Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2007 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 28. apríl 2007

FUNDARGERÐ

Ár 2007, laugardaginn 28. apríl, var haldinn fundur í mannanafnanefnd. Fundurinn fór fram að Neshaga 16, Reykjavík.  Mætt voru Ágústa Þorbergsdóttir, Baldur Sigurðsson og Kolbrún Linda Ísleifsdóttir. Neðangreind mál voru tekin fyrir:

 

1.         Mál nr.  9/2007                      Eiginnafn:        Emilí  (kvk.) 

Mál þetta, sem móttekið var 5. febrúar 2007, var tekið fyrir á fundum mannanafnanefndar 19. febrúar og 6. mars 2007 en afgreiðslu þess þá frestað til frekari skoðunar og gagnaöflunar. Í málinu var sótt um samþykki nefndarinnar fyrir eiginnafninu Emilí (kvk.) vegna dóttur úrskurðarbeiðanda [...]. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá var nafn stúlkunnar skráð í Þjóðskrá sem [...] að ósk foreldra hennar þann [...]. Af þeim sökum verður að telja að úrskurðarbeiðendur hafi fallið frá beiðni um samþykki fyrir eiginnafninu Emilí (kvk.) og er málið því fellt niður hjá mannanafnanefnd.

   

 

 

4.         Mál nr.  13/2007         Eiginnafn:        Valgard  (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Öll skilyrði 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:

 1.     Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu).

2.     Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.

3.     Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Þegar svo háttar að eiginnafn uppfyllir ekki þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1. og 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, þ.e. tekur ekki íslenska eignarfallsendingu og/eða telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, er unnt að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð. Hins vegar heimila mannanafnalög ekki að unnt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar ef nafnið brýtur í bág við íslenskt málkerfi, sbr. 2. málslið 1. mgr. 5. gr. sömu laga.

 

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast almennum ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum. Reglur þessar öðluðust gildi 1. desember 2006:

1.     Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.     Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.     Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.     Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.     Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.     Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.     Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.     Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningar-helgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá er einn Íslendingur (karl) skráður með eiginnafnið Valgard og er hann fæddur árið 1952. Því er ekki hefð fyrir þessum rithætti, sbr. ofangreindar vinnulagsreglur.

Eiginnafnið Valgard (kk.) er ritháttarmynd af íslensku nöfnunum Valgarður og Valgarð en þau nöfn eru bæði á mannanafnaskrá. Samkvæmt íslenskri hljóðþróun er eðlilegt að rita þessi nöfn ‘rð’ en rithátturinn ‘rd’ í þesssari stöðu brýtur í bág við íslenskt málkerfi. Eiginnafnið Valgard uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Berk (kk.) er hafnað.

 

 

5.         Mál nr.  14/2007         Eiginnafn:        Berk  (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Öll skilyrði 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi: 

1.     Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu).

2.     Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.

3.     Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

 

Þegar svo háttar að eiginnafn uppfyllir ekki þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1. og 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, þ.e. tekur ekki íslenska eignarfallsendingu og/eða telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, er unnt að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð. Hins vegar heimila mannanafnalög ekki að unnt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar ef nafnið brýtur í bág við íslenskt málkerfi, sbr. 2. málslið 1. mgr. 5. gr. sömu laga.

 

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast almennum ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum. Reglur þessar öðluðust gildi 1. desember 2006: 

1.     Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.   Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.   Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.    Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.   Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.   Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.     Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.     Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningar-helgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá er enginn Íslendingur skráður með eiginnafnið Berk og því er ekki hefð fyrir þessum rithætti, sbr. ofangreindar vinnnulagsreglur.

Eiginnafnið Berk er endingarlaust í nefnifalli. Orðið er eitt atkvæði og endar á –rk. Slík orð eru annað hvort kvenkyns eða hvorugkyns í íslensku, sbr. kverk (kvenkyn) og verk (hvorugkyn). Erlend orð, sem aðlöguð hafa verið íslensku máli, hafa fengið endinguna –ur í nefnifalli til samræmis við önnur orð af sömu gerð, sbr. klerkur, verkur, börkur og kjarkur. Í þolfalli eru þessi orð endingarlaus (klerk, verk, börk og kjark). Eiginnafnið Berkur væri því eðlileg aðlögun nafnsins Berk í íslensku, sbr. Bergur.

Varðandi þau tvö eiginnöfn sem umsækjandi vísar til í umsókn sinni, Bent og Berg, er það að segja að þau eru ekki í samræmi við íslenskt málkerfi af sömu ástæðum. Þau hafa hins vegar verið tekin inn á mannanafnaskrá á grund-velli hefðar, sbr. 5. gr. mannanafnalaga nr. 45/1996 og gildandi vinnulagsreglur mannanafnanefndar.

Eiginnafnið Berk (kk.) brýtur í bág við íslenskt málkerfi og getur ekki talist ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Eiginnafnið Berk uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Berk (kk.) er hafnað.

 

 

 

6.         Mál nr.  15/2007         Eiginnafn:        Thór  (kk.) 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður: 

Eiginnafnið Thór (kk.) tekur beygingu í eignarfalli, Thórs, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Nafnið beygist þannig í aukaföllum: Thór – Thór – Thór – Thórs.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Thór (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

8.         Mál nr.  17/2007         Millinafn:         Mýrmann

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Millinafnið Mýrmann er dregið af íslenskum orðstofnum, hefur ekki nefnifallsendingu og hefur hvorki unnið sér hefð sem eiginnafn kvenna né sem eiginnafn karla. Nafnið er ekki heldur ættarnafn í skilningi 7. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Millinafnið Mýrmann uppfyllir þannig ákvæði 6. gr. fyrrnefndra laga.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Mýrmann er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

9.         Mál nr.  18/2007         Eiginnafn:        Úna  (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Úna (kvk.) tekur beygingu í eignarfalli, Únu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Hins vegar telst eiginnafnið Úna ekki vera ritmynd eiginnafnsins Una.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Úna (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

 

 

 

10.       Mál nr.  19/2007         Eiginnafn:        Kristal  (kvk.)

                                                  Millinafn:         Kristal

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Í máli þessu, sem móttekið var 12. apríl 2007, er leitað samþykkis fyrir eiginnafninu Kristal (kvk.) á grundvelli tilkynningar um nafngjöf barns til Þjóðskrár þar sem foreldrar gáfu barninu eiginnöfnin [...]. Í umsókn foreldra til mannanafnanefndar er hins vegar sótt um samþykki fyrir millinafninu Kristal. Að höfðu samráði við foreldrana, fóru þau þess á leit, að verði umsókn þeirra um eiginnafnið Kristal (kvk.) hafnað, sæki þau um til vara að nafnið Kristal verði samþykkt sem millinafn. Málið er því afgreitt bæði sem umsókn um eiginnafn (kvk.) og sem umsókn um millinafn.

a)   Kristal sem eiginnafn (kvk.)

 Öll skilyrði 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:

1.     Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu).

2.     Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.

3.     Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

 

Þegar svo háttar að eiginnafn uppfyllir ekki þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1. og 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996, þ.e. tekur ekki íslenska eignarfallsendingu og/eða telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, er unnt að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð. Hins vegar heimila mannanafnalög ekki að unnt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar ef nafnið brýtur í bág við íslenskt málkerfi, sbr. 2. málslið 1. mgr. 5. gr. sömu laga.

Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast almennum ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:

1.   Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.   Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.   Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.    Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k.   60 ára aldri;

d.   Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.   Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.   Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.   Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningar-helgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá er enginn Íslendingur (karl eða kona) skráður með eiginnafnið Kristal (kvk.) og því er ekki hefð fyrir þessum rithætti, sbr. ofangreindar vinnulagsreglur.

Samkvæmt íslensku málkerfi er eiginnafnið Kristal sett saman úr Krist- og viðkeytinu –al. Erlend orð, af sömu gerð og kristal, hafa verið tekin upp í íslensku sem karlkynsorð, þar sem viðskeytið –al verður –all í nefnifalli, sbr. orðin kristall, mórall og skandall. Orðið kristall er á mannanafnaskrá sem karlmannsnafn, Kristall, og eru tveir karlar skráðir með það nafn í Þjóðskrá. Líkindin með þessum tveimur nöfnum, Kristall og Kristal, eru því svo afgerandi að ekki er unnt að samþykkja nafnið Kristal sem kvenmannsnafn, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996.

Eiginnafnið Kristal (kvk.) brýtur þannig í bág við íslenskt málkerfi og getur ekki talist ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Eiginnafnið Kristal uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það.

 

b) Kristal sem millinafn

Um millinöfn gilda ákvæði 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Þar segir m.a. að nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annað hvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, séu ekki heimil sem millinöfn. Í ákvæðinu segir einnig að gefa megi hvort heldur stúlku eða dreng sama millinafnið og því eru millinöfn í eðli sínu kynlaus.

 

Orðið kristal telst vera dregið af íslenskum orðstofni, það er endingarlaust í nefnifalli en beygist að öðru leyti eins og karlkynseiginnafnið Kristall, í ef. Kristals. Orðið kristal getur ekki talist ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls. Orðið kristall er á mannanafnaskrá sem karlmannsnafn, Kristall, og eru tveir karlar skráðir með það nafn í Þjóðskrá. Líkindin með þessum tveimur nöfnum, Kristall og Kristal, eru því svo afgerandi að ekki er unnt að samþykkja nafnið Kristal sem millinafn, sbr. 2. málslið 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996.

Millinafnið uppfyllir þar af leiðandi öll ákvæði 6. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og því er ekki mögulegt að fallast á það.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Kristal (kvk.) og millinafnið Kristal er hafnað.

 

 

 

11.       Mál nr.  20/2007         Eiginnafn:        Marikó  (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

Eiginnafnið Marikó (kvk.) tekur beygingu í eignarfalli, Marikóar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Ritháttur eiginnafnsins Marikó (kvk.) hefur verið nokkuð á reiki og hefur ritmyndin Maríkó m.a. verið samþykkt á mannanafnaskrá. Þar sem enginn er skráður með eiginnafnið (ritháttinn) Maríkó í Þjóðskrá, skal færa það nafn út af mannanafnaskrá. Að mati mannanafnanefndar ætti ritmyndin Marikó með ‘i’ að vera hin hlutlausa gerð nafnsins og þannig grunnmynd þess en aðrar gerðir ritmyndir af því.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Marikó (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

Eiginnafnið(rithátturinn) Maríkó (kvk.) skal fært út af mannanafnaskrá.

 

 

 

12.       Mál nr.  21/2007         Eiginnafn:        Rikki  (kk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður: 

Eiginnafnið Rikki (kk.) tekur beygingu í eignarfalli, Rikka, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Rikki (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.

  

 

 

13.       Mál nr.  22/2007         Eiginnafn:        Bernódía  (kvk.)

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður: 

Eiginnafnið Bernódía (kvk.) tekur beygingu í eignarfalli, Bernódíu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Bernódía (kvk.) er samþykkt en nafnið skal ekki fært á mannanafnaskrá fyrr en skráning þess hefur verið framkvæmd hjá Þjóðskrá.

 

 

 - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum