Hoppa yfir valmynd
20. júní 2014 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. B-35/2014, úrskurður 20. júní 2014   

Mál nr. B-35/2014
Eiginnafn: Christa

Með bréfi, dags. 5. maí 2014, fóru umsækjendur fram á endurskoðun á niðurstöðu mannanafnanefndar frá 9. apríl 2014 í máli nr. 35/2014, þar sem hafnað var ósk um eiginnafnið Christa.

Í bréfinu kemur fram að þekkt séu nöfn hér á landi sem rituð eru með c eða ch. Mannanafanefnd tekur fram að þetta er rétt. Það breytir þó engu um að það er ekki í samræmi við íslenskar ritreglur að rita mannanöfn með bókstafnum c. Nöfn sem rituð eru með þeim bókstaf eru einvörðungu leyfð og færð á mannanafnaskrá samkvæmt lögum um mannanöfn ef ritháttur þeirra er hefðaður. Hvert einstakt nafn verður því að öðlast hefð.

Bréfinu fylgdi einnig yfirlit yfir einstaklinga sem bera nafnið Christa og skráðir eru eða hafa verið skráðir hér á landi. Eins og fram kemur í úrskurðinum frá 9. apríl 2014 byggði mannanafnanefnd á því að fjórar konur með nafninu Christa fullnægðu skilyrðum vinnulagsreglna sem stuðst er við þegar lagt er mat á hefð ritháttar mannanafna í skilningi 5. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996. Við það mat eru, sbr. 2. tölul. reglnanna, taldir þeir nafnberar sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi. Á grunni yfirlitsins, sem fylgdi bréfi málsaðila til mannanafnanefndar, lét nefndin framkvæma nýja könnun á því hverjir hafa borið umrætt nafn hér á landi. Leiddi sú rannsókn í ljós að tvær konur, sem báru nafnið Christa en eru nú látnar, höfðu öðlast íslenskt ríkisfang án umsóknar og hefðu því fallið undir hefðarreglurnar væru þær á lífi. Önnur þeirra var fædd árið 1924 en hin árið 1930.

Í c-lið 1. tölul. vinnulagsreglna mannanafnanefndar frá 2006, sem áður er vitnað til, kemur fram að nafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri. Vinnulagsreglur þessar eru mannanafnanefnd til viðmiðunar við mat á hefð nafna. Í því ljósi er rétt að líta til þess að sex einstaklingar sem fullnægja vinnulagsreglunum hafa borið eiginnafnið Christa og tveir þeirra, þótt nú séu látnir, væru að minnsta kosti 60 ára að aldri. Með hliðsjón af þessu telur mannanafnanefnd rétt að fella úr gildi fyrri úrskurð sinn í máli 35/2014 frá 9. apríl síðastliðnum. Er það gert með heimild í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Eiginnafnið Christa (kvk.) tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Christu, nafnið samræmist einnig íslensku málkerfi og ritháttur þess telst hefðaður í íslensku máli. Nafnið uppfyllir því ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Felldur er úr gildi úrskurður mannanafnanefndar frá 9. apríl 2014 í máli nr. 35/2014. Beiðni um eiginnafnið Christa (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum