efnistökunnar sem Náttúruverndarráð lagði til. Eignarnámsþolar telja að svo hafi ekki verið gert og sé jarðrask á svæðinu því mun meira en til stóð og því verði ekki hægt að uppfylla eitt helsta skilyrðið sem lagt var til grundvallar efnistökunni, þ.e. að þannig yrði gengið frá námunni að útlínur svæðisins myndu sem næst fylgja lögun Stekkjarhornsins. Af þessum sökum gera eignarnámsþolar kröfu um viðbótarbætur að fjárhæð kr. 1.000.000-.

VI. Álit matsnefndar:

Svo sem fram hefur komið hefur matsnefndin farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Við mat á bótum í máli þessu þykir verða að líta til markaðsverðs sambærilegs efnis á svæðinu. Fallast ber á það með eignarnema að náman sé ekki á markaðssvæði, enda liggur ekkert fyrir um eftirspurn annarra aðila en eignarnema sjálfs eftir efni úr námunni. Ekki þykja efni til að hafa til hliðsjónar fullyrðingar eignarnámsþola um verðmæti malarefnis í samningi Rafmagnsveitu Reykjavíkur um möl úr landi Nesja, enda liggur ekkert fyrir um gæði þess efnis, nálægð við notkunarstað, eftirspurn annarra en efniskaupa o.fl. sem máli skiptir við ákvörðun verðsins. Sá samningur hefur ekki verið lagður fram í málinu.

Þrátt fyrir að eignarnemi hafi lagt fram yfirlit yfir verðlagningu efnis á Suðurlandi er sýni að algengasta verð á möl sé kr. 12,00 pr. m³, þykir matsnefndinni sýnt að með samningi aðila frá 14. október 1995, hafi þeir verið sammála um að markaðsverð efnis úr þessari námu m.t.t. aðstæðna, gæða efnis o.fl. sé kr. 30,00 pr. m³.

Ekkert liggur fyrir um að framkvæmd eignarnema á efnistökunni hafi valdið eða muni valda meira raski en að var stefnt eða að það rask hafi rýrt verðmæti Miðfells svo að forsendur séu fyrir því að ákvarða sérstakar bætur vegna þess.

Með hliðsjón af framansögðu þykja hæfilegar bætur fyrir 35.000 m³ af möl úr Stekkjarholtsnámu í landi Miðfells, Þingvallahreppi, vera kr. 1.050.000-. Með hliðsjón af úrskurði Yfirskattanefndar í málinu nr. 771/1997, sem lagður hefur verið fram í málinu, er virðisaukaskatti ekki bætt ofan á framangreinda matsfjárhæð.

Eignarnemi greiði Jóni Ingileifssyni kr. 40.000- í málskostnað, Ásu Ottesen, Snjólaugi Þorkelssyni, Jakobínu Boeskov og Guðmundi Gunnarssyni sameiginlega kr. 75.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað og Þórdísi Ottesen kr. 75.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað og Guðmundi Jónassyni, Ásu Jónasdóttur og Agnari Jónssyni kr. 8.000- hverju í málskostnað. Ekki þykja efni til að ákvarða öðrum eignarnámsþolum málskostnað. Þá greiði eignarnemi kr. 320.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, greiði eignarnámsþolum, eigendum Miðfells, Þingvallahreppi, kr. 1.050.000- í eignarnámsbætur.

Eignarnemi greiði eftirtöldum eignarnámsþolum málskostnað sem hér segir: Jóni Ingileifssyni, kr. 30.000-, Ásu Ottesen, Snjólaugi Þorkelssyni, Jakobínu Boeskov og Guðmundi Gunnarssyni sameiginlega kr. 75.000- auk virðisaukaskatts, Þórdísi Ottesen kr. 75.000- auk virðisaukaskatts, Guðmundi Jónassyni, kr. 8.000-, Ásu Jónasdóttur, kr. 8.000- og Agnari Jónssyni kr. 8.000-. Ekki þykja efni til að ákvarða öðrum eignarnámsþolum bætur í máli þessu. Þá greiði eignarnemi kr. 320.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

Helgi Jóhannesson

Ragnar Ingimarsson

Kristinn Gylfi Jónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum