Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2013 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 73/2013, úrskurður 29. nóvember 2013

Mál nr. 73/2013
Eiginnafn: Auður

Hinn 29. nóvember 2013 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 73/2013 en erindið barst nefndinni 16. október 2013.

Fyrir liggur beiðni um nafnið Auður sem eiginnafn karlmanns. Nafnið er ekki á mannanafnaskrá sem karlmannsnafn. Það er hins vegar á þeirri skrá sem kvenmannsnafn og er nokkuð algengt sem kvenmannsnafn hér á landi. Hefur því verið óskað afstöðu mannanafnanefndar um hvort nafnið fullnægi skilyrðum laga um mannanöfn nr. 45/1996 til að vera tekið á skrána.

Til þess að fallist sé á eiginnafn og það fært á mannanafnaskrá verður öllum skilyrðum 5. gr. laga um mannanöfn að vera fullnægt. Eiginnafnið Auður (kk.) fullnægir skilyrðum 1. mgr. 5. gr. um íslenska eignarfallsendingu, samræmi við íslenskt málkerfi og almennar ritreglur íslensks máls. Eignarfallsending eiginnafnsins Auður sem karlmannsnafns veldur ekki vandkvæðum enda samheitið auður iðulega notað í karlkyni í íslensku. Af sömu ástæðu verður nafninu ekki hafnað á grundvelli 3. mgr. 5. gr., um að eiginnafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Nafnorðið auður er þekkt í íslensku máli í karlkyni þótt það sé einnig þekkt sem eiginnafn kvenna. Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 er kveðið á um að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn og dreng skuli gefa karlmannsnafn. Eiginnafnið Auður er algengt kvenmannsnafn á Íslandi. Þess eru hins vegar einnig dæmi að eiginnafnið hafi verið notað sem eiginnafn karlmanna, þótt þau séu mun sjaldgæfari, sbr.  Auð á Auðsstöðum sem kemur bæði fyrir í Landnámabók og í Harðar sögu.

Með vísan til alls framangreinds fellst mannanafnanefnd á að eiginnafnið Auður sé fært á mannanafnaskrá sem karlmannsnafn. Sú skráning haggar ekki stöðu sama nafns sem kvenmannsnafns.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Auður (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum