Hoppa yfir valmynd
29. desember 1999 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 29. desember 1999

 

Miðvikudaginn 29. desember 1999 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 4/1999


 


 

Vegagerðin

gegn

Eigendum Kleifa, Gilsfirði

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :


 


 

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Ragnar Ingimarsson, verkfr. og Karl Axelsson, hrl., en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.


II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

Með matsbeiðni dags. 17. maí 1999, sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 5. júlí 1999, fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, (matsbeiðandi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti þeim Hermanni Jóhannessyni, kt. 101042-3329, Logafold 19, Reykjavík, Stefáni Jóhannessyni, kt 291237-4289, Kleifum, Gilsfirði og Kýrunni Guðjónsdóttur, kt. 220907-4819, Kleifum, Gilsfirði (matsþolum), hæfilegar bætur vegna skerðingar á beitarafnotum og lax- og silungsveiðihlunnindum jarðarinnar Kleifa, Gilsfirði, af völdum byggingar vegar og brúar yfir Gilsfjörð.

Af hálfu matsþola er sú krafa gerð að matsnefndin meti til fjár öll þau áhrif sem framkvæmdir matsbeiðanda við brúun Gilsfjarðar hafa haft í för með sér fyrir matsþola, þ.m.t. áhrif framkvæmdanna á verðmæti Kleifa og búskaparmöguleika þar, en að matið verði ekki eingöngu takmarkað við þá þætti sem fram koma í matsbeiðni.


III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir mánudaginn 5. júlí 1999. Af hálfu matsbeiðanda var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu til 10. ágúst 1999.

Þriðjudaginn 10. ágúst 1999 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Aðilar lýstu því yfir að þeir gerðu ekki athugasemdir við skipan matsnefndarinnar í málinu og að þeir væru sammála um að málið væri rekið fyrir nefndinni. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerða og annarra gagna af hálfu aðila til 20. september 1999.

Að beiðni aðila var fyrirtöku málsins þann 20. september 1999 frestað, en það var þess í stað tekið fyrir mánudaginn 18. október 1999. Aðilar lögðu fram greinargerðir ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings til 9. nóvember 1999.

Þriðjudaginn 9. nóvember 1999 var málið tekið fyrir. Sættir voru reyndar, án árangurs og var málið að því búnu flutt munnlega fyrir nefndinni. Að því loknu var málið tekið til úrskurðar.

 

IV. Sjónarmið matsbeiðanda:

Kröfugerð matsbeiðanda fyrir nefndinni er eftirfarandi:


  1. Að matsþolum verði metnar hæfilegar bætur vegna skertra beitarafnota á jörð sinni af völdun þverunar Gilsfjarðar með byggingu brúar og fyllingar yfir fjörðinn.
  2. Aðallega að hafnað verði kröfu matsþola um bætur fyrir tjón á veiðihlunnindum, en til vara er krafist verulegrar lækkunar á kröfu matsþola hvað það atriði varðar.
  3. Að hafnað verði kröfu matsþola um bætur vegna skerðingar á verðmæti jarðarinnar Kleifa vegna framkvæmdanna og fyrir óhagræði o.fl.
  4. Að hafnað verði kröfum matsþola um dráttarvexti á kröfufjárhæðir.
  5. Að matsþolum verði ákvarðaður hæfilegur málskostnaður úr hendi matsbeiðanda að mati Matsnefndar eignarnámsbóta.

Matsbeiðandi bendir á að hann hafi gert skýrslu um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar árið 1994, sem lögð hafi verið fram í málinu. Á bls. 7 í skýrslunni segi á þessa leið um þá tillögu matsbeiðanda, sem samþykkt og framkvæmd var:

"Samkvæmt tillögu Vegagerðarinnar verður byggð brú með um 60 m virku vatnsopi og verður hæðarkóti í botni brúar jafnt og +0,0 m. Seltan í lóninu innan brúarinnar verður þá að meðaltali 88-90 % af sjávarseltu. Hár hæðarkóti botns í brúaropi dregur verulega úr vatnshraða undir brú, en minnkar jafnframt flutningsgetu brúaropsins. Vatnsborð lónsins innan veglínu mun sveiflast milli hæðarkóta +0,8 m og +1,3 m sem er nálægt núverandi hæðarkóta miðstöðu sjávar í innanverðum Gilsfirði. En við mynni Gilsfjarðar er meðalstórstraumsflóð í hæðarkóta +2,5 m og meðalstórstraumsfjara í hæðarkóta ?2,3 m. Eftir að framkvæmdum lýkur rennur inn í gegnum brúaropið aðeins um 5% af því magni sjávar sem áður féll að meðaltali inn fjörðinn."

Matsbeiðandi telur að framangreint hafi gengið eftir í öllum aðalatriðum. Samkvæmt því sé ljóst, að munur flóðs og fjöru sé mun minni nú eftir framkvæmdirnar en var fyrir og því megi ljóst vera að útfiri í innanverðum Gilsfirði minnki verulega. Matsbeiðandi fellst á að það geti hafa leitt til skerðingar á fjörubeit frá því sem var fyrir framkvæmdir, en ekki liggi fyrir gögn í málinu um áhrif þessa á búskap að Kleifum.

Að sögn matsbeiðanda var við lögboðið mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna leitað umsagnar veiðimálastjóra. Hafi það verið mat hans, að brú yfir Gilsfjörð og tilkoma lónsins fyrir innan brúna, væri ekki til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á afkomu laxfiska á svæðinu og raunar miklar líkur á því að afkomumöguleikar þeirra myndu batna. Vísar matsbeiðandi um þetta til úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins vegna lagningar Vestfjarðavegar nr. 60 um Gilsfjörð, sem liggur fyrir í málinu. Í þeim úrskurði hafi matsbeiðanda verið gert að gera áætlun um rannsóknir á áhrifum framkvæmda á lífríki Gilsfjarðar. Í samræmi við það hafi Veiðimálastofnun verið fengin til að gera athugun á laxfiskum í Gilsfirði og ám sem í fjörðinn renna. Tvær skýrslur liggi fyrir um rannsóknir Veiðimálastofnunar fyrir framkvæmd, þ.e. frá 1995 og 1996 og þær liggi fyrir í málinu. Á bls. 1 í skýrslunni frá árinu 1996 komi fram að allar íslensku laxfiskategundirnar finnist í Gilsfirði. Árnar þar hafi þó fyrst og fremst verið búsvæði fyrir bleikju og rannsóknir beinist því einkum að henni þó að aðrir laxfiskar séu athugaðir eftir því sem þeir komi fyrir.

Matsbeiðandi kveðst einnig hafa látið Veiðimálastofnun á sama hátt framkvæma rannsókn á laxfiskum í Gilsfirði eftir brúarframkvæmdirnar, en í þeirri athugun hafi verið lögð meiri áhersla á lax en í fyrri athugunum. Skýrslan sé dagsett í október 1999 og hafi hún einnig verið lögð fram í málinu. Matsbeiðandi bendir á að í niðurstöðum hennar á bls. 3 komi fram, að engin laxaseiði hafi nú fundist í Kleifaá en fundust við rannsóknir árin 1995 og 1996. Í umræðukafla skýrslunnar á bls. 4 sé síðan ályktað svo um hrygningu og laxastofn í Kleifaá:

"Þau seiði sem veiddust í Kleifaá 1995 voru tveggja ára en eitt var þriggja ára. Árið eftir veiddust einungis þriggja ára seiði og því um sama árgang að ræða og árið á undan."

Síðan segi í framhaldinu:

"Seiðarannsóknir benda því til að laxastofn í ánni sé mjög lítill og gæti leikið vafi á því hvort hann nái að viðhalda sér af sjálfsdáðum út frá þeim gögnum sem fyrir liggja. Um gæti verið að ræða eftirstöðvar af löxum ættuðum úr seiðasleppingum fyrri ára en einnig gæti verið um að ræða flökkufisk sem gangi í ána og hrygnir þar í sumum árum."


Matsbeiðandi kveðst hafa óskað eftir því við Veiðimálastofnun að sérstaklega yrði hugað að áhrifum framkvæmdanna á göngur laxa og veiði. Ályktanir varðandi þetta atriði séu í þeim kafla skýrslunnar frá 1999 sem beri yfirskriftina umræður. Þar komi fram neðst á bls. 5, að ef veiði í Gilsfirði hafi að einhverju leyti byggst á s.k. umferðar- og aðkomufiski, þ.e. laxi úr sleppingum eða laxi sem kemur við í ánni á leið til heimaár, þá gæti brúin og vegfyllingin haft áhrif á og hugsanlega dregið úr slíkum göngum inn fyrir vegarstæðið. Síðan segi á þessa leið efst á bls. 6:

"Að þessu frádregnu og með fyrirvara um aðrar breytingar sem verða kunna á lífríkinu er erfitt að sjá að þverun Gilsfjarðar hafi haft merkjanleg áhrif á skilyrði ánna sem til hans falla til framleiðslu laxa. Þá verður ekki annað talið en að það op sem er undir brú á uppfyllingunni þjóni þeim tilgangi að þeir laxar sem á annað borð hafa erindi og ætla sér út eða inn fjörðinn finni þá leið og komist leiðar sinnar. Straumskipti geta hugsanlega haft áhrif á fiskigengd um brúaropið en tæpast margar klukkustundir."

Matsbeiðandi bendir á, eins og fram hafi komið, að fyrst og fremst sé að finna búsvæði bleikju í Gilsfirði og ám sem í hann renna. Athuganir Veiðimálastofnunar á afkomu bleikju hafi ekki með óyggjandi hætti leitt í ljós neinar breytingar til hins verra á afkomu hennar. Í skýrslu Veiðimálastofnunar frá árinu 1996 hafi verið talið, að tilkoma lóns innan vegfyllingar gæti haft jákvæð áhrif á afkomu bleikjunnar. Á bls. 7 í skýrslunni komi fram, að hugsanlegt sé að bleikjuseiði geti fyrr nýtt sér fæðuframboð í lóninu vegna lægra seltustigs. Það geti leitt til meiri seiðaframleiðslu. Orðrétt segi neðst á sömu síðu og efst á bls. 8:

"Hugsanlegt er að tilkoma lónsins, með stöðugra umhverfi og seltustigul við ósa ánna, auki afkomumöguleika seiða við sjógöngu. Ef stærri hluti stofnanna en nú er færi að ganga til sjávar eins árs myndi það auka viðkomu þeirra, þar sem seiðin dveldu skemur í ánni fyrir fyrstu sjógöngu, þau kæmust einu eða tveimur árum fyrr í sjó þar sem vöxtur er meiri og næðu e.t.v. kynþroska á skemmri tíma."

Matsbeiðandi kveður skýrslu Veiðimálastofnunar frá árinu 1999 ekki taka af tvímæli um þetta þar sem talið er að það taki lengri tíma fyrir breytingar að koma í ljós, allt að 5 ? 10 ár. Skýrslan staðfesti þó, að sjógengin bleikja veiðist í Kleifaá.

Af hálfu matsbeiðanda er á því byggt að eingöngu beri að meta í málinu meint tjón matsþola á hlunnindum sem matsbeiðandi getur talist bótaskyldur fyrir samkvæmt ákvæðum IX. kafla vegalaga nr. 45/1994, varðandi eignarnám og bætur fyrir jarðrask, átroðning o.fl. sbr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944 með síðari breytingum. Matsbeiðandi telur að innan þessa falli t.d. tjón á beitarafnotum, veiðihlunnindum o.þ.h. Matsbeiðandi telur sig hins vegar ekki bera neina ábyrgð á öðrum fjárhagslegum afleiðingum þess fyrir matsþola að breytingar verði á samgöngum í Gilsfirði, frekar en matsbeiðandi verði gerður ábyrgður fyrir afleiðingum byggðaþróunar í sveitarfélaginu almennt. Matsbeiðandi telur engar forsendur fyrir því að greiða bætur fyrir það að umferð um land matsþola minnki við byggingu brúarinnar. Engin breyting hafi orðið á vegtengingu jarðarinnar þótt vegurinn heiti nú tengivegur en ekki stofnvegur. Breytt flokkun vegarins leiði af almennum reglum í vegalögum.

Af hálfu matsbeiðanda er vísað til þess að hann hafi látið rannsaka áhrif framkvæmda á lífríki Gilsfjarðar og aflað þeirra upplýsinga sem ætlast megi til af honum og tilefni hafi verið til. Að þessu gefnu hljóti sönnunarbyrði að hvíla alfarið á matsþolum um hvort tjón hafi orðið og um fjárhæð tjóns. Takist matsþolum ekki að sanna beint fjárhagslegt tjón, beri engar bætur að meta.

Matsbeiðandi bendir á að engar upplýsingar liggi fyrir um nýtingu fjörubeitar og þýðingu hennar fyrir búskap að Kleifum. Óhjákvæmilegt sé að upplýsa þurfi nánar um nýtingu þessara hlunninda og þýðingu þeirra fyrir búskapinn, til að hægt sé að meta matsþolum bætur fyrir tjón á þeim. Af hálfu matsbeiðanda er litið svo á að bætur geti a.m.k. ekki orðið hærri en þær sem venja er að greiða fyrir ógróið, óræktunarhæft land samkvæmt orðsendingu matsbeiðanda nr. 14/1999 um landbætur o.fl. vegna vegagerðar. Í þessu sambandi mótmælir matsbeiðandi því sérstaklega að haustbeit falli alfarið niður að Kleifum þrátt fyrir framkvæmdirnar, þar sem ekkert mæli á móti því að fé sé haldið úti til beitar sem fyrr, ef snjólaust er.

Matsbeiðandi telur, með vísan til skýrslna Veiðimálastofnunar sem liggja fyrir í málinu, að afar ósennilegt sé að tjón hafi orðið á veiðihlunnindum í landi Kleifa vegna framkvæmda matsbeiðanda. Af þessum sökum gerir matsbeiðandi þá kröfu að matsþolum verði ekki metnar bætur vegna þessa þáttar. Matsbeiðandi getur þess sérstaklega að ekki hafi verið lagðar fram nauðsynlegar upplýsingar um seiðasleppingar í Kleifaá undanfarin ár. Ennfremur hafi matsþolar ekki lagt fram veiðiskýrslur eða aðrar sannanir fyrir því að um veiði hafi verið að ræða í Kleifaá.

Matsbeiðandi telur kröfur matsþola óraunhæfar og sú aðferð sem beitt sé við útreikning meints tjóns þeirra sé óraunhæf. Matsbeiðandi telur að líta verði til breytinga sem verða á heildartekjum búsins að frádregnum kostnaði. Þá bendir matsbeiðandi á að matsþolar hljóti að verða að takmarka tjón sitt, t.d. með því að rækta meiri tún.

Matsbeiðandi mótmælir því sérstaklega að í útreikningi matsþola sé miðað við 500 fjár á jörðinni, þar sem ljóst sé að fé hafi aldrei verið svo margt þar og sé nú einungis um 270.

 

V. Sjónarmið matsþola:

Af hálfu matsþola eru eftirfarandi kröfur gerðar:

  1. Að matsbeiðanda verði gert að greiða matsþolum sameiginlega sem bætur fyrir skerðingu fjörubeitar jarðarinnar Kleifa kr. 27.276.719,oo,- auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. mars 1996 til greiðsludags.
  2. Að matsbeiðanda verði gert að greiða matsþolum sameiginlega sem bætur fyrir skerðingu lax- og silungsveiðihlunninda jarðarinnar Kleifa kr. 2.949.123,oo,- auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. mars 1996 til greiðsludags.
  3. Að matsbeiðanda verði gert að greiða matsþolum sameiginlega sem bætur fyrir varanlega skerðingu á verðmæti eignar þeirra, röskun á búsetumöguleikum á jörðinni Kleifum og óþægindi sem leiða af byggingu vegar og brúar yfir Gilsfjörð kr. 10.000.000,oo auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. mars 1996 til greiðsludags.
  4. Að matsbeiðanda verði gert að greiða matsþolum sameiginlega kr. 1.819.900- í málskostnað.

Matsþolar segja málsatvik vera þau að þeir séu eigendur jarðinnar Kleifa í Gilsfirði. Jörðin sé metin 24 hundruð hundraða að fornu mati, landmikil og hafi þótt góð fjárjörð. Talsverð silungsveiði hafi verið í vötnum í landi jarðarinnar og lax- og silungsveiði nokkur í ám. Húsakostur jarðarinnar sé ágætur og tún um 40 hektarar. Landgæði Kleifa til búskapar hafi ætíð tengst mjög nýtingu fjörubeitar og hafi það verið talinn einn af meginkostum jarðarinnar.

Matsþolar lýsa atvikum nánar þannig:

Matsþolarnir Hermann og Stefán bjuggu félagsbúi á jörðinni ásamt foreldrum sínum en árið 1961 stofnaði Stefán nýbýlið Kleifar II. Árið 1967 keypti síðan Hermann jörðina Kleifa I af foreldrum sínum og var þá jafnframt stofnað nýbýlið Kleifar III, þar sem foreldrar þeirra bjuggu. Á þessum tíma voru matsþolar með um eða yfir 400 fjár á fóðrum og voru jafnframt að byggja upp kúabú. Vegna kuldatíðar og slæms veðurfars, sem olli kali í túnum og leiddi af sér aukinn heyöflunarkostnað, þá varð það að samkomulagi að Hermann myndi draga sig að mestu út úr búskapnum. Stefán bjó hins vegar áfram á jörðinni og sinnti búskapnum. Árið 1976 kaus Stefán að gera hlé á búskaparstörfum sínum og tók Hermann þá að sér að sinna búinu en þar sem hann var í fullu starfi við kennslu dróst búskapurinn nokkuð saman og miðaðist eingöngu við að halda mannvirkjum og nægilegum bústofni við til þess að aftur væri hægt að koma búinu aftur í fullan rekstur á stuttum tíma. Árið 1980 tók Stefán aftur við búrekstrinum en Hermann fluttist búferlum, fyrst á Akranes og síðar til Reykjavíkur.

Á árinu 1981 voru teknar í lög (lög nr. 95/1981, sbr. lög nr. 45/1981) heimildir til að grípa til ákveðinna aðgerða við framleiðslustjórnun í landbúnaði vegna offramleiðslu og var þar m.a. heimilað að ákveða framleiðendum mismunandi verð fyrir framleiðsluna, m.a. þannig að fullt verð yrði greitt fyrir ákveðinn hluta framleiðslunnar, en útflutningsverð fyrir það sem umfram var. Á árinu 1983 voru síðan settar nánari reglur um þá beinu framleiðslustjórnun sem kveðið var á um í fyrrnefndum lögum. Þá kom til hið svonefnda búmark, sem reiknað var í kindakjöti, mjólk og nautakjöti og þegar býli var úthlutað búmarki var lögð til grundvallar meðalframleiðsla á búinu árin 1976-1978 samkvæmt skattframtali.

Þessi viðmiðun kom sér hins vegar mjög illa fyrir jörðina Kleifa, þar sem búskapurinn hafði dregist saman á þessum árum. Eigendur jarðarinnar höfðu því ekki tök á að stækka bú sitt upp í eðlilegt mark heldur voru bundnir þeirri framleiðslutakmörkun og stýringu, sem komið hafði verið á. Jörðin ber hins vegar mun meiri bústofn en ætla má af framleiðslurétti, sem þar hefur verið undanfarin ár. Að mati Ólafs R. Dýrmundssonar, landráðunautar í lífrænum búskap og landnýtingu hjá Bændasamtökum Íslands má reka lífvænlegt sauðfjárbú á jörðinni miðað við að þar séu allt að 500 vetrarfóðraðar kindur. Staðfesting Ólafs þar að lútandi liggur fyrir í málinu.

Meðan Hermann var við kennslu dvaldi hann þó á Kleifum þegar hann átti tök á og tók nokkurn þátt í bústörfum. Einnig stundaði hann veiði og taldi tekjur sínar vegna þess fram til skatts. Á skattskýrslum má sjá að framtaldar veiðitekjur lækkuðu eftir því sem viðvera hans á jörðinni minnkaði. Árið 1983 var síðasta sumarið sem Hermann dvaldi eitthvað að ráði á jörðinni. Það ár taldi hann fram 95 kg af veiddum laxi en það samsvarar u.þ.b. 25 löxum eftir eitt ár í sjó. Mun Stefán einnig hafa talið fram svipað magn.

Talsverð silungsveiði hefur alltaf verið í Kleifaá og nokkur í Brekkuá. Þá voru góðar netalagnir líka í fjörunni þar sem Grjótá fellur í fjörðinn. Laxveiði var hins vegar engin fyrr en eigendur og ábúendur jarðarinnar hófu að sleppa gönguseiðum í Kleifaá. Fyrstu gönguseiðunum var sleppt sumarið 1975 og strax árið eftir skilaði nokkur hópur laxa sér í ána. Eftir það gekk lax í ána hvert sumar, þótt sleppingar hefðu oft fallið niður en það sýnir að hrygning í ánni hefur heppnast í nokkrum mæli.

Formlegt leyfi til starfrækslu hafbeitarstöðvar í Kleifaá var gefið út 3. apríl 1987. Sérstakt hlutafélag var stofnað um hafbeitina en fiskeldisstöðin Fellalax tók að sér alla faglega umsjón. Framlag Hermanns og Stefáns til hafbeitarstöðvarinnar var fyrst og fremst aðstaðan í ánni sjálfri og þar með talið veiðitap meðan á rekstrinum stóð en einnig lögðu þeir fram nokkurt fé í seiðakaup.

Eftir að Fellalax hf. tók við umsjón með ánni var aðeins tekinn lax til kreistingar. Í vottorði Veiðimálastjóra á skjali nr. 14 kemur fram að 85 laxar hafi verið teknir sumarið 1988 og þar sem slepping var mjög lítil árið 1987 er nærtækast að álykta sem svo að meginhluti þess fjölda hafi verið ættaður úr ánni sjálfri.

Veturinn 1990-91 drápust öll gönguseiði í eldisstöðinni og leiddi það m.a. til þess að starfsemi hennar var hætt. Af þeim sökum var enginn lax tekinn til kreistingar árið 1991. Þá var sleppt nokkru magni af sumaröldum seiðum en ekki er vitað hvernig úr þeim rættist þar sem Stefán og Hermann litu svo á að enn stæði samkomulag þeirra um að veiða ekki í ánni. Það var því ekki fyrr en á árinu 1994 að Stefán hóf veiði aftur. Þá var fiskgengd í ána lífleg, ekki síður en verið hafði fyrir sleppingar, og hélst góð fram til sumarsins 1996. Liggja fyrir veiðiskýrslur Stefáns fyrir árin 1995 og 1996, sbr. skjöl nr. 12. Samkvæmt þeim fékk Stefán 11 laxa sumarið 1995 og 13 laxa 1996 en tekið skal fram að hann stundaði veiðina mjög lítið. Sumarið 1997 var veiði dræm þar sem vegaframkvæmdir voru í fullum gangi en árið 1998 fékkst enginn lax úr ánni.

Á árinu 1996 hófust framkvæmdir við þverun Gilsfjarðar og var þeim lokið í júlí 1997. Þessar framkvæmdir leiddu til þess að fjörðurinn er nú orðinn stöðuvatn og munur flóðs og fjöru nær horfinn. Vegna þess að sjávarfalla gætir ekki lengur í firðinum er fjörubeit sauðfjár á jörðinni Kleifum úr sögunni en hún hefur skipt eigendur jarðarinnar verulegu máli. Þá hefur engin laxagengd verið í Kleifaá eftir þetta. Ennfremur hefur þessi framkvæmd rýrt mjög búskaparmöguleika og búsetuskilyrði að Kleifum.

Matsþolar halda því fram að eftir brúarframkvæmdirnar sé fjörubeit á jörðinni úr sögunni svo sem fyrr segir, en áður gat fé gengið úti fram undir jól. Ástæður þess að þetta var mögulegt voru þær að næg fjörubeit var, auk þess sem skjólgott er í hlíðunum sem liggja að sjónum. Af þessum sökum gat fé oft á tíðum gengið úti þrátt fyrir að talsverður snjór væri kominn. Matsþolar kveða fénu einnig hafa verið sleppt í fjöruna seinni hluta vetrar, þ.e. frá byrjun marsmánaðar fram undir sauðburð, ef veður var gott. Með þessari nýtingu fjörunnar telja matsþolar að verulegt heymagn hafi sparast auk þess sem féð fékk úr fjörugróðrinum ýmis mikilvæg næringarefni sem annars hefði þurft að afla með aðkeyptum fóðurbæti. Telja matsþolar að fjörubeitin hafi dregið úr heyþörf um allt að 25%.

Matsþolar telja vegaframkvæmdir matsbeiðanda valda því að nýtingarmöguleikar jarðarinnar séu varanlega skertir og við það beri að miða þegar tjón matsþola er reiknað út. Telja matsþolar eðlilegt að miða bótagrundvöllinn við tapaðar tekjur í a.m.k. 40 ár, því ljóst sé að núverandi ábúendur á jörðinni og fjölskyldur þeirra muni þurfa að þola tekjuskerðinguna sem framkvæmdir matsbeiðanda hafa í för með sér.

Af hálfu matsþola er gerð krafa um að bætur fyrir varanlega skerðingu á fjörubeitinni miðist við aukinn heyöflunarkostnað jarðarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá Hagþjónustu landbúnaðarins er kostnaðarverð á 1 kg af heyi kr. 19,33. Fóðurþörf sauðkindar er að jafnaði talin vera um 1,5 kg. á dag. Fóður fyrir 500 kindur kostar samkvæmt því kr. 14.498,- á dag. Sé miðað við að á tímabilinu frá leitum og fram í miðjan desember séu að jafnaði 75 beitardagar er niðurstaðan sú að fóðurkostnaður búsins aukist um kr. 1.087.313,- á ári. Þá má ætla að aukin vinna við hirðingu fjárins þennan tíma nemi kr. 275.802,- og er þá miðað við að hin aukna vinna nemi samtals 672 klst. á ári og að laun á hverja klst. nemi kr. 410,42,-. Þá mun kostnaður við öflun snefilefna, þ.e. fóðursalta, lýsis, o.fl., aukast um kr. 15.000,- á ári. Ef þessar fjárhæðir eru núvirtar miðað við 40 ár og 4% ávöxtunarkröfu gerir það samtals kr. 27.276.719,-. (1.378.115 / 0,04 x (1 - (1/1,0440))

Af hálfu matsþola er því gerð krafa um að bætur fyrir varanlega skerðingu á fjörubeitinni miðist við þann aukna kostnað sem af þessu hlýst fyrir jörðina Kleifa og miðist við 4% vaxtafót og taki til 40 ára, Samkvæmt því er að lágmarki gerð krafa um að bætur samkvæmt þessum lið verði ákveðnar kr. 27.276.719.

Matsþolar halda því fram að lax hafi horfið úr Gilsfirði og Kleifaá eftir að firðinum var lokað og gera því kröfu um bætur vegna varanlegrar skerðingar vegna þessa. Matsþolar benda á að skv. skattframtölum matsþolans Hermanns Jóhannessonar árin 1983-1986 voru tekjur hans af veiði sem hér segir:























Ár


Magn


Veiðitekjur


1983


95 kg.


11.875


1984


54 kg.


7.550


1985


30 kg.


4.950


1986


20 kg.


5.250


Matsþolar benda á að hér sé einungis um að ræða veiði Hermanns, en bróðir hans, Stefán, veiddi a.m.k. jafn mikið ef ekki meira, a.m.k. eftir 1993.

Matsþolar telja að með framlögðum gögnum hafi verið sýnt fram á að lax hafi verið til staðar í Kleifaá áður en Gilsfjörður var þveraður. Matsþolar telja að árleg veiði fyrir framkvæmdir matsbeiðanda hafi verið að jafnaði 50 átta punda laxar, sem matsbeiðandi hafi nú skert með varanlegum hætti og því hafi nýtingarmöguleikar jarðarinnar skerst verulega.

Af hálfu matsþola er gerð krafa um að bætur fyrir varanlega skerðingu á lax- og silungsveiðihlunnindum jarðarinnar Kleifa miðist við 50 átta punda fiska á ári. Með hliðsjón af nýtingu matsþola á þessum hlunnindum er eðlilegt að miða við söluverðmæti á ferskum villtum laxfiski en samkvæmt því nemur verðmæti 50 átta punda fiska kr. 149.000,-, miðað við kr. 745,- pr. kg. Samkvæmt því er að lágmarki gerð krafa um að bætur fyrir umrædda skerðingu verði ákveðnar kr. 2.949.123,-.

Auk þess sem að framan greinir gera matsþolar kröfu um bætur vegna þess tjóns sem þeir hafa orðið fyrir með þverum Gilsfjarðar, þar sem búsetumöguleikar á jörðinni hafi raskast verulega við framkvæmdina og haft önnur óþægindi í för með sér. Matsþolar telja brúna yfir Gilsfjörð valda því að allir aðdrættir að jörðinni séu nú erfiðari auk þess sem samgöngur séu ótryggari og þetta valdi andlegri og félagslegri einangrun, sem fjölskyldufólk á erfitt með að búa við. Matsþolar benda á að snjómokstur og annað viðhald minnki. Þetta orsaki það m.a. að verðmæti jarðarinnar minnki þar sem jarðaverð ráðist m.a. af því að samgöngur þangað séu góðar og sókn í alla þjónustu örugg og greið.

Auk þessa telja matsþolar að ísalög hafi aukist á firðinum og það hafi í för með sér verulega lækkun á ársmeðalhita á svæðinu og hafa lagt fram gögn þessu til stuðnings.

Matsþolar gera kröfu um kr. 10.000.000- í bætur vegna þessa sem að framan greinir.

Samtals nema bótakröfur matsþola kr. 40.225.842- auk kr. 1.819.900- í málskostnað svo sem að framan greinir.

 

VI. Álit matsnefndar:

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Þá hafa ýmis gögn verið lögð fram við meðferð málsins hjá nefndinni, svo sem fram hefur komið. Aðilar málsins lýstu því yfir við fyrirtöku málsins þann 10. ágúst 1999 að þeir væru sammála um að mál þetta væri rekið fyrir matsnefndinni.

Svo sem fyrr segir gerir matsþoli þá kröfu að matsnefndin meti til fjár öll þau áhrif sem framkvæmdir matsbeiðanda við brúun Gilsfjarðar hafa haft í för með sér fyrir matsþola, þ.m.t. áhrif framkvæmdanna á verðmæti Kleifa og búskaparmöguleika þar, en að matið verði ekki eingöngu takmarkað við þá þætti sem fram koma í matsbeiðni. Kröfugerð matsþola verður þó, skv. sundurliðuní greinargerð hans, skilin þannig að gerð sé krafa um bætur vegna skerðingar á fjörubeit, vegna skerðingar á lax- og silungsveiðihlunnindum jarðarinnar og loks vegna varanlegrar skerðingar á verðmæti eignar þeirra og fl. Engin ágreiningur er með aðilum um valdsvið og lögsögu nefndarinnar til að ákvarða bætur vegna tveggja fyrst nefndu atriðanna. Um þriðja þáttinn í kröfugerð matsþola, þ.e. bætur fyrir skerðingar á verðmæti eignar þeirra og fl., er það að segja að af málatilbúnaði hans má ráða að kröfur hans vegna þess séu í meginatriðum tvíþættar, þ.e. í fyrsta lagi eru þær reistar á því að framkvæmdin leiði til óæskilegra veðurfarsbreytinga á jörð þeirra en í öðru lagi að matsbeiðanda beri að bæta matsþola þá röskun sem gerð hins nýja samgöngumannvirkis hefur í för með sér, en með því breytist m.a. vegurinn sem um jörðina liggur úr svokölluðum stofnvegi í tengiveg. Um síðastnefnda atriðið, þ.e. bætur vegna samgöngubreytinganna, er það að segja að ekki liggur fyrir í málinu viðurkenning matsbeiðanda á bótaskyldu af því tilefni, matbeiðandi hefur ekki fallist á að leggja úrlausn ágreinings þ.a.l. í hendur Matsnefndar eignarnámsbóta eða viðurkennt með öðrum hætti lögsögu nefndarinnar um þann ágreining. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmt eignarnáms er það hlutverk Matsnefndar eignarnámsbóta að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Úrlausn nefndarinnar um hugsanlega verðrýrnun á jörðinni Kleifum vegna breytingu á veginum sem um jörðina liggur úr stofnvegi í tengiveg, sem felur í sér minnkandi umferð um veginn og minna viðhald en áður var, fæli í sér annað og meira en mat á bótum fyrir eignarnumin verðmæti, enda yrði nefndin þá að taka afstöðu til þeirrar grundvallarspurningar hvort breytingar á staðsetningu og fyrirkomulagi samgöngumannvirkja geti einar og sér haft í för með sér bótaskyldu. Matsnefndin telur sig ekki bæra til að taka afstöðu til þessa þáttar c-liðar kröfugerðar matsþola, en eins og málið hefur verið lagt fyrir nefndina telur hún sig hinsvegar, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, bæra til að meta annað það tjón sem umræddur kröfuliður er reistur á og þá fyrst og fremst líklegt tjón vegna meintra veðurfarsbreytinga á jörð matsþola.

Fyrir liggur að fjörubeit er úr sögunni í landi Kleifa eftir framkvæmd matsbeiðanda. Ekki liggja fyrir óyggjandi gögn um hvaða þýðingu fjörubeitin hafði í raun fyrir búskap að Kleifum, en ljóst þykir að þar hafi verið um ágæta búbót að ræða. Lögð hafa verið fram gögn í málinu sem gefa til kynna að góð fjörubeit geti almennt séð minnkað heyþörf um allt að 25%. Að ósk matsnefndarinnar voru lögð fram gögn er sýna afkomu búsins að Kleifum árin 1993-1998, þ.e. bæði fyrir og eftir framkvæmdir matsbeiðanda. Athygli vekur að tekjur og gjöld búsins hafa lítið breyst á tímabilinu og kostnaður vegna áburðarkaupa hefur ekki aukist þrátt fyrir að fjörubeitin hafi lagst af. Ekki verður séð að framkvæmdir matsbeiðanda hafi hoggið svo stórt skarð í búskapinn að Kleifum sem haldið er fram af matsþolum. Ekki er því fallist á að útreikningsaðferð matsþola vegna missis fjörubeitar sé tæk með hliðsjón af þróun tekna og gjalda búsins frá því framkæmdir matsbeiðanda hófust.

Þrátt fyrir ofangreint þykir sýnt að missir fjörubeitarinnar er til þess fallinn að gera búskap að Kleifum nokkru óhagkvæmari auk þess sem ljóst er að féð að Kleifum fékk mörg bætiefni úr fjörugróðri sem nú þarf að kaupa í formi tilbúins fóðurbætis. Af þessum sökum þykir rétt að meta matsþolum bætur vegna þessa og þykja þær hæfilegar kr. 1.800.000- og hefur þá verið tekið tillit til þess tíma sem liðin er síðan áhrifa fór að gæta af framkvæmdum matsbeiðanda.

Af þeim gögnum sem lögð hafa verið fram um fiskgengd í Kleifaá þykir nefndinni ekki sannað að í ánni hafi verið náttúrulegur laxastofn sem hafi útrýmst við framkvæmdir matsbeiðanda. Allar aðstæður á staðnum mæla einnig gegn því að matsþolar hefðu getað vænst þess að hafa tekjur svo nokkru nemi af laxveiðum úr ánni. Þá liggur heldur ekki fyrir að framkvæmdir matsbeiðanda hafi á nokkurn hátt skert möguleika til silungsveiði frá því sem áður var, heldur bendir ýmislegt til að auknir möguleikar til uppvaxtar bleikju séu nú fyrir hendi í ánni. Af þessum sökum þykja ekki efni til að ákvarða matsþolum bætur vegna þessa þáttar.

Þá er af hálfu matsþola gerð krafa um bætur vegna þess að fyrirsjánlegt sé að ársmeðalhiti við fjörðinn muni lækka og leiði það til skerðingar á verðmæti jarðarinnar, enda hafi þetta áhrif á allan gróður og skerði búskaparmöguleika með því að þetta geti leitt til skerðingar á heyfeng um allt að 10%. Matsþoli hefur lagt fram greinargerðir tveggja veðurfræðinga þar sem fram koma vangaveltur og skilyrt spá um að aukin ísmyndun á firðinum eftir þverun Gilsfjarðar kunni á köldum vetrarmánuðum og við aðrar sérstakar aðstæður að leiða til einhverrar lækkunar hitastigs á þeim tíma. Engin gögn hafa hinsvegar verið lögð fram um möguleg áhrif slíkra hitabreytinga á gróðurfar, búsetuskilyrði, heyfeng eða annað það sem skerðir eignarréttindi matsþola. Af tilvitnuðum séfræðigögnum má þvert á móti ráða að afar ólíklegt sé að mögulegar veðurfarsbreytingar verði í neinum þeim mæli að einhver áhrif kunni að hafa fyrir eign matsþola. Af þessum sökum þykja ekki efni til að ákvarða matsþolum bætur vegna þessa þáttar. Þá hefur matsþoli hefur ekki sýnt fram á, né sannað, annað bótaskylt tjón vegna umræddra framkvæmda, en svo sem fyrr segir telur nefndin sig ekki bæra til að fjalla um mögulega bótaskyldu og meint tjón vegna breytinga á samgönguháttum og fyrirkomulagi.

Með vísan til 11. gr. laga nr. 11/1973 skal matsbeiðandi greiða matsþolum kr. 490.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað. Þá skal matsþoli greiða kr. 618.044- í ríkissjóð vegna kostnaðar Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Matsbeiðandi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði matsþolum þeim Hermanni Jóhannessyni, kt. 101042-3329, Logafold 19, Reykjavík, Stefáni Jóhannessyni, kt 291237-4289, Kleifum, Gilsfirði og Kýrunni Guðjónsdóttur, kt. 220907-4819, Kleifum, Gilsfirði, kr. 1.800.000- í bætur og kr. 490.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað.

Þá greiði matsbeiðandi kr. 618.044- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.


 


 

_______________________________

Helgi Jóhannesson hrl.


 

Ragnar Ingimarsson, verkfr.                Karl Axelsson hrl.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum