Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 1998 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 23. nóvember 1998

(malarnám, 45. gr. vegalaga nr. 45/1994, 2. gr. laga nr. 11/1973, markaðssvæði)

Mánudaginn 23. nóvember 1998 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 9/1998

Vegagerðin

gegn

Guðmundi Erni Guðmundssyni,

Björgvin M. Guðmundssyni,

Friðrik Friðrikssyni og

Stefáni Friðrikssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Stefán Tryggvason, bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnáms:

Með matsbeiðni dags. 14. september 1998, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 25. september, fór Vegagerðin, kt. 680269-2800, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á 20.000 m³ malarefnis úr námu í landi Grafargerðis, Skagafirði. Tilefni eignarnámsins er vegarlagning á svæðinu, en eignarnemi hefur um árabil nýtt námuna og tekið úr henni þúsundir rúmmetra malarefnis til vegagerðar. Samkomulag hefur ávallt náðst um verðlagningu efnisins þar til nú og reyndist eignarnema því nauðsynlegt að taka efnið eignarnámi og krefjast mats á því.

Eignarnámsþolar eru eigendur Grafargerðis, Skagafirði, en þeir eru: Guðmundur Örn Guðmundsson, kt. 170855-4429, Skagfirðingabraut 6, Sauðárkróki, Björgvin M. Guðmundsson, kt. 120454-7819, Dalatúni 17, Sauðárkróki, Friðrik Friðriksson, kt. 050861-3179, Grænumörk 5, Hveragerði og Stefán Friðriksson, kt. 120243-2769, Heiðarvegi 53, Vestmannaeyjum.

Eignarnámið styðst við heimild í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta föstudaginn 25. september 1998. Þá lagði eignarnemi fram matsbeiðni ásamt öðrum gögnum og var málinu að því búnu frestað til vettvangsgöngu til 5. október 1998.

Mánudaginn 5. október 1998 var málið tekið fyrir. Matsnefndin gekk á vettvang ásamt fulltrúum aðila. Sættir voru reyndar en án árangurs. Málinu var því frestað til framlagningar greinargerða af hálfu aðila til 19. október 1998.

Að beiðni lögmanns eignarnámsþola var fyrirtöku málsins þann 19. október 1998 frestað og var málið næst tekið fyrir mánudaginn 16. nóvember 1998. Aðilar lögðu fram greinargerðir ásamt fylgigögnum. Að mati matsnefndarinnar var ekki talin þörf á munnlegum flutningi málsins og var það því tekið til úrskurðar að framlagningunni lokinni.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi vísar til þess að samkvæmt 45. vegalaga nr. 45/1994 og 72. gr. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, skuli greiða fullar bætur fyrir jarðefni sem tekið er eignarnámi til vegagerðar. Þá vísar eignarnemi til 47. gr. vegalaga, þar sem gefnar eru viðmiðanir sem fara beri eftir við mat á bótum fyrir eignarnám skv. vegalögum.

Af hálfu eignarnema er því haldið fram að meta skuli bætur fyrir hið eignarnumda malarefni með hliðsjón af orðsendingu eignarnema nr. 26/1998, sem lögð hefur verið fram í málinu. Samkvæmt orðsendingunni er verð fyrir malarefni mismunandi eftir því hvort efnið sé innan eða utan markaðssvæða. Eignarnemi heldur því fram að efni það sem hér sé til umfjöllunar sé utan markaðssvæða og því beri að greiða bætur er nemi kr. 4,50 pr. m³ fyrir fyllingarefni, kr. 9,00 pr. m³ fyrir burðarlagsefni og kr. 18 pr. m³ fyrir efni í bundin slitlög. Eignarnemi bendir sérstaklega á að eignarnámsþolum hafi árum saman verið greitt fyrir efni úr námunni samkvæmt orðsendingu eignarnema hverju sinni, ýmist sem burðarlagsefni eða sem efni í bundin slitlög. Það sama eigi við um greiðslur fyrir efni úr nálægum námum s.s. námu að Melstað, Tjarnarnámu og Tungunámu í landi Sleitustaða. Eignarnemi telur ekkert fram komið sem réttlæti hærri greiðslur úr námu eignarnámsþola en öðrum námum á svæðinu.

Eignarnemi fellst á að unnt sé að nýta hið eignarnumda malarefni í öll lög vegarins. Þó sé ekki hægt að nota það óunnið í burðarlag og bundið slitlag vegna þess hversu sandríkt það er. Af hálfu eignarnema er því haldið fram að efnisnámið hafi engin áhrif á möguleika eignarnámsþola til áframhaldandi efnissölu til annarra, ef um það yrði að ræða, þar sem náman sé efnismikil og þannig hafi verið frá henni gengið að efnistaka og áframhaldandi nýting hennar sé aðgengileg. Eignarnemi bendir á að hann hafi sjálfur kostað frágang á námunni, sem námueigendur hefðu annars þurft að gera, og verði því að meta þann kostnað til frádráttar við mat á bótum í máli þessu.

Eignarnemi vísar sérstaklega til úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta í málinu nr. 2/1992, Vegagerð ríkisins gegn Halldóru Ásmundsdóttur o.fl. og í málinu nr. 1/1993, Vegagerð ríkisins gegn Pétri Guðmundssyni. Þá er einnig vísað til úrskurðar matsnefndarinnar frá 21. desember 1983 í málinu Vegagerð ríkisins gegn Grími Ögmundssyni, Syðri Reykjum I, Biskupstungum.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþolar gera eftirfarandi kröfur í máli þessu:

Aðalkrafa: Að einungis verði heimilað eignarnám á 7.500 m³ malarefnis og að endurgjald fyrir það magn verði kr. 92,00 pr. m³.

Varakrafa: Að verð fyrir 20.000 m³ malarefnis verði ákvarðað kr. 92,00 pr. m³.

Þrautavarakrafa: Að bætur fyrir 7.500 m³ malarefnis verði ákvarðaðar samkvæmt viðmiðun um efnistöku á markaðssvæðum í orðsendingu eignarnema nr. 26/1998, þ.e. kr. 9,00 pr. m³ fyrir fyllingarefni og efni í malarslitlag, kr. 27,00 pr. m³ fyrir burðarlagsefni og kr. 45,00 pr. m³ fyrir efni í bundið slitlag.

Þrautavaravarakrafa: Að bætur fyrir 20.000 m³ malarefnis verði ákvarðar með sama hætti og krafist er í þrautavarakröfu.

Í öllum tilvikum er krafist hæfilegs málskostnaðar.

Af hálfu eignarnámsþola er því haldið fram að náman sé innan markaðssvæða. Eignarnámsþolar benda á að Steypustöð Skagafjarðar hafi tekið efni úr námunni og hafi efnið reynst vel. Af þessum sökum hafi steypustöðin verið tilbúin til að greiða hærra verð fyrir efnið en áður hafði tíðkast eða kr. 92,00 pr. m³. Á árinu 1997 keypti steypustöðin 1.158 m³ af möl úr námunni á áðurnefndu verði. Þá er því haldið fram að samkomulag hafi verið gert við seypustöðina um kaup á 1.000-2.000. m³ af efni úr námunni á kr. 92,00 pr. m³. Eignarnámsþolar kveða eignarnema hafa boðið kr. 18,00 pr. m³ fyrir efni úr námunni, en það hafi þeim þótt of lágt og því ekki undirritað samning þar að lútandi.

Eignarnámsþolar gera kröfu til þess að einungis 7.500 m³ malarefnis verði teknir úr námunni, enda hafi ekki verið samið um annað í upphafi. Eignarnámsþolar vísa til þess að heimildir til eignarnáms beri að túlka þröngri túlkun samkvæmt langri dómvenju og eignarnema sé í lófa lagið að útvega sér viðbótarmagn úr öðrum námum á svæðinu.

Eignarnámsþolar mótmæla því sérstaklega að efnismagn í námunni sé nánast ótakmarkað og nú sé ekki lengur um það að ræða að verið sé að taka efni úr örfoka melum eins og í upphafi, heldur sé nú verið að ryðja lyngmóa til þess að komast að efninu og þrátt fyrir að eignarnemi hafi nú gengið frá fyrra jarðraski, eigi hann ennþá eftir að sá í sárin og græða þau upp.

Eignarnámsþolar telja sig verða fyrir fjárhagstjóni ef þeim verði gert að láta malarefni af hendi úr námunni fyrir minna en það sem Steypustöð Skagafjarðar sé tilbúin til að greiða fyrir efnið, þ.e. kr. 92,00 pr. m³. Af þessum sökum sé sú aðalkrafa gerð að verð efnisins verði ákvarðað það sama og steypustöðin sé tilbúin til að greiða fyrir það.

Þrautavarakrafa og þrautavaravarakrafa eignarnámsþola byggist á þeirri skoðun þeirra að náman sé innan markaðssvæða og því beri að meta bætur með tilliti til þess og með hliðsjón af orðsendingu eignarnámsþola nr. 26/1998.

VI. Álit matsnefndar:

Eignarnámið grundvallast á heimild í 45. gr. vegalaga. Að áliti eignarnema nemur efnisþörf hans úr námu eignarnámsþola 20.000 m³ af malarefni og nær eignarnámið til þess magns. Hlutverk Matsnefndar eignarnámsbóta, samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973, er að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Með vísan til þessa afmarkaða tilgangs nefndarinnar, er það ekki í valdi nefndarinnar að takmarka umfang eignarnámsins, svo sem krafist hefur verið af eignarnámsþolum, að því gefnu að fullnægjandi lagaheimild fyrir eignarnáminu sé fyrir hendi. Þar sem fullnægjandi og óumdeild eignarnámsheimild er til staðar í máli þessu, lúta störf matsnefndarinnar að því að því að ákvarða bætur fyrir 20.000 m³ malarefnis sem teknir hafa verið eignarnámi.

Svo sem fram hefur komið hefur matsnefndin farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Fallist er á það með eignarnámsþolum að efnisnáman sé sérstaklega aðgengileg fyrir eignarnema og kostnaður við efnistökuna því í lágmarki.

Þrátt fyrir að eignarnámsþolar hafi sýnt fram á að um einhverja sölu hafi verið að ræða úr námunni, er ekki á það fallst að náman sé innan markaðssvæða, né að efnistaka eignarnema úr námunni skerði á nokkurn hátt tekjumöguleika eignarnámsþola með sölu til annarra aðila, enda er gífurlegt magn efnis eftir í námunni. Efnistaka úr námunni hefur að langmestu leyti verið í höndum eignarnema. Ekki er tilefni til að draga frá bótum til eignarnámsþola kostnað sem eignarnemi hefur haft af því að ganga frá því raski sem hann hefur sjálfur valdið á svæðinu.

Við ákvörðun bóta í máli þessu þykir rétt að líta til orðsendingar eignarnámsþola nr. 26/1998. Fyrir liggur að efni úr námunni er gott efni og getur nýst í öll lög vega. Með hliðsjón af þessu og því sem áður segir um aðgengi að námunni o.fl. þykja hæfilegar bætur fyrir 20.000 m³ af möl úr námu eignarnámsþola vera kr. 400.000-. Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 100.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað og kr. 280.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2800, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþolum, Guðmundi Erni Guðmundssyni, kt. 170855-4429, Skagfirðingabraut 6, Sauðárkróki, Björgvin M. Guðmundssyni, kt. 120454-7819, Dalatúni 17, Sauðárkróki, Friðrik Friðrikssyni, kt. 050861-3179, Grænumörk 5, Hveragerði og Stefáni Friðrikssyni, kt. 120243-2769, Heiðarvegi 53, Vestmannaeyjum, sameiginlega kr. 400.000- í eignarámsbætur og kr. 100.000- auk virðisaukasatts í málskostnað.

Þá greiði eignarnemi kr. 280.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

__________________________________

Helgi Jóhannesson

Ragnar Ingimarsson                         Stefán Tryggvason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum