Hoppa yfir valmynd
9. júní 2000 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta. úrskurður 9. júní 2000

Föstudaginn 9. júní 2000 var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, tekið fyrir matsmálið nr. 5/2000

Sigurður Klemenzsson

gegn

Bessastaðahreppi

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu skipa þeir Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Dr. Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni dags. 8. janúar 2000, sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 8. mars 2000 fór Sigurður Klemenzsson, kt. 310826-3329, Búðaflöt, Bessastaðahreppi, (eignarnámsþoli), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms Bessastaðahrepps, kt. 550269-6869, Kjósarsýslu, á 586 m² landspildu úr jörðinni Hliði, Bessastaðahreppi, sem er í eigu eignarnámsþola.

Tilefni eignarnámsins er endurlagning Höfðabrautar í Bessastaðahreppi sem liggur um land eignarnámsþola, lagningar gangstéttar meðfram veginum og uppsetning götulýsingar. Hin eignarnumda spilda samanstendur af mjóum landrenningum sitthvoru megin við Höfðabrautina, en gatan liggur meðfram sjónum á þeim stað sem hin eignarnumda spilda er.

Stærð og lega hinnar eignarnumdu spildu er ágreiningslaus með aðilum. Þá eru aðilar málsins sammála um að Matsnefnd eignarnámsbóta beri að ákvarða bætur fyrir spilduna þar sem samkomulag hefur ekki tekist um greiðslu fyrir hana.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir miðvikudaginn 8. mars 2000. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 28. mars 2000.

Miðvikudaginn 28. mars 2000 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð, en málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 19. apríl 2000.

Miðvikudaginn 19. apríl 2000 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til vettvangsgöngu til 12. maí 2000.

Vegna óviðráðanlegra atvika varð ekkert af vettvangsgöngunni þann 12. maí 2000, en farið var á vettvang fimmtudaginn 25. maí 2000 og aðstæður skoðaðar. Sættir voru reyndar án árangurs, og var málið að því búnu tekið til úrskurðar, enda taldi matsnefndin munnlegan flutning málsins óþarfan.

IV. Sjómarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að honum verði greiddar kr. 550 pr. m² eða kr. 322.300- auk dráttarvaxta frá 10. nóvember 1999 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

Eignarnámsþoli bendir á að hin eignarnuma landspilda sé ræktað land og gott og því beri að meta það sem slíkt. Eignarnámsþoli bendir sérstaklega á að allt fasteignaverð, þ.m.t. verð á landi og lóðum hafi snarhækkað á undanförnum misserum.

Eignarnámsþoli vísar sérstaklega til úrskurða Matsnefndarinnar í málinum nr. 2/1997, Vegagerðin gegn Barnavinaheimilinu Sumargjöf og 5/1997, Vegagerðin gegn Félagi sameigenda Lágafells, Mosfellsbæ, en eignarnámsþoli telur atvik í máli þessu vera sambærileg og í þeim málum.

V. Sjónarmið eignarnema:

Af hálfu eignarnema er þess krafist að honum verði einungis gert að greiða eignarnámsþola kr. 200 pr. m² eða kr. 117.200- í bætur fyrir hina eignarnumdu spildu.

Eignarnemi staðfestir að stærð og lega hinnar eignarnumdu spildu sé ágreiningslaus með aðilum. Hann vísar til þess að eignarnámið hafi verið nauðsynlegt þar sem Höfðabrautin fullnægði ekki lengur þeim kröfum sem gerðar eru til slíkra vega, þannig að endurnýjun hennar hafi verið nauðsynleg.

Eignarnemi bendir á að spildan verði ekki, legu hennar vegna og lögunar, nýtt sem lóð undir íbúðar- eða iðnaðarhús. Hún liggi utan allra lóðarmarka skv. deiliskipulagi og sé nánast skæklar, sem sniðist hafi af þegar landið var skipulagt.

Þá heldur eignarnemi því fram að landið hafi verið óræktað og það geti ekki nýst til slíkra hluta. Þá sé hluti þess í raun uppfylling sem eignarnemi sjálfur hafi látið gera vegna ágangs sjávar á landið.

Eignarnemi bendir á að skv. samningi frá því í maí 1999 um uppbyggingu á íbúðarsvæðum sem í gangi eru í dag, leggi landeigendur öll svæði utan lóða endurgjaldslaust til Bessastaðahrepps. Þetta sé ekki eina tilfellið sem slíkir samningar hafi verið gerðir og það sjónarmið hafi verið haft til viðmiðunar í þeim samningum, að hið eiginlega verðmæti felist í lóðunum sjálfum, en ekki ræmum utan þeirra. Eignarnemi telur sambærileg sjónarmið gildi í máli þessu.

Eignarnemi telur að miða eigi við eldri úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta, annars vegar vegna eignarnáms í landi Selskarðs í Garðabæ vegna lagnar hitaveitulagna í og við vegarstæði Álftanesvegar og hins vegar eignarnáms í landi Eyvindarstaða vegna breikkunar á sama vegi norðan afleggjarans að Bessastöðum. Núvirði skv. þeim úrskurðum kveður eignarnemi vera kr. 195,61 pr. m² miðað við Selskarðslandið en kr. 182,60 pr. m² miðað við Eyvindarstaðalandið.

VI. Álit matsnefndar:

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Fallist er á það með eignarnema að hin eignarnumda spilda sé í raun renningar eða skæklar sem ekki hefðu nýst undir byggingar eða önnur mannvirki. Þá þykir matsnefndinni sýnt að a.m.k. hluti spildunnar sjávarmegin við vegin er til komin vegna uppfyllingar sem eignarnemi sjálfur hefur framkvæmt.

Á það ber hins vegar að líta að verðmæti lands á höfuðborgarsvæðinu hefur stórlega hækkað á undanförnum árum. Telur nefndin þá hækkun hafa verið meiri en sem nemur almennum verðhækkunum í þjóðfélaginu. Af þessum sökum gefur það ekki endilega rétta mynd af verðmæti hins eignarnumda lands í máli þessu að framreikna fermetraverð í gömlum úrskurðum Matsnefndar eignarnámsbóta til verðlags dagsins í dag, þó þeir úrskurðir séu vegna eignarnáms á landi á sömu slóðum.

Með hliðsjón af framangreindu þykir matsnefndinni hæfilegar bætur fyrir hina eignarnumdu spildu vera kr. 150.000-. Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 80.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað og kr. 320.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar við Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnemi, Bessastaðahreppur, kt. 550269-6869, greiði eignarnámsþola, Sigurði Klemenzssyni, kt. 310826-3329, Búðaflöt, Bessastaðahreppi, kr. 150.000- í eignarnámsbætur og kr. 80.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað.

Þá skal eignarnemi greiða kr. 320.000- í ríkissjóð vegna kostnaðar við Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

____________________________

Helgi Jóhannesson

__________________________ ____________________________

Ragnar Ingimarsson Kristinn Gylfi Jónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum